28.10.2009
Hlekkir hugarfarsins
Ágætu hlustendur...
Eitt af því sem einkenndi íslensku þjóðina, a.m.k. undanfarna áratugi, var að yppta öxlum og segja: "Þetta er bara svona!" þegar valdhafar misbuðu henni - og gjarnan mjög gróflega. Annars vegar vissi fólk sem var, að ekki yrði hlustað á kvartanir eða því yrði jafnvel refsað á einhvern hátt fyrir þá ósvífni að andmæla yfirvaldinu. Hins vegar var búið að heilaþvo þjóðina og afmá samfélagshugsun og náungakærleik hennar. Hugarfarið hafði verið einkavætt og hver orðinn sjálfum sér næstur. Samvinna og samhjálp var strokað út úr huglægum orðasöfnum Íslendinga.
Þetta var skelfileg þróun sem margir vonuðu að myndi snúast við eftir hrun - en það er nú öðru nær! Líklega heyrum við einna best að þetta hugarfar er enn við hestaheilsu, þegar hlustað er á yfirgengilega heimtufrekju bæjarstjórans í Reykjanesbæ og nokkurra meðreiðarsveina hans. Þeir krefjast þess að fá allt upp í hendurnar; að þéttbýlasta svæði landsins þurrausi orkuauðlindir sínar og leggi náttúruperlur í rúst til að skapa þeim nokkur störf í óarðbærum atvinnurekstri. Svo heimta þeir milljarðahöfn og þjóðin á að borga. Þarna er "ég um mig frá mér til mín" hugsjónin lifandi komin. Hvorki vilji né geta fyrir hendi til að horfa á heildarmyndina og taka tillit til náungans.
Samtök atvinnulífsins, sem eru hávær sérhagsmunasamtök, og Alþýðusamband Íslands, sem enginn veit fyrir hverja vinnur og hefur ekkert með alþýðu manna að gera lengur, taka undir í þessum frekjukór og reyna að valta yfir heilbrigða skynsemi. Talsmönnum þessara sérhagsmunahópa er fyrirmunað að skilja, að fyrirhyggju- og agaleysi er aðferðafræði fortíðar og ef við ætlum að lifa áfram í þessu landi og búa afkomendum okkar öruggt skjól, þá verðum við einfaldlega að stíga varlega til jarðar. Skipuleggja vandlega áður en við framkvæmum í stað þess að æða út í óvissuna í græðgisham með skammtímareddingar og treysta á guð og lukkuna.
Guðmundur Andri Thorsson skrifað magnaða minningargrein um Morgunblaðið á vefsíðu Tímarits Máls og menningar í vikunni. Hann sagði meðal annars þetta:
"Ég vil ekki Davíð Oddsson, Ólaf Ragnar Grímsson, Jón Ásgeir Jóhannesson, Jóhannes Jónsson, Björgólf Thor. Ég vil ekki Sigurð Einarsson, Baldur Guðlaugsson, Existabræður, Bakkabræður, Kögunarfeðga, N1-frændur... og hvað þeir heita allir, bankaskúmarnir og viðskiptaminkarnir.
Ég vil þá ekki. Þeir eru frá því í gær; þeir sköpuðu okkur gærdaginn og eru staðráðnir í að láta morgundaginn verða á forsendum gærdagsins. Enn sjá þeir ekki sína miklu sök, sína stóru skuld, vita ekki til þess að þeir hafi gert neitt rangt. Þeir mega ekki halda áfram eins og ekkert hafi í skorist, vegna þess að það hefur allt í skorist - allt hrundi, allt fór.
Ég vil ekki sjá að þeir komi nálægt því að skapa það þjóðfélag sem bíður barnanna minna og þeirra barna. Þeir standa fyrir hugmyndafræði sem má aldrei oftar trúa, aðferðir sem má aldrei oftar beita."
Þetta sagði Guðmundur Andri.
Ég skora á Íslendinga að brjótast úr hlekkjum hugarfarsins og byrja á að breyta sjálfum sér.
Ef einhver skyldi velkjast í vafa um hvaða hlekkir hugarfarsins eru einna hættulegastir er hér lítið, glænýtt dæmi.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 22:49 | Facebook
Athugasemdir
Okkur ekki viðbjargandi ef þetta mun svo ganga eftir. Höfum við og fáum við ekkert betra val?
Kveðja að norðan.
Arinbjörn Kúld, 28.10.2009 kl. 22:59
Guð veri oss næstur
Ragna Birgisdóttir (IP-tala skráð) 28.10.2009 kl. 23:15
Sammála Arinbirni.
Heidi Strand, 28.10.2009 kl. 23:21
Magnaðar fyrirsagnir hjá þér Lára Hanna, minna á Rauðu Ástarsögurnar
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 28.10.2009 kl. 23:50
Smá leiðrétting - DO leiðir engan neitt, ef einhver skyldi halda það. Hans aðferð er að terrorisera fólk til hlýðni.
Ef þessi afturganga gengur aftur í stjórnmálin, er ég flutt úr landi.
Kama Sutra, 29.10.2009 kl. 00:11
Oft á dag finnst mér sem okkur sé ekki viðbjargandi, t.d. þegar ég hlusta á forystumenn Samtaka atvinnulífsins og forystumenn Alþýðusambands Íslands sem virðast gengnir af göflunum í umhverfis- og orkumálum. Þeir eru í gamla tímanum með gömlu "lausnirnar." Fólk almennt virðist svo "passívt" og fylgir þeim þegar þeir segja að þeirra leið sé eina leiðin út úr kreppunni og þeir sem vilji leita nýrra leiða séu þrögnsýnir "öfgamenn."
Það er helst að það vakni smá vonarneisti þegar ég les eða hlusta á fólk sem talar og skrifar eins og þú, Lára Hanna gerir. En hvað er til ráða? Við höfum annan stærsta stóriðjuflokk Íslands í ríkisstjórn.
Er þörf á að þau sem vilja vernda náttúruna og leita nýrra leiða skipuleggi sig á nýjan hátt sem afl í samfélaginu?
Egill Hallgrímsson (IP-tala skráð) 29.10.2009 kl. 00:34
Stockholm Syndrome.
Jón Steinar Ragnarsson, 29.10.2009 kl. 00:53
ég efast æ oftar um að við getum verið sjálfstæð þjóð
Hólmdís Hjartardóttir, 29.10.2009 kl. 02:10
Botnleðja hefur rétt fyrir sér. Fólk er fífl
fjölnir baldursson (IP-tala skráð) 29.10.2009 kl. 05:55
Hólmdís tekur undir með útrásarvíkingunum að Ísland þurfi meira skjól fyrir sukkið þeirra. Fattar hún ekki að Björgólfur Thor er sérstakur velvildarsendiherra ESB á Íslandi og Jón Ásgeir hefur marg oft lýst því yfir að hann vilja að Ísland gangi í ESB. Hagsmunir þessara kappa og regluverk ESB passa saman enda er ESB ekki stjórnvað af fátækum bændum í Frakklandi þó sumir Íslendingar haldi það. Guðmundur Andri Thorsson er síðan með sömu grillur í kollinum enda skildur Björgólfi Thor. Hans hugmyndir um nýtt og betra Ísland eru afleitar því þær snúast bara um að leggja niður Alþingi og sjálfsákvörðunarrétt þjóðarinnar. Til hvers spyr ég. Eru æviráðnir Frakkar betur til þess fallnir að stjórna Íslandi en Íslendingar sjálfir?
Björn Heiðdal, 29.10.2009 kl. 06:24
Langar svo að flytja heim en er ekki að fatta hugarfarið of myndi varla passa inn í þennan gamla ísland hugsanahátt.
Villi Asgeirsson, 29.10.2009 kl. 06:27
Björn, það lítur svo sannarlega út fyrir það!
Billi bilaði, 29.10.2009 kl. 06:28
Við þetta mætti kannski bæta að Baldur nokkur McQueen, sem Lára segist lesa hér til hliðar, spyr hvort Íslendingar vilja birtast í líki Bjarna Ben á krossinum fyrir framan þjóðir sem þeir hafi svikið og stolið peningum af. Þessi orðræða heyrist mikið úr herbúðum Samfylkingarinnar og er eiginlega óskiljanleg fólki sem stendur utan við flokkapólitík. Hvernig má það vera að alltaf sé talað um alla Íslendinga í staðin fyrir Björgólf Thor og nokkra aðra. Það á bara að nafngreina þessa menn og láta mig í friði. Ég stal ekki neinu og ekki heldur mamma! Er trikkið hjá Samspillingunni að láta mig fá samviskubit svo ég borgi hærri skatta með glöðu geði?
Björn Heiðdal, 29.10.2009 kl. 07:10
"Könnun MMR var unnin fyrir Viðskiptablaðið og gerð í gegnum netið, dagana 13. til 16. október. 968 einstaklingar svöruðu en þeir voru valdir úr hópi tæplega tólf þúsund álitsgjafa MMR, á aldrinum 18 til 67 ára."
Þetta hlýtur náttúrlega að vera eitthvað skaup hjá Viðskiptablaðinu, er það ekki? Viðskiptablaðið er jú í 100% eigu Morgunblaðsins, þ.e. Árvakur á Myllusetur, sem gefur það út. MMR er í eigu og undir stjórn Ólafs Þórs Gylfasonar, sem er stækur sjálfstæðismaður og menntaður spunameistari.
Í könnunum frá honum er það regla að Sjálfstæðisflokkurinn hafi mesta fylgið, enda hljóta þessir 12.000 álitsgjafar vera einhver fastur kjarni, sem þeir handvelja úr eftir því hverjar áherslurnar eiga að vera í útkomunni.
Jón Steinar Ragnarsson, 29.10.2009 kl. 09:21
Það fær mig enginn til að trúa því að sjálfsfyrirlitning Íslendinga sé orðin svona pathológísk. Íslendingahatrið er einna helst áberandi hjá Samfylkingarbloggurum, sem kalla þjóðina öllum illum nöfnum, þegar þeir koma því að. Ég er ekki að skálda það upp. Hvet ykkur til að kíkja á bloggin þeirra. Ekki eru þeir í álitsgjafahópnum handvalda. Svo mikið er víst.
Jón Steinar Ragnarsson, 29.10.2009 kl. 09:26
Blekkingamyllan á fullu :
1) Haraldur Johannessen ritstjóri Viðskiptablaðsins 2007.
2) Myllusetur kaupir Viðskiptablaðið í nóvember 2008.
3) Falsaðar skoðanakannanir MMR ?
4) Blaðamenn reknir
5) Haraldur og Davíð ritstjórar 24. september 2009.
6) Skoðanakönnunin sjálfsögð þjónusta við egó Davíðs ?
GRÆNA LOPPAN, 29.10.2009 kl. 12:02
'Eg vona að þetta sé grín hjá þer. Var það ekki hann og Geir sem einkav. bankanna og veittu Jóni Ásgeiri og Björgólfi lán til þess að kaupa bankanna. Ég vil að allir þessir menn vara yfirheyrðir. Þei eiga sök á hvernig komið er. Nú stöndum við uppi með þjóð sem engin hefur trú á vegna græðgi og krímma skap. Það er einginn töfralausn á gjaldþrotinu. Þessir menn veittu öllum lá . Ættingum og vinum. Einnig vinum erlendis. Þeir notuðu allt lausafé og sparifé landsmanna og lánuðu upp í botn.
Einnig vil ég minnast á . Hvessvegna eru Icesave sparifé engendur búinir að fá 100% endurgreitt þegar við heimamenn fengu 65% til 80% endurgreitt. Hveð er í gangi her.?Hvessvegna er verið að snúða á okkur. En hinir fá fullagreiðslur. Ætlar enginn að kæra bankanna. Er enginn að fylgjast með erlendum fréttum??? Persónulega þekki ég mann sem fékk fullargreiðslur fyrir stuttu frá Icesave. En bróðir minn fékk bara 800.000 af 3.000.000 hjá Kaupþing. Ætlum við að láta ríkið stela af okkur spariféð???Við krefumst fullar greiðslur eins og Icesave eigendum.
Anna , 29.10.2009 kl. 15:55
kannski var könnunin gerð þannig að það var valið úr flokksskrá Sjálfstæðisflokksins????
þessir 12000 sem eru eftir
Guðrún Indriðadóttir, 29.10.2009 kl. 17:04
Einu skulið þið gera ykkur grein fyrir ágæta fólk: Það er hafið yfir allan efa að Guð skapaði þetta land fyrir Landvirkjun, Alcan, Alcoa og síðast en ekki síst fyrir Árna Sigfússon doninn í Reykjanesbæ. Það er lágmarkskrafa að nú þegar verði hafist handa og fundin sú orka sem Árni er búinn að lofa til álversins í Helguvík. Skítt með það þótt orkumálastjóri sjái þá orku ekki fyrir sér alla að svo komnu máli.
Árni Gunnarsson, 29.10.2009 kl. 17:48
Næsta "marktæka skoðanakönnun" Viðskiptablaðsins?:
http://gautieggertsson.blogcentral.is/blog/2009/10/29/naesta-konnun-vidskiptabladsins/
Kama Sutra, 30.10.2009 kl. 05:05
Elskulegur leiðtogi Sjálfstæðisflokksins Davíð Oddsson, leiddi íslensku þjóðina sem dansstjóri í hrunadansinum beint fram af hengifluginu.
Það er ótrúlegt að þessi maður sé nefndur sem sá sem flestir treysti til að leiða okkur fram úr ógöngunum. Þau Jóhanna og Steingrímur J. hafa hins vegar sýnt í verki hvernig til hefur tekist. Í Fréttablaðinu í dag kemur það útsendara Alþjóða gjaldeyrissjóðsins á óvart hversu vel hafi tekist að endurreisa fjármálalífið við mjög erfiðar aðstæður. Allir þeir þröskuldar sem hafa kappkostað að leggja steina í götu þessa starfs mættu athuga betur sinn gang.
Er ekki hægt að taka undir sem stendur í Biflíunni og Silli og Valdi gerðu vel þekkt: „Af ávöxtunum skulum við þekkja þá“.
Þegar Davíð Oddsson, Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn ber á góma, þá fæ eg gæsahúð af hryllingi.
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 30.10.2009 kl. 12:04
Þetta voru 600 manns varla marktækt, en við verðum að hætta að trúa bara fyrirsögnum! Nú er baráttan um Ísland. Nú er skíturinn að koma upp og það verður að stoppa það finnst þeim sem voru með í leiknum. Við hin viljun NÝTT og meðvitaðara Ísland og Íslendinga!
Regina (IP-tala skráð) 30.10.2009 kl. 13:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.