Færsluflokkur: Löggæsla

Til íslenskra yfirvalda og löggjafans

Eins og þið vitið öll er hrópað á réttlæti - og það hátt. Eitt af því sem veldur andstöðu almennings við Icesave-samninginn er að höfundar hans og ábyrgðarmenn ganga allir lausir og baða sig í ríkidæmi - fé sem þjóðin lítur á sem illa fengið. Þó að bresk stjórnvöld séu kannski ekki hátt skrifuð hjá öllum um þessar mundir, hvort sem þau verðskulda það eður ei, má ýmislegt læra af þeim engu að síður.

Ég legg til að þið lesið og hlustið á pistil Sigrúnar Davíðsdóttur sem hún flutti í Speglinum á föstudaginn, þann 3. júlí. Hljóðskráin er viðfest neðst í færslunni. Ég ætla að leyfa mér að birta hann hér og feitletra sérstaka kafla til áhersluauka. Pistillinn fjallar um frystingu eigna. Ég legg líka til að þið lærið af þessu og útvegið ykkur heiðarlega lögfræðinga sem ekki eru tengdir vafasömum mönnum til að semja og/eða útfæra lög um frystingu eigna. Nú þegar. Slík aðgerð myndi strax slá eitthvað á ólguna í samfélaginu.

Sigrún Davíðsdóttir - Pistlar í Speglinum á RÚV
Frysting eigna

Frysting eigna er svo öflug aðgerð að meðal enskra lögfræðinga er henni líkt við kjarnorkuvopn - og þeim er að sjálfsögðu ekki beitt af neinu kæruleysi. Frysting eigna fæst með dómsúrskurði. Þegar eignir Landsbankans hér voru frystar var það gert með dómsúrskurði.

Frystingu eigna er þó hægt að beita við ýmis tækifæri, bæði í málum sem einstaklingar höfða, í málum sem hið opinbera höfðar - og svo er frysting eigna notuð þegar felldir hafa verið dómar til að koma í veg fyrir að dæmdir glæpamenn geti áfram notað illa fengið fé.

Tökum fyrst dæmi um þetta síðasta: nýlega var lögfræðingur dæmdur fyrir innherjaviðskipti ásamt tengdaföður sínum. Lögfræðingurinn vann í fyrirtæki og frétti þar að verið væri að selja fyrirtækið. Það var því ljóst að hlutabréf í fyrirtækinu ættu eftir að hækka verulega. Tveimur dögum áður en tilkynnt var um kaupin keypti tengdafaðir lögfræðingsins hluti í fyrirtækinu. Tengdafaðirinn hafði aldrei áður keypt hlutabréf og græddi 50 þúsund pund, rúmar tíu milljónir króna.

Nokkrum mánuðum síðar fékk lögfræðingurinn ávísun upp á helming þeirrar upphæðar frá tengdaföðurnum. Fjármálaeftirlitið lét frysta afrakstur hlutabréfakaupanna meðan málið var í rannsókn. Í vor voru tengdafeðgarnir á endanum dæmdir í átta mánaða fangelsi - já hvorki meira né minna - fyrir þessi innherjaviðskipti.

Dómurinn þykir mjög strangur en er liður í því að taka innherjaviðskipti og annað markaðssvindl föstum tökum. Afraksturinn var gerður upptækur á endanum. Viðkomandi menn eru engir stórkarlar í ensku viðskiptalífi svo fréttir um fangelsun þeirra lenti ekki á neinum forsíðum. Það er hins vegar athyglisvert hvað dómurinn er þungur: átta mánaða fangelsi fyrir innherjaviðskipti í eitt skipti og illa fengnar tíu milljónir króna. Fjármálaeftirlitið hér hefur lýst því yfir að dómurinn og fleiri innherjaviðskipti sem eru í rannsókn sé ábending um að eftirlitið ætli að taka hvers lags markaðsmisnotkun mjög föstum tökum.

Einkaaðilar sem fara í mál geta farið fram á frystingu eigna rétt eins og opinberir aðilar. En svona kjarnorkuvopni má ekki veifa af neinni léttúð. Það eru ýmislegar kringumstæður sem getur leitt til þess að þetta öfluga vopn er notað. Þegar verið er að höfða mál gegn aðilum sem áður hafa orðið uppvísir að svikum eða glæpsamlegu athæfi, eða sem hafa sýnt tilburði til að koma eignum undan er þessi leið farin. Þá er viðkomandi einfaldlega ekki treyst.

En þar sem frysting getur valdið fjárhagslegum skaða verður sá sem fer fram á eignafrystingu að borga kostnaðinn sem hlýst af ef í ljós kemur að frystingin var ekki réttmæt. Og vei þeim sem brýtur gegn eignafrystingu! Það fellur undir að sýna dómstól fyrirlitningu og er einfaldlega mjög alvarlegur glæpur.

Það hefur vakið athygli að eignir bandaríska svikahrappsins Bernard Madoff voru frystar meðan mál hans var í rannsókn. Nú verða eignirnar gerðar upptækar þar sem hann hefur verið dæmdur, í 150 ára fangelsi eins og kunnugt er. Kona hans fær þó að halda eftir eignum sem eiga að duga henni til framfærslu.

Hér í Englandi hafa ekki komið upp nein svona stór fjársvikamál svo það er ekki hægt að benda á neinar hliðstæður. En kjarnorkuvopnið er til og það er notað. Lögunum var breytt fyrir nokkrum árum sem gera það að verkum að það er auðveldara en áður að bæði frysta eignir og síðan að gera þær upptækar. Áður var það flókið og seinlegt ferli að fá dómsúrskurð. Nú er þetta aðgerð sem hægt er að fá skorið úr með hröðum og einföldum hætti. Það hefur því haft í för með sér að það er nú orðið algengara að frystingu sé beitt.

Og frysting gildir ekki aðeins eignir sem viðkomandi á þegar frystingu er komið á heldur eignir sem hann fær eftir það. Tilgangurinn er að koma í veg fyrir að viðkomandi hafi minnsta möguleika á að selja eða eiga önnur viðskipti með eignir sem grunur er á að séu annaðhvort fengnar með sviksamlegum hætti eða eigi að fara upp í gjaldþrotakröfur eða aðrar kröfur.

Það sem menn hérlendis verða að taka með í reikninginn er að eignir þeirra geta verið frystar meðan mál eru í rannsókn. Þeir geta því vel átt von á því að einn góðan veðurdag birtist fulltrúar laganna og taki eignir eins og bíla, loki bankareikningum og öðrum aðgangi að eigum. Saksóknari þarf aðeins að færa rök fyrir að eignirnar séu hugsanlega afrakstur ólöglegrar starsemi. Þau rök þurfa ekki að vera jafn veigamikil og forsendur sem eru notaðar í rétti.

Eins og áður er nefnt eru engin stór fjársvikamál hér sem gætu verið hliðstæður mála sem hugsanlega gætu komið upp á Íslandi. Serious Fraud Office, stofnunin sem rannsakar viðamikil efnahagsafbrot, nýtir óspart frystingu eigna þar sem það þykir eiga við.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hver gefur fyrirmælin?

Ég gekk fram hjá Austurvelli rétt fyrir tólf á leiðinni heim. Skömmu seinna heyrði ég af svölunum hjá mér að lögreglan varaði við einhverju. Ekki grunaði mig að það væri táragas. Um klukkan 1.45 fór ég aftur út á svalir og heyrði enn hávaða neðan úr miðbæ. Mig langar að vita, eftir að hafa séð ýmislegt með eigin augum og heyrt fjölmargar frásagnir sjónarvotta, séð myndir og myndskeið: Hver gefur lögreglumönnunum fyrirmæli? Er ríkislögreglustjóri í löggu og bófaleik? Dómsmálaráðherra? Forsætisráðherra? Hver?Þeir eru óskaplega viðkvæmir fyrir "valdstjórninni" og valdinu er óspart beitt á öllum vígstöðvum. Þetta viðtal við Björn Bjarnason er makalaust. Hitt er svo aftur annað mál að maður kastar ekki grjóti eða múrsteinum í fólk, hvort sem það eru lögreglumenn í óeirðabúningum eða aðrir. Slík framkoma eyðileggur ótrúlega mikið fyrir öðrum og annars konar mótmælum, friðsamlegum en kannski háværum. Lesið frásögn Heiðu hér. Hún kallar þetta fólk mótmælendasníkjudýr.

En hér eru fréttir gærdagsins - það er allt að verða vitlaus en Geir Haarde virðist ekki fatta það. Hann ÆTLAR að sitja áfram hvað sem tautar og raular. Hans lýðræði er bara á fjögurra ára fresti og þess á milli á pöpullinn að halda kjafti. Þvílík firring og valdníðsla. Samfylking í Reykjavík og víðar búin að álykta um stjórnarslit, minnihlutastjórn bíður átekta en Geir gat ekki heyrt á Ingibjörgu Sólrúnu að neitt hefði breyst. Þetta hlýtur að verða með sögulegri landsfundum hjá Flokknum.

Aukafréttatími RÚV klukkan 14

 

Mbl Sjónvarp

 

Kvöldfréttir Stöðvar 2

 

Ísland í dag - viðtal við forsætisráðherra

 

Kvöldfréttir RÚV

 

Kastljós - hér kennir ýmissa grasa og lítt kræsilegra

 

Tíufréttir RÚV

 

 Að lokum grein úr Mogga í gær eftir Herdísi Þorgeirsdóttur, prófessor

Herdís Þorgeirsdóttir - Mbl. 21.1.09


mbl.is Táragasi beitt á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Piparúðapælingar

Frétt ein í tíufréttum RÚV vakti athygli mína umfram aðrar í gærkvöldi. Hún fjallaði um að Landsspítalinn hefði gefið út meðferðarleiðbeiningar vegna piparúða og táragass. Fréttin var svona:

 Ekki er nokkur leið að skilja fréttina öðruvísi en að piparúði og táragas sé eiturefni af vondri sort. Baneitraður andskoti sem getur haft skelfilegar afleiðingar fyrir fórnarlömbin. Engu að síður hefur lögreglan á höfuðborgarsvæðinu notað piparúða á mótmælendur þrisvar á stuttum tíma - einu sinni sl. vor og tvisvar síðla árs 2008. Af frásögnum sjónarvotta að dæma og myndum og myndböndum frá atburðunum er afar umdeilanlegt hvort ástæða var til svo harkalegra viðbragða. En ekki er ætlun mín að meta það hér og nú, enda var ég ekki vitni.

Svanur Gísli Þorkelsson, margfróður bloggari, skrifaði pistil um daginn þar sem hann segir svolítið frá piparúða. Ég vitna hér í pistil Svans:

"Bannað er að nota piparúða í stríði samkvæmt I.5 grein alþjóðlega sáttmálans um efnavopn sem undirritaður var árið 1993 og varð að alþjóðlegum lögum 29. apríl 1997.  Sáttmálin er viðauki við hinn svokallaða Genfarsáttmála sem hefur verið í gildi frá því 1925...

...Á Íslandi er piparúði notaður af lögreglu en ólöglegt er fyrir almenning að bera eða beita slíku vopni."

Það er semsagt bannað að nota piparúða í stríði samkvæmt alþjóðlegum samningum og hann er flokkaður sem efnavopn.

Engu að síður notar lögreglan á Íslandi þetta baneitraða efnavopn gegn mótmælendum í einhverjum almestu og alvarlegustu hamförum af mannavöldum sem dunið hafa yfir þjóðina. Þegar ekkert er í rauninni sjálfsagðara og eðlilegra en að fólkið í landinu mótmæli - og það harðlega. Og bæði lögregla og stjórnvöld vita að mótmælin eru rétt að byrja þar sem ekki bólar á að nokkuð breytist eða hinir ábyrgu axli sína ábyrgð, hvorki pólitíska, siðferðilega né annars konar. Það er löngu vitað hverjir eru ábyrgir - þeir vilja bara ekki viðurkenna það. Sjáið þetta til dæmis. Enn ganga allir lausir og allir sitja sem fastast í sínum stöðum og embættum.Er nema von að fólk mótmæli!

Þetta er afskaplega athyglisvert, stórfurðulegt og eiginlega verulega óhugnanlegt. Ég mæli með því að yfirvöld og lögregla endurskoði notkun sína á efnavopnum. Er ekki nóg að valda fólkinu í landinu efnahagslegum, sálrænum og tilfinningalegum skaða? Þarf að valda fólki skaða af völdum efnavopna líka?


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband