Færsluflokkur: Kvikmyndir

Kapítalismi - Ástarsaga

 

 


Heimildamyndir og hrollvekjur

Ég hef aldrei verið hrifin af hrollvekjum. Horfi ekki á þær. Mér finnst vont að fyllast viðbjóði og láta hræða mig. En um þessar mundir er lífið sjálft ein allsherjar hrollvekja og engin leið að komast hjá því að horfa. Stundum er eins og hroðinn skvettist yfir okkur í gusum og ein slík er í gangi núna. Kaupþingsránið og lögbannið á sannleikann, Landsbanka- og Björgólfsmál, Icesave og margt, margt fleira. Listinn er óralangur. Bankamenn og aðrir auðjöfrar halda nú varnarræður í gríð og erg - Karl Werners, Sigurður Einars og Bjarni Ben. Enn aðrir hóta kærum og málaferlum. Væntanlega hafa þeir allir hag almennings og heimilanna í huga alveg eins og Árni Páll félagsmála - eða hvað? Þessum mönnum finnst þeir ekki hafa gert neitt rangt og eru bara að verja sína hagsmuni. Mér verður hugsað til siðlausu sýkópatísku snákanna í jakkafötunum með testosteróneitrunina.

Í gær kom Serious Fraud Office í Bretlandií ljós að Bretar eru að rannsaka íslensku bankana - starfsemi þeirra í Bretlandi - eins og sjá má hér. Á mbl.is sá ég að Sérstakur saksóknari hefur ekki heyrt frá SFO og ég álykta sem svo að hann hafi heldur ekki haft samband við þá. Eva Joly skrifaði magnaða grein sem birtist í fjórum löndum á jafnmörgum tungumálum á laugardaginn. Indefence-hópurinn auglýsir nú eftir fólki til að skrifa um, tala og útskýra málstað Íslands erlendis - kannski í og með af því upplýsingafulltrúi Forsætisráðuneytisins, sem ráðinn var þangað af og í tíð Geirs Haarde, sér sér ekki fært að gera það og fylgja grein Evu Joly eftir.

Mitt í storminum eru skrifaðar bækur og gerðar heimildamyndir um þessa atburði alla. Nokkrar bækur eru komnar út og þessa dagana er ég að lesa Hvítu bókina hans Einars Más. Einar Már er galdrakarl. Honum tekst að skrifa þannig um atburði vetrarins að unun er að lesa - eða þannig. Hvernig honum tekst þetta er ofar mínum skilningi - en mikið svakalega er þetta góð bók.

Gunnar Sig gerir mynd um hrunið - DV 10. júlí 2009Ég hef fregnað af mörgum heimildamyndum sem eru í vinnslu, bæði innlendum og erlendum. Hrunið er upplagt efni í hrollvekjur. Svo vill til að ég tengist svolítið einni þeirra sem minnst var á í DV fyrir tæpum mánuði. Aðalsprautan í þeirri mynd er Gunnar Sigurðsson, leikstjóri m.m., sem varð landsþekktur þegar hann stjórnaði Borgarafundunum í vetur. Þar sem ég kem svolítið nálægt vinnslu þessarar myndar hef ég undir höndum nokkur viðtöl sem Gunnar hefur tekið við mann og annan. Meðal viðmælenda hans eru Björgólfur Thor Björgólfsson, Jón Baldvin Hannibalsson fyrrverandi ráðherra, Sigrún Davíðsdóttir rannsóknarblaðamaður, Jón Daníelsson hagfræðingur í London og síðast en ekki síst Austin Mitchell, þingmaður breska Verkamannaflokksins.

Austin Mitchell hefur verið á þingi í 32 ár, eða frá árinu 1977. Hann lýsir skemmtilega á heimasíðu sinni hvernig hann og Verkamannaflokkurinn hans hafa fjarlægst hvor annan, og á þá væntanlega við frjálshyggjuvæðingu flokksins í tíð Tonys Blair. Gunnar hefur þann hæfileika að fá fólk til að tala tæpitungulaust og viðtalið við Mitchell ber þess merki, enda lætur hann ýmislegt flakka. Ég klippti saman nokkur brot úr viðtalinu og birti hér að neðan.

Ég hef oft minnst á nauðsyn þess að tala máli Íslendinga erlendis og málflutningur Mitchells ber þess merki að hann þekkir til aðstæðna. Það er meira en hægt er að segja um allan almenning í þeim löndum sem við er að semja - og reyndar víðar. Nú er lífsnauðsynlegt að spýta í lófana og hefja öfluga kynningu á málstað og málefnum almennings á Íslandi og þeirri stöðu sem við stöndum frammi fyrir. Við eigum greinilega hauk í horni þar sem Austin Mitchell er - en ég efast stórlega um að Kristján Kristjánsson valdi verkefninu. Eigum við ekki nóg af góðu fólki?


Sannleikanum verður hver sárreiðastur...

...og sumir Draumalandinu líka. Ég hef ekki ennþá getað skrifað um Draumalandið, slík áhrif hafði myndin á mig. Þarf að sjá hana að minnsta kosti einu sinni enn - ef ekki tvisvar. En ýmsir hafa tjáð sig um myndina og sumir hrósað, aðrir gagnrýnt. Það sem gagnrýnendur myndarinnar hafa helst út á hana að setja er hægt að draga saman í eitt orð: "Áróður". Í neikvæðri merkingu.

En hvað er áróður? Orðabókin segir: "umtal eða skrif til að fá menn til að taka afstöðu með eða móti einhverju eða einhverjum; málafylgja, fortölur". Neikvætt? Ekki endilega. Það hefur hingað til ekki þótt neikvætt að beita einhvern fortölum eða vera málafylgjumaður - fylginn sér. En einhvern veginn hefur maður alltaf á tilfinningunni að í notkun orðsins "áróður" felist að verið sé að ljúga að manni. Yfirleitt er það líka svo.

Draumalandið - Hvað áttu þegar þú hefur selt allt?En það er óralangt í frá að verið sé að ljúga í Draumalandinu. Þvert á móti - þar er sagður nakinn, harðneskjulegur, hrikalegur sannleikurinn. Og sannleikurinn hefur meðal annars þann eiginleika að afhjúpa. Það gerir Draumalandið. Myndin afhjúpar fáránleikann, ofstækið, niðurlæginguna, eyðilegginguna og firringuna í kringum aðdragandann að og vinnuna við Kárahnjúkavirkjun.

Sannleikurinn er svo sár að þótt ég hafi verið alfarið mótfallin framkvæmdunum tókst samt að láta mig skammast mín. Ég skammaðist mín fyrir þetta fólk, stjórnmálamennina og öfgamennina sem lögðust flatir fyrir erlendum auðhringum og keyrðu þetta verkefni áfram af mesta offorsi sem sögur fara af í íslenskri atvinnusögu. Og nú er þetta að endurtaka sig með álvershugmyndirnar í Helguvík og á Bakka. Öllu á að fórna, öllu að kosta til, eyðileggja allt sem fyrir er - fyrir nokkur störf í verksmiðju.

Draumalandið er ekki áróðursmynd. Hún er nákvæmlega það sem okkur vantaði - innsýn í hina hliðina. Hliðina sem var þagað um. Hliðina sem var falin þegar framkvæmdirnar voru keyrðar í gegnum kerfið, óhagstæðar rannsóknarskýrslur faldar, þaggað niður í þeim sem vissu hve fáránlegar framkvæmdirnar voru og hve hörmuleg áhrif þær hefðu á efnahag þjóðarinnar. Draumalandið er mynd, sem sýnir okkur upphafið að endalokunum. Sýnir okkur hluta firringarinnar sem varð Íslandi að falli - í alvörugefnum spéspegli.

Ef við Íslendingar værum skynsöm, klár þjóð myndum við sjá til þess að þetta gerðist aldrei, ALDREI aftur. En það á að endurtaka leikinn í Helguvík og á Bakka. Með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir efnahaginn sem er í rúst, náttúruna sem á sér engan sinn líka í heiminum, orkuauðlindirnar sem eru ekki óendanlegar og orkan hvorki endurnýjanleg né hrein. Og við gefum erlendum auðhringum orkuna, eða því sem næst. Eða hvað? Við vitum það ekki. Við fáum ekki að vita á hvað orkan er seld og hve mikið heimilin í landinu þurfa að niðurgreiða hana. Hvað er fólk að hugsa? Hvað eru fjölmiðlarnir að pæla?

Snemma í mánuðinum las ég grein í Fréttablaðinu eftir Skúla Thoroddsen. Hann var ekki ánægður með Draumalandið og býr enda á Reykjanesi. Hann vill álver í Helguvík og engar refjar. Önnur grein birtist fyrir nokkrum dögum, líka í Fréttablaðinu, eftir Jón Kristjánsson. Hann var heldur ekki ánægður, enda fyrrverandi þingmaður og ráðherra Framsóknarflokksins sem ber einna mesta ábyrgð á Kárahnjúkavirkjun. Grein Skúla er hér og grein Jóns hér.

Í dag birtist svo grein eftir annan leikstjóra Draumalandsins, Þorfinn Guðnason, þar sem hann svarar þessum tveimur herramönnum á mjög sannfærandi hátt. Ég tek undir allt sem Þorfinnur segir.

Þorfinnur Guðnason - Fréttablaðið 20. maí 2009


Sveitabrúðkaup

Ég fór í bíó í gærkvöldi sem telst til tíðinda í mínu lífi því það geri ég ekki oft í seinni tíð. Við fórum saman mæðginin að sjá Sveitabrúðkaup og skemmst er frá því að segja að við skemmtum okkur bæði konunglega. Við fórum brosandi út með góða tilfinningu og það var mjög notalegt.

Eins og kemur fram í viðtölum við Valdísi Óskarsdóttur í myndbandinu hér að neðan er þetta fyrsta mynd hennar sem leikstjóra og handritshöfundar - ef handrit skal kalla því leikhópurinn spann víst talsvert eftir hendinni. Sú aðferð sem Valdís lýsir (og hefur verið notuð í öðrum myndum) að nota margar upptökuvélar og að leikararnir viti í raun aldrei hvenær þeir eru í mynd eða ekki er bráðskemmtileg og útkoman eftir því.

Leikarahópurinn var frábær, Herdís Þorvaldsdóttir stal senunni hvað eftir annað og ef einhverjum hefur fundist presturinn ótrúverðugur eru til fjölmargar sögur um hið gagnstæða - reyndar frá fyrri tíð þar sem þeir misstu margir hempuna fyrir drykkjuskap og/eða kvennafar. Það er væntanlega fátítt nú til dags... vona ég.

En þessu kvöldi var vel varið.

Viðtöl við Valdísi Óskarsdóttur í Kastljósi og Íslandi í dag í gærkvöldi, 28. ágúst.

 
Hér er kynningarmyndband um Sveitabrúðkaup


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband