Færsluflokkur: Bloggar

Fyrirmyndarframbjóðandi með allt á hreinu

Ég þurfti að spóla hvað eftir annað til baka þegar ég horfði á þetta viðtal. Bíðum við... hvað var hann að enda við að segja? Og nú segir hann þetta! Hann var í mótsögn við sjálfan sig hvað eftir annað og tvískinnungurinn hrópaði á mig nánast í hverri setningu. Burtséð frá málefninu var þetta ótrúlegt viðtal. Ég gat ekki stillt mig um að hlæja þótt málefnið væri í raun grafalvarlegt.

Ástþór Magnússon hefur farið mikinn og kennt öllum öðrum en sjálfum sér um afspyrnulélegt fylgi Lýðræðishreyfingarinnar, einkum RÚV og Agli Helgasyni. Eflaust hefur verið ágætisfólk í framboði fyrir hreyfingu Ástþórs en ég óttast að Geiri á Goldfinger hafi ekki laðað að hreyfingunni mörg atkvæði. Ég er ósköp sátt við að þessi þriðji maður á lista Lýðræðishreyfingarinnar í Suðvesturkjördæmi mun ekki sitja á Alþingi Íslendinga alveg á næstunni.

Viðtal ársins í Íslandi í dag 28. apríl 2009

 

Á að banna nektardansstaði á Íslandi? - fólkið á götunni og ráðherrann

 


Sigurvegarar

Nú keppast allir flokkar við að lýsa yfir sigri eftir kosningarnar og nálgast þá niðurstöðu frá ýmsum hliðum, sumum furðulegum. Að mínu mati eru þetta stærstu sigurvegararnir. Það er ekkert lítið afrek að ná þessum árangri á svona stuttum tíma - án fjármagns. Vonandi bera þau gæfu til að hafa áhrif fyrir hönd okkar allra.


ESB eða ekki ESB?

Ísland í ESB?Auðvitað var ekkert bara verið að kjósa um Evrópusambandið. Halda stjórnmálamenn það virkilega? Sér er nú hver þröngsýnin, segi ég nú bara. Við upplifðum efnahagshrun í haust, flest hefur gengið á afturfótunum, atvinnuleysi í sögulegu hámarki, fyrirtæki og heimili að hrúgast á hausinn, spilling grasserar hjá flokkum og frambjóðendum og fólk lætur aðildarviðræður við ESB flækjast fyrir stjórnarmyndun. Þvílíkt rugl.

Ég sæi launþega og atvinnurekendur í anda gera slíkt hið sama. Setjast bara alls ekki að samningaborði af því þeir væru búnir að gefa sér fyrirfram að samningar næðust ekki eða yrðu óhagstæðir öðrum hvorum aðilanum. Eða bara hvaða aðilar sem er þar sem sættir eru samningsatriði.

Auðvitað eigum við að fara í viðræður með ákveðin samningsmarkmið og bera síðan útkomuna undir þjóðina. Mér finnst það einhvern veginn segja sig sjálft. Verið getur að kostirnir vegi margfalt þyngra en gallarnar og mig grunar að svo sé fyrir allan almenning til lengri tíma litið. Hugsum um framtíð barnanna okkar og barnabarnanna. Hér er samantekt um mögulega kosti, galla og óvissuþætti sem stemmir ekki við það sem kemur fram í þættinum hér að neðan. Kosning um hvort við eigum að fara í viðræður er fullkomlega tilgangslaus þar sem ekki væri vitað um hvað væri í raun verið að kjósa. Ekki möguleiki að réttlæta kostnað við slíka atkvæðagreiðslu.

Verið er að endurskoða sjávarútvegsstefnu ESB. Hún hefur ekki virkað sem skyldi og ekki er hægt að afskrifa fyrirfram að ný stefna muni henta okkur. Aðrar auðlindir, þ.e. orkuauðlindir okkar, yrðu áfram í okkar eigu. Það er þegar ljóst. Eins og fram kemur í myndbandinu hér að neðan eiga t.d. Bretar sína olíu sjálfir og Finnar eiga skógana sína. Og ekki hef ég orðið vör við að Portúgalar séu eitthvað minni Portúgalar eða Ítalir minni Ítalir þótt löndin séu í ESB. Af hverju ættum við að verða minni Íslendingar? Svona umræða er bara bull. Reyndar væri okkur líkt að verða bara ennþá meiri Íslendingar og kaupa enn meira af íslenskri framleiðslu. Kæmi mér ekki á óvart. Og ef verðtryggingin myndi hverfa með aðild - væri þá ekki öllum sama hvort myntin heitir króna eða evra? Vill fólk halda áfram að láta lánin og verðlagið sveiflast upp og niður með gengi krónunnar? Ekki ég.

Kjarni málsins er að við vitum ekki hvað fælist í aðild. Umræða um ESB var bönnuð á Íslandi í stjórnartíð Hins Mikla og Ástsæla Leiðtoga. Síðan fór hún í skotgrafir og virðist föst þar. Umræðan ber keim af trúarofstæki og er afskaplega ómarkviss. Hlustum á Pál, Vigdísi og Hjálmar í þessum Krossgötuþætti og íhugum vandlega hvort ekki sé kominn tími á vitrænar, upplýstar rökræður í stað slagorðakenndra fullyrðinga og sleggjudóma. Takk fyrir.

Þennan fína þátt um ESB eða ekki ESB gerði sólargeisli Stöðvar 2, Lóa Pind Aldísardóttir. Hann var sýndur í Íslandi í dag 8. apríl sl. Horfið, hlustið og hugsið málið.


Silfur og kosningaúrslitin

Silfur dagsins litaðist eðlilega svolítið af kosningunum. Í síðustu færslu setti ég inn myndbrot af tveimur atburðum sem vöktu sérstaka athygli mína, öðrum ástleitnum en hinum verulega ógeðfelldum og ósanngjörnum. En hér er Silfrið og neðst set ég inn hádegisþátt fréttastofu RÚV um úrslit kosninganna, en hann var að hluta til inni í Silfrinu.

Vettvangur dagsins - Þóra Kristín, Gunnar Smári, Eyþór Arnalds og Andri Geir

 

Stjórnmálin -  Össur, Ögmundur, Þorgerður Katrín, Siv og Þráinn
(takið eftir hve heitt Siv biðlar til S og VG - Framsókn alltaf til í allt)

 

Ólafur Arnarson um nýja bók sína um hrunið - ég þarf að ná mér í hana

 

Jón Gunnar Jónsson

 

Kosningasjónvarp - niðurstöður

 


Tilhugalíf og siðferði í Silfrinu

Silfrið er í vinnslu en mig langar að benda á tvö atriði sem þar komu fram áður en lengra er haldið.

Össur Skarphéðinsson og Ögmundur Jónasson voru ægilega sætir í blússandi tilhugalífi og kærleikurinn milli þeirra var nánast áþreifanlegur. Enda gat Össur ekki á sér setið undir lok umræðunnar, greip þéttingsfast í hönd Ögmundar og horfði á hann kærleiksríku augnaráði. Ég er viss um að það er auðvelt að láta sér þykja vænt um Ögmund en minnist þess ekki að hafa séð svona umbúðalausa tjáningu í Silfrinu áður.

Tilhugalífstjáning í beinni - Silfur Egils 26. apríl 2009

Hér er örstutt úrklippa af kærleikshandtaki Össurar

Ég hrökk eiginlega í kút við þessi ummæli Þorgerðar Katrínar og mig langar að biðja einhvern sem þekkir hana (ef hún les þetta ekki sjálf) að benda henni á Krossgötuþáttinn í færslunni hér á undan og umræðurnar þar. Að þessi kona í þessum flokki með afar vel þekkt, alltumlykjandi siðleysi skuli voga sér að ýja að siðferði manns sem var kosinn á þing fyrir nokkrum klukkutímum. Það segir mér að hún hafi ekkert lært og muni ekkert læra. Bendi á skilmerkilega frásögn Þráins um tilkomu heiðurslaunanna hér.


Hugleiðingar heiðursfólks

Páll Skúlason og Vigdís Finnbogadóttir voru gestirVigdís Finnbogadóttir Hjálmars Sveinssonar í Páll SkúlasonKrossgötum í dag. Þennan þátt þurfa allir að hlusta á - og það vandlega. Þau koma víða við - ræða t.d. um skort á almennilegri rökræðu á Íslandi og rökræðuhefð. Þau koma inn á hræðslu við að ástunda og tjá gagnrýna hugsun og hið hættulega vald pólitíkurinnar. Þau tala líka um þátt fjölmiðla í umræðunni og ótalmargt fleira.

"Þurfum við á hugtakinu þjóð að halda?" spyr Hjálmar. Hlustið á svarið. Hlustið á Pál, Vigdísi og Hjálmar. Frábær þáttur.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Burt með þá!

Burt með þá - Illugi Jökulsson - Moggi 25. apríl 2009

Arfleifð Sjálfstæðisflokks og Framsóknar

Einu sinni, endur fyrir löngu, var Sjálfstæðisflokkurinn kannski ekki sem verstur. Notaði slagorðið "stétt með stétt" og innan hans rúmuðust margar stéttir í þessu "stéttlausa" landi. Það var reyndar mestanpart blekking, en hún virkaði. Jafnræði var þokkalegt þótt alltaf væru sumir jafnari en aðrir. Guðmundur Magnússon lýsir þessu ágætlega í bók sinni Nýja Íslandi sem kom út í fyrra.

Bjarni BenediktssonEndur fyrir löngu sagði þáverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, þetta: „Þeir eru allt of margir, ekki sízt á opinberum vettvangi, sem hafa tamið sér það að tala svo um andstæðinga sína sem þeir væru samblönduð hjörð fábjána og misindismanna ... slík baráttuaðferð er átakanlegt vitni þröngsýni og víðsýnisskorts. Hún er merki sjálfsbirgingshrokans, sem telur sig einan vita allt, þykist sjálfum sér nógur og upp yfir það hafinn að læra af öðrum ... Í fyrstu byrja sumir sjálfsagt þennan leik í hálfkæringi og alvöruleysi. Enda er það auðveldasta aðferðin í deilum um alvarleg mál að svara með getsökum og aðdróttunum. Áður en varir eru svo þeir, sem slíkt hafa um hönd, farnir að trúa sjálfum sér og verða þar með þröngsýnni með hverri stund er líður. Og verra en það. Sá, sem trúir því, að andstæðingi sínum gangi illt eitt til og hann kjósi fremur rangt en rétt, lendir áður en varir í þeirri hættu að hverfa frá baráttuaðferðum lýðræðisins. Það er býsna almenn trú, að illt skuli með illu út reka. Ef menn telja því að við óþokka eina að eiga, þá er viðbúið, að ekki verði þokkabrögðum einum beitt til að koma þeim fyrir kattarnef."

Svo tóku Davíð, Hannes Hólmsteinn og félagar við flokknum og þá breyttist nú aldeilis ýmislegt.

Sjálfbirgingshrokinn sem telur sig einan vita allt, þykist sjálfum sér nógur og yfir það hafinn að læra af öðrum varð alltumlykjandi í Sjálfstæðisflokknum - og er enn. Þröngsýni og víðsýnisskortur einkennir vel flest sem frá flokknum kemur og flokksmenn víla ekki fyrir sér að ljúga blákalt um allt og alla til að afla sér stuðnings. En það er ekki eins auðvelt nú og áður - þökk sé netinu, netmiðlum og bloggi. Hagsmunagæsla Sjálfstæðisflokksins, misréttið sem hann stendur fyrir og fáránleiki tvískinnungsins er öllum ljós sem vilja opna augun og skynja sannleikann. Enda hefur komið berlega í ljós undanfarnar vikur að Sjálfstæðisflokkurinn er á móti öllu því sem þjóðin vill og telur sér vera fyrir bestu. Það hentar nefnilega ekki hagsmunum flokksins og þeirra hagsmunahópa sem hann gengur erinda fyrir. Sjaldan hefur kjöftugum ratast jafnsatt á munn eins og þessum helsta hugsuði flokksins sem lýsir hér sjálfstæðismönnum í hnotskurn. (Meira hér og hér)

Framsóknarflokkurinn var stofnaður af bændum, um bændur og fyrir bændur, utanum fallega hugsjón - samvinnuhugsjónina. Eftir því sem völd og áhrif flokksins jukust fór æ minna fyrir fögrum hugsjónunum en æ meira fyrir hagsmunagæslu. Framsóknarflokkurinn hefur aðeins haft eina hugsjón í mínu minni - að halda völdum, hvað sem það kostar. Fara í stjórn með hverjum sem er, slá af hvaða kröfum sem er, gera hvað sem er - fyrir völd. Fyrir mörgum áratugum var farið að kalla Framsóknarflokkinn "melluna í íslenskum stjórnmálum" og ekki að ástæðulausu. Stundum var hann kallaður "jájá-neinei flokkurinn". Og hann var stærsta atvinnumiðlunin. Fólk gekk í flokkinn til að hafa trygga og góða atvinnu það sem eftir var ævinnar, skítt með alla pólitík. Flokkurinn sá um sína, hversu heimskir og hæfileikalausir þeir voru, og veldi þeirra byggðist að mestu á misvægi atkvæða. Munið þið eftir þessu? Hér talar þáverandi framsóknarmaður með innanflokksvitneskju og reynslu. Við skulum ekki láta okkur dreyma um að þetta hafi breyst með nýjum formanni. Það þarf miklu meira til - og margfalt lengri tíma. (Meira hér og hér)

Þessir tveir flokkar stjórnuðu Íslandi í sameiningu í 12 löng ár. Í vikunni var fjallað um hvernig misskipting tekna þróaðist á Íslandi í valdatíð flokkanna tveggja. Þetta hefur verið rannsakað ítarlega og niðurstöðurnar eru hrikalegar. Við vissum þetta alveg, sáum það gerast með eigin augum en skildum það kannski ekki alveg. Áttuðum okkur ekki á því hvernig þetta var hægt. Innst inni bærðist þó vitneskjan en við vildum ekki viðurkenna að Ísland væri orðið svona ómerkilegt. Svona ósanngjarnt og óréttlátt. Að misréttið væri orðið svona mikið. En þetta er staðreynd.

Viðfest neðst í færslunni er skýrsla um niðurstöðu rannsóknar Stefáns Ólafssonar og Arnaldar Sölva Kristjánssonar um þróun tekjuskiptingar á Íslandi 1993-2007 - Heimur hátekjuhópanna - auk tveggja greina eftir Stefán um skattamál Íslendinga. Ég fjallaði um hvernig flokkarnir hækkuðu skatta á almenning hér. Þessi umfjöllun er því tengd og er sláandi lesning sem ég hvet alla til að kynna sér. Í útdrætti segir m.a.: "Frjálshyggjuáhrifa tók að gæta á Íslandi með sívaxandi þunga frá um 1995 og einmitt frá þeim tíma tók tekjuskiptingin að verða mun ójafnari en áður hafði verið. Ákveðin tímamót eru við árið 2003 en frá þeim tíma jókst hraðinn í ójafnaðarþróuninni til muna. Aukning ójafnaðar á Íslandi virðist hafa verið mun örari en almennt var í OECD-ríkjunum. Í þessari grein er þeirri þróun ítarlega lýst, fyrst almennt og síðan með nánari greiningu á þróun háu teknanna í samfélaginu frá 1993 til 2007. Þá eru helstu áhrifavaldar hins aukna ójafnaðar greindir, svo sem áhrif fjármagnstekna, atvinnutekna og lífeyristekna, auk jöfnunaráhrifa skatta- og bótakerfisins." Ég mæli líka með að fólk lesi þetta.

Fréttir RÚV 21. apríl sl.

Hinir nýju formenn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks eru auðmenn, það held ég að sé algjörlega óumdeilt. Ég sé ekki fyrir mér að þeir beiti sér fyrir að meiri jöfnuður náist aftur á Íslandi. Óneitanlega væri hætta á að slíkt yrði á þeirra eigin kostnað, svo ekki sé minnst á hagsmunaaflanna sem stjórna flokkunum á bak við tjöldin. Við þurfum að spyrja okkur sjálf samviskuspurninga áður en við göngum til kosninga: Hvernig samfélag viljum í framtíðinni? Viljum við meira jafnræði eða viljum við viðhalda ójöfnuðinum sem myndaðist í stjórnartíð Sjálfstæðisflokks og Framsóknar? Svari nú hver fyrir sig og kjósi samkvæmt sannfæringu sinni og samvisku.

Að lokum legg ég til að næsta stjórn, hver sem hún verður, taki mið af rannsóknum og niðurstöðum Stefáns og Arnaldar Sölva þegar ákveðið verður hverju á að breyta, hvar skal skera niður, hvar að spara og hverja að skattleggja meira en aðra. Greinilegt er að sumir hópar í þjóðfélaginu eru aflögufærari en aðrir.

Svo má ég til með að skjóta hér inn myndbandi þar sem einn heittrúaðasti Sjálfstæðismaður allra tíma fer með morgunbænir... eða eru þetta formælingar? Sá þetta hjá Hjálmtý og grenjaði næstum úr hlátri. Ingvi Hrafn er óborganlegur.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Viðtal við frábæran hugsuð

Ég rakst á þetta viðtal við Andra Snæ Magnason á kosningavef RÚV eins og viðtalið við Hildi Eir sem ég birti hér. Mér finnst Andri Snær einn áhugaverðasti hugsuður á landinu, nálgun hans oft mjög frumleg og hann fer gjarnan út fyrir hinn hefðbundna ramma í hugmyndum sínum. RÚV mætti gera miklu meira af því að birta viðtöl við áhugavert fólk eins og þessi tvö - og ekki bara fyrir kosningar.


Kiljan og kirkjugarðurinn

Ég ólst upp í nágrenni við gamla kirkjugarðinn. Þessi garður var og er einn yndislegasti garðurinn í Reykjavík. Í æsku og á unglingsárum fór ég þangað oft þegar ég vildi vera í einrúmi og hugsa málin. Þá - eins og nú - var ég félagslyndur einfari og þurfti oft svigrúm og einveru. Garðurinn var skjól í lífsins ólgusjó. Algjör griðarstaður.

Ég naut þess í tætlur að fylgjast með Agli Helga og Guðjóni Friðriks heimsækja fornar slóðir í Kiljunni í síðustu viku og í gærkvöldi. Þeir heimsóttu leiði rithöfunda og skálda og ofið var inn í ýmsum brotum úr ljóðum og skáldskap eftir og um þá sem þarna hvíla. Mér leið vel í sálinni og hjartanu á eftir og þakka fyrir mig.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband