Látum ekki stela frá okkur landinu!

Ég skrifaði mína fyrstu bloggfærslu hér 1. nóvember 2007 með þessari sömu fyrirsögn. Bloggfærslan leit svona út og er líklega sú stysta sem ég hef skrifað. Og ég kunni ekki þá allt sem ég kann nú og nota í blogginu.:

1.11.2007

Látum ekki stela frá okkur landinu!

Kynnið ykkur fyrirhugaðar virkjanaframkvæmdir á Hengilssvæðinu og takið afstöðu.
www.hengill.nu

*******************************************

Ég byrjaði að blogga gagngert til að vekja athygli á þeirri tilgangslausu eyðileggingu á undursamlegri náttúru sem fyrirhuguð var - og er - með því að reisa gufuaflsvirkjun á Ölkelduhálsi, Bitruvirkjun. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan og umbylting orðið í þjóðfélaginu - en ekkert hefur breyst hvað þetta mál varðar. Við vorum fjögur sem ýttum úr vör, höfðum öflugt bakland og fyrr en varði vatt þetta allt upp á sig svo um munaði. Baráttan gegn Bitruvirkjun varð öflug og ótalmargir tóku virkan þátt í henni á ýmsan hátt. Fjöldi fólks hefur farið um þær slóðir sem yrðu lagðar í rúst og mega ekki til þess hugsa. Í tvígang slógum við athugasemdamet. Fyrst í nóvember 2007 með athugasemdum við mat á umhverfisáhrifum og síðan í maí 2008 með athugasemdum við breytingu á deiliskipulagi þar sem óspjallaðri náttúru, að hluta til á náttúruminjaskrá, átti að breyta í iðnaðarsvæði. Skoðið myndirnar hér og hér.

Skipulagsstofnun sendi frá sér álit á fyrirhuguðum framkvæmdum 19. maí 2008. Þar sagði m.a.: "Það er niðurstaða Skipulagsstofnunar að bygging Bitruvirkjunar sé ekki ásættanleg vegna verulegra neikvæðra og óafturkræfra áhrifa á landslag, útivist og ferðaþjónustu. Um er að ræða lítt snortið, fjölsótt útivistarsvæði í nágrenni þéttbýlis/höfuðborgarsvæðisins og býr svæðið yfir stórbrotnu landslagi sem m.a. einkennist af fjölbreyttri hveravirkni. Fyrirhuguð Bitruvirkjun myndi breyta landslagsásýnd þessa lítt raskaða svæðis í ásýnd iðnaðarsvæðis."

Í framhaldi af þessu áliti Skipulagsstofnunar var fyrirhugaðri virkjun frestað um óákveðinn tíma af hálfu Orkuveitu Reykjavíkur og Sveitarfélagið Ölfus sló skipulagsbreytingum á frest. Hér er stiklað á stóru um baráttuna gegn Bitruvirkjun 2007-2008:

Mér finnst allt of lítið gert af því að skoða og fjalla um fórnirnar sem færðar eru fyrir nokkra kerskála sem kallaðir eru álver. Hvað þarf til að keyra risaálver eins og fyrirhugað er að reisa í Helguvík. Og sem sumir vilja reisa á Bakka. Orkusóunina, náttúruspjöllin og fjárfestingar fyrir risastór erlend lán til þess eins að skapa örfá, rándýr störf í álverksmiðju sem flytur gróðann úr landi og borgar litla sem enga skatta. Til að knýja hið öfluga álver sem fyrirhugað er í Helguvík þarf alla fáanlega orku á suðvesturhorni landsins að neðri hluta Þjórsár viðbættum. Varla yrði eitt megavatt eftir í aðra atvinnustarfsemi. Sjáið bara þetta:

Fréttir Stöðvar 2 - 5., 6. og 9. janúar 2009

 

Hvaða vit er í svona nokkru? Það þarf að þurrausa alla orku á þéttbýlasta svæði landsins til að keyra eitt einasta álver! Svo er fólk að láta sig dreyma um gagnaver og alls konar aðra atvinnustarfsemi. Jafnvel bílaflota sem gengur fyrir rafmagni. Gleymið því. Orkan fer öll í álverið - ef af verður.

Næstu daga ætla ég að rifja upp það sem ég skrifaði í áður - því baráttan gegn Bitruvirkjun er hafin aftur. Sveitarfélagið Ölfus auglýsti enn á ný breytingu á skipulagi og rennur athugasemdafrestur út 3. október nk. - á laugardaginn. Brettum upp ermarnar og söfnum liði, gott fólk! Það er skammur tími til stefnu. Þeir sem voru með síðast kannast við ferlið.

Neðst í hverri einustu færslu út vikuna verða viðfestar tillögur að mismunandi athugasemdabréfum sem öllum er frjálst að nota að vild - annaðhvort óbreytt eða með eigin breytingum. Það þarf að prenta athugasemdabréfið út og senda það í pósti á tilgreint heimilisfang. Svo hengi ég líka við stórmerkilega úttekt Björns Pálssonar og Ingibjargar Elsu Björnsdóttur sem þau tóku saman og sendu frá sér í gær.

Úr fyrri baráttu - Fréttir Stöðvar 2 - 12. maí 2008

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl baráttukona!

Þetta hljómar aldeilis eins og íslensk stjórnvöld hafi alls enga stjórn á gráðugum álfurstum og íslenskum þjónum þeirra. Þvílík vitleysa að ætla að fara að menga meira og eyðileggja alla náttúru. Við leggjum til að Ísland verði lagt undir Niðarós biskupsstólinn á ný. Þá geta fyrrverandi forsætisráðherrar notað tímann í að heimsækja Þrándheim og skoða dómkirkjuna þar, í stað þess að skaða náttúru Íslands með enn meiri mengunarframkvæmdum og fórnargjöfum sem aldrei munu koma Íslandi eða íbúum þess að neinu gagni. Húrra fyrir fólki sem er ekki sama og nennir að lyfta penna til að skrifa mótmælabréf! (-;

Ragnheiður Ólafs (IP-tala skráð) 30.9.2009 kl. 02:51

2 Smámynd: GRÆNA LOPPAN

Varmaorkan

"Jarðvarmaorkuver eru hagkvæmari en jarðgufuvirkjanir. Í þeim fyrrnefndu er framleitt bæði heitt vatn til upphitunar og raforka, sbr. orkuverin í Svartsengi og á Nesjavöllum, og þá er auðlindin líka best nýtt og á sem umhverfisvænastan hátt. Jarðgufuvirkjanir eins og þær í Kröflu, á Hellisheiði og Reykjanesi framleiða eingöngu raforku, nýta varmaorkuna mun verr og eru ekki eins vistvænar." Stefán Arnórsson, prófessor í jarðefnafræði og hefur starfað að jarðhitarannsóknum og -nýtingu í 40 ár. Fbl. 18. okt. 2007, bls. 32.

12%

"Þorsteinn benti á að við raforkuframleiðsla með jarðhita nýtist um 12% af orkunni sem kemur úr iðrum jarðar. Hin 88% fari út í umhverfið, fyrst og fremst í mynd varmaorku. "Mér finnst þetta ekki forsvaranleg nýting á auðlindinni," sagði Þorsteinn [Ingi Sigfússon, prófessor og forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands]". Mbl. 18. okt. 2007.

GRÆNA LOPPAN, 30.9.2009 kl. 07:04

3 Smámynd: Sigurjón Jónsson

Sæl Lára og takk fyrir alla pistlana.

Ég veit ekki hvort fólk gerir sér almennt grein fyrir því hver kostnaðurinn sem við þurfum að borga er mikill á hvert starf í Fjarðaráli.

Ef við tökum bara kostnað Landsvirkjunar þá var hann yfir 130 milljarðar á byggingatímanum. Þetta var tekið að láni í erlendum gjaldeyri og er því núna um 250 milljarðar.

´Tilgangur álversins var að skapa störf á Austurlandi. Störfin eru 390 í álverinu sem sagt fjárfesting á hvert starf 640.ooo.ooo.-

Þetta er fáráðnleg fjárfesting í starfi í skítugu mengandi álveri.

Nú veit ég að álverssinnar fara að tala um afleidd störf, en það eru afleidd störf í öllum atinnugreinum svo þau rök eru bull.

Ef menn á annað borð voru að hugsa um störf á Austurlandi og voru tilbúnir til að hætta svona miklum peningum, þá voru margir aðrir kostir í stöðunni.

Og núna rísa menn upp á Húsavík og vilja byrja sama leikinn aftur.

Þetta er örugg leið til að setja landið endanlega á hausinn.

Sigurjón Jónsson, 30.9.2009 kl. 09:14

4 identicon

Takk fyrir þessa ábendingu, græna loppan. Það er eins og framkvæmdaraðilar taki ekkert mark á þessum íslensku sérfræðingum. Hvort sem það eru jarðfræðingar, læknar eða aðrir sem vara við einhverju í sambandi við þessar virkjanir þá er ekkert staldrað við. Blaðamenn vekja varla athygli á því heldur, ein lítil frétt og svo er það dautt. Í skrif Björns og Ingibjargar Elsu neðst í bloggfærslu Láru Hönnu koma fram ýmsar niðurstöður úr rannsókn sem var gerð á fólki sem hefur búið við brennisteinsmengun í lengri tíma (kafli 10-11). Það er mikil ábyrgð að nota íbúana sem tilraunadýr þegar vitað er um þessar áhættur.

Petra Mazetti (IP-tala skráð) 30.9.2009 kl. 09:31

5 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Engar virkjanir fyrir Álver

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 30.9.2009 kl. 09:48

6 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Alveg nóg komið af álverum, takk fyrir!

Emil Hannes Valgeirsson, 30.9.2009 kl. 11:31

7 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

hMM, á Nesjavöllum - er gufan fyrst nýtt til raforkuframleiðslu, en síðan fer heita vatnið um varmaskipta, þ.s. kalt vatn er hitað til húshitunar.

 Krafla, sennilega rétt, nýtir einungis um 20% af orkunni úr holunni. En, en - það væri alveg hægt að bæta hitaveitu við ferlið, til að auka orkunýtinguna.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 30.9.2009 kl. 12:34

8 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Þ.e. galli, hve stór þessi álveg eiga að vera.

En, eitt á móti, þó störfin séu dýr, þá eru það ekki Íslendingar, sem borga þau laun, hvort sem er - ekki satt?

Svo, dýrleiki starfanna sem slíkra, er eiginlega "beside the point".

----------------------------------

Þ.s. skiptir máli, er náttúruspjöllin er eiga sér stað. Eru þau ásættanleg eða ekki, er sú spurning er skiptir langmestu máli.

Kv

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 30.9.2009 kl. 12:37

9 Smámynd: Kristinn Snævar Jónsson

Nei! Látum ekki af hendi "Landið sem lengi var".
Textann við samnefnt lag mitt samdi ég haustið 1998 þegar baráttan um Eyjabakkasvæðið stóð sem hæst. Það var tekið upp í flutningi landsliðs tónlistarmanna ásamt fleir lögum á plötunni Kveikjur. Ari Jónsson, sem gerði "Söknuð" að lagi þjóðarinnar 1969 með Roof Tops, ljær laginu saknaðarfulla rödd sína sem undirstrikar það að ómetanlegar náttúruperlur eru ekki til að sakna sem glataðra fyrirbæra heldur til að upplifa, ætíð; nú, og af kynslóðum framtíðar.

Annað lag og texta má nefna þar á plötunni um þessi málefni, þ.e. "Hvar verða móar?". Í þeim texta beini ég sjónum að umhverfinu nær okkur, byggingarsvæðum þéttbýlis, þar sem m.a. lyngmóum og -brekkum er miskunnarlaust grandað undir járnbeltum grafandi og keyrandi jarðvinnutækja þar sem rýmt er fyrir vaxandi byggð.

PS. Þessi færsla lenti óvart í athugasemdum við pistil Láru Hönnu hér næst á undan, en á svo sem ekki síður við þar.

Kristinn Snævar Jónsson, 30.9.2009 kl. 22:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband