5.8.2009
Heimildamyndir og hrollvekjur
Ég hef aldrei verið hrifin af hrollvekjum. Horfi ekki á þær. Mér finnst vont að fyllast viðbjóði og láta hræða mig. En um þessar mundir er lífið sjálft ein allsherjar hrollvekja og engin leið að komast hjá því að horfa. Stundum er eins og hroðinn skvettist yfir okkur í gusum og ein slík er í gangi núna. Kaupþingsránið og lögbannið á sannleikann, Landsbanka- og Björgólfsmál, Icesave og margt, margt fleira. Listinn er óralangur. Bankamenn og aðrir auðjöfrar halda nú varnarræður í gríð og erg - Karl Werners, Sigurður Einars og Bjarni Ben. Enn aðrir hóta kærum og málaferlum. Væntanlega hafa þeir allir hag almennings og heimilanna í huga alveg eins og Árni Páll félagsmála - eða hvað? Þessum mönnum finnst þeir ekki hafa gert neitt rangt og eru bara að verja sína hagsmuni. Mér verður hugsað til siðlausu sýkópatísku snákanna í jakkafötunum með testosteróneitrunina.
Í gær kom í ljós að Bretar eru að rannsaka íslensku bankana - starfsemi þeirra í Bretlandi - eins og sjá má hér. Á mbl.is sá ég að Sérstakur saksóknari hefur ekki heyrt frá SFO og ég álykta sem svo að hann hafi heldur ekki haft samband við þá. Eva Joly skrifaði magnaða grein sem birtist í fjórum löndum á jafnmörgum tungumálum á laugardaginn. Indefence-hópurinn auglýsir nú eftir fólki til að skrifa um, tala og útskýra málstað Íslands erlendis - kannski í og með af því upplýsingafulltrúi Forsætisráðuneytisins, sem ráðinn var þangað af og í tíð Geirs Haarde, sér sér ekki fært að gera það og fylgja grein Evu Joly eftir.
Mitt í storminum eru skrifaðar bækur og gerðar heimildamyndir um þessa atburði alla. Nokkrar bækur eru komnar út og þessa dagana er ég að lesa Hvítu bókina hans Einars Más. Einar Már er galdrakarl. Honum tekst að skrifa þannig um atburði vetrarins að unun er að lesa - eða þannig. Hvernig honum tekst þetta er ofar mínum skilningi - en mikið svakalega er þetta góð bók.
Ég hef fregnað af mörgum heimildamyndum sem eru í vinnslu, bæði innlendum og erlendum. Hrunið er upplagt efni í hrollvekjur. Svo vill til að ég tengist svolítið einni þeirra sem minnst var á í DV fyrir tæpum mánuði. Aðalsprautan í þeirri mynd er Gunnar Sigurðsson, leikstjóri m.m., sem varð landsþekktur þegar hann stjórnaði Borgarafundunum í vetur. Þar sem ég kem svolítið nálægt vinnslu þessarar myndar hef ég undir höndum nokkur viðtöl sem Gunnar hefur tekið við mann og annan. Meðal viðmælenda hans eru Björgólfur Thor Björgólfsson, Jón Baldvin Hannibalsson fyrrverandi ráðherra, Sigrún Davíðsdóttir rannsóknarblaðamaður, Jón Daníelsson hagfræðingur í London og síðast en ekki síst Austin Mitchell, þingmaður breska Verkamannaflokksins.
Austin Mitchell hefur verið á þingi í 32 ár, eða frá árinu 1977. Hann lýsir skemmtilega á heimasíðu sinni hvernig hann og Verkamannaflokkurinn hans hafa fjarlægst hvor annan, og á þá væntanlega við frjálshyggjuvæðingu flokksins í tíð Tonys Blair. Gunnar hefur þann hæfileika að fá fólk til að tala tæpitungulaust og viðtalið við Mitchell ber þess merki, enda lætur hann ýmislegt flakka. Ég klippti saman nokkur brot úr viðtalinu og birti hér að neðan.
Ég hef oft minnst á nauðsyn þess að tala máli Íslendinga erlendis og málflutningur Mitchells ber þess merki að hann þekkir til aðstæðna. Það er meira en hægt er að segja um allan almenning í þeim löndum sem við er að semja - og reyndar víðar. Nú er lífsnauðsynlegt að spýta í lófana og hefja öfluga kynningu á málstað og málefnum almennings á Íslandi og þeirri stöðu sem við stöndum frammi fyrir. Við eigum greinilega hauk í horni þar sem Austin Mitchell er - en ég efast stórlega um að Kristján Kristjánsson valdi verkefninu. Eigum við ekki nóg af góðu fólki?
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Kvikmyndir, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 17:22 | Facebook
Athugasemdir
Lára Hann, enn og aftur kemur þú með klassa pistil, alveg ótrúegt hvað þú ert búin að vera aktív í þessu og leggja mikla vinnu á þig. Þú ættir svo sannarlega að vera á fullum launum frá fólkinu í landinu, því þú ert að gera ótrúlega mikið gagn, takk fyrir það.
Egill Helga birti pistil frá manni sem sagðist hafa það eftir áreiðanlegum heimildum að mesti skíturinn væri í lánabók Landsbankans, en þar væru stjórnmálamennirnir sem talað var um í vetur að væru á kafi í þessu svindli öllu. Leiðirnar liggja inn í Sjálfstæðisflokkinn og að skjaldborg hafi verið lögð utan um allt sem tengist Landsbankanum til að verja þessa menn.
En það sem mig langar til að segja um þetta má er að ég skil ekki hvernig fólk getur fengið sig til að kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Enn og einu sinni sýnir Bjarni Ben hvaðan hann kemur. Nú fer hann á kostum við að skammast út af því að almenningur hafi fengið að sjá hvernig lánabækur KB banka líta út. Það er alveg með þvílíkum ólíkindum að venjulegt fólk skuli leggja lag sitt við svona flokk sem hefur hugmyndafræði sem beinlínis gengur gegn hagsmunum almennings fyrir sérhagsmuni. Bjarni getur ekki leynt gremju sinni yfir því að almenningur hefur komist á snoður um það hvernig þetta hyski hagar sér, hann tekur undir með Sigurði Einarssyni sbr. Fréttablaðið í dag. Þarna kemur þessi auðmaður sem á föður sem á 6-8 hundruð miljóna króna sumarbústað á Flórída og emjar undan því að almenningur hafi fengið að sjá hvernig auðvalds elítan hagar sér á bak við tjöldin í íslensku samfélagi. Smellið á krækjuna sem Lára Hanna setur fyrir formann Sjálfstæðisflokksins og öðlist sýn á þann hugsunargang sem einkennir elítu íslands, svo kjósið þið þetta sum ykkar, þið hljótið að vera stolt af formanninum? það verður ábyggilega ekki langt að bíða þangað til Sigmundur Davíð birtist og fer að hamast gegn því að þessi mál verði opinberuð, kæmi manni ekki á óvart. Enn og aftur, ég get ekki með neinu móti skilið það hvað venjulegt fólk getur haldið sig eiga sameiginlegt með þessum blessaða Sjálfstæðisflokki, hugsunargangurinn er skýr, lesið og fræðist, sjáið hvað formaður Sjálfstæðisflokksins hefur að segja um þessi mál og hvað hann er langt, langt frá almenningi í þessu máli. Hverja er hann að verja, kannski sjálfan sig og sína, alla vega stendur hann ekki með almenningi?
Þið sem verjið þetta spillingarbandalag, skulið ekki koma með eitthvað bull shit um að verið sé að brjóta lög, því það er hægt að deila um það hverjir séu brotlegir í þessu máli.
Íslendingar, við verðum að rísa upp gegn þessu bandalagi klíkuskapar og sérhagsmuna. Það vita allir hvar upptökin eiga heima, það vita allir hvaða flokkur það er sem er búinn að gegnum sýra samfélagið með sjúkdómi sínum, en engin segir neitt og ég kem fram undir dulnefni af ótta við að skapa mér og mínum óvild í þessu sjúka klíku-samfélagi. Viljum við Íslendingar hafa þetta svona, eigum við að sætta okkur við það að það séu tvær stéttir í samfélaginu, önnur sem er með framkvæmdavaldið, löggjafarvaldið og hálft dómsvaldið í höndum sér og getur lifað í refsileysi og hagað sér eins og það eigi landið? Viljum við hafa þetta svona, viljið þið sem eruð að verja spillingarbandalagið hafa þetta svona? Lengi vel var það ein fjölskylda sem réði landinu, nú er það klíkubandalag sem myndaðist út frá þessari fjölskyldu með erfðaprinsinn í forgrunni. Þvílíkt og annað eins bananalýðveldi. Ég er sannfærður að ef vel bærir erlendir aðilar myndu skoða sögu okkar kæmust þeir að því að hér ríkti eins konar einræði, einræði spilltra klíkubræðra.Valsól (IP-tala skráð) 5.8.2009 kl. 15:33
Væri ekki eðall að Kompásmenn og Gunnar Sigurðsson myndu vinna saman??
Það væri þarfara fyrir þjóðfélagið heldur en Loftvarna bullið. Og eitthvað hlýtur að vera til afgangs hjá Ríkisfjölmiðlinum með nýja nefskattinn. Eftir allan niðurskurðinn þar.
Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 5.8.2009 kl. 16:02
takk fyrir þennan frábæra pistil Lára. Ég er sammála þér í því að Gunnar hefur sérstaka hæfileika til að fá fólk til að tala :)
Óskar Þorkelsson, 5.8.2009 kl. 16:04
Fínn pistill Lára Hanna, eins og svo oft áður. Eitt sem ég skil þó ekki af hverju þú blandar Árna Páli félagsmála í hóp með Sigurði Einarssyni, Karli Wernerssyni og Bjarna Ben?
Ingibjörg Hinriksdóttir, 5.8.2009 kl. 20:44
Ingibjörg... ég set þá ekki saman í hóp nema að því leyti, að mér finnst Árna Páli ekki meira umhugað um fólkið og heimilin í landinu en þeim hinum. Ég stend í þeirri trú að Árni Páll sé í vitlausum flokki, þótt færa megi rök fyrir því að flokkurinn hans sé úlfur í sauðargæru og henti honum - en það er þó ekki sanngjarnt gagnvart þeim sem þar eru af hugsjón og í góðri trú. Smelltu á slóðina sem ég tengdi nafninu hans og hlustaðu á hann.
Mér er mjög minnisstætt t.d. þegar Árni Páll var spurður út í landflótta ungs fólks í vor, en þá fluttist að meðaltali ein fjölskylda á dag úr landi. Árni Páll hafði nú ekki miklar áhyggjur af því. Ungt fólk hefði bara gott af því að búa erlendis í nokkur ár - og svo gæti það komið heim þegar hagur Strympu færi að vænkast. Ég hafði einhvern veginn á tilfinningunni að hann misskildi málið allsvakalega og þá væntanlega hlutverk sitt sem félagsmálaráðherra.
Lára Hanna Einarsdóttir, 5.8.2009 kl. 22:31
Hérna verðum við þá bara að vera ósammála Lára Hanna. Ég get ekki séð á þessu viðtali við Árna Pál að það sé hægt að segja að honum sé ekki umhugað um fólkið og heimilin í landinu.
Ég geri mér ekki alveg grein fyrir því í hvaða flokki þér finnst hann eiga að vera, en við erum í sama flokki og ég er alveg sammála honum um það að almenn niðurfelling skulda komi ekki til greina. Ríkisstjórnin hefur verið að vinna að því að bankarnir og aðrir veiti þeim sem illa eru á vegi staddir skuldaaðlögun. Þar hef ég sagt að bankarnir eigi að sinna hverjum og einum á þeirra grundvelli, rétt eins og bankarnir veittu hverjum og einum lán á grundvelli þess tíma. Það má vera að það verði til þess að einhverjar skuldir verði niðurfelldar en það á að mínu mati ekki að vera almenna reglan.
Hvað varðar landflóttann þá tek ég undir með mörgum um að það sé okkar raunverulega vandamál, vandamál sem ekki leysist af sjálfu sér og mun klárlega bitna á okkar kynslóð, miðaldra fólkinu. Ef Árni Páll hefur haft þetta á orði í vor þá er ég nú klárlega ekki sátt við það og vona sannarlega að hann horfi öðrum augum á þetta vandamál í dag.
Ingibjörg Hinriksdóttir, 5.8.2009 kl. 22:52
Við skulum bara vera sammála um að vera ósammála um Árna Pál, Ingibjörg. Það er í góðu lagi.
En hvað finnst þér um viðtalsbrotin við Austin Mitchell? Enginn hefur tjáð sig um þau.
Lára Hanna Einarsdóttir, 5.8.2009 kl. 23:17
Ég er bara sammála Láru Hönnu í þessu máli, þetta er reyndar minniháttar atriði í pistlinum, en engu að síður réttmæt gagnrýni. Mér finnst og hefur líka fundist að Árni Páll væri í vitlausum flokki, þetta er almenn umræða og á hvers manns vörum. Mig hryllti t.d. við þegar ég frétti fyrst að úlfurinn væri kominn í félagsmálaráðuneytið. Ég tek það fram að ég er Samfylkingarmaður, en svona finnst mér þetta bara vera. Hans fyrsta djobb í ráðuneytinu var að lækka laun á öryrkja og ellilífeyrisþega. Og af öllu þá valdi hann að skerða aldurstengdar örorkubætur, þ.e. bætur þeirra sem hafa orðið öryrkjar ungir og hafa ekki haft tækifæri á að afla sér réttinda í lífeyrissjóði. Þetta er tekjulægsti hópur öryrkja! Ætli hann sofi vel á næturnar? Því lallar hann sér ekki bara yfir í Sjálfstæðisflokkinn þar væri hann innan um fullt af mönnum sem samþykkja svona aðgerðir? Ég veit að Pétur Blöndal hefur orðið himinlifandi við þessar aðgerðir og sömuleiðis Tryggvi Þór, sem skrifaði skýrsluna um öryrkja eftir pöntun frá ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, en þar var gefið skotleyfi á þennan hóp Íslendinga í kjölfar öryrkjadómsins.
Valsól (IP-tala skráð) 5.8.2009 kl. 23:29
Austin Mitchell, ég man eftir þessu nafni. Hann talaði máli Kárahnjúkavirkjunar þegar Sue Doughty lagði fram þessa þingsályktunartillögu. Hann er sér hver "Íslandsvinurinn".
Pétur Þorleifsson , 6.8.2009 kl. 06:54
Viðtalið við Austin Mitchell er allra athygli vert og vissulega stingur hann á ýmsum kýlum. Ég spyr mig hins vegar hversu djúpt meining hans nær?
Svo verð ég að viðurkenna að mér varð starsýnt á klukkuna stóru í bakgrunninum sem hélt áfram að vera tíu mínútur í tvö, sama hversu oft þú klipptir inní viðtalið, og ég hugsaði um hvort það ætti að vera einhver meining á bak við það. Er okkar tími liðinn eða er hans tíma lokið? ;-)
Ingibjörg Hinriksdóttir, 6.8.2009 kl. 08:53
það vantaði kannski batterí í klukkuna Ingibjörg ;)
Óskar Þorkelsson, 6.8.2009 kl. 09:35
Takk Lára Hanna enn og aftur. Sammála þér með Árna Pál, þekki það á eigin skinni að vera undir hans niðurskurði ásamt þúsundum annarra. Hann á að vera í Sjálfgræðgisflokknum, þar er lenska að byrja á þeim sem minnst hafa.
Rut Sumarliðadóttir, 6.8.2009 kl. 10:23
Frábær blogg hjá þér Lára. Ég fann fyrir tilviljun bloggin hennar Írisar Erlings á Huffington-post. Þar er að finna fjölda greina sem útskýra fyrir útlendingum á einfaldan hátt ástandið sem hérna ríkir og tengsl manna inní spillingarvefnum og hvernig þeir virðast komast upp með það sem þeir hafa gert og er jafnvel hampað fyrir það. T.d. varpaði hún nýju ljósi á ábyrgð Helga Sig lögfræðings og þá staðreynd að hann hefur þegar augljóslega brotið fyrstu 3 siðareglur lögmannafélagsins en er samt ennþá með lögmannaréttindi sín !
Skoðaðu endilega: http://www.huffingtonpost.com/iris-lee/icelands-independent-peop_b_250298.html
Ég hef sjálfur verið að benda útlendingum á þessi skrif hennar Írisar og þeir fyllast samúð í garð almennings og átta sig á að þetta eru bara nokkrir Maddoff-ar sem bera í raun abyrgð á þessu ásamt því að löggjafinn og eftirlitsaðilar hafi brugðist með öllu.... nema þeir hafi haft jötu til að jórtra við? Það hefur t.d. ekkert verið skoðað (svo ég viti sko!) hvort möguleg hagsmuna- eða fjálhagslegtengsl hafi verið milli ráðamanna og eftirlitsaðila annarsvegar og "fjármálamógúlanna" hinsvegar. En það væri vert að skoða það sérstaklega að mínu mati!
Kv.
Me
Ss (IP-tala skráð) 6.8.2009 kl. 12:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.