30.10.2009
Að kyssa vöndinn sem sárast bítur
Hin svokallaða skoðanakönnun sem Viðskiptablaðið lét framkvæma fyrir sig vakti nokkra athygli þegar niðurstöður voru birtar í téðu blaði í gær. Hún var eiginlega svolítið hlægileg og ég lagði út af henni í föstudagspistlinum. Hljóðskrá viðfest neðst.
Ágætu hlustendur...
Ef ástandið í íslensku þjóðfélagi væri ekki svona alvarlegt væri mér líklega skemmt. Mér fyndist samtakamáttur rógsherferðar sjálfstæðismanna sennilega bara meinfyndið sprikl þar sem þeir reyna, hver um annan þveran, að endurskrifa söguna og hvítþvo sig, flokkinn sinn og Hinn Mikla Ástsæla Leiðtoga. Enda komu sumir skríðandi úr fylgsnum sínum með pennann á lofti um leið og Leiðtoginn settist í ritstjórastólinn og enn aðrir brýndu deigu járnin og gáfu í. Og hjarðeðlið er slíkt að hörðustu áhangendur bergmála gagnrýnislaust bullið sem borið er á borð af þessum heiftúðugu harðlínumönnum.
Samt er ekki liðið nema ár frá hruni og enn koma sukk- og spillingarmál fortíðar upp á hverjum degi og hreingerningarliðið hefur ekki við að moka flórinn eftir þessa sömu menn og flokka þeirra. Er fólk nokkuð búið að gleyma þessu?
Nýjasta útspilið var að fá svokallaða skoðanakönnun um hverjum landsmenn treysta best til að leiða sig út úr kreppunni. Möguleikarnir voru eðlilega formenn stjórnmálaflokkanna - en bara fjögurra stærstu. Einnig mátti velja framkvæmdastjóra samtaka verktaka, álvera, steypu- og kvótaelítu og formann alþýðukúgunarsambands Íslands, sem af tvennu illu vill frekar hækka álögur á almenning en innheimta auðlindagjald af erlendum auðhringum og kvótakóngum.
Rúsínan í pylsuendanum var ritstjórinn. Neinei, ekki Reynir Traustason eða einhver minni spámaður! Það var að sjálfsögðu Hinn Mikli Ástæli Leiðtogi, nýráðinn ritstjóri Morgunblaðsins, sem hélt flokknum sínum og þjóðinni allri í járnkrumlu einvaldsins um langt árabil. Og svo skemmtilega vildi til að könnunin var pöntuð af blaði í eigu félaga hans, hins nýráðna ritstjórans. Þessi uppákoma smellpassar inn í valdastríðið sem geisar á miðlum hinnar valdaþyrstu harðlínuklíku.
Þessi skoðanakönnun ber augljós merki þess að niðurstaðan hafi verið fyrirfram ákveðin. Af hverju ætti annars aðeins einn af mörgum ritstjórum að hafa verið þar á blaði? Var þetta kannski bara auglýsing fyrir Morgunblaðið? Mín niðurstaða er sú, að stríðsmenn Flokksins hafi staðið að könnuninni í samráði við þrútið egó Hins Mikla Ástsæla Leiðtoga, ritstjórans í Hádegismóum. Þetta er því fullkomlega ómarktæk könnun en ég óttast engu að síður, að taktíkin þeirra virki á þann hluta landsmanna sem þekkir ekki gagnrýna hugsun og passar svo undurvel við eftirfarandi lýsingu Halldórs Laxness úr smásögunni Ósigur ítalska loftflotans í Reykjavík 1933:
"Það er álitið að fáar þjóðir hafi þolað kúgun og yfirgang af meiri kurteisi en Íslendingar. Um aldaraðir alt fram á þennan dag lifðu þeir í skilníngsríkri sáttfýsi við kúgun, án þess að gera nokkru sinni tilraun til uppreistar. Eingri þjóð var byltíngarhugtakið jafn hulið. Ævinlega voru Íslendingar reiðubúnir að kyssa þann vöndinn er sárast beit og trúa því að kaldrifjaðasti böðullinn væri sönnust hjálp þeirra og öruggast skjól."
Góðir landsmenn - varist úlfa í sauðargærum og valdagráðuga kúgara.
Athugasemdir
Svona könnun er auðvitað gölluð af því forsemdurnar eru fyrirfram ónýtar.
Engin af þessum persónum getur leitt okkur út úr þessu ástandi. Þessar persónur sköpuðu ástandið ýmist beint, eða óbeint með aðgerðaleysi á sinni vakt.
Mitt svar er að fólk þarf almennt að eyða tíma í að skoða málin, mynda sér skoðanir, raunverulega skoðanir, ekki uppétið fjölmiðlakvak, og skipta sér af málefnum okkar.
Þannig að frelsarar okkar erum við sjálf, ef við nennum.
Gullvagninn (IP-tala skráð) 30.10.2009 kl. 14:03
Lestu aftur pistil þinn um þetta mál og breyttu svo nöfnum, settu til dæmis Ingibjörg í stað mis klókra viðurnefna þinna á Davíð.
Það er stundum gott, að horfa á heiminn frá kögunarhól skynseminnar.
Farðu svo yfir, hver varaði við Kaup.ingi, hver varaði við einokunartilburðum og svo hverjir keyptu í kjölfarið fjölmiðla til sinna nota og bandalagið sem gert var við Samfylkinguna og VG um, að sverta þann sem varaði við.
Hver hélt ræður á fundum SA og Viðskiptaráðs um hættuástand í bankamálum þjóðarinnar og útrásar elítuna 2006 og aftur 2007
Á svipuðum tíma og Sumir klöppuðu ákaft fyrir þessu liði s.br Ingibjörg og Borgarnesræður hennar.
Hver reyndi að stemma stigu við ofurhaldi á fjölmiðlum en varð að sæta því að forseti okkar skaut skildi fyrir útrásarliðið, hjá hverjum hann gerðist svo nokkurskonar flugþjónn.
Svona má auðvitað lengi fram halda en það skiptir ekki fekara máli en að skvetta vatni á gæsir.
Svo njóttu vel einfeldningsháttar í þessum efnum og óvild í garð Davíðs.
Njóttu helgarinnar.
Miðbæjaríhaldið
Bjarni Kjartansson, 30.10.2009 kl. 14:33
Er ekki í lagi með þig Bjarni? Klappaði Davíð aldrey? Varaði hann skýrt og skilmerkilega við? Tók hann traust veð fyrir elleftustundarástarbréfaláninu? Var hann kannski hættur þegar 300 milljörðunum (sem eru kannski bara 250 milljarðar) var kastað út um gluggann?
Hættu þessum smjörklípuleik. Þú ert enginn Megas og bætir ekki böl með því að benda á Ingibjörgu blindu. Óvinir Davíðs eru engir vinir okkar. Þú, og þið bláhandarkartneglurnar, hafið ekkert með að setja okkur á bása eins og ykkur lystir. Farið þið í fúlan pytt með öllu hrunsliðinu, sama hvar í flokki það dvelur.
Billi bilaði, 30.10.2009 kl. 14:41
Ef Halldór Laxness skrifar að (álitið sé) fáar þjóðir hafi þolað kúgun og yfirgang af meiri kurteysi en Íslendingar(líklega kúgun Dana),skýrir það,hversvegna stoltir Íslendingar(afkomendur þeirra með þrælslundina), harðneita að ganga í ríkjasamband,sem kemur til með að ákveða allt um okkar stærstu hagsmunamál. Svo kærkomið var okkar sjálfstæði og er enn,að þeir sem fylgst hafa með stjórnmálum,vita að aðeins einn maður getur, þorir og kann að standa í þessum gömlu nýlendukúgurum. Ekkert ESB.AGS.ICESAVE: DAVÍÐ ODDSON.
Helga Kristjánsdóttir, 30.10.2009 kl. 15:25
ég get ekki betur séð en að plott sjálfstæðisflokksins sé að ganga 100% upp,fyrst var slegin skjaldborg um útgerðina(nú verður ekki hreyft við kvótanum) og skuldir þeirra verða færðar niður,útlendingum áfram boðin orkan á útsölu,með tilheyrandi skattaívilnunum, og skrímsladeildin tekur völdin aftur í sínar hendur innan flokksins,svo hvað næst.það þarf varla kosningar til að sömu glæpamennirnir ráði hér öllu áfram en því miður(fyrir þá) er lítið bitastætt hér eftir til að ræna nema almenningur,og hver trúir því að sjálfstæðisflokkurinn muni ekki skattleggja almenning áfram einsog þeir gerðu meðan þeir voru í aðstöðu til.
zappa (IP-tala skráð) 30.10.2009 kl. 16:19
Valdnýðslan er söm við sig, en sem betur fer eru sterkir aðilar við stjórnvölinn. Róm var ekki byggð á einum degi, en ég hef mikla trú á því að þau vígi sem Íhaldselitan telur enn vera sín, verði unnin á skipulegann hátt. Nefnd á vegum ríkisstjórnarinnar er að skoða sjávarútvegsmálin og hennar niðurstöður koma væntanlega á útmánuðum. Hvað varðar þessa íllræmdu leiðtoga aðila vinnumarkaðrinns þá eru þeir að vinna eftir bestu getu við mjög erfiðar aðstæður fyrir þjóðina. Það stóð svosem ekki til að allir væru sammála um þeirra aðferðir, en það duga heldur ekki neinar venjulegar aðferðir í dag.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 30.10.2009 kl. 17:01
þetta er könnun viðskiptablaðsins og úrtakið úr lesendahóp blaðsins (email lista blaðsins sem eru jú þeir sem trúa á peninga og vexti og heila spilavitið)
þannig virðist mér könnunin seigja okkur hvaða fylgi Davíð hefur hjá bissnissliðinu í landinu jaaa sem er varla meira en 30% eða hvað? máski minna... og 25% af 108 þúsund eða svo eru vel innanvið 30 þúsund manns...
nú... í annan stað þá vitum við ekki hvursu áreiðanlegir þessir menn eru sem gerðu könnunina... við heyrum um svindl á hverjum degi já þessu peningafólki og hversvegna ekki í þessu tilfelli... þetta er jú áróðursaðferð þessar kannanir
sumsé... við erum í upplýsingastríði... þetta er allt bara sjónarspil fyrir sumum, spurning um hönnun á viðhorfum, skákin er í fullum gangi og hver leikur fram sínum peðum eftir getu
altént finnst mér þetta ekki sannfærandi "uppsetning"
Tryggvi Gunnar Hansen, 30.10.2009 kl. 17:41
Ef sagan um nýju fötin keisarans hefði gerst á Íslandi. Þá hefði barnið verið skammað fyrir dónaskap og fólkið haldið áfram að trúa því að keisarinn væri í nýjum fötum.
Því það er svo þægilegt að vera í skjóli meirihlutans, eins og sést best þegar sjálfstæðisflokkurinn og Davíð fá hátt í skoðanakönnun þá þora þeirra áhangendur frekar að stíga fram.
Miðbæjaríhaldið er þá búið að gleyma ýmsu, eins og því að þegar kom fram í dönskum fjölmiðlum að íslensku bankarnir stæðu á brauðfótum og gætu hrunið eins og spilaborg. Þá varð Davíð foksillur og vildi láta rannsaka "þessa árás á íslensku bankana" sem sakamál. Hvað gerðist svo? Frá því hann sagði þetta og þangað til sannleikurinn kom í ljós, gerðist ekkert! Þannig að það man enginn eftir þessu lengur. Davíð er ekki meiri bógur en það að hann getur gert sig breiðan í fjölmiðlum en það verður minna um gerðir.
Helga Kristjánsdóttir vitnar í manninn sem "þorir og kann að standa í þessum gömlu nýlendukúgurum" !!! Hvenar hefur Davíð þorað að standa í erlendu valdi? Það voru ekki danir sem kúguðu íslendinga, þeir hafa enga kúgað. Heldur voru það stórbændur, hreppstjórar, kaupmenn og prestar hér á landi. Það voru þær stéttir sem stofnuðu Sjálfstæðisflokkinn, til að verja sína hagsmuni. Vistabönd, til dæmis, voru ekkert annað en þrælahald. En Davíð og flokkurinn voru svo ákafir í því að beygja sig í duftið fyrir Bandaríkjunum, sem hafa miklu frekar en danir kúgað aðrar þjóðir. Af því að fyrirtæki flokksgæðinga græddu á herstöðinni þeirra.
Húnbogi Valsson (IP-tala skráð) 30.10.2009 kl. 18:03
Hann er stórkostlegur leiðarinn í mbl. í dag. Davíð leggur út frá eltingaleiknum við villiféð fyrir vestan og notar það til að ráðast á ríkisstjórnina og réttarríkið. Hann spilar á strengi afturhaldshugmynda og þjóðrembu. Alltaf góður.
Hjálmtýr V Heiðdal, 30.10.2009 kl. 18:06
jáú... það verður athyglisvert að sjá hvernig þetta þróast... en yfir höfuð þá er of mikið karp um smámál og of lítið horft á hvaða leiðir eru færar þegar til lengri tíma er litið og allt tekið með í uppgjörinu. Sumir hrópa nú á leiðtoga í stað þess að horfa í átt til lýðræðis... og á þjóðina í heild sem veru sem getur hugsað og ályktað skynsamlega svo fremi allar upplýsingar eru borðliggjandi. Ennfremur í hæfilega stórum einingum sem kynnast persónulega... altso 100 manna lýðræðiseiningar um allt land... Þeir sem vilja einræðið telja að hópurinn komist aldrei að niðurstöðu... Sumsé við erum með þann vanda á höndum að á íslandi hafa menn séð samræður sem tímaeyðslu eða í besta falli kurteisi eða jafnvel skemmtun. Samt er í raun öllu stjórnað með samráði á allskonar fundum ... þannig lifir þjóðin í mótsögnum... talandi um lýðræði sem aldrei hefur verið til neinstaðar sem hið mikla framlag vesturlanda og um leið að nauðga því með yfirgangi leynt og ljóst... jafnvel í svona stöðu þegar ljóst er að nú er sótt að öllu sem íslenskt er og að stjórnendur bregðast jafnt á hægri sem vinstri væng.... jú leiðtogar verða til þegar á þá er kallað og þá til góðra verka vonandi... ég er ekki á móti neinum fyrirfram sem leggur gott til málanna. Og fyrst þarf að greina vandann. Hefur Davíð burði til þess eða einhver annar? Það verður að koma í ljós... og svo þarf að finna farsæla leið, leið sem viðheldur mannfélagi og náttúru hér í jafnvægi um aldir alda. Sjálfur tel ég farsælast að "loka landinu" á meðan við byggjum upp almennilegt lýðræði frá grasrótinni... þar sem bæði einstaklingurinn og hópurinn njóta sín ... ennfremur að þjóðnýta land, mið og orku og gefa svo allri þjóðinni tækifæri á landi til að rækta ofaní sig... Þá erum við að byggja upp menninguna hér til framtíðar... þá erum við farin að skilja hvað samfélag er á þessari jörð... og það fyrsta sem við þurfum að sleppa er auðhyggjan... þetta krabbamein græðginnar í líkama jarðar. Meira meira geðveilan. Hvernig stendur á því að menn sjá þetta ekki... að við erum einsog maurar í skókassa... þessi jörð er okkar skókassi og það er bara ekki pláss fyrir vexti og aukningu og meir ofaná meira sem vextir heimta. Mér er það óskiljanlegt að fólk skuli ekki sjá þetta. Og að við þurfum að lækna okkar samráðsaðferðir það finnst mér líka algerlega deginum ljósara... Og svo á eftir að koma í ljós hvursu "lokað" það land yrði sem færi svona í hlutina. Ég er á því að við munum eiga nóg af vinum.. jafnvel of mikið af þeim sem fámennri menningu og viðhvæmu landi er ekki aldeilis hollt
Tryggvi Gunnar Hansen, 30.10.2009 kl. 19:38
Ég var handviss um að þessi könnun hefði verið á vegum baggalúts.
ég er eiginlega enn á því.... miðað við úrslitin.
Annaðhvort hafa þessi úrslit verið ákveðin fyrirfram eða að fólk sé svona fljótt að gleyma. Stundum velti ég fyrir mér hvort íslendingar séu ruglaðir... ég meina Sjálfstæðisflokkurinn mælist með mest fylgi ... HALLÓ!?!?!?!?
Góður pistill Lára Hanna, hefði ekki getað orðað þetta betur.
ThoR-E, 30.10.2009 kl. 21:17
Erum við nokkuð að gera of mikið veður út af þessum Davíð sem er ritstjóri úti í bæ? Hefur einhver í alvöru trú á því að hann verði valinn sem bjargvættur þjóðarinnar með fortíð eins og hans á bakinu?
Er þjóðin virkilega svo skyni skroppin að hún myndi velja sér þessa afturgöngu sem leiðtoga?
Kama Sutra, 30.10.2009 kl. 22:12
Ég held að tilgangur hennar sé augljós, ef þið skoðið stöðu núverandi formanns X-D samanborið við DO, í könnuninni.
Með öðrum orðum, innlegg í valdabaráttu innan Sjálfstæðisflokksins.
En ljóst er, að þar fer nú fram hatrömm valdabarátta, sem sást þar á undan í uppákomunni meðal ungra Sjálfstæðismanna á Vestfjörðum þ.s. flugvél var leigð til að tryggja réttann mann inn, þ.e. nánar tiltekið Davíðs mann; og að sjálfsögðu í vali DO sem ritstjóra.
DO, ætlar sér greinilega, að tryggja sér öll raunveruleg völd, innan Sjálfstæðisflokksins - ekki endilega þannig að hann snúi til baka sem formaður, heldur allt eins sem sá er standi á bakvið en með alla þræði í hendi.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 31.10.2009 kl. 00:41
630 manns tóku afstöðu til spurningarinnar og Davíð fékk 24% af því.
0,05% þjóðarinnar vildu því sjá Davíð leiða Íslendinga út úr efnahagskreppunni.
99,95% þjóðarinnar hafa ekki tjáð sig en ég trúi því að samlandar mínir séu flestir svo skynsamir að þeir óski sér ekki að detta aftur í gamla farið sem skilaði okkur stórkostlegu efnahagshruni.
Anna Einarsdóttir, 31.10.2009 kl. 01:30
Áhugi þinn á Davíð Oddsyni og Sjálfstæðisflokknum er eftirtektarverður - hlutlaus og fagleg umfjöllun
Óðinn Þórisson, 31.10.2009 kl. 10:25
Alveg frábært hvað þetta vinstra lið er haldið mikilli davíðsfóbíu,það hefði verið gaman að sjá hver niðurstaðan væri ef gerfiríkisstjórn samspillingarinnar og vinstra viðhengisins hefði nú gert eitthvað af viti þennan tíma sem þau eru búin að sukka með stjórn landsins.
magnús steinar (IP-tala skráð) 31.10.2009 kl. 16:24
Það sem vakti athygli mína og fáir hafa nefnt er að þessi könnun var ekki tekin úr handahófskendu úrtaki heldur völdum hópi "álitsgjafa" blaðsins. Þeir eru reyndar nokkuð margir, en gætu samkvæmt því verið úr félagaskrá Sjálfstæðisflokksins.
Kristín Sig (IP-tala skráð) 31.10.2009 kl. 21:26
Augljóst að margir Íslendingar eru haldnir Stokkhólmsheilkenni.
Davíð Oddsson að 'leiða' okkur út úr kreppunni!?! Svipað og að biðja Hitler um að leiða endurreisn gyðingdóms í Evrópu.
Guðgeir (IP-tala skráð) 31.10.2009 kl. 23:22
þú hittir naglann á höfuðið Kristín.. það eru þessir "álitsgjafar" blaðsins... þeir sem hafa sagt álit sitt á blaðinu eru sennilega mest heimakærir ihaldsinnar sem vilja ekki miklar breytingar... eldra fólkið.. sem á sparifé og vill ávöxtun og hærri lifeyri... Þarna hefur ekkert gerst síðan 1990... ekkert net og bara morgunblaðið. Og þó er ég á því að þeir hafi fengið sérstakan e mailalista þar sem vænta mátti ákveðinna úrslita.
Tryggvi Gunnar Hansen, 1.11.2009 kl. 00:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.