6.8.2009
Spegill, spegill herm þú mér...
Ætli það sé ekki best að skella inn síðasta Morgunvaktarpistli áður en þeim næsta verður útvarpað í fyrramálið. Svo mikið hefur gengið á að ég var satt að segja búin að steingleyma pistlinum - en var minnt á hann í dag. Það er þetta með orðhengilsháttinn og tittlingaskítinn... Hljóðskrá fylgir neðst í færslunni.
Ágætu hlustendur...
Ég býst við að flestir eigi spegil og líti í hann endrum og eins. Sumir með aðdáun og ánægju, aðrir með hryllingi og jafnvel skömm. En hvað sjáum við þegar við horfum í spegil? Sjáum við aðeins umbúðirnar - útlitið? Eða eru einhverjir svo hugaðir að þeir þori að kafa dýpra, skoða sálina og spyrja: "Hver er ég?"
Skömmu fyrir hrun las ég pistil eftir Bergþóru Jónsdóttur, blaðamann á Mogganum. Ég klippti hann út, birti á blogginu mínu og endurbirti hann seinna. Bergþóra þorði nefnilega að kafa dýpra og skoða sálina - og það þjóðarsálina. Hún segir meðal annars þetta:
"Íslenska þjóðin er skrýtin skepna. Hún veður áfram í dugnaði; er framsækin, menntuð, nútímaleg, tæknivædd og vinnusöm. Í útlöndum heyrir maður að Íslendingar séu eftirsóttir í vinnu, og það finnst íslensku þjóðinni gott að heyra - eins og allt annað hrós um sjálfa sig.
Það er stutt í pirringinn ef Íslendingurinn er ekki bestur í því sem hann tekur sér fyrir hendur. Íslenska þjóðin stærir sig af landinu sínu; blámanum, hreina vatninu og náttúrufegurðinni, fiskinum og lambinu og öllum framkvæmdunum sem fleyta henni í röð mest velmegandi þjóða heims.
Samt er eitthvað að.
Íslendingar eiga erfitt með að tjá sig og andmæla sjaldan þegar yfir þá er vaðið. Þeir lúffa fyrir valdinu og þora ekki eða nenna ekki að hafa sig í frammi þegar þeim er innst inni misboðið. Þeir trúa því að glæpur sé ekki glæpur - segi valdið það. Þeir gapa af undrun þegar einkabankarnir fá óvart gefin listaverkin þeirra - gera samt ekkert. Þeir hneykslast á dómum í dómskerfinu en hafa ekki döngun í sér til að þrýsta á um breytingar. Þeir hafa ekki neytendavitund, láta okur og óréttmæta viðskiptahætti yfir sig ganga. Þeir bölva, en eru fljótir að gleyma. Þeir agnúast út í stjórnvöld en kjósa sífellt annað eins yfir sig aftur."
Svo mælti Bergþóra. Mér hefur oft orðið hugsað til orða hennar í vetur, nú síðast þegar birtar voru niðurstöður úr skoðanakönnun sem sýndu, að sá flokkur sem ber langmesta ábyrgð á hruninu hafði bætt við sig fylgi. "Hvað er að?" spurði ég sjálfa mig, en fátt varð um svör. Er svona auðvelt að sannfæra Íslendinga? Láta þá kyssa vöndinn, þakka fyrir hýðinguna og biðja um meira.
Hvers vegna getum við ekki rætt málin af skynsemi og yfirvegun og komist að sameiginlegri niðurstöðu með hagsmuni allrar þjóðarinnar í huga, ekki aðeins útvaldra sérhagsmuna? Hvar er samfélagsvitund Íslendinga; meðvitundin um að við búum í samfélagi þar sem okkur ber að hlýða reglum og taka tillit til náungans? Var þeirri vitund útrýmt af skefjalausum heilaþvotti nýfrjálshyggjunnar um að hver væri sjálfum sér næstur? Hvernig stendur á að sumir alþingismenn nota ræðustól Alþingis til að gjamma eins og unglingar í ræðukeppni í grímulausri sérhagsmunagæslu í stað þess að leysa risavaxin vandamál þjóðarinnar í sameiningu?
Í Innansveitarkróníku sagði Halldór Laxness: "Því hefur verið haldið fram að íslendingar beygi sig lítt fyrir skynsamlegum rökum, fjármunarökum varla heldur, og þó enn síður fyrir rökum trúarinnar, en leysi vandræði sín með því að stunda orðheingilshátt og deila um titlíngaskít sem ekki kemur málinu við; en verði skelfingu lostnir og setji hljóða hvenær sem komið er að kjarna máls."
Þetta er skrifað fyrir 40 árum og ekkert hefur breyst. Er ekki kominn tími til að leggja orðhengilsháttinn og tittlingaskítinn á hilluna, líta í spegil og endurskoða þjóðarsálina?
En við skulum byrja á okkur sjálfum.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Spilling og siðferði, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 17:02 | Facebook
Athugasemdir
Þetta er svo algjörlega satt og rétt að það er engu við að bæta.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 6.8.2009 kl. 17:45
Einmitt vegna þessara þjóðareinkenna var og er og hefur jarðvegurinn verið svo einstaklega frjór fyrir svindli og svínaríi að það liggur við að fólki finnist það eðlilegt og óumbreytanlegt. Það er alltaf vísað í hrunið en alltof lítið í fortíðina sem gerði þetta allt svo rennisleypt og mögulegt. Færri tóku þátt en vildu, það var valið í rútuna. Við þurfum heldur betur að fara að skoða hver við erum og hvert við viljum stefna. Sjálfstæðisflokkur eða Samfylking, ég sé lítin mun þegar að loforðum kemur, fólk er hætt að búast við heiðarleika. Þetta sama fólk sem sækir sér forystusæti í flokkunum (og við kjósum aftur og aftur) án þess að bera virðingu fyrir gefnum loforðum er sama liðið og mun bjóða ´krafta´sína fram í lobbyismann í ESB, það mun kosta sitt ef svo hræðilega fer að við innlimumst í ESB.
Gerður Pálma, 6.8.2009 kl. 20:39
Já, þetta er góð og lýsandi spegilmynd.
Kveðja að norðan.
Arinbjörn Kúld, 6.8.2009 kl. 23:10
Laxness einsog hann hafi verið á blogga í morgun.
Gísli Ingvarsson, 7.8.2009 kl. 12:07
Mikið er þetta rétt hjá þér...Íslendingar eru aumingjar og undirlægjur...taka öllu sem grýtt er í þá með undirgefni þrælsins...með undantekningum þó.
brahim, 7.8.2009 kl. 19:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.