Færsluflokkur: Lífstíll

Þetta líst mér vel á!

Bankakreppan hefur haft ýmsar hliðar. Meðal annars þá, að um tíma vissi enginn hvað yrði um sín bankaviðskipti, innistæður eða skuldir og ekki er búið að gera allt upp enn . Átti maður að fara eða vera? Flýja - og þá hvert? Það var alls staðar sama sukkið, sama óráðsían, vafasamir eigendur og bankastjórar.

Ég er búin að sjá ljósið. Það voru ekki allir að sukka og svalla og þenja sig út óverðskuldað. Ef dæmið hjá MP með SPRON gengur upp ætla ég að flykkjast þangað og vona að fleiri geri slíkt hið sama, þótt ekki sé nema til að sýna velþóknun á ráðdeild stjórnendanna og stuðning í verki. Ekki sakar að stuðla að því í leiðinni að fleiri starfsmenn SPRON haldi vinnunni. Ég vona bara að þeir taki við mér þótt ég eigi ekki ónýta krónu með gati. Ég leik bara í auglýsingu fyrir þá í staðinn... eða eitthvað.

Mér líkar vel við svona menn með slíkan málflutning!


Tónleikar sem enginn má missa af

Ég hef bara tvisvar farið á tónleika hjá honum þótt hann hafi alltaf verið í uppáhaldi hjá mér. Samt hefur hann haldið tónleika á hverju hausti í guðmávitahvaðmörgár. Ég hef kynnst honum undanfarna mánuði á baráttunni fyrir betri heimi og betra Íslandi og gegnumheilli og óeigingjarnari hugsjónamaður held ég sé varla til.

Hann kallar sig söngvaskáld - sem mér finnst svo fallegt orð - og hann heitir Hörður Torfason. Mánuðum saman hefur hann hjálpað okkur hinum. Hjálpað okkur til að öðlast sameiginlega rödd í hremmingunum sem hafa skekið þjóðfélagið okkar. Hann hefur staðið fyrir hverjum fundinum á fætur öðrum á Austurvelli í hvað... 22 vikur. Það eru rúmir 5 mánuðir. Og við höfum náð undraverðum árangri vegna þess að sameinuð stöndum við, sundruð föllum við. Svo einfalt er það.

Allan þennan tíma hefur Hörður verið launalaus og helgað sig baráttunni. Nú er komið að okkur að sýna þakklæti okkar, virðingu og vináttu og mæta á tónleika sem Hörður ætlar að halda næsta þriðjudagskvöld, 10. mars, í Borgarleikhúsinu. Ég er búin að kaupa mína miða og vonast til að sjá sem flesta á þriðjudagskvöldið.

Slóðin er: www.midi.is og síminn í Borgarleikhúsinu er 568 8000. Öll saman nú - sjáumst!

 
Hörður Torfason - tónleikar 10. mars 2009
 
 
 
Svo mæta allir á Austurvöll klukkan 3 í dag!
 
 
Tónleikar Harðar Torfasonar - Moggi 7.3.09

Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Borgarahreyfingin - nýtt framboð

Mér líst vel á fólkið og baráttuna og óska þeim innilega til hamingju með fyrsta skrefið. Baldvin, Birgitta og Valgeir eru öll Moggabloggarar, ég veit ekki um hina. Vefur Borgarahreyfingarinnar er hér. Ég hvet alla til að kynna sér þetta nýja afl í íslenskum stjórnmálum.


Nýtt framboð loks í uppsiglingu?

Loksins gerist eitthvað, vonandi kemur eitthvað gott út úr þessu. Ég skora á áhugasama að mæta á fund Borgarahreyfingarinnar í Borgartúni 3 klukkan 20 í kvöld. Ég hef hitt Herbert Sveinbjörnsson og líst vel á hann þótt ekki geti ég sagt að ég þekki hann. En hér eru tvö nýleg myndbönd þar sem Herbert kom fram.

Silfur Egils 11. janúar 2009

 

Borgarafundur í Háskólabíói 12. janúar 2009

 


mbl.is Borgarahreyfingin býður fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Björgunarsveitir og flugeldar

Mér er meinilla við flugelda og hvers kyns sprengiefni. Hrekk í kút við hávaðann og finnst fnykurinn af þessum óþverra skelfilegur. En ég stóð mína plikt þegar sonur minn var á barnsaldri og keypti minnsta fjölskyldupakkann - alltaf af björgunarsveitinni næst okkur, Ingólfi. Stráknum fannst þetta geggjað!

Svo kom að því að stráksi var tækur í björgunarsveitina Ingólf og sá eftir það sjálfur um allt sem laut að skytteríi á gamlárskvöld. Ég varð ekkert hrifnari af tiltækinu en lét mig hafa það. En þá og næstu árin fékk ég beint í æð vitneskju og reynslu af starfsemi björgunarsveita og því mikla og óeigingjarna starfi sem þar fer fram - svo ekki sé minnst á kostnaðinn sem einstaklingarnir bera sjálfir. Afmælis- og jólagjafir drengsins árum saman voru alls konar græjur sem snertu björgunarsveitina. Síðan hefur mér fundist að björgunarsveitirnar eða Slysavarnarfélagið eigi að hafa einkarétt á sölu flugelda. Skítt með samkeppni, einkaframtak og hvað sem fólk ber fyrir sig.

Mig langar að skora á fólk sem á annað borð kaupir flugelda eða annað fírverkerí að versla við björgunarsveitirnar. Ég ætla meira að segja að kaupa af þeim stjörnuljós, mér finnst það eiginlega lágmark. Sem betur fer hef ég aldrei þurft að leita á náðir björgunarsveitar - ennþá. En maður veit aldrei, það gæti komið að því. Og - eins og stendur í auglýsingunni hér að neðan:

Hvað er þinn flugeldasali tilbúinn til að leggja á sig fyrir þig?

Hvað er þinn flugeldasali tilbúinn til að leggja á sig fyrir þig?

Hér er yfirlit yfir útköll einnar björgunarsveitar - Ársæls - sem varð til við samruna Ingólfs og björgunarsveitarinnar á Seltjarnarnesi sem ég man ekki hvað hét forðum. Hugsið ykkur bara ef við nytum ekki þessa öryggisnets sem björgunarsveitirnar eru!

Útköll - Ársæll - 2008


Fáránleg þróun í launamálum

Fréttin hér að neðan er frá því á miðvikudagskvöldið. Kynbundinn launamunur eykst mjög samkvæmt einni viðamestu könnun sem gerð hefur verið hér á landi og nær yfir allan vinnumarkaðinn, ekki aðeins einstök stéttarfélög, fyrirtæki eða stofnanir. Munurinn hefur aukist um þriðjung á síðustu árum og er mun meiri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu.

Þessu verður að breyta! Hvað ætli þessi setning hafi verið sagt oft undanfarna áratugi? Nú eru 33 ár frá kvennafrídeginum, sællar minningar, en við erum ekki komin lengra en þetta þótt við státum okkur af jafnrétti á ýmsum sviðum - réttilega eða ranglega. Og af Vigdísi sem fyrstu konunni sem kjörin var forseti í lýðræðislegum kosningum. Andskoti er þetta nú aumt. Ég treysti því að á hinu Nýja Íslandi sem verður í mótun næstu mánuði og ár verði tekið fast á þessu máli og það leyst farsællega. Takið í því sambandi sérstaklega eftir orðum Láru V. Júlíusdóttur í viðtalinu í seinni úrklippunni.

Það stakk í augu að á fréttamannafundinum voru aðeins þrír fulltrúar fjölmiðla og þar af tveir frá sjónvarpsstöðvunum. Ætli einhver skýring sé á því? Varla þykir málefnið svo ómerkilegt.

Þessi frétt er frá 11. september 2008 - annað innlegg í umræðuna. Þið munið kannski eftir þessu, en fréttin kom þegar ljósmæðradeilan var í algleymingi og var kaldhæðnislegt innlegg í kjarabaráttu kvennastéttar.



Þá er bara spurning hvort einhverjar kvennahreyfingar verði með uppákomu á Austuvelli kl. 15 í dag eins og síðast þegar þær sveipuðu Jón forseta bleikum klæðum. Munið að mæta!
 
Viðbót: Sigurjón Þórðarson bað um að sjá könnunina. Ég festi hana við hér að neðan.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Mikið svakalega hlakka ég til...

Nýja Ísland - listin að týna sjálfum sér...að lesa þessa bók. Er reyndar byrjuð og strax í fyrsta kafla datt ég í þvílíka nostalgíu og gleymdi mér alveg í barnæskunni og uppvextinum. Við Guðmundur hljótum að vera á svipuðum aldri því upplifunin af fortíðinni er mjög svipuð hjá okkur báðum. Endurlitið er því eðlilega með sömu formerkjum. Ég er þegar búin að gefa systursyni mínum eintak í afmælisgjöf og kannski splæsi ég í jólagjafir líka. En fyrst ætla ég reyna að finna mér tíma til að klára bókina.

Ólína Þorvarðar skrifaði um bókina hér en hún hefur það fram yfir mig að vera búin að lesa hana. Guðmundur var í Silfrinu fyrir réttum mánuði síðan, 26. október, að ræða við Egil um bókina. Sú umræða kveikti hjá mér áhuga á henni og því sem Guðmundur er að skrifa um. Ég hef líka mikinn áhuga á sagnfræði og að skoða hlutina í ljósi sögunnar, þróunina og tengja við nútímann. Það er einmitt það sem mér heyrist í viðtalinu að Guðmundur sé að gera, enda er maðurinn sagnfræðingur. Hér er bloggfærsla höfundar frá 23. okt. þegar bókin var að koma í búðir. Hann er nú farinn að blogga hér. En hér er þetta fína viðtal við Guðmund Magnússon í Silfrinu.


Skyldulesning

Í Mogganum í dag er mjög athyglisverð umfjöllun um lýðveldið og endurnýjun þess. Í viðtali við Gunnar Helga Kristinsson, stjórnmálafræðing, kemur fram að alls ekki sé óeðlilegt eða óalgengt að lýðræðið sé endurmetið og því jafnvel bylt á um 70 ára fresti og bendir hann í því sambandi á Frakkland og Bandaríkin. Hér er þetta - afskaplega holl lesning sem sýnir svo ekki verður um villst að við erum svo sannarlega á hárréttri leið með öll mótmælin og aðgerðirnar um þessar mundir þótt ríkjandi valdhafar hrópi "skrílslæti" og neiti að hlusta. Smellið þar til læsileg stærð fæst.

Lýðveldið Ísland ungt og í mótun

Lýðveldið Ísland í mótun


Spillingarfenið í Framsókn

Ég á bágt með að trúa því að fólk hafi almennt verið undrandi á viðtalinu við Bjarna Harðarson í Kastljósi í gærkvöldi og því sem hann bæði sagði og ýjaði að. Spillingin innan Framsóknarflokksins hefur verið opinbert leyndarmál áratugum saman. Ég vissi þetta löngu áður en ég fékk áhuga á pólitík og vissi ég þó ekki ýkja margt í þá tíð. Það sem við höfum ekki vitað eins vel er hvernig flokkurinn er fjármagnaður og hver(jir) kostuðu auglýsingaskrum flokksins og yfirhalningu frambjóðenda fyrir síðustu borgarstjórnar- og alþingiskosningar, enda bókhald flokksins harðlæst. En ýmsar grunsemdir hafa vaknað í gegnum tíðina og ekki fækkar þeim nú þegar ljóst er orðið hve greiðlega útrásarbarónum og bankastjórum gekk að koma þjóðinni á hausinn á meðan stjórnmálamenn sátu aðgerðarlausir hjá og létu þá komast upp með það. Enda vildi núverandi formaður og fyrrverandi ráðherra til ótalmargra ára ekki tjá sig um málið í tíufréttum kvöldsins á RÚV.

Ætli einhver Sjálfstæðismaður opni munninn um ástandið þar á bæ fljótlega? Varla er það skárra en í Framsókn. Af hverju heldur fólk að Davíð, Geir og co. haldi svona fast í stólana sína? Það kæmi mér nú ekki á óvart þótt einhver myndi syngja og verða þjóðhetja fyrir vikið, ég verð bara að segja það

Úr Kastljósi

Úr Tíufréttum


Ég hef verið að skima eftir umsögnum fjölmiðla um málið en fyrir utan RÚV hef ég ekkert séð nema á Vísi hér. Þar segir:

Bjarni Harðar: Flokkseigendur vildu Framsókn áfram við völd

Bjarni Harðarson, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins, segir að áhrifamenn í flokknum hafi lagt mikla áherslu á að endurnýja samstarfið við Sjálfstæðisflokkinn eftir síðustu kosningar. Jón Sigurðsson, þáverandi formaður flokksins lýsti því yfir á kosninganóttina að flokkurinn hlyti að víkja úr stjórn eftir tapið.

Bjarni segir hins vegar í væntanlegri bók sinni að skömmu síðar hafi Jón skipt um skoðun og að til hafi staðið að tryggja Jóni, sem ekki var á þingi og Jónínu Bjartmars, sem missti sitt þingsæti, áframhaldandi ráðherradóma. Þetta kom fram í viðtali við Bjarna í Kastljósinu í kvöld.

Bjarni segist hafa barist hart gegn þessum áformum og meðal annars boðist til að segja af sér þingmennsku. Hann segir ljóst að sinnaskipti Jóns hafi orðið vegna mikils þrýstings frá „flokkseigendafélaginu" sem sé hópur áhrifamanna innan flokksins. Þeim hafi verið mjög umhugað um að flokkurinn héldi völdum auk þess sem þeir hafi viljað koma í veg fyrir að Guðni Ágústsson yrði formaður flokksins. Bjarni segist telja að þessi áhersla valdamanna innan flokksins á að halda flokknum við völd hvað sem það kosti hafi eyðilagt flokkinn á undanförnum árum.


Æemmeff og Haraldur veðurfræðingur

Veðurfræðingar hafa sumir hverjir verið áberandi í þjóðlífinu, einkum þeir sem koma fram í sjónvarpi og hafa skopskyn. Vér miðaldra munum eftir Trausta Jónssyni sem varð goðsögn í lifanda lífi og þurfti einhverju sinni að gefa út tilkynningu um að fregnir af andláti sínu væru stórlega ýktar.

Siggi stormur er auðvitað löngu orðinn landsfrægur og ég bíð ennþá spennt eftir að hann byrji aftur með Veðurmolana sína á sunnudagskvöldum. Það hefur ekki bólað á þeim eftir sumarfrí.

Í allri fjármálaumræðunni undanfarið hefur pirrað mig óstjórnlega þetta "æemmeff" tal í öllum, jafnt fréttamönnum, stjórnmálamönnum, hagfræðingum og öðrum sem hafa tekið sér enska skammstöfun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í munn - og geta ekki einu sinni íslenskað hana og sagt "iemmeff".

En á laugardaginn var veðurfræðingurinn Haraldur Ólafsson með lausn á málinu undir lok veðurfréttatímans á RÚV. Það er nokkuð ljóst að Haraldur hefur bæði húmor og máltilfinningu. Ég legg til að þeir sem þurfa að tjá sig opinberlega um téðan sjóð taki Harald sér til fyrirmyndar, fari að tillögu hans og tjái sig um sjóðinn á íslensku.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband