Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

Dagur hins gljáfægða Silfurs

Sunnudagar eru dagar Silfurs sem ég er að horfa og hlusta á í þessum skrifuðu orðum. Þar eru núna þessir líka flottu kverúlantar eins og Þráinn Bertelsson, Magnús Þór Sigmundsson og fleiri þótt þátturinn sé rétt nýbyrjaður.

Þegar ég sá þetta sandkorn í DV fauk í mig í fyrstu en fljótlega rann mér reiðin og mér fannst þetta bara fyndið. Þetta var einmitt þvert á það sem fólk talar og skrifar um þar sem öllum finnst fjarvera "málsmetandi manna" alveg dásamleg. Ég kynnti mér uppruna orðanna "kverúlant" og "málsmetandi" og hló enn meira að DV. Leit síðan yfir þessa færslu Egils og skildi enn betur hvaða hagsmunir voru á bak við sandkornið og var stolt af veru minni meðal kverúlantanna. En ég varð fyrir vonbrigðum með DV því það hefur verið að gera góða hluti. Þetta var ótrúleg lágkúra og eins rangt og frekast gat verið. Annars getur fólk dæmt sjálft - hér er hægt að horfa á allt Silfur vetrarins og meira til.

Fellur á Silfrið - DV 11.12.08

Tveimur dögum seinna dró DV svolítið í land og hrósaði Agli fyrir Kiljuna. Sagði meira að segja að margir sem koma í Silfrið séu ekki "kverúlantar". Ég varð fyrir vonbrigðum - aftur. Það var nefnilega orðið flott að vera Silfurkverúlant - alveg eins og mótmælaskríll. En allt er í heiminum hverfult. Kverúlantar kvarta - DV 13.12.08

Henrý Þór hefur skilning á þessu og kom með sína túlkun á tilgangi DV með kverúlantastimplinum á Silfrið og gesti þess. Ég held að hann hafi alveg hárrétt fyrir sér.

Henrý Þór Baldursson - 14.12.08


Þagað í háværum, hljómmiklum kór

Austurvelli 13.12.08Ég þagði í 17 mínútur á Austurvelli í gær og fór létt með það. Ég er nefnilega jafnvíg á hvoru tveggja - að þegja og tala. Ég heyrði lágværar raddir pískra af og til og ég heyrði ekki betur en að það væru allt karlaraddir, þvert á goðsögnina. En andrúmsloftið var alveg einstakt... svolítið rafmagnað og þrungið einhverju sem ég kann ekki að skýra. Samkennd, kannski. Það var að minnsta kosti hávær og og mikill hljómur í þessum þögla kór. Þegar ég kom voru ekki margir mættir en svo dreif fólk að úr öllum áttum rétt fyrir þrjú og ég gæti vel trúað að um 1.500 til 2.000 manns hafi verið á Austurvelli. Mér fannst það fínt - en hvar voruð þið hin?

Það var vel til fundið hjá Herði að lesa upp ártal á mínútufresti, frá 1991 til 2008. Táknrænt fyrir efnahagsstjórn Flokksins sem hefur átt stærstan þátt í að steypa þjóðinni í glötun - en ekki hjálparlaust. Hinn Flokkurinn átti sinn þátt í því og þriðji Flokkurinn blandast æ meira í málið. Eftir að þagnarstundinni lauk var Neyðarstjórn kvenna með uppákomu þar sem þær brenndu ja... feðgaveldið eins og stóð á einu skiltinu þeirra og væntanlega voru þær að vísa í synina (t.d. Árna Mathiesen og Björn Bjarnason) sem þykjast eiga tilkall til valda bara af því þeir eru synir feðra sinna. Eða Bjarna Ben sem nú virðist ætla að gera tilkall til forystu í Flokknum með nafnið eitt að vopni og ættina undir sér. Ég get ekki séð að hann hafi neitt það til að bera sem gerir hann hæfan í valdastól að eigin verðleikum. Ef svo er hefur það farið alveg fram hjá mér. Kannski afsannar hann það ef töggur eru í honum. En eitt má hann eiga - hann hefur þorað að viAusturvelli 13.12.08ðra skoðanir sem eru í andstöðu við borðorð Davíðs. En aldrei einn. Nei, aldrei einn - alltaf í slagtogi við Illuga Gunnarsson, félaga sinn.

Það er fróðlegt að renna yfir skrif fólks um þessa atburði dagsins og mótmælafundina almennt. Sumir eru harðákveðnir í að eitthvert pólitískt afl sé á bak við fundina sem Hörður Torfason hefur skipulagt 10 laugardaga í röð. En ég veit fyrir víst að svo er ekki og er því sallaróleg yfir slíku bulli. Svo virðast aðrir hafa túlkað aðgerðir kvennanna þannig að þær beinist gegn forræðislausum feðrum af því orðið "feðraveldi" var nefnt í fréttum. Ég komst ekki nógu nálægt tunnunni sem kveikt var í til að heyra það sem þar var sagt en nógu nálægt til að sjá orðið "feðgaveldi" sem er auðvitað allt önnur merking. Auðvitað er fráleitt að forræðislausir feður hafi á neinn hátt verið skotspónn þeirra. En svona er fólki stundum mikið í mun að mistúlka alla hluti.

Maður einn fer mikinn þessa dagana og vikurnar, heim kominn úr sjálfskipaðri útlegð og alltaf með fulla vasa fjár sem enginn veit hvaðan kemur. Hann þenur sig á bloggsíðum, vefsíðum og í fjölmiðlum og fárast yfir því að fá ekki að ryðjast inn á fundi eða upp á svið og láta ófriðlega eins og er hans vandi. Hann virðist ekki skilja að fólk almennt vill ekkert með hann hafa, hefur fengið nóg af honum og að hann er hvergi velkominn... í það minnsta óvíða. Hann skilur ekki að hann er óvelkominn en reynir að ryðjast áfram með offorsi, valta yfir allt og alla og eys síðan aur, skít og lygum yfir fólk þegar það tekst ekki. Undarlegur andskoti. Ég held að flestir viti um hvern ræðir og mér finnst furðulegt hvað fjölmiðlar eru viljugir að tala við hann - vitandi allt um manninn.

Hér er umfjöllun sjónvarpsstöðvanna af fundinum í gær. Myndirnar með færslunni finnst mér eiginlega ómögulegar, því ég er ekki nógu há í loftinu til að fá betri yfirsýn yfir fundarmenn. Ég stóð um stund við hlið Geirs Jóns við myndatökuna, sem er með hávaxnari mönnum, og datt í hug að biðja hann að taka mig á háhest - en kunni ekki við það. Veit ekki hvernig hann er í bakinu, blessaður.


Ef einhver velkist í vafa um...

...hvort mæta eigi á Austurvöll klukkan 15 í dag og taka þátt í 17 mínútna kyrrðar- og friðarstund - sem ég vil líka kalla sorgarstund - er kannski rétt að horfa á þetta myndband og skoða hug sinn. Sumir hafa eflaust hugsað með sér að þeim sé slétt sama þótt tóbak og áfengi hækki - en átta sig ekki á að sú hækkun, auk eldsneytishækkunar, veldur því að verðbólgan hækkar og verðtrygging húsnæðislánanna - þ.e. afborgarnir af lánunum hækka og eftirstöðvarnar líka. VARÚÐ - Þetta er bara byrjunin.

Íhugið vandlega það sem hér kemur fram.

Mótmæli á Austurvelli - Fréttablaðið 12.12.08

Mótmæli á Austurvelli - Fréttablaðið 12.12.08

Sjáumst á Austurvelli klukkan þrjú í dag! Gefið ykkur tíma - það borgar sig!


Baneitraður brandari?

MorgunblaðiðUndanfarnar vikur hefur Morgunblaðið verið ansi öflugt, komið með margar góðar fréttaskýringar og umfjöllun um efnahagshrunið og aðdraganda þess frá ýmsum hliðum. Blaðamenn Moggans hafa stungið á kýlum, flett ofan af spillingu og  fylgt málum óvenju vel eftir miðað við þá staðreynd að ótrúlegustu spillingar- og stórmál sem þarfnast umfjöllunar hafa komið upp nánast á hverjum einasta degi. Fleiri síður hafa verið lagðar undir aðsendar greinar þar sem fjölmargir Íslendingar, þekktir og óþekktir, hafa farið á kostum. Fólk hefur gagnrýnt, hrósað og stungið upp á alls konar lausnum. Þar hefur einna mest borið á nýsköpun og sprotafyrirtækjum sem framtíðarlausnum. Fólk hefur verið mestan part málefnalegt og sýnt heilbrigða skynsemi. Óvenju lítið bull hefur slæðst með miðað við fjölda greina. Það má sem sagt margt gott segja um frammistöðu Morgunblaðsins undanfarnar vikur þótt ýmislegt megi auðvitað gagnrýna líka.

Mér brá í brún þegar ég sá stutta grein í heiðursramma í Mogganum í dag. Ef hún hefði verið eftir einhvern óbreyttan úti í bæ hefði ég í versta falli afgreitt hana sem kjánalega. En greinin er ekki eftir mann úti í bæ, heldur fjármálaráðherra Íslendinga, Árna M. Mathiesen. Mann sem hefur gegnt ráðherraembættum árum saman, sýnt af sér fádæma roluskap og spillingu auk þess að hafa sáralítið sem ekkert til málanna að leggja og neita að upplýsa um fjárhagsleg tengsl sín við bankastofnanir. Hann ætlar nú að hækka skatta og ótalmargt fleira sem var m.a. rætt í Kastljósi í gærkvöldi eins og sjá má hér.

En fjármálaráðherra fjallaði ekki um skattamál og ég er ekki alveg Árni Mathiesenbúin að átta mig á tilgangi greinarinnar og hvað ráðherranum gengur til með birtingu hennar, en tökum dæmi: "Við uppfærslu fjárlaga er lagður grunnur að framkvæmdum sem í verður ráðist á næsta ári. Skiptir máli að þær séu vel ígrundaðar, og forgangsraðað verði út frá eftirfarandi forsendum: Þær séu arðbærar til skemmri og lengri tíma, séu mannaflsfrekar, bæði á undirbúnings- og framkvæmdatímabili, skapi atvinnu á því svæði þar sem mest hefur dregið úr atvinnuframboði og kalli ekki á mikinn innflutning aðfanga." Hvað er Árni að tala um hér? Þó ekki virkjanir og álver! Þá er hann enn meiri kjáni en ég hélt. Hér hefur komið fram hver sérfræðingurinn á fætur öðrum undanfarnar vikur og varað við slíku óráði sem fælist í því að slá enn fleiri og hærri lán í útlöndum - ef þau þá fást. Þjóðin er gjörsamlega að drukkna í skuldafeni og ekki er á bætandi.

Ég gæti tínt til ótal fleiri ástæður en í bili nægir að nefna eiturefnið brennisteinsvetni sem jarðgufuvirkjanir þær sem áætlað er að reisa til að knýja álverin í Helguvík og á Bakka spúa út í andrúmsloftið. Ég hef skrifað um málið margoft á þessum vettvangi - til dæmis hér, hér, hér, hér og hér svo eitthvað sé nefnt. Í tónspilaranum eru 15 viðtöl við lærða og leika, sérfræðinga og vísindamenn auk fréttaumfjöllunar. Til hægðarauka fyrir þá sem vilja hlusta merkti ég efnið A00 til A14 svo það raðast efst í spilarann. Ég hvet fólk eindregið til að hlusta - og horfa svo á þessar fréttir af RÚV í gær og fyrradag. Þarna er reyndar ekki fjallað um þá hættu sem mannfólkinu getur stafað af brennisteinsvetnismengun - og ég er ekki að tala um lyktmengun. Ætlar Árni að eitra fyrir okkur ofan á allt annað?

Fleira mætti tína til úr þessari litlu grein fjármálaráðherra en hér er hún. Misskil ég greinina kannski - eða þetta brot úr henni sem ég tók út? Og er Árni sá maður sem hefur efni á að hvetja til samheldni og samstarfs? Hefur hann sýnt sig vera verðugan fulltrúa almennings sem fólk ætti að flykkjast á bak við og sýna samstöðu?  W00t

Árni Mathiesen - Moggi 12. des. 08


Kona er nefnd...

Ég sá viðtal við hana í sjónvarpinu fyrir tveimur eða þremur árum hjá Evu Maríu. Konan heillaði mig gjörsamlega. Ég man ekki eftir viðlíka upplifun af bláókunnugri manneskju. Persónutöfrar hennar, eðlisgreind, gáfur og heilbrigð skynsemi gneistuðu í gegnum skjáinn og inn á gafl hjá mér. Hún talaði um lífið eins og gestir Evu Maríu gera, barnæsku, unglingsár, námsárin í Bandaríkjunum, störf þar og lífið eftir heimkomuna. Ég hafði aldrei heyrt konunnar getið og mér lék mikil forvitni á að vita hver hún væri.

Í viðtalinu kom fram að hún hafi unnið um tíma hjá fyrirtæki þar sem ég þekki til. Ég spurðist fyrir og það var eins og við manninn mælt - þeir sem ég spurði fengu stjörnur í augun þegar ég minntist á hana. Allir söknuðu hennar þótt hún hafi staldrað stutt við, allir dýrkuðu hana og dáðu, sögurnar af henni voru stórkostlegar. Miðað við áhrifin sem hún hafði á mig eftir eitt sjónvarpsviðtal kom það ekki á óvart.

Nokkru seinna var ég í stóru hófi og var kynnt fyrir þessari konu. Ég hrósaði henni fyrir viðtalið og hafði orð á því að ef hún einhvern tíma stofnaði eigin fyrirtæki myndi ég gjarnan vilja vinna hjá henni. Til að árétta að mér hefði verið alvara sendi ég henni tölvupóst daginn eftir og fékk vingjarnlegt svar. Kannski fór hún hjá sér og þótti þetta óþægilegt, hver veit? Kona þessi stofnaði eigið fyrirtæki eins og ég vissi að hún myndi gera, en hún hefur ekki ennþá boðið mér vinnu og ég ekki sótt um. Ég er ekki viss um að bransinn hennar henti mér.

Mér varð hugsað til þessarar konu í kvöld eftir aulahrollinn sem ég gagntók mig við að hlusta á viðtalið við forstjóra Fjármálaeftirlitsins í Kastljósi og aumt yfirklór hans um spillingar- og krosstengsl banka, skilanefnda og endurskoðenda. Þvílíkur munur væri nú ef þessi kona væri þar við stjórn en ekki þessi flóttalegi, óöruggi, hálfstamandi maður sem er svo gjörsamlega vanhæfur í starfi að manni hrýs hugur við þeim völdum sem hann hefur í krafti embættisins. Þetta er það sem hefst upp úr pólitískum mannaráðningum þar sem flokksskírteini er rétthærra en hæfni og hagsmunir Flokksins látnir ganga fyrir hagsmunum þjóðarinnar.

Hér eru nokkur myndbrot með viðtölum við konuna en því miður á ég ekki áðurnefnt viðtal sem ég sá fyrst. Það var gjörólíkt þeim sem birtast hér að neðan, ekkert rætt um pólitík eða fjármál. En ímyndið ykkur það sama og ég - mynduð þið treysta henni betur fyrir allri þeirri ábyrgð og því valdi sem forstjóri Fjármálaeftirlitsins hefur? Eða Seðlabankanum? Ég óttast mest að hún hafi engan áhuga á embættum ríkisins.

Konan heitir Halla Tómasdóttir og stofnaði og rekur ásamt fleiri konum fjárfestingarsjóðinn Auður Capital. Hún hefur unnið að því, og fengið viðurkenningar fyrir, að stuðla að jafnrétti og var ein frumkvöðla að verkefninu Auður í krafti kvenna hér um árið. Ég veit ekki hvort Halla er flokkspólitískt þenkjandi eða starfandi í stjórnmálaflokki en mér er alveg sama. Sem einstaklingur er hún geysilega öflug manneskja sem ég myndi treysta. Gott dæmi um ástæður þess að hafa persónukjör í kosningum til Alþingis og sveitarstjórna - þvert á lista. Hlustið á Höllu í þessum myndböndum.

 Hádegisviðtalið á Stöð 2 - 14. mars 2008

 

Markaðurinn hjá Birni Inga 15. nóvember 2008
Takið sérstaklega eftir hvað Halla segir um stjórn Seðlabankans og varamannssetu sína í henni

 

Kastljós (ásamt Óla Birni) 18. nóvember 2008

 


Björgvin G. í brennidepli og stórum dráttum

Björgvin G. SigurðssonBjörgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, er í brennidepli þessa dagana. Hvort sem það er af hans eigin völdum eða annarra virðist hann ekki hafa verið hafður með í einu eða neinu og heldur ekki fylgst með að eigin frumkvæði. Ekki veit hann sitt af hverju sem átti að vera ljóst og hafði verið á margra vitorði um alllangt skeið. Segir hann satt eða ósatt? Alla ráðherratíð sína hefur hann þó verið með aðstoðarmann í fullu starfi og nú einnig upplýsingafulltrúa - auk starfsfólksins í ráðuneytinu auðvitað. En hann kemur samt hvað eftir annað af fjöllum með hvert málið á fætur öðru, blessaður, enda virðast þeir þrír ekki tala mikið saman af þessu að dæma. Traustvekjandi? Maður spyr sig hvort þessir piltar vinni fyrir laununum sínum - sem við borgum og eru örugglega ekki skorin við nögl.

Ég efast ekki um að Björgvin sé ljúfur drengur, en furða mig æ oftar á því hvaða duldu hæfileikar gerðu hann hæfan í þetta embætti. Hann er ekki einu sinni dýralæknir, hvað þá íþróttakennari. Ekki það að menntun manna skipti öllu máli - ég veðja frekar á heiðarleika, greind og almenna þekkingu og skynsemi. Og hvað er hann búinn að vera að gera í eitt og hálft ár? Ég man best eftir skóflustungunni í Helguvík.

Í tilefni af viðtalinu við Björgvin í Kastljósi í gærkvöldi gróf ég upp fleiri viðtöl úr gullastokknum. Ég ætla ekki að segja margt um þau, dæmi hver fyrir sig um þau orð sem hann lætur falla í þessum viðtölum. Skoðun á hlutunum í sögulegu ljósi er alltaf áhugaverð og undanfarna tvo og hálfan mánuð hafa hlutirnir gerst svo hratt og breyst með hraða ljóssins frá degi til dags þannig að í dag er gærdagurinn orðinn sagnfræði. Öðruvísi mér áður brá.

Fyrsta viðtalið er frá  29. maí 2007, skömmu eftir að Björgvin varð ráðherra. Athygli vekur ákafi hans við að koma í gegnum þingið frumvarpi sem auðveldar útrásarbarónum og bönkunum að leika sér með fjármuni erlendis sem endaði með hundraða milljarða féflettingu sem við og afkomendur okkar þurfum að borga. Ef hann yrði spurður um þetta nú kæmi líkast til þreytta klisjan: "Ég gat ekki vitað á þessum tíma..." o.s.frv. Þó var staða mála á þessum tíma þannig að lokað hafði verið á erlend millibankalán til íslenskra banka og því tóku þeir á það ráð að fjármagna sukkið með sparifé grandalausra útlendinga víða um Evrópu - og okkar peningum. Þetta hefði átt að hringja einhverjum bjöllum einhvers staðar en gerði greinilega ekki. Ráðamenn í siðmenntuðum löndum reka menn og segja af sér fyrir margfalt minni sakir.

Næst kemur viðtal í Mannamáli 11. nóvember 2007. Þarna er Björgvin í góðum félagsskap annars ráðherra ríkisstjórnarinnar, Árna Mathiesen, fjármálaráðherra.

Þá er það Hádegisviðtalið á Stöð 2 frá 18. mars 2008.

Því næst Kastljós 30. september 2008 ásamt Valgerði Sverrisdóttur,

Nú er skammt stórra högga á milli og næst kemur Kastljós 24. október 2008. Þar ræðir Björgvin um fund sinn með Darling.

Hér er svo viðtal í Íslandi í dag 27. nóvember 2008.

Björgvin er hér í Markaðnum hjá Birni Inga 6. desember 2008.

Loks er það Kastljós í gærkvöldi, 10. desember 2008.

Er ég að gleyma einhverju? Ef fólk man eftir fleiri áhugaverðum viðtölum við Björgvin er það vinsamlegast beðið að láta mig vita. Líkur eru á að ég eigi það í fórum mínum en það er svo fjári tímafrekt að leita í öllu þessu efni.


Lögleg svik, spilling og þjófnaður

Jón SteinssonÍ Silfrinu á sunnudaginn var símaviðtal við Jón Steinsson, hagfræðing í Bandaríkjunum, sem var afskaplega athyglisvert og er algjört skylduáhorf og hlustun. Því miður rofnaði símasambandið og náðist ekki aftur fyrr en síðast í þættinum svo ekki er víst að fólk hafi náð því sem Jón var að segja í samhengi. Ég klippti saman viðtalsbrotin tvö til að samtalið kæmi út sem ein heild.

Það sem Jón er að segja er allt í senn óhugnanlegt, ótrúlegt og að því er virðist rétt - því miður. Þetta er nokkuð sem verður að ráða bót á strax - helst í síðustu viku - því þetta er hluti af þeim ógeðslega spillingarleik sem hefur grasserað og er verið að leika í íslensku þjóðfélagi ennþá.

Þeir Jón og Egill nefna Fjárfar, alveg ótrúlega vafasamt skúffufyrirtæki sem var hluti af Baugsmálinu. Ég er búin að kynna mér það mál svolítið - alls ekki nóg samt, þessi mál eru mjög flókin fyrir manneskju eins og mig sem fylgdist aldrei með fjármála- eða viðskiptalífinu - en ég bendi fólki á að kynna sér það endilega hér. Þetta mál er hreint með ólíkindum.

Lokaorð Jóns t.d. eru alvarleg viðvörun - leturbr. og innskot eru frá mér:

"Jón:  ...allt fólkið sem hefur verið efnað á Íslandi í gegnum tíðina, en er í dag gjaldþrota, er með undraskömmum hætti orðið efnað á ný. Við bara megum ekki láta þetta gerast. Við verðum að hafa alvörueftirlit með því sem er að gerast inni í þessum risastóru bönkum sem nú eru á ábyrgð skattgreiðenda.

Egill: Þú meinar að sömu aðilar geti notfært sér þetta ástand til að ná einhvern vegin aftur undir sig samfélaginu.

Jón:  Þeir eru í kjöraðstæðum til þess. Þeir þekkja fyrirtækin, þeir vita hvernig er hægt að búa til einhverja díla sem hljóma eins og þeir meiki einhvern sens fyrir ríkið en eru í rauninni eitthvað allt annað. Og á meðan staðan er þannig að þetta er ekkert allt uppi á borðinu í fyrsta lagi... það eru ekki skýrar reglur um það hvernig sölu eigna og endurmati skulda er háttað innan bankakerfisins... og á meðan þetta er ekki uppi á borðinu þá er þessi hætta til staðar. Þetta eru kjöraðstæður fyrir svona látalæti vegna þess að í dag er erfiðara en nokkru sinni fyrr að átta sig á því hvað sannvirði eigna er.

Egill:  Kjöraðstæður fyrir spillingu.

Jón:  Kjöraðstæður fyrir spillingu.

Egill:  Þú treystir þá ekki því sem er að gerast inni í bönkunum?

Jón:  Nei, ég hef miklar áhyggjur af því. Í fyrsta lagi þarf verklagsreglur. En í öðru lagi er bara ekki hægt að komast hjá því að kjörnir fulltrúar þjóðarinnar (innsk.: þingmenn), sem bera ábyrgð gagnvart þjóðinni, séu virkir í eftirliti. Ég hef miklar áhyggjur af því, að það sé ekki þannig - ekki nægilega mikið. Það þarf toppfólk í það. Fólk sem hefur djúpan skilning á fjármálaleikfiminni sem innherjarnir munu bera á borð. Þegar þessi flóknu mál koma á borðið hjá bankaráðum bankanna eða fjármálaráðherra (innsk.: Árna Mathiesen) eða viðskiptaráðherra (innsk.: Björgvin G.) þá þurfum við að hafa aðila í þeirra stöðum sem geta skilið þessa díla til að þeir semji ekki af sér fyrir hönd þjóðarinnar. Ég er því miður ekki viss um það að aðilarnir í þessum stöðum á Íslandi í dag hafi nægilega djúpan skilning á því erfiða verkefni sem er fyrir höndum hjá þeim."

Jón Steinsson í Silfri Egils 7. desember 2008

Hér eru svo tvær nýlegar blaðagreinar eftir Jón Steinsson þar sem hann fjallar um spillinguna á Íslandi. Smellið þar til læsileg stærð fæst.

Fréttablaðið 3. desember 2008

Jón Steinsson - Fréttablaðið 3.12.08

Morgunblaðið 27. nóvember 2008

Jón Steinsson - Moggi 27.11.08


Áríðandi skilaboð til stjórnvalda!

Egill Helga gaf mér leyfi til að birta þessa færslu sem hann er með hjá sér. Þetta er stórmál sem verður að vekja athygli á - bæði almennings og stjórnvalda.

__________________________________________

10. desember, 2008

Sönnunargögn liggja undir skemmdum

Maður sem ég treysti mjög vel og þekkir vel til í bankakerfinu og viðskiptalífinu sendi mér þetta bréf. Ég tel að upplýsingarnar sem koma fram í því séu svo mikilvægar að nauðsynlegt sé fyrir stjórnvöld að bregðast hratt við.

--- --- ---

Nú eru rúmlega 2 mánuðir liðnir frá því að bankarnir féllu hver á fætur öðrum með tilheyrandi afleiðingum fyrir þjóðarbúið.  Allt stefnir í að lög um sérstakan saksóknara verði samþykkt á Alþingi í dag eða næstu daga.  Vonandi tekur hann til starfa sem fyrst, en spurningin er hvort skaðinn sé ekki þegar skeður.  Samkvæmt mínum upplýsingum liggja sönnunargögn undir skemmdum í öllum bönkunum, þar sem ekki var haft fyrir því að taka heildarafrit hjá hverjum banka fyrir sig og setja afritin í örugga geymslu hjá Seðlabankanum eða Fjármálaeftirliti.  Það er því ekki víst að gögnin sýni rétta stöðu, þegar rannsókn fer í gang.

Vandamálið með skilanefndirnar er að þær eru flestar skipaðar að hluta til innanbúðarfólki.  Sumt af þessu fólki tók þátt í sukkinu og er því að greiða úr flækju og óreiðu sem það orsakaði sjálft eða átti að koma í veg fyrir.  Fólk sem var í lykilstöðum við að svindla er núna kannski komið í lykilstöðu við að hylma yfir.  Búið er að setja alla starfsmenn nýju bankanna, sem voru í gömlu bönkunum á athugunarlista.  Hvers vegna skyldi það vera?  Jú, menn óttast að þeir muni stunda svik.  En það er ekki nóg að setja starfsmenn nýju bankana á athugunarlista.  Starfsmenn gömlu bankanna þarf líka að vakta.  En hver gerir það?

Loks hefur mér verið bent á, að endurskoðunarfyrirtækin munu vera með talsverða samvinnu sín á milli varðandi skoðun á sína á bönkunum.  Ástæðan mun vera sú, að menn eru að reyna að átta sig á öllu fiffinu sem viðhaft var til að fela vafasamt hátterni og ekki síður vegna þess að þau í raun og veru vita ekkert hvernig eigi að bera sig að við svona skoðun.  Að KPMG sé að skoða Glitni sé langt frá því það alvarlegasta sem er að gerast, enda KPMG stórt fyrirtæki og hver endurskoðandi innan fyrirtækisins í reynd eins og sérstakt fyrirtæki undir einni regnhlíf.  Nei, það sé mun alvarlegra að stóru fyrirtæki eru með þetta víðtæka samstarf sína á milli.


Þingmenn bornir út

Atburðir gærdagsins séðir með augum Henrýs Þórs.

Lögreglan ber þingmenn út úr Alþingi


Sprengjuregn spillingar

KastljósKastljós varpaði sprengjum í kvöld og fylgdi eftir ýmsu sem hefur verið að leka út, að nokkru leyti í fjölmiðlum en mest á bloggsíðum og í athugasemdum. Þótt ég og örugglega fleiri séum komin með upp í kok og meira til þakka ég Kastljóssfólkinu fyrir og hvet það til frekari dáða. Heldur vil ég halda áfram að fá dagleg áföll og að tekið sé á þeim en að þessi spillingarsori verði látinn viðgangast í laumi. Haldið áfram að grafa upp og segja frá, gott fólk!

Svo rífur þingflokksformaður Samfylkingarinnar kjaft við Atla Gíslason og segir að við höfum "lent í því" að bankakerfið hafi hrunið eins og það sé afsökun fyrir þeirri spillingu og þeim forkastanlegu vinnubrögðum sem viðgangast NÚNA við afskriftir skulda fyrirtækja, sölu þeirra sem Atli segir ólöglega, rannsóknir á gömlu bönkunum o.fl. o.fl. Umboðsmaður alþingis gagnrýnir og gagnrýnir en ríkisstjórnin hlustar ekki. Atli vitnaði í skýrslu Umboðsmanns og Lúðvík segir bara: "Hér er haldið áfram með ítrekaðar ásakanir"! Mér heyrðist Lúðvík vera steinhissa og undrandi á að það skuli ríkja mikil tortryggni í þjóðfélaginu. Hvaða rugl er þetta?

Laganefnd Lögmannafélags Íslands leggst gegn samþykkt frumvarps um rannsóknarnefnd vegna bankahrunsins eins og það var lagt fyrir Alþingi. Nefndin vill víðtækar og veigamiklar breytingar á frumvarpinu. Ýmsir lögmenn og fræðimenn í lögfræði hafa lýst áhyggjum yfir að lagasetning í kjölfar bankahrunsins hafi verið óvönduð og flaustursleg. Fjallað var um þetta og rætt við Evu B. Helgadóttur, formann laganefndar, í Speglinum. Hlustið, þetta er grafalvarlegt mál.

Enn og aftur kemur viðskipta- og bankamálaráðherra af fjöllum. Hann vissi ekki af rannsókn KPMG á viðskiptum gamla Glitnis sem staðið hefur yfir í tvo mánuði! Þó er Björgvin með einn aðstoðarmann og einn upplýsingafulltrúa í fullri vinnu á kostnað okkar við að upplýsa hann um menn og málefni og hefur fjölskyldutengsl inn í gamla Glitni. Ég held að Björgvin og allir hinir ráðherrarnir ættu að hlusta á það sem Birgir Hermannsson, stjórnmálafræðingur, sagði í Silfrinu á sunnudaginn um pólitíska ábyrgð. Ég klippti það sérstaklega út fyrir þau:

Ég legg svo til að fólk lesi t.d. þetta og þetta hjá Agli. Bloggið hans Egils Helgasonar er nauðsynleg lesning fyrir alla og þótt athugasemdirnar séu margar og æði misjafnar leynast þar gullmolar inni á milli. En horfið á Kastljósið ef þið eruð ekki búin að því. Ég er búin að horfa tvisvar og þetta er svo þétt efni og mikið af upplýsingum að ég þarf að horfa oftar.

Svo er fólk að hæðast að mótmælum og borgarafundum og þeim sem eru nógu gagnrýnir í hugsun til að vilja mótmæla svona vinnubrögðum. En það nennir ekki að mæta sjálft og ber fyrir sig veðri, ræðumönnum sem hugnast þeim ekki eða einhverjum ímynduðum hægri/vinstri stöðlum! Málið snýst bara ekki um það heldur að leggja sitt af mörkum, taka þátt í að mótmæla endalausri spillingu og óheiðarleika og krefjast umbóta. Þverpólitískar aðgerðir sem krefjast eingöngu nærveru okkar. Gerður Kristný og Stefán Pálsson ræddu um mótmæli í Íslandi í dag í gærkvöldi.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband