Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Úr ýmsum áttum

Ég átta mig ekki á því hvort fréttastofa Stöðvar 2 var að reyna að bæta fyrir fréttaflutninginn í gærkvöldi með þessari frétt. Hér er pistillinn sem Guðmundur Gunnarsson skrifaði um málið. Annars hefur netið logað af óánægju síðan í gærkvöldi með umfjöllun fjölmiðlanna um fundinn í gær.

Mér finnst Mannamál vera vanmetinn þáttur og lítið í hann vitnað. Þetta er fínn þáttur sem veita ætti meiri athygli. Þar koma mjög oft áhugaverðir viðmælendur, þar er bókagagnrýni og nú einnig tónlistargagnrýni og svo pistlar þeirra Einars Kárasonar og Mikaels Torfasonar. Ég sakna Einars Más sem var pistlahöfundur ásamt Kárasyni í fyrra.

Í Mannamáli í kvöld ræddi Sigmundur Ernir við Gunnar Helga Kristinsson, stjórnmálafræðing um stöðu flokkanna. Þetta var stutt en fróðlegt spjall en ég varð ekki vör við að þeir nefndu Frjálslynda flokkinn. Er hann svona "gleymanlegur" eða lítilsgildur að það taki því ekki að nefna hann í svona umræðu?

Ég hef lýst efasemdum mínum um trúverðugleika þess að fela Birni Inga þáttargerð um markaðs- og peningamál. Hann hefur vafasama fortíð og enginn veit, nema innmúraðir Framsóknarmenn, hver kostaði yfirhalninguna á honum fyrir prófkjörið og alla kosningabaráttuna (fatnaður innifalinn). Ég hef heldur ekki orðið vör við að hann spyrji þá útrásarbaróna sem hann hefur talað við nægilega ágengra og krítískra spurninga. Hér er viðtal Björns Inga við Sigurð Einarsson í Kaupþingi frá í gærmorgun og því tengt bendi ég á þennan bloggpistil Jóhanns Haukssonar.

Að lokum pistill Einars Kárasonar úr Mannamáli í kvöld. Einar segir okkur sögur af lifnaðarháttum auðmanna og -kvenna á meðan allt lék í lyndi.


Silfur dagsins

Silfur dagsins var fínt. Það er eins og reglan sé að því færri stjórnmálamenn, því betra og málefnalegra Silfur. Reyndar voru þarna tveir - Mörður Árnason og Ragnheiður Ríkharðsdóttir - en þau voru ekki að rífast. Voru fín en fengu stuttan tíma eins og aðrir.  Verst var eiginlega hvað þátturinn er stuttur. Þegar talað er við svona marga og tíminn er naumur er andrúmsloftið svolítið stressað og Egill fer yfir tímann svo síðasti viðmælandinn er halaklipptur í netútsendingunni. Þeir laga þetta hjá RÚV á morgun.

Ég legg til að hálftíma verð bætt við Silfrið á meðan sýður svona á þjóðfélaginu og margt er um að fjalla. Ég klippti Silfrið í tætlur og hér er það allt í bútum.

Vettvangur dagsins 1 - Ragnheiður Gestsdóttir,  Jón Ólafsson, Benedikt Stefánsson og Sigurbjörg Árnadóttir

Vettvangur dagsins 2 -  Lúðvík Lúðvíksson og Jan Gerritssen, hollenskur blaðamaður

Vettvangur dagsins 3 - Mörður Árnason og Ragnheiður Ríkharðsdóttir

Andri Snær Magnason

 

Ársæll Valfells og Þórólfur Matthíasson

Vilhjálmur Árnason


Hvert er eiginlega hlutverk fjölmiðla?

Mótmæli 8.11.08 - Ljósm. Jóhann ÞrösturÉg verð sífellt meira undrandi á umfjöllun fjölmiðla um laugardagsmótmælin á Austurvelli. Eiginlega er ég furðu lostin núna. Þeir sem ekki voru á staðnum fá alranga mynd af fundinum í dag ef þeir hafa eingöngu fjölmiðlana til að fá fréttir af þeim. Trúverðugleiki fjölmiðla bíður mikla hnekki hvað eftir annað með svona vinnubrögðum. Ég hefði haldið að hlutverk þeirra væri að veita sem gleggsta og réttasta mynd af atburðum en það hafa þeir alls ekki gert þegar mótmælafundirnir eru annars vegar. Hér er talað um umfjöllun fjölmiðla eftir fundinn 18. október og hér eftir fundinn 1. nóvember. Fréttamennirnir eru á staðnum, þeir finna andrúmsloftið, sjá fjöldann, heyra ræðurnar. Allt er tekið upp, ljósmyndarar og kvikmyndatökumenn úti um allt. Og fjölmiðlafólkið veit að lögreglan kann ekki að telja.

Fundurinn í dag var mjög fjölmennur. Helmingi fjölmennari en síðast og það gladdi mitt litla hjarta að sjá Egil Helgason loks mættan á mótmælafund. Ég heyrði töluna 5 þúsund þegar mest var í dag. Kannski að jafnaði um 4.500 ef frá er talið fólk sem kom og fór, þetta síbreytilega rennirí á fólki sem alltaf er. En svo sér maður þetta og þetta og þetta. Og hér sést í hnotskurn munurinn á talningu lögreglu og annarra. Í þremur fréttum telur lögreglan að fjöldinn sé um 2 þúsund. Svo er haft eftir Geir Jóni milli 3 og 4 þúsund og þá hallast ég að því að 5 þúsund sé stórlega vanmetin tala. Skoðið myndirnar hans Jóhanns Þrastar hér.

Mikið er gert úr því að einhver ungmenni (held ég) hafi dregið Bónusfána aðMótmæli 8.11.08 - Ljósm. Jóhann Þröstur húni á Alþingishúsinu og að annar hópur hafi, EFTIR að fundinum lauk, kastað eggjum í húsið. Hver syngur með sínu nefi en þessar uppákomur voru ekki á ábyrgð skipuleggjenda fundarins, heldur sjálfstætt framtak fólks sem vildi tjá sig á annan hátt. Ég er ekki ennþá búin að sjá eina einustu frétt í fjölmiðlum um fundinn sjálfan. Ekki ennþá búin að heyra minnst á þrumuræður Sigurbjargar Árnadóttur og Einars Más Guðmundssonar. Þarna var haldinn tæplega klukkutíma langur fundur sem á mættu mörg þúsund manns en það er hvergi fjallað um hann, sjálfan fundinn og um hvað ræðumenn voru að tala, undirtektir þeirra sem á hlýddu, andrúmsloftið og stemmninguna.

Nei, væntanlega er það ekki nógu spennandi. Miklu meira fútt í að fjalla um að "óeirðir hafi brotist út" - sem er reyndar fjarri sanni - og að Alþingishúsið hafi verið "saurgað með eggjum". Vá, spennó! Þetta segir hins vegar ekkert um tilefni mótmælanna, fundinn sjálfan, ræðurnar, fjöldann, andrúmsloftið og það, að líklega eru þetta fjölmennustu mótmæli á Íslandi síðan í göngu Ómars fyrir 2 árum og hún sló öll fjöldamet. Enginn fjölmiðill hefur grafið upp sögu mótmæla á Íslandi, tilefni þeirra og tilgang og fjallað um þau.

Borgarafundur 8.11.08 - Ljósm. Jóhann ÞrösturÉg fór líka á borgarafundinn í Iðnó. Húsnæðið er allt of lítið, þar var fullt út úr dyrum, anddyrið var troðfullt og margir stóðu úti þar sem voru hátalarar. Þetta framtak er frábært en sökum þrengsla er ekki mögulegt að nógu margir geti mætt og tekið þátt í fundinum. Borgarafundurinn fékk öllu skárri umfjöllun í sjónvarpi, enda engin spennandi uppþot í gangi þar. Vanvirðing stjórnmálamanna og ráðherra er hins vegar slík, að fáir þeirra mættu þrátt fyrir að vera boðið sérstaklega. Á vefsíðu aðstandenda borgarafundanna kemur fram, að fundinum í dag verður útvarpað þriðjudaginn 11. nóvember kl. 21 á Rás 1 í þættinum Í heyranda hljóði í umsjón Ævars Kjartanssonar. Ég sá að fundurinn var líka kvikmyndaður svo væntanlega verða a.m.k. framsöguræðurnar settar inn á vefsíðuna þegar búið verður að vinna þær. Fylgjumst með því hér og Jóhann Þröstur tók myndir.

En svona fjölluðu sjónvarpsstöðvarnar um fundinn á Austurvelli í kvöldfréttum sínum í kvöld. Báðar sjónvarpsstöðvarnar falla í sama, fúla pyttinn. Fréttamenn beggja sjónvarpsstöðva segja að mótmælin hafi "fljótlega leysts upp og færst að Alþingishúsinu". Þetta er fjarri sanni. Finnst þeim sem voru á fundinum þessi umfjöllun gefa rétta mynd af honum?

Og hér er umfjöllun sjónvarpsstöðvanna um borgarafundinn í Iðnó.

Hvað á svona kjaftæði eiginlega að þýða? "Á meðan hinir fullorðnu grýttu eggjum..."
Hverjum er verið að þjóna með svona nokkru?
Ég sem hélt að fréttamenn vildu reka af sér slyðruorðið.

Hér er grein eftir Einar Má sem birtist í Morgunblaðinu í dag. Ræðan hans á fundinum í dag var byggð á greininni. Smellið til að fá læsilega stærð.

Einar Már Guðmundsson - Mbl. 9.11.08


Og fjóshaugurinn stækkar stöðugt

Fjóshaugurinn stækkar með degi hverjum. Daglega fáum við nýjar upplýsingar um sora, sukk, spillingu, mistök, aðgerðarleysi og hvað sem nöfnum tjáir að nefna, ýmist í fjölmiðlum eða á netinu. Netimiðlar og bloggsíður eru orðin jafnmikilvægir miðlar og hinir hefðbundnu - jafnvel mikilvægari að mörgu leyti.

Mótmæli 1.11.08 - Ljósm. Jóhann ÞrösturÍ dag, laugardag, mæti ég á Austurvöll í fjórða sinn til að mótmæla þessu öllu og meira til - á mínum eigin forsendum eins og allir geta gert. Enginn getur ætlast til þess að fá sérsniðin mótmæli bara fyrir sig með sínum prívatáherslum og einkahetjum. Á Austurvelli hef ég séð alls konar fólk að því er virðist úr öllum krókum og kimum þjóðfélagsins. Fjölmargir bloggarar tjá sig um fundinn og hvetja til þátttöku. Ég ætla sérstaklega að benda á pistil Illuga, sem er farinn að blogga mér til mikillar ánægju. Illugi hefur mætt samviskusamlega á fyrri mótmælafundi, ég sá til hans.  Bandit 

Svo bendi ég á magnaðan bloggpistil Gríms Atlasonar. Hakan á mér seig neðar og neðar eftir því sem á lestur pistilsins leið. Auðvitað kannaðist ég við flest af því sem hann telur upp - en að sjá þetta sett fram á þennan hátt var ótrúlegt. Þó var þetta ekki nema lítið brot af því sem hefur verið umborið. Ég treysti því að framvegis sjái a.m.k. netmiðlar og bloggarar til þess að svona afglöp verði ekki liðin. Engir aðrir gera það - eða hafa ekki gert til þessa. Það sem Grímur skrifar um er hluti af spillingunni og samtryggingunni sem ég vil mótmæla.

Konan sem ég skrifaði um í síðasta pistli, Sigurbjörg Árnadóttir, verður ein þeirra sem flytur ávarp á útifundinum á Austuvelli klukkan 15 í dag. Hún verður líka í Silfri Egils á sunnudaginn. Einnig tala Arndís Björnsdóttir, kennari og Einar Már Guðmundsson, rithöfundur. Ég skora á fólk að mæta á Austurvöll og lýsa með nærveru sinni vanþóknun á leyndarmálum, lygum, spillingu og ábyrgðar- og aðgerðarleysi stjórnvalda - eða hverju því sem hver og einn vill mótmæla.

En það er fleira að gerast í dag. Þið munið eftir borgarafundinum sem haldinn var í Iðnó 27. október. Annar verður haldinn á morgun á sama stað klukkan 13. Þar hefja umræðuna Lilja Mósesdóttir, Pétur Tyrfingsson, Ingólfur H. Ingólfsson og Halla Gunnarsdóttir. Kynnið ykkur þetta frábæra framtak nánar hér. Það er upplagt að fara fyrst á borgarafundinn í Iðnó og síðan á Austurvöll. Ég klippti út lítið ávarp frá Gunnari Sigurðssyni, einum forsvarsmanni borgarafundanna sem birtist í Mogganum í gær.

Við erum viðmælendum - Mbl. 7.11.08

Hér er brot af ræðu Lárusar Páls frá síðasta mótmælafundi á Austurvelli.

Og hér eru framsöguerindi frá síðasta borgarafundi í Iðnó. (Myndband með Lilju Mósesdóttur er óvirkt.)

Einar Már Guðmundsson

Björg Eva Erlendsdóttir

Vilhjálmur Bjarnason


Helvíti á jörðu - og gott betur

Ég heyrði fyrst í henni í Krossgötunum hans Hjálmars á Rás 1 í mars. Frásögn hennar fór inn um annað og út um hitt. Svona getur aldrei gerst á Íslandinu góða, hugsaði ég með mér. Svo endurflutti Hjálmar viðtalið í október og þá var innihaldið orðið raunverulegra og mér var brugðið. Síðan heyri ég í henni enn einu sinni í viðtali við Björgu Evu Erlendsdóttur í Mótbyr dagsins í Samfélaginu í nærmynd á þriðjudaginn.

Nú brá svo við að ég sat sem lömuð og hlustaði. Þvílík frásögn, þvílíkar hörmungar sem konan var að lýsa, þvílíkur veruleiki. Morguninn eftir heyrði ég enn og aftur í henni í Morgunútvarpi Rásar 2 og þá var mér allri lokið. Í áfallinu - sem var nógu mikið fyrir - gerði ég mér allt í einu grein fyrir því, að þetta getur mögulega verið það sem stefnir í hér á Íslandi. Eða hvað? Er ég í afneitun ef ég trúi því ekki? Er ekki skynsamlegra að gera eins og oft er sagt - að vona það besta en búa sig undir það versta? Það gagnar alltént ekki að loka augum og eyrum og segjast vera búinn að fá nóg af hörmungarsögum. Samkvæmt frásögninni er ballið varla byrjað og betra að vera viðbúinn.

Sigurbjörg ÁrnadóttirKonan heitir Sigurbjörg Árnadóttir og býr á Akureyri. Hún bjó í Finnlandi þegar kreppa skall á þar í byrjun tíunda áratugar síðustu aldar og upplifði þar skelfilegan veruleika sem hún segir frá í þessum viðtölum. Hún lýsir aðdraganda kreppunnar sem er nákvæmlega sá sami og hér, viðbrögðum finnskra stjórnvalda - og skorti á þeim, öllum mistökunum sem gerð voru og afleiðingum þeirra. Bæði stjórnvöld og almenningur á Íslandi geta lært ótalmargt á því að hlusta á Sigurbjörgu.

Viðtölin við Sigurbjörgu eru mjög innihaldsrík og hún á gott með að segja frá. Hún lýsir aðdraganda finnsku kreppunnar nákvæmlega eins og aðdragandinn hefur verið hér á Íslandi. Tökum dæmi úr inngangi Bjargar Evu:

Frumskylda stjórnvalda núna, bæði í ríkisstjórn og sveitarstjórnum, er að virkja orkuna og reiðina í þjóðfélaginu til nytsamlegra hluta. Þá þurfi að gera áætlanir fyrir fólk, áður en allt er komið í kaldakol en ekki á eftir. Verst af öllu sé að bíða og horfa á eftir fólki inn í atvinnuleysi, þunglyndi og uppgjöf. Þá geti fólk fljótt horfið út úr samfélaginu og ekki átt afturkvæmt. Hún segir líka grunnatriði að stjórnvöld haldi fólki algjörlega upplýstu um stöðuna frá degi til dags, eftir allra bestu vitund.

Brot úr viðtalinu, Sigurbjörg segir:

- Aðdragandinn er mjög líkur, nema þeir voru ekki alveg jafn siðlausir, ráðamenn, á sínu fylleríi og við höfum verið...
- Bankastjórar og bankastarfsmenn voru dregnir fyrir dóm fyrir rest og eftirlit með bönkum var hert eftir þetta... Það var leitað að sökudólgum og þeir fundust.
- Mér er mjög minnisstætt að árið 1996 var svo komið að á milli 15 og 20 prósent skólabarna voru talin í bráðri þörf fyrir geðhjálp sem þau fengu ekki...
- Fólk missti atvinnu, það var dýrt, fólk svalt, biðraðir fyrir utan hjálparstofnanir og kirkjur voru kílómeterslangar. Þú sást stundum þá sem höfðu verið ríkir yfirmenn í banka róta í ruslatunnum nágrannans eftir mat.
- Þegar verst var hófust skólar á mánudagsmorgni á heitri máltíð þar sem börn höfðu ekki fengið að borða síðan þau fóru heim á föstudeginum. Fólk svalt.

- Það sem yfirvöld eru að gera rangt núna er að þau eru ekki að gera neitt. Það er bullandi, réttlát reiði í þjóðfélaginu og hana á að virkja strax til að byggja upp og forðast tilgangslaust atvinnuleysi eins og heitan eldinn.

Ég treysti mér hreinlega ekki til að hafa meira eftir Sigurbjörgu, en viðtölin við hana eru öll í tónspilaranum ofarlega til vinstri á síðunni. Til að auðvelda fólki að finna þau raðaði ég þeim efst með því að merkja þau A1, A2 og A3. Það verða ALLIR að hlusta á Sigurbjörgu. Hún hefur reynsluna, segir frá henni tæpitungulaust og hún hefur hugmyndir um hvernig þarf að bregðast við.

Í fyrradag, um leið og ég hafði birt þessa færslu eða kl. 17.28 þann 5.11., sendi ég þremur ráðherrum og fimm þingflokksformönnum tölvupóst til að biðja um skýringar. Í leiðinni lagði ég til að þeir hlustuðu á viðtölin við Sigurbjörgu með það fyrir augum að læra á sögu hennar og bregðast við nú þegar. Enginn þeirra hefur virt mig svars.

Eftir er að geta þess, að í Morgunblaðinu sl. miðvikudag var viðtal við Sigurbjörgu sem ég set inn hér. Smellið á greinina þar til læsileg stærð fæst.

Sigurbjörg Árnadóttir - Mbl. 5. nóvember 2008

Eftir þetta má ég til með að setja inn hluta af Kastljósinu í gærkvöldi. Konan í viðtalinu, Elín Ebba Ásmundsdóttir, frásögnin og geðræktarkassinn snertu mína hjartastrengi.


Klassískur kommúnistaleiðtogi

Ég geymi allt mögulegt og á því ýmislegt í fórum mínum sem vert er að grafa upp ef þannig stendur á. Hér er grein sem ég klippti út í maí 2001, skannaði og sendi fólki í tölvupósti. Ekki kemur fram í hvaða blaði greinin birtist. Set þetta hér inn svona meira til gamans og dæmi hver fyrir sig um innihald greinarinnar. Varla þarf að kynna greinarhöfund, hvað þá viðfangsefni hans. Hefur eitthvað breyst á þessu 7 og hálfa ári?

Helgi Hjörvar - Klassískur kommúnistaleiðtogi - maí 2001


Varðhundur vinnandi stétta í vonlausri vörn

Ef ég væri ekki orðin svona harðsvíruð vegna atburða undanfarinna vikna hefði ég líklega vorkennt Gunnari Páli Pálssyni. Hann var aumkunarverður og lenti hvað eftir annað í mótsögn við sjálfan sig í viðtalinu við Sigmar. Gunnar Páll á að heita verkalýðsleiðtogi og gæta hagsmuna launþega - okkar minna megandi í samfélaginu. Finnst fólki hann hafa gert það eða er hann sekur um siðblindu? Hér er yfirlýsing formannsins og ég hvet fólk til að skoða eitthvað af bloggpistlunum við fréttina. Og frétt Eyjunnar um málið fékk gríðarleg viðbrögð. Fólk er ekki reitt, það er brjálað. Ef ég væri í VR myndi ég sjálfsagt gera þetta eins og Þráinn.

Strax á eftir Gunnari Páli ræddu þeir Atli Gíslason og Pétur Blöndal málið. Takið sérstaklega eftir skynsamlegum og rökföstum málflutningi Atla og hvað Pétur er ótrúlega sammála honum í flestu.

Ég má til með að bæta þessu við. Ekki bara af því sama mál kemur hér við sögu heldur líka vegna þess að Agnes var eitthvað svo mjúk og kát í kvöld - og mikið til sammála Sigurði G. eins og Pétur sammála Atla. Hún leitaði meira að segja lögfræðiálits hjá honum. Þetta var eitthvað svo sætt eftir öll rifrildin þeirra. Ætli eignarhald Jóns Ásgeirs á Mogganum hafi þessi áhrif á Agnesi? Ja, maður spyr sig...

Ég er viss um að allir hafa tekið eftir því hvað fólki í ábyrgðarstöðum finnst sjálfsagt að ástunda spillingu, klúðra hlutum og vera með allt nið'rum sig án þess að þurfa nokkurn tíma að gjalda þess, hvað þá að axla ábyrgð. Ætli þetta sé ástæðan?

Og til að sem flestu sé haldið til haga vísa ég á þessa færslu Kristjönu sem aftur vísar í Baldur McQueen, sem góðu heilli er farinn að blogga aftur! Fylgist með þeim og í öllum bænum lesið þetta!

Burt með spillingarliðið, hvar í flokki sem það stendur!


Hvað í *********** á þetta að þýða?

Ég ætla að afrita þetta af Orðinu á götunni. Hvað er maðurinn að gera þarna ennþá? Var hann ekki búinn að gera nóg af sér? Er hann á launum hjá hinu opinbera? Eru honum borguð laun úr vösum skattgreiðenda? Hefur hann aðgang að pappírstætaranum? Ég vil fá svör og það strax, Björgvin G. bankamálaráðherra? Geir forsætis? Aðrir ráðherrar eða þingmenn...?

Sigurjón ÁrnasonOrðið á götunni er að Sigurjón Árnason, fyrrum bankastjóri Landsbankans, sé enn að störfum í bankanum á nýrri skrifstofu, sem hafi verið sérstaklega innréttuð fyrir hann. Hann er enn sagður leggja í gamla bankastjórabílastæðið sitt eins og ekkert hafi í skorist og spígspora um bankann eins og sá sem öllu ræður.

Einum starfsmanna bankans ofbýður þetta svo að hann getur ekki orða bundist lengur: “Svo virðist sem í raun hafi ekkert breyst í Landsbankanum þrátt fyrir fall hans. Sigurjón Árnason er ennþá allt í öllu þar. Hann virðist stýra öllu í gegnum konuna sem enginn veit hvað fær í laun. Samkvæmt fréttatilkynningu sem gefin var út þegar Sigurjón og Halldór létu af störfum var sagt að þeir myndu verða hinum nýja banka til ráðgjafar einhvern tíma.

“Staðreyndin er sú að ennþá kemur Sigurjón á sínum bíl og leggur í stæði bankastjóra. Hann fékk undir sig heila hæð yfir Reykjavíkurapóteki sem bankinn er með á leigu. Þar var allt innréttað uppá nýtt fyrir hann í hvelli og þar starfa honum til aðstoðar hátt í 10 starfsmenn!!!!!!!!!!! Hvað skyldi gerast þar???? Um þetta má ekki tala í bankanum og mikið pukur er í kringum þessa starfsemi Sigurjóns. Ég hef grun um að enginn geri sér grein fyrir hversu fyrirferðarmikilir gömlu stjórnendurnir eru enn þann dag í dag. Í það minnsta gengur Sigurjón um ganga eins og maðurinn sem öllu ræður.

Því miður hefur lítið sem ekkert breyst.”


Geta skal þess sem vel er gert...

Ég tek ofan fyrir Boga Nilssyni fyrir að draga sig út úr skýrslugerðinni eða rannsókninni. Það á Valtýr að gera líka og það er beinlínis lífsspursmál fyrir þjóðina og framtíðina að fá erlenda sérfræðinga til að rannsaka öll þessi mál - alla bankana, stjórnsýsluna og þátt stjórnmálamanna í efnahagshruninu. Strax. Málið þolir enga bið. Lesa má a.m.k. hluta úr bréfi Boga hjá Agli Helga hér. Mjög athyglisverð lesning.


...og hins sem angar af spillingu.

Þetta var í fréttum Stöðvar 2 í kvöld og þarna er bara verið að fjalla um Kaupþing. Eitt af því sem er nauðsynlegt að gera er að fá lista yfir alla þá sem seldu hlutabréf í öllum bönkunum síðustu mánuðina fyrir hrunið, allar stórar millifærslur eins og þá sem hér um ræðir og rannsaka gaumgæfilega hvort einhverjir vildarvinir hafi fengið að losa fé sitt úr þeim sjóðum sem voru almenningi lokaðir. Því lengur sem þetta dregst því meiri líkur eru á að unnt verði að hylja sporin.



Nokkrar tölur til samanburðar:
Hér er talað um að 100 milljarðar hafi verið millifærðir frá Kaupþingi til ótilgreindra staða, á ótilgreinda reikninga í eigu ótilgreindra manna. Ekki hefur enn komið fram hvort svipaðar millifærslur hafi verið framkvæmdar í hinum bönkunum þótt ýjað hafi verið að því.
 
Fyrirhugað lán Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eru 240 milljarðar (2 milljarðar dollara).
Höfðinglegt lán Færeyinga er 6 milljarðar (300 milljónir danskar).
Norðmenn ætla að lána okkur 80 milljarða (500 milljónir evra eða 4 milljarða norskra króna).
Upphæðir fengnar úr fjölmiðlum.
 
Upphæðin sem millifærð var úr Kaupþingi er næstum helmingur af láni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og hærri en lán Færeyinga og Norðmanna til samans! Hvað er í gangi?

Áfram stelpur!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband