Venjulegt fólk rís upp eða fer

Aftur ætla ég að birta pistil sem mér finnst brýnt að vekja athygli á, að þessu sinni eftir Ólaf Arnarson - með hans leyfi. Hér fjallar Ólafur um hinn óheyrilega fjölda "venjulegs fólks" sem hvorki skuldsetti sig um of né lifði um efni fram, en sér ekki fram á að geta staðið í skilum með skuldbindingar sínar mikið lengur. Ótalmargir Íslendingar eru einmitt í þessum sporum. Takið eftir að í lok pistilsins hvetur Ólafur fólk til að hafa samband við sig með dæmi úr lífi sínu.

***********************************************


Það eru fleiri í miklum vandræðum vegna hrunsins en þeir, sem komnir eru með allt í vanskil. Venjulegt fólk, sem ástundað hefur ráðdeild og reynt að hafa borð fyrir báru í fjármálum sínum, stendur frammi fyrir gerbreyttri stöðu og miklum vanda. Fólk, sem ekki telst í hópi þeirra verst settu, er óttaslegið. Það óttast að ríkisstjórnin muni einungis reyna að koma hinum allra verst stöddu til hjálpar og að engar bjargir standi því til boða ef það t.d. missir vinnuna eftir einhver ár.

Fólk, sem hingað til hefur talið sig eiga nokkrar eignir og verið í þeirri stöðu að ráða vel við sínar skuldbindingar, stendur allt í einu frammi fyrir því að þurfa að neita sér og fjölskyldu sinni um hluti, sem hingað til hafa þótt sjálfsagðir – allt til að geta staðið í skilum með lán, sem það tók ekki. Almenningur á Íslandi tók ekki lánin, eins og þau standa í dag, eftir hrun krónunnar og óðaverðbólgu. Það sýður og kraumar undir niðri og stutt er í að upp úr sjóði.

Þórður – opinber starfsmaður

Þórður er opinber starfsmaður. Hann starfar við löggæslu. Hann er einn af þeim, sem hefur fram til þessa getað staðið í skilum með sitt. Nú er hins vegar búið að skera niður alla yfirvinnu hjá honum og hann sér fram á að endar nái ekki saman.

Þórður tók lán hjá Íbúðalánasjóði síðla árs 2005. Þá var lánsupphæðin 11 milljónir. Lánið stendur nú í 15 milljónum. Þórður tók ekki erlent lán. HannÍbúðalánasjóður tók ósköp venjulegt verðtryggt lán og á fjórum árum hefur óðaverðbólga orðið til þess að verðtryggingin hefur hækkað lánið um 4 milljónir, eða um tæplega 40 prósent. Þórður keypti íbúð sína á 21 milljón og borgaði 10 milljónir út. Eigið fé hans í íbúðinni var þannig rétt tæpur helmingur af verðmæti hennar. Þórður á nokkurra ára gamlan bíl skuldlausan. Hann er búinn að leggja VISA kortinu sínu en horfir samt fram á að lenda í vandræðum. Til að halda öllu í skilum fram til þessa hefur hann þurft að ganga á yfirdráttarheimild sína í bankanum, og nú er yfirdrátturinn kominn í botn. Þórður hafði keypt hlutabréf í einum íslenska bankanum og tapaði þremur milljónum þegar bankarnir hrundu fyrir tæpu ári.

Þórður er einn þeirra, sem með sparsemi og ráðdeild höfðu byggt sér góða fjárhagsstöðu fyrir einu ári. Nú er hann einn þúsunda Íslendinga, sem er eins og sökkvandi skip. Stefnið er farið að síga og þó að allar dælur séu í gangi sekkur skipið dýpra og dýpra. Þeir skipta mörgum þúsundum Íslendingarnir, sem smám saman eru að missa greiðslugetuna og greiðsluviljann. Þetta fólk, eins og Þórður, sér enga glóru í því að berjast við vindmyllur. Þórður, sem er um fertugt, hefur verið á vinnumarkaði í tvo áratugi. Allur hans sparnaður alla starfsævina hefur nú gufað upp. Íbúðin hans hefur hrunið í verði og verðtryggða lánið rokið upp. Þórður veltir því fyrir sér hvort skynsamlegt sé að láta frysta lán sitt hjá ÍLS til að ná yfirdrættinum niður. Hann veltir því fyrir sér hvort einhver tilgangur sé í því að reyna að hegða sér skynsamlega í geggjuðum heimi.Ör

Þórður er lítið hrifinn af stjórnmálamönnum á Íslandi. Allt þar til í fyrrahaust var hann flokksbundinn sjálfstæðismaður. Eins og margir aðrir gafst hann upp á þeim flokki þegar hann horfði upp á fullkomið aðgerða- og ráðaleysi Geirs H. Haarde og ríkisstjórnar hans í kjölfar hrunsins. Hann er lítið hrifinn af núverandi valdhöfum og finnst þeir hafa svikið þjóð sína með aðgerðaleysi, sem í engu er frábrugðið aðgerðaleysi ríkisstjórnar Geirs Haarde.

Þórður er meðlimur í Hagsmunasamtökum heimilanna. Hann er sannfærður um að það styttist í að farið verði í beinar aðgerðir til að mótmæla aðgerðaleysi stjórnvalda og til að vernda hagsmuni þeirra, sem eru að missa allt sitt. Hann hefur frétt af nýjum hópi, sem hefur verið stofnaður. Þessi hópur ku kalla sig Heimavarnarsamtökin og samanstanda af yfir 100 manns, sem eru staðráðnir í að koma í veg fyrir að fólk verði borið út úr íbúðum sínum. Lögreglan á Höfuðborgarsvæðinu kannast reyndar ekki við að þessi hópur sé til. Þórður er kominn í stöðu, sem hann hefði aldrei getað ímyndað sér sjálfan sig í. Hann býst við að taka þátt í mótmælum í vetur og segist ekki ætla að láta „arfavitlausa stjórnmálamenn“ setja sig á hausinn án þess að berjast á móti, eins og hann orðar það.

Sigurbjörn og Ásdís – eignalaus svo til á einni nóttu

Sigurbjörn og Ásdís starfa bæði hjá traustum fyrirtækjum í góðum störfum. Þau hafa verið svo heppin að halda óbreyttum launum og starfshlutfalli þrátt fyrir þau áföll, sem dunið hafa á þjóðinni. Þau eru reglufólk og telja sig ekki hafa tekið þátt í einhverju 2007 fjárfestingar- og eyðslufylleríi. Þau eiga fjögur börn, sem öll búa á heimilinu hjá þeim.

Snemma árs 2005 keyptu þau hús, sem kostaði 36 milljónir. Þau hafa varið 4 milljónum í endurbætur á því, í smáum skömmtum eftir því sem efni og aðstæður hafa leyft. Heildarfjárfesting þeirra í húsinu er því um 40 milljónir. Kaupin fjármögnuðu þau með 26 milljón króna láni í erlendri mynt. Fjárfestingaráðgjafinn þeirra í bankanum ráðlagði þeim eindregið að taka lánið í erlendri mynt frekar en að taka verðtryggt íslenskt lán. Eftir kaupin Húsog endurbæturnar áttu þau því 14 milljónir í húsinu, eða 35 prósent. Þegar þau tóku lánið var greiðslubyrðin rétt innan við 100 þúsund krónur á mánuði. Þau voru búin að gera samanburð á gengisláni og verðtryggðu láni og komust að þeirri niðurstöðu að jafnvel þó að hin „óhugsandi“ staða kæmi upp að gengisvísitalan færi í 180, og festist þar, stæði erlenda lánið jafnfætis verðtryggðu lán, sem bæri 5 prósent vexti í 3 prósent verðbólgu, þegar upp væri staðið. Þau höfðu ekki hugmyndaflug til að láta sér koma til hugar að gengisvísitalan kynni að fara í 230-240 og festast þar.

Sigurbjörn og Ásdís höfðu átt tvo gamla bíla, sem voru orðnir nokkuð dýrir í rekstri. Í árslok 2006 ákváðu þau að selja báða bílana og kaupa einn nýjan í staðinn. Þau keyptu góðan bíl, sem kostaði 4,3 milljónir og greiddu 1,3 milljónir út. Afganginn tóku þau að láni til þriggja ára með gengistryggðum bílasamningi. Þarna voru þau með um 30 prósent eiginfjárhlutfall og viðráðanlega greiðslubyrði.

Í dag er staða þeirra hjóna talsvert önnur. Lánið í húsinu stendur í 53 milljónum og hefur því meira en tvöfaldast þrátt fyrir að þau hafi greitt af því í meira en fjögur ár. Bílalánið stendur í 5,2 milljónum og þau skulda því samtals tæplega 60 milljónir. Eignirnar eru nú metnar á 35 milljónir í mesta lagi auk þess, sem illmögulegt er, ef það er þá yfirleitt hægt, að koma þeim í verð. Áður en allt hrundi á Íslandi áttu þau hreina eign upp á 17 milljónir. Í dag er eign þeirra neikvæð upp á næstum því 25 milljónir. Þetta er sveifla upp á meira en 40 milljónir.

Hvað verður um þá sem þurfa hjálp seinna?

Greiðslubyrðin af bílnum og húsinu var samanlagt um 200 þúsund krónur á mánuði. Í dag er greiðslubyrðin komin í 450 þúsund krónur auk þess, sem þau Sigurbjörn og Ásdís þurfa nú að greiða hátekjuskatt, sem nemur samanlagt um 70 þúsund krónum á mánuði. Ráðstöfunartekjur þeirra hafa þannig lækkað um 320 þúsund krónur á mánuði. Ofan á þetta bætist síðan viðbótarkostnaður, sem stafar af verðbólgu. Það er miklu dýrara í dag að kaupa mat og aðrar nauðsynjavörur en fyrir einu ári. Þetta vegur þungt á mannmörgu heimili.

Sigurbjörn og Ásdís ráða enn við greiðslubyrðina – með herkjum. Á meðan þau bæði hafa sína vinnu geta þau staðið í skilum með því að neita sér og fjölskyldunni um margt, sem áður þótti sjálfsagt. Það er ekki lengur Fólksjálfsagt að börnin fari í spilatíma eða æfi íþróttir, hvað þá að þau geti æft bæði handbolta og fótbolta. Slíkt er liðin tíð. Þó að fyrirtækin, sem þau starfa hjá, séu traust vita Sigurbjörn og Ásdís vel að skjótt getur skipast veður í lofti. Þau eru óttaslegin. Þau heyra ráðamenn og hagfræðinga tala um alls kyns úrræði fyrir þá, sem verst eru staddir – fyrir þá, sem eru ekki eins heppnir og þau, sem enn ráða við stöðuna.

Hvað gerist eftir fimm ár ef ekki verður farið í almennar aðgerðir til að létta byrðum af öllum þeim, sem lent hafa í því að tapa á hruninu? Hvað gerist ef annað þeirra hjóna missir vinnuna eftir nokkur ár og þau hætta að geta staðið í skilum? Verða einhver úrræði í boði á þeim tíma? Verður þá kannski búið að aðstoða þá, sem verst standa núna, og afskrifa skuldir þeirra niður í viðráðanlega stöðu, en hinir sitja eftir og stendur ekki til boða nein aðstoð?

Er kannski betra fyrir Sigurbjörn og Ásdísi að fara í greiðsluverkfall og reyna að knýja fram einhver úrræði sér til hjálpar nú?. Þau hafa heyrt af kunningjum, sem hafa skipt um starf og jafnvel farið á atvinnuleysisbætur til að eiga rétt á greiðsluaðlögun.

Hrokafullir valdhafar ganga erinda útlendinga

Staðreynd málsins er að stjórnvöld sjá ekki skóginn fyrir trjánum. Þau sjá ekki að allt samfélagið er í sárum og jafnvel þeir, sem enn geta staðið í skilum með sitt, eru óttaslegnir og ráðvilltir. Greiðsluviljinn þverr. Fólk er að kafna undir skuldafargi. Á einhverjum tímapunkti spyr fólk sig hvort þessi fátæktargildra sé það samfélag, sem það vill bjóða börnum sínum. Samfélagssáttmálinn er að rofna og mun rofna ef stjórnvöld sjá ekki að sér. Það verður aldrei betra tækifæri til að koma hjólum atvinnulífs í gang og skera heimilin niður úr skuldasnörunni en einmitt núna.

Í tæpt ár hafa íslensk stjórnvöld haft fullt forræði yfir hinum föllnu bönkum. Í tæpt ár hefur ekki verið lyft litla fingri til að framkvæma almennar björgunaraðgerðir fyrir íslenskt hagkerfi. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn bannar almennar afskriftir lána. Það er vegna þess að AGS er ekki að hugsa um Ríkisstjórninhagsmuni Íslands og Íslendinga. AGS hugsar um hagsmuni erlendra kröfuhafa.

 Íslenskir stjórnmálamenn eiga hins vegar að hugsa fyrst og síðast um hagsmuni Íslendinga. Það eru ekki hagsmunir Íslendinga að hér sé haldið uppi gjaldeyrishöftum þar til gengið hefur verið frá láni til íslenska ríkisins, sem nota á til að lágmarka tap spekúlanta, sem fjárfestu í vaxtamunarsamningum á Íslandi. Það er einkennileg afstaða ríkisstjórnar Íslands, að útlendir spekúlantar megi helst engu tapa á áhættufjárfestingum sínum á Íslandi, en venjulegir Íslendingar, sem lögðu sparnað sinn í að koma sér þaki yfir höfuðið, mega éta það sem úti frýs. Þetta eru kaldar kveðjur frá fyrstu hreinu vinstri stjórninni, sem setið hefur með meirihlutastuðning á Alþingi. Satt að segja átti maður ekki von á því að þessi vinstri stjórn yrði svo trú stefnu ríkisstjórnar Geirs H. Haarde og raun hefur borið vitni.

Það sýður og kraumar undir yfirborðinu hjá venjulegu íslensku fólki. Fólk, sem hingað til hefur verið seinþreytt til vandræða, er að fá nóg. Jafnvel þeir, sem enn hafa vinnu, horfa fram á vanskil. Það er kaldur, þungur og erfiður vetur framundan hjá íslenskum almenningi. Ekki er víst að það sé mikið framundan hjá ríkisstjórninni, annað en að vera sett af, ef hún daufheyrist áfram við kröfum og neyðarópum venjulegs íslensks fólks, sem hefur orðið fyrir miklum búsifjum af völdum bankahrunsins og aðgerðaleysis stjórnvalda í kjölfar þess.

Ég hvet lesendur, sem luma á dæmum úr lífi fólks eða fyrirtækja, sem eru að verða illa úti í kreppunni vegna aðgerðaleysis stjórnvalda eða slæmrar framkomu fjármálafyrirtækja og opinberra stofnana að hafa samband við mig á netfanginu olafura@pressan.is.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ruth

Hvaða framtíð get ég boðið þeim uppá hér ....... hugsa ég daglega þegar ég horfi í augun á börnunum mínum ....

Ég á 3 drengi 4. 6. og 10 ára mig hefði aldrei grunað að ég myndi efast um velferð þeirra og framtíð hér á Íslandi....EN nú er allt breytt og mér finnst þetta mjög sorglegt

Ruth, 9.9.2009 kl. 01:03

2 identicon

Sæl Lára Hanna.

Í fáum orðumsagt ! . Þetta er mögnuð lesning og um leið er það, ofar mínum skilningi svona "BUISNESS".

Kveðja.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 9.9.2009 kl. 01:09

3 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Þetta er hrikalegt!

Það bendir líka til  að alvarlegur undirliggjandi  fólksflótti brestur á næstu 2-3 ár við óbreytt ástand.  Ef 30% af hreyfanlega fólkinu 0-45 ára flytur, þá eru þetta 60.000 manns.

Þegar fólk ákveður að flytjast búferlum með mann og mús, tekur það yfirleitt 1-3 ár frá því ákvörðun er tekin og þar til lagt er upp.  (Hér er talað af reynslu)  Fólkið sem lýst er í þessum pistli eru einmitt slíkir kandidatar, enda er ekkert í farvatninu sem bendir til að einhverju réttlæti verði fullnægt, fyrir hvað skal þá barist?  Fjölskyldu sinni og börnum, svo einfalt er það. 

Sorglegt.    

Jenný Stefanía Jensdóttir, 9.9.2009 kl. 03:27

4 identicon

Hér finnst mér að fólk eigi fyrst og fremst að rísa upp, áður en farið verður. Hversvegna, jú vegna þess sem kom framm í Kastljósi að kveldi 8, september, þar sem að hagfræðingurinn Gunnar Tómasson, sem í aldarfjórðung starfaði fyrir Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. segir eftirfarandi:

Myntkörfulánin eru ólögleg og þeir sem tóku slík lán eiga rétt á skaðabótum vegna þeirra.

Ef ekki er gert ráð fyrir þessum skaðabótum í uppgjöri skilanefndanna og kröfuhafa gömlu bankanna tapa þeir Íslendingar sem tóku myntkörfulán samtals um 200 milljörðum króna.

Vegna þessa tel ég að það verði að láta reyna á þetta mál, allavega áður en fólk pakkar saman og fari. Mér finnst þetta ljós í myrkri þeirra sem festust í þessari fellu.

HLUSTIÐ Á KASTLJÓS FRÁ 8 SEPT  KLIKKIÐ HÉR : http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4431294/2009/01/08/

Baldur Bjarnason (IP-tala skráð) 9.9.2009 kl. 08:50

5 identicon

Ég er með allt í skilum en ég er að spá í að fara ef eitthvað róttækt gerist ekki fljótlega.

Það mikilvægasta er að hreinsa pakkið út úr þinghúsinu... banna framboð sumra manna eða jafnvel flokka.... bla bla.. ég veit að þetta er róttækt, en þetta er það sem við verðum að gera... losa okkur við mafíur

En hey, biskupinn og hallelújaliðið verða rosalega glöð ef ég fer.. hahahaaha

DoctorE (IP-tala skráð) 9.9.2009 kl. 09:24

6 identicon

Finnst fólki í alvöru talað að Sigurbjörn og Ásdís hafi ekki tekið þátt í 2007 æðinu á neinn hátt?

Ef þau eru í svona góðum stöðum og ráða nú við 450.000 króna greiðslubyrði á mánuði, hví söfnuðu þau sér ekki fyrir hlutunum í stað þess að taka öll þessi lán?

Ég er svosem ekkert að halda því fram að þessi hjón hafi verið á fullu í lífsgæðakapphlaupinu, en ekki voru þau þolinmóð og vildu greinilega fá hlutina strax í stað þess að safna fyrir þeim, sem þau greinilega hefðu auðveldlega getað gert.

Við skulum passa okkur á því að vera ekki að teygja hlutina þannig að eiginlega bara allir fari að verða einhver fórnarlömb.

Að taka 20 milljón króna lán fyrir fasteign, var ekki skynsamlegt og hefur aldrei verið, hvort sem um hrun er að ræða eður ei. Þau hjónin hefðu kannski frekar átt að sætta sig við minna húsnæði og taka þá lægra lán.

Það gerði ég og þrátt fyrir atvinnumissi og fleira, þá get ég staðið við mitt og greitt niður mín lán í dag.

Björn I (IP-tala skráð) 9.9.2009 kl. 10:42

7 identicon

@ Björn, er þetta ekki ansi mikil dómharka frá þér...en þú hefur kannski séð allt þetta ástand fyrir ??? 

Ef þau voru á höfuðborgarsvæðinu þá voru 36 millj. engin óskaðleg upphæð að gefa fyrir þokkalegt hús !!

Nú varð ég svo reið útaf þínu kommenti að ég er búin að gleyma hvað ég upphaflega ætlaði að skrifa !!!!

Anna Grétarsdóttir (IP-tala skráð) 9.9.2009 kl. 13:02

8 identicon

"óskaðleg"...á að vera óskapleg !

Anna Grétarsdóttir (IP-tala skráð) 9.9.2009 kl. 13:05

9 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Mér finnst kjarninn í þessum pistli vera sá að það er búið að soga í burtu alla viðleitni fólks til að "halda áfram" og greiða í vonlausa hít, enda ekki fyrirsjáanleg að nein jákvæð eignamyndun verði í lifanda lífi hjá mörgu fólki.  Algjör forsendubrestur og ólögleg gjaldeyrislán ýkja ástandið svo að það er beinlínis "óskynsamlegt" að halda því áfram, eins og einn höfuðpaurinn lét hafa svo eftirminnilega eftir sér í dag.

Finnst líka leiðinlegt þegar aðilar, sem "sættu sig við minna" og geta þess vegna enn greitt niður sín lán, setja sig í 2007 dómarasæti, og ekki laust við að það vilji draga þessi hjón í einhvern óráðsíu dilk, sem á bara að skammast sín.

Þessi forsendubrestur lendir mismunandi á fólki, en hann lendir á öllum.  Það eru hins vegar bara "gaurar" eins og Bjarni Ármannsson og fleiri sem komast upp með að grenja út niðurfellingu á lánum, af því að það sé óskynsamlegt að greiða.

Það andar köldu frá Íslandi í dag. 

Jenný Stefanía Jensdóttir, 9.9.2009 kl. 15:01

10 identicon

Anna : Ég sá hrunið svosem ekki fyrir, en ég vissi þó að hér hafði verið hrun áður og að í byrjun 9.áratugarins missti fólk lán sín í óðaverðbólgu.  Ég sá enga ástæðu til þess að taka slík ósköp ekki með í reikninginn þegar ég tók mín lán.  Hagkerfið hefur alltaf gengið í nokkurs konar sínusbylgju og kemur til með að rétta úr sér á nýjan læk með tilheyrandi góðæri.  Líklega verða einhverjir þá sem ekki munu læra af því sem nú gerðist, taka lán sem þeir síðan ráða ekki við þegar kreppir að enn á ný.

Leitt að þú skulir verða svona reið.

Björn I (IP-tala skráð) 9.9.2009 kl. 15:33

11 Smámynd: Ibba Sig.

36 milljón króna hús fyrir sex manna fjölskyldu á höfuðborgarsvæðinu er nú engin ósköp. Hvað átti fólk að gera, búa á götunni með börnin?

Ég er í þeirri stöðu að geta enn greitt af mínum lánum en fyrir ekki svo löngu átti ég yfir 60% í húsinu mínu en í dag á ég kannski 40% í því, veit samt aldrei því það er ekki auðvelt að fá alvöru verðmat á hús þessa dagana.

Tók um daginn saman það sem þetta ástand hefur kostað okkur hjónin í ráðstöfunartekjum. Með öllu er um að ræða 250-300 þús á mánuði (hækkun lána, skerðing launa, aukin skattheimta, hækkun á matarkostnaði) og fer versnandi . Sé fram á að næstu 30 árin verði ég hokrandi hér, borgandi margfalt verð fyrir litla húsið mitt og allt annað. Borga, borga og borga og ekkert annað. Akkúrat þegar mesta baslinu var að ljúka, börnin fjögur að komast á legg og maður farinn að sjá vel fram úr hlutunum.  Við gerðum samt allt rétt, menntuðum okkur, höfum unnið frekar mikið og fjárfestum í hóflegu húsnæði og ódýrum bílum.

Er ekkert viss um að ég taki þátt í þessu áfram, við erum farin að ræða flutning af landi brott.  

Ibba Sig., 9.9.2009 kl. 15:44

12 identicon

@Björn, það er frekar grunnt á reiðinni þessa dagana en við skulum ekkert vera að munnhöggvast um þetta.

Það sem ég ætlaði upphaflega að segja er að eina rétta leiðin til að koma þessu þjóðfélagi á réttann kjöl er að gera eins og Gunnar Tómasson setti fram í Kastljósi í gær....endilega hlustið á manninn !!!

Ég er að vísu í þokkalega góðum málum með mitt..EN það er ekki þar með sagt að manni svíði ekki hvernig þessir vanvitar á Alþingi eru að grafa almenningi sífellt dýpri og dýpri gröf....virðast sleikja rassgatið á öllu erlendu valdi og láta þjóðarhag sigla sem leið liggur út að hafsauga.

Ég er orðin svo gegnumsýrð og orkulaus af reiði, eins og væntanlega ótalmargir aðrir, yfir hvernig búið er að fara með land og þjóð að ég er tilbúin í blóðuga byltingu....ekkert pottaglamur...bara út með pakkið á Alþingi !!!!

Anna Grétarsdóttir (IP-tala skráð) 9.9.2009 kl. 17:30

13 identicon

Hvernig er hægt að ætlast til að  staðið sé undir hækkunum á lánum ,bæði íbúðarlánum og bílalánum

þegar laun eru skert ,skattar hækkaðir ,matvara hækkuð  og allt gert til þess að fólk geti alls ekki staðið í skilum

með sínar skuldbindingar þó svo ,að það hafi getað það vel fyrir hrun,ég get ekki séð að þetta sé rétta leiðin út

úr vandanum. Þetta er eins og að klappa fólki á höfuðið og slá það í sömu andrá utanundir. eins og það sé verið að fyrirmuna fólki að búa hér áfram. Hvernig á þetta þjóðfélag að virka í framtíðinni ef engin er hér eftir til að borga skatta

sem þarf jú til svo allt geti gengið ,kannski ætla þeir, sem að fá alla milljarðana niðurfellda að búa hér einir og gera landið að skattaparadís fyrir fjárglæframenn framtíðarinnar og skipta með sér orku vatni kvóta og öllu því sem að gerir þetta land svo eftirsóknarvert, þetta verður kannski Dubai norðursins . Illa farið með gott fólk og gott land ,Þeir sem fengu greidd himinhá laun vegna ábyrgðar í starfi,taki vinsamlegast ábyrgð ,illur fengur er illa forgengur og hver og einn verður að standa reiknisskil á gjörðum sínum því á endanum verður hver og einn dæmdur af verkum sínum.Eða þannig ætti það að vera. Já það þarf að hreinsa út úr öllum geirum samfélagsins ,við höfum ekki efni á að fóstra afætur lengur og áttum aldri að gera það. fyrir það fyrsta .

Nei og aftur nei , stöndum saman og krefjumst réttar okkar til að búa í þessu landi án spillingar og fjárglæfra brasks.

 Það eru lög og reglur í þessu landi sem á að ganga jafnt yfir alla ,afhverju á að afskrifa lán með einu pennastriki hjá einum en ekki öðrum?? Hvernig getur réttarkerfið virkað í þessu landi þegar einn er handtekin fyrir nokkurra þúsunda krónu þjófnað en þeir sem stela milljörðum komast upp með það. Þeir eru nefnilega að sækja í sig veðrið aftur vegna aðgerðaleysis stjórnvalda og þeirra sem eiga að sjá um þessi mál.eða skulum við segja seinagangs. Það má alls ekki gerast. Ég skil vel þá sem vilja fara og reyna að skapa sér framtíð annarstaða,því það er ekkert eftirsóknarvert að vera hér áfram nema að stjórnvöld geri það mögulegt að fólk geti haldið húsnæði sínu og að öllum sé gert kleift að lifa hér mannsæmandi lífi .það eiga allir rétt á þaki yfir höfuðið og vinnu sér til lífviðurværis, ef þetta yrði tryggt er von til að fólk reyni að þrauka áfram og hjálpi til við uppbyggingu landsins okkar....

Guð blessi Ísland og fólkið í landinu.

Jenný Þorsteinsdóttir (IP-tala skráð) 9.9.2009 kl. 21:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband