Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Háðsglósur frá Norðmönnum

Ætli þeir viti að Geir er hálfnorskur? Greinin í Aftenbladet er hér.

Saga um Íslendingana og stóra peningaspilið


Guðspjallamaðurinn Matteus og Stefán Jón Hafstein

Nei, ég er ekki að bera þá saman, Matteus og Stefán Jón. Þekki enda hvorugan og veit ekki hvort þeir eru samanburðarhæfir. Nema hvað vert er að glugga í orð beggja og svo bar til að þeir töluðu til mín báðir í einu í gærkvöldi á mjög svo undarlegan hátt - og af einskærri tilviljun. Held ég.

BiblíaÉg fékk tölvupóst frá Erling vini mínum í gærkvöldi, þar sem hann sagðist vera að lesa bók sem heitir "Outliers" og fjallar um persónur sem standa utan við hið hefðbundna mynstur. Í bókinni er talað um Matteusar-áhrifin (The Matthew Effect) sem hljóða svo: "Því að hverjum sem hefur, mun gefið verða, og hann mun hafa gnægð, en frá þeim, sem eigi hefur, mun tekið verða jafnvel það, sem hann hefur." (Biblían - Nýja testamentið - Matteusarguðspjall 25:29.)

Ég efast ekki um að hver einasti Íslendingur sem kominn er sæmilega á legg kannist við nákvæmlega það sem guðspjallamaðurinn er að lýsa þarna. Þetta er einmitt það sem er að gerast í íslensku þjóðfélagi þessa dagana. Ekki að það sé neitt nýtt, en undir þeim kringumstæðum sem við búum við nú um stundir er hið hróplega óréttlæti sem í þessu felst alveg sérlega áberandi. Einmitt þeir sem hafa gnægð settu þjóðina á hausinn og þeir sem eigi hafa þurfa að bera byrðarnar á meðan sökudólgarnir sem hafa gnægð fyrir mun gefið verða, hvort sem það heita afskriftir skulda, gömlu fyrirtækin sín skuldlaus og á útsöluverði eða rífleg eftirlaun á kostnað þeirra sem eigi hafa. Þetta sá hann Matteus karlinn allt fyrir því sennilega vissi hann sem er, að mannlegt eðli og breyskleiki breytist aldregi.

Stefán Jón skrifaði grein í Fréttablaðið í gær, mjög góða grein. Það vildi svo ótrúlega til að ég var Stefán Jón Hafsteineinmitt að lesa hana þegar ég fékk póstinn frá Erling. Og Stefán Jón var líka að lesa bók sem heitir "Outliers". Hvort það er sama bókin veit ég ekki, en hann leggur út frá bókinni og segir: "En bókin skýrir með dæmum hvernig flest slys verða til fyrir röð smávægilegra mistaka, tæknilegra og mannlegra, sem smátt og smátt hlaða svo upp á sig að á endanum verður ekki við ráðið. Engin ein mistök gera útslagið: Smávægileg vélarbilun, samskipti óljós, tungumálaörðugleikar, menningarlegt ólæsi og jafnvel hroki í stjórnklefa, leiðbeiningar misskildar, aðstæður versna, álag sljóvgar og allt í einu er stórslys sem auðvelt hefði verið að koma í veg fyrir. Uppsafnað vanhæfi."

Ég efast heldur ekki um að allir kannist við það ferli sem Stefán Jón á hér við og geti heimfært það upp á íslenskan veruleika nútímans. Aðdraganda efnahagshrunsins og hrokafulla framkomu hlutaðeigandi gerenda allra við þjóðina. Uppsafnað vanhæfi er snilldarlega að orði komist. Ef þessi tilviljun, að fá póstinn á sama tíma og ég var að lesa greinina, með tilvitnunum í bækur (bók?) með sama nafni sem vísa báðar  beint í veruleika nútímans er skilaboð til mín - þá skil ég þau ekki... a.m.k. ekki ennþá. En kannski felast engin skilaboð í þessu frekar en í öðrum tilviljunum - ef tilviljanir eru þá til. En hér er þessi fína grein Stefáns Jóns. Þið fáið ekki að sjá póstinn frá Erling. Hann er prívat en Erling er til vitnis. Smellið þar til læsileg stærð fæst.

Stefán Jón Hafstein - Fréttablaðið 27. desember 2008

Hér er fréttin á Vísi sem Stefán Jón vísar í og vakti, eins og hann nefnir, furðu litla athygli.

 Vísir.is 30. október 2008


Mögnuð viðtöl um útrásina

Það er alltaf býsna fróðlegt að líta um öxl og spá í forsögu og framvindu mála eftir allt sem gerst hefur undanfarið. Ég hef gert svolítið af því hér á síðunni og nú kemur enn eitt endurlitið - aftur til sumarsins 2007. Allt efni er úr Íslandi í dag á Stöð 2.

Byrjum 18. júní 2007. Þá tók Sölvi viðtal við annan Bakkavararbróðurinn, Ágúst Guðmundsson, og ræddi um umsvif Bakkavarar í Bretlandi. Voru það ekki þeir bræður sem, rúmu ári seinna, skutust á þyrlu frá laxveiðiá í Borgarfirði til að kaupa sér pylsu í Baulu. Hvernig ætli staðan sé hjá þeim núna?

Næsta myndbrot er frá 25. júlí 2007 og ber yfirskriftina Mestu viðskipti Íslandssögunnar. Þar er verið að vitna í þegar Novator millifærði 182 milljarða króna til fyrrverandi hluthafa í Actavis. Gaman væri að rifja upp hverjir fengu stærsta skerfinn. Í beinu framhaldi af þessari umfjöllun er viðtal við Björgvin G. Sigurðsson, sem var búinn að vera viðskiptaráðherra í tvo mánuði. Það er magnað viðtal, alveg ótrúlegt. Björgvin reynir ekki að leyna fölskvalausri aðdáun sinni á útrásinni og auðmönnunum sem hana stunduðu. Hann er svo barnslega einlægur í trúnni á jólasveinana að maður kemst næstum við. Og hlustið á hvað hann segir um útrásina og orkuauðlindirnar og orkufyrirtækin! Þetta er rétt áður en REI-málið kom upp þar sem næstum var búið að selja auðlindirnar í hendur sömu fjárglæframanna og hann dáist svona einlæglega að. Ég get ekki ímyndað mér að Björgvin hefði gert neitt til að hindra það rán á sameiginlegum auðlindum Íslendinga þótt hann hefði haft tækifæri til. Hefur Björgvin axlað pólitíska eða siðferðilega ábyrgð? Nei.

Hér er svo stórfróðlegt viðtal við Sigurjón Árnason, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans, frá 1. ágúst 2007. Sigurjón er þarna gríðarlega stoltur af barninu sínu, Icesave, og segir hafa tekið 9 mánuði að hala inn álíka mikla peninga á einstaklingsviðskiptum með Icesave og hefði tekið 120 ár að gera á Íslandi. Eftir þetta heldur Icesave blekkingarleikurinn áfram í rúmt ár, eða 14 mánuði. Þeim tókst að hafa enn meira fé af Bretum sem íslenskir skattborgarar verða að endurgreiða næstu áratugina. Takið eftir að Sigurjón kallar Icesave "vöru".

Skömmu eftir að viðtalið er tekið fara bankarnir að fella gengið fyrir ársfjórðungsuppgjörin sín til að sýna betri stöðu á pappírunum - til að geta haldið leiknum áfram. Er búið að handtaka Sigurjón og félaga fyrir fjársvikin? Nei, merkilegt nokk - og helsti aðstoðarmaður hans við Icesave er nú bankastjóri nýja Landsbankans. Það þarf enginn að segja mér annað en að þetta fólk hafi vitað nákvæmlega hvað það var að gera og hvernig það myndi enda og nú vinnur það hörðum höndum að því að fela slóðina.

Í tengslum við upprifjunina minni ég á þessa færslu frá 26. október sl. þar sem ég tók saman umfjöllun um efnahagsmál fyrstu þrjá mánuði þessa árs. Enn hef ég ekki fundið tíma til að halda þeirri vinnu áfram.

Það er meðal annars þetta sem mótmælt er á Austurvelli á laugardögum kl. 15! Mætum öll í dag á Austurvöll og sýnum með nærveru okkar að við séum ekki sátt við svona vinnubrögð!

Svo mælir Henrý Þór:

Henrý Þór - Jólagjöfin til íslenskra barna


Kolbrún Bergþórs, Birna Þórðar, mótmæli og ábyrgð

Birna ÞórðardóttirÉg man eftir Þorláksmessuslagnum fyrir 40 árum. Ég var 13 ára og var í bænum að kaupa síðustu jólagjöfina. Stóð frosin álengdar og starði upp í Bankastræti þar sem ljóshærð, síðhærð ung kona slóst við lögregluna ásamt fleirum. Þetta vald sem mér hafði verið innrætt að bera virðingu fyrir. Ekki minnist ég þess að hafa haft hugmynd um hvert tilefnið var og forðaði mér heim þegar ég loks gat mig hrært. Unga konan reyndist hafa verið Birna nokkur Þórðardóttir sem ég hef fylgst með úr fjarlægð æ síðan.

Ég ber virðingu fyrir Birnu og mér finnst hún flott kona, stórglæsileg reyndar. Sé hana alltaf í Gay Pride göngum og undanfarið á mótmælafundunum á Austurvelli. Myndin af henni er sú, að þarna fari kona með mjög ríka réttlætiskennd sem láti aldrei vaða yfir sig möglunarlaust og leggi mannréttindabaráttu lið eins og henni frekast er unnt. Mér finnst ég ekkert þurfa endilega að vera alltaf sammála henni til að bera virðingu fyrir einurð hennar, einlægni og þrautseigju.

Mér hefur orðið hugsað til Birnu í sambandi við annað mál - formann VR, laun hans, augljósa spillingu og framboð. Gunnar Páll er nógu siðlaus til að ætla að halda áfram og fólk furðar sig á því að enginn ætli að bjóða sig fram gegn honum. En málið er ekki svo einfalt. Mér er mjög minnisstætt þegar Magnús L. Sveinsson var búinn að vera formaður MJÖG lengi og stóð sig frámunalega illa. Svaf á verðinum eins og gerist þegar menn eru búnir að vera of lengi í embætti. Gerði vonda samninga fyrir sína umbjóðendur og í verkfalli - mig minnir 1985 - voru samningar við vinnuveitendur felldir af félagsmönnum a.m.k. tvisvar. Fjölmargir vildu losna við Magnús en það var ekki hægt. Hann, ásamt fleirum, var búinn að koma ár sinni svo vel fyrir borð og festa sitjandi formann - sjálfan sig - svo vel í sessi að það þurfti ekkert minna en kraftaverk til að koma honum frá. Mótframboð þurfti að vera með mörg hundruð manns tilbúna í hvert einasta embætti til að geta haggað honum. Í trausti þessarar samtryggingar fer Gunnar Páll fram aftur, siðblindur á bjálkann í auga sér, vitandi að það er ógerlegt að velta honum úr sessi.

Birna var mjög virkur félagsmaður í VR á þessum árum. Hún mætti á alla fundi og á hverjum einasta fundi lagði hún fram fyrirspurn um laun formanns VR. Hún fékk aldrei svar en aldrei gafst hún upp. Ég dáðist að seiglunni. Birna er ein þeirra sem getur lagst sátt til hvílu þegar þar að kemur, vitandi að hún lagði sitt af mörkum til réttlátari heims og verið stolt afkomenda sinna.

Kolbrúnu Bergþórsdóttur hef ég líka fylgst með úr fjarlægð, en öllu skemur Kolbrún Bergþórsdóttiren Birnu. Hún vakti fyrst athygli fyrir bókagagnrýni sína þar sem hún var oftar en ekki ósammála öllu og öllum og hafði sérstakar og sterkar skoðanir. Hún kom fram í útvarpi og sjónvarpi auk þess að skrifa í blöð. Síðan gerðist hún blaðamaður og hefur verið á ýmsum blöðum undanfarin ár. Svo er hún auðvitað í Kiljunni. Ég hef gaman af Kolbrúnu, held að hún sé einlæg í sínum skoðunum á bókmenntum og þótt ég sé alls ekki alltaf sammála henni, hafi ég á annað borð lesið viðkomandi bók, ber ég virðingu fyrir skoðunum sem settar eru fram af hjartans einlægni og hafa engan dulinn tilgang.

Öðru máli gegnir um pistlana hennar í Mogganum. Þar fer hún oft og iðulega hamförum í forpokaðri hneykslan og fordæmingu, meðal annars á því sem telst til sjálfsagðra mannréttinda í öllum siðmenntuðum lýðræðisþjóðfélögum. Sem Ísland er reyndar alls ekki. Hún talar um væl, nöldur og fleira miður fallegt og réttlætir þá sem níðast á almenningi. Kannski af því hún vinnur fyrir þá. Sú Kolbrún er mér lítt að skapi. Einhvern veginn hef ég alltaf á tilfinningunni að Kolbrún viti betur innst inni. Að hún sé að halda dauðahaldi í eitthvað sem hún veit að er ekki rétt því ég held að hún sé miklu klárari kona en þetta. Mér finnst að hún ætti að halda sig við viðtölin sín sem hún gerir ágætlega ef hún á annað borð hefur minnsta áhuga á viðmælandanum. Ef ekki eru viðtölin þurrkuntuleg, sum beinlínis hundleiðinleg og gefa bjagaða mynd af viðfangsefninu.

En tilefni þessara skrifa minna eru pistlar þessara tveggja kvenna, sem ég ítreka að ég þekki ekki neitt persónulega. Fyrstur er pistill Kolbrúnar frá sunnudagsmogga og síðan pistill Birnu í Mogganum í gær þar sem hún gagnrýnir skrif Kolbrúnar. Ég las pistil Kolbrúnar, hristi höfuðið þegjandi og af því mér er hlýtt til hennar hugsaði ég einfaldlega með sjálfri mér: "Æ, æ. Kolla mín... seint ætlarðu að botna nokkurn skapaðan hlut í lífinu og tilbrigðum þess." Kolbrún virðist skilja bókmenntir betur og finnst að fólk eigi bara að taka því sem að því er rétt og halda kjafti. En lífið er bara alls ekki þannig, allra síst á þessum síðustu og verstu tímum. Birna gerði meira en að hrista höfuðið þegjandi - hún skrifaði grein þar sem hún tætir Kolbrúnu í sig.

Kolbrún Bergþórsdóttir - Morgunblaðið 21. desember 2008

Kolbrún Bergþórsdóttir - Moggi 21. desember 2008

Birna Þórðardóttir - Morgunblaðið 23. desember 2008

Birna Þórðardóttir - Moggi 23.12.08

Hér er pistill Kolbrúnar frá 9. júní sl. sem Birna vitnar í. Kolbrún ver háu launin og sakar gagnrýnendur þeirra um öfund og pólitískan tilgang. Ætli henni finnist sjálfsagt að formaður VR sé með margföld laun umbjóðenda sinna og hafi tekið þátt í svindli bankanna sem umbjóðendur hans bæði tapa á og fara jafnvel sumir á vonarvöl? Henni verður einnig tíðrætt um ábyrgðina. Hálaunamennirnir hafa svona há laun segir hún af því þeir bera svo mikla ábyrgð. Hvað segir Kolbrún nú um ofurlaun og ábyrgð? Finnst henni Gunnar Páll axla ábyrgð á siðleysi sínu með því að bjóða sig fram aftur? Hver af þessum hálaunamönnum hefur axlað nokkra ábyrgð á endalausum afglöpum, mistökum, spillingu, þjófnaði og glæpum sínum?

Kolbrún Bergþórsdóttir - Moggi 9.6.08


Leppar og leynifélög - 1. hluti

 Þetta er með ólíkindum... ætli það sé sannleikanum samkvæmt?
 

Jólamyndin í ár - Dýrabær

George Orwell var Breti, hét réttu nafni Eric Arthur Blair, fæddist árið 1903 og lést aðeins 47 ára að aldri árið 1950. Þekktustu ritverk hans eru líklega Animal Farm (útg. 1945) og 1984 (útg. 1949). Báðar bækurnar eru klassískar og eiga alveg jafn vel við nú og þegar þær voru skrifaðar, enda hefur mannlegt eðli ekkert breyst.

Mér datt í hug að setja hér inn Animal Farm, eða Dýrabæ, til samanburðar við það sem er að gerast í íslensku þjóðfélagi nú um stundir. Tilvísanirnar í nútímann eru margar og margvíslegar. Þetta er gömul og góð teiknimynd og er hér í átta hlutum. Það er hollt að rifja söguna upp, einkum þingmönnum, ráðherrum og (óhæfum) embættismönnum.

1. hluti af 8

2. hluti af 8

3. hluti af 8

4. hluti af 8

5. hluti af 8

6. hluti af 8

7. hluti af 8

8. hluti af 8


Hávær þögn

Það er nú meira hvað þögn getur verið hávær. Ærandi. Það var hún svo sannarlega á Austurvelli í gær. Eiginlega háværari en púið að þögn lokinni. Mörg hjón eða pör kannast við það sem kallað er "the silent treatment" sem mun vera verri en nokkurt rifrildi. Ég trúi því alveg.

Eftir þögnina og púið hentu nokkrir skóm að Alþingishúsinu að Arabasið. Þótt það tíðkist ekki í okkar menningarheimi má líta á það sem táknrænt engu að síður. Við Massimo hans Harðar tókum þá skó sem lentu á gangstéttinni og röðuðum þeim snyrtilega á efri tröppur hússins með sólana upp. Svo kom maður með fullan poka af banönum og raðaði þeim álíka snyrtilega á neðri tröppuna. Líka táknrænt.

Skömmu seinna, á heimleiðinni, hitti ég gamlan vin minn og bekkjarbróður sem hefur mætt á alla fundina. Það er orðið ritúal hjá honum og tveimur vinum hans á laugardagseftirmiðdögum. Einn þeirra ber heimatilbúið skilti sem á stendur: "Út með ruslið!" Hann sagði að boð hefðu borist frá öllum bananalýðveldum heims þar sem þau frábiðja sér þá niðurlægingu að vera líkt við Ísland. Mér fannst það mjög skiljanlegt.

Ég er að spá í hvað ég á af mér að gera í dag - það verður ekkert Silfur! Egill er farinn í jólafrí. Kannski gefst loksins tími til að ná í aðventukransinn niður í geymslu og byrja að skreyta og kaupa jólagjafir. Ekki seinna vænna. Gísli bakaði smákökur og afaðist heil ósköp í gær eins og hann segir frá á blogginu sínu. Ég bað hann að selja mér smákökur af því ég hef ekki eldhúsgen, kann hvorki að elda né baka og slasa mig yfirleitt við eldhúsverk. Hann svarar mér kannski með tilboði og samþykkir að vera afi minn líka, enda held ég að hann sé heimsins besti afi.

En hér er sjónvarpsfréttaumfjöllun gærkvöldsins frá fundinum og nokkrar myndir sem ég tók og ein úr vefmogganum, skásta myndin sem ég fann í netmiðli. Annars eru fundirnir á Austurvelli orðnir eins og félagsheimili. Ég hitti alltaf fullt af góðu fólki sem ég ýmist þekki eða þekki ekki og kynnist þá bara. Það er hið jákvæða við þetta.

 
Mótmæli - 20.12.08 - Ljósm. Mbl.
Austurvöllur 20.12.08
Austurvöllur 20.12.08 Austurvöllur 20.12.08
 Austurvöllur 20.12.08

Þeir brillera dag eftir dag

Sumir skrifa sig hása um ástand og horfur - aðrir lýsa því sem er að gerast í nokkrum dráttum á sinn persónulega hátt.

Halldór í Mogga í dag Halldór Baldursson - Mbl. 19.12.08

Henrý Þór á síðunni sinni og Smugunni í dag Henrý Þór - henrythor.blogspot.com


Græðgisvæðingin - varist endurtekningar!

Ég birti þessa færslu 10. október - það var sennilega of snemmt. Sjálfsagt voru fáir farnir að gera sér grein fyrir því þá hve alvarlegt ástandið væri. Það er full ástæða til að birta þetta allt aftur og vara við. Nú hefur komið í ljós að auðmennirnir sem gerðu þjóðina gjaldþrota eru að sölsa undir sig eignir - aftur - þeir fá skuldir afskrifaðar og koma undan feldi eins og óspjallaðar meyjar. Líka skuldsettir útgerðarmenn sem fengu auðlind þjóðarinnar gefins, léku sér með hana og veðsettu hana rétt eins og aðrir fengu bankana upp í hendurnar og keyrðu þá - og þjóðina - í þrot á örfáum árum.

Við VERÐUM að standa vörð um orkuauðlindirnar svo þær fari ekki sömu leið! Þarna segir m.a.: The rules will need to be rewritten - það verður að setja nýjar reglur. Er verið að því? Er einhver á þingi að beita sér fyrir því að setja ný lög og reglur svo sami leikurinn geti ekki endurtekið sig? Ég hef ekki orðið vör við það. Hvað er að gerast með Hitaveitu Suðurnesja og Geysir Green Energy? VARÚÐ! En hér er færslan - texti og myndbönd. Í öllum bænum gefið ykkur tíma til að horfa og hlusta:

 _____________________________________________

Viltu verða ríkur? Svona gerum við...

Þátturinn The Greed Game sem sýndur var á BBC nýverið vakti mikla athygli. Í honum er farið yfir aðferðir hinna ofurríku við að græða peninga, ótrúlegar fjárhæðir, aðstöðunni sem þeir hafa skapað sér með aðstoð góðra manna og í hvað þeir eyða peningunum. Þátturinn virðist vera gerður eftir að "efnahagshrunið mikla" hófst og í honum kemur ýmislegt fram sem er fróðlegt að vita. Gera má ráð fyrir að hinir íslensku auðmenn eða "útrásarvíkingar" hafi notað svipaðar aðferðir þegar þeir komu ár sinni fyrir borð um leið og þeir stóðu að hruni íslensku bankanna og  þjóðarinnar allrar.

Lokaorð þáttarstjórnanda eru athyglisverð: "So there are still plenty of opportunities for the super-rich to increase their fortunes. Even though the global financial system is in intensive care and our prosperity is threatened. With the Greed Game still being played, if we're not going to end up losers again, the rules will need to be rewritten." Það sem á undan kom sýndi fram á að þessir menn geta haldið áfram græðgisleiknum nánast  endalaust miðað við þann skort á regluverki sem ríkir. Er ekki rétt að benda íslenskum stjórnvöldum á þetta?

Þátturinn er hér í 7 hlutum svo fólk getur farið rólega í þetta og tekið einn í einu. Neðst er síðan skýringarmynd úr sænsku netblaði sem sýnir a.m.k. hluta eignatengsla íslensku auðjöfranna. Mér finnst nú samt að einhverja og eitthvað vanti inn í þetta net. En hvað varð af þessum mönnum? Geta þeir nokkurn tíma látið sjá sig á landinu framar.

1. hluti

 

2. hluti

 

3. hluti

 

4. hluti

 

5. hluti

 

6. hluti

 

7. hluti

 

Eignatengsl íslenskra auðmanna


Bækur á óskalistann

Ég lærði að lesa í laumi þegar ég var fimm ára. Eldri systir mín var í sex ára bekk í Landakotsskóla og ég fékk að fylgjast með þegar hún æfði sig gegn því að ég væri þæg og þegði. Þess vegna vissi enginn fyrr en ég var allt í einu orðin læs. Síðan hef ég verið með nefið ofan í bókum - og það er óralangt síðan ég var fimm ára.

Þessa bók nefndi ég nýverið, þá nýbyrjuð að lesa hana. Hún veldur mér engum vonbrigðum og stendur fyllilega undir væntingum. Hér er umsögn um hana á Smugunni. Ég held að flestir dómar um bókina hafi verið í þessa veru.

Ofsi - Einar KárasonÉg vinn hjá sjálfri mér og auðvitað gaf vinnuveitandinn starfsmanninum afmælisgjöf um daginn. Það var Ofsinn hans Einars Kárasonar sem ég hlakka mikið til að lesa. Ég fékk fyrstu Sturlungabók Einars, Óvinafagnað, þegar hún kom út fyrir mörgum árum og það var geggjuð bók. Hér er Víðsjárviðtal við Einar frá 2. des. sl. (aftast í þættinum) þar sem Einar segir m.a. frá tilurð þriggja orða kaflans í Óvinafagnaði. Hann hélt að enginn hefði tekið eftir þessari snilld, en það er aldeilis ekki rétt! Ég spái því að þetta verði trílógía hjá Einari.

Þar kom að því að maður fengi áhuga á Sturlungu. Sami vinnuveitandi gaf sama starfsmanni síðan bráðskemmtilegt þriggja kvölda námskeið hjá Endurmenntun þar sem Einar fór á stökki yfir Sturlungu og leiðbeindi um hvernig þægilegast væri að lesa hana. Vonandi hef ég tíma til þess þegar og ef um hægist. Ofsi hefur fengið einróma lof og síðast í gær valdi starfsfólk bókaverslana bókina bestu skáldsögu ársins. Gerður Kristný var svo með bestu barnabókina. Kastljós sýndi frá afhendingu viðurkenninganna.

Í einni af gramsferðum mínum í bókabúðir fann ég litla bók sem vakti athygli mína. Hún var svo skemmtileg og svo ódýr að ég keypti fjórar. Gaf þrjár í afmælisgjafir en hélt eftir eintaki fyrir sjálfa mig. Þetta er bókin Jólasveinar - af fjöllum í fellihýsi - Magnea J. MatthíasdóttirJólasveinar - af fjöllum í fellihýsi eftir Magneu J. Matthíasdóttur með myndskreytingum eftir Ólaf Pétursson. Í bókinni er fjallað um nútímavæðingu jólasveinanna í bundnu máli, listilega gert. Það er ekki oft sem bækur henta öllum aldurshópum en það gerir hún þessi. Dæmi um minn gamla uppáhaldsjólasvein, Kertasníki, með leyfi höfundar:

Kertasníkir um kerti bað
er kom hann mannabyggðum að,
í hellinum vild'ann hafa bjart
og hrekja burt vetrarmyrkrið svart.

(Nú þjóðar velferð hann þættist styrkja
og þyti upp á heiðar að virkja.)

En ein er sú bók sem ég ágirnist einna mest og höfðar ótrúlega sterkt til sagnfræðinördsins í mér. Ég skil ekkert í mér að hafa ekki lært sagnfræði. Það er bók með því stóra nafni Saga mannsins - frá örófi fram á þennan dag, hvorki meira né minna. Ég er búin að fletta henni í bókabúð og sökk ofan í hana á staðnum. Bókin er byggð á erlendu verki sem komið hefur út í ýmsum löndum, en ritstjóri íslensku útgáfunnar er Illugi Jökulsson. Vanur maður á þessu sviði sem öðrum. Illugi ritstýrir líka hinu bráðskemmtilega tímariti Sagan öll sem ég hef verið áskrifandi að frá fyrsta tölublaði. Hér er smá sýnishorn af opnu úr bókinni.

Saga mannsins - opna

Illugi var í Mannamáli á sunnudaginn að ræða um bókina, en því miður náðu Kiljuspekúlantar ekki að fjalla um hana nema í mýflugumynd í síðustu Kilju fyrir jól í gærkvöldi. Þau verða eiginlega að taka hana eftir áramót, því svona bækur eru sígildar og eilífar. Miklu meira en bara jólabækur.

Ef jólasveinar eru til í alvörunni, eins og grunur leikur á, hlýt ég að fá þessa í skóinn.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband