Færsluflokkur: Dægurmál
7.11.2008
Helvíti á jörðu - og gott betur
Ég heyrði fyrst í henni í Krossgötunum hans Hjálmars á Rás 1 í mars. Frásögn hennar fór inn um annað og út um hitt. Svona getur aldrei gerst á Íslandinu góða, hugsaði ég með mér. Svo endurflutti Hjálmar viðtalið í október og þá var innihaldið orðið raunverulegra og mér var brugðið. Síðan heyri ég í henni enn einu sinni í viðtali við Björgu Evu Erlendsdóttur í Mótbyr dagsins í Samfélaginu í nærmynd á þriðjudaginn.
Nú brá svo við að ég sat sem lömuð og hlustaði. Þvílík frásögn, þvílíkar hörmungar sem konan var að lýsa, þvílíkur veruleiki. Morguninn eftir heyrði ég enn og aftur í henni í Morgunútvarpi Rásar 2 og þá var mér allri lokið. Í áfallinu - sem var nógu mikið fyrir - gerði ég mér allt í einu grein fyrir því, að þetta getur mögulega verið það sem stefnir í hér á Íslandi. Eða hvað? Er ég í afneitun ef ég trúi því ekki? Er ekki skynsamlegra að gera eins og oft er sagt - að vona það besta en búa sig undir það versta? Það gagnar alltént ekki að loka augum og eyrum og segjast vera búinn að fá nóg af hörmungarsögum. Samkvæmt frásögninni er ballið varla byrjað og betra að vera viðbúinn.
Konan heitir Sigurbjörg Árnadóttir og býr á Akureyri. Hún bjó í Finnlandi þegar kreppa skall á þar í byrjun tíunda áratugar síðustu aldar og upplifði þar skelfilegan veruleika sem hún segir frá í þessum viðtölum. Hún lýsir aðdraganda kreppunnar sem er nákvæmlega sá sami og hér, viðbrögðum finnskra stjórnvalda - og skorti á þeim, öllum mistökunum sem gerð voru og afleiðingum þeirra. Bæði stjórnvöld og almenningur á Íslandi geta lært ótalmargt á því að hlusta á Sigurbjörgu.
Viðtölin við Sigurbjörgu eru mjög innihaldsrík og hún á gott með að segja frá. Hún lýsir aðdraganda finnsku kreppunnar nákvæmlega eins og aðdragandinn hefur verið hér á Íslandi. Tökum dæmi úr inngangi Bjargar Evu:
Frumskylda stjórnvalda núna, bæði í ríkisstjórn og sveitarstjórnum, er að virkja orkuna og reiðina í þjóðfélaginu til nytsamlegra hluta. Þá þurfi að gera áætlanir fyrir fólk, áður en allt er komið í kaldakol en ekki á eftir. Verst af öllu sé að bíða og horfa á eftir fólki inn í atvinnuleysi, þunglyndi og uppgjöf. Þá geti fólk fljótt horfið út úr samfélaginu og ekki átt afturkvæmt. Hún segir líka grunnatriði að stjórnvöld haldi fólki algjörlega upplýstu um stöðuna frá degi til dags, eftir allra bestu vitund.
Brot úr viðtalinu, Sigurbjörg segir:
- Aðdragandinn er mjög líkur, nema þeir voru ekki alveg jafn siðlausir, ráðamenn, á sínu fylleríi og við höfum verið...
- Bankastjórar og bankastarfsmenn voru dregnir fyrir dóm fyrir rest og eftirlit með bönkum var hert eftir þetta... Það var leitað að sökudólgum og þeir fundust.
- Mér er mjög minnisstætt að árið 1996 var svo komið að á milli 15 og 20 prósent skólabarna voru talin í bráðri þörf fyrir geðhjálp sem þau fengu ekki...
- Fólk missti atvinnu, það var dýrt, fólk svalt, biðraðir fyrir utan hjálparstofnanir og kirkjur voru kílómeterslangar. Þú sást stundum þá sem höfðu verið ríkir yfirmenn í banka róta í ruslatunnum nágrannans eftir mat.
- Þegar verst var hófust skólar á mánudagsmorgni á heitri máltíð þar sem börn höfðu ekki fengið að borða síðan þau fóru heim á föstudeginum. Fólk svalt.
- Það sem yfirvöld eru að gera rangt núna er að þau eru ekki að gera neitt. Það er bullandi, réttlát reiði í þjóðfélaginu og hana á að virkja strax til að byggja upp og forðast tilgangslaust atvinnuleysi eins og heitan eldinn.
Ég treysti mér hreinlega ekki til að hafa meira eftir Sigurbjörgu, en viðtölin við hana eru öll í tónspilaranum ofarlega til vinstri á síðunni. Til að auðvelda fólki að finna þau raðaði ég þeim efst með því að merkja þau A1, A2 og A3. Það verða ALLIR að hlusta á Sigurbjörgu. Hún hefur reynsluna, segir frá henni tæpitungulaust og hún hefur hugmyndir um hvernig þarf að bregðast við.
Í fyrradag, um leið og ég hafði birt þessa færslu eða kl. 17.28 þann 5.11., sendi ég þremur ráðherrum og fimm þingflokksformönnum tölvupóst til að biðja um skýringar. Í leiðinni lagði ég til að þeir hlustuðu á viðtölin við Sigurbjörgu með það fyrir augum að læra á sögu hennar og bregðast við nú þegar. Enginn þeirra hefur virt mig svars.
Eftir er að geta þess, að í Morgunblaðinu sl. miðvikudag var viðtal við Sigurbjörgu sem ég set inn hér. Smellið á greinina þar til læsileg stærð fæst.
Eftir þetta má ég til með að setja inn hluta af Kastljósinu í gærkvöldi. Konan í viðtalinu, Elín Ebba Ásmundsdóttir, frásögnin og geðræktarkassinn snertu mína hjartastrengi.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 03:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (49)
6.11.2008
Klassískur kommúnistaleiðtogi
Ég geymi allt mögulegt og á því ýmislegt í fórum mínum sem vert er að grafa upp ef þannig stendur á. Hér er grein sem ég klippti út í maí 2001, skannaði og sendi fólki í tölvupósti. Ekki kemur fram í hvaða blaði greinin birtist. Set þetta hér inn svona meira til gamans og dæmi hver fyrir sig um innihald greinarinnar. Varla þarf að kynna greinarhöfund, hvað þá viðfangsefni hans. Hefur eitthvað breyst á þessu 7 og hálfa ári?
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 20:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
Ef ég væri ekki orðin svona harðsvíruð vegna atburða undanfarinna vikna hefði ég líklega vorkennt Gunnari Páli Pálssyni. Hann var aumkunarverður og lenti hvað eftir annað í mótsögn við sjálfan sig í viðtalinu við Sigmar. Gunnar Páll á að heita verkalýðsleiðtogi og gæta hagsmuna launþega - okkar minna megandi í samfélaginu. Finnst fólki hann hafa gert það eða er hann sekur um siðblindu? Hér er yfirlýsing formannsins og ég hvet fólk til að skoða eitthvað af bloggpistlunum við fréttina. Og frétt Eyjunnar um málið fékk gríðarleg viðbrögð. Fólk er ekki reitt, það er brjálað. Ef ég væri í VR myndi ég sjálfsagt gera þetta eins og Þráinn.
Strax á eftir Gunnari Páli ræddu þeir Atli Gíslason og Pétur Blöndal málið. Takið sérstaklega eftir skynsamlegum og rökföstum málflutningi Atla og hvað Pétur er ótrúlega sammála honum í flestu.
Ég má til með að bæta þessu við. Ekki bara af því sama mál kemur hér við sögu heldur líka vegna þess að Agnes var eitthvað svo mjúk og kát í kvöld - og mikið til sammála Sigurði G. eins og Pétur sammála Atla. Hún leitaði meira að segja lögfræðiálits hjá honum. Þetta var eitthvað svo sætt eftir öll rifrildin þeirra. Ætli eignarhald Jóns Ásgeirs á Mogganum hafi þessi áhrif á Agnesi? Ja, maður spyr sig...
Ég er viss um að allir hafa tekið eftir því hvað fólki í ábyrgðarstöðum finnst sjálfsagt að ástunda spillingu, klúðra hlutum og vera með allt nið'rum sig án þess að þurfa nokkurn tíma að gjalda þess, hvað þá að axla ábyrgð. Ætli þetta sé ástæðan?
Og til að sem flestu sé haldið til haga vísa ég á þessa færslu Kristjönu sem aftur vísar í Baldur McQueen, sem góðu heilli er farinn að blogga aftur! Fylgist með þeim og í öllum bænum lesið þetta!
Burt með spillingarliðið, hvar í flokki sem það stendur!
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 00:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (31)
5.11.2008
Hvað í *********** á þetta að þýða?
Ég ætla að afrita þetta af Orðinu á götunni. Hvað er maðurinn að gera þarna ennþá? Var hann ekki búinn að gera nóg af sér? Er hann á launum hjá hinu opinbera? Eru honum borguð laun úr vösum skattgreiðenda? Hefur hann aðgang að pappírstætaranum? Ég vil fá svör og það strax, Björgvin G. bankamálaráðherra? Geir forsætis? Aðrir ráðherrar eða þingmenn...?
Orðið á götunni er að Sigurjón Árnason, fyrrum bankastjóri Landsbankans, sé enn að störfum í bankanum á nýrri skrifstofu, sem hafi verið sérstaklega innréttuð fyrir hann. Hann er enn sagður leggja í gamla bankastjórabílastæðið sitt eins og ekkert hafi í skorist og spígspora um bankann eins og sá sem öllu ræður.
Einum starfsmanna bankans ofbýður þetta svo að hann getur ekki orða bundist lengur: Svo virðist sem í raun hafi ekkert breyst í Landsbankanum þrátt fyrir fall hans. Sigurjón Árnason er ennþá allt í öllu þar. Hann virðist stýra öllu í gegnum konuna sem enginn veit hvað fær í laun. Samkvæmt fréttatilkynningu sem gefin var út þegar Sigurjón og Halldór létu af störfum var sagt að þeir myndu verða hinum nýja banka til ráðgjafar einhvern tíma.
Staðreyndin er sú að ennþá kemur Sigurjón á sínum bíl og leggur í stæði bankastjóra. Hann fékk undir sig heila hæð yfir Reykjavíkurapóteki sem bankinn er með á leigu. Þar var allt innréttað uppá nýtt fyrir hann í hvelli og þar starfa honum til aðstoðar hátt í 10 starfsmenn!!!!!!!!!!! Hvað skyldi gerast þar???? Um þetta má ekki tala í bankanum og mikið pukur er í kringum þessa starfsemi Sigurjóns. Ég hef grun um að enginn geri sér grein fyrir hversu fyrirferðarmikilir gömlu stjórnendurnir eru enn þann dag í dag. Í það minnsta gengur Sigurjón um ganga eins og maðurinn sem öllu ræður.
Því miður hefur lítið sem ekkert breyst.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (74)
5.11.2008
Sannfærandi skýringar - svona var þetta!
Hver hefur sinn háttinn á að leita orsaka og afleiðinga.
Þessir ágætu menn kafa djúpt og annar er með allt á hreinu - fyrri hluti
Málið skýrist smátt og smátt - seinni hluti
Aðrir reyna að syngja sig frá vandanum
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
4.11.2008
Geta skal þess sem vel er gert...
Ég tek ofan fyrir Boga Nilssyni fyrir að draga sig út úr skýrslugerðinni eða rannsókninni. Það á Valtýr að gera líka og það er beinlínis lífsspursmál fyrir þjóðina og framtíðina að fá erlenda sérfræðinga til að rannsaka öll þessi mál - alla bankana, stjórnsýsluna og þátt stjórnmálamanna í efnahagshruninu. Strax. Málið þolir enga bið. Lesa má a.m.k. hluta úr bréfi Boga hjá Agli Helga hér. Mjög athyglisverð lesning.
...og hins sem angar af spillingu.
Þetta var í fréttum Stöðvar 2 í kvöld og þarna er bara verið að fjalla um Kaupþing. Eitt af því sem er nauðsynlegt að gera er að fá lista yfir alla þá sem seldu hlutabréf í öllum bönkunum síðustu mánuðina fyrir hrunið, allar stórar millifærslur eins og þá sem hér um ræðir og rannsaka gaumgæfilega hvort einhverjir vildarvinir hafi fengið að losa fé sitt úr þeim sjóðum sem voru almenningi lokaðir. Því lengur sem þetta dregst því meiri líkur eru á að unnt verði að hylja sporin.
Upphæðir fengnar úr fjölmiðlum.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
3.11.2008
Spillingarbælið Ísland
Ég hef aldrei skilið af hverju Ísland mælist svo óspillt hjá Transparency International sem mælir spillingu í stjórnsýslu 180 þjóða heims. Við vorum í 7. sæti síðast yfir MINNSTA spillingu, þar áður í 6. sæti og höfðum þá reyndar hrapað úr því fyrsta. Ég skrifaði um spillingu t.d. hér, hér, hér og hér. Reyndar um lögbrot ráðamanna líka.
Af nógu er að taka þegar spilling er annars vegar í stjórnsýslunni og víðar á Íslandi. Í dag gekk tölvupóstur ljósum logum milli manna og bloggsíður voru undirlagðar af efninu. Staðfest var í kvöldfréttum Ríkisútvarps og beggja sjónvarpsstöðvanna að efni tölvupóstsins ætti við rök að styðjast: Kaupþing hafði afskrifað skuldir valinna starfsmanna, væntanlega skuldir sem þeir höfðu komið sér upp vegna kaupa á hlutabréfum í bankanum. Þetta gerðist rétt fyrir hrun bankanna. Upphæðin er sögð vera um 50 milljarðar, peningar sem við hin þurfum að borga því verðmæti bankans lækkaði auðvitað sem þessu nam. Spilling? Ekki spurning. Lögbrot? Örugglega.
Þúsundir Íslendinga eru með útistandandi lán í bönkunum, fjöldi fólks átti hlutabréf í þeim og hafði jafnvel veðsett eignir til að kaupa þau. Þetta fólk fær væntanlega ekki að afskrifa skuldirnar þótt eignin sé töpuð. Ég er með húsnæðislánið mitt í Kaupþingi og það hefur hækkað um nokkrar milljónir á skömmum tíma þótt það sé í íslenskum krónum en ekki erlendri mynd. Það er um það bil að verða mér ofviða. Ætli ég geti fengið það afskrifað hjá bankanum?
Rannsókn er hafin á starfsemi gömlu bankanna þriggja. Það á að vinna skýrslu um þessa banka og kanna hvort ástæða sé til lögreglurannsóknar á starfsemi þeirra síðustu mánuðina fyrir hrunið. Eins og sést á dæminu hér að ofan er svo sannarlega ástæða til þess. Til starfans valdi Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, Valtý Sigurðsson, ríkissaksóknara og Boga Nilsson, fyrrverandi ríkissaksóknara. Svo "óheppilega" vill hinsvegar til að sonur Valtýs er m.a. forstjóri Exista, aðaleiganda gamla Kaupþings og sonur Boga m.a. forstöðumaður Stoða, stærsta hluthafa gamla Glitnis. Eru þeir Valtýr og Bogi vanhæfir til starfans? Að sjálfsögðu! En þeim finnst það ekki. Spilling? Pottþétt.
Maður gerir vel við vini sína, eða hvað? Hvað er rúm milljón á mánuði á kostnað Reykvíkinga? Það er að minnsta kosti svolítið minna en andvirði 500 milljónanna af peningum Reykvíkinga sem OR samdi um að borga Sveitarfélaginu Ölfusi gegn greiðvikni í skipulags- og byggingamálum vegna virkjana. Spilling? Það er nokkuð ljóst.
Augu heimsins hvíla á okkur. Erlendir fjölmiðlar fylgjast grannt með hvað hér er að gerast og hvernig tekið er á því. Aðgerðarleysi stjórnvalda hefur vakið furðu og þá einkum að enginn hafi verið látinn sæta ábyrgð, ekki einu sinni aðalbankastjóri Seðlabankans sem hæðst er að fyrir vanhæfni um víða veröld. Maðurinn sem gaspraði um Rússalánið og lýsti því yfir að ekkert yrði borgað af erlendum skuldum bankanna. Nú eiga tveir ríkissaksóknarar að rannsaka m.a. syni sína. Hvar í veröldinni myndi þetta vera liðið?
Nafna mín Júlíusdóttir sagði: VÖNDUM OKKUR. Ég tek undir með henni og hvet fólk eindregið til að kíkja á þessa bloggfærslu hjá Bylgju, sem ég sá vísað í hjá Kristjönu, bloggvinkonu. Þvílík sjálfsblekking í gangi þarna! Eða trúðu þeir þessu kannski?
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (45)
1.11.2008
Mætum á útifundinn á Austurvelli í dag
Fyrir hálfum mánuði skrifaði ég þetta: "Svo horfum við á fréttir í sjónvarpinu og göpum yfir myndum sem sýna fjöldamótmæli í útlöndum þar sem þau þykja sjálfsögð. Myndum sem sýna tugþúsundir borgara þramma um götur og torg með spjöld hrópandi skoðanir sínar og vilja til að beita yfirvöld lýðræðislegum þrýstingi. Við erum ýmist full aðdáunar eða fyrirlitningar en rumskum og rísum upp við dogg þegar í ljós kemur að mótmælin í útlöndum báru árangur. Spyrjum: Af hverju gerum við aldrei neitt svona? Já, af hverju? Af hverju eru Íslendingar svona frábitnir mótmælum en fagna samt þegar einhver gerir eitthvað eins og flutningabílstjórar fyrr á árinu? Ísland á að heita frjálst þjóðfélag þar sem við megum segja skoðun okkar og mótmæla ef á okkur er brotið - en við gerum það ekki. Við kunnum ekki að meta frelsið til að mótmæla en vorkennum þeim þjóðum sem hafa það ekki."
Í dag las ég þessa frétt á Eyjunni. Þetta fólk kann ekki að skammast sín. Á meðan þúsundir eru að missa vinnuna fær forsætisráðherrafrúin, sem áreiðanlega lepur ekki dauðann úr skel og var auk þess formaður nefndar um byggingu "hátæknisjúkrahúss" síðast þegar ég vissi, þessa fínu og virðulegu stöðu. Hvaða laun ætli hún fái fyrir djobbið? Buðust engir betri eða er bara verið að hampa sér og sínum? Þetta er ósvífni. Taktleysi af verstu sort og blaut tuska framan í blæðandi þjóð. En þeim er sama, þau þurfa hvort sem er ekki að axla neina ábyrgð á gjörðum sínum og þessir þjónar þjóðarinnar eru ósnertanlegir og ráða því sjálfir hvort þeir verða reknir eður ei.
Fyrir hálfum mánuði skrifaði ég líka: "Á morgun, laugardag klukkan 15, er boðað til mótmæla á Austurvelli. Fólk er hvatt til að vera þátttakendur, ekki þolendur. Þetta eru ekki flokkspólitísk mótmæli, ekki skotgrafahernaður, ekki kommúnistar, múgur, skríll eða hyski heldur ofurvenjulegt fólk, almenningur á Íslandi að láta skoðun sína í ljós með því að mæta. Að krefjast þess að gert verði hreint í skúmaskotum rotinna innviða stjórnsýslunnar. Að krefjast þess að hagur þjóðarinnar verði tekinn fram yfir flokkshagsmuni og hagsmuni örfárra, útvalinna einstaklinga sem hafa plantað sér í dúnmjúk, vellaunuð hásæti og neita að standa upp. Að krefjast réttlætis í stað ranglætis."
Og í kvöld sá ég þetta á RÚV og Mbl.
Hvernig í ósköpunum er hægt að ætlast til þess að við trúum og treystum fólki sem hagar sér eins og það þurfi aldrei að standa þjóðinni skil á gjörðum sínum, segir ýmist ósatt eða ekki neitt og talar í kross eins og lesa má hér á Eyjunni? Lesið þennan stórfína pistil Marinós G. Njálssonar þar sem hann segir betra lýðræði í Austur-Evrópu en á Íslandi. Sláandi lestur.
Fyrir hálfum mánuði mættu um 2.000 manns til að mótmæla á Austurvelli og svipaður fjöldi á tvo fundi fyrir viku. Þetta er fáheyrð mæting á mótmæli á Íslandi. En lögreglan kann ekki að telja og sá bara 500 og fjölmiðlar höfðu það eftir þrátt fyrir fjölda mynda og myndbanda sem sýndu annað. Í dag, laugardag, verður aftur útifundur á Austurvelli klukkan 15. Á undan fundinum, kl. 14, stendur hópur fólks fyrir mótmælagöngu frá Hlemmi sem endar á fundinum á Austurvelli. Ræðumenn á fundinum verða Pétur Tyrfingsson og Lárus Páll Birgisson. Ávörp flytja Óskar Ástþórsson, Díana Ósk og Ragnhildur G. Guðmundsdóttir.
Ég hvet fólk til að mæta annað hvort í gönguna eða á fundinn - eða bæði í gönguna og á fundinn. Ekki láta andúð ykkar á einhverjum einstaklingum sem hafa haft sig í frammi hindra ykkur í að tjá skoðun ykkar með því að mæta. Það er allt of mikið í húfi til þess. Hörður Torfason, sem stendur fyrir fundinum, er friðarins maður og hvetur til samstöðu. Aldrei er hægt að gera öllum til hæfis eða hindra að einhverjir séu með athafnir sem fólki mislíkar. En það er auðvelt að leiða slíkt hjá sér og sýna samstöðu með því að mæta.
Hér er myndband sem Hjálmtýr V. Heiðdal, kvikmyndagerðarmaður, setti saman eftir mótmælin fyrir hálfum mánuði.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 02:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
31.10.2008
Ljós í myrkrinu
Þegar ég renndi yfir Moggann í gær sá ég ljós í myrkrinu - og það var góð tilfinning.
Þessi óskapnaður, nýjar höfuðstöðvar Glitnis, mun að líkindum ekki rísa á Kirkjusandi.
Og þessir hroðalegu kassar, nýr Landsbanki, munu ekki rísa í gamla miðbænum í Reykjavík.
Góð ábending frá Emil í athugasemd - glerhöllin World Trade Center milli Hafnarstrætis og tónlistarhúss
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 01:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)