20.11.2009
Lágkúrufjölmiðlun
Um daginn var mikið talað um lágkúrufjölmiðlunina sem hefur færst mikið í vöxt undanfarin ár. Slík tegund fjölmiðlunar birtist einkum í raunveruleikaþáttum og fíflagangi í sjónvarpi, gaspri og flissi í útvarpi og skrifum í ýmsa miðla um ófarðaðar stjörnur að kaupa í matinn, fitukeppi, appelsínuhúð eða lafandi brjóst svo eitthvað sé nefnt. Svo ekki sé minnst á auglýsingarnar sem fylgja þessum ósköpum.
Ímyndasmiðir nútímans koma úr ýmsum áttum og keppast við að stýra neyslu fólks og útliti og búa til gerviþarfir til að selja óþarfa. Oft er höfðað til lægstu hvata mannskepnunnar og allt er leyfilegt. Gjarnan er þeim mest hampað sem eru kjaftforastir, hneyksla mest og ganga lengst og þau gerð að ímyndum "fallega fólksins", "sannra karlmanna", "kynþokka" og þar fram eftir götunum. Þegar þetta fólk opnar munninn kemur ekki óbrenglað orð út úr því og ekki vottar fyrir heilbrigðu lífsviðhorfi, skynsemi eða sæmilega virkri heilastarfsemi. Um eitt þessara fyrirbæra kvenkyns var sagt nýverið: "Verðugur fulltrúi klámkynslóðarinnar, sem hlutgerir kvenlíkamann og lætur ungum stúlkum líða eins og þær þurfi að afklæðast til að hljóta viðurkenningu." Séðogheyrtþáttur Stöðvar 2 hefur verið iðinn við að kynna þessa tilteknu konu ásamt fleira svona fólki og hampa því sem fyrirmyndum... ja, hverra? Unglinganna? Maður spyr sig...
Þeir sem standa fyrir svona fjölmiðlun afsaka sig með því að þetta vilji fólk horfa og hlusta á eða lesa um. Þó var ritstjóri Vísis ansi vandræðalegur í viðtali um málið við Kastljós um daginn og í mikilli vörn. Ef það er satt sem þau segja - hvað er það í mannlegri náttúru sem gerir það að verkum að fólk nýtur þess að sjá náungann niðurlægðan? Getur einhver sagt mér það?
Kastljós 26. október 2009
Ég fjallaði um þessa lágkúrufjölmiðlun í Morgunvaktarpistlinum fyrir viku, föstudaginn þrettánda. Hljóðskrá viðfest neðst í færslunni.
Ágætu hlustendur...
Hvað er það í eðli mannskepnunnar sem veldur því að hún gleðst yfir óförum annarra? Það hlakkar í fólki þegar einhver er niðurlægður og margir borga jafnvel háar upphæðir fyrir að horfa á sjónvarpsefni þar sem fólk er ýmist rifið niður eða troðið í svaðið.
Fjölmiðlar hafa verið einn mesti áhrifavaldur undanfarinna áratuga og eru enn. Áhrifum fylgir ábyrgð og hún er afar vandmeðfarin. Þess vegna vakti mikla furðu í þjóðfélaginu þegar Stöð 2 tók upp á því, aðeins þremur mánuðum eftir efnahagshrunið, að gera fréttamagasínþáttinn Ísland í dag að ábyrgðalausu þunnildi. Einmitt þegar þjóðin þurfti sem mest á beittri og gagnrýninni fjölmiðlun að halda.
Raunveruleikaþættir, sem margir ganga út á að niðurlægja fólk á einhvern hátt, hafa tröllriðið sjónvarpsdagskrám. Á fjölmiðlunum situr fólk á fullum launum við að gera grín að appelsínuhúð, lafandi brjóstum eða fitukeppum á þekktum einstaklingum. Svo ekki sé minnst á of litla eða of stóra rassa eða óeðlilegan hárvöxt á viðkvæmum stöðum. Sérstaklega er svo tekið fram ef myndir af ósköpunum fylgja.
Sumir fjölmiðlar hafa verið duglegir við að reka sitt reyndasta og oft besta fólk í nafni niðurskurðar, en ráða í staðinn óreynd, ótalandi og óskrifandi ungmenni sem væntanlega er auðveldara að stjórna. Í september sagði einn fjölmiðillinn meira að segja upp blaðamönnum á sjötugsaldri sem áttu eftir örfá ár í eftirlaun og höfðu alið mestallan sinn starfsaldur hjá blaðinu. Siðleysið var algjört.
Ég hef spurt marga hvað óábyrgum stjórnendum þessara fjölmiðla gangi til. Hvers vegna hið vitræna sé skorið niður á meðan hlaðið er undir lágkúru og fíflagang. Margir botna ekkert í þessu frekar en ég og enn aðrir segja: "Þetta er það sem fólk vill." En það er ég alls ekki sannfærð um. Hefur fólk eitthvað val?
Ég held stundum að með því að halda þessari tegund fjölmiðlunar að almenningi séu óprúttnir aðilar meðvitað að búa til einhvers konar heilalaust lágkúrusamfélag með það fyrir augum að ef hægt er að koma í veg fyrir að fólk hugsi sé auðveldara að stjórna því. Segja því hvað það vill og hvað ekki, hvað má og hvað ekki - og hverjir mega hvað og hverjir ekki. Láta fólk svífa gagnrýnis- og hugsunarlaust í gegnum lífið, til þess eins að vera örsmátt tannhjól í æðra ætlunarverki valdhafanna.
Unga fólkið er sérstaklega viðkvæmt fyrir slíkri fjölmiðlun. Við hverju er að búast af fullorðnum einstaklingi sem alinn er upp við endalaust gláp á raunveruleikaþætti í sjónvarpi og útlitsfjölmiðlun, sem rífur látlaust niður sjálfstraust fólks og veikir sjálfsmynd þess? Valdhafa sem hegna fólki fyrir að hugsa og gagnrýna í stað þess að ýta undir heilbrigð skoðanaskipti og rökhugsun.
En mannskepnan hlær að niðurlægingu náungans og í höfði hennar bærist engin hugsun.
Jóhann Hauksson skrifaði frábæra bloggfærslu á svipuðum nótum um daginn sem hann svo breytti og bætti og birti í DV. Smellið þar til læsileg stærð fæst.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Fjölmiðlar, Lífstíll | Breytt 22.11.2009 kl. 02:58 | Facebook
Athugasemdir
Sæl Lára
Mér finnst þetta blogg einstaklega gott hjá þér og fyrir löngu tímabært, því þetta tengist að ákveðnu leyti hruni Íslands að hluta til, þetta glamúr fólk sem er lítill hópur og þröngur en alltaf sá sami, rottar sig saman í partýum. veislum og kokteilboðum af ýmsu tagi, setur ímyndir og ljósmyndarar pressunar halda ekki vatni yfir að "covera" atburðina, sýna nýju kjólana og útlit þessara "stjarna" "stereótýpa" þetta lið út í ystu æsar, síðan les unga fólkið okkar þetta og heldur smátt og smátt að svona eigi þetta að vera, fatnaður, útlit og peningar og flottir bílar eru "inn", síðan hrynur spilaborgin og eftir standa unglingarnar með sínar hugmyndir sem ekki er hægt að fullnægja.
Guðmundur Júlíusson, 20.11.2009 kl. 19:21
Það er einhver ósóma dýrkun í gangi og meira áberandi hjá sumum blöðum en öðrum. Sérstaka athygli vekur fréttamat DV . Hvað veldur þeirra aumingja dýrkun er ekki hægt að skýra með öðru en að siðferði þeirra sem skrifa er á sama lága plani og viðmælendanna. Glæpamenn og úrhrök þjóðfélagsins eru oftar en ekki settir á stall og hljóta sérstaka athygli. Heilbrigt líf er ekki fréttaefni hjá þessum miðlum og þarmeð ýta þeir undir lágkúru og lágmenningu
Takk fyrir að vekja athygli á þessu
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 20.11.2009 kl. 19:52
Eilítið á skjön við umræðuefnið...
Fjölmiðlar ærast þessa dagana vegna þess að "lítt þekktir" eru valdir til að gegna ofurmannaembættum ESB. Ég er ein þeirra sem er guðslifandi fegin. Ekki átti ég von á góðu enda hættan á "sterkum" stjórnmálamönnum mjög gegn anda ESB jafnvel þótt Lissabonn-sáttmálinn (sem einfaldar stjórnkerfi ESB) hafi verið sniðinn að lítt dulinni löngun "þekktra" stjórnmálamanna með einræðisstæla og sviðsljóssfíkn að drottna þar sem annars staðar án tillits til þess sem mestu máli skiptir : fólksins í ólíkum löndum ESB.
GRÆNA LOPPAN, 20.11.2009 kl. 19:55
Jóhannes, lágkúran er hjá fréttavefnum visir.is en ekki DV...
GRÆNA LOPPAN, 20.11.2009 kl. 20:19
Algjörlega sammála þér Lára og sérstaklega með tilganginn, ég held nefnilega að tilgangurinn sé einmitt sá að búa til heilalausa áhorfendur. Áhorfendur sem hugsa ekki gagnrýnið. Berlusconi hefur gert þetta á Ítalíu. Þar heldur hann úti flestum fjölmiðlum og þar eru svo sannarlega ekki fréttaþættir sem fræða almenning um hvað er að gerast í samfélaginu heldur er lágkúran algjör. Spurningaþættir þar sem hálfklæddar konur ganga um í bíkiníum eru allsráðandi og er tilgangurinn sá að sjá til þess að fólk hugsi ekki. Að fólk sitji bara og horfi á konuna í bíkiníinu í staðinn fyrir að velta fyrir sér af hverju Berlusconi er nánast búinn að eignast allt landið og er að reyna að setja lög sem sjá til þess að hann þurfi ekki svara til saka fyrir spillingu.
Ég held að það sama sé að gerast hér. Á meðan við horfum á Sigurjón Berndsen segja konum að þær séu nú ekki nógu kvenlegar í flíspeysum eru þeir fjármálagaurar sem tóku þátt í hruninu komnir aftur að borðinu eða setjandi fram himinháar kröfur í þrotabú bankanna.
Guðrún (IP-tala skráð) 20.11.2009 kl. 21:43
Mesta ógeðið er hversu langan tíma þessi meri gefur sér til að niðurlægja vesalings krakkana.
Árni Gunnarsson, 21.11.2009 kl. 00:38
Já lágkúran er farin að hafa veruleg áhrif á menntuðu bókaþjóðina.
Annars sagði Guðrún hér að ofan allt sem ég vildi hafa sagt. Bara að leiðrétta eitt hann heitir víst Karl Berndsen, en við ( aðalega konur ) höldum áfram að gapa upp í þessa menn sem segja okkur hvernig við eigum að vera og hvernig við megum alls ekki vera. Allt í boði lágkúrufjölmiðlanna.
Ef komandi kynslóðum er velt upp úr þessu drasli dag eftir dag, þá segi ég engar þjóðaratkvæðagreiðslur um mikilvæg málefni, það verður of mikið af fólki sem veit ekkert í sinn haus og fylgist ekkert með þjóðmálaumræðunni, og engan veginn hæf. Ekki er það nú beisið fyrir.
Heiður (IP-tala skráð) 21.11.2009 kl. 01:03
ég hef á tilfinningunni að þú, Guðrún, sért alger femínisti með öllu því sem því fylgir, og ég held þú farið með rangt mál er þú talar um Sigurjón Berndsen, halló, hann heitir Karl Berndsen!!! þ.e. ef þú ert að tala um sama mann og ég held.
Guðmundur Júlíusson, 21.11.2009 kl. 01:09
Ég verð að segja að ég sakna að heyra ekki comment frá höfundi þessarar síðu, ef hún sér sér ekki fært að færa inn athugasemdir við færslur okkar, þá hlýtur hún að vera upptekinn við annað.
Guðmundur Júlíusson, 21.11.2009 kl. 01:15
"Þetta er það sem fólkið vill" er einfaldlega of- og misnotuð bábilja þegar lágkúrulegt efni er annars vegar.
"Fólk" er nefnlilega ekkert "fífl", þrátt fyrir fræga tilvitnun, heldur almennt bara svona frekar viti borið -og kann að meta efni í samræmi við það.
Þegar slíkt stendur til boða...
Hildur Helga Sigurðardóttir, 21.11.2009 kl. 01:41
guð hvað ég er sammála þér og Jóhanni.
Rut Sumarliðadóttir, 21.11.2009 kl. 11:13
Lágkúran ríður ekki við einteyming á visi.is Ksí-málið er angi af sama meiði. Allt í lagi að kaupa konur í útlöndum. Á Facebook flykkist fólk í feminista-félagið vegna þessa máls. Bæði karlar og konur.
Íslenskir karlmenn eru áratugum á eftir kynbræðrum sínum í Evrópu hvað varðar hugarfar til vændis. Þeir skilja ekki að mansal og skipulagðir glæpir eru mjög nálægt súlustöðunum. Umræða um þessi mál hefur ekki liðist hér á landi. Kannski vegna þess að almenn umræða þarf að fara fram í fjölmiðlum og fjölmiðlar á Íslandi eru í eigu.... kaupmanna og útrásarvíkinga? Og siðferði þeirra er lýðum ljóst.
Rósa (IP-tala skráð) 21.11.2009 kl. 12:53
En það er algert karlager á fjölmiðlum almennt og hefur alltaf verið. Hvað ætli hlutfallið á dagblöðunum t.d. sé ? Giska á 90% á DV og Fréttablaðinu (þar með talið visir.is)... Hvernig skyldi þetta vera í sérhagsmunakotinu, Mogganum ?
GRÆNA LOPPAN, 21.11.2009 kl. 20:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.