Síðbúin afsökunarbeiðni

Hvort sem Magnús Þór Sigmundsson er álfur eður ei, þá er hann frábær listamaður. Margir hrifust mjög af laginu sem hann flutti í þættinum Á rás fyrir Grensás á föstudagskvöldið. Ég fæ ennþá gæsahúð þegar ég hlusta á lagið. Eins og fram kemur í þessari hressilegu frétt á vef Önfirðingafélagsins (af bb.is) samdi hann lagið fyrir vestfirska karlakórinn Fjallabræður, sem flytja lagið með honum auk stórfínna tónlistarmanna.

Í fréttinni kemur fram að Magnús Þór hafi búið m.a. í Keflavík og á Flateyri, en búi nú í Hveragerði. Hann og fjölskylda hans eru því meðal þeirra sem fá yfir sig eiturgufurnar úr borholum Bitruvirkjunar ef hún verður reist.

Ég hringdi í Magnús Þór til að fá leyfi hans til að birta lagið og var það auðfengið. Hann sagði mér að lagið væri síðbúin afsökunarbeiðni. Síðbúin afsökunarbeiðni til landsins, náttúrunnar, auðlindanna... alls þess, sem nú er ýmist verið að selja og/eða eyðileggja. Arfleifðar okkar og afkomenda okkar.

En hér er lag Magnúsar Þórs, Freyja, flutt af honum sjálfum, vestfirska karlakórnum Fjallabræðrum og vel völdum tónlistarmönnum. Þetta er glæsilegur flutningur á frábæru lagi og mögnuðum texta sem ég skrifaði niður eftir eyranu. Náði honum vonandi réttum.


Freyja

Fyrirgefðu mér
undir fótum ég fyrir þér finn
ég man
þú varst mín
hér eitt sinn.

Kæra Freyja mín
á ég skilið að eiga þig að
eftir að hafa þér
afneitað?

Ég seldi þig
fiskinn í sjónum og fjöreggin mín
grundirnar, fjöllin og vötnin þín
fyrir hvað?

Já, ég seldi þig
skelina, legginn og manndóminn
skildi við fjallkonuna
gulllin mín - fyrir hvað?

Fyrirgefðu mér
ég fyllti upp í dali með fjöllunum
ég heyrði ekki söng þinn og seið
mér varð á.

Já, ég skammast mín
er þú sál mína særir til þín
þar sem tár þinna jökla og fjallasýn
kveðast á.

Já, ég seldi þig,
fiskinn í sjónum og fjöreggin mín
grundirnar, fjöllin og vötnin þín
fyrir hvað?

Já, ég seldi þig
skelina, legginn og manndóminn
skildi við fjallkonuna
gulllin mín - fyrir hvað?

Kæra Freyja mín,
á ég skilið að eiga þig að
eftir að hafa þér
afneitað?

Höfundur:  Magnús Þór Sigmundsson

Með birtingu þessa lags og texta hefst baráttan gegn Bitruvirkjun hér á síðunni - aftur. Látið boð út ganga!


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Elsku Lára...

Þarna erum við komnar hringinn :) Ég hitti þig fyrst þegar ég kom æðandi heim til þín til að skrifa undir mótmæli vegna Bitruvirkjunar.

Heiða B. Heiðars, 29.9.2009 kl. 00:18

2 Smámynd: Steingrímur Helgason

Þá þjappa ég mér aftur þéttur í vörnina...

Steingrímur Helgason, 29.9.2009 kl. 00:23

3 identicon

Já þetta er frábært lag og á vel við! Takk fyrir!

Minni á www.hengill.nu (þar stendur m.a. af hverju þarf að senda aftur inn athugasemd) og að fáir dagar eru til stefnu - fresturinn til að gera athugasemd í þetta skiptið rennur út 3.okt!! Ekki gefast upp...

Petra Mazetti (IP-tala skráð) 29.9.2009 kl. 00:32

4 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Það er ógleymanlegt, Heiða... 

Þjöppum okkur saman, Steingrímur. Sameinuð sigrum við!

Lára Hanna Einarsdóttir, 29.9.2009 kl. 00:32

5 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Takk.............í þúsundasta skiptið. Við verðum að standa saman.............við þessir afturhaldsseggir.  Í mínum haus er það svo klárt að við höfum ekki rétt til þess að fara svona með þetta fallega land sem við eigum (áttum?).

Við höfum ekki þennan rétt................

Hólmdís Hjartardóttir, 29.9.2009 kl. 00:42

6 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Jebb... þú byrjaðir á því að gera mig alveg hræðilega vandræðalega með fyrstu setningunni sem þú sagðir við mig :D (ekki endurtaka hana hérna... þá verð ég bara aftur vandræðaleg)

En restin af spjallinu var sko allt annað en vandræðalegt. Mikið er ég ánægð með að hafa kynnst þér!!! (...endar með vasaklút og fiðlu ef ég hætti ekki núna)

Heiða B. Heiðars, 29.9.2009 kl. 00:44

7 identicon

Frábært lag, talað fyrir munn margra en fleiri mættu hugsa sinn gang og iðrast. Sumir gera það samt kannski ekki fyrr en of seint. Leyfði mér að tengja inn á facebookið mitt.

Solveig (IP-tala skráð) 29.9.2009 kl. 00:48

8 identicon

Þetta er stórkostlegt lag og flutningur frábær. Ég verð að viðurkenna að þetta lag er mér mikil hvatning í baráttunni framundan. Sjáumst og heyrumst í baráttunni framundan.

Finnbogi Vikar

Finnbogi Vikar (IP-tala skráð) 29.9.2009 kl. 07:32

9 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Yndislegt lag og já við tökum baráttuna.

Jenný Anna Baldursdóttir, 29.9.2009 kl. 07:57

10 Smámynd: Jón Á Grétarsson

Mig langar að benda á að Hellisheiðarvirkjun er um 20 km frá Rauðavatni og fólk í Reykjavík og Kópavogi hefur orðið vart við mengun frá þessari virkjun.

Bitruvirkjun er hinsvegar rúmlega 4 km frá Hveragerði.

Jón Á Grétarsson, 29.9.2009 kl. 08:40

11 identicon

Lagið stórkostlegt! Hér græt ég. Nú er að duga eða drepast! Hvað er næst á dagskrá? Ég vil vera með!

Hildur Harðardóttir (IP-tala skráð) 29.9.2009 kl. 08:57

12 Smámynd: Jón Á Grétarsson

Þeas fyrirhuguð Bitruvirkjun sem ég vona að verði aldrei að veruleika.

Jón Á Grétarsson, 29.9.2009 kl. 08:59

13 identicon

Berja skal virkjun Bitru í gegn

brytja í kaupbæti niður

fólk er leyfir sér illri fregn

fúlsa við og þykja miður.

Hafsteinn Hafsteinsson (IP-tala skráð) 29.9.2009 kl. 09:53

14 identicon

Úff......Þetta lag hitti mig í hjartarstað.

Arnar Helgi (IP-tala skráð) 29.9.2009 kl. 10:07

15 identicon

Sannast að tónlist og texti getur haft meir áhrif en langt blogg. Magnús ætíð góður, nú með nýjum karlakór að vestan, og Unni "Bassa"dóttur.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 29.9.2009 kl. 10:57

16 Smámynd: Rut Sumarliðadóttir

Maggi svíkur ekki fyrr en fyrri daginn, frábært.

Rut Sumarliðadóttir, 29.9.2009 kl. 11:44

17 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Lag og texti Magnúsar er frábært og fluttningur hans og Fjallabræðra sömuleiðis. Varðandi Birtuvirkjun þá tek ég ekki afstöðu með eða á móti, en minni á að verið er að gera tilraunir með útblástur fá iðjuverum, geta þær tilraunir ekki verið nýtilegar til að eyða þeim efnum sem þarna koma upp? Ég bara spyr og trúi ekki öðru en að lausn finnist á því eins og svo mörgu öðru hjá okkar tæknivæddu þjóð.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 29.9.2009 kl. 15:44

18 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Nú skil ég nafnið Bitru-virkjun.

Jón Steinar Ragnarsson, 29.9.2009 kl. 22:00

19 identicon

Hættum við Bakka, hættum við Helguvík, hættum við Bitruvirkjun.  Skellum svo bara í lás og hendum lyklinum....

Lesandi (IP-tala skráð) 29.9.2009 kl. 22:51

20 Smámynd: Hulda Haraldsdóttir

Takk fyrir, vissulega trítla tárin og hugurinn reikar heim í sveitina mína við þennan flutning   Magnús þór klikkar aldrei.

Hulda Haraldsdóttir, 29.9.2009 kl. 23:17

21 Smámynd: Kristinn Snævar Jónsson

Nei! Látum ekki af hendi "Landið sem lengi var".
Textann við samnefnt lag mitt samdi ég haustið 1998 þegar baráttan um Eyjabakkasvæðið stóð sem hæst. Það var tekið upp í flutningi landsliðs tónlistarmanna. Ari Jónsson, sem gerði "Söknuð" að lagi þjóðarinnar 1969 með Roof Tops, ljær laginu saknaðarfulla rödd sína sem undirstrikar það að ómetanlegar náttúruperlur eru ekki til að sakna sem glataðra fyrirbæra heldur til að upplifa, ætíð; nú, og af kynslóðum framtíðar.

Kristinn Snævar Jónsson, 29.9.2009 kl. 23:43

22 identicon

Takk fyrir þetta framtak Lára Hanna. Boðskapur Magnúsar Þórs er fallegur og hittir sannarlega í mark. Vona að þjóðin sé þess nú umkomin að horfa lengra fram á veginn eins og raunar nýlegur úrskurður umhverfisráðherra, um heildstætt mat á áhrifum virkjunar í Helguvík, er vísbending um. Opin græn svæði í nágreni byggðar, er nýtast almenningi til heilsueflingar, eru ekki síður hverfandi auðlind sem nauðsynlegt er að taka inn í skipulagsmál af meiri krafti en verið hefur. Í samhengi höfuðborgarinnar ætti Hengill að vera hjartað í kraganum umhverfis höfuðborgina. Ég segji því nei við frekari virkjunum á Hellisheiði... a.m.k. þar til heildstætt mat hefur farið fram.
Þakka þér baráttuandann.

kv, Jón Gauti

Jón Gauti Jónsson (IP-tala skráð) 30.9.2009 kl. 09:02

23 identicon

sæl Lára

textinn er réttur nema að "dalinn" á að vera dali

 ég fyllti upp í dali með fjöllunum

takk fyrir mig

baráttukveðja

Magnús Þór

Magnús Þór Sigmundsson (IP-tala skráð) 30.9.2009 kl. 15:47

24 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Yndislegt lag og hann klikkar ekki þessi álfur, enda eru þeir bestir

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 30.9.2009 kl. 19:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband