Stórhættuleg þöggun

Ég las þetta á Fésinu seint á föstudagskvöldið og fékk hroll. Hin veika von um að réttlætinu verði einhvern tíma fullnægt - þótt ekki sé nema að einhverju leyti - dofnaði til muna. Forgangsröðin og málatilbúnaðurinn í þessu máli er með slíkum ólíkindum. Ég sá áðan að Egill Helgason hafði birt þessa frásögn og ætla að taka mér sama bessaleyfi. "For the record", eins og sagt er. Um er að ræða kærurnar á hendur fjórum fjölmiðlamönnum og Eyjunni - fyrir að segja okkur sannleikann.

Flestir ættu að muna eftir þessum atburði sem fjallað var um í byrjun apríl. Ef ekki skulum við rifja upp nokkur atriði. Hér er grein Agnesar sem kærð var. Hér er pistill Egils sem hann og Eyjan voru kærð fyrir. Takið sérstaklega eftir öllum dagsetningum í ljósi þess sem síðar upplýsist.

Kristinn Hrafnsson var kærður fyrir þessi orð í Kastljósi 27. janúar 2009

 

Fréttir Stöðvar 2 - 2. apríl 2009

 

Agnes Bragadóttir og Kristinn Hrafnsson í Silfrinu  5. apríl 2009

 

Á föstudagskvöldið birti svo Kristinn Hrafnsson þennan pistil á Fésinu:

"Nú hef ég fengið staðfest að fyrsta sakamálið sem kom til lögreglurannsóknar hjá Ólafi Haukssyni, sérstökum saksóknara, var meint brot mitt á lögum um bankaleynd. Einnig hef ég fengið staðfest að sama mál er það fyrsta sem kemur til afgreiðslu hjá Birni L. Bergssyni, settum sérstökum ríkissaksóknara. Ég vona að það gefi ekki tóninn um starf þessara embætta sem stofnuð voru til þess að rannsaka og ákæra í málum sem tengjast bankahruninu. Ekki held ég að þeim hinum ,,sérstöku", Ólafi og Birni, hafi þótt neitt sérstaklega skemmtilegt að byrja hreinsunarstarfið á því að eltast við mig auman.

Til upprifjunar skal þess getið að meint brot fólst í því að upplýsa í viðtali í Kastljósi undir lok janúar um stórfelldar lánveitingar Kaupþings til Róberts Tchenguiz sem var hluthafi og stjórnarmaður í Existu - sem aftur var stærsti einstaki eigandi Kaupþings. Til skemmtunar skal þess getið að Róbert þessi er sonur Íraka sem tók sér nafnið Tchenguiz en það ku vera persneska útgáfan af fornafni Gengis Kan. Upplýsingarnar um Róbert Tchenguiz áttu að birtast í Kompásþætti í lok janúar en ég og félagar mínir vorum reknir og þátturinn sleginn af fjórum dögum fyrir sýningardag.

Í vor nánar tiltekið 2. apríl fæ ég boðsent bréf frá FME þar sem því er lýst Kristinn Hrafnsson tekur við bréfi FME 2. apríl 2009 - Ljósm.: Helgi Seljanyfir að ég hafi brotið bankaleyndarákvæði laga um fjármálafyrirtæki. Ég fékk svigrúm til andmæla og lögmaður minn sendi svarbréf þar sem m.a. var bent á þá augljósu staðreynd að ég ynni ekki fyrir fjármálafyrirtæki. Mér kæmi bankaleynd því ekki við.

Í gær fékk ég svo staðfest að Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari var þá, löngu áður, búinn að afgreiða mitt mál. Hann tilkynnti FME þá ákvörðun sína að aðhafast ekkert frekar í mínu máli með bréfi sem sent var stofnuninni 18. febrúar. Jafnframt benti Ólafur FME á að stofnunin gæti kært þessa ákvörðun hans til ríkissaksóknara innan mánaðar ef hún vildi ekki una henni. FME lét þann frest líða án þess að kæra.

Þrátt fyrir þetta heldur FME áfram að narta í hælana á mér og fjórum öðrum blaðamönnum sem fjallað hafa um upplýsingar úr bankakerfinu. Samkvæmt lögum á FME að ljúka málum annað hvort með stjórnvaldssekt eða með því að vísa alvarlegum brotum til lögreglu. Í mínu tilfelli var FME búin að velja seinni kostinn og lögreglan neitaði að aðhafast í málinu. Ef til vill þótti lögregluvaldinu, Ólafi sérstaka - eins og mér - að brýnni verkefni biðu.

FME vildi ekki gefast upp í þessari baráttu við blaðamennina. Í júní fékk stofnunin Eirík Tómasson, lögmann til þess að semja álitsgerð um það hvað ætti að gera við þessa ,,brotamenn" - blaðamennina fimm. Á grundvelli þessarar álitsgerðar (sem ekki fæst opinberuð) tók FME það til bragðs, í byrjun ágúst, að senda mál okkar til Valtýs Sigurðssonar, ríkissaksóknara.

Valtýr var ekki lengi að henda þessari heitu kartöflu frá sér og skilaði því snemmendis til Björns L. Bergssonar, sérstaks setts ríkissaksóknara. Þetta er sum sé fyrsta úrlausnarmál Björns. Hann hefur annars það hlutverk að ákæra í málum sem eru rannsökuð hjá Ólafi Þór Haukssyni, sérstökum saksóknara.

Hvað á Björn svo að gera við málið mitt? Ólafur Þór, lögregluarmur Björns, ákvað fyrir sex mánuðum að aðhafast ekkert frekar í mínu máli. Fresturinn til að kæra þá ákvörðun rann út fyrir fimm mánuðum. En FME gefst ekki upp.

Maður ætti auðvitað ekki að gera annað en hlægja að þessum skrípaleik. Ég hef ekki í annan tíma séð jafn einbeittan brotavilja hjá stjórnvaldi gagnvart málsmeðferðarreglum og heilbrigðri skynsemi. Það sem vekur reiði hjá mér er að þessi mál eru sett í forgang þegar samfélagið allt er enn lamað eftir verstu hörmungar sem hafa dunið yfir í hagsögu lýðveldisins. Maður hallast að því að þessum mönnum sé ekki viðbjargandi.

Ég hef þurft að eyða tíma í þessa helvítis vitleysu á meðan ég ætti að vera að sinna öðrum og brýnni verkefnum. Hver ætlar að borga mér fyrir þá vinnu? Hver ætlar að axla ábyrgð á þeim lögmannskostnaði sem fylgt hefur þessu stússi? Þess utan: Hver ber ábyrgð á því að þessi skrípaleikur hefur skaðað tiltrú á Fjármálaeftirlitinu og mögulega einnig embættum sérstaks saksóknara og sérstaks ríkissaksóknara?

Ég set þessa nótu hérna inn til að halda þessu til haga en þessi brandari er fyrir löngu hættur að vera fyndinn."

*******************************************

Já, þessi brandari er vissulega löngu hættur að vera fyndinn - sem og aðrir "brandarar" sem lúta að þöggun fjölmiðla. Svo virðist sem margir aðilar sameinist um að kæfa sannleikann í fæðingu, líklega vegna þess hve hroðalega ljótur hann er og hvað hann getur komið mörgum illa. Skemmst er að minnast þegar 365-miðlar ákváðu að krefja stjórnendur fréttastofa og ritstjórna um bætur sem dæmdar eru í málsóknum gegn fjölmiðlunum. Það á að gera boðbera sannleikans ábyrga fyrir brotinu sem þeir segja frá - þannig horfir þetta við mér.

Björgólfsfeðgar, ábyrgðarmenn Icesafe og fleiri hörmunga, voga sér að stefna fyrir fréttir af meintum brotum þeirra gegn íslensku þjóðinni og Wernersbræður, sem rústuðu meðal annars Sjóvá og höguðu sér eins og hér er lýst, dirfast að gera slíkt hið sama. Ef horft er til dóma í t.d. meiðyrðamálum klámkóngsins Geira á Goldfinger sem hefur nú ekki mikinn orðstír að verja, gegn fjölmiðlafólki þar sem honum hafa verið dæmdar ótrúlega háar bætur miðað við t.d. bætur sem fórnarlömbum nauðgana og misþyrminga eru dæmdar - ja... þá er ekki von á góðu frá íslensku dómskerfi. Höfum í huga í því sambandi hvernig skipað hefur verið í dómaraembætti undanfarna áratugi.

Hvernig getum við varið málfrelsið, tjáningarfrelsið - og sannleikann? Hvernig er komið fyrir samfélagi sem hindrar fjölmiðla í að gera skyldu sína: Segja sannleikann? Enn og aftur minni ég á orð Aidans White, framkvæmdastjóra alþjóðasamtaka blaðamanna, um þátt fjölmiðla í aðdraganda efnahagshrunsins, ábyrgð þeirra og hlutverk í uppbyggingunni: "Ein aðallexían sem á að koma út úr öllu þessu hræðilega ferli er sú, að fjölmiðlar eiga að tala máli þjóðfélagsins í heild. Þeir eiga að gegna þjóðfélagslegu hlutverki, vernda hagsmuni fólksins." Hvernig geta þeir það ef þeir eru beittir þöggun eins og lýst er hér að ofan - bæði af stjórnkerfinu og dómstólunum?

 Aidan White í Kastljósi 28. maí 2009

 

 Aidan White í fréttum Stöðvar 2 - 28. maí 2009

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árelíus Örn Þórðarson

Svona er Ísland í dag Lára mín.

Saklausum er kastað fyrir úlfana og allt gert til að fela hina meintu afbrotamenn.

Í mínum huga er þetta fyndið.  Á þessu ári eftir bankahrunið þá er þetta meira fyndið.

Ég held að Kristinn Hrafn geti verið rólegur þar sem öll þjóðin fyrir utan nokkra útrásarvíkinga stendur með honum.

Ég trúi engu öðru en að dómstólar í framtíðinni þori engu öðru en að standa með þjóðarsálinni og eru nú hættir að standa með ráðgefandi fyrirskpum stjórnvalda.

Við fylgjumst með enda höfum við búið á landi þar sem spillingin hefur blómstrað framar öðrum þjóðum.

Við fylgjumst með og látum aldrei spillingaröflin ná yfirhöndinni.

baráttu kveðja.

Árelíus Örn Þórðarson, 6.9.2009 kl. 05:40

2 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Já tek undir orð Árelíusar, hraust fjölmiðlafólk þarf ekki að óttast.  Sá hraustasti Kristinn Hrafnsson allra síst.   Ef sá "sérstaki" heldur að þetta sé sæmilegt fyrsta innlegg inn í rannsókn síns embættis, þá er hann enn að fljúga með fuglinum Fönix blindaður af öskunni.

Eru þessir embættismenn ekki farnir að fatta, ólguna og aflið sem býr í þessari þjóð, þegar henni er misboðið?

Jenný Stefanía Jensdóttir, 6.9.2009 kl. 06:57

3 Smámynd: Hrannar Baldursson

Ég er ekki jafn rólegur yfir þessu, tel þetta engan veginn fyndið og held að þjóðin sé í raun enn sofandi. Viðbrögð mín við grein Láru má finna hérna: VAKNIÐ! Þaggað niður í rannsóknarblaðamönnum bankaráns aldarinnar til að hemja réttláta reiði Íslendinga?

Gott framtak, Lára Hanna.

Hrannar Baldursson, 6.9.2009 kl. 07:58

4 identicon

Þetta er nú bara ótrúlegt en maður mátti svo sem reikna með þessu í þessu BANANALÝÐVELDI, hér í Svíþjóð eru fréttamenn verndaðir í stjórnarskránni (grundlagen) fyrir svona ofsóknum frá sjórnvöldum en Ísland er ekki réttarríki
eins og fólk hefur haldið.


HEFUR FME EKKERT MIKILVÆGARI MÁL AÐ RANSAKA?

Jóhannes (IP-tala skráð) 6.9.2009 kl. 08:17

5 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Pétur Blöndal og fleiri í lögjafanum eru einnig í óða önn að búa í haginn fyrir þöggunina með ví að kokka upp lagaleg skilyrði fyrir uppljóstrunum, sem gerir lögmönnum kleyft að ónýta mál vegna formgalla á upplýsingaöflun. Allavega get ég ekki séð betur.  Hér er ansi merkileg grein hjá bloggi Moggans, sem fjallar um málið undir rós. Ég gerði eilitla athugasemd þarna, sem skýrir þetta varðandi snillinginn hann Blöndal.  Hann skyldi þó ekki hafa eitthvað að fela, eða þá vildarvinir? Ekki þori ég að segja til um það, en mér er spurn hvað í ósköpunum þessi skilyrði eiga að fyrirstilla.  Greinin er annars öll til þess fallin að letja menn til uppljóstrana.

Jón Steinar Ragnarsson, 6.9.2009 kl. 08:59

6 Smámynd: Árni Gunnarsson

Tek undir með Hrannari. Þetta er grafalvarlegt mál. Ekki er annað að sjá en að embættismannakerfið sé svo spillt hér á Íslandi að okkur verði fyrirmunað að koma lögum yfir gerendur í stærsta ráni Íslandssögunnar. Það eru tíðindi sem alþjóðasamfélagið verður að fá að fylgjast með. Í rauninni þyrfti að ráða nú þegar góðan blaðamann til að rita sögu þessarar rannsóknar frá upphafi.

Árni Gunnarsson, 6.9.2009 kl. 09:04

7 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Þessar reglur gefa lögmönnum einnig færi á að snúa vörn í sókn og stefna uppljóstrurum á grunni slíks formgalla.  Semsagt ef þeir fá frið til að koma slíku inn í lög, þá verðum við komin á bekk með Kína, áður en langt um líður.

Jón Steinar Ragnarsson, 6.9.2009 kl. 09:36

8 Smámynd: Jón Kristófer Arnarson

Þetta er skelfilegt!  Sýnir svo ekki verður um villst að valdhafar í þjóðfélaginu eru á sendiboðaveiðum fyrst og fremst. 

Kjörorðið er:  Allt undir teppið.

Jón Kristófer Arnarson, 6.9.2009 kl. 09:40

9 identicon

Stjórnaskrá Ælands    1. Allir eru asnar nema Ælendingar.    2. Allt er öðrum að kenna.    3. Enginn er klókari, betri eða vitrari en Ælendingur.  4. Ælendingur má gera og segja það sem honum sýnist þegar honum sýnist eins og honum sýnist.   5. Hver sá er gerir eitthvað annað en það sem Ælendingar vilja, eða gerir hlutina öðruvísi en Ælendingar kjósa, hefur gert sig seka(n) um refsiverða háttsemi og gildir þá einu hvort viðkomandi hafði hugmynd um vilja Ælendinga eður ei. 6. Þeim sem gengur vel og líður vel hlýtur að hafa stolið einhverju frá Ælendingi og skal refsað í samræmi við það.  7. Hver sá sem er stærri og meiri en Ælendingur á einhvern hátt skal umsvifa- og undantekningalaust smækkaður með öllum ráðum.  8. Öllum sem á einhvern hátt eru frábrugðnir Ælendingum í útliti og/eða hugsunarhætti  skal vísað úr landi án tafar.     9. Ælendingur ákveður hvað er satt . 10. Þegar Ælendingur segir að hann sé ósýnilegur þá er hann það.11. Ælendingur ræður alltaf, sama hvað hver segir og hversu margir kunna að segja það, enda kemur það málinu ekkert við.12. Ælendingur er eyja og hefur þar af leiðandi ekki áhuga á öðrum en sjálfum sér.13. Ælendingur getur aldrei haft það svo gott að hann megi ekki kvarta.14. Ælendingur fer alltaf auðveldustu leiðina.15. Þeir sem ekki eru sáttir við stjórnarskrá Ælands eru ekki Ælendingar og ber því að fara eftir þessari löggjöf og virða hana í einu og öllu. Ælendingum er hins vegar frjálst að túlka hana eftir eigin höfði. 16. Nei, það eru engar mótsagnir í 16. grein. Asni.

Hörður Torfason (IP-tala skráð) 6.9.2009 kl. 10:31

10 Smámynd: AK-72

Ég held að enginn sé að misnota FME. FME er bara að reyna að verja sig því þeir voru þáttakendur í glæpnum og hafa aldrei unnið með hagsmuni almennings að leiðarljósi.

FME var einfaldlega ætlað að vera englar sem vaka yfir Sjálfstæðismönnum, Framsóknarmönnum, auðmönnum og bankamönnum, englar sem ætlað var að vernda þá fyrir uppljóstrunum, rannsóknum og réttlæti, englar sem vilja hið gamla Ísland áfram undir stjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar.

AK-72, 6.9.2009 kl. 10:57

11 identicon

Hér er mitt framlag í þessa umræðu.

http://malbein.net/?p=2682

Gísli Ásgeirsson (IP-tala skráð) 6.9.2009 kl. 11:44

12 identicon

Gott hjá þér að benda á þetta Lára Hanna, þessi þöggun og hve hátt á verkefnalista þessara saksóknara hún er, talar sínu máli. Ekki spurning að Hörður Torfa hittir naglann á höfuðið með Stjórnarskrá Ælands. Við þyrftum að fá leyfi til að leika okkur við þennan texta og gefa hann út! Hvað segirðu um það, Hörður?

Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 6.9.2009 kl. 11:44

13 identicon

Ágæti Carlos.

Stjórnarskrá Ælendinga hefur verið í umferð nokkur ár og ég sem listamaður skapa svo aðrir geti nýtt sér það sem ég geri svo njóttu vel og lengi og nota þú og aðrir verk mín að vild. Ég vil aðeins biðja ykkur um að virða höfundarréttindi.

Hörður Torfason (IP-tala skráð) 6.9.2009 kl. 11:59

14 identicon

Takk fyrir þetta, Hörður. Ætti ekki að vera nokkrum manni ofviða að geta þín þegar þessi texti er hafður um hönd.

Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 6.9.2009 kl. 12:13

15 identicon

Af hverju gagnrýnir fólk Ólaf, sérstakan saksóknara? Kristinn segir: "Í gær fékk ég svo staðfest að Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari var þá, löngu áður, búinn að afgreiða mitt mál. Hann tilkynnti FME þá ákvörðun sína að aðhafast ekkert frekar í mínu máli með bréfi sem sent var stofnuninni 18. febrúar. Jafnframt benti Ólafur FME á að stofnunin gæti kært þessa ákvörðun hans til ríkissaksóknara innan mánaðar ef hún vildi ekki una henni. FME lét þann frest líða án þess að kæra."

Joly, sem vinnur með Ólafi, hefur ekki gagnrýnt Ólaf eða sagt að hún vantreysti honum. Konan sú liggur sem betur fer ekki á skoðunum sínum og held ég að það megi treysta því að hafi hún undan Ólafi að kvarta þá kvarti hún.

Embætti Ólafs heyrir undir dómsmálaráðuneytið, en stofnunin FME heyrir undir viðskiptaráðuneytið. Hvaða boð fær FME úr viðskiptaráðuneytinu?

Helga (IP-tala skráð) 6.9.2009 kl. 13:57

16 identicon

Lára Hanna; Ég er með tillögu.

Getum við ekki stofnað sjóð sem yrði bakland fyrir blaðamenn svo þeir geti haldið áfram að leita sannleikans ? Nánari útfærslur óskast.

Kveðja. Árni Hó

Árni Kristjánsson (IP-tala skráð) 6.9.2009 kl. 14:13

17 identicon

Er svona skoðana kúgun tilkynt til erlendra stofnana/samtaka?

Bjarki Hilmarsson (IP-tala skráð) 6.9.2009 kl. 14:40

18 Smámynd: Þorsteinn Briem

Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra í viðtali 17. mars síðastliðinn: "Fráleit bankaleynd".

Grein Gylfa Magnússonar viðskiptaráðherra um bankaleynd 23. apríl síðastliðinn:


"... Hin föllnu fjármálafyrirtæki fortíðarinnar og fyrrum stjórnendur og eigendur þeirra eiga heldur ekki að geta með vísan til bankaleyndar komið í veg fyrir eðlilega opinbera umræðu um það sem fór úrskeiðis að þessu leyti á undanförnum árum.
..."

Fjármálaeftirlitið (FME)
er ríkisstofnun sem lýtur sérstakri stjórn og stofnunin heyrir undir viðskiptaráðherra.

Stjórnin er skipuð af viðskiptaráðherra til fjögurra ára í senn.
Einn þeirra er skipaður samkvæmt tilnefningu frá Seðlabanka Íslands og varamenn eru skipaðir með sama hætti.

Í stjórninni sitja nú:


Gunnar Haraldsson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, Phd, formaður stjórnar,
Kristín Haraldsdóttir, lögfræðingur, LLM.,
Jón Þ. Sigurgeirsson, framkvæmdastjóri, tilnefndur af Seðlabanka Íslands.

Fundur ríkisstjórnar Íslands 4. ágúst síðastliðinn:


Viðskiptaráðherra: Bankaleynd.

Þorsteinn Briem, 6.9.2009 kl. 15:23

19 identicon

Það kom fram í þessari wikipedia slóð: 
http://is.wikipedia.org/wiki/Robert_Tchenguiz 

. . og hefur nú verið eytt, milljarðamæringurinn Robert Tchenquiz væri náinn vinur Philip Green sem hefur stundað viðskipti með Baugi.  Og að Robert Tchenquiz þessi hafi verið stjórnarmaður í ExistuHann og róðir hans Vincent fengu 330 milljarða króna úr Kaupþingi. Kannski var það það sem Kompás fréttin átti að vera um.  Þar kom líka fram að árið 2007 hafi þeir bræðurinir verið í 78.sæti yfir ríkustu einstaklinga í BRETLANDI og Írlandi.


 

Gunnar (IP-tala skráð) 6.9.2009 kl. 15:32

20 identicon

Eftir höfðinu dansa limirnir.

Til hvers vorum við að skipta um ríkisstjórn? Þessari sem nú er við völd hefur meira segja tekist að koma frjálsum fréttamönnum, búsáhöldum og bloggi á svartan lista. Þeim árangri hefðu Geir og Solla ekki dreymt um að ná í sínum villtustu órum.

Ef núverandi stjórnvöld hafa áhuga á að ná fram réttlæti þá geta þau það. Þau kjósa hins vegar að taka beinan þátt í ofsóknum á frjálsa fjölmiðlun og umræðu í gegnum stofnanir ríkisins og fjölmiðla sem fá niðurgreiddar skuldir og þurfa ekki að borga af lánum sínum.

TH (IP-tala skráð) 6.9.2009 kl. 15:35

21 identicon

Upplýsingunum um Philiph Green í slóðinni að ofan hefur líka verið eytt úr Wikipedia.

Gunnar (IP-tala skráð) 6.9.2009 kl. 15:35

22 identicon

Ég tek undir með Helgu (no. 15).

ElleE (IP-tala skráð) 6.9.2009 kl. 15:45

23 identicon

Heil og sæl öll.

Síðan var maður að vona að eitthvað myndi breytast og færast til hins betra í þessu annars blessaða landi okkar. Ég er satt best að segja gráti næsti þessa daganna  

Er í fyrsta sinn að finna fyrir algjöru vonleysi um að eitthvað gott komi út úr öllum þessum "skít".

Ásta B (IP-tala skráð) 6.9.2009 kl. 15:51

24 Smámynd: Finnur Bárðarson

Næsta stóra verkefni Sérstaks verður að taka á bloggurum.

Finnur Bárðarson, 6.9.2009 kl. 17:17

25 Smámynd: AK-72

Örugglega Finnur. Nú er allavega Tryggvi Þór Herbertsson að heimta ritskoðun á Teiti Atlasyni fyrir að vera að gagnrýna Sjálfstæðisflokkinn. Teitur hefur veirð frekar hvass en ekkert yfir strikið þó örugglega einhverjir hafi gert það í athugasemdum.

Gamla Ísland er nefnilega að sækja í sig veðrið aftur....

AK-72, 6.9.2009 kl. 17:25

26 identicon

Það hefðu sennilega verið hægari heimatökin fyrir AK-47 að draga fram nafn Björgvins G Sigurðssonar, sem hvetur til þöggunar á blogginu.

En þar hefði hann sennilega hoggið of nærri sér pólitískt.

Skondið að enginn þeirra Samspillingarliða sem tjá sig um málin, draga fram þá staðreynd að Samspillingin og VG stjórna þessum málum. Aðför að mál og prentfrelsi hljóta því að vera á ábyrgð þessara tveggja flokka. Er það tilviljun að Björgvin G kemur fram með tárvotar ásakanir gegn nafnleysingjum á netinu á þessum tímapunkti?

Hilmar (IP-tala skráð) 6.9.2009 kl. 18:48

27 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Það er skýrt í lögum að viðskiptaráðherra endurskoðar ekki ákvarðanir FME. Þeim verður bara skotið til dómstóla. Að sama skapi gefur ráðherra stofnuninni ekki fyrirmæli nema hann hafi sérstaka heimild til þess í lögum. Skv. upplýsingum úr viðskiptaráðuneytinu eru engar slíkar heimildir í lögum.

16. október 2007 sagði viðskiptaráðherra [Björgvin G. Sigurðsson] í ræðu á Alþingi að staða fjármálaeftirlitsins sem sjálfstæðs stjórnvalds leiði til þess "að ráðherra ber hvorki pólitíska né ráðherraábyrgð á slíku sjálfstæðu stjórnvaldi".

Fleira felst hins vegar í boðvaldi ráðherra, t.d. rétturinn til að krefjast upplýsinga og hafa eftirlit með starfseminni. Þetta boðvald er ef til vill einnig takmarkað en ráðherra getur þó alltaf skipt um stjórn FME ef honum mislíkar stefnan. Þar liggur ótvírætt vald hans."

Fréttaskýring 12. nóvember síðastliðinn um lagalega og pólitíska ábyrgð viðskiptaráðherra vegna FME


Nýleg ritgerð í Opinberri stjórnsýslu í Félagsvísindadeild HÍ um störf, stöðu og hlutverk ráðherra


Ný BA-ritgerð í lögfræði í HÍ um ráðherraábyrgð

Þorsteinn Briem, 6.9.2009 kl. 18:58

28 Smámynd: AK-72

Langar nú að benda Hilmari á að ég er ekki í Samfylkingunni, var í Borgarahreyfingunni þar til nýverið og mæli með að menn horfi svo í eigin barm.

Hitt er aftur á móti annað mál að menn verða þola gagnrýni vegna pólitískra skoðana og slíkt, það sama á við Björgvin og Tryggva. Aftur á móti skil ég Björgvin allavega að því leyti að níðskrif sem beinast að því að hans persónulega lífi líkt og þarna eru lítt sæmandi.

AK-72, 6.9.2009 kl. 19:04

29 Smámynd: Þorsteinn Briem

Björgvin G. Sigurðsson, þáverandi viðskiptaráðherra, í ræðu á Alþingi 16. október 2007:

"Þýðing þess að Fjármálaeftirlitið er sjálfstæð ríkisstofnun er að rofin hafa verið tengsl á milli ráðuneytisins og stjórnvaldsins að því leyti ráðherra telst ekki æðra sett stjórnvald gagnvart hinu sjálfstæða stjórnvaldi og getur því ekki með bindandi hætti gefið þess konar stjórnvaldi fyrirmæli nema það sé sérstaklega fyrir mælt í lögum og engin kæruheimild er milli hins sjálfstæða stjórnvalds og ráðuneytisins.

Jafnframt leiðir þetta til þess að ráðherra ber hvorki pólitíska ábyrgð né ráðherraábyrgð á slíku sjálfstæðu stjórnvaldi." [???!!!]

Ræða Björgvins G. Sigurðssonar, þáverandi viðskiptaráðherra

Þorsteinn Briem, 6.9.2009 kl. 19:28

30 identicon

FME er með forgangsröðina á hreinu:

http://www.vb.is/frett/1/56026/

Á maður að trúa því að stjórnvöld komi þar hvergi nærri?

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 6.9.2009 kl. 19:41

31 Smámynd: d

Takk fyrir þetta Lára Hanna.  Þín upplýsingaveita hefur svipaða stöðu í mínum huga eins og RUV. 

Við Íslendingar gerum okkur ekki grein fyrir mikilvægi blaðamannastéttarinnar að mínu mati.  Hér er ekki borin virðing fyrir blaðamannastarfinu.  Veit ekki hverju er um að kenna, kanski skortur á menntun eins og sumir segja....veit ekki.  Held kanski frekar að þetta sé bara hluti af almennu virðangarleysi fyrir öllu hérna hjá okkur....skortur á ja, siðfágun eða mannasiðum.  Gæti verið út af fúski sumra blaðamanna sem síðan er klínt á alla stéttina.  Fúsk er reyndar að mínu mati vandamál í okkar samfélgi, svona næstum því smiðir sem eiga bara eftir að taka sveinsprófið....bifvélavirkjar sem ekki eru með réttindi osfrv...osvfr.....Eða kanski er þetta bara reynsluleysi þjóðarsálarinnar fyrir hrunið.  Allavega.  Takk.

d, 6.9.2009 kl. 21:53

32 Smámynd: d

Takk fyrir þetta Lára Hanna.   Þú ert með alvöru upplýsingaveitu! Bloggið þitt hefur fyrir mig í raun sömu stöðu og fréttastofa RÚV.

d, 6.9.2009 kl. 22:09

33 identicon

Orð í tíma töluð hjá Ármanni.   Of lítil fágun og virðing fyrir öllu.  Óhemjulegur yfirgangur og yfirvaðsla og vart búandi í landinu fyrir spillingu og virðingarleysi. 

ElleE (IP-tala skráð) 6.9.2009 kl. 22:33

34 Smámynd: Halla Rut

Eigum við ekki að safna í þessa milljón sem Björgólfsfeðgar vilja fá og láta forstöðukonu fjölskylduhjálpar afhenda þeim aurinn að viðstöddum fjölmiðlum og annarra Íslendinga sem borga eiga sukkið þeirra feðga?

Spurningin hlýtur að vera 1. Af hverju aðhafist FME ekkert þegar Róbert var lánað þarna síðast og 2. af hverju er FME á eftir þeim er vilja segja sannleikann? Tveir + tveir eru fjórir, þetta er ekki flókið.

Halla Rut , 7.9.2009 kl. 01:21

35 identicon

Góð hugmynd Halla. En nei söfnum frekar aurunum og gefum fjölskylduhjálpinni í nafni spillingar.

Förum svo og hertökum Dómsmálaráðuneytið og neitum að yfirgefa það fyrr en búið er að handtaka og kyrrsetja eignir allra bankastjórna og aðaleigenda spillingarbankana. Og gera þá og þá pólitíkusa sem eru ábyrgir fyrir hruninu ábyrga.

Ég skal standa fyrstu vaktina. Ég er búinn að fá nóg af þessu gervi lýðræði hér og þeim skemmdum sem Björn B. og fleiri unnu hér á  efnahagsbrota rannsóknardeildinni. Og ef þessi Ríkisstjórn er ekki til í að leiðrétta það strax. Þá er hún jafn sek og er að fela eigin glæpi.

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 7.9.2009 kl. 02:08

36 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Endurbirti hér athugasemd sem ég setti við fréttina á DV:

Þetta er miklu alvarlegra mál en viðbrögð benda til að fólk skilji. Að aðför að blaðamanninum sem greindi okkur frá tengslum Kaupþings og Róbert Tchenguiz sé fyrsta mál beggja „sérstöku“ saksóknaranna og forgangsmál Fjármálaeftirlitsins eftir hrun, þegar stjórnvöld höfðu heitið að allt skyldi „vera uppi á borðum“ er virkilega krípí. - Og að það er Fjármálaeftirlitið sjálft (sem brást algerlega í aðdraganda hrunsins) sem eltir manninn svona er sönnun þess að þar er spillingin botnlaus og siðleysið algert. - Rót þessarar aðfarar gegn Kristni Hrafnssyni verður að upplýsa, hverjir þrýsta hér á og toga í spotta skiptir öllu máli til að skilja spillingu hrunsins.

Helgi Jóhann Hauksson, 7.9.2009 kl. 02:10

37 identicon

Er það furða að Björn B. og Björgvin G. og fleiri, hamist á móti bloggurum núna?

Þetta pakk er að verða búið að ganga að allri frjálsri fréttamennsku hér á landi dauðri. 

Eingöngu til að hylja eigin glæpi og  samflokka sinna.

Og hvað er næst?    Stórfelldur niðurskurður á Ríkisfjölmiðlinum, þrátt fyrir nefskatt á alla? Hvaða bull er þetta. Einmitt þegar þjóðin þarf sem mest á ópólitískum óháðum fjölmiðli að halda.

Nei nú er komið nóg. Ríkisfjölmiðlana í okkar hendur. ( og ég meina að það styttist í það að fólkið taki þá) Og burt með alla pólitískt ráðna snúða þar á ofurlaunum og stórum einkabílum sem við borgum. Ég sé ekki betur en að það séu slatti af góðum frétta og blaðamönnum á lausu sem við þjóðin vildum frekar hafa sem okkar heimildarmenn.

Fólk sem þorir og á að fá frjálsar hendur til að taka á þessari spillingu. Þessi stjórn ætlar augsjáanlega ekki að gera það.

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 7.9.2009 kl. 02:45

38 Smámynd: Þorsteinn Briem

Umfjöllun Svanhildar Hólm Valsdóttur um þetta mál í nýrri kandídatsritgerð í lögfræði - Sjá bls. 71-76:

"Hver svo sem niðurstaðan verður, er ekki hægt að draga aðra ályktun af 58. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, en að ákvæðið hafi beinlínis þann tilgang að fæla fjölmiðla frá því að birta upplýsingar um málefni fjármálafyrirtækja, umfram það sem ætla má að eðlilegt geti talist. [...]

Ákvæðið, eins og Fjármálaeftirlitið virðist túlka það, stríðir gegn 73. gr. stjórnarskrár um tjáningarfrelsi, og grefur undan réttindum og skyldum fjölmiða, til að þjóna almenningi og upplýsa.
Framhjá því verður heldur ekki litið, að íslensk löggjöf veitir og veitti áður en þessi lög voru sett, vernd gagnvart birtingu persónuupplýsinga eða upplýsinga um einkahagi sem ekki eiga erindi við almenning.

Fjölmiðlamaður sem fær slíkar upplýsingar, hlýtur að verða að meta það, í ljósi þeirra réttinda sem 71. gr. stjórnarskrár er ætlað að verja, hvort þær eiga eitthvert erindi við almenning, og bregðist honum bogalistin við það mat, ætti ákvæði 229. gr. Almennra hegningarlaga að ná yfir slík tilvik. Má því heita undarlegt að ætla upplýsingum um lánveitingar bankastofnunar frekari vernd gagnvart fjölmiðlum, en öðrum einkamálefnum fólks."

Þorsteinn Briem, 7.9.2009 kl. 03:43

39 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Til áréttingar og leiðréttingar á athugasemdum mínum, þá vil ég tíunda það hér, sem fram kom í viðtali Péturs Blöndal á Mbl.  við Róbert Haraldsson, prófessor í heimspeki. Róbert telur upp fimm skilyrði, sem uppljóstrara sé skylt að hafa til hliðsjónar:

1. Að uppljóstrari telji að fyrirtækið/stofnunin sem hann vinnur hjá muni valda almenningi alvarlegum og umtalsverðum skaða með gjörðum sínum eða stefnu.

2. Að uppljóstrari hafi borið kennsl á skaðann og gert yfirboðara sínum viðvart og sannfærst um að yfirboðarinn muni ekki aðhafast.

3. Að uppljóstrari hafi nýtt aðrar leiðir sem eru mögulegar innan fyrirtækisins til að vekja máls á vandanum.

4. Að uppljóstrari búi yfir gögnum sem myndu sannfæra skynsama, óvilhalla aðila um að mat hans á hættunni sé rétt.

5. Að uppljóstrari hafi góðar ástæður til að ætla að uppljóstrunin muni líklega koma í veg fyrir skaðann.

Pétur velur sér að sjálfsögðu ekkert minna en heimspeking, sem hefur meiningar, sem henta hans sannfæringu.  Slíkir "sérfræðingar" eru ráðgefandi fyrir lögjafann og alltaf má finna einhvern, sem hefur meiningar sem falla að markmiðum þeirra sem lögin skapa. Gaman verður að sjá hvort þessi listi dúkkar upp í frumvarpi á næstunni.

Jón Steinar Ragnarsson, 7.9.2009 kl. 04:04

40 identicon

Mér þykir það verst að almenningur er að falla fyrir bullinu í útrásarvíkingum og stjórnmálamönnum....
Ég er ekki hissa þar sem ég hef ekki mikla trú á íslendingum yfirhöfuð, ég hef ekki mikla trú á að þjóðin sjái að hér er í bígerð að hefta umræður og annað sem gæti komið við kauninn á þessu liði.

Please prove me wrong iceland!!

DoctorE (IP-tala skráð) 7.9.2009 kl. 11:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband