VARÚÐ - Nýtt REI-mál í uppsiglingu!

Öðrum pistlinum mínum var útvarpað í gærmorgun á Morgunvaktinni á Rás 2. Sá fyrsti er hér. Aftur kom athugasemd frá tæknimanni eftir prufurennsli: "Þú ert ekki að flytja þetta í fyrsta sinn, er það?" Nei, ég hafði rennt yfir þetta heima með vinkonu mína í símanum og skeiðklukku til að tímamæla. Var innan tímamarka í fyrstu tilraun og ánægð með það. Tæknimanninum fannst flutningurinn leikrænn, kannski af því mér er mikið niðri fyrir.

Morgunvaktin á Rás 2

Kjarni pistilsins er einkavæðing og útsala orkuauðlindanna okkar. Spilltir stjórnmálamenn að reyna að redda eigin klúðri og þeir halda áfram að hygla sér og sínum. Útrásarauðjöfrar eru enn á ferðinni - í dulargervi að því er virðist. Ég er búin að skrifa nokkra pistla undanfarið um auðlindamálin, virkjanirnar og náttúruna, auk fjölmargra pistla 2007 og 2008. Við verðum að vera vel vakandi og standa vörð um aleigu okkar, náttúruna og auðlindir hennar. En hér er pistillinn - hljóðskrána hengi ég neðst í færsluna fyrir þá sem vilja hlusta líka:

*****************************

Ágætu hlustendur...

The best way to rob a bank is to own one - William K. BlackÉg ætla ekki að tala um hin stórfelldu, meðvituðu og skipulögðu bankarán sem framin voru á Íslandi. Bankaránin, sem framin voru innan frá af eigendum og stjórnendum bankanna með vitund, vilja og jafnvel aðstoð handónýtra embættismanna og spilltra stjórnmálamanna. Bankarán, sem við - almenningur og skattgreiðendur á Íslandi - þurfum nú að bera skaðann af, meðal annars í formi hærri skatta, verðhækkana og skertrar þjónustu.

Bankaránin, sem ég ætla ekki að tala um, eru líkast til einu bankarán mannkynssögunnar þar sem vitað er hverjir bankaræningjarnir eru, en þeim leyft að lifa í friði og vellystingum praktuglega fyrir ránsfenginn, án þess að hróflað sé við þeim eða reynt að gera téðan ránsfeng upptækan. Enda líklega löngu búið að koma honum í öruggt skjól. Til þess hafa ræningjarnir haft nægan tíma.

Ég ætla heldur ekki að tala um öll hin ránin sem framin hafa verið undanfarin ár. Til dæmis rán, þar sem gráðugir fjárhættuspilarar keyptu gamalgróin fyrirtæki - sum með digrum sjóðum. Fjárhættuspilararnir ryksuguðu úr þeim hvern eyri til að leika sér með á alþjóðlegum testosterón-mörkuðum þar sem keppnin um hver átti dýrustu einkaþotuna, snekkjuna eða glæsihöllina hljóp með menn í gönur. Og enn borgum við brúsann, íslenskur almenningur.

Ég ætla ekki að minnast á minni ránin, sem eru þó ekki síður alvarleg. Ránin, þar sem fólk svindlar á náunganum - til dæmis með því að svíkja undan skatti eða þiggja atvinnuleysisbætur þrátt fyrir að vera í fullri vinnu... á svörtu. Á Íslandi hefur alltaf þótt svolítið  flott að svíkja undan skatti eða spila á kerfið - sjálfum sér til framdráttar. Sá sem dáist að slíkum svikum áttar sig líklega sjaldnast á því, að svikarinn er um leið að leggja þyngri byrðar á hann, náungann. Heiðarlega manninn sem er kannski svo heppinn - eða óheppinn, það fer eftir hugarfari og siðferði - að geta ekki svikið undan skatti eða spilað á kerfið sjálfur. Fólk verður að átta sig á, að við erum ríkið. Sá sem stelur af ríkinu stelur af okkur.Útrásarauðmenn og bæjarstjórinn

Nei, ég ætla að tala um annars konar rán og engu skárra. Rán á ómetanlegri náttúru okkar og auðlindum, hvort sem er í formi jarðhita, fallvatna eða hreina og tæra vatnsins okkar. Auðlindirnar eru aleiga okkar Íslendinga og við verðum að standa vörð um þær. Okkur ber skylda til að varðveita aleiguna fyrir komandi kynslóðir.

Á Suðurnesjum stendur nú bæjarstjóri nokkur fyrir einkavæðingu auðlinda og sölu á þeim til innlendra og erlendra gróðapunga. Hann er búinn að klúðra fjármálum sveitarfélagsins, vantar pening og þarf að redda sér fyrir kosningarnar á næsta ári. Það hvarflar ekki að mér að kanadíski jarðfræðingurinn, sem auðgaðist gríðarlega á silfurnámum, meðal annars í Suður-Ameríku, ætli að fjárfesta í jarðorkufyrirtæki á Íslandi sér til ánægju og yndisauka. Ó, nei, maðurinn ætlar að græða á auðlindinni okkar og stinga gróðanum í eigin vasa. Og hinir kaupendurnir líka.

Nýtt REI-mál virðist vera í uppsiglingu á Suðurnesjum. Spilltir stjórnmálamenn og aðrir gráðugir siðleysingjar ætla að selja auðlindina okkar í hendur manna, sem hugsa um það eitt að græða peninga - og við borgum brúsann. Erum við til í það - enn og aftur?

Íslendingar verða að ákveða sig. Viljum við eiga, nýta og njóta arðsins af auðlindum okkar sjálf - eða viljum við láta innlenda eða erlenda gróðapunga og fjárglæframenn arðræna okkur?

Okkar er valið.

***************************

Hér er svo að lokum úrklippa úr 24 stundum frá 12. október 2007 - til umhugsunar.

Útrásin er áróður - 24 stundir - 12. október 2007


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Af hverju er þjóðin ekki búin að henda þessum glæpamönnum fyrir björg fyrir löngu?

TH (IP-tala skráð) 11.7.2009 kl. 14:25

2 identicon

Ólafur Ragnar forseti og Össur ráðherra hafa verið helstu klappstýrur orkuútrásarinnar svokölluðu. Skil ekki af hverju þessir menn eru ennþá í embættum sínum.

Guðrún (IP-tala skráð) 11.7.2009 kl. 15:41

3 identicon

Kærar þakkir Lára Hanna fyrir að halda vöku þinni. Sala auðlinda Íslendinga í hendur erlendra fjárfesta er glæpur.

 Geta Íslendingar virkilega hugsað sér að greiða útlendingum stórar fjárhæðir á hverjum mánuði fyrir að nýta vatnið sem bullar undir fótum þeirra?

DoraB (IP-tala skráð) 11.7.2009 kl. 15:53

4 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

 flott, as usual!

Brjánn Guðjónsson, 11.7.2009 kl. 15:56

5 Smámynd: Árni Gunnarsson

Tvö brýnustu verkefni þessarar þjóðar eru:

1. Stjórnlagaþing þar sem farið verður vel yfir þær veilur í stjórnsýslu okkar sem bæta þarf úr með nýrri stjórnarskrá.

2. Kærunefnd vegna stjórnsýsluglapa ásamt Landsdómi sem skipað verður í án afskipta Alþingis, en samkvæmt núgildandi lögum yrði að fást staðfestur af Alþingi.

Öllum ætti að vera ljóst að hvorki hið pólitískt skipaða Alþingi né stjórnarskráin í núverandi mynd virkar eins og til er ætlast. Og það að fela Alþingi að skipa stjórnarskrárnefnd hreinlega virkar ekki í okkar spillta samfélagi. Kerfið hefur alltaf sjálfvirkar varnir til að setja í gang ef það finnur sér ógnað og spillt embættismannakerfi er óhjálkvæmilegur förunautur spilltrar stjórnmálaforystu.

Þessa vinnu þurfa samtök fólksins að vinna endurgjaldslaust og knýja síðan kröfurnar gegnum Alþingi með hótunum um ofbeldi götunnar ef ekki fást undirtektir og vilji reynist ekki til að efla lýðræðið.

Ég er í hópi þeirra sem trúðu því að nýjir tímar væru í námd eftir að okkur tókst með hörðum og þrotlausum mótmælum að hrekja frjálshyggjustjórnina frá völdum.

Sú trú hefur slokknað hjá okkur flestum eftir því sem ég best fæ séð.

Ég set þetta hér fram í fullri alvöru og bið ykkur að taka þessar tillögur til gaumgæfilegrar athugunar.

Árni Gunnarsson, 11.7.2009 kl. 17:08

6 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Árni Sigfússon ætti ekki að sitja degi lengur sem bæjarstjóri á Suðurnesjum. Hann hefur klúðrað nóg.

Úrsúla Jünemann, 11.7.2009 kl. 22:43

7 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Veistu það Lára Hanna, ég er búin að missa trúna á íslensk stjórnvöld, íslenska embættismenn og íslenska dómara.  Spillingin er svo gríðarleg og svo víða í þjóðfélaginu að ekkert annað en algjör uppgjöf hjá fólkinu er möguleiki í dag.  ÉG er orðin svo andlega þreytt á þessu öllu. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 12.7.2009 kl. 03:18

8 Smámynd: Margrét Sigurðardóttir

Ef sama ríkisvaldið ætlar að semja í aðildarviðræðum um ESB og færir okkur Icesave-samningana er ekki við góðu að búast.
Þetta sama ríkisvald og hefur ekki tekist að vekja traust almennings varðandi rannsóknir á bankahruni, ætlar ekki að frysta eignir bankaræningjanna né koma böndum á þá.
Sama ríkisvaldið er að afhenda auðmönnum skuldlausar eignir í gegnum skilanefndir bankanna.
Af hverju eigum við að treysta þeim?

Margrét Sigurðardóttir, 12.7.2009 kl. 08:33

9 Smámynd: Arinbjörn Kúld

ég tek undir orð Jónu Kolbrúnar en velti því mikið fyrir mér hvernig við getum stöðvað sölu auðlinda okkar? Byltingu?

Kveðja að norðan.

Arinbjörn Kúld, 12.7.2009 kl. 10:25

10 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Takk fyrir þetta innlegg í þetta Lára Hanna, okkur ber að vera á varðbergi ganvart þessu.

Gallinn við máflutning þinn er samt sá að hann hefur yfirbragð nornaveiða. það er als ekki víst að allar nornirnar séu vondar. Þú verður að rökstyðja með hvaða hætti Árni Sigfússon muni svíkja út yfiráð yfir náttúruauðlyndum í hendur Magna. Ég hef ekki lagst mikið yfir þetta en þarna er eftir því sem ég fæ best séð bara verið að gera hefðbundinn kaupsamning með afmörkuðum heimildum til orkuvinnslu. Er það rangt ályktað hjá mér?

Eins og ég skil málflutning þinn í heild,  þá er miklu einfaldari og "farsælli" lausn að banna bara allar erlendar fjárfestingar á íslandi í sað þess að vera að vesenast svona í stökum málum.

Guðmundur Jónsson, 12.7.2009 kl. 11:19

11 identicon

Svo er fólk ad vaela ad ESB muni taka allar audlindirnar af thjódini ev ISL gengur í ESB, nei nei betra ad selja alt til raeningjana sem settu landid á hausinn. SORGLEGT

Hvad aettli thad kosti i hita og rafmagni á mánudi thegar thessir menn er komnir med einokun á  marknadum....

Jóhannes (IP-tala skráð) 12.7.2009 kl. 18:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband