Færsluflokkur: Heilbrigðismál

Stóra Landspítalamálið

Það er svo margt sem ég botna ekkert í. Eitt af því er bygging svokallaðs "hátæknisjúkrahúss" (sem er reyndar fáránleg nafngift), staðsetning þess og fyrirhugaður rekstur. Ævinlega er hamrað á því, að heilbrigðiskerfið sé allt of dýrt. Mismikill niðurskurður eða sparnaður er árviss viðburður, deildum er lokað á sumrin og undanfarin 10 til 15 ár hefur æ meiri kostnaður færst yfir á sjúklingana sjálfa - alveg burtséð frá fjárhag þeirra eða greiðslugetu. Ég hef alltaf litið á það sem fyrstu skrefin í að láta draum Sjálfstæðisflokksins um einkavæðingu heilbrigðiskerfisins rætast.

Okkur er gjarnan sagt að þjóðfélagið hafi ekki efni á að reka heilbrigðiskerfið svo vel sé. Við eigum mikinn fjölda af mjög hæfu heilbrigðisstarfsfólki. Það verðskuldar eflaust betri starfsskilyrði og sjúklingar betri aðbúnað - en er málið nýtt "hátæknisjúkrahús" á stað sem margir vilja meina að sé kolómögulegur? Af hverju þykir svona brýnt að ráðast í bygginguna á þessum síðustu krepputímum þegar verið er að segja upp fólki, til dæmis í heilbrigðiskerfinu? Þess á milli er manneklan slík að ekki er hægt að reka spítalana. Er talið að atvinnulaust heilbrigðisstarfsfólk fari í byggingarvinnuna, eða hvað? Fyrir hverja er verið að skapa störfin og af hverju eiga lífeyrissjóðir landsmanna að verja lífeyrissparnaði fólks í meinta óarðbæra byggingu? Ég næ þessu ekki alveg.

Mér skilst að samkvæmt lögum þurfi að bjóða svona stórframkvæmdir út á EES-svæðinu. Erlendir verktakar gætu fengið verkið og miðað við reynsluna af Kárahnjúkum og viðsnúninginn þar má alveg eins gera ráð fyrir að vinnuaflið verði innflutt. Í hverra þágu er þessi framkvæmd og hvað veldur staðarvalinu? Fyrst varla er hægt að reka heilbrigðiskerfið nú þegar - til hvers að reisa nýtt sjúkrahús fyrir tugmilljarða í stað þess að nota peningana til að rétt af hallann og reka kerfið með reisn? Þetta minnir mig svolítið á að þegar gríðarlegur skortur var á starfsfólki í leikskóla á höfuðborgarsvæðinu fyrir nokkrum árum var tekið á það ráð að byggja nýja. Það vantar eitthvað í þetta púsluspil í mínum huga. En kannski hef ég bara ekki fylgst nógu vel með.

Hér er upptaka úr Silfri Egils og tvær blaðagreinar sem varpa einhverju ljósi á málið með staðsetningu nýja sjúkrahússins. Seinni greinin er í andstöðu við málflutning Guðrúnar Bryndísar Karlsdóttur í Silfrinu og leiðara Páls Baldvins Baldvinssonar í Fréttablaðinu. Hún er skrifuð af tveimur embættismönnum Landspítalans sem horfa greinilega á málið með öðrum gleraugum, en það er fróðlegt að skoða þetta í samhengi.

Guðrún Bryndís Karlsdóttir í Silfri Egils 8. nóvember 2009

Nýr staður brýnn - Páll Baldvin Baldvinsson - Fréttablaðið 18. nóvember 2009

Löngu ákveðið að sameina Landspítala við Hringbraut - Ingólfur Þórisson og Jóhannes M. Gunnarsson - Morgunblaðið 19. nóvember 2009


Réttlætið og sálarheill þjóðar

Þessi litla frétt birtist í Mogganum í gær. Landlæknir segir að réttlæti dragi úr áfallastreitu, sem öll þjóðin þjáist líklega meira og minna af um þessar mundir. Ég tek heilshugar undir þessa skoðun landlæknis - ekki á faglegum forsendum, því þær hef ég ekki, heldur aðeins með því að líta á eigin líðan og annarra í kringum mig. Þegar réttlætiskennd manns er misboðið - og það bæði gróflega og ítrekað - fyllist maður reiði, vonleysi og svartsýni og allir vita hve mikil áhrif sálræn líðan hefur á líkamlega heilsu.

Landlæknir um fé í skattaskjólum - Moggi 28.2.09

Ótrúlegasta fólk hefur liðið sálarkvalir í vetur - verið kvíðið, óttaslegið, vonlítið með hugann fullan af svartnætti. Það er líka logandi af réttlátri reiði og sárindum sem eiga sér engan líka. Jafnvel fólk sem ekki fer illa út úr hruninu fjárhagslega, hefur ennþá vinnu og hefur kannski ekki yfir mörgu að kvarta að mati þeirra sem verr eru staddir.

Ég held að okkur líði flestum eins, að minnsta kosti mjög svipað. Það var brotið gróflega á okkur. Við vitum hverjir gerðu það en þar til bær yfirvöld virðast ætla að láta brotamennina sleppa án refsingar. Svo virðist sem réttlætinu verði ekki fullnægt - þjófarnir og nauðgararnir fá að sleppa án svo mikils sem yfirheyrslu. Eða hvað? Fimm mánuðir eru liðnir frá fullnustu glæpsins og hinir seku eru enn frjálsir menn. Þeir ganga um á meðal okkar og láta eins og ekkert sé. Sumir krefja meira að segja þjóðina um hundruð milljarða í viðbót við það sem þeir stálu frá henni vegna gengismunar - sem þeir sjálfir áttu mesta sök á. En hlustið á það sem Egill Helgason segir hér í heimsókn hjá stelpunum í þættinum Mér finnst á ÍNN.

Ég hef heyrt þetta áður - eða lesið. Þeir bjuggust við frystingu eigna - eða einhverju. Meðal annars þess vegna skráðu þeir eignir á eiginkonurnar. Er eitthvert yfirvald að skoða þau mál núna og athuga hvort forsendur séu til að ógilda þá gjörninga eins og gera má ef þeir eru sannanlega til málamynda? Ekki hef ég heyrt um það.

Munið þið hvað Sölvi Tryggvason sagði hér? EITT mál til athugunar hjá Efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra rétt fyrir miðjan febrúar, 4 og hálfum mánuði eftir hrun! Þetta er með ólíkindum og vakti gríðarlega athygli. Heil þjóð sett á hausinn, enginn yfirheyrður og engin mál einu sinni til athugunar.

Þetta er meðal annars það sem fer svo illa í fólk og fyllir það reiði, sárindum, vonleysi og sálarangist. Það er ekkert réttlæti í augsýn. Ekki verið að yfirheyra neinn eða rannsaka nein mál. Almennt er réttlætiskennd fólks mikil og við viljum öll sjá réttlætið ná fram að ganga. Það er eitt af grunngildum samfélagsins sem yfirleitt er nokkuð góð sátt um. Við sjáum dópsala, þjófa og ofbeldismenn dæmda og fangelsaða - jafnvel fyrir minniháttar mál - en stærstu þjófar Íslandssögunnar eru látnir í friði. En menn reyndu. Sáuð þið þessa frétt?

Kafla Indriða um skattaskjól hafnað - Fréttablaðið 26.2.09

Hér stendur að Tryggvi Þór Herbertsson, nú frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi og fyrrverandi efnahagsráðgjafi Geirs Haarde og Vilhjálmur Egilsson, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins og núverandi framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins - tveir sjálfstæðismenn - hafi einna helst lagst gegn tillögum Indriða. Indriði tjáði sig um þessi mál í Silfri Egils og Kastljósi.

Þá kem ég aftur að mikilvægi réttlætisins fyrir sálarheill þjóðarinnar. Flestir kannast orðið við Andrés Magnússon, geðlækni. Hann hefur komið fram í Silfri Egils, fréttum, haldið ræður á Austurvelli og á Borgarafundi og verið mikið niðri fyrir. Þetta sagði hann um áhrif réttlætis á geðheilsuna 3. febrúar sl.

Og hér er hann í Silfri Egils tveimur dögum áður, eða 1. febrúar.

En við þurfum svosem ekki landlækni, Indriða eða Andrés til að segja okkur þetta. Við finnum það sjálf. Okkur þyrstir eftir réttlæti. Síðasta ríkisstjórn veitti okkur enga von um slíkt og lét sem hún heyrði ekki neyðaróp okkar og spurning hvort núverandi stjórn nái að gera eitthvað í málinu. Þess vegna er mjög mikilvægt að við íhugum sem þjóð og sem einstaklingar með réttlætiskennd hvernig stjórn við viljum eftir næstu kosningar. Spyrjum frambjóðendur gagnrýnna spurninga og tökum hvorki blaður né þvaður trúanlegt. Hugsum sjálfstætt, höfum skoðanir og verum minnug þess að okkar skoðanir eru ekkert minna virði en þeirra. Sálarheill þjóðarinnar er í húfi.

Viðbót: Þessi pistill birtist á vef Þjóðkirkjunnar í dag. Þarna eru átta guðfræðingar að fjalla mikið til um þetta sama málefni út frá sínum forsendum. Best að halda þessu til haga.


Niðurskurður óþarfur

Er þetta ekki ágæt lausn á niðurskurði í heilbrigðiskerfinu?

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband