10.7.2009
Eru auðlindirnar okkar ekki sexí?
Um daginn var ég að ræða við mann sem er vel heima í fjölmiðlabransanum og hann sagði að það væri erfitt að gera auðlindamálin okkar sexí. Þetta þýðir einfaldlega að fjölmiðlar eiga erfitt með að fanga athygli fólks og áhuga á sumum málum. Þeirra á meðal er málið sem ég ætla að fjalla um - og mér finnst alveg rosalega sexí. Enda hef ég skrifað um það óteljandi pistla og kafað djúpt í þau mál. Þið ráðið hvort þið lesið áfram, en ég fullvissa ykkur um að mál af þessum toga skiptir okkur öll alveg gríðarlega miklu máli. Einmitt þess vegna geta þau ekki verið annað en sexí.
Áður en lengra er haldið tek ég fram að frásögnin sem hér fer á eftir er mín eigin túlkun á atburðum. Ég styðst við þær upplýsingar sem fram hafa komið í fjölmiðlum, ýmsar vefsíður, blogg og annað tiltækt efni. Ég tel mig hafa lært á reynslu undanfarinna mánaða og dreg miskunnarlaust ályktanir út frá þeirri reynslu og þeim heimildum sem ég hef og finn.
Við munum flest eftir REI-málinu frá haustinu 2007. Sjálfsagt dæsa margir bara við tilhugsunina því málið var svo stórt og flókið og mikið um það fjallað á sínum tíma að maður var kominn með upp í kok og botnaði orðið ekki neitt í neinu. En svo skýrðist málið betur þegar frá leið og mjög upplýsandi fréttaskýring birtist í Morgunblaðinu 4. nóvember 2007 sem ég hef birt tvisvar hér á blogginu, síðast hér. Í næstu færslu á eftir birti ég samanklippta fréttaumfjöllun um málið sem skýrir það enn betur.
Einhvern veginn á maður betra með að átta sig á málinu núna, eftir allt sem hefur gengið á. Persónur, leikendur og hlutverk þeirra í farsanum eru í stórum dráttum þannig: Spilltir stjórnmálamenn ætluðu að afhenda útrásardólgum orkuauðlindirnar okkar á silfurfati og allir ætluðu að græða feitt. Skítt með þjóðina og afkomendur okkar. Auðvitað er þetta einföldun, málið er flókið. Fólk verður að kynna sér það og draga eigin ályktanir.
Nú virðist nýtt REI-mál vera í uppsiglingu sem verður að stöðva í einum grænum. Fleira skiptir máli en Icesave, ESB og skuldaniðurfelling Björgólfsfeðga.
Þegar REI-málið var í bígerð var Geysir Green Energy stofnað og það keypti þriðjung í Hitaveitu Suðurnesja í júní 2007, en gríðarlega mikill jarðhiti er á Reykjanesskaganum. Til stóð hjá auðmönnunum að sameina GGE og REI en sá gjörningur varð aldrei að veruleika. Þeir ætluðu nefnilega að leggja undir sig auðlindirnar á öllu suðvesturhorninu, útrásarsnillingarnir.
Nú hefur Hitaveitu Suðurnesja verið skipt í HS Orku og HS Veitur. Í grófum dráttum má segja, að HS Orka sjái um orkuframleiðsluna og söluna en HS Veitur um dreifinguna og vatnið. Það er semsagt Orkan sem nýtir auðlindina og framleiðir en Veitan sér bara um að dreifa afurðinni, þ.e. rafmagninu og vatninu. Peningarnir - gróðinn - eru í framleiðslunni og sölunni. Þess vegna er verið að braska með HS Orku. Eignarhald HS Orku er nú svona:
Og hverjir eru að braska með auðlindina? Jú, bæjarstjórinn í Reykjanesbæ - sjálfstæðismaðurinn snoppufríði sem er búinn að koma bænum sínum í stórfelld fjárhagsvandræði - og Geysir Green Energy, fyrirtæki í óljósri einkaeigu hvers forstjóri getur ekki gefið upp fjárhagsstöðu fyrirtækisins (sjá fréttaviðtal hér að neðan) en hermt er að GGE sé í gjörgæslu bankanna og sé mun minna virði en forstjórinn vill vera láta (sjá grein hér). Forstjórinn segir eitt, endurskoðendur allt annað.
Eigendur GGE eru þrír: Atorka (41%), Glacier Renewable Energy Fund - í umsjón Íslandsbanka (40%) og Mannvit sem hét áður VGK (9%). Við höfum væntanlega öll lært í vetur að kanna hvað býr að baki svona upplýsingum. Á vefsíðu Atorku eru taldir upp 20 stærstu hluthafarnir miðað við 30. júní 2009:
Þarna eru m.a. talin upp þræltraust fyrirtæki eins og FL Group og Landsbankinn í Luxembourg, nú ríkisbankinn Nýi Glitnir (væntanlega Íslandsbanki eftir nýjustu breytingar) og Sameinaði lífeyrissjóðurinn sem mun hafa tapað töluverðum fjárhæðum á áhættufjárfestingum. Samkvæmt frétt í Viðskiptablaðinu frá 16. október sl. var Atorka afskráð úr Kauphöllinni og hafði verðmæti félagsins þá lækkað um 90% frá áramótum. Í fréttinni er rætt við Þorstein Vilhelmsson, sem yfirgaf Samherja fyrir nokkrum árum með nokkur hundruð milljónir upp á vasann. Féð var afrakstur sölu annarrar auðlindar landsmanna, fiskjarins í sjónum, sem Þorsteinn og félagar hans í Samherja höfðu fengið endurgjaldslaust eða -lítið þegar sú auðlind var einkavædd. Mér var sagt af fróðum að flest félög á ofangreindum hluthafalista Atorku væru að meira eða minna leyti í eigu Þorsteins.
Engar upplýsingar er að fá á vefsíðu Íslandsbanka um eigendur eða hluthafa í Glacier Renewable Energy Fund. Ef einhver getur veitt upplýsingar um þann sjóð væru þær vel þegnar.
DV var með umfjöllun um þetta mál sl. föstudag og þar er sagt að Finnur Ingólfsson sé meðal hluthafa Mannvits. DV fann semsagt Finn enda er blaðið er aftur með stórfróðlega umfjöllun um málið í dag og þar er sagt að S-hópurinn alræmdi fari með völd í Geysi Green þrátt fyrir minnihlutaeign.
Svo er komið inn í myndina kanadískt fyrirtæki, Magma Energy, sem sagt er að hafi áhuga á að kaupa hlut í HS Orku. Forstjóri Magma er jarðfræðingurinn Ross Beaty, sem auðgaðist gríðarlega á silfurnámum, m.a. í Suður Ameríku. Hann stofnaði fyrirtækið í byrjun árs 2008, svo það er ekki nema eins og hálfs árs. Engin reynsla komin á starfsemi þess og siðferði stjórnenda í umgengni við jarðhitaauðlindir. Hér má sjá umfjöllun Bloomberg um hlutafjárútboð Magma í júní, sem var það stærsta í Kanada í 13 mánuði.
Eins og gefur að skilja, og allir Íslendingar ættu að vera með á hreinu eftir uppljóstranir undanfarinna 9 mánaða, kaupir kanadískt fyrirtæki sig ekki inn í jarðorkufyrirtæki á Íslandi nema til þess að græða á því og það rækilega. Forsvarsmenn GGE og Reykjanesbæjar fagna ógurlega, því þá vantar aur í kassann til að bjarga eigin skinni.
Í nóvember sl. var stofnað nýtt ráðgjafafyrirtæki, Arctica Finance. Eins og sjá má á þessari frétt eru stofnendur þess fyrrverandi starfsmenn gamla Landsbankans. Traustvekjandi? Fyrirtækinu var falið að selja hlut Orkuveitu Reykjavíkur í HS Orku eins og sjá má t.d. hér. Engar hömlur - hvað sem það þýðir.
Gallinn er bara sá að verið er að braska með auðlindir þjóðarinnar og einkavæða þær. Það gildir einu hvort auðlindin sé formlega í umsjón einhvers sveitarfélags - auðlindirnar okkar eru og eiga ávallt að vera sameign þjóðarinnar og spilltir stjórnmálamenn og aðrir siðlausir gróðapungar hafa ekkert leyfi til að selja innlendum eða erlendum fjárglæframönnum afnot af henni margar kynslóðir fram í tímann.
Til allrar hamingju eru fjölmiðlar á verði... sumir og upp að vissu marki. Og sumum fjölmiðlamönnum finnst þessi mál nógu sexí til að fjalla um þau. Fremstir í flokki eru Þórður Snær Júlíusson á Mogganum, sem hefur staðið vaktina með sóma, Jóhann Hauksson á DV og Hallgrímur Indriðason, Guðfinnur Sigurvinsson og Björn Malmquist á RÚV. Ég hef safnað saman greinum um þetta mál úr DV, Mogganum, mbl.is og 24 stundum hér og klippt saman fréttaumfjöllun RÚV - auk einnar fréttar á Stöð 2. Bloggararnir Hannes Friðriksson og Agnar Kristján Þorsteinsson hafa líka fjallað um þessi mál af mikilli innsýn og þekkingu.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Náttúra og umhverfi, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 13:28 | Facebook
Athugasemdir
Já blessuð og sæl Lára Hanna og takk fyrir þetta porn.
Ma ma ma ma bara rennur út af stólnum við lesturinn, þvílíkt sem þetta æsir jafnvel meira heldur en æsseif.
Sem kanadískur ríkisborgari ( já með double entitity) rennur mér til rifja að sjá vaxandi áhuga á fjármagni héðan frá Kanada til Íslands tengdri orku. Reyndar var kanadíska ríkið að samþykkja 10 milljarða dollara lán til AGS þrátt fyrir að það er vissulega samdráttur hér þó ýkjur væri að kalla það beinlínis kreppu, en hér ganga hlutirnir fyrir sig eftir "gegnsæjum ströngum reglum, sem kannski virka íþyngjandi fyrir áhættusækna. Auðvitað þarf Ísland á fjármagni að halda, heiðarlegu fjármagni, með ábata fyrir báða aðila, ekki bara annan eða einn.
Einhver órói er í manni, líklega þessi bannsetta tortryggni sem á eftir að vera helsi okkar lengur en kreppan varir, og er bara eðlilegt eftir þessi stórsvik sem framin hafa verið gagnvart þjóðinni af aðilum á æðstu virðingarstigum. Tortryggni er allavega betri heldur en sú taumlausa auðtrú sem setti Ísland á hausinn.
Punkturinn er, við þurfum að beita hámarks varfærnissjónarmiðum gagnvart allt og öllum, sem sýna áhuga á að fjárfesta á Íslandi, ekki síst hvort þeir séu leppaðir upp af "usual suspect" og síðast en ekki síst hvort díllinn verði í almenningsþágu, eða einkaþágu eins og nýji sælgætisverksmiðjugosinn var að reyna að mylja undir sig um árið. Tel reyndar að "usual suspect" eigi amk að vera bannfaerðir frá öllum nýjum viðskiptadílum þar til rannsókn á hruninu er lokið.
Erlendar fjárfestingar á Íslandi sem mæta þessum ítrustu kröfum um heilindi, verða fyrsta skrefið af mörgum í átt til betra samfélags og þjóðfélags.
úúúúps og nú rann ég út af stólnum!
Jenný Stefanía Jensdóttir, 10.7.2009 kl. 05:12
Ja hérna og maður heldur alltaf að botninum í drullupyttinum sé náð.Nei við erum rétt við yfirborðið og sígum mjög hægt niður.
Ragna Birgisdóttir (IP-tala skráð) 10.7.2009 kl. 07:25
Orkuna og vatnið megum við aldrei undir nokkrum kringumstæðum selja frá okkur. Takk fyrir þetta Lára Hanna. Þú átt engan þinn líka.
Kveðja að norðan.
Arinbjörn Kúld, 10.7.2009 kl. 11:34
Fréttir verða að vera sexý og í fjármálaheiminum var talað um greddu- að það væri eða vantaði greddu í ákveðnar framkvæmdir eða ákveðna einstaklinga. Hvaðan skyldi þessi orðræða vera sprottin? Ég sé ekki alveg fyrir mér konurnar í fréttaflutningnum og konurnar í bönkunum ræða saman á þessum nótum, en hver veit......... En það er ekkert sexý við gjaldþrot og það er hið algera getuleysi. Kúlurnar klipptar undan kúlulánsþegunum = ekki sexý. Greddan var höfð til sýnis í svörtu lúxusjeppunum með rjómagula áklæðinu (sem er skítsælla en nokkurn grunar, en það gerir ekkert til því aðrir munu sjá um að þrífa það.) Sumir segja stóra flotta bíla vera framlengingu á kynorku karlmannsins (eða kvenmannsins) sem er undir stýri, en eins og segir í ensku slagorði um bílstjóra slíkra ökurtækja,"you do not only have a small dick, you also have a small brain." Tek fram að þetta er ekki reðuröfund af minni hálfu, hef ekki áhuga á slíku eða reðurframlengingu úr málmi, hef miklu meiri ágirnd á mannviti og manngæsku og stefni að því að auka við höfuðstól hvoru tveggja fram að dánardægri.
En talandi um orkumálin og sölu orkufyrirtækja þá hefur þú Lára Hanna enn eina ferðina bent á athyglisverða hluti, óeðlileg tengsl og ótraustvekjandi hluthafa. Fyrirtækið Mannvit hefur verið samstarfsaðili Landsvirkjunar og kom einnig að Rei-málinu fræga. Þessir menn hætta ekki við stórgróðann sem þeir sjá í augsýn, þeir bíða bara færis eins og hýenur.........
Harpa Björnsdóttir (IP-tala skráð) 10.7.2009 kl. 13:14
Fínt klám hjá þér. Hver þarf leðurklæddan gaur með geirvörtuklemmur og munnkefli þegar svona yfirdrottnarar leynast í hverju skuði?
Annars hef ég ætlað að segja þér lengi að þú ert minn uppáhalds fjölmiðlamaður og ég efast ekki um að þitt nafn og bloggslóð verður skráð í sögubækur. Takk fyrir allt sem þú hefur lagt á þig til að upplýsa okkur, það er ómetanlegt að fá kjarna málsins á aðgengilegu formi og á mannamáli.
Eva Hauksdóttir (IP-tala skráð) 10.7.2009 kl. 13:51
Lára Hanna, þú ert samviska þjóðarinnar. Takk og aftur takk.
Iris Erlingsdottir (IP-tala skráð) 10.7.2009 kl. 16:31
Íslenska hrunið þykir nú samt bara svona frekar sexí á alþjóðlegan mælikvarða.
Auðlindamál; Impregilo-Ítalska "Fjölskyldan"=Sexí (svo eitthvað sé nefnt).
Hildur Helga Sigurðardóttir, 10.7.2009 kl. 21:32
sæl Lára, þú átt þakkir fyrir þessa samtekt, þetta ætti að vera skyldulesning fyrir okkur almenning til að sjá hvernig plottið er sem er í gangi með þjóðareignir
kær kveðja
Tryggvi
Tryggvi Bjarnason (IP-tala skráð) 12.7.2009 kl. 10:23
Þetta verður meira og meira yfirþyrmandi með hverjum deginum og hverjum steininum sem snúið er við. Þessir fjárglæfra- og stjórnmálabófar sem spældu þjóðareggið ættu ekki einu sinni að fá að meðhöndla Matadorpeninga en eru enn á fullu að makka saman um rústir landsins. Takk fyrir þessa samantekt og dugnaðinn við að taka þetta saman.
Ævar Rafn Kjartansson, 13.7.2009 kl. 13:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.