Brátt verða hliðin opnuð

Kunningjakona mín kom heim eftir stutta dvöl í útlöndum fyrir rúmri viku. Hún hafði ekki farið út fyrir landsteinana um nokkurt skeið og henni brá þegar hún kom aftur. Þetta er næm kona og hún sagðist hafa fundið svo neikvæða orku þegar hún steig á íslenska grund. Þetta kom mér ekkert á óvart. Neikvæðnin er nánast áþreifanleg í samfélaginu. Og það á sér vitaskuld ofureðlilegar skýringar.

Jóakim endurheimtir peningana sínaÞótt ég ætli ekki að fara náið út í saumana á margslungnu andrúmsloftinu á Íslandi hér og nú er ég sannfærð um að hin neikvæða orka sem kunningjakona mín fann við heimkomuma er nátengd réttlætinu. Ef það er eitthvað sem okkar þjakaða og þjáða þjóðarsál  þarfnast um þessar mundir er það réttlæti.

Búið er að skrifa undir Icesave-samning sem skuldsetur okkur í marga áratugi - en þeir sem höfuðábyrgðina bera ganga lausir og baða sig í illa fengnu fé eins og Jóakim aðalönd. Réttlæti?

Seðlabankinn henti nokkur hundruð milljörðum í gjaldþrota bankana dagana fyrir hrun og ríkissjóður öðru eins til að bjarga fjármagnseigendum. Vanhæfur seðlabankastjórinn og einn af arkitektum hrunsins, sem loks tókst að losna við úr embætti með lagasetningu í febrúar, þeytir nú skítabombum út um víðan völl sem ritstjóri um leið og hann reynir að hvítþvo sjálfan sig og þátt sinn í hruninu. Réttlæti?

Virkjana- og stóriðjusinnar fara nú mikinn og heimta að allt verði virkjað, orkuauðlindir þurrausnar í margar kynsóðir, til að breiða yfir gróðærisklúður einkavinavæddra bæjarstjóra sem seldu sér og vinum sínum opinberar eigur og settu bæjarfélögin sín á hausinn. Auðlindum kynslóðanna á að fórna á altari græðgi nokkurra manna og frasarnir fljúga. Álver eða dauði! Minnir óhugnanlega á æðið sem reið yfir þegar fjármálabólan var að þenjast út. Réttlæti?

Þetta eru bara þrjú dæmi af ótalmörgum sem varpa kannski einhverri ljóstýru á hina neikvæðu orku sem svífur yfir vötnunum á Íslandi. Eygjum við einhverja von? Vonandi - en eitt er víst: Ef hrunflokkarnir ná aftur völdum getum við, sem krefjumst réttlætis og þráum það umfram allt, pakkað saman og farið. Þá verða allir hrunvaldar hvítþvegnir og haldið áfram þar sem frá var horfið í einkavinavæðingar- og spillingarferlinu. Þá verður réttlætinu ALDREI fullnægt, sannið þið til. "Alting bliver igen som för", eins og segir í textanum með myndinni af Jóakim hér að ofan.

Pistillinn minn á Morgunvaktinni síðasta föstudag fjallaði ekki nema óbeint um þetta. Jú, kannski ljóðið hans Eyþórs. Ég kaus alltént að skilja það þannig að ljónið í búrinu væri réttlætið - og að brátt verði hliðin opnuð og ljónið brjótist út. Guðir allra trúarbragða hjálpi þeim sem á vegi þess verða. Hljóðskrá er viðfest neðst. Pistlunum er útvarpað svo snemma að það er enginn vaknaður - ja... að minnsta kosti ekki ég.

Morgunvakt Rásar 2

Ágætu hlustendur...

Einu sinni, endur fyrir löngu, var ég stolt af að vera Íslendingur. Spáði ekkert of mikið í pólitík en fylgdist samt með. Las blöðin, horfði á fréttir, lagði saman tvo og tvo og dró mínar ályktanir. Muldraði í barminn, tautaði og tuðaði, skammaðist yfir misvitrum ákvörðunum ráðamanna en hafðist ekki að. Reyndi ekki að fá greinar birtar í dagblöðum eða leggja orð í belg á annan hátt. En ég hugsaði mitt og safnaði í hugarsarpinn.

Hvað ætli þessi lýsing eigi við marga Íslendinga? Hve margir hafa hingað til beygt sig af þýlyndi undir hið lífseiga ofbeldi stjórnmálaflokkanna, sem kveður á um að við megum bara tjá skoðanir okkar með atkvæðinu á fjögurra ára fresti? Við eigum að þegja og hafa okkur hæg þess á milli. Ekki hafa skoðanir og leyfa stjórnmálaflokkunum að athafna sig í friði - hvort sem þeir eru að efna eða svíkja kosningaloforðin, láta þjóðina styðja innrásir og stríð eða gefa eigur hennar vinum sínum. Er þetta lýðræði? Ja... að minnsta kosti ekkert venjulegt lýðræði.

Já, ég var stoltur Íslendingur. Stolt af landinu mínu og þjóðinni minni. Menntaða fólkinu, náttúrunni, hreina loftinu, tæra vatninu og jafnvel eldgosum og jarðskjálftum. Slíkt tilheyrði því að vera Íslendingur. Árið 1983 var ég á leið heim eftir stutta heimsókn til Frakklands. Þegar ég fór í gegnum vegabréfaskoðun á flugvellinum í París sagði maðurinn sem þar vann: "Ah... Ísland! Ekkert sjónvarp á fimmtudögum og í júlí - og enginn bjór!" Ég var þessu vön en honum fannst þetta skemmtileg sérkenni og við hlógum dátt saman. Ekki varð ég vör við að hann vissi fleira um Ísland. En það gerði ekkert til, ég var örugg í þeirri fullvissu, að það væri gott að vera Íslendingur.

Nú er öldin önnur. Þegar Íslendingar viðurkenna þjóðerni sitt erlendis nú um stundir - ef þeir þora því á annað borð - fá þeir glósur um að við séum þjófar og glæpamenn. Ekki er talað lengur fallega um land og þjóð, bara minnst á hrunið og spurt af hverju ekki sé enn búið að handtaka neinn fyrir að ræna þjóðina. Fyrir að rýja hana inn að skinni - ekki aðeins af fé heldur líka sjálfsvirðingu, stolti og reisn. Og við spyrjum líka: "Af hverju? Hvað dvelur réttlætinu?"

Stundum finnst mér ég vera eins og dýr í búri. Ég æði um, öskra svolítið á blogginu, en finnst ég vera innilokuð á svo margan hátt. Kefluð með hendur bundnar í skuldafangelsi og sé ekki ennþá von um betra líf eða réttlæti, almenningi til handa. En svo las ég lítið ljóð í nýútkominni ljóðabók eftir Eyþór Árnason, hið kunna ljúfmenni sem fékk verðlaun Tómasar Guðmundssonar á þriðjudaginn fyrir sitt fyrsta verk. Ljóðið heitir Dagar og það veitti mér örlitla von:

Dagar

Dagarnir eru
eins og ljón
í búri

Ég bíð í hringnum

Brátt verða
hliðin opnuð

Öskrandi ljón


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: GRÆNA LOPPAN

Það er Íslandsdagskrá í kvöld á ARTE (Frakkland/Þýskaland). Ísland vekur annars samúð og hafa aldrei fleiri skráð sig  í íslenskunámi en nú í Frakklandi.


"L'Islande dans la tourmente"
(http://www.arte.tv/fr/semaine/244,broadcastingNum=1057458,day=4,week=43,year=2009.html)
diffusée le 20.10.2009 à 21:45 sur ARTE.

"L'Islande rêve en vert"
(http://www.arte.tv/fr/semaine/244,broadcastingNum=1064516,day=4,week=43,year=2009.html)
diffusée le 20.10.2009 à 21:45 sur ARTE.

"L'Islande en ébullition (Guð blessi Ísland)"
(http://www.arte.tv/fr/semaine/244,broadcastingNum=1057459,day=4,week=43,year=2009.html)
diffusée le 20.10.2009 à 22:15 sur ARTE.

"Débat"
(http://www.arte.tv/fr/semaine/244,broadcastingNum=1064517,day=4,week=43,year=2009.html)
diffusée le 20.10.2009 à 23:25 sur ARTE.

GRÆNA LOPPAN, 20.10.2009 kl. 07:44

2 Smámynd: GRÆNA LOPPAN

í íslenskunám, átti þetta nú að vera.

GRÆNA LOPPAN, 20.10.2009 kl. 07:45

3 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Það er algjör snilld að geta opnað bloggið þitt Lára Hanna, aftur og aftur, og lesið sínar eigin hugsanir þar.  Hugsanir sem maður kemur ekki sjálfur á blað.  Algjör snilld !  Í mínum huga ert þú rödd fólksins.... a.m.k. þess fólks sem þráir réttlæti.

Anna Einarsdóttir, 20.10.2009 kl. 08:39

4 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Góður pistill hjá þér að vanda Lára Hanna.

Ég flutti til noregs í september eins og þú veist, hér er viðmótið til íslendinga samúð og vila þeir allt fyrir okkur gera. Ég mæti skilning hvert sem ég fer og fæ einnig margar spurningar um ástandið.. um bankakerfið og stjórnmálamennina. Þegar ég svara af hreinskilni þá horfa þeir á mann í undran og spurja hvernig getur slíkt gerst á norðurlöndum ? Svona scenario væri óhugsandi í skandinavíu að þeirra mati.. en rifja samt upp að árið 1986 þá hafi það sama næstum gerst í noregi... Þeir klikja vanalega út með því að segja að ísland ætti bara að gerast hluti af noregi, þá gæti almenningur allavega um frjálst höfuð strokið án þess að þurfa að hafa áhyggjur af stjórnmálamönnum eða heimskum bankastjórum.

Ég geng um stoltur hér og tilkynni hverjum sem er að ég sé íslendingur.. á flótta ;)

Óskar Þorkelsson, 20.10.2009 kl. 08:59

5 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Viðmót Dana er samúð...

Hólmdís Hjartardóttir, 20.10.2009 kl. 09:24

6 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Snilld!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 20.10.2009 kl. 09:28

7 Smámynd: Kári Harðarson

Kári Harðarson, 20.10.2009 kl. 10:13

8 identicon

Munum hvað Nóbelsskáldið lagði Jóni sáluga Hreggviðssyni í munn: "Vont er þeirra ranglæti, en verra er þeirra réttlæti".
Það sem einum finnst réttlátt er í augum annars ranglæti. Ómar blessaður sér ofsjónum yfir að tryggja bankainnstæður landa sinna af því að hann átti ekkert sjálfur inni. Sveiattan!
Ekki skulda ég neinum neitt, en allir mega fyrir mér fá niðurfærslu skulda sinna að því marki, að þeir haldist sæmilega á floti.

Vigfús Magnússon (IP-tala skráð) 20.10.2009 kl. 10:27

9 Smámynd: ThoR-E

Sammála, algjörlega.

Hvað varðar nýja ritstjóran, að hann átti ekki að koma nálægt fréttum af hruninu. Nú þegar er hann búinn að setja eina frétt ofan í skúffu sem varðar fjárglæframann. Hann er bara vinur Davíðs ... þannig að....

Furðulegt og áfram kaupir fólk Morgunblaðið.. því ekki lýgur mogginn....?????????....eða hvað.

ThoR-E, 20.10.2009 kl. 10:50

10 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þetta er ótrúlega magnað ljóð í margræðni sinni og byggingu! Mig grunaði að ég yrði að verða mér út um ljóðabók Eyþórs en ég sé það núna að það er eitt af því sam maður kallaði „möst“ hér í eina tíð.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 20.10.2009 kl. 11:00

11 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Vinir mínir í Þýskalandi spurðu nú bara hvort það sé allt í lagi með okkur á Íslandi. Að gera mann að ritstjóra virtasta blaðs landsmanna sem er aðalhöfundur hrunsins og einkavinavæðinguna. Þetta sé verra en á Ítalíu þar sem menn trúa ennþá að Berlusconi sé treystandi að stjórna landið.

Úrsúla Jünemann, 20.10.2009 kl. 12:23

12 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Gaman að sjá það ljóðræna í atburðarásinni. Stundum finnst mér ég stödd í sögu sem eigi eftir að verða miklu ógnvænlegri... eitthvað eigi eftir að gerast sem láti mig finnast bæði 11. september og Hrunið lítilfjörlegir smáatburðir í sambandi við það.

Annars er Eyþór Árnason góður og vel kominn að verðlaununum sem hann fékk um daginn.  Og það var Eyþór sem stjórnaði útsendingunni sem var trufluð og hann skrifaði ljóðræna frásögn af trufluninni. 

Hér er frásögn Eyþórs:  Kryddsíld - Bardaginn á Borginni 

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 20.10.2009 kl. 15:51

13 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Á morgun er væntanlega hinsti hluthafafundur fyrirtækisins Atorku. Fyrir nokkrum árum átti eg með fjölskyldu minni töluverðan hlut í Jarðborunum en þessu fyrirtæki tókst að sölsa hluti undir sig með því sem kallast „fjandsamleg yfirtaka“. Mun Margeir Pétursson hafa komið að því máli. Nú er svo komið að Atorka er einskis virði, Margeir hefur allt sitt á þurru. Við sem lögðum 20 ára sparnað til hliðar og vorum svo barnslega auðtrúa að við værum með fjárfestingu sem væri tryggð í orku og öllu því besta í verklegum framkvæmdum á Íslandi, við sitjum uppi með verðlausa pappíra.

Þetta var umtalsvert fé. Fyrir það mátti kaupa heila jörð að vísu án húsa og annarra mannvirkja! Svona er farið með þá sem telja sig vera að leggja til hliðar til að hafa til efri áranna.

Tek undir með Vigfúsi hér að framan:

„Vont er þeirra ranglæti, en verra er þeirra réttlæti“.

Skyldu þessir útrásarvíkingar vera mennskir?

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 20.10.2009 kl. 18:32

14 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Snemmsumars var ég úti í rúman mánuð. Seinni hluta dvalarinnar notaði ég aðeins 1/4 hluta blóðþrýstinglyfja minna. Nína er ég aftur kominn í fullan skammt. Þetta litla dæmi segir sitt um andrúmsloftið.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 20.10.2009 kl. 19:50

15 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Jamm, eins og talað úr mínu hjarta. Því miður fer vonin dvínandi með hverjum deginum. Líkurnar á valdatöku FLokksins aukast með hverjum deginum. Þegar það gerist þá pakka ég saman og fer.

Kveðja að norðan.

Arinbjörn Kúld, 20.10.2009 kl. 20:29

16 identicon

Þú berð af öðrum bloggurum. Oddgeir Kristjánsson hefði kallað sum skrif gamla seðlabankastjórans kúkbrandara og skilji hver sem vill.

Arnþórr Helgason (IP-tala skráð) 20.10.2009 kl. 21:39

17 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Lára Hanna þetta er eins og talað út úr mínu hjarta líka.  Réttlætiskennd minni hefur verið misboðið svo oft undanfarið ár að ég er við það að gefast upp. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 21.10.2009 kl. 00:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband