Lögbrot ráðamanna

Mannamálið hans Sigmundar Ernis á Stöð 2 á sunnudagskvöldum er alveg sérdeilis góður þáttur. Hæfilega langur með mjög þægilegri blöndu af efni. Hinir og þessir gestir koma til Simma og "fastir liðir eins og venjulega" eru gyðjumlíku gáfudísirnar Katrín Jakobsdóttir og Gerður Kristný.

Ekki spillir svo fyrir að Einararnir tveir, rithöfundarnir Kárason og Már Guðmundsson flytja pistla til skiptis. Oftar en ekki fá þeir mann til að sperra eyrun og hugsa... íhuga mál frá öðru sjónarhorni en hingað til. Þeir hrista stundum upp í heilasellunum svo um munar og ýta hressilega við manni eins og Simmi reyndar líka.

Síðasta sunnudagskvöld var Kárason á ferðinni og eftir að hafa hlustað á hann spurði ég sjálfa mig í hálfum hljóðum: "Hvenær breytist þetta? Hvað þarf til? Ætlar þjóðin aldrei að vakna af Þyrnirósarsvefninum?" Það varð fátt um svör og mér varð hugsað til pistils Illuga Jökulssonar frá 2002 og ég birti hér.

Ráðamenn þjóðarinnar verða hvað eftir annað uppvísir að spillingu og lögbrotum en þurfa aldrei að svara fyrir það á meðan almenningur er dæmdur mishart fyrir smávægilegustu yfirsjónir. Hlustið á hann Einar Kárason. Alveg burtséð frá hvaða mál hann er að tala um - þetta er alltaf að gerast. Er það bara ég - eða finnst fólki þetta virkilega í lagi?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Að mörgu leyti er ég alveg sammála þér. Íslenskir ráðamenn hafa hvað eftir annað gert sig bera að óþolandi yfirgangi og beinum lögbrotum. Hingað til hef ég með sjálfum mér einna helst afsakað þetta með fámenni okkar. Þessir menn hafa oft eitthvað til að bera, þó þeim verði á og jafngóðir menn virðast ekki vera á hverju strái. Svo eru hinir (í þessu tilfelli Jón Ólafsson) oft ekkert betri sjálfir og lögin ófullkomin og allt það. En er þetta ekki bara vitleysa? Eiga menn ekki að bera ábyrgð á gerðum sínum hvað sem öðru líður? Verst er kannski að ráðamenn framtíðarinnar sjá að hægt er að komast upp með næstum hvað sem er og haga sér í samræmi við það.

Sæmundur Bjarnason, 21.5.2008 kl. 05:06

2 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ég er afskaplega hrifin af Mannamáli.  Mér finnst Simmi frábær stjórnandi.  Svo féll ég alveg fyrir handabandinu þegar hann kveður gestina.  Handaband er að verða deyjandi fyrirbrigði í samskiptum fólks.

Gerður og Katrín eru frábærar.

Ég er persónulega hrifnari af pistlum Einars Más en Kárason er flottur líka.  Vissi ekki alveg hvert hann var að fara s.l. sunnudagskvöld, þ.e. í byrjun en þetta var nokkuð flott hjá karli.

Og svo fer Mannamál í sumarfrí eins og Silfrið.  Hættir maður að lifa á sumrin?  Það eru ekki allir úti á landi í tjöldum og fellihýsum.  Ég fæ angist yfir ládeyðunni.

Og nú er ég hætt að blogga á blogginu þínu.

Kveðjur inn í fallegan dag.

Jenný Anna Baldursdóttir, 21.5.2008 kl. 08:02

3 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Lögbrot er ekki lögbrot nema lögbrot sé!

Kjartan Pétur Sigurðsson, 21.5.2008 kl. 08:55

4 Smámynd: Viðar Jónsson

Hafði misst af þessu hvassa skeyti Einars, það er rétt hjá honum að við geispum bara og vonum að það óþægilega gufi upp. Ætla að lesa Jónsbók, hafði hugsað mér hana öðruvísi.

En hvað segir fólk um hryllingsmyndina frá Hafnarfirði þar sem búið er að byggja risagáma og eyðileggja ánægju fólks með að búa í fallegasta hluta bæjarins. Þarna er bæjarstjórnin í hernaði gegn íbúunum. Er ekki einhver sem á dínamít?

Viðar Jónsson, 21.5.2008 kl. 14:04

5 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Ég missti líka af þessum pistli Einars og þakka þér fyrir að minna á hann hér. Þetta er afar góð lýsing á móralnum og maður hefur oft sagt: Hvað ætli þurfi margar kynslóðir til að breyta þessum hugsanagangi þannig að siðferðisstuðull stjórnmálamanna lyftist aðeins? Það er hinsvegar mála sannast að við fáum þá ráðamenn yfir okkur sem við eigum skilið og þessu getur enginn breytt nema við með atkvæðum okkar.

Sennilega þarf einhvern tíma enn, annars finnst mér þetta aðeins vera að snúast, unga fólkið er ekki alveg eins neglt við stjórnmálaflokk ættarinnar og mín kynslóð hefur verið.

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 21.5.2008 kl. 15:58

6 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það mætti nú alveg minnka þessa ömurlegu vinstri slagsíðu á þættinum, en því eru örugglega 90% gesta á þessari síðu ósammála.

Gunnar Th. Gunnarsson, 21.5.2008 kl. 18:13

7 Smámynd: Víðir Benediktsson

Nenni ekki að horfa á Mannamál en það var stór dagur í dag. Til hamingju.

Víðir Benediktsson, 21.5.2008 kl. 23:40

8 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Sæmundur... það á ekki að skipta máli HVER brýtur lög - þau hljóta að ná yfir alla. Víst eru lög ófullkomin eins og öll mannanna verk og þau stangast oft á, en til þess eru þingmennirnir að breyta vondum lögum, bæta þau og stefna að réttlæti fyrir alla - ekki bara suma. Og punkturinn hjá þér í síðustu setningunni er frábær: "Verst er kannski að ráðamenn framtíðarinnar sjá að hægt er að komast upp með næstum hvað sem er og haga sér í samræmi við það."

Já, Erlingur þetta gekk vel með mótmælin og athugasemdirnar - en árangurinn núna er ekki í framhaldi af athugasemdunum frá í síðustu viku heldur frá í nóvember sl. Og þú veist að mótmæli eru bönnuð á Íslandi. Þeir sem mótmæla eru úthrópaðir, einkum af ríkjandi yfirvöldum, og fá á sig einhvern kverúlantastimpil sem er hrópandi ósanngirni.

Ég var að setja inn pistil með Einari Má - alveg spes fyrir þig og Hallgerði, Jenný...    Og svo er þér velkomið að blogga á blogginu mínu hvenær sem er. Það verður dauflegt í sumar sjónvarpslega séð, en þá er bara að drífa sig út og skoða t.d. Ölkelduhálsinn. Kemurðu með í svosem eins og eina ferð þangað?

Óvenju rökfastur þarna, Kjartan Pétur! 

Þú ert búin að fá pistil með Einari Má, Hallgerður... njóttu og passaðu veggina hjá þér - eða öllu heldur veggjaskrautið. Stundum er brothætt á veggjum.

Viðar... heyrðirðu Krossgötur Hjálmars Sveinssonar 10. mái? Hann var í Hafnarfirði. Hlustaðu hér.

Hafsteinn... þessir pistlar Einaranna eru hver öðrum betri. Þeir hafa oft ólíkar skoðanir og það er bara gott. Ég held að þetta sé alveg rétt hjá þér með að unga fólkið sé ekki eins njörvað við flokkana og fólk var hér áður fyrr og eimir eftir af ennþá.

Guðlaugur... þetta með að álit Skipulagsstofnunar hafi ekki verið bindandi lagalega séð var vitað - enda bara álit. Vígtennurnar voru dregnar úr Skipulagsstofnun með lagabreytingu 2006 þar sem úrskurði hennar var breytt í álit eingöngu. Viðtalið sem þú heyrðir í hádegisfréttunum var úr viðtali við Aðalheiði Jóhannsdóttur, dósent í lögum og sérfræðing í umhverfisrétti, í Speglinum á þriðjudagskvöld. Það er í tónlistarspilaranum í heild sinni.

Til hamingju sömuleiðis, Viðar. Þetta var taugatrekkjandi leikur, sérstaklega þarna í blálokin, en okkar menn höfðu þetta! 

Lára Hanna Einarsdóttir, 22.5.2008 kl. 00:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband