Færsluflokkur: Bloggar

Michael Hudson í beinni á blogginu

Ég gerði tilraun í síðustu viku þegar Haraldur Líndal Haraldsson, hagfræðingur, sat fyrir svörum hér í athugasemdakerfinu á blogginu og svaraði spurningum áhugasamra um ýmislegt er varðar efnahagsmál, skuldir þjóðarbúsins og fleira. Hægt er að sjá spurningarnar og svör Haraldar auk slóða og tilvísana hér.

Michael Hudson í Silfri Egils 5. apríl 2009Þetta gekk betur en ég hafði þorað að vona og einn gestur sagði í athugasemd að það væri ekki leiðinlegt að fá Michael Hudson eða Robert Wade á bloggið í beinni. Þessi tilraun mín og athugasemdin vakti athygli Gunnars Tómassonar, hagfræðings og kollega Hudsons í Bandaríkjunum. Gunnar hafði samband við Hudson sem sló til og Gunnar setti mig síðan í samband við hann. Úr varð samkomulag um að hann myndi svara spurningum í beinni á blogginu mínu í kvöld, þriðjudagskvöld, milli kl. 20 og 22 að íslenskum tíma. Þannig varð þetta að veruleika, þökk sé Gunnari Tómassyni.

Ég held að okkur sé flestum í fersku minni Silfrið 5. apríl sl. með viðtölunum við Michael Hudson og John Perkins. Hudson hafði birt afskaplega áhugaverðar greinar sem vöktu mikla athygli, þá fyrri í Fréttablaðinu 1. apríl - Alheimsstríð lánadrottna - og þá síðari 4. apríl - Stríðið gegn Íslandi.  Þann 7. apríl var hann síðan á fundi á Grand hóteli ásamt Gunnari Tómassyni þar sem þeir töluðu fyrir fullu húsi.

Eitt af því sem Hudson segir í grein sinni, Stríðinu gegn Íslandi, er þetta: "Stefna stjórnvalda í Bandaríkjunum er að koma á stöðugleika og forðast kreppu með því að færa niður skuldir til jafns við lækkandi markaðsverð, en ekki síður að ná greiðslubyrði húsnæðislána niður á viðráðanlegt stig, þ.e. innan við 32% af tekjum heimilanna. Í öðrum löndum er einnig verið að færa niður skuldir svo fólk og fyrirtæki geti staðið í skilum. Á Íslandi er verðtryggingin hins vegar að belgja út skuldir og steypa húseigendum í neikvæða eiginfjárstöðu." Einmitt þetta hefur brunnið á almenningi á Íslandi undanfarið og fjallað var um þetta risastóra vandamál bæði í Íslandi í dag og Kastljósi í gærkvöldi.

Hudson dregur í efa að Íslendingar geti borgað hinar himinháu, erlendu skuldir án þess að landsmenn tapi í unnvörpum eignum sínuMichael Hudson í Silfri Egils 5. apríl 2009m og félagslega kerfið leggist í rúst. Hann vill að verðtryggingin verði afnumin, gjaldeyrislán færð yfir í krónur á lágum, óverðtryggðum vöxtum eða afskrifuð að hluta eða öllu leyti. Hudson segir markmiðið eiga að vera að fella niður skuldir sem valda efnahagslegu tjóni. Eflaust taka margir undir þessar skoðanir hans og eflaust eru líka margir á móti þeim og telja þær óraunhæfar.

Ný grein eftir Hudson birtist 29. apríl í tveimur miðlum, CounterPunch og Global Research. Það er sama greinin fyrir utan örlítið öðruvísi byrjun. Ég fékk senda slóð að þýðingu á greininni úr Global sem er hér (takk, Vinni). Í henni reifar Hudson úrslit kosninganna, efnahagsástandið, einkavæðingu fiskimiðanna, Icesave, AGS, ESB, segir frá kynnum sínum af Íslendingum meðan á dvöl hans hér stóð og upplifun þeirra af ástandinu - og margt fleira. Eflaust sýnist sitt hverjum eins og venjulega um þessi umdeildu mál, en það verður spennandi að sjá og heyra hverju Michael Hudson svarar áhugasömum spyrjendum í kvöld.

Ég bið fólk að lesa sér vel til um skoðanir og hugmyndir Hudsons, hafa spurningar stuttar, hnitmiðaðar, skýrt upp settar, einfaldar (fyrir okkur óhaglærðu) og reyna eftir fremsta megni að forðast endurtekningar.

Michael Hudson í Silfri Egils 5. apríl 2009

 

Fleiri greinar eftir Michael Hudson í Global Research.
Heimasíða Michaels Hudson.

Michael Hudson er sérfræðingur í alþjóðafjármálum, hefur verið ráðgjafi Hvíta hússins, bandaríska innanríkisráðuneytisins og varnarmálaráðuneytisins og vinnur að tillögu að nýrri skattalöggjöf fyrir Bandaríkin.


Ég kolféll fyrir honum þessum

Ég held að ég hafi aðeins einu sinni áður sett hér inn tónlistarmyndbrot úr Kastljósi, jólalag Baggalúts fyrir síðustu jól. Og ég held að ég hafi heldur aldrei sett tónlist í tvær færslur í röð - en ég stenst ekki mátið núna.

Ég kolféll fyrir þessu sjarmatrölli og hæfileikabúnti sem kom fram í Kastljósi kvöldsins. Hann heitir Helgi Hrafn Jónsson og það skein í gegn hve mjög hann nýtur þess sem hann gerir. Það hefur áhrif.

Annars er ég að undirbúa svolítið stórmál fyrir morgundaginn. Stand by me... Wink


Styðjið okkur!

Sonur minn sendi mér slóð í dag með einu skemmtilegasta tónlistarmyndbandi sem ég hef séð.

Lagið er flutt af algjörlega óþekktum listamönnum á götum úti víða um heim. Þetta byrjaði með því að grunnurinn, söngur og gítarleikur, var hljóðritaður úti á götu í Santa Monica í Kaliforníu með götusöngvaranum Roger Ridley. Síðan var farið með grunnupptökuna til New Orleans í Louisiana, þar sem Grandpa Elliott (Elliott-afi), blindur söngvari í franska-hverfinu, bætti við söng og munnhörpuleik um leið og hann hlustaði á grunnupptöku Ridleys í heyrnartólum. Washboard Chaz (Þvottabrettis-Chaz) frá sömu borg  bætti við málmáslætti.

Þaðan í frá fór boltinn heldur betur að rúlla. Framleiðendurnir ferðuðust víða um Evrópu, Afríku og Suður-Ameríku, bættu við nýjum rásum með margvíslegum hljóðfærum og röddum og útkoman er sú sem sjá má í þessu myndbandi. Allt gert með einni fartölvu og nokkrum hljóðnemum. Þetta er hluti af heimildarmynd sem lesa má um og sjá fleiri myndbönd hér.

Roger Ridley segir í upphafi myndbandsins: "Hver sem þú ert og hvert sem þú stefnir þarfnastu stuðnings á einhverju tímabili í lífinu". Það tímabil stendur yfir í tilveru íslensku þjóðarinnar og við þörfnumst stuðnings yfirvalda til að lifa ósköpin af. Smellið á ferninginn - annan frá hægri neðst til hægri - til að stækka myndina, skrúfið í botn og njótið.

Roger Ridley, Grandpa Elliott, Washboard Chaz o.fl. - Stand by me


Opið bréf til viðskiptaráðherra

Elías Pétursson, sem fólk man eflaust eftir úr Silfri Egils 8. febrúar og 19. apríl skrifaði opið bréf til Gylfa Magnússonar, viðskiptaráðherra, sem Egill Helgason birti á bloggi sínu. Elías veitti mér góðfúslegt leyfi til að birta það líka - því víðar sem það berst því betra. Ég er handviss um að Elías talar hér fyrir munn æði margra. Hér er ræða Gylfa Magnússonar á Austurvelli 18. janúar sl.

__________________________________________

Mosfellsbæ 03.05 2009

Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra

Sæll vertu Gylfi, þar sem ekki er að finna neitt netfang hjá þér á heimasíðu ráðuneytis þíns né aðra fljótlega kosti til sambands ákvað ég að skrifa þér opið bréf og fá höfðingjann Egil Helgason til þess að birta það. Þetta geri ég náttúrulega í trausti þess að þú og þitt fólk lesið þá bloggsíðu, enda augljós skyldulesning fyrir stjórnmálamenn sem og aðra áhugasama um andlega jafnt sem almenna stöðu þjóðarinnar.

Gylfi Magnússon heldur ræðu á mótmælafundi á Austurvelli í janúar 2009Fyrst vil ég segja þér til hróss að á stuttum ferli hefur þú náð undraverðum árangri í list þeirri sem stjórnmál á Íslandi eru, það er hrein unun að sjá hve miklu valdi þú hefur sérstaklega náð í því að tala mikið en segja lítið eða ekkert þegar best tekst til. Sérstaklega er þessi árangur aðdáunarverður ef horft er til þess að áður fyrr var því þannig varið að í hvert sinn sem þú komst fram þá var lítið talað en mikið sagt.

Einnig er mjög aðdáunarvert hvernig þú verð kerfið sem stjórnmálin nærast á en sleppir því að mestu að verja blessað fólkið sem lifir í kerfinu. Allt eru þetta álitnir góðir kostir stjórnmálamanns á voru kreppuhrjáða landi.

Það var til dæmis án vafa merkileg grein þín þar sem Tryggvi Þ Herbertsson var dreginn sundur og saman í háði fyrir hugmynd sína um leiðréttingu skulda almennings. Ekki það að ég geti gert mér grein fyrir því hvort hugmynd Tryggva hafi verið umræðu virði, enda ræddir þú hana ekki málefnalega. Hvað þá að þú gæfir okkur „pöpulnum" vísbendingar um hvað væri svona arfavitlaust við hugmynd hans og fleiri um einhverslags niðurfellingu skulda eða leiðréttingu vísitölu. Sama á við um viðbrögð þín og stjórnfélaga þinna sem kenna sig við alþýðu og jöfnuð þegar Framsóknarflokkurinn kom með aðra útgáfu af leiðréttingarleiðinni. Þá enn og aftur voru menn settir út af borðinu með þeirri röksemd að hugmynd þeirra væri rugl án þess að okkur almenningnum minna færum í reiknikúnstum hagfræðinnar væri gerð grein fyrir hvers vegna allar hugmyndir sem beinast í þá átt að forða fólki frá gjaldþroti séu rugl.

Allt er þetta merkilegt í ljósi þess að stór hluti þess tjóns sem Elías Péturssonorðið hefur er ekki okkur „almenningi" að „kenna" né heldur að við höfum fengið neinu ráðið um aðgerðir né lausnir.

Hugmyndir ykkar virðast reyndar frekar snúast um það að láta fólk borga og borga þar til gjaldþrot er óumflýjanleg staðreynd og taka svo á málum með biðröðum, tilsjónarfólki og eyðublöðum í metravís.

Nú vil ég ekki vera með leiðindi við jafn vísan mann og þú augljóslega ert en bendi þó á að sumum gæti þótt betri kostur að bjarga fólki frá gjaldþroti en að aðstoða það í gegn um  gjaldþrot. Jafnvel gæti verið möguleiki að gera sitt lítið af hvoru.

Um þverbak keyrði þó í tækni þinni á sviði stjórnmálaumræðu þegar ég las ummæli þín í kjölfar frétta þess efnis að fólk væri jafnvel að hugsa um að hætta að greiða af lánum. Þó svo að ég skilji vel í ljósi sögunnar að þú og þitt samstarfsfólk vilji viðhalda skjaldborginni um fjármagnseigendur þá ert þú farinn að ganga fulllangt í orðum þínum um aðgerðir ríkisstjórnarinnar.

Sérstaklega eru það eftirfarandi orð þín sem vitnað er til á mbl.is og mig langar hér að innsetja og vona að mbl fyrirgefi mér.

Gylfi Magnússon heldur ræðu á mótmælafundi á Austurvelli í janúar 2009„Það er búið að grípa til víðtækra ráðstafana til að gera fólki kleift að standa í skilum, með því að létta greiðslubyrði bæði vegna verðtryggðra lána  og gengistryggðra," segir Gylfi. Fólk með verðtryggð lán geti fengið lækkun á greiðslum í hverjum mánuði og  fengið greiðslurnar tengdar vísitölu sem tekur mið af launaþróun og atvinnustigi. „Varðandi erlendu lánin eru núna komin úrræði sem gera fólki kleift að fá sambærilega greiðslubyrði og var vorið 2008, áður en krónan fór að gefa verulega eftir."

Finnst þér í alvöru að það séu boðlegar aðgerðir ríkisstjórnar að framlengja í lánum og færa allt afturfyrir og lengja. Er það skilningur þinn og ríkistjórnar að fólki sé engin vorkunn af því að lengja lán um tugi ára og verða í raun leigjendur í eigin húsnæði ríkisins. Allt vegna rangra ákvarðana stjórnmála-, embættis- og eftirlitsmanna, já og misferlis hringrásarvíkinganna og glæpamanna þeim tengdum

Er það einhver lausn fjölskyldna að fá greiðslubyrði setta niður ef 40 ára lánið er orðið 70 ára lán. Er það lausn að lengja í ólum lánþega þegar ekkert er verið að gera til endurreisnar þjóðfélagsins.

Með kveðju og von um lausnir,

Elías Pétursson


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Silfur dagsins

Þessu er hnuplað af bloggi Egils:

Ég spurði Kára hvort hann væri til í að fara og stjórna Silfri Egils í dag.
Ég væri þreyttur.
Sagðist mundu lána honum jakkaföt og gleraugu.

Drengurinn brosti og sagði:
"Þetta er góðlátlegt og skemmtilegt grín hjá þér, pabbi."

  ___________________________________________

Vettvangur dagsins - Jón Gunnar, Guðmundur, Lilja og Marinó

 

David Lynch

 

Njörður P. Njarðvík

 

Sýnishorn úr heimildarmynd um flugfélagið Loftleiðir

 

Guðjón Már Guðjónsson

 


Forskot á Silfrið

Ég sá á blogginu hjá Agli Helga að gestir hans í Silfrinu verða - fyrir utan auðvitað sjálfan kvikmyndagúrúinn David Lynch - Guðmundur Ólafsson, Lilja Mósesdóttir, Jón Gunnar Jónsson, Marinó G. Njálsson og Guðjón Már Guðjónsson. Ég hlakka til að heyra í þessu fólki.

En gesturinn sem ég bíð spenntust eftir er Njörður P. Njarðvík. Njörður hefur skrifað margar athyglisverðar greinar í Fréttablaðið. Hann var gestur í Silfrinu 11. janúar sl. og vakti gríðarlega athygli fyrir málflutning sinn þar um nýtt lýðveldi o.fl. Sú umræða hefur að mestu dottið niður, sem er slæmt. Mér finnst kominn tími á nýtt lýðveldi á Íslandi og benti á umfjöllum um það í bloggfærslu 26. nóvember sl. En rifjum aðeins upp sýnishorn af því sem Njörður hefur verið að skrifa um og viðtalið í Silfrinu í janúar.

 Til hvers er Alþingi - Njörður P. Njarðvík - Fréttablaðið 21.12.08
 Frjálshyggjuveiran - Njörður P. Njarðvík - Fréttablaðið 7.1.09
 Ótrúlegur vanskilningur - Njörður P. Njarðvík - Fréttablaðið 18.3.09

Fleipur, firrur og fjarstæður um ESB

Í þessum pistli auglýsti ég eftir vitrænum, upplýstum umræðum um kosti og galla aðildar að Evrópusambandinu. Allt of margt sem sagt er um aðild Íslands að ESB hefur einkennst af fleipri og fjarstæðum. Í Fréttablaðinu í dag er grein eftir Jón Baldvin Hannibalsson þar sem hann svarar ellefu atriðum sem hann kallar firrur. Á bloggi Egils Helga er líka birt grein eftir Jón Baldvin undir yfirskriftinni Eiga kvótaeigendur að hafa sjálfdæmi um framtíð Íslands?

Ég klippti grein Jóns Baldvins til í læsilegri útgáfu (finnst mér) og bendi að auki á bloggsíðu Baldurs McQueen, sem hefur fjallað talsvert og af mikilli skynsemi um ESB-aðild Íslands. Nokkuð var komið inn á ESB og Evru í umræðunum hér. Svo set ég aftur inn þátt Lóu Pind um ESB eða ekki ESB sem ég birti í áðurnefndum pistli.

Jón Baldvin - Ellefu firrur um Evruland - Fréttablaðið 1. maí 2009

 Ísland í dag 8. apríl 2009 - Lóa Pind Aldísardóttir - ESB eða ekki ESB

 


Er hún Gaga alveg gaga?

Hún flutti í götuna mína fyrir nokkrum mánuðum - í haust, minnir mig. Kannski aðeins fyrr. Ég geng mjög oft fram hjá húsinu og gluggarnir hjá henni drógu mig til sín eins og segull. Ég gat varið löngum stundum bara að skoða það sem var í gluggunum. Svo færði ég mig upp á skaftið og kíkti inn. Þar kenndi heldur betur ýmissa grasa. Mér finnst alltaf gaman að skoða fallega hluti án þess að finna hjá mér þörf fyrir að eignast þá. Og hjá henni eru svo sannarlega flottir og frumlegir hlutir, algjör veisla fyrir augað.

Hún heitir Guðrún Gerður og notar listamannsnafnið Gaga Skorrdal. Hún er listræn, bjartsýn, skemmtileg og hefur alveg sérlega góða nærveru. Það er óskaplega gaman að líta inn til hennar, skoða og spjalla. Einu sinni gekk ég út frá Gögu með nýja peysu í poka - peysu sem hún hafði hannað, þessa hér...

Gögupeysan mín

Síðast þegar ég leit inn til hennar sagðist hún hafa keypt vefnaðarvöruverslunina Seymu sem var einu sinni á Laugavegi en flutti svo til Hafnarfjarðar. Hún hafði heyrt að það ætti að loka Seymu, fór til að kaupa sér efni á elleftu stundu og endaði með því að kaupa búðina! Á þessum síðustu og verstu lítur þessi kona bjartsýn til framtíðarinnar og gefur bara í. Nei, hún er aldeilis ekki gaga hún Gaga.

Á morgun ætlar Gaga að kynna starfsemi sína og búðina að Vesturgötu 4 - þar sem áður var Blómálfurinn og þar áður Verslun Björns Kristjánssonar, VBK, sem allir Reykvíkingar sem komnir eru "til vits og ára" muna eftir. Ég hvet alla sem leið eiga um miðbæinn á morgun, 1. maí, til að líta inn til Gögu Skorrdal og skoða búðina hennar... eða eiginlega eru þetta 4 búðir í einni. Viðfest neðst í færslunni er viðtal sem Hanna G. Sigurðar tók við Gögu og útvarpað var í þættinum hennar, Víðu og breiðu, miðvikudaginn 29. apríl sl.

Gaga Skorrdal - DV 30.4.09 - Smellið þar til læsileg stærð fæst


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Er Ísland gjaldþrota?

Hver er staða þjóðarbúsins? Er Ísland gjaldþrota? Við gengum til kosninga um helgina án þess að vita svör við þessum spurningum, merkilegt nokk. Upplýsingar sem fram hafa komið eru afar misvísandi, svo ekki sé meira sagt, og hagspekingar virðast ganga út frá mismunandi forsendum í útreikningum sínum. Stjórnmálamenn forðast umræðuna.

Þann 16. febrúar sl. var Borgarafundur í Háskólabíói undir yfirskriftinni Staðan-Stefnan-Framtíðin. Þar var einn frummælenda Haraldur Líndal Haraldsson, hagfræðingur. Haraldur var tvisvar í Silfri Egils í vetur, sjá hér og hér. Í erindi sínu á Borgarafundinum birti hann og rökstuddi mjög vel ískyggilegar tölur um stöðu þjóðarbúsins. Glærur úr erindi Haraldar hafa verið aðgengilegar hér.

Sama kvöld var viðtal við Tryggva Þór Herbertsson í Kastljósi, sjá hér. Hann nefndi tölur sem voru svo miklu lægri en tölur Haraldar að salurinn í Háskólabíói bókstaflega hristist af hlátri þegar það var upplýst - að mig minnir af fundarstjóra. Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, var í pallborði og sagði aðspurður eitthvað á þá leið að rétt tala væri líklega mitt á milli - færi eftir hvaða forsendum menn gengju út frá. Sem er auðvitað grundvallaratriði.

Í gær var haldinn fundur í Félagi viðskipta- og hagfræðinga undir yfirskriftinni Hver er staða þjóðarbúsins? Er Ísland gjaldþrota? Þar fluttu þeir erindi, Haraldur Líndal og Tryggvi Þór. Fleiri voru í pallborði og lesa má um fundinn á bloggsíðu Marinós G. Njálssonar. Fundurinn fékk eina og hálfa mínútu í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi en ekki var minnst á hann á RÚV...

Hann fékk svolítið pláss í Mogganum í dag en heilsíðu (myndir innifaldar) í Fréttablaðinu...

Mikill vaxtakostnaður - Moggi 29.4.09

Segir skuldir bankanna þjóðinni ofviða - Fréttablaðið 29.4.09

Að lokum fékk fundurinn 9 mínútur og 17 sekúndur í Speglinum í gærkvöldi, sjá viðhengi neðst í færslunni. Svo mörg voru þau orð og svo mikill áhugi á að miðla almenningi sannleikanum um stöðu þjóðarbúsins og því, hvort Ísland sé gjaldþrota.

Ég ætla því að gera svolitla tilraun sem ég veit ekki til að hafi verið gerð áður á neinu bloggi. Haraldur Líndal Haraldsson hefur góðfúslega fallist á að svara spurningum áhugasamra hér í athugasemdum við þessa færslu í kvöld milli kl. 20 og 22. Þau sem vilja bera fram spurningar eru beðin að kynna sér það efni sem tiltækt er - m.a. eru hér glærur Haraldar frá fundinum í gær. Ég bendi líka á greinar Ragnars Önundarsonar hér,  Andrésar Magnússonar hér (einkum Naust), bloggsíðu Tryggva Þórs hér og hvaðeina sem fólki dettur í hug að benda á og tengist þessu umræðuefni. Ef einhver treystir sér til að grafa upp upplýsingar á vefsíðu Seðlabankans er hún hér.

Það verður gaman að vita hvernig til tekst. Haraldur er ekki bloggvanur, athugasemdakerfið stundum viðsjált - einkum fyrir þá sem ekki eru á Moggablogginu - og ég gæti þurft að koma svörum hans til skila í athugasemdirnar, en við sjáum til hvernig gengur. Ég bið þá sem vilja taka þátt í þessari tilraun að reyna að hafa spurningar stuttar og hnitmiðaðar. Spyrja og svara eins og verið sé að útskýra málin fyrir 10 ára barni (mér, t.d.). Við erum ekki öll talnaglögg og glúrin í hagfræði.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Fagmenn og fúskarar

Þessi auglýsing er með því ógeðfelldasta sem ég hef séð og sést þó margt ósmekklegt á vettvangi auglýsinganna. Og hvað er svo verið að auglýsa? Jú... faglærða iðnaðarmenn. Smiði, pípara, rafvirkja og aðra fagmenn í iðngreinum. Ef enginn væri textinn væri ekki mögulegt að giska á það. Ekki séns. Mér varð bumbult þegar ég sá þetta og vonandi birtist þessi "auglýsing" aldrei nokkurs staðar aftur.

Auglýsing Samtaka iðnaðarins - Fréttablaðið 29.4.09

Viðbót:  Var að sjá þetta á Eyjunni.

Samtök iðnaðarins draga auglýsingu til baka - Eyjan 29.4.09


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband