27.9.2009
Er þetta mögulegt... eða ekki?
Ágætu hlustendur...
Ég lýsi eftir samfélagsvitund og samstöðu þjóðar. Þeirri hugsun, að við búum hér saman og eigum að skipta lífsins gæðum og arði af auðlindum á milli okkar á sanngjarnan og sem jafnastan hátt. Eftir hrunið heyrðust bjartsýnisraddir sem sögðu að hörmungarnar myndu þjappa þjóðinni saman líkt og eftir náttúruhamfarir, allir myndu hjálpast að, fagmennska verða tekin fram yfir flokksskírteini, siðleysið hverfa og siðferðisstaðlarnir verða eðlilegir eða viðunandi.
En nei - ó, nei. Þvílíkur endemis barnaskapur! Ekkert slíkt hefur gerst, að minnsta kosti ekki meðal þeirra sem enn vaða uppi í bönkum, skilanefndum, stjórnsýslu og stjórnmálum. Þar eru ennþá sérvaldir menn í hverju rúmi sem hygla vinum, vandamönnum, klíku- og flokksbræðrum á kostnað skattborgaranna og maka krókinn. Þeir afskrifa skuldir forríkra, skattlausra glæpamanna um leið og þeir setja þumalskrúfu á skattpíndan almenning og fangelsa smákrimma. Þeir selja eignarhluti þjóðarinnar í auðlindum hennar og komandi kynslóða til valdra braskara í heilu lagi eða hlutum. Svo ekki sé minnst á útrásardólgana sem allir ganga lausir. Þeir senda þjóðinni fingurinn, segja ábyrgðarleysi að borga skuldir sínar við hana, fá sér dæetkók með glott á vör og siðblinduglampa í augum og hækka verð á matvöru meira en góðu hófi gegnir til að fá nú örugglega nóg í sína vasa.
Eva Joly sagði að mjög mikilvægt væri að komast að sannleikanum, taka á vandanum og leita réttlætis. Öðru vísi yrði mjög erfitt að byggja upp og búa við samfélagssáttmála í framtíðinni. En Eva Joly sagði líka að réttarkerfi Vesturlanda væri sniðið til að halda hlífiskildi yfir þeim ríku og valdamiklu en dæma aðeins almenning í lægri lögum samfélagsins. Hún sagði að efnahagsglæpamenn væru mjög sjaldan teknir og látnir svara til saka. Þetta hljómar eins og óyfirstíganlegur vítahringur og súrrealískur veruleiki í eyrum fólks með óbrenglaða réttlætiskennd.
En hvað er til ráða? Hvernig er hægt að efla samstöðu þjóðarinnar, samfélags- og siðferðisvitund hennar og fá hin svokölluðu efri lög samfélagsins - þá sem stjórna og ráðskast með eigur og auðlindir þjóðarinnar - til að hafa hagsmuni okkar allra í huga í stað örfárra, gírugra einstaklinga?
Fjölmiðlarnir eiga að leika stórt hlutverk í þessu ferli því vald þeirra er mikið og áhrifin gríðarleg. En vegna fjárskorts og niðurskurðar hafa mörg vopn verið slegin úr höndum þeirra. Og nú er ljóst að eitt elsta og áður virtasta dagblað landsins, Morgunblaðið, er úr leik í opinni, heiðarlegri umræðu þar sem fjölmörgum reyndum og góðum fagmönnum úr blaðamannastétt hefur verið fórnað á altari gjörspilltra flokkshagsmuna, yfirgangs og sérhagsmuna þeirra sem græða stórfé á auðlind sjávar - á kostnað þjóðarinnar.
Ég skora á brottrekið fjölmiðlafólk allra miðla að stofna öflugan, ópólitískan og heiðarlegan fjölmiðil sem beiti sér í þágu þjóðarinnar allrar.
Hljóðskrá viðfest hér fyrir neðan.
************************************************
Hlustum á Pál Skúlason í Silfrinu 13. september sl.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Trúmál, Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 18:24 | Facebook
Athugasemdir
"Ég skora á brottrekið fjölmiðlafólk allra miðla að stofna öflugan, ópólitískan og heiðarlegan fjölmiðil sem beiti sér í þágu þjóðarinnar allrar."
Og á meðan ætlar þú sem ert nú þegar öflugur og heiðarlegur fjölmiðill ( segi nú ekki ópólitísk) að hanga áfram á Moggablogginu og skapa þar með tekjur fyrir Moggann. Einkennilegt í meira lagi.
Ég velti fyrir mér hvort vinsældir og flettingar séu að hafa áhrif á ákvarðanir fólks með að hanga áfram á þessu bloggbæli. ...já- ekki laust við að maður haldi að egóið spili hér hlutverk.
Eða er bara þægilegt system í gangi á mbl.is - einfalt að setja inn myndir og svona ? Er það ástæðan?
Þú verður að afsaka Lára en mér kemur bara ekkert annað í hug.
Hver er annars ástæðan fyrir að fólk láti bjóða sér þetta?
Ath...þetta...
Vefmælingar Modernus
Arnar Helgi (IP-tala skráð) 27.9.2009 kl. 19:04
Veistu Lára Hanna... ég elska þig í ræmur. En ég er sammála Arnari Helga hérna.
Ég veit að eitt sjónarmiðið er að halda áfram að blogga og vera mótvægi..... en mér finnst það bara út í hött.
Ég á í vandræðum með að kommenta á þessum bölvaða miðli...en læt mig hafa það í þetta skipti. Ég vil að þú farir!!!!!!!!
Heiða B. Heiðars, 27.9.2009 kl. 19:11
Þetta er eiginlega hálf-hlægilegur pistill.
Þú gerir ráð fyrir að brottreknir fjölmiðlamenn sé heiðarlegri og sannsöglari en annað fólk.
Hér að neðan eru fyrrverandi blaða og fréttamenn sem eru núverandi alþingismenn:
Álheiður Ingadóttir
Árni Johnsen
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir
Árni Þór Sigurðsson
Birgir Ármannsson
Birgitta Jónsdóttir
Björgvin G Sigurðsson
Guðmundur Steingrímsson
Katrín Jakobsdóttir
Magnús Orri Schram
Margrét Tryggvadóttir
Ólína Þorvarðardóttir
Róbert Marshall
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson
Sigmundur Ernir Rúnarsson
Skúli Helgason
Steingrímur J Sigfússon
Þráinn Bertelsson
Þórunn Sveinbjarnardóttir
Ögmundur Jónasson
Össur Skarphéðinsson
Þetta gerir þriðjung alþingis, ég nenni ekki að telja upp lögfræðingana sem er hin plágan á alþingi, en til saman gera þessir tveir hvimleiðu hópar umtalsverðan meirihluta á alþingi. Þetta er liðið sem fer í fararbroddi nýja Íslands.
Ég sé þetta fólk ekki standa fyrir neinni sérstakri byltingu, helst að þeir séu ölvaðir í ræðustól.
Blaðamenn, og þá sérstaklega þeir sem störfuðu á útrásarmiðlum (Mbl ekki undanþeginn) hafa fyrst og fremst verið snatar eigenda sinna, og birt þær fréttir sem komu sér best fyrir budduna. Flest af þessu fólki eru sjálfhverfir framapotarar, og nær engar líkur á að blaða og fréttamenn Íslands verði í fararbroddi einhverrar byltingar. Stærsti hlutinn af þeim er mengaður af náinni samvinnu við útrásarfólk, og er besta dæmið um það, að blaðamenn skipta sér upp í grúppur eftir því fyrir hvaða útrásarvíking þeir störfuðu. Sumir eru í fullri vinnu við að ráðast á Bjöggana, meðan aðrir ráðast á Jón Ásgeir. Til samans ráðast þeir svo á Davíð Oddson, enda enginn þeirra unnið fyrir hann.
Við sjáum það best þegar hinn brottrekni blaðamaður MBL, Þóra Krístin, notar starf sitt sem formaður blaðamannafelagssins til að vega að sínum fyrri vinnustað.
Og þá að þessum bloggurum, eins og henni Heiðu hér að ofan, þá er henni mest í mun að eyðileggja lýðræðislega umræðu. Það vita það allir að það verður enginn sem leitar hana uppi hvar sem hún bloggar. Hún veit það sennilega nú þegar, enda snúin til baka til að reynda að eyðileggja fyrir öllum hinum.
Á góðri íslensku, you make me sick, people.
Hilmar (IP-tala skráð) 27.9.2009 kl. 20:56
Tek undir með Arnari og Heiðu, og skora á þig að flytja bloggið. Þetta verður síðasta heimsókn mitt á þetta blogg á þessum stað, þó að ég sé mikill aðdáandi þinn.
Svala Jónsdóttir, 27.9.2009 kl. 22:00
Ætli fjölmðilafyrirtæki síðustu ára hafi ekki tapað í kringum 25-30 milljörðum, og það þrátt fyrir að eigendur hafi verið öflugir auglýsendur. Fjölmiðlar eru reknir fyrir peninga en ekki á hugsjón. Flokksblöðin eins og Tíminn, Alþýðublaðið og Þjóðviljinn fengu bæði beina og óbeina styrki. Háar fjárhæðir. RUV fær víst einhverja milljarða ofan á auglýsingarnar.
Verði þér að góðu að stofna fjölmiðil með þeim sem hafa misst vinnuna. Ég held að slík tilraun verði jafnvel enn fljótari að renna út í sandinn en Borgarahreyfingin.
joi (IP-tala skráð) 27.9.2009 kl. 22:35
Sú röksemd hefur víða komið fram að auglýsingatekjur af blogginu séu verulegar. Það er hins vegar einfalt að koma í veg fyrir að auglýsingar sjáist á síðu í sinni eigin tölvu. Adblock plus svínvirkar fyrir Firefox. Ef uppsetningin vefst fyrir einhverjum þá er einfalt að setja upp leiðbeiningar á áberandi stað.
Auglýsingarnar eru þarna eftir sem áður, en ef fjöldinn allur af lesendum lýsir yfir að lokað sé á auglýsingar á moggablogginu á sinni tölvu, fara auglýsendur e.t.v. að hugsa sinn gang.
Þessi umræða fór á flug þegar auglýsingar voru settar inn á sínum tíma - í óþökk margra.
Haraldur Rafn Ingvason, 27.9.2009 kl. 22:35
Hilmar, hvað ertu að fara? Hefurðu hugmynd um hvað lýðræðisleg umræða er? Það er voða auðvelt að úthúa öllum og ljúga upp á aðram, en hvað leggur þú til? Hvað ætlar ÞÚ að gera til að bæta stöðuna?
Maria (IP-tala skráð) 27.9.2009 kl. 22:39
Undarleg þessi María, hvað ætla ÉG að gera? Varðandi HVAÐ?
Ekki er það ÉG sem er í dramakasti og hótandi brottför af lýðræðislegum vettvangi. ÉG þarf því ekkert að gera, nema að benda á fíflaganginn í þessu. Fyrir það fyrsta, þá er þetta fólk að boða sitt brotthvarf inn í myrkur internetssins þar sem enginn les það.
Er það lýðræðið María, að vera þar sem enginn sér skoðanirnar?
Eða er lýðræðið fólgið í að fjölmiðlamenn rotti sig saman? Sjáum til, helmingur Samfylkingarinnar er fólk úr fjölmiðlaheiminum. Og ekki að fullkomlega ástæðulausu er þessi flokkur kallaður Samspillingin af mörgum.
Hvar voru allir þessir fjölmiðlamenn í aðdraganda hrunsins? Af hverju heyrðist ekki neitt frá þeim?
Ef þú hefur meðalgreind María, þá ertu búin að átta þig á að ég legg til að fólk láti skoðanir sínar í ljós, en eyðileggi ekki þann farveg þar sem raddirnar hljóma. Og sannarlega mæli ég ekki með að fjölmiðlamenn ráði umræðunni.
Annars hef ég þá kenningu, að í kjölfar árása Samfylkingarfólks á bloggara fyrir u.þ.b. hálfum mánuði með grátbólgnu bloggi Björgvins G Sigurðssonar, hafi menn reynt að finna einhverja aðferð til þess að þagga niður í umræðunni. Mér virðist að Samfylkingin hafi stokkið á þetta tækifæri, og rói öllum árum að eyðileggja þennan vettvang.
Hilmar (IP-tala skráð) 28.9.2009 kl. 00:40
Auðvitað er samfylking að vinna í að beina athyglinni frá þeirri erfiðu stöðu sem hún er í. Það virðist enginn fjölmiðill taka þetta upp á sína arma og benda á þetta. Íslenskir blaðamenn virðast hafa þann leiða vana að flytja fréttirnar EFTIR að hlutirnir áttu sér stað, nema kannski það eigi sér stað stórburni eða eitthvað slíkt, þá er hringt í þá að fyrra bragði.
Atburðir síðustu daga eru gríðarlegt reiðarslag fyrir Íslendinga. Blaðamenn á Íslandi finna enga þörf á að fjalla um þessi mál.
Hvað gerist t.d. ef bankarnir gefa eftir stóran hluta af húsnæðisskuldum almennings? Hvað gerist ef ríkisstjórnin fer að tengja við launavísitölu greiðslu af íbúðalánum? Líklega versnar staða bankanna enn meira við afskriftir. Þeir sem upphaflega lánuðu bönkunum þessa peninga vilja væntanlega fá þessa peninga til baka. Bankarnir þurfa að finna tekjuleið til að borga mismuninn eða hvað? Allr þekkja Íslendinga. Um leið og farið verður að tengja greiðslur við launavísitölu hefst stríðið að fara framhjá hefðbundnum launagreiðslum. Ekki er ég viss um að ríkið fái jafn mikið í kassann þegar búið verður að tengja greiðslur af íbúðalánum við laun, og þar að auki hækka tekjuskattinn um tugi prósenta eins og fyrirhugað er. Svört atvinnustarfsemi gjöriði svo vel.
Koma svo blaðamenn. Vakna af ykkar væra þyrnirósablundi.
joi (IP-tala skráð) 28.9.2009 kl. 09:31
Erlent rannsóknateymi, STRAX.
Eruð þið ekki búin að átta ykkur á því að hingað þarf að koma erlent rannsóknateymi til að upplýsa um stærsta bankasvindl í Evrópu.
Góðir Íslendingar. Útaf hverju er ekki sagt nei við Breta og Niðurlendinga? Af því að þá koma hér hersveitir eftirlitsmanna og rannsóknateyma. Þá mun það koma í ljós að íslenskir bankaeigendur og stjórnendur í skjóli stjórnmálamanna og flokka, kafsigldu íslenskan almenning í glannaskap sínum.
Við erum að tala um að þessir aðilar höfðu veðsett Ísland, gegn okurlánurum Evrópu. Ef almenningur kemst að hinu sanna, sem verður aðeins ef eftirlitsaðilar og rannsóknateymi koma hér til lands og fá að rannsaka sukkið, þá mun fjórflokksmúrinn falla, svipað og Berlínarmúrinn sem féll 1991.
Ég spái því að fjórflokksmúrinn falli árið 2010, ég finn það á mér að íslenskur almenningur fær uppreisn æru. Réttlætið mun sigra að lokum og þá mun fjórflokksmúrinn vondi falla.
Sú hætta að fjórflokksmúrinn geti fallið, því berst Steingrímur Joð hartrammi baráttu við að afhenda Icesave skuldaklafa á íslenska þjóð, svo hann og fleiri geti haldið áfram í pólítík.
Sveinbjörn Ragnar Árnason, 28.9.2009 kl. 14:03
Ég skora á brottrekið fjölmiðlafólk allra miðla að stofna öflugan, ópólitískan og heiðarlegan fjölmiðil sem beiti sér í þágu þjóðarinnar allrar
Fjölmiðill verður hvorki ópólitískur né heiðarlegur þó þar vinni blaðamenn sem einhvern tímann hafa misst vinnuna. Hvaða rugl er þetta? Það er misjafn sauður í mörgu fé og líka í stétt blaðamanna. Ég hef haldið að blaðamenn ættu að vera þversnið af þjóðinni .Ekki held ég að það verði góður fjölmiðill sem er stofnaður til að vera einhvers konar verndaður vinnustaður fyrir vonsvikna, brottrekna blaðamenn. Held þeir hafi bara gott af því að slást við fólk með ólíkar skoðanir eins og við öll hin.
Soffía (IP-tala skráð) 28.9.2009 kl. 21:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.