Hópur áhyggjufullra Íslendinga skrifaði bréf til framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Dominique Strauss-Kahn, og fór fram á fund með honum til að fá skýr svör við ýmsum spurningum sem brenna á almenningi á Íslandi. Hópnum finnst ekki nóg að lágt settir starfsmenn sjóðsins, s.s. svokallaður "landstjóri" AGS á Íslandi, svari eða svari ekki eftir atvikum þeim spurningum sem upp koma hverju sinni og að sjóðurinn hafi sína hentisemi með framtíð þjóðarinnar og komandi kynslóða.
Hér er íslensk útgáfa bréfsins, en ensk útgáfa var send Strauss-Kahn bæði í tölvupósti og með UPS/DHL hraðsendingu fyrr í dag.
Reykjavík, 2. nóvember 2009
Hr. Dominique Strauss Kahn
framkvæmdastjóri
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn
Washington, D.C., 20431
U.S.A.
Ágæti Strauss Kahn,
Íslenska þjóðin stendur nú frammi fyrir miklum erfiðleikum. Þeir erfiðleikar orsakast að hluta til vegna alheimskreppunnar. Ástæðan fyrir stærð vandamálsins á Íslandi er sú að íslenskir bankar, sem voru einkavæddir m.a. í samræmi við stefnu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins snemma á þessari öld, tefldu allt of djarft. Mjög ámælisvert er að þessi þróun hafi átt sér stað án þess að íslensk stjórnvöld hafi gripið í taumana. Í kjölfar bankahrunsins leituðu íslensk stjórnvöld til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um aðstoð í október 2008.
Við, undirrituð, teljum vafa undirorpið að sú samvinna sem Ísland hefur tekið upp við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sé íslenskri þjóð til hagsbóta og viljum fá úr því skorið. Það er að renna upp fyrir okkur að stefna sjóðsins er öðru fremur að skuldsetja íslensku þjóðina til að gæta hagsmuna fjármagnseigenda. Ábyrgð Íslendinga er mikil og það er okkar að koma í veg fyrir að komandi kynslóðir verði skuldsettar með þeim hætti að þær geti ekki staðið í skilum. Sem almennir borgarar á Íslandi förum við fram á skýr svör.
Skoðanakannanir sýna að meirihluti íslensku þjóðarinnar er andvígur frekara samstarfi við AGS. Þarna vegur þyngst sú staðreynd að AGS stillti íslenskum stjórnvöldum upp við vegg í Icesave-deilunni við Breta og Hollendinga. Það er óásættanlegt að alþjóðastofnun hagi sér á slíkan hátt, enda hefur þetta rúið sjóðinn því trausti sem hann hafði á Íslandi.
Þar sem hagsmunir heillar þjóðar og afkomenda okkar eru í húfi, förum við hér með fram á fund með þér, framkvæmdastjóra sjóðsins. Við viljum ræða við þig efnahagsáætlun AGS og fá skýringar á einstökum þáttum hennar. Við munum leggja fram rökstudda gagnrýni byggða á opinberum gögnum. Fundurinn getur farið fram í Reykjavík eða Washington eða annars staðar ef það hentar. Afar brýnt er að fundurinn fari fram sem allra fyrst og eigi síðar en 15. desember 2009.
Við, sem undir þetta bréf ritum, erum almennir borgarar á Íslandi. Við erum á öllum aldri, af báðum kynjum og styðjum mismunandi stjórnmálaflokka. Eftir efnahagshrunið sem varð sl. haust stóðum við fyrir opnum borgarafundum þar sem ráðherrar og þingmenn hafa mætt og svarað spurningum almennings milliliðalaust. Við teljum það heiður fyrir þig, framkvæmdastjóra AGS, að feta í fótspor fulltrúa elsta þjóðþings veraldar, Alþingis, og eiga með okkur opinn og heiðarlegan fund.
Agnar Kr. Þorsteinsson sérfræðingur í tölvuþjónustu atvinnulaus
Ásta Hafberg, verkefnastjóri Markaðsstofu Austurlands
Elías Pétursson, framkvæmdastjóri
Einar Már Guðmundsson, rithöfundur
Guðmundur Andri Skúlason, vélstjóri
Gunnar Skúli Ármannsson, læknir
Gunnar Sigurðsson, leikstjóri
Halla Gunnarsdóttir, alþjóðastjórnmálafræðingur
Haraldur L. Haraldsson, hagfræðingur
Heiða B. Heiðarsdóttir
Helga Þórðardóttir, kennari
Herbert Sveinbjörnsson, kvikmyndargerðarmaður
Lára Hanna Einarsdóttir, þýðandi og leiðsögumaður
Lilja Mósesdóttir, alþingismaður
Ólafur Arnarson, rithöfundur og Pressupenni
Hér er enska útgáfan af bréfinu.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Spilling og siðferði, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt 3.11.2009 kl. 18:05 | Facebook
Athugasemdir
Þetta er nú það heimskulegasta sem ég hef lesið lengi!! Ef menn hafa deildar meiningar um AGS og ráðgjöf hans til handa hinu gjaldþrota Íslandi þá á að beina gagnrýninni til íslenskra stjórnvalda, ekki Framkvæmdastjóra IMF. Þetta fólk sem samdi þetta bréf og sendi í einhverju bríaríi verður að átta sig á því að hér á landi eru löglega kjörin stjórnvöld með umboð frá meirihluta þjóðarinnar til að semja við AGS
Eru nú allir farnir að apa eftir Bjarmalandsför þeirra Framsóknargemlinganna? Hvað er í gangi?
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 2.11.2009 kl. 18:02
Vísir, 02. nóv. 2009 19:38
Fyrirtæki á undanþágu uppvís af milljarða gjaldeyrisbraski
..Um það bil fjörtíu fyrirtæki hafa orðið uppvís af því að misnota undanþágu um gjaldeyrishöft frá Seðlabanka Íslands með stórfelldu gjaldeyrisbraski samkvæmt fréttastofu RÚV.
Um er að ræða tugmilljarða viðskipti samkvæmt heimildum RÚV en Seðlabankinn hefur þegar vísað tuttugu málum til Fjármálaeftirlitsins.
Þá kemur einnig fram í fréttinni að um sé að ræða fámennan hóp eða um tuttugu einstaklinga.
Fyrirtækin eru ekki brotleg gagnvart lögum en gjarðir þeirra ganga gegn anda laganna um gjaldeyrishöftin.''
Hér fyrir ofan setti ég frétt sem ég var lesa á visi.is og gerði mig orðlausan. Hugmyndasmiðir réttlætiskenndarinar með yfirklór og tepruskap að leiðarljósi geysast nú fram fram fyrir sérhagsmunahópa sína og eru komnir með nýyrðið ,, ganga fram gegn anda laganna en ekki lögbrjótar'' Hér má lesa snilli þessara manna og spurning þegar hin skrifuðu lög eru og eru ekki í anda laganna hvort það sé ekki kominn tími til að leggja af alla lögmannsstéttina og fara að þjálfa upp særingamenn svo hægt sé að hemja þessa óáran. Andagiftin verður seinsótt til saka og því má segja að búið sé að leysa fangelsismálin hvað þetta má varðar. Spurning er hvort við þurfum ekki líka bara að leita AGS heldur einnig til útgerðar- og gjaldeyrisbraskaranna að biðja þá vægðar fyrir íslensk samfélag þá sérstaklega fyrir barnafjöldskyldur sem eru að reyna að koma sér þaki yfir höfuðið. Sumir virðast geta lifað í óraunveruleika og eiga heima í húsi andanna en við vanalegur almenningur viljum hafa það naglfastara.
Baldvin Nielsen Reykjanesbæ
P.S. Afhverju er ekki sagt hverjir þetta eru? 'Ætla fjölmiðar ekki að taka þátt í Nýja Íslandi?
B.N. (IP-tala skráð) 2.11.2009 kl. 20:19
Nú færðu mig til að efast Lára Hanna. Þið skrifið:
Er ekki ástæðan miklu frekar sú að nokkrir einstaklingar, sem margir störfuðu innan bankanna eða áttu þar drjúgan hlut, urðu of gráðugir. Eftir allt það sem á undan er gengið er það ljóst í mínum huga að græðgin varð Íslendingum að falli númer eitt, tvö og þrjú. Auðvitað hjálpaði einkavæðingin til og vissulega vantaði margt uppá regluverkið þar í kring. En ef þessir einstaklingar, stjórnendur bankanna og eigendur þeirra hefðu ekki orðið svona gráðugir og ef þeir hefðu unnið að heiðarleika og verið ærlegir gagnvart viðskiptavinum sínum hefði fallið ekki orðið svona hátt. Græðgin kemur AGS í sjálfu sér ekki við og ég veit ekki hvað Strauss Kahn á að segja við ykkur ágæta fólk.
Hefði ekki verið nær að þið, sem undirritið þetta bréf, hefðuð skrifað samsvarandi bréf til þeirra 40 einstaklinga sem taldir eru til þeirra sem mesta ábyrgð bera á því gríðarlega hruni sem varð hér heima. Skrifið þeim ærlegt bréf og segið þeim að koma auðmjúkir til dyra frammi fyrir íslenskri þjóð og afsala sér öllu því "ríkidæmi" sem þeir telja sig hafa komið sér upp. Segið þeim að skila til íslensku þjóðarinnar því sem þeir hafa af græðgi sankað af sér og sett í aflandsfélög. Segið þeim að koma heim og mæta hinni íslensku þjóð, almúganum, skrílnum. Þá, og aðeins þá, er von til þess að hluti þjóðarinnar nái sáttum við þá.
Persónulega er ég í miklum efa varðandi AGS, helst vildi ég vera laus við það fyrirbæri, en hvaða möguleika eigum við í stöðunni? Hvernig teljið þið, sem undirritið þetta bréf, að almenningur í Evrópu líti á okkur þegar við höfum ekki stigið það skref sem þarf til að gera upp við okkar eigið fólk? Hér situr enginn á sakamannabekk, hér iðrast ekki einu sinni nokkur maður. Hvaða álit haldið þið að fólk erlendis hafi á okkur sem þjóð, margfaldið það svo með 100 og þá fáum við álit AGS á okkur, ribbaldar, ræningjar, siðlausir viðskiptamenn, gráðug þjóð.
Ég áfellist engan sem hefur þessa skoðun. Það er kominn tími til að líta á manninn í speglinum!
Ingibjörg Hinriksdóttir, 2.11.2009 kl. 20:39
Er þetta einhvers konar sjálfskipuð, ný ríkisstjórn? Þetta þarf ég að melta. Ja hérna...
Kama Sutra, 2.11.2009 kl. 20:57
Reyndar sýnist mér það vera ríkisstjórn (nýja?) Íslands sem vill ekki að við fáum "viðkvæmar" uppýsingar.
Ég treysti þessu fólki sem þarna skrifar undir til að segja mér hverst þau verða vísari.
Svo ég segi: Áfram þau!
Hvort þau hafa einhver áhrif á stefnu AGS set ég hins vegar spurningarmerki við. En fyrst ríkisstjórnin vill ekki að við vitum hvað er búið að skrifa upp á fyrir okkar hönd, má hver sem vera vill reyna að komast að því. Svo ákveðum við, sem erum þjóðin, hvað næsta skref er ljósi þeirra "viðkvæmu" upplýsinga.
Sigga Lára (IP-tala skráð) 2.11.2009 kl. 21:36
Mér finnst bara gott mál að fleiri en ríkisstjórnin tali við AGS. Til að sýna þeim að almenningur á Íslandi lætur sig málið varða. Það verður að gæta þess að valdamikil öfl úti í heimi haldi ekki að við séum bara viljalaus peð á götunum sem hægt sé að bjóða hvað sem er.
Húnbogi Valsson (IP-tala skráð) 2.11.2009 kl. 21:46
Sigga Lára og Húnbogi. Haldið þið að AGS sé hér vegna þess að þeir hafi óskað sérstaklega eftir því? Haldið þið að það auki trú þeirra á að við stöndumst áætlanir sem við sendum þeim? Haldið þið að þeir séu að kúga okkur til að þiggja lán frá þeim? Þið vitið eins og aðrir að við getum sagt upp þessu samstarfi um leið og menn eru búnir að sýna okkur einhverja aðra raunhæfa leið til að komast út úr þessari gjaldeyris kreppu.
Það var Geir Haarde og Davíð Oddson sem lögðu upp þessa áætlun mið AGS. Leiðin er erfið en gengur út á að við reynum að snú hér við ástandinu á skömmum tíma til að börnin okkar þurfi ekki að engjast í því ástandi sem við sköpuðum okkur með grandvaraleysi og græðgi. En þegar kemur að því að taka á þá þessu saman þá hlaupa allir út og suður. Benda á hinar og þessar leiðir sem fjöldin gleypir athugasemdalaust en reynist svo engin innistæða fyrir. Eins og þegar fólk er núna farið að tala um að við þurfum að hafa halla á fjárlögum um lengri tíma. Fólk hlýtur að átta sig á að það þýðir lántökur og enn auknar vaxtagreiðslur næstu árinn. Fólk talar um risalán frá Noregi. Fólk sá nú hvernig þetta fór.
AGS er hér eins og tilsjónamaður í greiðsluaðlögun. Þ.e. hann þarf að samþykkja áætlanir okkar um hvernig við ætlum að laga okkur að skuldastöðu okkar og í framhaldi að sjá til þess að við verðum í aðstöðu til að borga til baka lánin sem við erum að fá. Fólk verður bara að átta sig á því að við höfum hagað okkur mjög óábyrgt.
Og óvart nú þá er þetta hrunið í hausinn á okkur. Og nú eru allir að keppast um einhverjar æðislegar lausnir við að þurfa ekki að borga. En það eru yfirleitt þannig að flestar skuldir þarf að greiða og sér í lagi ef það er ríkið sem skuldar. Og til þess þurfum við að ná að loka fjárlagahallanum því annars eigum við ekkert til að greiða nema að taka fleiri lán. Og til þess að halda krónu ræflinum gangandi þurfum við að eiga aðgang að verulegum gjaldeyri og þurfum því að geta tekið lán og til þess að þau verði ekki of dýr eða ekki boði, þurfa lánveitendur að hafa trú á að við séum borgunarmenn fyrir því. Þeir þurfa að vera vissir um að við förum ekki að nota þetta til að halda hér uppi lífsgæðum sem á sér enga stoð í raunveruleikanum. Eins og við lifðum hér áður.
Magnús Helgi Björgvinsson, 2.11.2009 kl. 22:25
Magnús Helgi. Ég get nú ekki verið ósammála þér. Ég hef einmitt hugleitt að þetta offjárfestinga og neysluæði, með því að byggja þúsundir íbúða umfram þörf, svo ekki sé talað um óhóflega skuldasöfnun Landsvirkjunar og OR, skuldir sem er meira en fjórföld IceSave skuldin. Neyslufyllirí almennings, þar sem vanskil og gjaldþrot einstaklinga eru álíka mikil og IceSave, lánasukk sjávarútvegsfyrirtækja. Þetta þýðir að það hefði komið kreppa hér á landi þó að bankarnir hefðu ekki hrunið og þó að engin kreppa hefði verið úti í heimi.
Húnbogi Valsson (IP-tala skráð) 2.11.2009 kl. 22:45
Þar sem ég er einn af þeim sem kvittar undir bréfið, þá langar mig að gera smá athugasemdir við orð Ingibjargar. Við hefðum getað talað örugglega um slatta varðandi íslenska bankamenn, eigendur bankanna og annað slíkt og drekkt bréfinu í formála þess, en það hefði ekki þjónað neinum tilgangi og eingöngu verið til þess að drekkja bréfinu. Bankarnir tefldu djarft svo á bæði löglegan og ólöglegan hátt, urðu 12 sinnum þjóðarframleiðsla að stærð(minnir mig) og græðgi egeineda og stjórnenda er svo drifkrafturinn í þessu öllu sem við súpum seyðið af.
Við höfum bara áhuga á að ræða við Dominique Strauss Kahn um AGS og hvað hann ætlar sér fyrir hér á landi, útreikninga varðandi Ísland hjá þeim á móti tölum sem við höfum, hvort hann ætli að fylgja eftir sömu stefnu og í öðrum löndum þar sem hann hefur skilið eftir sviðna jörð eða hvort breytingar verði á stefnu hans, sérstaklega þar sem við höfum talsverðar áhyggjur af fyrirætlunum hans varðandi ýmsa þætti hér á landi s.s. auðlindamál og heilbrigðiskerfið.
Mig langar svo að benda á að þú segir hversvegna við sendum ekki frekar bréf á þessa 40(sem reyndar er alltaf talað um sem 30) sem ég tel reyndar frekar vera 300 eða 3000 því það voru stjórnendur o.fl. sem tóku þátt í svindlinu. Við ákváðum einfaldlega að senda á AGS þar sem við höfum áhyggjur af því öllu og viljum fá skýringar og svör sem við fáum ekkert hér á landi í gegnum milliliði eða pólitískan sandkassaleik leikskólans við Austurvöll.
Ég aftur á móti hver þig Ingibjörg og aðra, að senda bréf á þessa siðblindu ribbaldahjörð og reyna. Þó við sendum á AGS, þá þyðir það ekki að við séum þau einu sem geta sent bréf.
Kama Sutra: Ný ríkistjórn:) Nah, held ekki, við bara ákváðum að framkvæma og reyna að fá sjálf svör, í stað þess að tuða bara um það á netinu í algjörri óvissu. Ef hann segir já við fund, eðal, ef hann segir nei, þá getum við allavega horft framan í spegil og sagt:"Við reyndum þó."
AK-72, 3.11.2009 kl. 00:10
Eigum við að treysta stjórnvöldum fullkomlega og í blindni til að gera það sem kemur sér best fyrir okkur?
Var það ekki það sem kom okkur í þessi vandræði til að byrja með??
Hvað er athugavert við að leita svara?
Hvað er að ykkur??
Ég treysti stjórnvöldum til þess að gæta að því að bankar og allar eftirlitsstofnanir myndu ekki setja okkur á hausinn........... ehm.......
Á ég kannski að treysta þeim til að leiðrétta bullið án þess að reyna að afla mér upplýsinga líka?
Ég ætla ekki að sitja sem aflóga gamalmenni á ölmusu...... og geta ekki horft í spegil af því að ég reyndi ekki rassgat að spyrna við fótum
Djöfulsins kógara-samfélagi viljið þið vera í gott fólk
Heiða B. Heiðars, 3.11.2009 kl. 00:34
Alþingi er ekki elsta þing veraldar...
GRÆNA LOPPAN, 3.11.2009 kl. 01:48
Nú er ég aldeilis hissa! Er þetta ekta bréf! sá það fyrst annarsstaðar á vefnum og hélt að þetta væri DJÓK!
Hvar er siðferðiskenndin, hvað á að ræða, okkar börn, ég um mig frá mér ... já ég er hissa! Og sammála mörgum hér að ofan AGS er enginn engill ... EN vandinn er heimatilbúinn og eins skítt og það er þá sitjum við í þessari súpu!
Regina (IP-tala skráð) 4.11.2009 kl. 15:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.