Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
17.2.2009
"Mér þykir leitt hvað þið eruð vitlaus"
Davíð neitar að hætta : "Mér þykir leitt... hvað þið eruð vitlaus"
Greinin birtist upphaflega á ensku á HuffingtonPost.com, 11. febrúar undir heitinu: "I'm sorry You're so Stupid:"Head of Iceland's Central Bank refuses to step down
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hefur, eins og kunnugt er, óskað eftir því við bankastjóra Seðlabankans að þeir segi upp störfum sínum svo að unnt sé að endurvekja traust erlendra fjárfesta á stofnuninni.
Aðeins einn af bankastjórunum þremur varð við beiðni Jóhönnu; Eiríkur vill hætta 1. júní, en Davíð sendi forsætisráðherranum bréf þar sem hann beinlínis úthúðaði henni fyrir að voga sér að vilja kanna hvort vilji sé til þess af yðar hálfu að biðjast lausnar frá embætti nú þegar..." (Davíð ætti að vera þakklátur fyrir að Jóhanna hafði ekki gömul bréf hans sér til hliðsjónar við skrifin; þá hefði hún sennilega sagt að ef Davíð ekki segði upp myndi hún "sjá til þess...að menn komi að bankanum sem viti hvað þeir eru að gera...ég mun ekki sitja lengur kyrr.")
Hógværari maður en Davíð hefði ef til vill minnst orða De Gaulle, að kirkjugarðarnir eru fullir af ómissandi einstaklingum, og ákveðið að láta málið öðrum eftir. En í augum Davíðs snýst íslenska efnahagskreppan því miður fyrst og fremst um hann sjálfan (og Davíð er ekki einn um þennan misskilning). Hann virðist, rétt eins og ákveðinn bandarískur forseti, álíta það vera ófyrirgefanlegan veikleika að viðurkenna mistök. Eina afsökunin sem hann virðist vera fær um er af "Mér þykir leitt... að þið skulið vera svona vitlaus" taginu.
Davíð hefur rétt fyrir sér að einu leyti. Seðlabankanum er ætlað að vera óháð stofnun sem staðið geti vörð um fjármuni þjóðarinnar óháð pólitískum áhrifum. Að verða við ósk Jóhönnu gæfi til kynna að Seðlabankinn væri bara enn opinber stofnun sem starfaði eftir duttlungum stjórnmálamanna.
En allir vita að pólitískt sjálfstæði Seðlabankans er nafnið eitt (íslenskir skattborgarar halda uppi þremur pólitískt ráðnum seðlabankastjórum, svo allir angar flokksræðisófreskjunnar fái sitt). Davíð hafði hvorki menntun né þjálfun í hagfræði eða fjármálavísindum; hann var fremsti stjórnmálamaður landsins og hélt áfram að ráða lögum og lofum í Sjálfstæðisflokknum eftir að hann varð Seðlabankastjóri árið 2005. Til samanburðar væri meistaragráða í fyrrnefndum sérgreinum fyrsta skilyrði fyrir ráðningu í embætti nýs Seðlabankastjóra.
Davíð neitar einnig að viðurkenna að undir stjórn hans hefur Seðlabankanum algerlega mistekist þau grundvallarverkefni bankans að ná stöðugleika í gengi krónunnar og að hafa stjórn á verðbólgu, sem í janúar rauk upp í 18.6%. Hann sá ekki til þess að treysta gjaldeyrisforða Íslands til að vega á móti þenslu viðskiptabankanna erlendis. Krónan hefur tapað helminginum af verðgildi sínu á síðustu mánuðum og það er aðeins vegna þess að IMF hefur notað milljarða dala til að halda krónunni í gjörgæslu að hún er ekki í frjálsu falli.
Þessi deila skaðar enn frekar stöðu Íslands í augum erlendra fjárfesta, samkvæmt Financial Times, og gæti stefnt áætlunum alþjóðagjaldeyrissjóðsins til bjargar landinu í hættu.
Að stíga niður úr valdastól með reisn er án efa list út af fyrir sig. Í mannkynssögunni eru óteljandi dæmi um leiðtoga sem ákváðu að það væri tímabært og viðeigandi að axla ábyrgð og hörfa og lögðu þannig drög að endurkomu sinni. Davíð mun ekki ávinna sér virðingu meðal Íslendinga með því að sýna embætti forsætisráðherra virðingarleysi. Það mun aðeins gera þeirri ríkisstjórn sem kjörin verður í komandi kosningum erfiðara fyrir. Ef leiðtogi Sjálfstæðisflokksins neitar að fara að tilmælum ríkisstjórnar sem samanstendur af öðrum stjórnmálaflokkum í landinu, hvers vegna ættu leiðtogar þeirra flokka að gegna ríkisstjórn undir forystu Sjálfstæðisflokksins?
Grundvallarskilyrði fyrir réttlátu og virku lýðræðisríki er að viðurkenna að embættið er æðra einstaklingnum, að þjóðin er mikilvægari en flokkurinn.
Mótmælendurnir sem felldu ríkisstjórn Geirs Haarde trúa því ekki lengur að íslenskir leiðtogar beri virðingu fyrir lögum og reglum. Þeir sjá smáklíku sem uppsker gríðarleg verðmæti fyrir sig og sína og stefnir efnahagslegu öryggi þjóðarinnar í stórhættu. Þeir spyrja hvers vegna enginn hefur verið sóttur til saka fyrir fjármálaglæpi vegna efnahagshrunsins; hvers vegna aðilar innan bankanna sem tóku lán fyrir hlutabréfakaupum þurfa ekki að standa við skuldbindingar sínar, hvers vegna embættismenn sem vanræktu að hafa eftirlit með bönkunum voru enn í starfi mánuðum eftir hrun bankanna. Þessir mótmælendur berja nú potta og pönnur fyrir framan Seðlabankann til að reyna að fá bót á þessu ástandi.
Þó bréf Davíðs til Jóhönnu hafi verið meira Mugabe en Churchill, má enn vona að hann íhugi málið betur og ákveði að láta hagsmuni þjóðarinnar ganga fyrir sínum eigin. Ef hann vill fá endurlausn getur hann að lagt mál sitt fyrir þjóðina þegar gengið verður til kosninga í apríl. Umsáturs-hugarfar Davíðs smánar aðeins hann sjálfan og stefnir efnahag okkar í hættu.
Íris Erlingsdóttir fjölmiðlafræðingur og fyrrverandi ritstjóri Gestgjafans og fréttamaður á Stöð 2 býr í Bandaríkjunum. Hún er dálkahöfundur fyrir bandaríska vefmiðilinn Huffington Post, þar sem þessi grein birtist fyrst á ensku.
16.2.2009
Sárabindi á blæðandi sálir
Það er einhver doði í þjóðinni eftir að nýja ríkisstjórnin tók við. Fólk andaði léttar, sem var gott, en baráttunni er engan veginn lokið - hvað allir athugi. Það er óralangt í land - og mikil vinna og aðhald fram undan. Ef við stöndum ekki vaktina verður allur árangur sem náðst hefur unninn fyrir gýg og allt fer í sama spillingar-, sukk- og sjálftökufarið og áður. Enda atvinnustjórnmálamenn komnir í sínar ómálefnalegu skotgrafir og byrjaðir að reyna að tryggja sér áframhaldandi setu við kjötkatlana. VARÚÐ!
Nú er rúmur mánuður síðan síðasti borgarafundur var haldinn í Háskólabíói, en það var 12. janúar. Síðan hafa verið haldnir borgarafundir á Selfossi og Akureyri. Mig dauðlangaði að fara á fundinn á Akureyri fyrir viku en komst ekki. Hann fjallaði nefnilega um landráð. Eðalbloggarinn Rakel Sigurgeirsdóttir skrifaði ítarlega um fundinn hér og ég hnuplaði myndinni frá henni.
Ég hef ekki lesið lögin um landráð en orðið sjálft er nokkuð augljóst og orðabókin mín segir "brot gegn öryggi eða sjálfstæði ríkis út á við eða inn á við; föðurlandssvik". Ansi er ég hrædd um að við gætum nefnt fjölda manns sem þetta á við um - sem eru þá landráðamenn. En lagabókstafurinn skilgreinir þetta líklega nánar.
Ég komst heldur ekki á síðasta fund í Háskólabíói vegna veikinda og var miður mín yfir því. Þessir fundir, og laugardagsfundirnir á Austurvelli, eru nefnilega svo hollir fyrir sálina. Mér líður ekki vel, vægast sagt. Ég er kvíðin, reið, sár, dofin og hrædd... eiginlega skelfingu lostin, svo einhverjar tilfinningar séu nefndar. Mótmælafundirnir á Austurvelli og borgarafundirnir virka svolítið eins og sárabindi á blæðandi sálina. Mér líður alltaf betur á eftir. Þótt ég sé í eðli mínu einfari og rekist illa í hópum er svo gott að finna nærveru alls þessa fólks sem er í svipuðum sporum og maður sjálfur og líður eins, samkenndina og samstöðuna sem ríkir á þessum fundum. Finna styrkinn sem samstaða fjöldans skapar. Það er einstök upplifun sem enginn má missa af. Og það er ekkert mál að koma einn á þessa fundi. Það þarf ekki að hafa einhvern með sér og láta mætingu ráðast af því. Bara mæta og finna, að við erum þarna öll saman.
En mótmæla- og borgarafundir eru hreint ekki aðeins sárabindi á okkar blæðandi sálir. Þeir eru líka farvegur fróðleiks, upplýsinga og þrýstings á yfirvöld. Í kvöld klukkan átta verður haldinn 10. borgarafundurinn í Háskólabíói. Yfirskrift fundarins er Staðan - Stefnan - Framtíðin. Frummælendur eru Haraldur Líndal Haraldsson, hagfræðingur, sem var í Silfri Egils í gær - sjá Vettvang dagsins hér. Andrés Magnússon, geðlæknir, sem var í Silfrinu - sem oftar - t.d. hér. (Ég hef oft minnst á Andrés. Hann einn og sér er sárabindi á sálina). Þriðji frummælandinn er svo Aðalheiður Ámundadóttir, laganemi. Ég kannast því miður ekki við að eiga efni um hana.
Vonandi verður sjónvarpað og/eða útvarpað frá fundinum svo hin þrjúhundruðogeitthvaðþúsundin sem komast ekki geti fylgst með. Að minnsta kosti verður að taka upp og útvarpa eða sjónvarpa eftirá. Það er algjört lágmark því þessir fundir eru fyrir alla þjóðina, ekki bara þá sem rúmast í Háskólabíói.
Ef þið viljið rifja upp síðasta fund í Háskólabíói er hann allur hér. Sjáumst!
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 16:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
15.2.2009
Silfur dagsins
Þáttur dagsins var áhugaverður að venju og í þetta sinn fannst mér óvenjumikið koma út úr Vettvangi dagsins.
Vettvangur dagsins - Björn Þorri, Haraldur Líndal, Álfheiður og Árni
Styttri útgáfa af grein Haraldar er hér, lengri hér og bréf Björns hér.
Bogi Örn Emilsson og Magnús Björn Ólafsson
Mér fannst Magnús Björn frábær, ég vona að Egill standi við að fá hann aftur í þáttinn.
Hér er ræðan sem hann flutti á Austurvelli um daginn.
Stefán Einar Stefánsson, viðskiptasiðfræðingur - magnað
Auður Styrkársdóttir, stjórnmálafræðingur, með punkta um prófkjör
Guðmundur Oddur Magnússon, prófessor í LHÍ, um myndræn byltingartákn
Athyglisvert - en halaklippt. RÚV hlýtur að laga þetta.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 20:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
15.2.2009
Ísland - Nýtt fólk og ný stefna
14.2.2009
Fór þetta fram hjá nokkrum?
13.2.2009
Niðurlæging á heimsmælikvarða
Ég veit ekki hvort ég get lýst því hvernig mér leið þegar ég horfði á Geir Haarde verða sjálfum sér og þjóðinni til háborinnar skammar í HARDtalk á BBC sem sýnt var á RÚV í gærkvöldi. Ég sökk alltaf neðar og neðar í sófanum, axlirnar voru komnar upp á hvirfil, ég greip um höfuðið, fékk hvern aulahrollinn á fætur öðrum, gnísti tönnum og reif kjaft við sjónvarpið - upphátt. Mikið ofboðslega skammaðist ég mín fyrir manninn.
Spyrillinn var greinilega mjög vel upplýstur og undirbúinn og reyndi að fá Geir til að svara af einhverju viti, sæmilegri skynsemi og ekki síst ærlega - en án árangurs. Allir sem fylgst hafa með atburðunum hér vita hve málflutningur Geirs var fáránlegur. Það vissi spyrjandinn greinilega líka en fékk ekki sannleikann upp úr honum hvað sem hann reyndi. Samt virkaði viðtalið eins og ærleg rassskelling.
Og ekki fannst Geir nein ástæða til að biðjast afsökunar á einu eða neinu og kenndi öllu öðru um en sér og sínum verkum sem fjármála- og forsætisráðherra. Þetta viðtal var hörmuleg upplifun og þótt ég sé búin að heyra þetta síðan í gærmorgun á ég erfitt með að trúa því: Geir Haarde, forsætisráðherra Íslendinga þar til fyrir hálfum mánuði, talaði aldrei við Brown eftir að Bretar beittu hryðjuverkalögunum! Hvernig er hægt að haga sér svona? Hvernig getur leiðtogi þjóðar leyft sér slíkt aðgerðarleysi á ögurstundu? Ég er kjaftstopp.
Hægt er að taka nánast allt sem Geir segir og rífa það í tætlur. Gjörið svo vel - í boði hússins:
Fyrir rúmum hálfum mánuði, eða 28. janúar, var Geir í öðru viðtali á BBC - hjá Jeremy Paxman í Newsnight. Það var því miður örstutt svo Paxman fékk ekki tækifæri til að þjarma almennilega að Geir. Paxman er nefnilega þekktur fyrir að sýna viðmælendum sínum enga miskunn enda er fyrsta spurning hans til Geirs: "What's it like to take a country to bankruptcy?". Í sama þætti ræddi Paxman líka við Stephen Timms og Joseph Stiglitz. Hér er allur þátturinn...
...og hér er útklippt viðtalið við Geir.
12.2.2009
Ísland peningaþvottastöð Rússa?
Viðtal Jeffs Randall við Boris Berezovsky á Sky fréttastöðinni í kvöld var athyglisvert. Þar staðfestir auðjöfurinn og útlaginn Berezovsky þann þráláta orðróm að illa fengið fé frá Rússneskum ólígörkum hafi farið í gegnum Ísland í fjárbað áður en fjárfest var með því m.a. í Bretlandi. Þetta mun hafa verið "opinbert leyndarmál" í fjármálaheiminum víða í Evrópu árum saman. Ekki lagast orðspor Íslendinga.
Nú verða íslensk yfirvöld að bretta upp ermar, fjölga verulega í efnahagsbrotadeildinni og hvar sem þarf annars staðar og rannsaka málið ofan í kjölinn. Það getur ekki verið að þetta verði liðið. Og hvað gera íslenskir fjölmiðlar í málinu? Er einhver alvöru rannsóknarblaða/fréttamennska í gangi? Við bíðum spennt...
Hér er viðtalið við Berezovsky á Sky
Og umfjöllun Eyjunnar áðan
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 21:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Ritgerð þeirra Gylfa Zoega og Jóns Daníelssonar um skipbrot hagkerfisins er mögnuð og ætti að vera skyldulesning fyrir alla Íslendinga. Í ljósi furðulegs málflutnings sjálfstæðismanna þessa dagana og algjörrar afneitunar þeirra á eigin ábyrgð, flokksins og afleiðingum á stefnu hans ætti að skylda þá til að lesa hana að minnsta kosti tíu sinnum hver. Þeir Gylfi og Jón sýna svo ekki verður um villst - í góðri samantekt á mannamáli - hvað olli efnahagshruni þjóðarinnar, hverju var um að kenna og benda á leiðir til úrbóta.
Í formála að viðtalinu í Kastljósi í gærkvöldi um ritgerðina sagði Gylfi Zoega m.a.: "Tilgangurinn með því að skrifa svona ritgerð var að segja í fyrsta sinn frá því hvað gerðist hér á síðasta ári. Okkur hefur fundist vanta að einhver segði bara hreint og beint hvað gerðist. Af því að mikið af því sem kemur fram kemur fram hjá aðilum sem hafa hagsmuna að gæta í að verja sína stöðu, sinn orðstír, sín völd o.s.frv. Það er eiginlega óþolandi fyrir fólk sem er að verða fyrir verulegu hnjaski... og þetta er verulegt áfall sem þjóðin verður fyrir, þúsundir manna missa vinnuna í hverjum mánuði... að við skulum þurfa að hlusta á upplýsingagjöf frá aðilum sem eru kannski fyrst og fremst að hugsa um eigin hag en eru opinberir starfsmenn og ættu að vera að hugsa bara um okkar hag."
Ritgerðin er 19 síður auk tilvitnana og því helst til viðamikil til að setja inn í bloggfærslu. Hún er hengd við þessa færslu neðst í .pdf skjali, en ég útbjó líka albúm undir hana þar sem hægt er að lesa hana síðu fyrir síðu. Smellið á hverja síðu þar til læsileg stærð fæst. En hér er Kastljósviðtalið við þá félaga.
9.2.2009
Járnkrumlur einvaldsins
Okkur er mörgum í fersku minni þegar Sovétríkin voru að liðast í sundur og Austantjaldsríkin fengu frelsi hvert á fætur öðru. Mörg þeirra höfðu lotið stjórn einræðisherra um áratugaskeið og ferill þeirra kóna var ófagur í besta falli. Fólkið var frelsinu fegið og Vesturlönd samglöddust því. Þótt illa hafi farið sums staðar um skeið eins og í gömlu Júgóslavíu var engu að síður bjartara yfir og maður fann léttinn sem þjóðirnar upplifðu alla leið hingað upp eftir. Við fordæmdum ekki einu sinni Rúmena þegar þeir tóku Ceausescu-hjónin af lífi á jóladag 1989. Við skildum þá því við vissum hvað þeir höfðu þurft að þola undir þeirra stjórn.
Fátt hefur komist að hjá okkur Íslendingum undanfarna mánuði annað en efnahagshrunið, hneykslis- og spillingarmál, ótrúlegustu uppákomur, flórmokstur, áhyggjur, kvíði og óvissa um framtíðina. Við fengum litlar sem engar upplýsingar um stöðu og ástand því ríkisstjórnin hélt öllu slíku út af fyrir sig. Sagði ekkert og gerði ekkert. Smátt og smátt lærðum við að mótmæla og mættum þúsundum saman viku eftir viku á mótmælafundi því okkur líkaði ekki hvernig tekið var á málunum. Við mótmæltum meðal annars því að ríkisstjórn, stjórnir Seðlabankans og Fjármáleftirlitsins og fleiri embættismenn sætu áfram í stólum sínum þrátt fyrir augljósa ábyrgð á því sem aflaga fór.
Búsáhaldabyltingin sem hófst með setningu Alþingis 20. janúar skipti sköpum. Loksins komust skilaboðin til hluta þeirra sem þau voru ætluð. Við fengum nýja ríkisstjórn sem ætlaði að bretta upp ermar og bylgjur feginleika fóru um allt samfélagið. Þótt þessi nýja ríkisstjórn væri svosem ekki draumastjórnin gátum við loksins, eftir fjögurra mánaða baráttu, andað örlítið léttar. Við eygðum vonarglætu þó að við vissum að staðan væri slæm. Jafnvel margfalt verri en við gerðum okkur grein fyrir. En loks voru einhverjir að gera eitthvað. Og stefndu meira að segja að því að gera ýmislegt sem þjóðin hafði verið að fara fram á - sem er algjört nýmæli á Íslandi. Einhver virtist hafa verið að hlusta á okkur...
Það mátti samt ekki sitja með hendur í skauti því óralangt var í land. Svo margt sem þurfti að taka á og ein af aðalkröfum mótmælenda - og samkvæmt skoðanakönnun 90% allra Íslendinga - var eitt aðalspillingarvígið eftir: Seðlabankinn.
Svo lengi sem ég man, og það er langt aftur, hefur Seðlabankinn verið notaður sem geymslustaður fyrir stjórnmálamenn sem flokkarnir þurftu að losna við. Þar hafa þeir átt náðuga daga á fínum launum, greiddum úr vösum skattborgara, og hætt svo þegar þeir komust á aldur. Ég minnist þess ekki að neinn þeirra hafi gert stóra skandala - nema sá sem nú situr og neitar að haggast.
Hann setti Seðlabanka Íslands á hausinn, hvorki meira né minna. Líklega fyrstur Seðlabankastjóra veraldar - að minnsta kosti á Vesturlöndum. Samt segist hann ekkert hafa gert af sér. Lesið pistil Marinós hér. Marinó talar reyndar um alla bankastjórana þrjá og stjórnina líka og hefur rétt fyrir sér í því. Ég vil hins vegar spyrja hvort einhver sem hefur fylgst með ferli Davíðs Oddssonar viti til þess að hann hafi leyft öðrum að ráða því sem hann vildi ráða sjálfur.
Hann gerði ótalmargt annað af sér þótt hann sjái það ekki sjálfur. Ég hef verið að sjá þennan lista á fjölmörgum bloggsíðum í kvöld. Sagt er að Helgi Hjörvar hafi sett hann saman:
1. Seðlabankinn er gjaldþrota. Stjórnendur hans töpuðu 150 milljörðum í óvarlegri lánastarfsemi til svokallaðra óreiðumanna" í því sem kallað var ástarbréfaviðskipti. Þetta jafngildir hálfri milljón króna á hvert mannsbarn í landinu.
2. Seðlabankinn nýtti ekki góðu dagana til að byggja upp gjaldeyrisvaraforða í samræmi við vöxt fjármálakerfisins, þrátt fyrir ábendingar um nauðsyn þess, m.a. frá Þorvaldi Gylfasyni. Viðbúnaður bankans við fjármálakreppu var því í skötulíki.
3. Jafnvel í vor synjaði bankinn láni frá J.P. Morgan sem bauðst á góðum kjörum og nam hærri fjárhæð en aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins nú. Lýsir það ótrúlegu vanmati á viðbúnaðarþörf.
4. Bankinn áttar sig ekki á hlutverki sínu í fjármálastöðugleika og beitti ekki stjórntækjum sínum til að hemja vöxt bankanna, heldur lækkaði þvert á móti bindiskyldu sem var mjög misráðið.
5. Seðlabankinn hefur nær aldrei náð verðbólgumarkmiði sínu frá því honum var sett það í upphafi aldarinnar.6. Bankinn vanmat augljóslega áhrif of sterks gengis á neyslu og fjárfestingagleði og þar með þenslu.
7. Að geyma gjaldeyrisforða þjóðarinnar á Englandi eftir að Icesave-vandinn var ljós og hætta á frystingu hans, er líkt því að vera í sjóorrustu hjá skipstjóra sem gleymdi púðrinu í landi. Yfirsjónin ætti að varða við þjóðaröryggi.
8. Óviðunandi er að stjórnendur Seðlabankans hafi frétt það í London í febrúar sl. að íslensku bankarnir væru í alvarlegum vanda. Ætlast verður til þess vegna stöðu og hlutverks bankans að hann hefði átt að uppgötva það sjálfur og fyrr.
9. Óskiljanlegar eru ívilnanir hinn 15. apríl í tengslum við bindiskyldu vegna útibúa erlendis eftir þær upplýsingar sem Seðlabankinn hafði fengið í London.
10. Hafi Seðlabankinn fengið svo greinargóðar upplýsingar um stöðu bankanna í London er skýrsla bankans um fjármálalegan stöðugleika frá maí sl. beinlínis villandi upplýsingagjöf.
11. Ófaglegt er að engin viðbragðsáætlun hafi verið til í bankanum vegna fjármálakreppu.
12. Lækkun og hækkun vaxta á víxl jók ekki trúverðugleika.
13. Óheppilegt var og trúlega viðvaningsháttur að Seðlabankinn keppti við viðskiptabankana um fjármagn, m.a. með skuldabréfaútgáfu og í lánalínum.
14. Viðvaningsháttur var að bankinn þagði þegar fréttir bárust af því að hann væri ekki með í samningum norrænu seðlabankana við þann bandaríska. Að bankinn skyldi ekki ná samningum við þann bandaríska var nógu slæmt en þögnin jók á ótta og óvissu og gróf enn frekar undan trúverðugleika á ögurstundu.
15. Ákvörðun um ríkisvæðingu Glitnis var stórslys. Svo röng var hún að stjórnvöld vonuðust fljótlega eftir þroti bankans svo ekki þyrfti að efna samninga! Hve illa er þá komið fyrir trúverðugleika Seðlabankans?
16. Fum og fát í gengismálum dró enn frekar úr trúverðugleika og fagmennsku í Seðlabanka Íslands. Ákvörðun um að festa gengið við 175 stig verður lengi kennd sem hrapaleg mistök, enda lifði staðfesta" bankans í gengismálum aðeins í tvo daga, því oftrúin á krónuna var svo víðs fjarri veruleikanum á gjaldeyrismarkaði. Hún hefur síðan fallið um tugi prósenta.
17. Kastljósviðtal við formann bankastjórnar hjálpaði ekki til við að verja stærsta fyrirtæki landsins, Kaupþing, falli.
18. Þyngra er en tárum taki ótímabær yfirlýsing Seðlabankans um svokallað Rússalán. Bæði spillti það mjög þeim lánasamningum sem Geir Haarde hafði átt frumkvæði að og einnig orðspori okkar á alþjóðavettvangi.
19. Fyrrnefnt Kastljósviðtal, sem m.a. var birt í Wall Street Journal, dró nokkuð úr trúverðugleika íslensks fjármálakerfis á viðkvæmu augnabliki. Einkum þau ummæli sem voru þýdd svo:...Iceland is not going to pay the banks' foreign debts".
20. Óheppilegt var að seðlabankastjóri skyldi hóta stjórnarformanni stærsta fyrirtækis landsins knésetningu.
21. Óheppilegt er að seðlabankastjóri dylgi um viðskipti einstaklinga við bankakerfið og ástæður beitingar hryðjuverkalaga.
22. Óheppilegt er að seðlabankastjóri aflétti einhliða trúnaði af fundum sínum með forystumönnum ríkisstjórnarinnar og samningum við IMF.
23. Óheppilegt er að seðlabankastjóri veiti seðlabankastjórum annarra ríkja tilsögn í mannasiðum.
Ég fæ ekki betur séð en að þetta sé allt sannleikanum samkvæmt. Og þá er ekki einu sinni allt upp talið því þjóðkunn er sú járnkrumla einvaldsins sem Davíð hefur haldið bæði flokki sínum og þjóðinni í í 20 ár. Hann refsaði þeim harðlega sem mæltu gegn honum og voguðu sér að vera á annarri skoðun. Fjölmargar sögur hafa flogið um langrækni, hefnigirni og ægivald Davíðs. Manns, sem virtist nærast á því að niðurlægja aðra og tala niður til þeirra. Hann hefur að minnsta kosti alltaf talað niður til mín. Alltaf. Þessi pistill tæpir á ýmsu sem er manni í fersku minni.
Bréfið frá Davíð til forsætisráðherra í gær var eins og blaut tuska framan í þjáða og kvíðna þjóð sem hafði eygt örlitla von. Hann skýtur föstum skotum sem öll hitta hann sjálfan fyrir - því ferill hans er skrautlegri en flestra. Davíð veit ofurvel að 90% þjóðarinnar vill hann burt úr Seðlabankanum og annað eins hlutfall vill hann ekki aftur í pólitíkina. Þjóðin er búin að fá nóg af járnkrumlu Davíðs og vill frelsi. Frelsi til að tjá sig að vild án þess að eiga hefnd hans yfir höfði sér. Líka Sjálfstæðismenn. Aðeins fjórðungur kjósenda flokksins vill sjá hann aftur. Meirihluti þjóðarinnar þráir líf án Davíðs en honum er nógu andskoti illa við þjóð sína til að neita að láta það eftir henni. Það getur ekki verið neitt annað en mannvonska.
Flokknum hans Davíðs er ekkert sérlega hlýtt til þjóðarinnar heldur. Það sést á blaðrinu og bullinu sem veltur upp úr þingmönnum hans og ýmsum öðrum jafnt innan þings sem utan. Þingmenn Flokksins virðast ætla að leggja stein í götu allra góðra verka sem ný ríkisstjórn er að reyna að framkvæma í þágu þjóðarinnar og samkvæmt vilja hennar. Það verður þeim ekki fyrirgefið og heldur ekki öðrum sem það gera.
Ég veit ekki hver getur komið vitinu fyrir Davíð Oddsson. Kannski enginn. Kannski þorir enginn einu sinni að reyna það. En maðurinn verður að víkja úr Seðlabankanum. Það eru flestir sammála um - bæði innanlands sem utan, fólk úr öllu litrófi stjórnmálanna og öllum flokkum. Fyrr getum við ekki einu sinni byrjað að byggja upp og endurreisa trúverðugleika sem Davíð, ásamt mörgum öðrum, tókst að rústa jafn fullkomlega og raun ber vitni.
Ég lýsi því hér með yfir að ef ríkisstjórnin setur lög sem koma Davíð Oddssyni út úr Seðlabankanum og hindra að ónýtir stjórnmálamenn setjist þar inn í framtíðinni gerir hún það svo sannarlega í mínu nafni og með mínum vilja.
Búsáhaldabyltingin heldur áfram - við Seðlabankann í þetta sinn. Friðsamleg vona ég - en hávær.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 21:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
Silfrið var pakkað að venju en ég vil benda á færsluna hér á undan með þremur eldri Silfurviðtölum til upprifjunar sem tengjast með beinum og óbeinum hætti Silfrinu í dag og aftur vísa ég í hinar frábæru blaðagreinar Ragnars Önundarsonar hér. En svona var Silfur dagsins:
Vettvangur dagsins - Guðmundur, Gunnar Smári, Sigrún Davíðs og Ásta Rut
Elías Pétursson
Ágúst Þór Árnason og Eiríkur Jónsson
Ragnar Önundarson
Að lokum bendi ég á tvo athyglisverða bloggpistla: Þennan hjá Sigurjóni M. Egilssyni og þennan hjá Jóhanni Haukssyni. Og þessa frétt þar sem fram kemur að nú er Jón Ásgeir Jóhannesson orðinn hæst launaði ríkisstarfsmaðurinn fyrr og síðar.
Og þetta er með ólíkindum - nú vitum við hvað Davíð ætlar EKKI að gera. Spurning hvað hann ætlar að gera. Bréf forsætisráðherra til Seðlabankastjóra er hér og bréf Davíðs til forsætisráðherra er hér.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 18:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)