Rússagull, peningaþvætti og hrunið

PeningaþvættiÉg á heima næstum beint undir aðflugslínu norður-suðurbrautar Reykjavíkurflugvallar. Flugvöllurinn á að heita lokaður frá kl. 23:30 og frávik á aðeins að leyfa í undantekningartilfellum - sjúkraflugi og slíku. Veruleikinn var hins vegar sá, að á gróðærisárunum var mjög algengt að einkaþotur lentu klukkan 1, 2 eða 3 eftir miðnætti og hávaðinn var ærandi. Ég sakna þeirra nákvæmlega ekki neitt, en man að ég hugsaði oft með mér að tollverðir hlytu að fá gríðarlega mörg næturútköll. Eða hvað? Voru einkaþoturnar alltaf tollskoðaðar? Maður spyr sig...

Í síðasta pistli sagði ég frá hugrenningatengslum sem mynduðust þegar ég sá frétt á BBC World þar sem bandarískur fjárfestir sagði farir sínar ekki sléttar í samskiptum við Rússa. Margt var ósagt látið og verður svo enn um sinn, en ýmislegt vil ég þó benda á sem hreinlega komst ekki fyrir í pistlinum. Höldum hugrenningatengslunum áfram og fjöllum um peningaþvætti.

Þann 16. febrúar sl. birti Egill Helgason eitt af mörgum bréfum sem hann hefur birt frá Gunnari Tómassyni, hagfræðingi, sem búsettur er í Bandaríkjunum og hefur látið mikið frá sér heyra opinberlega, bæði fyrir og eftir hrun. Í þessu mjög svo athyglisverða bréfi fjallar Gunnar um mögulegan þátt peningaþvættis í bóluhagkerfinu á Íslandi í gróðærinu og spyr afar áleitinna spurninga sem enn hefur ekki verið svarað. Ég hvet fólk eindregið til að lesa bréf Gunnars.

Ég fylgist með öðru auganu með enska boltanum og hlustaði af athygli á pistil Sigrúnar Davíðsdóttur um fótbolta og peningaþvætti í byrjun júlí í sumar. Pistillinn vakti auðvitað viss hugrenningatengsl í ljósi þess hvaða Íslendingar eiga enskt fótboltalið og hvaða þjóðhöfðingjar hafa farið á leiki í boði rússneskra auðjöfra.

Í september skrifaði Jenný Stefanía Jensdóttir, viðskiptafræðingur, búsett í Kanada, fimm mjög fróðlega pistla um peningaþvætti. Jenný leitaði víða heimilda og vísar í greinar og viðtöl. Ég mæli með lestri á öllum pistlum Jennýjar sem fjalla um peningaþvætti frá ýmsum hliðum. Þeir bera allir yfirskriftina Var peningaþvætti stundað á Íslandi? og eru hver öðrum fróðlegri, ekki síst niðurstaða Jennýjar: 1. kafli, 2. kafli, 3. kafli, 4. kafli, 5. kafli. Í 5. og síðasta kaflanum fjallar Jenný m.a. um viðtalið við Boris Berezovsky, sem ég birti í síðasta pistli ef einhver vill rifja það upp eftir lestur á pistlum Jennýjar. Mjög athyglisvert, svo ekki sé meira sagt.

Í lok september og byrjun október skrifaði Halldór Halldórsson, blaðamaður, mjög ítarlegar og upplýsandi greinar í DV um uppgang Björgólfsfeðga og samstarfsmanns þeirra og umsvifin í Rússlandi. Sem áttu að hafa endað með risasölu á brugghúsi og gríðarlegum fjármunum sem þeir áttu að hafa notað meðal annars til að kaupa sér banka hér á Íslandi. En í ljós kom að þeir fengu hluta fjárins að láni í öðrum íslenskum banka og hafa ekki greitt það enn. Hvorki var hlustað á viðvaranir þeirra sem þekktu til né litið á forsögu Björgólfs eldri, enda feðgarnir sérstakir gæludrengir þáverandi forsætisráðherra, síðar seðlabankastjóra og nú ritstjóra. Hann minnist enda ekki á þá eða umsvif þeirra þá og nú í blaði sínu þessa dagana en einbeitir sér að öðrum landráðamönnum í svipuðum styrkleikaflokki. Fyrsta greinin er eftir blaðamann DV, en mér virðist hún vera byggð á gögnum Halldórs miðað við það sem á eftir kemur. Það á við um allar greinarnar - að smella þar til læsileg stærð fæst.

DV 23. september 2009

Ingimar varaði við Björgólfsfeðgum - DV 23. september 2009

Þá eru það greinar Halldórs Halldórssonar. Einhvern veginn fær maður á tilfinninguna að ýmislegt sé enn ósagt. Það vantar stykki í púsluspilið. Kannski eiga fleiri greinar eftir að birtast. Mig grunar það.

Halldór Halldórsson - DV 25. september 2009

Björgólfsfeðgar, bjórinn og mafían - Halldór Halldórsson - DV 25. september 2009

Halldór Halldórsson - DV 2. október 2009

Björgólfsfeðgar, hótanir og bankakaup - Halldór Halldórsson - DV 2. október 2009

Eftir allan þennan lestur - og það verður að lesa þetta allt, ekki síst pistla Jennýjar - situr eftir spurningin: Hve stór hluti af hruni efnahagskerfisins á Íslandi var afleiðing peningaþvættis? Ekki hvort.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

 Breska pressan hefur skrifað um feril Björgólfsfeðga í Rússlandi, til dæmis:

http://www.guardian.co.uk/business/2005/jun/16/marksspencer

Yet the Icelanders were not only ploughing money into the country but doing it in the city regarded as the Russian mafia capital. That investment was being made in the drinks sector, seen by the mafia as the industry of choice.

Yet against all the odds, Bravo went from strength to strength.

Other St Petersburg brewing executives were not so fortunate. One was shot dead in his kitchen from the ledge of a fifth-floor window. Another perished in a hail of bullets as he stepped from his Mercedes. And one St Petersburg brewery burned to the ground after a mishap with a welding torch.

Óðinn (IP-tala skráð) 25.11.2009 kl. 10:54

2 identicon

Loksins. Ég óttaðist að greinar Halldórs dygðu ekki til að opna augu fólks. Þeim hefur nánast ekkrt verið fylgt eftir. Maður hefði haldið að allir blaðamenn með snefil af sjálfsvirðingu mundu kasta sér yfr þetta: Nánast ALLT bendir til þess að Davíð og Halldór hafi selt rússnesku mafíunni Landsbanka Ísland árið 2002. Hverjum þeim sem les dóm Héraðsdóms Rvk í máli Ingimars og Björgólfsfeðganna frá 1999, ætti að vera ljóst hverslags fólk er hér áferðinni og hverjir hinir raunverulegu bakhjarlar voru (eru).  Það lá semsagt fyrir á prenti 1999.  Þór Kristjánsson  lögmaður eða á maður að segja consiglieri,  fyrst Ingimars og svo Björgólfsfeðga,  bankaráðsmaður í gamla Landsbankanum og varaframkvæmdastjóri West Ham, er eitt fyrirmyndareintak íslenskrar lögmannsstéttar. Hvar ætli hann sé hjálpa til núna? í einhverri skilanefnd kannski?

Takk Lára Hanna fyrir einstaka bloggsíðu. Á heimsmælikvarða. 

Páll Sólnes (IP-tala skráð) 25.11.2009 kl. 10:55

3 identicon

Takk fyrir góða grein: 

Það að lesa pistla Morgunblaðsins t.d. í dag um meint "siðleysi" Ingibjargar Sólrúnar og Össurar Skarphéðinssonar að mati ritstjóra Mbl. Davíðs Oddsonar. Málið er að ríkið hafi þurft að greiða heilar 55 milljónir vegna mótmæli Össurar gegn "Aktu taktu" verslunar. Málið hafi unnist fyrir verslunina og því (réttilega) þyrftu Ingibjörg og Össur að gangast við þeirri ábyrgð að brjóta lög.

Það er auðvitað rétt hjá Davíð að vera opinn fyrir brotum, en hvernig er það getur maðurinn ekki litið á sín verk á hlutlægan hátt. Ef ekki þá er rétt að nefna það að Davíð og klíkan hans er aðal ástæðan fyrir íslenska hruninu. Helmingaskiptaregla Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, er orsök Bankasiðblindu og siðleysis, sem er að stærðargráðunni 12.500.000.000.000 IKR FYRIR HRUN. Öll umræða Davíðs um 55.000.000 Ikr í þeim samanburði er beinlínis hjákátleg, og lýsir þeirri siðblindu, sem hann er haldinn.

Hins vegar þegar kemur að peningaþvætti, þá kemur mér ekkert á óvart niðurstaða Breta um Björgúlfsfeðga.

Hver er ábyrgur gagnvart því að Björgúlfsfeðgar fengu Landsbanka Íslands? Það er Davíð Oddson. Sú ákvörðun hefur kostað íslensku þjóðina: skuldir Icesave.

Eins og Jón Baldvin bendir réttilega á þá er Icesave skuldabagginn: kominn út af skuldum Landsbanka Íslands.

http://jbh.is/default.asp?ID=196

Sjá þar eru fleiri ágætar greinar.

Því miður gengur allt of hægt að leiðrétta mál, og koma hjólum Efnahagslífsins af stað. Orsakavaldur eru m.a. pólitískt ráðnir Embættismenn fv. Stjórnvalda, sem hvorki virða lög né reglur.

Til dæmis verður að koma heimilum til hjálpar. sbr.   www.heimilin.is

Erlingur Þ (IP-tala skráð) 25.11.2009 kl. 11:42

4 identicon

Sé tekið hlutfallið milli þessara 55.000.000 og 12500.000000000 þá er það 0,00044%. Semsé talsvert langt innan við 1%. Ef einhver annar hefði verið með gagnrýni, þá er Davíð Oddson sístur allra manna hæfur til þess að koma með hana.

Hver tók  eftirlitskerfið úr sambandi? sömu aðilar.

Nú er að koma út svarta skýrslan, Sjálfstæðiflokkurinn fær slíka útreið þar að það hálfa er nóg.

Ég tel rétt fyrir grandvara flokksmenn, og þeir eru margir að ganga úr flokknum, eða að krefjast þess að flokkurinn verði lagður niður.

Blekkingar eins og hér á Mbl. af t.d. Hannesi Hólmsteini, Birni Bjarnasyni, Einari Guðfinnssyni og allir leigupennarnir eru sér til háborinnar skammar.

Takk aftur fyrir ágæta bloggsíðu.

Erlingur Þ (IP-tala skráð) 25.11.2009 kl. 12:12

5 identicon

Þakka þér fyrir góða grein og ekki síður þessar tilvísanir í greinar Jennýar. Þær greinar eru sérstaklega athyglisverðar og raunar stórundarlegt að þær skuli ekki hafa vakið meiri athygli.

Það er undarlegt að þó svo að hvíslað hafi verið um þessi mál alveg frá 2002 hefur ótrúlega lítið verið um þau skrifað í íslenskum fjölmiðlum þó ýmislegt hafi komið fram í fjölmiðlum í Bretlamdi og Danmörku. Þessi nýlega grein HH er eiginlega það eina bitastæða sem ég man eftir í svipinn..

Í greininni sem Óðinn vitnar í er m.a. þetta:  That, in turn, exposes Baugur and other potential Icelandic suitors of M&S to the persistent but unsubstantiated whispering that the country's economic miracle has been funded by Russian mafia money rather than growth and liberalisation.  Hér er önnur grein með skondnu upphafi.

Hvort grunur þinn um að fleiri greinar muni byrtast reynist réttur kemur kannski í ljós í febrúar (kannski ekki fyrr en eftir kosningar) þegas skýrsla rannsóknarnefndarinna verður byrt (verður hún annars ekki byrt...öll?). Ég tek nefnilega heishugar undir lokaorðin í pistli þínum; þar er ekki spurning hvort...heldur hve mikið..?   Verði skýrsla nefndarinnar hreinskrifuð svo vandlega að ekkert standi eftir um peningaþvætti þá er skýrslan öll, að mínu mati, ótrúverðug.

sigurvin (IP-tala skráð) 25.11.2009 kl. 23:26

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að lengja eigi austur-vestur-braut Reykjavíkurflugvallar og stytta og færa norður-suður-brautina til og stytta hana svo að hún nái ekki nema inn að miðjum velli og vísi framhjá Kársnesi.

Við það myndi nánast allt ónæðið, sem þú talar um Lára Hanna, hverfa og völlurinn verða notadrýgri og öruggari.

Hér var haldin mikil samkeppni um Vatnsmýrina án flugvallar en engin samkeppni um Vatnsmýrina með flugvelli.

Ég lýsi eftir slíkri samkeppni því annars er þessum tveimur möguleikum gert mishátt undir höfði.

Ómar Ragnarsson, 25.11.2009 kl. 23:43

7 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Allt aðflug að austur/vesturbrautinni í austanátt er fyrir framan stofugluggann minn.  Sem betur fer hafa einkaþoturnar næstum horfið!! 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 26.11.2009 kl. 00:42

8 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Það vantar allar sannanir.

Að mínu áliti ætti að vera auðvelt nú þegar öll starfsemi bankanna er undir rannsókn, færslur og sona og allt dæmið opið rannsóknaraðilum, að sjá ummerki peningaþvættis, allavega ef um er að ræða eitthvað sem skiptir máli.

Það athyglisverðasta sem eg hef séð varðandi umræðuefnið er rannsókn dönsku gauranna þarna um árið sem lögðust í ransóknarvinnu og þeir bentu á einkennilega hringrás peninga í gegnum ísland, þ.e. td. Lux.-Ísl.- Aflandseyjar o.s.frv. o.s.frv.

Þetta gæti verið eitt af einkennum peningaþvættis - en vel að merkja:  Gæti alveg eins verið eitthvað allt annað og alls ekkert tengt neinu slíku.

Auk þess er ekkert hægt að líta framhjá því að bankarnir tóku engar smá summur að láni erlendis.  Þó allt hafi ekki farið til íslands var ekkert smá búmm að veita slíkum straumi inní pínku pínku lítið hagkerfi.

(Og þegar vísað er ti icesave þessu til styrkingar, þ.e. að ísland vilji ekki fara með icesave í dóm vegna peningaþvættis o.s.frv - það er veikt.  Afskaplega veikt.  Skýringin er miklu nærtækari.  Einfaldlega sú að Ísland yrði dæmt til að greiða allt uppí topp !  Nákvæmlega eins og gert var á íslandi)

Ómar Bjarki Kristjánsson, 26.11.2009 kl. 02:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband