Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Fundurinn á Austurvelli í dag

Fyrst lögreglan segir að 6.000 hafi mætt vitum við að þarna voru minnst 10.000 enda Austurvöllur troðfullur af fólki. Í þetta sinn eiga fjölmiðlar þakkir skildar fyrir umfjöllun og beinar útsendingar.

Mig langar að biðja þá Íslendinga sem búsettir eru erlendis að vekja athygli fjölmiðla í viðkomandi löndum á laugardagsfundunum hér á Íslandi til að koma því til skila til alheimsins að almenningur hér sé ævareiður, vilji að gerendur axli ábyrgð, að kosið verði sem fyrst og að spilltum stjórnmála- og embættismönnum verði vikið frá, svo eitthvað sé nefnt. Látið fylgja sögunni að enginn hlusti á okkur - ennþá. Hörður Torfa segir þetta ágætlega. Horfið og hlustið.

Svona fjölluðu fréttastofur sjónvarpsstöðvanna um fundinn í fréttatímum sínum í kvöld.

 
Og hér eru þrjú sýnishorn af mótmælendum sem forsætisráðherra kallar skríl.

Mótmæli á Austurvelli 15.11.08 - Ljósm. Mbl. Kristinn

Mótmæli á Austurvelli 15.11.08

Mótmæli á Austurvelli 15.11.08


Blaðamannafundurinn í dag

 Skýr svör eða...?


Afsakið - hlé

Afsakið hlé


Ég hef margoft verið spurð hvernig ég hafi tíma í alla vinnuna sem fer í þetta blogg. Svarið er einfalt: Ég hef hann ekki. Ég stel tímanum frá öðru sem gera þarf í lífinu, einkum lifibrauðinu. Það hentar mér ekki að skrifa nokkrar línur, fréttatengja og láta þar við sitja og þess vegna hef ég gert þetta svona. En þau vinnubrögð hafa reynst gríðarlega tímafrek og hlaðið stöðugt utan á sig á ýmsan hátt.

Nú stefnir í óefni ef ég bretti ekki upp ermarnar, spýti í lófana og vinn fyrir síhækkandi (þjóðar)skuldum og salti í grautinn. Ég er verktaki, fæ borgað fyrir afköst, og þau hafa verið í minna lagi undanfarið svo ekki sé meira sagt. Þetta er ekki beint tíminn til að minnka við sig vinnu sem er nógu lítil fyrir, illa borguð og margir um hituna. Og ekki fæ ég borgað fyrir bloggið frekar en aðrir.

Ef fólk hefur ekki áttað sig á söfnunum bendi ég á myndbandasafnið með um 300 myndböndum, tónspilarann með á annað hundrað útvarpsþáttum og þáttabrotum og úrklippusafnið, sem reyndar er hálfkarað. Ég gef mér kannski tíma til að bæta við einu og öðru, hver veit.

Ég kem aftur en hvenær það verður fer eftir því hvernig mér gengur að einbeita mér að vinnunni. Mér hefur virst þeir sem gert hafa hlé á bloggi sínu vera mjög óstaðfastir í þeim ásetningi og ég hef ekki hugmynd um hvernig mun ganga hjá mér. En það er orðið mjög aðkallandi að ég geri tilraun - þótt fyrr hefði verið.

Ég kveð að sinni með heimspekingnum Gunnari Dal. Hlustið vel á hinn aldna vitring, hann veit hvað hann syngur.


Sjáumst... 
Wink

Sáu ekki örugglega allir þessa frétt...

...á RÚV í gærkvöldi? Lesið svo endilega þennan pistil Egils Helga. Þar segir Egill m.a.:

"Ég tala við mikið af erlendum blaðamönnum. Þeir segja allir það sama.
Af hverju sitja allir sem fastast í stólunum sínum, allir sem bera sök á ástandinu?
Af hverju er enginn búinn að segja af sér, af hverju er ekki búið að reka neinn?
Þeir segja að þetta væri óhugsandi í heimalöndum sínum.
Hvernig getum við tekið ykkur alvarlega meðan þetta er svona? spyrja þeir."

Þessu tengt bendi ég á viðtal við Jóhann Hauksson í Síðdegisútvarpi Rásar 2 í gær og þennan pistil hans í DV. Viðtalið er í tónspilaranum ofarlega til vinstri merkt: "Síðdegisútvarp - Jóhann Hauksson..."


Spurningar sem ekki fæst svarað

Fréttablaðið 12. nóv. 2008Fréttablaðið 12. nóv. 2008


Hvað varð um peningana?

Eins og fram kom í fréttum og Kastljósi í kvöld eru Hollendingar komnir til landsins til að heimta fé sitt af Íslendingum og von er á fulltrúum breskra sveitarfélaga. Að því er virðist var Icesave ein allsherjar svikamylla og fjárhæðirnar sem hafa gufað upp alveg stjarnfræðilegar. Ég leyfi mér að efast um að Íslendingar hafi allmennt vitað um Icesave en þeim verður gert að borga brúsann engu að síður - að hluta eða í heild.

En hvað varð af öllum þessum peningum? Er ekkert verið að leita að þeim? Í hverjum krók og kima. Rannsaka málið, fara yfir gögn og millifærslur. Þetta hlýtur allt að vera til. Setja Interpol í málið... eða bara einhvern? 

Getur verið að þetta sé tengt? Er verið að rannsaka málið? Voru svona millifærslur framkvæmdar í hinum bönkunum líka? Hvað varð um alla þessa milljarða?

Þegar ég horfði á fréttir í kvöld sá ég greinileg tengsl milli framkomu forsætisráðherra og seðlabankastjóra. Sami hrokinn og yfirlætið á ferðinni. Sjá þetta fleiri? Bendi á mjög góðan pistil Egils Helga um ábyrgð ráðherra í tilefni af svörum Geirs og Ingibjargar sólrúnar í þessu myndbandi.


Bjarni Harðar og bréfið til Valgerðar

Bjarni HarðarsonFáheyrður atburður átti sér stað í morgun. Þingmaður stjórnarandstöðuflokks sagði af sér þingmennsku af því hann gerði "innanflokksmistök". Hann ætlaði að láta senda bréf til varaformannsins - sem sent var öllum þingmönnum flokksins - nafnlaust til fjölmiðla. Líkur eru á að bréfið hefði borist fjölmiðlum eftir öðrum leiðum, það hefði ekki komið á óvart, hvort sem það hefði þótt fréttnæmt eða ekki.

Bjarni er í einum mesta spillingarflokki allra tíma á Íslandi, Framsóknarflokknum, sem ásamt Sjálfstæðisflokknum sat við stjórnvölinn á Alþingi í 12 ár og lagði grunninn að því ástandi sem nú hefur skapast á Íslandi. Bjarni bauð sig reyndar ekki fram fyrr en fyrir síðustu kosningar og naut þess því aldrei að sitja í meirihluta eða taka beinan þátt í afglöpum fyrri stjórna.

Mikið er fjallað um afsögn Bjarna í fjölmiðlum og á bloggsíðum í dag. Fólk er almennt sammála um að þetta hafi verið rétt ákvörðun hjá honum og ég tek undir það. Engu að síður minnir þessi atburður á olíusamráðsmálið þar sem eini maðurinn sem axlaði ábyrgð var Þórólfur Árnason, sem mögulega vissi eitthvað um samráðið mörgum árum áður, á meðan aðalsökudólgarnir sluppu án þess að fá einu sinni svartan blett á mannorðið. Það er eitthvað öfugsnúið við þetta.

Vikum saman hafa leikir sem lærðir krafist afsagnar bankastjóra og bankastjórnar Seðlabanka og forsvarsmanna Fjármálaeftirlits, ráðherra og annarra sem uppvísir hafa orðið að vítaverðum afglöpum undanfarna mánuði og jafnvel ár sem hafa komið allri þjóðinni áValgerður Sverrisdóttirkaldan klaka og rúmlega það. En ekkert gerist. Enginn segir af sér. Engum er sagt upp. Er Bjarni að gefa tóninn? Sér fólk Davíð Oddsson, Jónas Fr., Geir, Björgvin eða Árna Matt taka Bjarna sér til fyrirmyndar?

Afsögn Bjarna má heldur ekki yfirskyggja innihald bréfsins sem um ræðir. Ég ætla að birta það hér og dæmi hver fyrir sig hvort þeirra Bjarna eða Valgerðar er "sekari" og hvort þeirra ætti heldur að draga sig í hlé. Valgerður sjálf fer mikinn í fjölmiðlum í morgun og segir Bjarna ekki sætt á þingi eftir þetta. Hún nánast krefst þess að hann segi af sér. Hefur hún krafist afsagnar þeirra sem eru sekari um margfalt alvarlegri misgjörðir en Bjarni - og það gagnvart allri þjóðinni? Ekki minnist ég þess.

Og hafið í huga að þetta er konan sem sækist nokkuð örugglega eftir formannsembættinu í Framsóknarflokknum og ef henni hlotnast það yrði hún ráðherra ef örflokkur hennar kæmist í stjórn. Eflaust tilbúin til að fremja sömu óhæfuverkin aftur eins og í fyrri ráðherratíð sem var löng og skrautleg. Aldrei datt henni sjálfri í hug að segja af sér þá. Síðast á laugardaginn fullyrti Valgerður á borgarafundinum í Iðnó að eðlilega hefði verið staðið að einkavæðingu bankanna og uppskar hávært baul frá viðstöddum. Siðferðið er ekki betra en svo á þeim bænum og það er fáránlegt að horfa upp á Valgerði reyna að halda kolryðguðum geislabaugnum yfir höfði sér með þessa vafasömu fortíð á bakinu.

Hér er bréfið fræga. Það er skrifað af tveimur framsóknarmönnum í Varmahlíð í Skagafirði og stílað á Valgerði. Efni þess er mun alvarlegra en mistök Bjarna - ekki bara fyrir Framsóknarflokkinn heldur þjóðina alla. Ég lagaði tvær eða þrjár innsláttarvillur, myndin af undirskriftinni var í bréfinu, hinum bætti ég inn.

Heil og sæl Valgerður, 

Þú varst ögn önug út í okkur flokksbræður þína yfir því að við minntum á, í bréfi 9. okt. s.l.að í þinni ráðherratíð sem viðskiptaráðherra voru bankarnir einkavæddir.

Valgerður Sverrisdóttir - Ljósm.mbl. Kristinn
Myndatexti:Samningur um sölu á tæplega helmingshlut ríkisins í Landsbanka Íslands hf.
til Samsonar eignarhaldsfélags ehf. undirritaður á gamlársdag árið 2002.
mbl.is/Kristinn


Það verður þó varla fram hjá því litið að á því ferli öllu berð þú mikla ábyrgð ásamt því regluverki sem bönkunum var ætlað að starfa eftir. Og minnast má þess að lengi vel var það stefna Framsóknarflokksins að selja ekki bankana og als ekki Símann og margir framsóknarmenn munu enn vera á þeirri skoðun.

Nú er úti ævintýr og bankarnir komnir aftur í þjóðareign. Nauðsynlegt er að spyrja hvað hefur þjóðin haft upp úr sölu bankanna og hvað mun hún kosta hana? Fyrir einkavæðingu var þjóðin talin með ríkustu þjóðum í heimi. Þjóðartekjur á mann með því besta sem þekktist. Þegnarnir yfirleitt efnahagslega sjálfstæðir og lífskjör hvergi jafnari en hér á landi. Ofurlaun þekktust ekki.

FramsóknarflokkurinnHvernig er svo ástandið í dag, sem einkavæðingin skilur eftir? Allir bankarnir komnir í þrot. Af eljusemi og dugnaði höfðu þeir safnað erlendum skuldum er nema tólf til þrettánfaldri ársframleiðslu þjóðarinnar. Allt sparifé okkar, sem var í vörslu þeirra var í uppnámi. Setja varð neyðarlög að næturlagi til þess að tryggja spariféð og eðlileg bankaviðskipti í landinu.

Mörg hundruð miljarða skuldabaggi er lagður á íslenska þjóð. Okkur finnst því að þú mættir gjarnan hugleið hvaða áhrif þinn félagslegi og pólitíski framgangur hefur haft fyrir þjóðina og Framsóknarflokkinn. Og hvað um KEA og SÍS? Spyrja má hversu mikið landsbyggðin hefur liðið fyrir hrun Samvinnuhreyfingarinnar.

Síður en svo ætlum við þér alla ábyrgð á einkavæðingunni og afleiðingum hennar þótt þú kæmir þar verulega við sögu og margir bera ábyrgð á þróun samvinnumála hér á landi.

Framsóknarflokkurinn átti sinn góða þátt  í uppbyggingu þess samfélags, sem hér náði að þróast á öldinni sem leið. Það samfélag byggði á blönduðu hagkerfi, sem hafnaði öfgum kapítalisma, sem boðaði að markaðurinn ætti að ráða öllu í heimi hér, jafnt og alræðissósíalisma var hafnað.

Með formensku Halldórs Ásgrímssonar hefst raunasaga Flokksins, sem endaði með fylgishruni. Halldór klifaði látlaust á því að breyta þyrfti stefnu Flokksins. Hann skipaði framtíðarnefnd. Jón Sigurðsson var ,, kallaður”  til þess að hafa umsjón með þessHalldór Ásgrímssonari  stefnumótun, ásamt Sigurði Einarssyni og Bjarna Ármannssyni, sem afþakkaði reyndar þetta boð.

Í þessari nýju stefnu fólst m.a. þetta: 
1.  Í stað þess að standa vörð um sjálfstæði Íslands og fullveldi átti að gangast undir ESB- valdið í Brussel.
2.  Í stað hins blandaða hagkerfis skyldi innleiða ,,frjálst” markaðshagkerfi líkt og í Bandaríkjunum og ESB.
3.  Ísland átti að verða ,,alþjóðleg” fjármálamiðstöð og skattaparadís.
4.  Frjáls innflutningur á landbúnaðarvörum, átti að vera forsend þess að flokkurinn næði fylgi í þéttbýlinu.
 

Allt var þetta í algjöri andstöðu við þau lífsviðhorf og gildismat þess fólks sem Flokkurinn sótti fylgi sitt til. Enginn studdi Halldór formann og þessa nýju stefnu af meiri alúð en þú, að okkur finnst. Þótt annar hver kjósandi hafi yfirgefið Flokkinn heldur þú áfram á braut, sem leiddi hrun yfir Flokkinn og hörmung yfir þjóðina. Ástandið hefði þó verið sýnu verra ef vilji ykkar Halldórs og fyrirmæli um að leggja Íbúðarlánasjóð undir bankanna hefðu ekki verið hundsuð af ágætum flokksbræðrum okkar, Árna Magnússyni, Magnúsi Stefánssyni og Guðmundi Bjarnasyni. Enda nutu þeir, að við höldum, stuðnings annarra þingmanna Flokksins.

 

Þú innleiddir tilskipun ESB um raforkumál, sem kostar fólkið í landinu hundruð miljóna á ári hverju. Og þú orðaðir það svo fallega að þetta gæti verið fyrsta skrefið í einkavæðingu orkugeirans.

Og nú rekur þú áróður sem mest þú getur fyrir aðild að ESB og reynir að fiska málinu fylgi í gruggug vatni svo ekki sé meira sagt. Því til viðbótar hefur þú og sumir af þínum  fylgismönnum talað niður gjaldmiðil hagkerfisins, nokkuð sem er mjög alvarlegt mál.Þá viljum við lýsa undrun og óánægju okkar yfir framgöngu þinni gagnvart sitjandi formanni Framsóknarflokksins. Við munum ekki annað eins.

Með framsóknarkveðju.

Tíufréttir RÚV í gærkvöldi


Guðfaðir efnahagskreppunnar?

Hann Baldvin benti mér á þetta myndband og þegar ég byrjaði að spila það hélt ég að þetta væri grínþáttur og skellti upp úr. Þið sjáið strax hvers vegna. En svo kom í ljós að þarna sat amerískur hrokagikkur og talaði yrir hausamótunum á þremur yngissveinum og einum kunnuglegum þáttarstjórnanda. Sá ameríski er með allt á hreinu og gerir lítið úr öðrum spekingum, fræðimönnum og kenningum. Aðeins hans eigin á rétt á sér. Kunnuglegt stef.

Maðurinn minnir óþægilega á lærisveina hans hér á landi sem við þekkjum öll mætavel og hafa átt stóran þátt í efnahagshruninu. Ónefnd Járnfrú í Bretlandi hafði víst líka miklar mætur á honum. Ekki ætla ég að dæma um hvort hagfræði spekingsins er alvöruhagfræði eins og lærisveinarnir segja eða þvættingur eins og allir hinir segja en hún er að minnsta kosti í ætt við svæsin trúarbrögð. Og trúarbrögð eru alltaf vandmeðfarin og geta verið stórhættuleg ef þeim er stýrt af misvitrum besservisserum.


Nappaði þessari frá Jóni Steinari - frábær mynd sem gæti heitið "Lærisveinarnir" eða "Þrír vinir og einn í fríi"

Lærisveinarnir Davíð og Geir - á myndina vantar Hannes Hólmstein

Geir Hilmar tekur til í kreppunni

Ætli það sé þetta sem kallað er "að hardera" nú til dags? Þvílík hringavitleysa - í orðsins fyllstu merkingu!

Halldór Baldursson - Mbl. 10.11.08


Er Tryggvi Þór uppljóstrari?

Ég fékk póst frá vini mínum í gær þar sem hann varpar fram nokkrum óþægilegum og áleitnum spurningum. Yfirskrift póstsins var: "Er Tryggvi Þór "whistle blower"?" Ég ætla að birta bréfið hér með hans leyfi - og tengt efni að auki. Vinur minn segir:

Langaði að drita hér á þig kommenti frá mér, sem vert er að hyggja að.

"Í þessu viðtali talar Tryggvi Þór um að gríðarlegar eignatilfærslur eigi sér nú stað hjá bönkunum. Hann varar við því að flanað sé að neinu þar og kallar á gagnsæi. Nefnir afsal stórs hluta Nokia í erlendar hendur fyrir slikk í tilfellum Finna og illbætanlegt tjón af þeim sökum, sem þeir eru enn að sýta.

Hvaða eignir er verið að selja hér og til hverra og fyrir hve mikið? Hve nærri heggur það sjálfstæði okkar? Hvaða risar eru að kaupa? Hverjir verða drottnarar okkar í náinni framtíð?  Þetta verðum við að fá að vita. Þetta er algert lykilatriði. Í bönkunum liggja hlutir í orkufyrirtækjum og orkudreifingu landsins og það jafnvel ráðandi hlutir. Þar liggja gríðarlegar landa og hlunnindaeignir, laxár og guð veit hvað. Þar liggur einnig stór hluti fiskveiðikvóta Íslendinga og bréf í iðnaði og verslun, heilbrigðis og þjónustufyrirtækjum. Öllu! Hreinlega fjöregg og framtíð þjóðarinnar á silfurfati.
 
Stjórnvöld tala um að borga ekki skuldir óreiðumanna en eru ekki í neinni aðstöðu til slíkrar kokhreysti. Það er verið að gera það nú þegar með sölu á eignasafni og veðum bankanna. Eignasafni, sem snertir sameign okkar og sjálfstæði. Það er verið að borga skuldir óreiðumanna og það með útsölu á auðlindum okkar! Áttarðu menn sig á þessu? Auðvitað verða erlend lán ekki notuð til að borga óreiðuna. Það veit raunar enginn hvað menn ætla að gera við þá peninga. Menn vita upphæðina upp á 0.1 milljarð dollara og ekkert meir. Það hlýtur að vera vitað fyrir hverju er verið að safna um allar jarðir?  Ekki veit ég það og ekki þú.

Ef eitthvað þarf virkilega upp á yfirborðið nú, þá er það þetta. Menn verða að fara að lesa rétt í gegnum stofnanamálið og laga-jargonið. Það er eins og að lesa í garnirnar á kjúlla, en það er verið að segja okkur mikið á milli málsgreina, sem hefur úrslitaþýðingu fyrir landið okkar.

Eignastýring, eignasöfn, eignatilfærsla. Vilja menn vita hvað það þýðir? Nú er kominn tími til að spyrja."

Svo mörg voru þau orð. En hann heldur áfram í næsta pósti og segir:

"Þetta er það sem er að gerast og það er ekki lítið í húfi Nú er hrópað úr öllum áttum að við verðum að taka það úrræði, sem Ársæll og Þórólfur ræða. Það er leiðin út. Til að fólk skilji það, þá er gott að það sjái hvaða býtti er verið að bjóða.

Ég segi að enginn viti raunar hvað þessi lán eigi að greiða. Það er í flestu rétt, en líklegast á að reyna að blása lífi í krónuna með þessu. Það er þó víst að þetta mun gufa upp á einum degi þegar krónunni verður sleppt lausri, því traustið á henni er minna en núll og menn munu sæta lagi til að losa sig við hana. Við munum því sitja uppi með tvöfaldan skaða eins og Ársæll og Þórólfur ýja að. Þeirra leið ber að hrópa af tindum. Við megum engan tíma missa."

Hér er viðtal við Tryggva Þór úr Markaðnum í gær.

Og hér er Silfurviðtalið við þá Ársæl og Þórólf sem vitnað er í.

Þessu tengt segir Jónas:
09.11.2008
Svartfellingar til fyrirmyndar

Óþarfi er að rífast um, hvort taka megi upp evru einhliða eða ekki. Það hefur verið gert án þess að spyrja kóng eða prest. Svartfjallaland gerði það með góðum árangri. Ráðgjafi landsins var Daniel Gros, forstöðumaður Centre for European Policy Studies í Bruxelles. Hann hefur skoðað Ísland og segir bezt að gera það sama hér. Ekki þegar um hægist. Heldur núna strax. Hann vill ekki lánið frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum, sem hann segir gera illt verra. Hann segir Ísland geta útskýrt upptöku evru fyrir eigendum hennar sem neyðarráðstöfun. Sem fyrsta skrefið að innleiðingu evrópskra mannasiða.

Mikið svakalega er vont að vera ekki hagfræðingur þessa dagana og vikurnar. Hagfræðingar hafa greinilega mikið vit á þessu öllu saman en verst er hvað þeir eru ósammála. Maður veit ekki í hvorn fótinn á að stíga og hvaða skoðanir maður á að hafa á hvaða láni eða ekkiláni. Og ekki gera stjórnvöld neitt til að skýra málin - þau þegja þunnu hljóði og enginn veit ennþá hvaða skilyrði eru sett fyrir hvaða láni. Hvort við erum að selja landið og auðlindirnar úr landi eða hvað. Ég krefst þess, og veit að það gera fleiri, að vita hvaða skilyrði Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn setur fyrir sínu láni - og allir hinir! Ég er aðili að málinu, sem og börnin mín, barnabörnin og jafnvel barnabarnabörnin og við eigum öll heimtingu á að vita hverju eða hve miklu á að fórna til að borga fyrir sukkið sem við tókum ekki einu sinni þátt í, flest hver.

Að lokum er hér viðtalið í sunnudagsmogganum við Tryggva Þór.
Smellið til að stækka í læsilega stærð.

Tryggvi Þór Herbertsson 1 - Mbl. 9.11.08

Tryggvi Þór Herbertsson 2 - Mbl. 9.11.08


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband