Stóra Landspítalamálið

Það er svo margt sem ég botna ekkert í. Eitt af því er bygging svokallaðs "hátæknisjúkrahúss" (sem er reyndar fáránleg nafngift), staðsetning þess og fyrirhugaður rekstur. Ævinlega er hamrað á því, að heilbrigðiskerfið sé allt of dýrt. Mismikill niðurskurður eða sparnaður er árviss viðburður, deildum er lokað á sumrin og undanfarin 10 til 15 ár hefur æ meiri kostnaður færst yfir á sjúklingana sjálfa - alveg burtséð frá fjárhag þeirra eða greiðslugetu. Ég hef alltaf litið á það sem fyrstu skrefin í að láta draum Sjálfstæðisflokksins um einkavæðingu heilbrigðiskerfisins rætast.

Okkur er gjarnan sagt að þjóðfélagið hafi ekki efni á að reka heilbrigðiskerfið svo vel sé. Við eigum mikinn fjölda af mjög hæfu heilbrigðisstarfsfólki. Það verðskuldar eflaust betri starfsskilyrði og sjúklingar betri aðbúnað - en er málið nýtt "hátæknisjúkrahús" á stað sem margir vilja meina að sé kolómögulegur? Af hverju þykir svona brýnt að ráðast í bygginguna á þessum síðustu krepputímum þegar verið er að segja upp fólki, til dæmis í heilbrigðiskerfinu? Þess á milli er manneklan slík að ekki er hægt að reka spítalana. Er talið að atvinnulaust heilbrigðisstarfsfólk fari í byggingarvinnuna, eða hvað? Fyrir hverja er verið að skapa störfin og af hverju eiga lífeyrissjóðir landsmanna að verja lífeyrissparnaði fólks í meinta óarðbæra byggingu? Ég næ þessu ekki alveg.

Mér skilst að samkvæmt lögum þurfi að bjóða svona stórframkvæmdir út á EES-svæðinu. Erlendir verktakar gætu fengið verkið og miðað við reynsluna af Kárahnjúkum og viðsnúninginn þar má alveg eins gera ráð fyrir að vinnuaflið verði innflutt. Í hverra þágu er þessi framkvæmd og hvað veldur staðarvalinu? Fyrst varla er hægt að reka heilbrigðiskerfið nú þegar - til hvers að reisa nýtt sjúkrahús fyrir tugmilljarða í stað þess að nota peningana til að rétt af hallann og reka kerfið með reisn? Þetta minnir mig svolítið á að þegar gríðarlegur skortur var á starfsfólki í leikskóla á höfuðborgarsvæðinu fyrir nokkrum árum var tekið á það ráð að byggja nýja. Það vantar eitthvað í þetta púsluspil í mínum huga. En kannski hef ég bara ekki fylgst nógu vel með.

Hér er upptaka úr Silfri Egils og tvær blaðagreinar sem varpa einhverju ljósi á málið með staðsetningu nýja sjúkrahússins. Seinni greinin er í andstöðu við málflutning Guðrúnar Bryndísar Karlsdóttur í Silfrinu og leiðara Páls Baldvins Baldvinssonar í Fréttablaðinu. Hún er skrifuð af tveimur embættismönnum Landspítalans sem horfa greinilega á málið með öðrum gleraugum, en það er fróðlegt að skoða þetta í samhengi.

Guðrún Bryndís Karlsdóttir í Silfri Egils 8. nóvember 2009

Nýr staður brýnn - Páll Baldvin Baldvinsson - Fréttablaðið 18. nóvember 2009

Löngu ákveðið að sameina Landspítala við Hringbraut - Ingólfur Þórisson og Jóhannes M. Gunnarsson - Morgunblaðið 19. nóvember 2009


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Mér finnst svarið við þessu vera einfalt í ljósi sögunnar. Þetta er lobbyismi vertakabransans hér á landi og pólitískra vildarvina hans á þingi. Gamla framsóknarmennskan.  Þörfin skiptir engu þar.  Það eru agentar stórverktkanna, sem heimta þetta og þeir eiga sér spillt handbendi í öllum flokkum.  Tónlistarhúsið er eitt af þessu, runnið udan rifjum Samfylkingarinnar.  Hér eru allir jafn sekir svo enginn spornar við fæti. Það er bara málið að heimta gagnslausar framkvæmdir til að koma þeim auðugustu á jötu ríkisins.

Það er alveg kapítuli út af fyrir sig að rannsaka tengsl byggingariðnaðarins í flokkunum. Nýleg dæmi sýna hvernig framsóknarmenn hafa notað bolabrögð til að tryggja sínum mönnum hjá Eykt, feita mola.  Hér er ekki bara um beina framkvæmdavild að ræða heldur einnig úthlutun og sala borgar og ríkislóða undir brjálæðisverkefni þessara þenslukapítalista. 

Þetta er ekki í neinum tengslum við veruleikann. Það ætti hver maður að sjá.  Það skiptir þó engu máli þar sem spillingin ríður húsum. 

Jón Steinar Ragnarsson, 21.11.2009 kl. 15:10

2 identicon

Mjög athyglisverður pistill hjá þér Lára. Á meðan fjárframlög til heilbrigðismála hafa staðið í stað í krónum talið og lækkað að raungildi hafa skuldir gagnvart birgjum og vaxtakostnaður þar á ofan margfaldast. Birgjar spítalanna hafa kvartað mikið undan þessari þróun og hafa þurft að bera sífellt meiri byrgðar og eiga inni miklar kröfur á hendur þeim. Stefnan er hins vegar augljós hjá  ríkinu, að skera niður meira ár frá ári og orsaka þess vegna stækkandi skuldasúpu með tilheyrandi vaxtakostnaði.  Birgjarnir geta ekki endalaust tekið á sig skellinn og munu að lokum fara í þrot ef ekkert verður að gert.

Viskan (IP-tala skráð) 21.11.2009 kl. 15:21

3 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Mér finnst skipulagsþáttur málsins vera aðalatriðið og það sem rekur Pál til að skrifa leiðarann.

Mér vitanlega er allt heilbrigðiskerfið komið í deigluna og búast má við umræðum og tilskipunum um það mál allt næsta ár. Áður en sú stefnumótun er komin fram finnst mér ótímabært að byggja nýtt sjúkrahús.

Gísli Ingvarsson, 21.11.2009 kl. 17:03

4 Smámynd: Sigurður Ingólfsson

Það þarf engu við þetta að bæta Hanna Lára og margt gott sem Jón Steinar segir og þó. Það er óðs manns æði að leggja niður Borgarspítalann, þetta ágæta og tiltölulega nýja sjúkrahús. Verðmæti hans með öllum tækjum væri hægt að áætla minnst 25 milljarðar að frádregnu söluverðmæti ca 5 mj. 

Nú eru engir Símapeningar til þannig að það þarf að slá fyrir þeim nýja. Segjum að  með tækjum kosti hann 40 milljarða. Gefum okkur að þetta séu 60 milljarðar og vextir með verðtryggingu  8%, (gæti alveg eins verið 10-12%) þá er vaxtakostnaður á ári ca 5 mj. eða 50 milljarðar á 10 árum auk stofnkostnaðar. Sem sagt á 10 ára tímabili 20+40+ 50 mj. = 110 milljarðar. Það má vera ansi mikil hagræðing sem vinnur þetta upp. Með kveðju

Sigurður Ingólfsson, 21.11.2009 kl. 17:17

5 Smámynd: Sumarliði Einar Daðason

Nýju föt keisarans dettur mér helst í hug þegar þetta mál ber á góma. Þetta hátæknisjúkrahús á þessum stað er slys í sjálfu sér. Eftir hrunið hér á Íslandi ættum við að vakna upp í nokkrar sekúndur og skynja að það er eitthvað bogið við þetta. Það eru engin rök með þessu - öll á móti. Mér líður eins og í hópi með fimm ára krökkum (ég er samt ekki að halla á fimm ára krakka).

Sumarliði Einar Daðason, 21.11.2009 kl. 17:41

6 Smámynd: Magnús Karl Magnússon

Þau eru margþættrökin fyrir þessari staðsetningu, ekki síst skipulagsleg. Við skipulag þessa svæðis í heild sinni hefur m.a. verið bent á menntun og nýsköpun. Háskólasjúkrahúsið er sennilegast öflugasta opinbera rannsóknarstofnun landsins ásamt HÍ. Að slíta þessar tvær meginstoðir íslenskra vísinda- og tækniþróunar í sundur væru mikil og óafturkræf mistök. Vísinda- og tæknisamfélag okkar hefur marsinnis bent á nauðsyn þess að sameina og koma í návígi eins flestum þáttum og hægt er. Hátækni- og sprotafyritæki eiga að rísa í Vatnsmýrinni, HÍ og HR eru bæði á þessum stað og síðast en ekki síst LSH.

Þessi áttur má ekki gleymast í umræðunni. Viljum við reisa hér samfélag byggt á menntun, vísindum og nýsköpun? Viljum við heilbrigðiskerfi þar sem saman fara lækningar og hjúkrun sem helst í hendur við nýsköpun og menntun? Bæði innlendir og erlendir sérfræðingar hafa bent á að heilbrigðis- og lífvísindi eru eitt tveggja til þriggja sviða þar sem við erum mjög sterk alþjóðlega. Við eigum fyrirtæki, vísindafólk og nemendur sem skapa þekkingu á heimsmælikvarða. Að slíta þennan þátt menntunar og vísinda frá kjarna þessarar starfsemi væru mistök sem við myndum hugsanlega sjá eftir lengi.

Við búum við þann óvenjulega lúxus að eiga veruleg byggingarsvæði í námunda við háskóla og LSH sem gefur okkur þann kost að skipuleggja heildrænt uppbyggingu mennta og nýsköpunar. Sóum ekki slíku tækifæri.

Magnús Karl Magnússon, 21.11.2009 kl. 17:42

7 Smámynd: Magnús Karl Magnússon

PS: Nýja sjúkrahúsverkefnið heitir HÁSKÓLASJÚKRAHÚS ekki HÁTÆKNISJÚKRAHÚS.

PPS: Hér má m.a. sjá greinar þar sem rök eru færð fyrir tengingu HÍ og LSH:

http://haskolasjukrahus.is/nyrlandspitali/islenska/fjolmidlatorg/greinasafn/?cat_id=43926&ew_0_a_id=219798

http://haskolasjukrahus.is/nyrlandspitali/islenska/fjolmidlatorg/greinasafn/?cat_id=43926&ew_0_a_id=303228

Magnús Karl Magnússon, 21.11.2009 kl. 17:47

8 Smámynd: Magnús Karl Magnússon

Lára Hanna:

Ég hélt að heilbrigðiskerfið ætti í þér öflugri bandamann ennkemur fram hér að ofan. Af hverju ósköpunum segir þú t.d. "Fyrir hverja er verið að skapa störfin og af hverju eiga lífeyrissjóðir landsmanna að verja lífeyrissparnaði fólks í meinta óarðbæra byggingu?" Þetta er einmitt mjög arðbær fjárfesting fyrir lífeyrissjóðina. Með þessari nýju byggingu skapast mikil hagræðingatækifæri fyrir LSH og þannig verður hægt að greiða lífeyrissjóðum tilbaka fyrir bygginguna.

Síðan kemur þú með einhver óskiljanleg rök um að niðurskurður Sjálfstæðismanna síðustu 10-15 ár séu rök fyrir því ekki eigi aðfjárfesta í heilbrigðismálum nú!! Er þetta ekki einmitt rök fyrir því að við eigum að hefja endurreisn heilbrigðiskerfisins!

Það virðist ALDREI vera hægt að fjárfesta í heilbrigðismálum hér á landi. Í þennslu kom það ekki til greina. Nú hefur atvinnuleysi aldrei verið meira á höfuðborgarsvæðinu og fjárfestar (lífeyrissjóðir) vilja fjárfesta í nauðsynlegri uppbyggingu - þá rís fólk upp og segir - NEI þetta er ekki réttur tími. Hvers eiga starfsfólk og sjúklingar á LSH að gjalda!

Magnús Karl Magnússon, 21.11.2009 kl. 18:07

9 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Meðan við héldum enn að það væri góðæri á Íslandi (mars 2008) mætti ég sem starfsmaður Landspítala á kynningu á byggingu nýs háskólasjúkrahús. Þar var staðsetningin kynnt og rökstudd. Hluti af rökstuðningnum gekk út á að reiðhjólageymslu yrði gert hátt undir höfði, hún yrði undir þaki, innandyr. Mikill munur að þurfa ekki að fara út eftir að vera búinn að leggja hjólinu, hafandi hjólað í slabbi, roki, rigningu, skafrenningi eða öðrum íslenskum veðurafbrigðum!

Það er búið að leysa umferðarvandann, starfsmennirnir koma allir á hjóli.

Sjá nánar hér: http://bubot.wordpress.com/2009/09/27/nytt-haskolasjukrahus-allir-a-hjoli/

Kristjana Bjarnadóttir, 21.11.2009 kl. 18:10

10 identicon

Ástæða þessarar framkvæmdar er margnefnd. Rekstrarsparnaður við byggingu Háskólasjúkrahússins fyrir ríkissjóð nemur 2-3 milljörðum króna á ári eftir að leiga (byggingarkostnaður) hefur verið greidd. 2-3 milljarðar sem er verið að taka úr okkar vösum í dag.  þetta er miklu, miklu arðbærari framkvæmd en nokkur virkjun. Umræða um staðsetningu spítalans verður að horfa á heildarmyndina. Þá áþreifanlegu og þá óáþreifanlegu. Bygging spítalans annarstaðar yrði helmingi dýrari (staðreynd) arðseminn því minni (staðreynd). Bygging hans á S-V, A-N krossgötum austan Elliðaáa gerir t.d. , án umræðu, ráð fyrir því að besta staðsetning höfuðborgar sé á Seltjarnarnesi. Höfuðborgin ætti samkvæmt krossgötuhugsuninni að vera á Sprengisandi og hjartað í okkur og heilinn þar sem maginn er án þess að fara nánar út í þá sálma.

stefan benediktsson (IP-tala skráð) 21.11.2009 kl. 18:28

11 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Við erum fátæl.

Þ.e. óðs manns æði, að fara eyða tugi millkarða, af lifeyrissparnarði - í þetta.

Vandi gömlu húsanna, er einfaldlega sá - að ekki hefur í gegnum árin, verið nægilegu fé varið í, að aðlaga þau breytingum á aðstæðum.

Sannarlega þarf að eyða nokkru fé til að laga þau - en, í ljósi aðstæðna, verður það einnig að bíða.

Mikilvægast, er að hafa nógu góð tæki. þau eru gríðarlega dýr.

En, í ljósi aðstæðna, þurfa kaup á nýjum tækjum einnig að bíða.

Dýrt að vera fátækur, hefur oft verið sagt.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 21.11.2009 kl. 18:34

12 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

Tek undir með Magnúsi og Stefáni hér að ofan. 

Lífeyrissjóðirnir eru ekki að fjárfesta í þessu.  Þeir lána ríkinu þar sem ekki er hagstætt að fara með fé þeirra úr landi og ríkið fjárfestir.  Á þessu er mikill munur.

Eftir að hafa verið með barnið mitt á gjörgæslu fyrir nokkrum árum og fluttst síðan yfir á nýja barnaspítalann efast ég ekki um þörfina á nýju sjúkrahúsi.

Akkúrat núna er samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja/starfsmanna betri en nokkru sinni vegna stöðu krónunnar.  Við erum því núna líkleg til að fá sjúkrahúsið unnið eins ódýrt og hægt er og eins mikið af íslensku starfsfólki og hægt er.

Þarna er um að ræða stóriðjuframkvæmd á heilbrigðissviði sem mun hafa mikil áhrif á að koma íslensku efnahagskerfi á lappirnar að nýju.

Ps. Kristjana, þótt ekki nema 10% starfsfólks LSH mæti í vinnuna á hjóli þýðir það að við losnum við hvorki meira né minna en 450 bíla úr umferðinni í Reykjavík.  Það er því til nokkurs að vinna.

Sigurður Viktor Úlfarsson, 21.11.2009 kl. 18:49

13 identicon

Þetta mál er hreint út sagt ótrúlegt. Einhvern tíman á síðustu öld var ákveðið að nýtt háskólasjúkrahús skuli bygg sem viðbygging við gamla Landspítalann. Allir sem komið hafa að þessu máli og hafa örugglega greindarvísitölu yfir 100 hafa lagt til að nýtt háskólasjúkrahús skuli byggt annars staðar, þ.e. nær þar sem stórar umferðaræðar skerast. En það er sama hvað raular og tautar gamla ákvörðunin frá síðustu öld skal standa. Kvað svo sem það kostar. Og nú hafa lífeyrissjóðir landsmanna ákveðið að taka þá í ruglinu. Byggja skal nýtt háskólasjúkrahús á lóð Landspítalans, viðbygging við gamla spítalann. Áætlað er að það muni kosta svona um fjörutíu-þúsund-milljónir (40.000.000.000) króna. Þegar upp er staðið þýðir það kannske helmingi meira. Nema hvað vegna nýja spítalans þarf umferðamannvirki sem verða sennilega dýrari en spítalinn sjálfur. Því er verið að tala um ákvörðun um framkvæmdir upp á meira en eitthundrað-þúsund-milljónir (100.000.000.000) króna. Hvað sparast? Hjó eftir því um daginn að forstjóri spítalans sagði að nýtt sjúkrahús myndi spara um tvö-þúsund-milljónir (2.000.000.000) í viðhald á gamla spítalanum. Eða innan við 2% af þeim framkvæmdakostnaði sem er verið að tala um. Einnig er það spurning hvort ekki verður hvort eð er að viðhalda gamla spítalanum áfram ef nota á hann eins og gert er ráð fyrir.

HF (IP-tala skráð) 21.11.2009 kl. 19:33

14 identicon

Í ágætri grein Ingólfs og Jóhannesar kemur skýrt fram hvaða viðmið eru notuð við staðsetningarval Landspítala - Háskólasjúkrahúss og kann ég þeim þökk fyrir. 

Í umræðunni um hátæknisjúkrahús og háskólasjúkrahús finnst mér Lanspítalinn gleymast. Landspítalinn - spítali allra landsmanna er orðið að Landspítali - Háskólasjúkrahús. Fyrir hvern er spítali: landsmenn, háskólafólk eða vísindi/hátækni?

Af gögnum á háskólasjúkrahússvegnum má skilja að í fyrsta áfanganum á að flytja Landspítalann í Fossvogi (Borgarspítalann) og allann bráðakjarnann í nýbyggingu  Landspítala-Háskólasjúkrahús. Í næsta áfanga á að bæta við legudeildum og stoðdeildum og flytja þarmeð alla spítalastarfsemina í nýja byggingu (en tengja Barnaspítalann, Kvennadeild og Geðdeildarbyggingu við nýja spítalann með göngum/brúm). Síðar á að bæta við heilbrigðisvísindadeild HÍ og verslunarmiðstöð. Nýting gömlu byggingana er hluti af hönnunarsamkeppni og því kemur í ljós hvernig nýtingin á þeim verður.

Markmiðið virðist því vera að sameina Landspítala og Borgarspítala í Háskjólasjúkrahús sem verður staðsett fyrir framan gamla spítalann - þ.e. öll starfsemin fer í nýbyggingu.

Í Edinborg, Akershus, Winnenden og fleiri borgum eru ný sjúkrahús eða í byggingu, en þeim var valin nýr staður með tilliti til búsetu sjúklinga og heilbrigðisvísindadeild annaðhvort sem hluti af nýbygginu eða á sömu lóð. Gömlu spítalarnir stóðu á verðmætum lóðum sem voru seldar til að fjármagna nýbyggingarna.

Ég velti því fyrir mér hvernig borgin yrði ef einn stór vinnustaður með allt að 60.000 ferðum á sólarhring færi úr 101 austur fyrir Elliðaárdalinn og hvaða áhrif það hefði á vegakerfið. 

Ég velti því líka fyrir mér hvernig umferðin verður eftir 50-100 ár og hvað fólk er lengi að komast á Háskólasjúkrahúsið við Hringbraut frá Selfossi, Borgarnesi, Akranesi, Grafarvogi, Reykjanesbæ...

Ef viðmiðið er að setja spítalann í 14 mín göngu- eða hjólafæri frá heimili starfsfólks er líklega hægt að hafa hann hvar sem er í borginni.

Guðrún Bryndís (IP-tala skráð) 21.11.2009 kl. 20:03

15 Smámynd: Magnús Karl Magnússon

Ágæta Guðrún

Hagsmunir sjúklinga fara saman við hagmuni háskóla og vísinda. Það að hafa metnað í sjúkrahúsþjónustunni (klínísku starfseminni) og háskólastarfseminni fer mjög vel saman, - þar togast EKKI Á hagsmunir. Öll bestu sjúkrahús á Norðurlöndunum, öðrum stöðum í Evrópu og í USA eru sjúkrahús þar sem saman fara klínísk starfsemi og háskólastarfsemi.

Við með okkar litlu háskóla og litla heilbrigðiskerfi höfum svo sannarlega ekki efni á að slíta í sundur krafta - þjónusta við sjúklinga OG menntun heilbrigðisstarfsfólks (sem er forsenda áframhaldandi heilrigððisþjónustu) OG heilbrigðisvísindi (ein okkar sterkasta grein vísinda) hefur hér sömu hagsmuni.

Magnús Karl Magnússon, 21.11.2009 kl. 20:57

16 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Alltof mikil hætta á að ríkið fari í þrot - a.m.k. % líkur, til að slíkt lán sé áhættunnar virði fyrir lífeyrissjóðina.

Reyndar, er mín prívat tilfinning, að líkurnar séu reyndar, heldur hærri en 5ö%.

Ég myndi ekki kaupa ríkisskuldabréf í dag.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 21.11.2009 kl. 23:54

17 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Ég meinti, 50/50.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 21.11.2009 kl. 23:57

18 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Jamm, Guðrún - þetta býr til mjög íllleysanlegt umferðarvandamál, þarna á svæðinu.

Fyrir einhverjar sakir, er ekki tekið með, þegar talað er um kostnað, kostnaðurinn við þau umferðarmannvirki, sem þarf þá að reisa, til að reyna að ráða við þá óskaplegu umferðarflækju sem þá skapast.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 21.11.2009 kl. 23:59

19 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Magnús Karl...  þú misskilur gjörsamlega meiningu pistilsins. Heilbrigðiskerfið á einmitt allan minn stuðning og ég vil alls ekki láta einkavæða það. Ég hef áður skrifað um þetta en þú hefur kannski ekki lesið þau skrif. Við eigum að veita öllum sambærilega þjónustu og helst ekki að láta sjúklinga þurfa að borga neitt. Það er draumurinn - minn a.m.k.

Það sem þú kallar óskiljanleg rök eru ekki rök fyrir einu eða neinu - bara staðreynd sem ég nefndi.

Kjarni pistilsins og birtingar viðtalsins við Guðrúnu og blaðagreinarnar er í fyrsta lagi staðsetningin - sem er og hefur alltaf verið afar umdeild. Í öðru lagi forgangsröðin í meðferð fjármuna. Á meðan við höfum þó þau sjúkrahús sem nú eru starfandi finnst mér hreint ekki sjálfgefið að í árferði eins og nú er sé farið út í rándýrar framkvæmdir fyrir lánsfé (frá lífeyrissjóðunum t.d.) sem skapa mjög takmörkuðum hópi manna og verktaka vinnu (jafnvel erlendum verktökum og innfluttu vinnuafli eins og ég nefndi sem möguleika) - auk þess sem rekstur nýs sjúkrahúss á stærra svæði með fleiri stofum o.s.frv. gæti orðið mun dýrara í rekstri en þau sjúkrahús sem fyrir eru, en um það veit ég þó ekkert og hef ekki kynnt mér það.

Ekkert hefur verið ákveðið hvort flugvöllurinn verður um kyrrt eða ekki - og ónæði af honum er mjög mikið á þeim stað sem Landspítalinn er nú og sá nýi fyrirhugaður. Auk þess er fyrirséð að í kringum þetta háskóla- og sjúkrahússvæði verður gríðarleg umferð farartækja. Við skulum ekki gera okkur neinar grillur um að fólk komi hjólandi í vinnuna/skólann á hverjum degi í hvaða veðri sem er. Það er óraunhæft.

Semsagt - ég hef ekki nokkurn skapaðan hlut á móti nýju sjúkrahúsi með bættri aðstöðu fyrir bæði starfsfólk og sjúklinga. En ég set spurningamerki við staðsetningu, tímasetningu, fjármögnun og atvinnusköpun.

Lára Hanna Einarsdóttir, 22.11.2009 kl. 00:23

20 identicon

Jón Steinarr,  (Athugasemd nr. 1) er VG ekki með menntamálaráðuneytið og ákvörðunarvadið í sambandi við tónlistarhúsið? Það er leiðinlegt þegar menn detta þannig í drullupoll að tala um spillingu og sleppa svo öðrum flokknum sem hefur með málið að gera. Þú nefnir að áframhaldandi bygging tónlistarhússins sé sennilega runnið undan rifjum Samfylkingarinnar. Vel getur verið að það sé bullandi spilling Þarna á bak við tjöldin, en ég man ekki betur en að menntamálaráðherra VG hafi komið í sjónvarpið ásamt borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og tilkynnt hróðug að halda ætti framkvæmdum áfram í þessu tónlistarhúsi. Við skulum venja okkur á að segja hlutina eins og þeir eru, við skulum ekki taka upp taktík sjálfstæðismanna og nota smjörklýpur.

Valsól (IP-tala skráð) 22.11.2009 kl. 01:24

21 Smámynd: Dexter Morgan

Álfheiður Ingadóttir, kemur fram og segir að þetta væri fínt núna í kreppunni, margir arkitektar og verkfræðingar fengju vinnu við þetta verkefni. Er ekki bara ódýrara að greiða þeim laun fyrir að gera ekki neitt ?

Við sitjum þá í það minnsta ekki uppi með eitthvert risabákn sem menn kalla “hátæknisjúkrahús”, sem ekki verður hægt að manna, og aldrei fengjust þau fjárframlög sem þyrfti til að halda því opnu með reisn.

Ég veit ekki betur en sjúkrahús úti um allt land séu illa nýtt, hlutar af byggingum standa ókláraðir og heilu hæðirnar sem ekki er hægt að taka í notkun vegna fjárskorts. Væri ekki nær að leggja áherslu á að koma þeim upp fyrst? Um leið og það yrði gert myndi það efla byggðir út um landið og hægt væri að fara að saxa á biðlistana sem bara eiga eftir að lengjast.

 

Ég vil byggja sjúkrahús fyrir sjúklinga, ekki arkitekta.

Dexter Morgan, 22.11.2009 kl. 01:44

22 Smámynd: Magnús Karl Magnússon

Sæl aftur Lára Hanna:

Ég ætla að byrja á að biðja þig afsökunar - auðvitað veit ég að þú styður svo sannarlega heilbrigðismál og uppbyggingu þeirra - og sennilega var ég bara að ögra skoðunum þínum með þessu skoti mínu á þig hér að ofan. En mér finnst bara að þetta mál falli aftur og aftur í sama farið í hvert sinn sem það er nefnt. Í fyrsta lagi held ég að LSH hafi sennlega haldið frekar illa á þessu máli frá samskiptalegu sjónarmiði. Fyrstu mistökin voru að kalla þetta í upphafi Hátæknisjúkrahús - enda var því snarlega hætt fyrir mörgum árum - en áfram halda margir, þar á meðal þú í upphafi pistilsins. Hátæknisjúkrahús er auðvitað bara orð, Háskólasjúkrahús er auðvitað bara orð en að mínum dómi lýsir það mun betur hvað LSH er og á að verða. Þú lýsir því sjálf yfir að HÁtæknisjukrahús sé fáranleg nafngift - þar eru allir sammála - og hættum því að kalla það því nafni. LSH er löngu hætt því og þeir einu sem gera það núna eru þeir sem vilja uppnefna verkefnið.  

Skv lögum um Heilbrigðisþjónustu er Háskólasjúkrahús skilgreint þannig:

Háskólasjúkrahús: Sjúkrahús sem veitir þjónustu í nær öllum viðurkenndum sérgreinum læknisfræði og hjúkrunarfræði, með áherslu á rannsóknir, þróun og kennslu. Sjúkrahúsið er í nánu samstarfi við háskóla sem sinnir kennslu og rannsóknum í læknisfræði og flestum öðrum greinum heilbrigðisvísinda, svo og eftir atvikum framhaldsskóla. Starfsmenn sjúkrahússins, sem uppfylla tilteknar hæfiskröfur háskóla, gegna störfum bæði á sjúkrahúsinu og við háskólann eða hafa önnur starfstengsl við háskólann. Meðferð sjúklinga, kennsla og rannsóknir eru samþætt í daglegum störfum á sjúkrahúsinu.

Það hefur verið unnið mjög faglega að undirbúningi þessa verkefnis. Það kann að vera að það hafi ekki verið kynnt nógu vel fyrir almenningi, en ég fer þó ekki af þeirri skoðun að m.a. staðsetning þess hafi verið vandlega hugsuð og rökstudd. Vandamál Reykjavíkur skipulagslega liggja ekki í þessu verkefni heldur í því að dreifa íbúabyggð yfir alltof stórt svæði. Þetta hefur leitt til einkabíl-isma og enn frekari dreifingu byggðar. Svarið við því vandamáli liggur ekki í því að taka fjölmenna vinnustaði (þar sem sterk staðfræðileg rök eru fyrir núverandi staðsetningu) og færa í útjaðra byggðar. Við þurfum mun heldur að færa aftur kjarna byggðarinnar nær miðjunni. Þetta er gert m.a. með þéttri fjölmennri byggð í Vatnsmýrinni sbr. tillögur Skotanna sem unnu samkeppnina um Vatnsmýrina. Þétt byggð nálægt kjarna borgarinnar með fjölmennum vinnustöðum er forsenda breyttra samgangna og raunverulegs borgarskipulags. Varðandi samgöngur og núverandi staðsetningu - þá liggur LSH geysilega vel við megin-samgönguæðum, t.d. miklu betur en Fossvogurinn. (Vil þar að auki segja - umferð er EKKI vandamál í Reykjavík - það eru u.þ.b. 45 min. tímabil að morgni og seinni part dags sem fólk er nokkrum mínútum lengur að komast á milli staða - hættum að leita fáránlegra dýrra leiða til að leysa slíkt ímyndað vandamál!!)

Síðan er það forgangsröðunin sem þú ert ekki ánægð með Lára Hanna. Þú segir m.a. í athugasemdinni hér að ofan:

"Á meðan við höfum þó þau sjúkrahús sem nú eru starfandi finnst mér hreint ekki sjálfgefið að í árferði eins og nú er sé farið út í rándýrar framkvæmdir fyrir lánsfé (frá lífeyrissjóðunum t.d.) sem skapa mjög takmörkuðum hópi manna og verktaka vinnu (jafnvel erlendum verktökum og innfluttu vinnuafli eins og ég nefndi sem möguleika) - auk þess sem rekstur nýs sjúkrahúss á stærra svæði með fleiri stofum o.s.frv. gæti orðið mun dýrara í rekstri en þau sjúkrahús sem fyrir eru, en um það veit ég þó ekkert og hef ekki kynnt mér það."

Mér finnst þetta benda til að þú hreinlega miskiljir allt málið. Það er ekki verið að byggja eitt sjúkrahús tilviðbótar. Stóru sjúkrahúsin í Reykjavík voru sameinuð árið 2000. Það lá strax fyrir þá að ekki næðist full hagræðing án þess að sameina starfsemina á einn stað. Má eg nefna dæmi: Í dag þarf stoðþjónustu eins og röntgen-deildir og klínískar rannsóknastofur, hvoru tveggja mjög dýrar og sérhæfðar einingar í báðar byggingar. Gjörgæslur, bráðamóttökur og ýmislegt annað þarf einnig að reka á tveim stöðum. Það skapast líka geysilegt óhagræði af fyrir sjúklinga og starfsfólk að slíta í sundur náskyldar sérgreinar, t.d. hjartaskurðlækningar og æðaskurðlækningar svo dæmi sé nefnt. Ég veit ekki um neitt dæmi þess í neinu nágrannalandi okkar að við rekum svona flókna sérhæfða bráðasjúkrahúsþjónustu á tveim ólíkum stöðum. Í þessu er bæði mikið rekstrarlegt óhagræði, verri þjónusta við sjúklinga og ákaflega óhagstætt fyrir sjúklinga.

Varðandi fjárfestingu lífeyrissjóðanna, þá er ljóst að þau munu aldrei fjárfesta í rekstri heilbrigðiskerfisins. En þau eru tilbúinn til þess að fjárfesta í verkefnum eins byggingum. Slík verkefni gætu verið virkjanir, vegir - já eða kannski innviði velferðarsamfélagsins. Ég hélt satt að segja að þegar lífeyrissjóðirnir standa fram fyrir slíkum kostum þá myndi ég ætla að fjárfesting þeirra í innviðum heilbrigðiskerfisins væri eitthvað sem væri félagshyggjufólki myndu taka fagnandi. Fjölmargir hafa lagt mat á þessa framkvæmd og allir segja - hún er fjárhagsleg mjög arðbær og samfélagsleg mikilvæg. Þar að auki veitir hún tímabundið vinnu þeim hópi sem hefur orðið harðast úti í núverandi atvinnuleysi iðnaðarmönnum og byggingarverkafólki á höfðuborgarsvæðinu.

Ég hef oft lesið pistlana þína Lára Hanna og þú hefur með réttu m. a. gagnrýnt hið opinbera fyrir að auka þennsluna með virkjanaframkvæmdum fyrir austan á sínum tíma. Það var arfaviltaus framkvæmd af mörgum orsökum (arðsemislega, umhverfislega og hagfræðilega). Mér sýnist að stórar framkvæmdir núna á því svæði sem að atvinnuleysi er mest sé einmitt dæmi um réttan tíma fyrir þjóðfélagslega mikilvæga framkvæmd við uppbygginga innviða velferðasamfélagsins.

Magnús Karl Magnússon, 22.11.2009 kl. 11:07

23 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Magnús - þ.e. algerlega rétt, að jakvætt er að fólk fái vinnu, sem er atvinnulaust. Að, gott er að hagræða í heilbrigðis kerfinu.

  • En, þ.s. virðist ekki tekið í reikninginn, er að við skuldum 310% af landsframleiðslu, og skv. AGS ríkið 125% af landsframleiðslu. Þannig, að ríkissjóður stendur virkilega mjög tæpt, og í þessum skilningi þarf að hafa heildarskuldbindingarnar í huga, jafnvel þó þær séu ekki beint á ábyrgð ríkissjóðs, því skuldir annarra þarf einnig að borga, og þeir aðilar munu gera sitt besta til að standa straum af þeim. En, afleiðing þess verður augljóslega að þjóðfélaginu blæðir fjárhagslega, þ.s. allir þeir sem skulda munu hafa miklu minna fé handa á milli til að standa straum af nauðsynlegum fjárfestingum, þó ekki sé verið að tala um annað en að viðhald atvinnutækja og húsnæðis. En, mjög veruleg hætta er á að atvinnutæki þjóðarinnar, muni smám saman úreldast, og þannig samkeppnishæfni smám saman versna, og þar með smám saman draga úr getu atvinnulífsins til að standa undir skuldunum.

Með öðrum orðum, við erum að tala um að sjálfar skuldirnar sem mjög öfluga bremsu á sjálfa getu hagkerfisins, til framtíðar vaxtar.

  • Lífeyrissjóðirnir, liggja ekki með tugi milljarða í lausafé. Hvernig ætla þeir, að losa það fé? Hvað kostar, að losa það fé? Munum, að verð eigna er enn kreppt saman, af kreppu bæði erlendis sem hérlendis. Svo, ef við erum að tala um eignasölu, þá erum við að tala um nokkurs konar brunaútsöluverð. Þ.e. einnig kostnaður, og það verulegur.

Ef, önnur leið er farin, þ.e. sú leið, að lífeyrissjóðir einfaldlega skeri niður greiðslur til lífeyrisþega, til að mæta þessum kostnaði svo að um fjármagn losni, þá erum við einfaldlega að færa fé úr hægri vasanum yfir í vinstri, því fólk fer þá á bætur frá svetó. 

Þetta þarf að hafa í huga, því hvaða leið er farin, af lífeyrissjóðunum, er sannarlega hluti af kostnaðinum við þetta.

----------------------------

Þ.e. mjög alvarlegt að hætta lífeyrsisjóðunum, einmitt þegar þeir eru það eina sem stendur upp úr. 

Ég skil freystingu stjórnmálamanna, en eigum við Íslendingar, virkilega að heimila slíkt gambl, með kjör lífeyrisþega?

En, ef og þegar Ísland verður gjaldþrota, þá verða það einmitt erlendar eignir, sem munu standa straum og greiðslum til lífeyrisþega. Með slíkar greiðslur tryggðar, þá mun sú staðreynd að þær eignir eru enn til staðar við þær aðstæður, og það að greiðslur geti viðhaldist þrátt fyrir annað efnahagshrun, flíta fyrir því að þjóðfélagið rétti aftur við sér - á cirka 10 árum.

En, en ef þessum eignum er fórnað, þá verður afleðingin sú, að þá tapast líklega einnig sjálfir sjóðirnir, sem hafa verið byggðir upp á áratugum. Þá verður kreppan, eftir gjalþrot enn dýpi fyrir bragðið, og fjölmargir lífeyrisþegar komast á vonarvöl, sem það ekki þurfti að koma fyrir.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 22.11.2009 kl. 16:02

24 Smámynd: Magnús Karl Magnússon

Sæll Einar

Ekki hef ég tölur til að bakka mig upp en mér þykir það næsta augljóst að Lífeyrissjóðir eru ekki að selja eignir (sérstaklega ekki  erlendar fjárfestingar) til að fjármagna þessa byggingu. Að baki þessari fjárfestingu eru lífeyrissjóðir sem samanlagt hafa 83% lífeyrissframlaga Íslendinga. Það blasir við að það verður geysileg fjárfestingarþörf fyrir marga tugi (eða jafnvel hundruði) milljarða  hjá þessum sjóðum á næsta áratug. Það væri gaman að heyra hver árleg fjárfestingarþörf íslenska lífeyrissjóðakerfisins er í dag - veit það einhver?

Fyrir liggur að lífeyrissjóðir vilja dreifa áhættunni og þetta er ein leið til þess. Ef að þeir fáviðunandi ávöxtun frá ríkinu á þessari fjáfestingu þá er þetta svo sannarlega leið til að hjálpa okkur öllum að koma hjólunum af stað. Það má lesa um þetta m.a. í fréttatilkynningu frá lífeyrissjóðum um þetta mál:

http://www.heilbrigdisraduneyti.is/media/Frettamyndir_2009/Frettatilkynning.pdf 

Magnús Karl Magnússon, 22.11.2009 kl. 17:03

25 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Varðandi þá athugsemd og rökstuðning að samfélag háskólans og sjúkrahússins muni líða fyrir staðsetningu annarsstaðar en við Hringbraut er að taka sjálfan sig of hátíðlega. Sjúkrahús á hvaða þjónustustigi sem þau annars eru eiga bara að vera þjónustumiðuð við sjúklingana sem þangað þurfa að leita.

Varðandi aðbúnað starfsfólks verður að finna lausnir sem nútíma samfélag ræður við með góðum samgöngum og fjarskiptatækni. Það er ekkert því til fyrirstöðu að lækninga, hjúkrunar og lífeðlisfræðin verði byggð upp annarsstaðar en við Hringbraut ef þörfin og starfsemin krefst þess að að það sé 10 mínútna gangfæri frá sjúkrabeði að fyrirlestrasal sem ég efa ekki að sé ídealt. Það getur þó ekki talist þyngstu rökin fyrir staðsetningunni.

Starfsmenn Landsspítalans eru þeir sem tala af mestum þrótti fyrir Hringbrautarstaðsetningunni. Það að fá nýbyggingu yfir starfsemina á höfuðborgarsvæðinu ætti hinsvegar að vera aðalatriðið. Hvílikt tækifæri! Staðsetningingin er neðar á listanum. Hærra á listanum ætti að vera hvaða starfsemi á að fá þarna inni og á hvaða forsendum. Það er amk það sem okkur sem störfum utan Landsspítalans finnst áhugaverðara. Engu að síður er staðsetninginin afdrifarík fyrir framtíðarskipulag borgarinnar. Flugvöllurinn verður ekki í miðborginn til framtíðar. Miðborgin verður heldur ekki þar sem hún er til framtíðar.

Gísli Ingvarsson, 22.11.2009 kl. 18:31

26 Smámynd: Jóhanna Garðarsdóttir

Ef til eru ein af mörgum rökum fyrir staðarvali á nýja Landspítalaum er að allt í einu var rokið í að byggja nýjan barnaspítala við Hringbraut á sínum tíma. Lengi vel var búin að vera metingur um hvort staðsetning barnaspítalans væri betur borgið í Fossvoginum eða Hringbraut. 1994 var gerður rammasamningur Heilbrigðisráðuneytis, Landspitala og Hringsins. og tilkynnti að nyja barnaspítalanum yrði troðið á milli Gamla kennaraskólans og Fæðingadeildarinnar. Þetta var einhvers konar "kosningaloforðsuppþot" Kannski er þetta misminni en svona er þetta í minningunni þegar einn góðan veður dag var blásið í lúðra á Landspítalalóðinni öllu starfsfólki Landspitalans að óvöru og slegið upp hátíð fyrir ráðamenn í túnfæti spítalans og þetta tilkynnt. Þettaq var árið1994. Seinna tók Ingibjörg Pálma þáverandi heilbrigðisráðherra fyrstu skóflustunguna í nóv 1998. Sem sagt Barnaspítalinn og staðsetning hans varð síðan ein af sterku rökunum fyrir byggingu á nýju hátækni sjúkrahúsi sem skydi holað niður við Hringbraut þrátt fyrir þrengsli og langt frá fjölmennustu byggðakjörnum á Stór Reykjavíkursvæðinu. Nærvera flugvallarins var líka lengi hafður sem einn af aðalrökunum, þrátt fyrir að það taki jafnlangan tíma að keyra í Fossvoginn og á Hringbrautina fyrir utan það koma fleiri sjúklingar með þyrlu í Fossvoginn en samanlagt á báða spítalana með flugi og þá alltaf x fjöldi frá Keflavík (millilandaflug)

En nú þarf að segja upp 300 til 400 manns á Landspítalanum og hefja byggingu nýja Háskólasjúkrahúsins til að geta skapað ný 200 störf, arkitektar, verkfræðingar og iðnaðarmenn + efniskosnaður. Semsagt betra að hafa færri í vinnu á Landspítalanum og draga úr heilbrigðisþjónustu. Það sparar svo hægt sé að byggja nýja stofnun fyrir fullt fullt af peninum. Og svo þarf að eyða fullt fullt fullt af peningum til að gera nýja Háskóla sjúkrahúsið aðgengilegt fyrir aðra borgarbúa en þá sem búa í mið og vesturbænum. Það er nefnilega líka fólk sem býr annars staðar í Reykjavík sem hefur sama tilkall til heilbrigðiskerfisins.

En svona lítur þetta út fyrir mér.

Við ætlum greinilega að verða rík á Kreppunni!

Skattpíning, minnkaður kaupmáttur og gjaldþrot sem blasa við mörgum sem gerðust einungis sekir um að reyna koma þaki yfir hausinn á sér. Getur þetta orðið viðunnandi?

Jóhanna Garðarsdóttir, 22.11.2009 kl. 18:56

27 Smámynd: Jóhanna Garðarsdóttir

Afsakið allar stafsetningavillur, fór fr´mér áður en ég las yfir ;(

Jóhanna Garðarsdóttir, 22.11.2009 kl. 18:59

28 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Magnús - án efa rétt, að þeir þurfa að fjárfesta það fé, er streymir stöðugt inn.

En, athugaðu, að framvinda efnahagsmála, hefur heilmikið að segja um, hver virðisauki og þar með ávöxtun framkvæmda verður.

Ég bendi á, að AGS spáir einungis 1,5$ hagvexti í Bandar. og 0,5% hagvexti í ESB, og AGS einnig varar við, að sá hagvöxtur sé ekki sjálfbær

<Sjá Imf.org, og skýrslu AGS fyrir G20 fund>

Athugaðu, við erum ekki:

  • með vexti við 0%.
  • að lækka skatta til að örva atvinnulíf.
  • að eyða stórfellt í eyðslupakka, til að örva atvinnulífið.

Sem dæmi, metur fjármálaráðherra frakka, "stimulus" pakka franskra stj.valda sem cirka 0,5% af þjóðarframleiðslu, þ.e. þjóðarframleiðsla sé 0,5% hærri fyrir bragðið, og tölur fyrir 3. ársfjórðun, sýna Frakkland með 0,3% hagvöxt.

Á sama tíma, og við erum ekki að örva atvinnulífið:

  • eru skuldir almenning, hærri að meðaltali en gerist annars staðar, t.d. cirka 2. falt þ.s. gerist í Bandar., en þó varar AGS í sinni skýrslu, við því að skuldir almennings í Bandar. séu slíkar, að tregða almennings til að eyða verði hemill á hagvöxt á næstu árum í Bandar. Ég þarf varla að taka fram, að neysluslaki hér, hlítur að vera meiri.
  • skuldir fyrirtækja eru einnig verri en gerist í hinum ríkjunum, t.d. í skýrslu sinni um Ísland, segir AGS cirka 60% fyrirtækja skulda meira en sé sjálfbært. Þrátt fyrir minna erfiða skuldastöðu í Bandar. og Evrópu, varar AGS einnig við því, að skuldastaða fyrirtækja, muni þíða að þátttaka nýfjárfestinga í efnahagsframvindu, verði óvenju léleg á næstunni þannig að fjárfestingar muni ekki á næstunni, vera hvati til hagvaxtar. Ég þarf varla að taka fram, í ljósi mun verri stöðu ísl. atvinnulífs, sé mjög líklegt að léleg fjárfesting hérlendis á næstu árum, verði mjög öflug bremsa á hagvöxt á næstunni.
  • skuldir ríkisins og hins opinbera, eru alvarlegri en í nokkru ríki í Evrópu. Það þíðir það, að ólíkt hinum ríkjunum, getur ísl. ríkið ekki stuðlað að hagvexti með eyðslu, með lækkun skatta, o.s.frv.

Þ.s. ég er að reyna að koma að hér, er að ísl. efnahags framvinda, hlýtur að verða umtalsvert lélegri, en efnahagsframvinda í Bandar. og Evrópu.

-----------------------------------------

Við verðum að setja þetta í það samhengi, að við erum í dýpstu kreppu sem Ísland hefur lent í. Þegar maður hlustar á stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar, mætti halda að þeir séu þeirrar skoðunar, að þetta sé einfaldlega meðal kreppa. En, svo er alls ekki.

En, hafandi í huga, að kreppan er hið minnsta sambærileg við finnsku kreppuna og hið versta, getur orðið eins slæm og Bandar. kreppan á 4. áratug síðustu aldar; þá er ljóst að við erum í vörn.

Málið er, að við þurfum að skilja, hvað við erum að eiga við, svo við getum breytt rétt. Í meðalkreppu, er rétt að beita ríkinu til að brúa bilið, þar til hagvöxtur hefst á ný. En, í kreppu af því tagi sem við erum stödd í, er það ekki eins augljóst, því aðstæður eru þannig, að ekkert bendir til annars en, að hagvöxtur næsta áratuginn verði mjög dapur, ef einhver.

Ég á ekki von á meiri hagvexti, en á bilinu 1 - 2%, að meðaltali næstu árin. Þá er ég að miða við skárri niðurstöðuna, þ.e. finnsku kreppuna. Ef hún verður verri, getur svo farið að við séum að sjá fram á miklu meiri samdrátt, til viðbótar við þ.s. þegar er orðið, áður en hagkerfið byrjar að rétta úr sér.

Hafamdi þetta í huga, þá er ljóst að núverandi viðmið, þ.e. væntingar, eru alltof bjartsýnar.

Sannarlega, reiknum með að öðru sjúkrahúsinu verði líklega lokað, á höfuðborgarsvæðinu. En, þá sem sparnaðaraðgerð - athugaðu.

Reiknum með 30% sparnaði, yfir línuna.

Ég held, að það sé alveg ljóst, að ekki eru líkur á, miðað við líklegustu framvindu efnahagsmála, á næstu árum, á því að slík fjárfesting beri sig, fyrr en eftir áratugi.

---------------------------------------------

Ég ætla að setja hér inn tilvitnun úr skýrslu HSt.-HÍ:

Skýrsla Hagfr.st.Hí um Icesave

Ef þetta copy/paste-ast nægilega vel, þá sýnir þessi tafla samaburð á fjármálakreppum, sem höfundar þeir, er þeir vitna í, höfðu framkvæmt. Ég tek fram, að okkar kreppa, er umtalsvert verri en samanburðarkreppunnar. Samt sem áður, er samanburðurinn áhugaverður, og ég hvet þig til að skoða skýrsluna til upprifjunar, en þessi tafla kemur fram á bls. 16.

 

5

Meðalbreyting frá

toppi uppsveiflu

þar til botni er náð

Meðaltími

þangað til botni

er náð

Land þar sem

kreppan var dýpst

Land þar sem

kreppan varði lengst

Fasteignaverð

(raunvirði)

-35,5%

6,0 ár

Hong Kong (-54%)

Japan, 1992 (6 ár)

Hlutabréfaverð

(raunvirði)

-55,9%

3,4 ár

Ísland (-91%)

Spánn, 1977, Malasía og

Tæland (5 ár)

Atvinnuleysi

7,0%

4,8 ár

USA, 1929 (22%)

Japan, 1992 (11 ár)

VLF á föstu

verðlagi

-9,3%

1,9 ár

USA, 1929 (-30%)

Finnland, Argentína, 2001,

og USA, 1929 (4 ár)

Ríkisskuldir*

86,0%

Finnland,

Kólumbía

Heimild: Carmen M. Reinhart og Kenneth S. Rogoff, &#147;The Aftermath of Financies Crises,&#148; American Economic

Review: Papers & Proceedings, 99 (2), 466-472. * Aukning ríkisskulda á þremur árum eftir upphaf kreppu.

 

 Kv.

Einar Björn Bjarnason, 22.11.2009 kl. 19:33

29 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

takk fyrir góðan pistil

Hólmdís Hjartardóttir, 23.11.2009 kl. 15:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband