Færsluflokkur: Náttúra og umhverfi
28.4.2008
Takið þátt í að velja um Gjábakkaveg!
Á blaðsíðu 6 í sunnudagsblaði Morgunblaðsins er sagt frá nýstárlegri netkosningu sem Landvernd gengst fyrir í samvinnu við Lýðræðissetrið, Morgunblaðið og mbl.is.
Hér er verið að fjalla um og ráðskast með helgasta stað þjóðarinnar, Þingvelli, svo það liggur beint við að allir taki þátt í netkosningunni. Látum rödd okkar heyrast fyrst okkur er veitt tækifæri til þess.
Kosningin hefst í dag, mánudaginn 28. apríl, og stendur yfir í eina viku. Hægt er að kjósa á sérstökum kosningavef Landverndar og verður tengill á hann settur inn á forsíðu mbl.is undir fyrirsögninni "Nýtt".
Kynnið ykkur málið vandlega. Morgunblaðsgreinin er hér fyrir neðan.
Gjábakkavegsskýrsla Landverndar er hér og greinargerðin hér.
Slóð á kosningavefinn sjálfan og nánari upplýsingar hér.
Slóð á frétt Landverndar er hér.
Náttúra og umhverfi | Breytt s.d. kl. 02:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
26.4.2008
Bréf til Láru - frá Hveragerði
Ég skrifaði um Hveragerði í síðasta pistli. Um að verið væri að stofna lífsgæðum og heilsu Hvergerðinga og annarra íbúa Suðvesturlands í hættu með því að dæla eiturefninu brennisteinsvetni út í andrúmsloftið í áður óþekktu magni í þágu virkjana og stóriðju. Eins og ég nefndi í pistlinum var minnst á fjölmargt annað á fundinum í Hveragerði - brennisteinsvetnismengun er aðeins eitt af mörgum atriðum sem spurt var um og gerðar athugasemdir við. Viðbrögðin við pistlinum hafa verið mikil og enn og aftur hef ég fengið tölvupóst og upphringingar frá óttaslegnu fólki sem líst ekki á blikuna.
Í dag fékk ég svo tölvupóst frá Hvergerðingi sem var á íbúafundinum á mánudagskvöldið. Hann sendi einnig fallegar myndir af fossum sem prýða útivistarsvæðið ofan Hveragerðis, hann kallar þá fossana okkar. Ég sá ástæðu til að biðja hann um leyfi til að birta skrifin og myndirnar því hér kemur svo glögglega í ljós hve almenningur er mótfallinn því að láta hrekja sig í burtu frá náttúrunni, þangað sem fólk hefur árum og áratugum saman leitað sér hvíldar og skjóls frá amstri hvunndagsins til að endurnæra sál og líkama.
En hér er bréfið:
Heil og sæl Lára Hanna, Ármann Ægir Magnússon heiti ég og hef átt heima í Hveragerði lengi.
Ég var á fundinum með OR í Grunnskóla Hveragerðis á dögunum. Á fundinum kom ég inn á vistkerfi Varmár. Hún er dragá sem getur orðið mjög lítil og heit en vaxið gífurlega í vorleysingum og rigningum.
Vármá mynda aðallega fjórar smærri ár, þ.e. Sauðá, Grændalsá, Reykjadalsá og sú lengsta, Hengladalaá. Þær tvær síðastnefndu eru líklega vatnsmestar. Í Hengladalaá fyrir ofan Svartagljúfursfoss er urriði og lífverur sem hann nærist á, á meðan lækur rennur.
Í Djúpagili er Reykjadalsáin á um tveggja kílómetra kafla en þar er urriði sem er þar á milli fossana Fossdalafoss og Djúpagilsfoss hann lifir oft í ótrúlega litlu vatni og heitu. Urriðinn í þessum ám gengur niður árnar en kemst ekki upp fossana.
Þetta varnakerfi er stór hluti af vatna- og lífkerfi Ölfusfora. Í öllum ánum fjórum hefur verið straumönd sem fer með unga sína niður árnar þegar líður á sumarið.

Ég hef gengið oft um þetta svæði og tel mig þekkja það afar vel. Ég er sannfærður um að klórslysið er bara brotabrot af því sem Bitruvirkjun getur valdið, eða hefur nú þegar valdið á þessu svæði. Varmáin er okkur Hvergerðingum afar kær og því höfum við varið hundruðum milljóna í að hreinsa hana og verja.
Ég veit ekki til að Sveitafélagið Ölfus hafi varið krónu til að verja þetta mikla vatnakerfi okkar heldur leyft byggðakjarna sem notast við venjulegar rotþrær, fremur en að tengjast og taka þátt í hreinsistöð og verndarstarfi okkar.

Ég er ekki menntaður líffræðingur eða vatnalíffræðingur. Ég held að það sé afar brýnt að kalla eftir raunverulegum rannsóknum fræðimanna á þessu sviði. Rannsóknir sem Ingólfur minntist á voru rannsóknir á grunnvatnsstraumum sem náðu frá þessu svæði allt til Esju og Reykjaness. Það sjá það allir sem vilja að þetta geta ekki talist nákvæmar rannsóknir á vatnafari eða vistkerfi umhverfis Bitruvirkjun, Varmá eða áhrif á Ölfusforir. Ég er undrandi á að ekki hafi komið fram slíkar rannsóknir sem hljóta að vera til í einhverjum mæli. Ef ekki, þá hefur orðið slys á svæðinu nú þegar.
Ég hef gengið oft eftir þessum ám og um virkjanasvæði Bitru. Það verður að segjast eins og er að vegna allra framkvæmdanna á Hellisheiði hefur varla verið vært á svæðinu alla daga vikunnar, því hefur ferðum mínum á svæðið fækkað.
Ég sendi þér nokkrar myndir af fossunum okkar. Þetta eru Reykjafoss, Fossdalafoss, Djúpagilsfoss, Djúpagilsfoss í þurrkatíð og foss neðarlega í Hengladalaá. Þar fyrir innan er Svartagljúfursfoss.
Með kærri þökk fyrir baráttu þína, Lára Hanna.
Nú þurfa allir að leggjast á árarnar.
Ármann Ægir Magnússon,
íbúi í Hveragerði
Já, nú þurfa svo sannarlega allir að leggjast á árarnar og hindra þann gjörning sem fyrirhugaður er með Bitruvirkjun. Í öðrum pósti sem Ármann Ægir sendi mér segist hann ekki vera á móti öllum virkjunum, en að þarna sé ekki verið að virkja rétt. Ég er heldur ekki á móti öllum virkjunum. Eins og ég sagði í þessum pistli er skynsamleg og hófstillt nýting auðlinda nauðsynleg.
En það er alls ekki sama hvar virkjað er, hvernig, til hvers og hverju er fórnað í þágu hverra.
Náttúra og umhverfi | Breytt 27.4.2008 kl. 22:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (32)
23.4.2008
Stundum er erfitt að halda ró sinni...
...og höggva ekki mann og annan. Stundum langar mig að hrista fólk, taka á því eins og óknyttastrákum eða -stelpum og lesa því pistilinn ómengaðan. Stundum langar mig að vera einræðisherra á Íslandi og taka til hendinni, henda rusli og sópa úr skúmaskotum. En það er draumsýn og eina leiðin sem virðist fær er að reyna að nota mátt orðanna. En mig þekkja fáir og enn færri hlusta á mig. Þótt ég þoli ekki athygli vildi ég stundum óska þess að vera fræg. Ef ég væri fræg myndu fjölmiðlar kannski hlaupa upp til handa og fóta þegar ég munda lyklaborðið, taka við mig djúpvitur viðtöl og allir myndu hlusta í mikilli andakt. Annað eins hefur nú gerst þegar fræga fólkið tjáir sig. En ég er ekki fræg og fáir hlusta. Því miður. Ég auglýsi hér með eftir frægu fólki til að tala máli mínu. Það er sama hvaðan gott kemur - en hér ætla ég að láta vaða og taka stórt upp í mig.
Ég fór á íbúafund í Hveragerði á mánudagskvöldið, þar var verið að fjalla um málefni sem ég hef mikinn áhuga á, fyrirhugaða Bitruvirkjun við Ölkelduháls og möguleg áhrif hennar á lífsgæði og heilsu Hvergerðinga. Reyndar á alla íbúa suðvesturhornsins, en Hvergerðingar eru næstir svæðinu. Salurinn var fullur út úr dyrum, um 100 manns mættu og það var spenna í loftinu. Augljóst að málið hvílir þungt á Hvergerðingum - skiljanlega. Það á nefnilega að eitra fyrir þeim og þeir geta enga björg sér veitt. Lesið pistil bæjarstjóra Hvergerðinga um fundinn hér.
Það væri allt of langt mál að tíunda allt sem gerðist á fundinum, en þarna voru þrír frummælendur - frá Orkuveitunni, Hveragerði og Landvernd. Fulltrúi Orkuveitunnar virtist hálfþreyttur, áhugalítill og var lítt sannfærandi, bæði í pistli sínum og þegar hann svaraði hinum fjölmörgu fyrirspurnum sem beint var til hans frá fundargestum. Mín tilfinning var sú að honum fyndist þetta óþarfa bögg og afskiptasemi. Okkur kæmi þetta ekkert við.
Um daginn var ég byrjuð að skrifa pistil um brennisteinsvetni, búin að afla mér heimilda um víðan völl og lesa mér til, en forgangsröðin breyttist stöðugt og alltaf frestuðust pistilskrifin. Nú er ég komin á þá skoðun að best sé að einfalda umfjöllunina og vera ekkert að flækja málið. En ég tek skýrt fram að þetta er miklu flóknara mál en hér kemur fram og langt í frá að ég viti eða skilji allt sem hægt er um efnið. En ég skil samt ýmislegt.
Í Wikipediu stendur þetta: "Brennisteinsvetni eða vetnissúlfíð (H2S) er litlaus, eitruð gastegund. Megn lykt er af brennisteinsvetni þó magn þess sé lítið í andrúmsloftinu, það er brennisteinsvetni sem veldur lykt af fúleggjum og jöklafýlu sem gjarnan fylgir hlaupum í jökulsám. Lyktin hverfur hins vegar þegar styrkur brennisteinsvetnis í andrúmslofti eykst og það verður lífshættulegt. Það eykur einnig á hættu að brennisteinsvetni er þyngra en andrúmsloftið og getur því lagst í dældir eða safnast fyrir í botnum á geymum og tönkum..." Þar segir ennfremur: "Um 10% af losun á H2S í heiminum er af mannavöldum. Í iðnaði er það einkum í olíuhreinsunarstöðvum. H2S finnst þar sem brennisteinn kemst í samband við lífrænt efni, sérstaklega ef um er að ræða hátt hitastig." Læt þetta nægja í bili en slóðin á þennan og meiri fróðleik er hér.
Semsagt... prumpufýlan sem maður finnur þegar farið er fram hjá t.d. skíðaskálanum í Hveradölum og víðar er brennisteinsvetni að kenna. Líka sú sem við finnum þegar við skrúfum frá heita vatninu í krananum hjá okkur - eftir því hvar við búum. Við erum vön þessari lykt, höfum alist upp við hana og finnst hún bara frekar fyndin. Erlendir gestir hafa gjarnan orð á lyktinni því hún er þeim framandi. En þótt brennisteinsvetni sé eitur er það ekki alvont efni. Það gerir sitt gagn í náttúrunni og jafnvel fyrir mannslíkamann - í hóflegu, náttúrulegu magni.
Við erum nú með fjórar jarðhitavirkjanir (samheiti mitt yfir jarðgufu- og jarðvarmavirkjanir sem eru ólíks eðlis) á suðvesturhorni landsins. Svartsengi og Reykjanesvirkjun á Reykjanesi, Nesjavallavirkjun við Þingvallavatn og hina nýju Hellisheiðarvirkjun við rætur Hellisheiðar. Allar losa þær gríðarlegt magn af brennisteinsvetni út í andrúmsloftið, vitanlega umfram allt sem náttúrulegt getur talist. Reykvíkingar eru þegar farnir að finna fyrir útblæstrinum úr Nesjavalla- og Hellisheiðarvirkjunum. Fólk í eystri byggðum Reykjavíkur finnur fyrir áhrifum hans á augu, lungu og öndunarfæri. Bloggvinkona mín, Lilja Guðrún, skrifaði fínan pistil um barnabörnin sín og sjálfa sig í andnauð og kenndi um svifryki af völdum nagladekkja. Fleiri taka undir og lýsa sinni reynslu, sumir eflaust í austurhluta borgarinnar. Það er örugglega alveg rétt að svifryk eigi sinn þátt í andnauðinni, en gætu þessi áhrif á öndunarfærin verið í bland frá brennisteinsvetni? Spyr sú sem ekki veit.
Í tónlistarspilarann ofarlega vinstra megin á þessari síðu eru, auk fréttaumfjöllunar um fundinn í Hveragerði, tveir pistlar úr Speglinum frá í nóvember. Í öðrum er talað við Þorstein Jóhannsson, sérfræðing hjá Umhverfisstofnun og í hinum Sigurð Þór Sigurðarson, lækni og sérfræðing í lungna-, atvinnu og umhverfissjúkdómum. Báðir fjalla um hættuna sem getur skapast af of miklu brennisteinsvetni í andrúmsloftinu. Hlustið á þá.
Styrkur brennisteinsvetnis í Reykjavík er aðeins mældur á Grensás. Það er nú því sem næst í miðri Reykjavík. Engir mælar eru austar og nær Hellisheiðarvirkjun þar sem tugþúsundir búa. Enginn mælir er í Hveragerði. Eins og fram kemur í máli Þorsteins er styrkurinn ekki orðinn mikill ennþá, en langtímaáhrif af litlum styrk eru ekki þekkt, hvað þá af miklum styrk. Þorsteinn segir einnig að það sé alls ekki sjálfgefið að fólk stundi útivist nálægt blásandi borholum. Í máli Þorsteins kemur fram að hægt sé að hreinsa útblástur brennisteinsvetnis frá virkjununum. Upphaflega stóð ekki til hjá Orkuveitu Reykjavíkur að hreinsa hann, en nú hafa þeir vent kvæði sínu í kross og segjast ætla að hreinsa útblásturinn.
Á því loforði Orkuveitu Reykjavíkur eru þrír stórkostlegir gallar. Í fyrsta lagi sá, að þeir þurfa þess ekki og það er kostnaðarsamt. Engin lög ná yfir takmörkun á losun brennisteinsvetnis út í andrúmsloftið. Því verður að breyta. Í öðru lagi kom greinilega fram í máli fulltrúa OR á fundinum í Hveragerði að hreinsun brennisteinsvetnisins er á tilraunastigi. Þeir vita semsagt ekki ennþá hvort það tekst og hafa ekki prófað aðferðina sem þeir hyggjast nota. Samt á að virkja og treysta á guð og lukkuna. Í þriðja lagi kom líka fram að brennisteinsvetni verður ekki hreinsað úr útblæstri neinna borhola á framkvæmdatímanum - það eru mörg ár og fjölmargar holur. Aldrei verður heldur hreinsaður útblástur úr holum sem þarf stöðugt að bora og láta "blása", eins og þeir orða það (ég kann ekki tækniskýringu á því).
Á fundinum í Hveragerði kom fram að suð-austasta borholan á áætluðu virkjanasvæði Bitruvirkjunar er aðeins 4.560 metra frá efstu húsunum í Hveragerði. Bitruvirkjun yrði í um 4 ár í byggingu og allan þann tíma myndu borholur spúa eitri yfir Hvergerðinga og aðra íbúa suðvesturhornsins, því ekki verður hreinsað á framkvæmdatíma. Svo verða um 3 holur látnar blása í einu, óhreinsaðar, næstu áratugina - ef ég skil þetta rétt - og spúa meira brennisteinsvetni yfir okkur. Miðað við orð Þorsteins og Sigurðar í Spegilsviðtölunum og óvissuna um langtímaáhrif brennisteinsvetnis í andrúmloftinu, jafnvel í litlu magni, geta t.d. astma-, lungna- og öndunarfærasjúklingar - og barnafólk - ekki búið í Hveragerði og jafnvel ekki í austurhluta Reykjavíkur. Ekki væri æskilegt að beina ferðafólki nálægt svæðinu svo Reykjadalurinn fagri fyrir norðan Hveragerði legðist af sem útivistarsvæði, svo og allt svæðið í kringum náttúruperluna Ölkelduháls. Þetta er ófögur framtíð fyrir fallegan, lítinn bæ í fögru umhverfi og áhyggjur Hvergerðinga skiljanlegar.
En á fundinum var dreift tillögu til þingsályktunar um takmörkun á losun brennisteinsvetnis af mannavöldum í andrúmslofti. Fyrsti flutningsmaður er Álfheiður Ingadóttir og þetta er mjög þarft framtak, það verður að koma böndum á losunina. Vonandi bera þingmenn allra flokka gæfu til að samþykkja þingsályktunartillöguna hið snarasta.
Reykvíkingar fá þetta eitur líka yfir sig áfram, því auk Bitruvirkjunar er enn ein jarðhitavirkjunin áætluð í Hverahlíð, sunnan við þjóðveg nr. 1 sem liggur um Hellisheiðina. Þá væru virkjanir á svæðinu orðnar fjórar og tvær í viðbót á teikniborðinu, alls sex jarðhitavirkjanir á sama blettinum.
Fjölmargt fleira kom fram á fundinum í Hveragerði, ég hef eingöngu fjallað um einn þátt af mörgum sem þar var minnst á. Íbúar eru felmtri slegnir og alls ekki að ástæðulausu. Að sumu leyti eru þeir að berjast fyrir lífi sínu - en hafa engin vopn. Þeir eru algjörlega berskjaldaðir. Reykvíkingar líka.
Mig langar stundum að missa mig, hrista virkjanasinna duglega og lesa þeim pistilinn. Hvað á svona nokkuð að þýða? Hvernig dettur þeim í hug að fara svona með náungann... og sjálfa sig? Og hvernig voga þeir sér að sýna slíkt fyrirhyggjuleysi gagnvart afkomendum okkar og komandi kynslóðum? Hvernig stendur á því að óspillt náttúra er ekki metin að verðleikum? Af hverju á að göslast áfram og ana út í óvissu sem getur stofnað heilsu og jafnvel lífi samborgaranna í hættu og stela frá okkur náttúruperlum sem enginn hefur haft rænu á að meta til fjár?
Svarið er í raun einfalt: Til að framleiða raforku fyrir eiturspúandi, erlenda stóriðju og græða peninga.
Ég hef ekki lokið máli mínu, en pistillinn er orðinn ansi langur og kannski leiðinlegur. Ég segi bara: "Framhald í næsta pistli..." Þá verður fjallað um græðgi, valdníðslu, skipulagsafglöp, ólög og fleira uppbyggilegt og skemmtilegt sem allir geta hlakkað til að lesa.
Náttúra og umhverfi | Breytt s.d. kl. 12:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
Kompás á þriðjudagskvöldið var vægast sagt fróðlegur þáttur. Í honum var fjallað um ýmsar hliðar olíuhreinsistöðvar á Vestfjörðum og margt stendur upp úr eftir umfjöllunina. Þetta var ein allsherjar hrollvekja.
Gróflega skipti ég málinu í þrjá hluta miðað við umfjöllun Kompáss. Í fyrsta lagi það sem snýr að náttúrunni og afleiðingum framkvæmdarinnar á hana og þá væntanlega ferðaþjónustu í fjórðungnum og fleira sem þar er fyrir. Í öðru lagi það sem snýr að framkvæmdaraðilum, fjármögnun, tilgangi og slíku. Í þriðja lagi íslenskum sveitarstjórnarmönnum, alþingismönnum og ráðherrum.
Í Íslandi í dag á Stöð tvö í gærkvöldi kom greinilega fram að ráðherrar vita mest lítið um málið og ekkert um hverjir standa á bak við það. Í Kompásþættinum kom fram að sveitarstjórnarmenn á Vestfjörðum vita heldur ekki neitt. Hversu bláeygir geta menn verið? Á að fórna náttúru Íslands, fiskimiðunum, fuglabjörgum og ímynd landsins fyrir rússneska olíurisa sem þurfa að flikka upp á eigin ímynd á Vesturlöndum? Mér finnst þetta óhugnanlegt. Gríðarlega mikið er í húfi og stjórnvöld vita ekkert um málið!
En ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta í þessum pistli, nóg sagði ég í þeim síðasta og athugasemdakerfinu þar. Þetta er meira sett hér inn sem heimild þótt ég hafi engan veginn lokið máli mínu. Horfið, hlustið og takið afstöðu í þessu mikilvæga máli.
Ég ætla að vitna í orð Aðalbjargar Þorsteinsdóttur frá fyrirtækinu Villimey á Tálknafirði. Hún hefur haslað sér völl sem framleiðandi ýmissa jurtasmyrsla sem eru smám saman að komast á markað. Orð þessi lét hún falla á málþingi um nýsköpun og fleira sem fram fór í Hafnarfirði 28. apríl 2007. Aðalbjörg kvaðst ekki geta stillt sig um að benda fundinum á, að olíuhreinsistöð á Vestfjörðum myndi ekki laða Vestfirðinga til starfa, heldur byggja á farandverkamönnum. Það væri síðan deginum ljósara að fyrirtæki á borð við sitt myndi leggjast af.
Mig langar líka að biðja fólk að hugsa til þeirra hjóna, Maríu Bjarnadóttur og Víðis Hólm Guðbjartssonar, sem búa í Bakkadal, næsta dal í byggð fyrir utan Hvestu í Arnarfirði þar sem olíuhreinsunarstöðin yrði mögulega reist. Fyrir neðan myndböndin set ég inn viðtal við Víði sem birtist í Morgunblaðinu 2. febrúar sl. Reynið að ímynda ykkur hvernig þeim hjónum líður við að fá þennan óskapnað nánast í túnfótinn hjá sér. Ég vitnaði í Maríu í athugasemd við síðasta pistil. Orð sem hún skrifaði mér í tölvupósti og ég fékk gæsahúð þegar ég las. Þessi ungu hjón myndu hrekjast á brott, dalurinn þeirra fara í eyði og hvað kæmi í staðinn? Erlendir farandverkamenn sem staldra við í tvö eða þrjú ár?
Viðbót: Lesið þessa frétt á Eyjunni, þar kemur sitthvað fróðlegt fram.
Kompás, þriðjudaginn 15. apríl 2008

Náttúra og umhverfi | Breytt 20.4.2008 kl. 02:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
Ég fjallaði um þá arfavitlausu hugmynd að reisa olíuhreinsistöð á Vestfjörðum í þremur pistlum í febrúar. Eitt af því sem vakið hefur mikla athygli er sú illskiljanlega leynd sem hvílir yfir því, hvaða aðilar standi á bak við framkvæmdina. Hilmar Foss og Ólafur Egilsson, hinir íslensku olíufurstar, hafa neitað að tjá sig um þann þátt málsins og hafa auk þess túlkað niðurstöður skoðanakannana um stuðning við olíuhreinsistöð afskaplega frjálslega, svo ekki sé meira sagt.
Fyrri pistla mína um olíuhreinsistöðina má sjá hér: Fyrsti, annar og þriðji.
Í kvöld ætlar Kompás að gera tilraun til að upplýsa málið, eða að minnsta kosti leiða getum að því hvaða aðilar standi á bak við framkvæmdina. Frétt um þáttinn á Vísi er svohljóðandi:
Kompás í kvöld: Rússar fara frjálslega með staðreyndir.Katamak, samstarfsaðilar Íslensks hátækniiðnaðar í undirbúningi olíuhreinsistöðvar á Vestfjörðum, fara frjálslega með niðurstöður skoðannakönnunar sem gerð var um áhuga Vestfirðinga og annarra á olíuhreinsistöð.
Á heimasíðu samstarfsaðila Íslensks hátækniiðnaðar (katamak.ru) er fullyrt að 80 prósent Vestfiðinga séu hlynnt olíuhreinsistöðinni og er vitnað til Gallup-könnunar. Þar er býsna frjálslega farið með því samkvæmt upplýsingum frá Capacent-Gallup eru 53 prósent íbúa í Norð-vesturkjördæmi hlynnt hugmyndinni. Afgangurinn tekur ekki afstöðu eða er andvígur. Og sveitarstjórnarmenn vestra finnast í þeim hópi.
Kompás sýnir þátt í kvöld þar sem leitt er getum að því hvaða aðilar standi að baki þessum áformum. Þessi þáttur er afrakstur margra mánaða rannsóknarvinnu m.a. í Moskvu, Washington, Houston og Dublin.
Á vef Kompáss kemur þetta fram um þáttinn:
Umdeild olíuhreinsistöð
Það er leyndarmál hver á að reisa olíuhreinsistöðina á Vestfjörðum. Böndin berast að rússnesku risaolíufyrirtæki í innsta hring Kremlar.
Vestfirðingar eru orðnir langþreyttir á atvinnuástandinu og kalla eftir úrbótum. Olíuhreinsunarstöð er talin geta skapað 500 ný störf. Þessi 300 milljarða risaframkvæmd er þó umdeild.
Tilhugsunin um nær daglegar siglingar risaolíuskipa vekur ugg en talið er að allt að 300 olíuflutningaskip muni eiga leið um vestfirska firði árlega.
Og svona hljómar stiklan um Kompásþáttinn í kvöld:
Ég hvet alla sem mögulega geta til að horfa á Kompás í kvöld klukkan 21:50 og mynda sér skoðun um málið.
Hér er viðtal við Stefán Gíslason, umhverfisstjórnunarfræðing, um olíuhreinsistöð sem birtist í fréttum RÚV 22. febrúar sl.
Að lokum brot úr fréttum Stöðvar 2 frá 24. febrúar sl. þar sem Ólafur Egilsson lætur út úr sér gullkorn sem verða lengi í minnum höfð.
Náttúra og umhverfi | Breytt s.d. kl. 13:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (41)
14.4.2008
Ómar Ragnarsson og Andræði Sigfúsar
Ekki er nóg með að ég sé stundum lengi að hugsa, heldur er ég langt á eftir í fréttahlustun og -áhorfi þessa dagana. Ég var núna fyrst að horfa á rúmlega vikugamalt Kastljós þar sem Ómar Ragnarsson sat á spjalli með Bolla Kristinssyni. Það er reyndar rangt að kalla þetta spjall. Þeir höfðu svo stuttan tíma að varla gafst tækifæri til að klára setningar, hvað þá að kafa af einhverju viti í málin.
Það sem fyrst vakti athygli mína voru orð Ómars sem voru í fullkomnum stíl við sitthvað sem ég skrifaði í færslunni hér á undan og í athugasemdakerfinu. Ómar sagði meðal annars:
"Mér finnst mjög algengt að þingmenn láti eins og lög sem eru í gildi hafi dottið af himnum ofan frá Guði sjálfum. En það voru nú bara þeir sjálfir sem sömdu þessi lög og þeir sjálfir eru þarna í vinnu til þess að breyta þessum lögum. Það er að verða þingvetur liðinn og það hefur ekkert verið gert til að breyta þeim lögum sem var lofað að breyta. Breyta þeim lögum sem gera einstöku sveitarfélögum og hreppum kleift að fara með heimsverðmæti eins og ekkert sé."
Þarna er Ómar að vísa í lög sem meðal annars gera sveitarfélögum kleift að ráðskast með náttúruauðlindir ef þær eru innan landamerkja viðkomandi sveitarfélags (sjá athugasemd 18 við síðustu færslu mína). Sem dæmi má nefna er Sveitarfélagið Ölfus nú búið að auglýsa breytingu á aðalskipulagi þar sem til stendur að breyta Bitru/Ölkelduhálsi á Hengilssvæðinu - sem er á náttúruminjaskrá og einnig skilgreint sem grannsvæði vatnsverndar - í iðnaðarhverfi. Þetta er undurfagurt svæði þar sem sjá má sýnishorn af flestu því sem prýðir íslenska náttúru. Svæðið er vinsælt meðal ferðamanna og til dæmis segir Þóra Ellen Þórhallsdóttir, prófessor við Líffræðistofnun Háskóla Íslands, að Hengilssvæðið sé næstverðmætasta útivistarsvæðið á suðvesturhorni Íslands - næst á eftir Þingvöllum. Lesa má viðtal við Þóru Ellen um málið hér. Þetta svæði ætlar 2.000 manna sveitarfélag að eyðileggja fyrir 200.000 íbúum suðvesturhornsins með tilheyrandi brennisteinsvetnismengun - og framkvæmdaraðilinn borgar sveitarstjórninni fyrir greiðann. Nánar um það mál á baráttusíðu Hengilssvæðisins hér, kynnið ykkur endilega málið.
Bolli "athafnamaður" var aldeilis ekki á sama máli og Ómar, vill endilega láta reisa álver, en segir samt að það eigi að fara eftir Ómari Ragnarssyni og öllu því góða fólki sem vinnur með honum! Bolli sagði jafnframt: "En ég náttúrulega er alveg sammála Ómari af því það veit náttúrulega enginn meira en hann um okkar fallegu náttúru - að passa hana eins og hægt er..." Í málflutningi Bolla kemur svo greinilega fram þetta undarlega skilningsleysi þeirra sem reisa vilja stóriðju út um víðan völl - þeir sjá ekki hlutina í samhengi. Þeir fást ekki til að skilja, að álver þarf rafmagn, mjög mikið rafmagn, og til þess að framleiða orkuna þarf að leggja óspillta náttúru í rúst - í þessu tilfelli dásamlega perlu á náttúruminjaskrá í hlaðvarpa meirihluta íslensku þjóðarinnar. Við þurfum greinilega að bjóða Bolla og fleirum í skemmtilega gönguferð í sumar til að reyna að opna augu þeirra.
En hitt er auðvitað rétt hjá Bolla - vitanlega á að hlusta á Ómar Ragnarsson og fara að ráðum hans hvað varðar náttúruna. Ég efast ekkert um að hann sé sá Íslendingur sem þekkir landið einna best, bæði af láði og úr lofti. Hann hefur líklega séð og farið um hvern fermetra þess sem fær er - og jafnvel þá sem ófærir eru, það væri honum líkt. Og umfram allt þykir honum undurvænt um landið sitt og kann manna best að meta það og óviðjafnanlega náttúru þess.
Mig langar að tileinka stóriðjusinnum ljóð úr ljóðabókinni Andræði eftir Sigfús Bjartmarsson sem ég fjallaði um hér.
Virkjun
er verðugum
vinna og minnis-
varði.
Og
virkjun
er veisla
með vinum
og varla nema
von að margur
góðglaður við
veitingum
gapi.
Og
vatnsafls-
virkjun gefur
vistvænan gróða
og stórvirkjun gefur
þá stórvistvænan með
stórvistvænu tjóni
og tapi.
Jú
margur
verður af álverum
api.
Þetta ljóð úr sömu bók tileinka ég alþingismönnum okkar og ráðherrum með þeim varnaðarorðum að treysta ekki framar á gullfiskaminni kjósenda:
Með
lögum
skulu landsfeður
ólögum sínum
eyða.
Jú
alltaf
skal hætta
hverjum leik
þá hallar
undan
fæti.
Og
ranga
reglu má
rétta úr sínu
ráðherra-
sæti.
Jú
aldrei
er lýðurinn
lengi með
læti.
Náttúra og umhverfi | Breytt 15.4.2008 kl. 12:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
12.4.2008
Sorgarferli - "Fagra Ísland" kvatt
Við göngum öll í gegnum visst sorgarferli við ýmsar aðstæður. Til dæmis við andlát ástvina, hjónaskilnað og ýmsa atburði þar sem við segjum skilið við eitthvað sem er okkur kært en er að hverfa sjónum. Ég hef upplifað þetta sorgarferli nokkrum sinnum við ýmsar aðstæður og það er sama hverjar aðstæðurnar eru - það er sárt. Alveg hræðilega sárt.
Enn sárara er þegar hægt er að koma í veg fyrir missinn sem veldur þessu sorgarferli en þeir sem eru í aðstöðu til að hindra hann gera það ekki. Fyrir mig, sem náttúruunnanda frá barnæsku, eins og lesa má um hér og hér, og leiðsögumanns erlendra ferðamanna - sem hefur kennt mér enn betur að meta íslenska náttúru - eru þau skilaboð stjórnvalda að náttúra Íslands skipti minna máli en gróði erlendrar stóriðju alveg skelfileg.
Ég hef ótalmarga galla, en líka nokkra kosti - sem betur fer. Einn af þeim kostum - eða hæfileikum - er að geta séð hlutina í samhengi. Geta horft yfir sviðið og séð hvernig ólíkir hlutir vinna saman og mynda eina heild. Þess vegna skil ég fullkomlega afleiðingar þess ef álver verður reist í Helguvík. Þær afleiðingar eru afdrifaríkar fyrir alla íbúa suðvesturhorns Íslands, sem munu vera um 60 eða 70 prósent þjóðarinnar. Þær afleiðingar hafa í för með sér gríðarleg náttúruspjöll, brennisteinsvetnismengun, sjónmengun, hljóðmengun, lyktarmengun, þenslu, vaxtahækkanir, verðbólgu og guð má vita hvað. Það sem mér þykir einna verst er, að þessar framkvæmdir eru svo fullkomlega óþarfar. Það er ekkert atvinnuleysi á Suðurnesjum - síður en svo - þar er uppgangur einna mestur á öllu landinu og úr nógu að moða. Það er nákvæmlega engin þörf á stóriðju á Suðurnesjum - langt í frá.
Við höfum kosningar til Alþingis á fjögurra ára fresti. Hlustum á frambjóðendur í andakt og af því mannskepnan þrífst mikið til á því sem kallað er von tökum við mark á þeim. Trúum því sem þeir segja og lofa. Við kjósum þann flokk sem boðar þá framtíðarsýn sem kemst næst okkar lífsgildum og bíðum átekta. Síðan kemur að efndum - eða svikum. Við verðum ýmist kát eða leið eða reið.
Ég er leið og reið. Mjög sorgmædd og ævareið. Er að ganga í gegnum sorgarferlið áðurnefnda. Gjörsamlega miður mín og hyggst grípa til þess eina ráðs sem mér er fært í stöðunni eins og hún blasir við nú. Meira um það seinna... kannski.
Ég hef verið að berjast við veikindi undanfarið og ekki verið í ástandi eða aðstöðu til að bregðast við atburðum líðandi stundar umsvifalaust. En ég hef þó haft rænu á að safna upplýsingum og nú er mikið starf fram undan við að vinna úr þeim.
En hér læt ég öðrum um að dæma fyrir sig, ég hef þegar dæmt fyrir mig:
Hvað á maður að halda? Þetta heldur Sigmund og vitnar í Berg í Landvernd:
Svo kom þetta í Silfrinu:
Náttúra og umhverfi | Breytt s.d. kl. 11:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (58)
24.3.2008
Treystum við svona fólki?
Ég ætla ekki að hafa mörg orð um fréttina sem fylgir hér að neðan. Ég verð að viðurkenna að mér krossbrá. Samt kom fréttin mér ekki á óvart, ég var full tortryggni fyrir. Mútur, umhverfisspjöll og rausnarlegar þóknanir. Ekki fylgdi sögunni hverjar heimildir fréttastofunnar eru en gera verður ráð fyrir að þær séu traustar. Fréttin birtist á Stöð 2 laugardagskvöldið 22. mars 2008.
Þetta er fyrirtækið sem rekur álverið á Reyðarfirði og vill reisa álver á Bakka við Húsavík. Annað alþjóðlegt fyrirtæki vill reisa álver í Helguvík og aðstandendur hugmyndarinnar um olíuhreinsistöð á Vestfjörðum segja rússneska og bandaríska aðila á bak við sig en neita að gefa upp hverjir þeir eru.
Eru Íslendingar tilbúnir til að treysta svona fólki og þeim sem makka með því fyrir landinu sínu, framtíð sinni, barnanna sinna og barnabarna - og ómetanlegri náttúru Íslands?
Ekki ég!
Náttúra og umhverfi | Breytt s.d. kl. 16:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (32)