Færsluflokkur: Menntun og skóli

Hvatt til dáða í gróðærinu

Egill sýndi þetta í Silfrinu í gær. Samanklippt pepp og auglýsingar frá gróðærinu. Við verðum að halda þessu öllu til haga og líta á þetta sem víti til varnaðar. Læra af reynslunni. Okkar eigin reynslu.

Fyrsta myndbandið er gert af Samtökum atvinnulífsins og hefur gengið manna á milli á netinu um skeið. Eflaust muna flestir eftir Kaupþingsauglýsingunum sem keyrðar voru gengdarlaust í sjónvarpinu ásamt auðvitað auglýsingum hinna bankanna. Ég hafði ekki séð kynningarmyndaröðina frá Háskólanum í Reykjavík anno 2007. Okkar tími kom - og fór snarlega. Spurning hvort verið sé að kenna unga fólkinu þetta ennþá. Ég setti saman myndirnar í ræmu hér fyrir neðan til glöggvunar. Kaupthinking-myndbandið vakti gríðarlega athygli þegar það komst í umferð um daginn - enda magnað.

Ég hef margoft spurt sjálfa mig hvort fólkið sem tók þátt í þessu hafi vitað hvað það var að gera og hvaða afleiðingar það myndi hafa fyrir íslensku þjóðina. Svarið er yfirleitt það sama: Eflaust ýmsir - en langt í frá allir.

Áróðursmyndbönd í Silfri Egils 20. september 2009

Myndaröðin frá Háskólanum í Reykjavík. Smellið ef þið viljið stækka.

HR-myndasyrpa 2007


Illa farið með framtíðarfólk þjóðarinnar

Mikið ofboðslega má hann Gunnar Birgisson skammast sín. Hann álpaðist einu sinni inn á þing en hætti. Líklega var meira upp úr því að hafa að deila og drottna í Kópavogi en að vera óbreyttur þingmaður í afgreiðsludeild Alþingis. Af hverju hann er stjórnarformaður Lánasjóðs íslenskra námsmanna er mér hulin ráðgáta. Hvað hefur hann til að bera í það embætti annað en flokksskírteini í Sjálfstæðisflokknum og hvað fær hann í þóknun fyrir stjórnarformannsstarfið?

Gunnar BirgissonEins og sjá má af glottinu og hrokasvipnum á Gunnari þegar hann segir "Ungt fólk er stundum óþolinmótt" finnst honum bara fyndið að námsmenn erlendis eigi ekki fyrir mat. Og sú er raunin í fjölmörgum tilfellum. Gunnari má vera sama - hann hefur yfrið nóg fyrir sig og sína og umhyggja hans virðist ekki ná lengra. Gunnar gerir sér í fyrsta lagi ekki grein fyrir því að námsmenn erlendis eru ekki bara ungt fólk, heldur eru þeir á öllum aldri, ýmsu þroskastigi og margir þurfa að fæða og klæða börn sín. Í öðru lagi virðist Gunnar alls ekki skilja neyðina og í hvaða stöðu námsmenn erlendis hafa verið síðan hrunið varð fyrir 3 mánuðum. Í þriðja lagi er eins og Gunnar og stjórn LÍN - og kannski stjórnvöld sem hafa ekki haft döngun í sér til að ganga á eftir fyrirmælum um neyðarlán - skilji ekki að hér er verið að tala um LÁN, ekki ölmusu eða gjafafé. Námsmenn eru ekki að biðja um að fá neitt ókeypis eða gefins. Þetta eru lán - neyðarlán til fólks í neyð.

Sonur minn er námsmaður í Sviss, svo ég taki dæmi. Er að hefja síðustu önnina af fjórum í meistaranámi. 1. janúar sl. var gengið á 1 svissneskum franka 55 krónur íslenskar. Í dag var 1 franki skráður á 116 krónur í íslenskum banka sem er hækkun um 111%. En í svissneska bankanum sem hann skiptir við þar úti, UBS, var frankinn skráður á 195 krónur í dag sem er 255% hækkun. Það ætti ekki að vera erfitt að skilja hvaða búsifjum fólk hefur orðið fyrir sem þarf að stóla á námslán frá Íslandi þegar gengisþróunin er skoðuð. En Gunnari Birgissyni finnst þetta bara fyndið, enda er svo gott að búa í Kópavogi að hann mætti ekki á fundinn með námsmönnunum sem minnst var á í Kastjósi - né heldur neinn fulltrúi LÍN.

Stjórnvöld tala ávallt fjálglega um gildi menntunar fyrir framtíðina og fólk er hvatt til að mennta sig, ekki síst nú þegar atvinnuleysi eykst. Menntun er ævinlega nefnd sem einn af helstu björgunarhringum Íslendinga til lengri tíma. En hvað er svo gert til að auðvelda fólki að mennta sig? Jú, skorin niður framlög til menntastofnana sem geta því ekki tekið við öllum sem vilja í nám og svo illa er komið fram við námsmenn erlendis í neyð að þeir hafa hvorki í sig né á og neyðast sumir til að hætta námi. Á meðan eru felldar niður milljarðaskuldir bankastarfsmanna og auðmanna svo aðeins sé nefnt eitt atriði af mörgum í sukkstefnu ríkisstjórnarinnar. Sveiattan!


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband