Að vera eða ekki vera... á Gíslandi

Systursonur minn sendi mér slóð að bréfi sem birtist í Lúgunni á Eyjunni í fyrradag. Bréfritarinn, Brynleifur Siglaugsson, stendur frammi fyrir erfiðri ákvörðun og skrifar þetta einlæga og blátt áfram bréf, sem stærstur hluti þjóðarinnar getur eflaust tekið undir. Sársaukinn nísti og mig verkjaði í hjartað.

Ég hugsaði með mér hvort þingmenn og ráðherrar læsu það og rynni blóðið til skyldunnar. Hvort útrásardólgar, bankastjórnendur, skilanefndarmenn, auðlindasalar, spilltir stjórnmálamenn og aðrir sem bera ábyrgð á örvæntingu þjóðarinnar, læsu það og skömmuðust sín. Ég spurði sjálfa mig hvort íslenska prestastéttin, sem á að heita sálgæslustéttin okkar en hefur þagað þunnu hljóði að mestu eftir hrunið, læsi það. Hvort forseti Íslands, sem hefði átt að stappa stálinu í þjóðina og sameina hana, læsi það.

Ekkert bólar á stuðningi við almenning sem hefur þurft að sæta eignaupptöku, er að kikna nú þegar undan aukinni skuldabyrði, skattahækkunum, almennum kostnaðarhækkunum og blöskrar svívirðilegt óréttlætið. Á meðan eru skuldir auðmanna afskrifaðar, kvótakóngar sleppa undan skuldum, skipta jafnvel bara um kennitölu og halda kvótanum. Við horfum upp á siðspillta braskara selja frá okkur hænuna góðu sem verpir auðlindagulleggjunum. Þetta er veruleiki almennings á Íslandi í dag. Það er verið að gera okkur að öreigum á meðan auðjöfrarnir sleppa, halda öllu sínu og fá restina á brunaútsölu.

Ég ákvað að gera mitt til að láta rödd Brynleifs hljóma, fletti honum upp í skránni og hringdi í hann með kökk í hálsi. Hann veitti mér góðfúslegt leyfi til að gera það sem ég vildi með bréfið. Ég bið alla sem vettlingi geta valdið að dreifa þessu bréfi - helst að tryggja að það komi fyrir sjónir allra Íslendinga. Rödd Brynleifs verður að hljóma hátt, snjallt og víða því hann talar fyrir munn svo ótalmargra Íslendinga með brostnar vonir og blæðandi hjarta. Almennings sem hrópar á réttlæti.

Ég las bréfið hans Brynleifs í pistlinum mínum á Morgunvaktinni í morgun. Hljóðskrá viðfest neðst að venju.

Morgunvakt Rásar 2

Ágætu hlustendur...

Ég las bréf á netmiðlinum Eyjunni í fyrradag. Eftir lesturinn sat ég sem lömuð og tárin trilluðu niður kinnarnar. Bréfritarinn heitir Brynleifur Siglaugsson og hann gaf mér leyfi til að lesa bréfið fyrir ykkur. Yfirskriftin er:

Að vera eða ekki vera... á Gíslandi

dag tek ég ákvörðun sem ég hef mikið og lengi hugsað um, ætla ég að vera eða ekki vera. Ég asnaðist á sínum tíma til að læra og ná mér í öll réttindi í þeirri atvinnugrein sem ég hafði mest gaman af. Vinnu sem ég naut og skapaði í eitthvað sem ég gæti verið stoltur af á efri árum. Ég hef unnið við þetta fag síðan ég var 16 ára, alls í 23 ár. Aldrei skort verkefni og aldrei verið í þeirri stöðu sem ég er í núna. Ég kann ekki á kerfið og vil ekki læra hvernig ég get haft það "gott" á bótum.

Í dag þarf ég að ákveða hvort ég sé syni mína, sem eru mér kærari en allt annað í lífinu, eingöngu í gegnum tölvuskjá næstu mánuðina og árin. Hvort ég get ekki boðið þeim góða nótt með kossi og fylgst með lífi þeirra og leik nema í gegnum símtöl við þá og móður þeirra. Þeir munu ekki getað leitað til mín með sínar spurningar eða fengið að hitta mig nema á margra vikna fresti. Það á eftir að vera erfitt, bæði fyrir þá og mig. En ef ég vil skapa þeim bjartari framtíð en við sjáum fram á hér, verð ég að fara. Fara burt frá fólkinu, landinu og lífinu sem ég á hér.

Það eru svo sem engin endalok, en það er samt ekki það sem við eigum að þurfa að gera. Að geta ekki séð fram á að hafa vinnu, geta séð fyrir sér og börnunum. Að horfa fram á að lífskjörin fari sífellt niður á við, aukning á drykkju og fíkniefnaneyslu, horfa uppá eldra fólk og öryrkja snupraða með endalausum niðurskurði til þeirra sem byggðu upp þetta land okkar.  Brynleifur og strákarnir hans sumarið 2009Menntun skorin niður og heilbrigðiskerfið skemmt og niðurlægt. Það er bara ekki það sem ég hef áhuga á. Ég gæti líka farið út á land og fengið mér vinnu þar í fiski eða öðru, það er ekkert að því, en þá get ég ekki gert það sem mér er mikilvægast - að byggja upp og skapa. Launin myndu örugglega vera þokkaleg með mikilli vinnu, en með sífellt hækkandi sköttum og meiri dýrtíð yrði það ekki það líf sem ég kýs. 

Ég hef engan áhuga á, að láta misvitra og misdrukkna menn og konur á þingi taka ákvörðun um framtíð barnanna minna. Ég hef engan áhuga á, að láta þetta sama fólk skerða öll lífskjör í landinu til þess eins að halda áliti erlendra kröfuhafa og stjórnvalda, þar sem peningar eru mælikvarði á allt. Horfa uppá landið selt burt, horfa uppá sömu glæpamennina sitja áfram við kjötkatlana í bönkunum og pota bitlingum til vina og vandamanna. Álit umheimsins á Íslandi er einfalt: Við fórum fram úr okkur, létum gráðuga glæpamenn vaða uppi og skuldsetja skerið svo svakalega að við munum aldrei geta greitt skuldir þeirra - og við eigum ekki einu sinni að reyna það. Allt traust er farið á peningastjórnun hér. Það kemur ekki til baka þó að skrifað sé uppá lán sem við erum ekki og verðum aldrei borgunarmenn fyrir. Frekar á það eftir að halda áfram að versna í hvert sinn sem það verður fréttnæmt að Íslendingar standi ekki við samninginn.

Það hefur löngum verið landlægt hér að fresta skuldunum, lengja í þeim og ýta öllu aftur fyrir. Er ekki komið nóg af því? Ég er viss um að álit umheimsins á okkur myndi stóraukast ef við bara viðurkenndum staðreyndir og horfðum á  hlutina eins og þeir eru og viðurkennum vanmátt okkar. Tökum skellinn núna og notum næstu ár í að byggja upp trúverðugleika sem byggir á staðreyndum en ekki enn einni bólunni. Það verður erfitt en við getum þá allavega byrjað með hreint borð en ekki langan ósigrandi hala á eftir okkur.

Hreinsum til í yfirbyggingunni sem er að sliga stjórnkerfið, opnum það og höfum það gagnsætt. Losum okkur við sníkjudýrin sem eru búin að hreiðra um sig í kerfinu. Þetta er lítið land, byggt af mjög duglegu fólki en ekkert fyrirtæki getur gengið með þvílíku magni af smábossum og afætum sem skapa ekkert nema heimatilbúin vandamál. Ég ætla ekki að bjóða mínum börnum uppá að gerast þrælar fyrir erlenda fjármagnseigendur, það er ekki í boði. Og ég veit að það sama á við um mjög marga aðra. Frekar fer ég burt og byggi mína og þeirra framtíð þar sem yfirvöld þekkja sín takmörk, þar sem fólk er metið, ekki eftir greiðslugetu heldur líka sem lifandi verur."

Brynleifur tók ákvörðun - hann er að flytja úr landi.

*********************************************

Ég óska Brynleifi alls hins besta og vona að ástandið batni fljótt svo hann geti komið sem fyrst aftur til strákanna sinna. En ég er ekki mjög vongóð miðað við hvernig verið er að fara með landið okkar.

Sorglegt, en satt - Halldór Baldursson í Mogganum 1. september 2009

Túristar - Halldór Baldursson - Moggi 1.9.09


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Brynleifur mælir af einlægni, skynsemi og réttsýni. Verjumst að láta afvegaleiða okkur.

Rómverji (IP-tala skráð) 4.9.2009 kl. 10:00

2 Smámynd: corvus corax

Brynleifur segir: Ég hef engan áhuga á, að láta misvitra og misdrukkna menn og konur á þingi taka ákvörðun um framtíð barnanna minna. Ég hef engan áhuga á, að láta þetta sama fólk skerða öll lífskjör í landinu til þess eins að halda áliti erlendra kröfuhafa og stjórnvalda, þar sem peningar eru mælikvarði á allt. Horfa uppá landið selt burt, horfa uppá sömu glæpamennina sitja áfram við kjötkatlana í bönkunum og pota bitlingum til vina og vandamanna. Álit umheimsins á Íslandi er einfalt: Við fórum fram úr okkur, létum gráðuga glæpamenn vaða uppi og skuldsetja skerið svo svakalega að við munum aldrei geta greitt skuldir þeirra - ...

Hér mælir Brynleifur örugglega fyrir munn þúsunda Íslendinga af því að glæpahyskið situr enn sem fastast í öllu kerfinu og á toppnum trónir ríkisstjórn með forsætisráðherra og fjármálaráðherra sem gefa dauðan og djöfulinn í helvítis almenninginn sem getur bara haldið áfram að borga brúsann hér eftir sem hingað til.

Það þarf að hreinsa út viðbjóðinn í kerfinu, stjórnkerfinu og bankakerfinu ...og úr þessu dugar ekkert minna en blóðug bylting. Með illu skal illt út reka!

corvus corax, 4.9.2009 kl. 10:13

3 identicon

Þessa grein á að þýða fyrir umheiminn.

Rómverji (IP-tala skráð) 4.9.2009 kl. 11:18

4 Smámynd: Jakob Þór Haraldsson

Það er því miður ennþá "gjá milli fólksins í landinu & ríkisstjórnarinnar..!"  Þessi vita gagnlausa ríkisstjórn hefur ekki hugmynd um hvernig hún getur leyst vandamálin og því gerir hún lítið sem ekkert og vonast bara að þetta "reddist einhvern veginn", en það er bara fáranleg óskhyggja.  Þetta úrræðaleysi mun því miður leiða til að fleiri & fleiri yfirgefa Þrælaeyjuna.  Fjölmiðlar okkar eru t.d. ekkert að tala um að Seðlabankinn er búinn að tapa 120 milljörðum í að verja krónuna okkar og meira tap á leiðinni tengt því að verja ónýddan gjaldmiðil.  Mér sýnist frekar augljóst að ráðleggingar IMF munu endarlega gera út af við okkur sem þjóð - þetta endar með því að við þurfum að lýsa yfir greiðsluþroti.  Það er auðvitað einstakt afrek hjá SAMSPILLINGUNNI að standa fyrir TVEIM þjóðar gjaldþrotum, geri aðrir betur..!

kv. Heilbrigð skynsemi (fun.blog.is)

Jakob Þór Haraldsson, 4.9.2009 kl. 11:35

5 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þetta bréf Brynleifs frá Garðhúsum er aðeins staðfesting- ein af mörgum- þess að við búum við svo heimsk og spillt stjórnvöld að það eru ekki dæmi um slíkt hjá viðurkenndri menningarþjóð. Nú er aðeins ein erfið spurning: Hvernig losum við okkur við þetta dæmalausa hyski.

Árni Gunnarsson, 4.9.2009 kl. 12:28

6 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Ríkisstjórnin er ráðalaus enda er hún leidd af ráðgjöfum AGS. Er einhver sem trúir að hagsmunir lands og þjoðar ráði einhverju þegar alþjóðakapitalið stjórnar?

Við þurfum nú að staldra við og taka ákvörðun um hvort ekki sé betra að takast á við kreppuna án aðkomu AGS.  Og án aðkomu stjórnmálastéttarinnar!!! 

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 4.9.2009 kl. 12:28

7 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Þennan mann skil ég vel..enda tók ég þessa ákvörðun líka og er farinn af landinu.

Til þess að sýna smá dæmi um hvernig litið er á ísland, þá fór ég í Den norske bank í dag og opnaði reikning þar, sem gekk vel svosem.. svo ætlaði ég að fá að millifæra íslenska peninga á reikninginn minn en þá var sagt að lokað sé á alla íslenska peninga.. ég gat ekki einu sinni skipt 5000 kallinum í norskar krónur..

Óskar Þorkelsson, 4.9.2009 kl. 13:05

8 Smámynd: Marteinn Unnar Heiðarsson

Hér verðu ekki uppbygging af neinu tagi meðan að AGS og ESB eru með puttana hér inná borðum hjá okkur.Hvenær ætla þessir menn að opna augun og sjá hvert stefnir hér með AGS við stjórn,eina sem AGS gerir er að reyna að skuldsetja okkur meira og meira þar til þeir geta tekið auðlindir okkar uppí skuldir.Hversvegna halda stjórnmálamenn að AGS og ESB séu einhverjar góðgerðastofnanir ég spyr bara,geta menn ekki talað um sannleikan opinberlega.Hvað er að gerast núna Seðlabankinn dælir inn galdeyrisforða okkar til að halda krónunni á floti sem dugir í tvo daga svo fellur hún aftur.Nei ég segi burt með AGS og ESB lækka stýrivexti strax svo að við getum byrjað að byggja okkur upp aftur.Annars er bara einn kostur eftir og hann er að yfirgefa landið og halda í vesturátt.

Marteinn Unnar Heiðarsson, 4.9.2009 kl. 13:05

9 identicon

Þetta er sorglegt en skiljanlegt. Sjálf hef ég hugleitt það að fara úr landi, en sit hér enn um sinn, ætla að sjá hvort þetta "reddist ekki". Ég hef góða menntun en hef kostað ríkið skildinginn í menntun minni. Mér finnst að ég eigi að skila því til baka með því að búa hér og starfa.....á meðan mér er stætt á því.

Stór hluti vinahópsins er farinn til ýmissa landa, telur sjálfsagt 40-50 manns. Því tel ég að fjöldi brottfluttra sé vanmetinn í tölum Hagstofu Íslands, mögulega á fólk enn lögheimili hér á landi þó það sé í raun flutt úr landi.

Margir félaga minna sem ég taldi að væru bara vel settir eru að missa húsin sín og allar sínar eigur. Kannski er það ástæðan fyrir brottflutningi þeirra af landinu.

Stjórnmálamenn eru siðblindir og spilltir....lagaðist ekkert með búsáhaldabyltingunni....enda var almenningur heilaþvegin með því að allt vont væri eingöngu Sjálfstæðisflokknum að kenna og allt yrði gott ef það væri bara útilokað að þeir kæmu nálægt kjötkötlunum....það tók bara ekkert betra við....nú eru gæðunum bara deilt út af nýjum aðilum til annarra vina....sami grauturinn í sömu skálinni bara undir nýjum merkjum....

Allt í einu finnst mér ég vera ein heppnasta manneskjan á Íslandi í dag.....ég á engar eignir, ekkert hús sem bindur mig, skulda aðeins, námslánin eru drjúg og hækka alltaf, ég næ ekki alltaf endum saman en er nálægt því, ég er einstæð móðir, ég er í leiguhúsnæði, ég á fulla frystikistu af mat, ég á orðið fjölskyldu, vini og kunningja út um allan heim.....ég get flutt af landinu með stuttum fyrirvara.....ég er heppin.....

Bogga (IP-tala skráð) 4.9.2009 kl. 13:29

10 identicon

óskar, þetta finnst mér mjög furðulegt og myndi ég aðeins spyrja þá norsku meira út í þetta. ég bý hérna í Hollandi og það hefur ekki verið neitt mál að millifæra íslenskar krónur yfir á Hollenskareikninginn minn, meira að segja mánuði eftir hrun var það ekkert mál.

Skil nú ekki afhverju þeir norsku ættu ekki að taka við peningunum þínum.... 

Unnsteinn Jóhannsson (IP-tala skráð) 4.9.2009 kl. 13:30

12 identicon

Ég tók mig til og sendi forsetanum og öllum þingmönnum þetta bréf

Sem betur fer flutti ég af landinu áður en þessi bankabóla byrjaði en eitt verð ég að viðurkenna að eina skiptið sem ég hef haft heimþrá í þessi 15 ar sem eg hef búið erlendis er núna vegna þess að mig langar til að vera á Íslandi til að taka þátt í byltinguna

Loki (IP-tala skráð) 4.9.2009 kl. 18:16

13 identicon

Brynleifur er á facebook ,ég er búinn að senda honum kveðju því hann talar inn   í aðstæður svo margra          líka.sammála færslu 3

"Þessa grein á að þýða fyrir umheiminn.  "         

Hörður Halldórsson (IP-tala skráð) 4.9.2009 kl. 18:55

14 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Hugsanlega er ég ógeðslega leiðinleg - en ég tek þá bara sjensinn á því! En það er eitt sem ég skil ekki í öllu þessu drama hans Brynjólfs........ Af hverju fer ekki fjölskyldan með honum? Hvers vegna ætlar hann að skilja drengina og móður þeirra eftir?

Hrönn Sigurðardóttir, 4.9.2009 kl. 21:28

15 Smámynd: Jón Baldur Lorange

Ég geri fastlega ráð fyrir því að Ásta Ragnheiður, forseti Alþingis, og Árni Páll, ,,velferðarráðherra", fagni ákvörðun Brynleifs þar sem þau hafa bæði lýst yfir opinberlega ánægju með að ungt og menntað fólk fari af landi brott ef ég man rétt. 

Jón Baldur Lorange, 4.9.2009 kl. 22:20

16 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Þetta er dæmigert fyrir þá sem gefast upp og vilja ekki berjast. Það þarf ekki að þýða þetta bréf.  Ég vil ekki láta sína þennan aulahátt út fyrir landsteinanna. Það  á að berjast við þetta vandamál hérna heima. Það á að berjast við að koma þessari stjórn frá. Þessi stjórn er ekki búinn að vinna fyrir íslenska þjóð frá því að hún tók við. 

Það er engin lækning fólgin í því að flýja vandamálið.  Það verður að taka á vandamálinu hér. Þessi ríkisstjórn treystir ekki íslenskri þjóð.  Hún vill ekki að þjóðin taki neinar ákvarðanir fyrir sjálfa sig.  Því eigum við að losa okkur við þessaríkisstjórn.  

Við þurfum á taka á vandamálum okkar  í sameiginlegu átaki.  Þeir sem leita á náðirnágrannaríkja og halda að vandamálið sé horfið, þurfa að hugsa betur.  Ég trúi því ekki að þetta eru velmenntaðir menn sem eru að flýja land.  Ef menn eru hugsandi þá verða þeir hér heim á Íslandi  og berjast fyrir breytingum sinna haga.

Eggert Guðmundsson, 4.9.2009 kl. 23:13

17 Smámynd: Gísli Foster Hjartarson

Gott bréf sem þyrfti að berast sem flestum af þessum sem þykjast fara með ferðina í samfélaginu - veit bara ekki alveg hvernig best er að koma bréfinu á það lið því það virðist vera i einhverju allt öðru sólkerfi en við hin.

Gísli Foster Hjartarson, 4.9.2009 kl. 23:31

18 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Brilljant eins og venjulega. Enuff said.

Baldur Fjölnisson, 4.9.2009 kl. 23:37

19 identicon

Ég elska landid mitt! Ég á fjölskyldu tar en er heppin ad ég bý tar ekki lengur hef búid erlendis taep 19 ár og hef ekki lent sjálf í kreppunni.Mér tykir sárt hvernig er komid fyrir tessu fallega landi okkar, ad einnhverjir hálvitar, geti sökt skútunni í kaf.Ég get ekki séd ad landid eigi neina uppreisnavon. Iandid okkar er á leidinni á bottnin.Eins og ég las í einni grein hér vaeri réttast ad girda hringin í kringum landid skrifa á skylti stígid ekki á land,landid er ad sökkva. Og ef eitthvad á eftir ad lagast tekur tad MörgMörg ár ad lagast. En mér fynst verst ad börn og barnabörnin lenda í tessari súpu, tad eru ekki allir sem vilja yfirgefa sem beturfer.Vonast til fyrir landan, ad allt eigi eftir ad lagast ljósid skýn á ný.

Gudrun Sigurdardóttir (IP-tala skráð) 4.9.2009 kl. 23:38

20 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Mér finnst það  ''svik'' við þjóðina að flýja þegar mest á reynir. Frelsun hennar verður að koma innan frá, frá fólkinu sem verður áfram og breytir því sem breyta þarf. Þetta er mitt álit en er kannski ekki hátt skrifað á þessum tímum.

Sigurður Þór Guðjónsson, 5.9.2009 kl. 00:38

21 Smámynd: Jón V Viðarsson

Við erum komin langt aftur í aldir þar sem fólkið fyrir utan kastalann er skattpínt og allt hirt af því og jarðir brendar ef það borgar ekki skuldir sínar. Hástéttin hér á Íslandi er engu betri en þeir voru hér fyrr á öldum, hér mæta þeir drukknir í pontu eða láta eins og hyrðfífl og koma með rugl laustnir til þess að þikjast þóknast þjóðinni. Kastalinn fær sitt á okkar kostnað !!

Jón V Viðarsson, 5.9.2009 kl. 02:35

22 identicon

Sammála Sigurði númer 19.

Þetta bréf er pínulítið of mikið fyrir minn smekk.  Það breytist ekki mikið hér ef allt þetta heiðarlega fólk yfirgefur skerið.

Grétar (IP-tala skráð) 5.9.2009 kl. 09:14

23 Smámynd: Linda Linnet Hilmarsdóttir

Innlitskvitt og ljúfar kveðjur :)

Linda Linnet Hilmarsdóttir, 5.9.2009 kl. 15:09

24 Smámynd: AK-72

Mér finnst þessi hugsunarháttur um svik við þjóðina og allt það í þeim dúr, með eindæmum og menn séu svikarar fyrir að gefast upp og fara.

Fyrirgefið þið en hvaða skyldur ber fólk til rotins spillts og viðbjóðslegs samfélags þar sem auðmenn og stjórnmálamenn eru ofar lögum? Hvaða skyldur ber það til samfélags sem hefur komið þeim á kné? Hvaða skyldur ber fólk til að taka áfram í sama leiknum?

Frumskyldan sem fólk ber, er til fjölskyldunnar sinnar og þeirra sem þeim þykir vænt um. Ef það ætlar að lifa af og sér ekki fram á að geta framfleytt sér hér né að það muni nokkuð lagast, þá fer það bara. Ég get engan veginn ekki fordæmt þennan mann né aðra sem slíkt gera.

Ég ætla sjálfur að þrauka um tíma en það veltur á ýmsu og strax er að gerast það fyrsta sem fær mig til að ihuga brottflutning. Það er veirð að framselja orku-auðlindirnar í hendur erlendra einka-aðila og láta Reykvíkinga taka á sig auka 9,4 milljarða tap út af því. Slíkt fær mann ekki beint til þess að ivlja halda áfram að taka þátt í þessu handónýta samfélagi þar sem algjört siðrof hefur verið. Í raun ber okkur ekkert að fara neitt sérstaklega eftir lögum því samfélagssáttmálinn var rofinn, hann er ekki til og hann verður aldrei til aftur með slíkum vinnubrögðum, hvað þá ef ný ríkistjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar kemst til valda á ný.

Ef svo er, þá fer maður bara og skilar lyklunum niður á Íbúðarlánasjóð og fer. Þá er þetta hvort sem er búið spil því það mun aldrei verða nýr samfélagssáttmáli, aldrei nýtt réttlátt samfélag þar sem yfirstétt auðmanna og stjórnmálamanna eru jafnir hinni óæðri stétt þræla þeirra og hvað þá að hér verði nokkurn tímann von, traust og sátt á ný.

Þá segir maður bara:"Guð blessi Ísland, ég er farinn".

AK-72, 5.9.2009 kl. 15:26

25 identicon

Takk fyrir viðbrögðin,

Hrönn;

til að svala forvitni þinni er ástæðan fyrir því að ég tek ekki drengina með mér sú að ég og móðir þeirra erum skilin og við viljum reyna að raska ekki þeirra högum meira enn orðið er.

Eggert og Sigurður;

ég mætti reglulega á mótmælafundina á Austurvelli og gekk meira að segja svo langt að ganga í Borgarahreyfinguna þar eð ég hélt að hún myndi einhverju breyta. Þið vitið árangurinn af því. Ég lít því ekki á það sem svik að þurfa að fara erlendis til þess að vinna fyrir mér og mínum skuldum. Enn ef fólk fer loksins að standa saman og vinna markvisst að því að hreinsa til er ég mættur.

Brynleifur Siglaugsson (IP-tala skráð) 5.9.2009 kl. 18:31

26 identicon

Þessi skrif gætu verið skrif flestra Íslendinga sem elska fjölskyldu sína og land og vildu gjarnan vera hér áfram ásamt öllum öðrum til að byggja þetta fallega land okkar upp að nýju.Við eigum þetta land saman og allar auðlindir
þess og ættum að geta lifað góðu lifi hér ef við erum samtaka, heiðarleg, og höfum vilja til að gera okkar besta til að ná landinu okkar uppúr öskustónni og þessum hörmungum sem nokkrir græðgisvæddir aðilar hafa komið okkur í.
Það virðist samt sem áður að siðblinda og græðgi ráði hér enn ríkjum, þótt allir ættu að vita betur. Það er bara svo sorglegt hversu margir stinga hausnum í sandinn, þingmenn og ráðherrar ættu að vinna saman um lausn mála og ekki eyða tímanum í að vera í andstöðu við þá sem virkilega eru að reyna að gera eitthvað .Að selja auðlindir landsins til erlendra aðila eða óprúttinna Íslendinga er það sama og að kippa stoðunum undan framtíð Íslands og allra Íslendinga, því að vatnið og orkan er farseðill okkar inn í framtíðina. Hvort tveggja er okkar fjársjóður , fjársjóður sem fer þverrandi annars staðar í heiminum .Stöndum vörð um þetta yndislega og gjöfula land okkar svo að við getum öll búið hér stolt að lokum. Hreinsum hið óheiðarlega, siðblinda, og ljóta út úr öllum kerfum landsins, svo og þá sem ekki vilja okkur vel, svo að allir Íslendingar sem vilja búa á Íslandi geti það og séu ekki nauðbeygðir til að flýja land til að sjá sér og sínum farborða.

Guð blessi Ísland og okkur öll.

Jenný Þorsteinsdóttir (IP-tala skráð) 5.9.2009 kl. 21:46

27 identicon

Sælt veri fólkið...

Víst er bréfið einlægt og margt satt sagt. En...nú veit ég ekki hvort ég á að þora að segja það sem kemur næst, en læt vaða.

Ég er 47 ára og maðurinn minn líka. Við kynntumst 16 ára gömul, eignuðumst eldra barnið 21 árs gömul og keyptum íbúð´83 meðan ég gekk með hana. Í þessari íbúð bjuggum við í 11 ár; tveggja herbergja í blokk. Seinni unginn kom'91.  Árið ´94 keyptum við stærra húsnæði sem við erum enn í. Allt svona frekar venjulegt. En maðurinn minn er sjómaður og hefur alltaf verið á sjó. Hann var að koma heim núna eftir 34 daga á sjó. Stoppar kannski í fimm daga núna. Einu sinni var hann á sjó í tæpar sjö vikur samfleytt. Hann var aldrei heima meðan stelpurnar voru litlar þar sem ég og hann ákváðum í sameiningu að ég væri heima meðan þær væru litlar, þannig að hann var eina fyrirvinnan. Ég fór út á vinnumarkaðinn ´93 um haustið og þá var ég 31. Forréttindapakk, myndu sumir segja...ég svosem veit það ekki. Við veljum öll einhverja leið og þetta var okkar leið. Lífeyrisgreiðslur mínar munu ekki duga kirkjurottu til framfæris og þannig er það nú bara. Gildi, lífeyrissjóður mannsins míns er skakkur og skældur eftir fjármálafantana og fátt eitt um það  að mögla. margir halda að sjómennska sé svo mikl lúxusvinna, menn vaða í seðlum og himinhá laun. Hvet fólk að kynna sér þetta betur og ég skal glöð útskýra einn mánuð í lífi sjómanns og fjölskyldu hans. 

En svona er það nú bara...stundum var erfitt að útskýra fyrir litlum stelpum afhverju pabbi væri aldrei heima. Því gat ég nú ekki annað en brosað í kampinn yfir því að fólktali um að kyssa börnin sín góða nótt---en skil það svosem alveg.

góðar stundir 

Guðrún Garðarsdóttir kt.2008624819

Guðrún Garðarsdóttir (IP-tala skráð) 5.9.2009 kl. 22:24

28 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég notaði orðið ''svik'' innan gæsalappa. Ég hefði  samt átt að nota annað orð því ég forðast að nefna orð eins og t.d. landráð eða föðurlanndssvik í alvöru. Ég hef fulla samúð með þeim einstaklingum sem hafa farið illa út úr hruninu. Hins vegar finnst mér að það eigi að vera siðferðilega meginregla að menn hjálpist að við að reisa landið úr rústunum. Því verður ekki mótmælt að það verður ekki gert af Íslendingum í útlöndum heldur þeim sem eru í landinu. Jafnvel baráttan við spillingu verður að heyja innanlands.

Sigurður Þór Guðjónsson, 6.9.2009 kl. 13:24

29 identicon

"Hins vegar finnst mér að það eigi að vera siðferðilega meginregla að menn hjálpist að við að reisa landið úr rústunum." Hver mótmælir því?

Orð Sigurðar kunna að hljóma sem fuglasöngur í eyrum einhverra. Sjálfum finnst mér þau tómt arugl sem andsvar við bréfi Brynleifs. Brynleifur hrekst úr landi til þess að sjá fjölskyldu sinni farborða á Íslandi.

Laxness sagði um vesturferðirnar, að allir sem eitthvert púður hefði verið í hafi flutt burt. Hinir sátu eftir og grenjuðu ættjarðarsöngva. Hann hitti naglann á höfuðið, þótt ekki beri að taka orð hans bókstaflega. Sigurður Þór hittir ekki.

Rómverji (IP-tala skráð) 7.9.2009 kl. 01:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband