Færsluflokkur: Lífstíll

Íslensk þjóðarsál í hnotskurn

Spegill, spegill, herm þú mér...

Íslenska þjóðin er skrýtin skepna. Hún veður áfram í dugnaði; er framsækin, menntuð, nútímaleg, tæknivædd og vinnusöm. Í útlöndum heyrir maður að Íslendingar séu eftirsóttir í vinnu, og það finnst íslensku þjóðinni gott að heyra - eins og allt annað hrós um sjálfa sig.

Það er ekki nóg að fá að vera með hinum þjóðunum í leik og starfi; það er stutt í pirringinn ef Íslendingurinn er ekki bestur í því sem hann tekur sér fyrir hendur. Íslenska þjóðin stærir sig af landinu sínu; blámanum, hreina vatninu og náttúrufegurðinni, fiskinum og lambinu og öllum framkvæmdunum sem fleyta henni í röð mest velmegandi þjóða heims.

Samt er eitthvað að.

SpegillÍslendingar eiga erfitt með að tjá sig og andmæla sjaldan þegar yfir þá er vaðið. Þeir lúffa fyrir valdinu og þora ekki eða nenna ekki að hafa sig í frammi þegar þeim er innst inni misboðið. Þeir trúa því að glæpur sé ekki glæpur segi valdið það. Þeir gapa af undrun þegar einkabankarnir fá óvart gefin listaverkin þeirra - gera samt ekkert. Þeir hneykslast á dómum í dómskerfinu en hafa ekki döngun í sér til að þrýsta á um breytingar. Þeir vinna eins og vitleysingar og undrast svo þegar óuppalin börn þeirra lenda í hremmingum. Þeir hafa ekki neytendavitund, láta okur og óréttmæta viðskiptahætti yfir sig ganga. Þeir fyrtast við þegar lítið er gert úr heimsfrægum listamönnum þeirra og móðgast yfir því að kona í Alaska skuli ekki vita að forseti Íslands er þjóðhöfðingi. Þeir tala fjálglega og fallega um allt jafnréttið, sem lítið er. Þeir bölva, en eru fljótir að gleyma. Sumir skola mannasiðunum niður með áfengi um helgar, fleygja leikreglum samfélagsins á fylleríi í miðbænum, míga utan í hús og eðla sig í görðum, en mæta keikir og brosandi í vinnuna sem þeir elska á mánudagsmorgni. Ókey, svona erum við bara, er eina andsvarið. Þeir agnúast út í stjórnvöld en kjósa sífellt annað eins yfir sig aftur.

Kannski að kreppan bjargi Íslendingum!

Þetta á maður sennilega ekki að segja í alvöru, en víst er að það þarf eitthvað stórt og mikið til að hrista drómann af íslensku þjóðinni. Hún er eins og brjáluð maskína sem er við það að bræða úr sér en enginn getur gert við, því hún fer svo hratt.

Kannski að kreppan bjargi okkur.Spegill

Getur verið að við höfum haft það of gott? Getur verið að við séum að missa fótanna í taumlausri neysluhyggju og græðgi sem á endanum gefur okkur ekkert annað en streitu, vanlíðan og sljóleika? "Það er ekki mitt að kvarta, ég hef það svo gott," sagði kona við mig um daginn. Jú, gott og vel, en það að hafa það gott er ekki skiptimynt fyrir heilbrigða gagnrýni og almenna meðvitund.

Smám saman þaggar velmegunin niður í okkur, engin óþægindi, takk, ekkert vesen, nægjusemi hvað? skynsemi hvað? vertu ekki með þetta nöldur, við höfum það svo frábært, og erum svo æðisleg - við Íslendingarnir.

Kannast einhver við þennan pistil? Já, einmitt... þetta er pistill Bergþóru Jónsdóttur sem birtist í Morgunblaðinu sunnudaginn 28. september sl. undir fyrirsögninni Íslendingar. Mér fannst hann svo frábær að ég klippti hann út og birti hér. Í síðasta pistli mínum bað ég fólk að lesa þessi skrif Bergþóru aftur... og aftur - og líta svo í spegil. Það gerði ég - bókstaflega. Mér fannst rétt að birta hann í þessu formi líka til vonar og vara - ef einhver skyldi ekki hafa smellt á slóðina og lesið hann - aftur... og aftur.

Hvað erum við tilbúin til að leggja á okkur til að breyta því sem við viljum breyta? Lítum í eigin barm.


Íslendingar og krafturinn í fórum þjóðarinnar

Moggi dagsins er stútfullur af alls konar athyglisverðu efni og byrjar strax á forsíðunni með mynd af einum fallegasta fossi á landinu, Aldeyjarfossi í Skjálfandafljóti. Kynnt er vikuyfirferð í máli og myndum yfir þau svæði sem talin eru helstu virkjanakostir landsins. Fyrsta umfjöllunin er í dag og það eru 3 heilsíður með fallegum myndum. Það eru þeir Önundur Páll Ragnarsson, blaðamaður, og Ragnar Axelsson, ljósmyndari, sem fjalla um málið. Ég hvet alla til að skoða þessa umfjöllun vandlega. Kannski ég megi birta þetta allt hér, það yrði kannski bara ágæt birtingarviðbót en ég veit ekki hvað Moggamenn segðu við því. Hver ætli ráði þessu?

Ég ætla að minnsta kosti að sýna forsíðuna með von um að hún kveiki áhuga fólks á að sjá það sem eftir er. Um leið vek ég athygli á vefsíðu sem komið var á fót fyrir nokkrum dögum þar sem hægt er að skrá sig á baráttulista fyrir verndun vatnasviðs Skjálfandafljóts. Nú, þegar þetta er skrifað, hafa 775 manns skráð sig á listann og væntanlega fjölgar nöfnum gríðarlega á næstu dögum og vikum. Yfirvöld, bæði ríkis og sveitastjórna, verða að átta sig á að þjóðin vill ekki fórna landinu til að reisa virkjanir og selja orkuna á útsöluverði til erlendrar stóriðju. Smellið tvisvar á greinina til að stækka hana í læsilega stærð.

Mbl. 28.9.08 - Forsíða - Aldeyjarfoss - virkjanir

 

Fyrir utan virkjanaumfjöllunina eru ótalmargar greinar í blaðinu að venju, bæði skiljanlegar og óskiljanlegar, dagsannar og minna sannar, aðsendar og heimatilbúnar, góðar og slæmar. Þessi fannst mér bera af.

Mbl. 28.9.08 - Íslendingar - Bergþóra Jónsdóttir


Myndskreytt útvarpsefni

Sumir eru jafnari en aðrir, það vita allir þótt við séum langflest afskaplega ósátt við hina gríðarlegu misskiptingu sem nú er orðin á Íslandi. Ljósmæður standa nú í kjarabaráttu og setja fram sanngjarnar kröfur um leiðréttingu á launum sínum sem tæki mið af hinu langa námi sem þær hafa að baki. Þjóðin styður þær heilshugar. Það er ekkert svigrúm, segir dýralæknirinn. En hvað gerist þegar fjallað verður um eftirlaunaósómann og kjaranefnd ákveður launahækkanir "hinna jafnari" í þjóðfélaginu? Verður svigrúm þá sem ekki er núna?

Þegar ég íhugaði fyrst að blogga spurði ég sjálfa mig auðvitað um hvað ég myndi skrifa. Það fyrsta sem kom upp í hugann var útvarpið - Rás 1. Gamla gufan. Vanmetnasta útvarpsstöðin á Íslandi en jafnframt sú langbesta. Hægt væri að skrifa marga bloggpistla um ótalmarga þætti á þeirri eðalstöð. Ég hef þó hingað til látið nægja að nefna nokkra þætti í ýmsum pistlum, vitna í þá og setja þá inn á tónspilarann. Þar er heilmikið útvarpsefni, ýmist heilu þættirnir eða brot úr þeim.

Einn þessara frábæru útvarpsþátta á Rás 1 er Samfélagið í nærmynd sem er á dagskrá alla virka daga milli 11 og 12 á morgnana. Leifur Hauksson er þar fasti punkturinn í tilverunni og hann gerði þennan snilldarpistil. Þegar mér datt í hug á sínum tíma að fjalla um útvarpið hvarflaði samt aldrei að mér að ég ætti eftir að myndskreyta útvarpsefni - en það var ég að gera og afraksturinn birtist hér fyrir neðan. Pistill Leifs hreinlega bauð upp á það, hann var svo myndrænn. Alltaf má gera betur en þetta verður að duga sem frumraun á þessu sviði.

 


Stórfrétt sem féll í skuggann

Þegar mikið er að gerast hér heima og erlendis vill stundum fara svo að fréttir falla í skuggann á þeim sem metnar eru stærri hjá fréttastofum fjölmiðlanna. Það er svosem eðlilegt, tíminn er naumur og mannafli skorinn við nögl. En ég vona að það verði meiri umfjöllun um þessa frétt og ég hvet alla til að hafa augu og eyru opin. Þetta er stórmerkileg frétt... finnst mér.

Sameinuðu þjóðirnarÉg fann umfjöllun um málið í fréttum Stöðvar 2 þann 1. ágúst og svo var nokkuð löng frétt um það í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í gær, 3. ágúst. Getur einhver bent mér á fleira? Útvarpsfréttin er í tónspilaranum - merkt Fréttir - RÚV - Áhyggjur S.þ. af kynjamisrétti, vægum dómum o.fl. - og hana má einnig hlusta á hér. Ég þarf að hlaða inn myndböndum í gegnum YouTube í augnablikinu þar sem ekki er búið að laga þann möguleika hjá Moggabloggi eftir bilunina.

Hér er verið að fjalla um mismunun og ofbeldi gagnvart konum, vægar refsingar í kynferðisbrotamálum, mansal, umtalsverðan launamun kynjanna og fleira. Á Íslandi. Verslunarmannahelgin má ekki stela senunni frá slíkum fréttum svo ég bíð eftir frekari umfjöllun fjölmiðla því fréttin verðskuldar mikla athygli.

Viðbót: Stöð 2 fjallaði aftur um þetta mál í fréttum í kvöld, 4. ágúst. Ég bætti þeirri frétt aftan við hina og uppfærði myndbandið.

 


Miðborgarrölt í hitasvækju

Ég fattaði fyrir löngu af hverju ég valdi að fæðast á Íslandi... ja, sumir segja að maður velji sér foreldra og fæðingarstað, hvað svo sem til er í því. Ástæðan hlýtur að vera sú að ég þoli ekki hita. Um leið og hitastigið er komið yfir 20 gráður verður mér ómótt, ég verð máttlaus, finnst ég ekki geta andað og heilastarfsemin hrynur. Sellurnar bráðna líklega. Þetta er ekki þægilegt. Maður getur þó klætt af sér fjárans kuldann.

Mér var of heitt í gær og ég fann fyrir verulegri vanlíðan og heiladoða. Ég gat ekki með nokkru móti unnið og viftan sem ég hef alltaf í gangi í vinnuherberginu gerði ekkert gagn. Það endaði með því að ég fór út og tók Kötlu hvolp með mér. Katla er Vestfirðingur, alsystir Skutuls, flutti til mín 4. júlí og er að venjast borgarlífinu. Ég hélt að kannski yrði auðveldara að anda úti. Það reyndist tálvon.

Ég kippti myndavélinni með og tók nokkrar myndir af því sem á vegi mínum varð í hverfinu mínu, miðbænum.

Það er mikið rætt um nýjan Listaháskóla og hve illa byggingin passar inn í götumyndina við Laugaveg. Hér er slíkt dæmi sem er langt komið - skrímslið á bak við Naustið við Vesturgötuna. Ég mun aldrei skilja af hverju þetta var leyft.

Nýbygging bak við Naustið

 

Þegar búið var að rífa kofaskriflin sem voru á bak við Naustið kom í ljós einstaklega falleg bakhlið sem ég vonaði að fengi að vera í friði. En svona lítur svo bakhlið nýbyggingarinnar út - norðurhliðin Tryggvagötumegin, og felur hina fallegu bakhlið Naustsins. Mikið er Reykjavík að verða grá, svört og glerjuð. Allur sjarmi að hverfa.

Nýbygging - norðurhlið

 

Hann Hjálmtýr V. Heiðdal sendi mér nokkrar myndir sem hann tók af bakhlið Naustsins sem ég minnist á að ofan. Hér sést svo greinilega hvað hún er skemmtileg - með kvistum, kýraugum og ég sé ekki betur en að grunnar allra húsanna séu hlaðnir. Er þetta nú ekki fallegri sjón og betur við hæfi í þessum borgarhluta en svarta báknið í myndinni á undan?

Naustið bakhlið - Ljósm.: Hjálmtýr V. Heiðdal

 

Við gerðum okkur ferð inn í Alþingisgarðinn. Hann er mjög gróinn og fallegur, algjör vin í miðbænum. Þar sat einn maður á bekk og las. Á Austurvelli sást hins vegar varla í gras, svo þéttsetið var þar. Inn í garðinn kom svo fólk sem var að leita að bekk í skugga... á Íslandi.

Alþingisgarðurinn

 

Þetta fólk horfði út um gluggann á Alþingishúsinu í átt að Ráðhúsi Reykjavíkur og hugsaði sjálfsagt sitt í hitasvækjunni.

Gægst á glugga Alþingis

 

Öndum og gæsum við Ráðhúsið virtist standa alveg á sama um borgarstjórnarraunir mannfólksins og voru afslappaðar við sólböð undir suðurgluggum hússins.

Endur og gæsir við Ráðhúsið

 

Hér hefur hjólreiðamaður komið sér vel fyrir á bekk í Fógetagarðinum og fengið sér lúr. Þetta er sjaldgæf sjón í Reykjavík.

Hjólreiðamaður sefur á bekk

 

Katla gerði sér dælt við hjólabrettastráka á Ingólfstorgi og einn vildi leyfa henni að prófa. Hún þorði ekki og forðaði sér bara í skuggann. Henni var líka heitt.

Viltu prófa hjólabrettið mitt?

Beint í skuggann til að kæla sig

 

Í Fischersundi gerði svart villidýr árás úr launsátri á Kötlu. Það var með naumindum að mér tókst að bjarga henni frá klóm fnæsandi, svarta kattarins sem virðist ráða þar ríkjum. Við vorum báðar dauðskelkaðar og ætlum að muna að fara ekki aftur á þessar slóðir.

Svarta villidýrið í Fischersundi t.v.

 

Við enduðum göngutúrinn á Landakotstúni sem oftar. Þótt Kristskirkja sé falleg bygging finnst mér gamla kirkjan eiginlega fallegri - á sinn hátt.

Landakotskirkja hin eldri

 

Að lokum - Katla að spóka sig á Austurvelli.

Katla á Austurvelli


Bréf til Láru - frá Hveragerði

DjúpagilsfossÉg skrifaði um Hveragerði í síðasta pistli. Um að verið væri að stofna lífsgæðum og heilsu Hvergerðinga og annarra íbúa Suðvesturlands í hættu með því að dæla eiturefninu brennisteinsvetni út í andrúmsloftið í áður óþekktu magni í þágu virkjana og stóriðju. Eins og ég nefndi í pistlinum var minnst á fjölmargt annað á fundinum í Hveragerði - brennisteinsvetnismengun er aðeins eitt af mörgum atriðum sem spurt var um og gerðar athugasemdir við. Viðbrögðin við pistlinum hafa verið mikil og enn og aftur hef ég fengið tölvupóst og upphringingar frá óttaslegnu fólki sem líst ekki á blikuna.

Í dag fékk ég svo tölvupóst frá Hvergerðingi sem var á íbúafundinum á mánudagskvöldið. Hann sendi einnig fallegar myndir af fossum sem prýða  útivistarsvæðið ofan Hveragerðis, hann kallar þá fossana okkar. Ég sá ástæðu til að biðja hann um leyfi til að birta skrifin og myndirnar því hér kemur svo glögglega í ljós hve almenningur er mótfallinn því að láta hrekja sig í burtu frá náttúrunni, þangað sem fólk hefur árum og áratugum saman leitað sér hvíldar og skjóls frá amstri hvunndagsins til að endurnæra sál og líkama.

En hér er bréfið:

Heil og sæl Lára Hanna, Ármann Ægir Magnússon heiti ég og hef átt heima í Hveragerði lengi.         Djúpagilsfoss í þurrkatíð

Ég var á fundinum með OR í Grunnskóla Hveragerðis á dögunum. Á fundinum kom ég inn á vistkerfi Varmár. Hún er dragá sem getur orðið mjög lítil og heit en vaxið gífurlega í vorleysingum og rigningum.

Vármá mynda aðallega fjórar smærri ár, þ.e. Sauðá, Grændalsá, Reykjadalsá og sú lengsta, Hengladalaá.
Þær tvær síðastnefndu eru líklega vatnsmestar. Í Hengladalaá fyrir ofan Svartagljúfursfoss er urriði og lífverur sem hann nærist á, á meðan lækur rennur.

Í Djúpagili er Reykjadalsáin á um tveggja kílómetra kafla en þar er urriði sem er þar á milli fossana Fossdalafoss og Djúpagilsfoss hann lifir oft í ótrúlega litlu vatni og heitu. Urriðinn í þessum ám gengur niður árnar en kemst ekki upp fossana.

Þetta varnakerfi er stór hluti af vatna- og lífkerfi Ölfusfora. Í öllum ánum fjórum hefur verið straumönd sem fer með unga sína niður árnar þegar líður á sumarið.

FossdalafossÉg reyndi að spyrja um rannsóknir og þekkingu OR á þessum hlutum á fyrrnefndum fundi. Það kom í ljós að talsmaður OR, Ingólfur Hrólfsson, vissi ekkert um þetta og taldi sig ekki sjá að slys við framkvæmdirnar gætu breytt lífkerfinu. Ásta Þorleifsdóttir, varaformaður OR, taldi að klórslysið sem varð í vetur þegar Varmáin var yfir meðallagi að vatnsmagni, væri það sem við Hvergerðingar þyrftum að varast.

Ég hef gengið oft um þetta svæði og tel mig þekkja það afar vel. Ég er sannfærður um að klórslysið er bara brotabrot af því sem Bitruvirkjun getur valdið, eða hefur nú þegar valdið á þessu svæði. Varmáin er okkur Hvergerðingum afar kær og því höfum við varið hundruðum milljóna í að hreinsa hana og verja.

Ég veit ekki til að Sveitafélagið Ölfus hafi varið krónu til að verja þetta mikla vatnakerfi okkar heldur leyft byggðakjarna sem notast við venjulegar rotþrær, fremur en að tengjast og taka þátt í hreinsistöð og verndarstarfi okkar.
 
Foss í Hengladalaá
Ég er ekki menntaður líffræðingur eða vatnalíffræðingur. Ég held að það sé afar brýnt að kalla eftir raunverulegum rannsóknum fræðimanna á þessu sviði. Rannsóknir sem Ingólfur minntist á voru rannsóknir á grunnvatnsstraumum sem náðu frá þessu svæði allt til Esju og Reykjaness. Það sjá það allir sem vilja að þetta geta ekki talist nákvæmar rannsóknir á vatnafari eða vistkerfi umhverfis Bitruvirkjun, Varmá eða áhrif á Ölfusforir. Ég er undrandi á að ekki hafi komið fram slíkar rannsóknir sem hljóta að vera til í einhverjum mæli. Ef ekki, þá hefur orðið slys á svæðinu nú þegar.
 

Ég hef gengið oft eftir þessum ám og um virkjanasvæði Bitru. Það verður að segjast eins og er að vegna allra framkvæmdanna á Hellisheiði hefur varla verið vært á svæðinu alla daga vikunnar, því hefur ferðum mínum á svæðið fækkað.
 

Ég sendi þér nokkrar myndir af fossunum okkar. Þetta eru Reykjafoss, Fossdalafoss, Djúpagilsfoss, Djúpagilsfoss í þurrkatíð og foss neðarlega í Hengladalaá. Þar fyrir innan er Svartagljúfursfoss.

Með kærri þökk fyrir baráttu þína, Lára Hanna.
Nú þurfa allir að leggjast á árarnar.

Ármann Ægir Magnússon,
íbúi í Hveragerði

Já, nú þurfa svo sannarlega allir að leggjast á árarnar og hindra þann gjörning sem fyrirhugaður er með Bitruvirkjun. Í öðrum pósti sem Ármann Ægir sendi mér segist hann ekki vera á móti öllum virkjunum, en að þarna sé ekki verið að virkja rétt. Ég er heldur ekki á móti öllum virkjunum. Eins og ég sagði í þessum pistli er skynsamleg og hófstillt nýting auðlinda nauðsynleg.

En það er alls ekki sama hvar virkjað er, hvernig, til hvers og hverju er fórnað í þágu hverra.


Reykjafoss


Meira af eldheitum skipulagsmálum í Reykjavík

Það er ekki ofsögum sagt að skipulagsmálin í Reykjavík séu mikið rædd þessa dagana og enn bætist við ítarefnið sem nauðsynlegt er að kynna sér. Eins og sjá má af athugasemdum við fyrri færslu mína eru ýmsar skoðanir á lofti og fólk ekki par ánægt með hvernig þróunin hefur verið undanfarin ár, einkum í miðborg Reykjavíkur. Einnig er stórmál komið upp á Akureyri sem lesa má um hér og djúpstæður ágreiningur er milli íbúa á Selfossi og bæjaryfirvalda þar - svo ekki sé minnst á ósköpin sem hafa gengið á í Kópavogi og Hafnarfirði. Þessi mál eru síst bundin við Reykjavík eingöngu þótt þessa dagana sé miðborg hennar í brennidepli.

Hagsmunatengsl eru fólki augljóslega ofarlega í huga og af fréttum og viðbrögðum manna má merkja að spilling er greinilega mjög algeng þegar um lóðabrask, húsabrask og aðra fjárplógsstarfssemi á því sviði er að ræða. Því hvað er það annað en spilling þegar verktaki borgar í kosningasjóð og fær að launum verðmætar lóðir sem hann getur skipulagt að eigin geðþótta og grætt tugmilljónir á? Hvað er það annað en spilling að formaður skipulagsnefndar bæjarfélags starfi fyrir einn verktakann í bænum eins og kemur fram í einni athugasemdinni við fyrri færslu? En hér á landi eru engin lög - hvað þá viðurlög - við spillingu. Hún er umborin eins og hvert annað hundsbit. Fólk tautar og skammast hvert í sínu horni eða á sinni kaffistofu en yfirvöld eru aldrei krafin skýringa og aldrei reyna fjölmiðlar að fletta ofan af slíkri spillingu og neyða ráðamenn til að afhjúpa siðleysið.

Ef brotið er á rétti almennings, yfir hann vaðið og lífsgæði hans skert, eru fáar leiðir færar og glíman við kerfið, embættismenn og peningavaldið virðist oftar en ekki fyrirfram töpuð. Þegar svo úrskurður berst frá æðstavaldinu er eina leið fólks að ráða sér rándýran lögfræðing og fara í einkamál við verktakann - eða hvern þann sem braut á því - og renna blint í sjóinn með útkomu málsins. Það er á fárra færi. Svona mál eru orku- og tímafrek og reikningar lögfræðinga stjarnfræðilega háir.

Hjálmar SveinssonEinn er sá útvarpsmaður sem hefur um langa hríð fjallað mjög vel og skilmerkilega um skipulagsmál á Rás 1. Það er Hjálmar Sveinsson í þætti sínum, Krossgötum, sem nú er sendur út klukkan 13 á laugardögum. Í fyrravetur helgaði Hjálmar þáttinn skipulagsmálum mánuðum saman og mér telst til að ég eigi í það minnsta 14 þætti sem ég tók upp. Þessir Krossgötuþættir eru fjársjóður fyrir áhugafólk, því Hjálmar tók afar faglega og ítarlega á málinu og ræddi við fagfólk á ýmsum sviðum skipulags- og byggingamála, sem og við almenning. Í þáttunum kom ótalmargt fram sem á brýnt erindi við borgar- og skipulagsyfirvöld hvar sem er á landinu, ekki síður en málflutningur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem minnst var á í pistlinum hér á undan.

Í rúmlega ársgömlum tölvupósti til nágranna minna vegna mála í nánasta umhverfi okkar sagði ég: "Mikið hefur verið rætt um umhverfismál á landsvísu, mat á umhverfisáhrifum framkvæmda, sagt að umhverfismálin verði mál málanna í komandi alþingiskosningum, jafnvel að nýr flokkur verði stofnaður utan um þau mál. Ég fagna þessari umræðu, ekki veitir af.

Þetta mál og fleiri af sama toga eru líka umhverfismál - á borgarvísu - og verðskulda einnig athygli og umfjöllun auk þess sem þau snerta lífsgæði tugþúsunda íbúa gamla Vesturbæjarins og nágrennis.

Talað er um stóriðjuæði og virkjanafíkn á landsvísu, en á borgarvísu mætti tala um byggingaræði og þéttingarfíkn. Auk þess er æðibunugangurinn slíkur að hroðvirkni hefur valdið miklu tjóni og enginn ber ábyrgð eins og fram kom hjá fréttastofu RÚV í umfjöllun um þau mál í janúar sl."

Í þessari umræðu er enginn stjórnmálaflokkur undanskilinn, a.m.k. ekki í Reykjavík. Þéttingaræðið hófst á valdatíma R-listans og ekki virðist ennþá hafa tekist að stöðva það - eða að minnsta kosti að hægja á ferðinni svo hægt sé að horfa heildstætt og skynsamlega á málin. Kannski er umræðan nú vísir að hemlun, eða það vona ég altént.

Á flakki mínu um blogg Egils Helgasonar sá ég athugasemd við eina færsluna hans frá 25. mars sl. sem mér finnst rétt að benda á sem dæmi um vinnubrögðin í skipulags- og byggingamálunum: 

"Flestar íslenskar byggingar eru byggðar undir stjórn verktaka sem vilja umfram allt halda kostnaði niðri. Það er fegurðarskyn verkfræðinganna sem hefur ráðið mestu um byggingastíl á Íslandi.

Það var tvennt sem kom eiginkonu minni, arkitektinum mest á óvart þegar hún fór að vinna á Íslandi. Fyrst áhrifa- og valdaleysi arkitekta yfir flestum verkefnum sem þeir vinna að. Þau eru kommisjónuð af verktökum sem hafna öllu sem mögulega gæti aukið kostnað. í öðru lagi sú súrrealíska staða sem hún lenti stundum í, að fara á byggingarstað og teikna það sem verktakinn hafði þegar byggt til að skila inn teikningum og fá þær samþykktar af yfirvöldum."

Finnst einhverjum þetta viðunandi vinnubrögð? Ég veit af fenginni reynslu að þetta er kallað "breytingar á byggingartíma" hjá skipulags- og byggingaryfirvöldum og er samþykkt, því það væri svo dýrt fyrir verktakann að breyta því sem búið er að gera. Ekki kemur til álita að meta tjónið sem t.d. nágranninn verður fyrir og enginn er ábyrgur.

Í dag, sunnudag, voru tveir þættir í sjónvarpinu sem komu inn á skipulagsmál, Silfur Egils og Sunnudagskvöld með Evu Maríu. Hjá Agli var Þórður Magnússon, einn stjórnarmanna endurreistra Torfusamtaka, og hjá Evu Maríu var Björn Ólafsson, arkitekt, búsettur í París.

Ég set bæði viðtölin inn hér að neðan. Viðtalið við Þórð er endasleppt, Egill fór mínútu eða svo yfir tímann og þá er klippt á útsendinguna á Netinu. Það verður væntanlega lagað og þá endurvinn ég upptökuna og set úrklippuna inn á ný.
Uppfærsla: Nýtt myndband komið inn með endinum.

Björn fór um víðan völl í löngum þætti og sagði mjög margt áhugavert, en ég klippti út það sem hann sagði um skipulagsmálin í Reykjavík sem hér eru til umræðu og þau skelfilegu mistök að láta gróðabrask ráða ferðinni.

Þórður Magnússon í Silfri Egils - 30. mars 2008

Björn Ólafsson í Sunnudagskvöldi með Evu Maríu - 30. mars 2008

 


Öflug og löngu tímabær umræða um skipulagsmál

Þessa dagana fer fram öflug umræða um skipulagsmál - og ekki seinna vænna. Ýmis öfl í samfélaginu hafa unnið að því hörðum höndum undanfarin ár að eyðileggja miðborg Reykjavíkur og nágrenni hennar, elstu hluta borgarinnar, í þeim tilgangi einum að græða fé - og það mikið. Þeir hafa náð nokkrum árangri, en ef sú von mín rætist að nú sé að eiga sér stað hugarfarsbreyting bæði hjá almenningi og borgaryfirvöldum er þeim niðurlægingarkafla í sögu Reykjavíkur að ljúka.

Það hefur staðið til hjá mér um tíma að skrifa um þessi mál þar sem mér eru þau afskaplega hugleikin og ég hef staðið í baráttu, ásamt nágrönnum mínum, við skipulagsyfirvöld í Reykjavík og nokkra misvitra stjórnmálamenn sem mér er fyrirmunað að skilja.

Kári Halldór ÞórssonEn áður en lengra er haldið langar mig að biðja fólk sem hefur áhuga á þessum málum að hlusta á sterkan málflutning Kára Halldórs Þórssonar í Vikulokunum á Rás 1 á laugardagsmorgun. Margir hafa séð Kára Halldór í fréttum undanfarna daga þar sem hann hefur talað fyrir hönd íbúa við Bergstaðastræti og nágrenni um skipulagsklúðrið þar, búsetu útigangsfólks í gámi og yfirgang vertaka. Þátturinn er hér og það er um miðbik hans sem umræður hefjast um skipulagsmál. Ég bendi sérstaklega á umræðuna um verktaka, meint tengsl þeirra við stjórnmálamenn og greiðslur í kosningasjóði. Ef satt er myndi svona nokkuð kallast forkastanleg spilling í öllum siðuðum lýðræðisríkjum og viðkomandi stjórnmálamönnum væri ekki sætt í sínum mjúku stólum. Þættinum lýkur síðan með umræðu um málið sem ég skrifaði um í síðustu færslu.

Einnig er hér fyrir neðan kafli úr Silfri Egils frá 13. janúar sl. þar semSigmundur Davíð Gunnlaugsson Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, skipulagshagfræðingur, greinir frá rannsóknum sínum og niðurstöðum á vel og illa heppnuðu skipulagi borga. Ég veit um fólk sem skipti algjörlega um skoðun á málunum eftir að hafa horft og hlýtt á áhrifaríkan málflutning Sigmundar Davíðs.

Ég heyrði fyrst í Sigmundi Davíð á fundi í Ráðhúsi Reykjavíkur í fyrra þar sem hann var með fyrirlestur og sýndi myndir máli sínu til stuðnings. Hann hefur einnig haldið fyrirlestra um skipulagsmál á Ísafirði, Akureyri og sjálfsagt víðar, því það sem hann hefur fram að færa kemur öllum við - jafnt smáum sem stórum samfélögum. Fagleg umfjöllun hans, dæmin sem hann tekur, myndirnar sem hann sýnir, rökin sem hann færir fyrir máli sínu... allt er þetta afskaplega vel fram sett og gríðarlega sannfærandi.

Við viljum öll að okkur líði vel og að umhverfi okkar sé notalegt og aðlaðandi. Sigmundur Davíð er með niðurstöður, hugmyndir og lausnir sem svo sannarlega er vert að taka mark á.


Lögmál Murphys og stóriðja í íslenskri náttúru

Ég hef fengið ótrúlega mikil viðbrögð við færslunum hér að neðan um olíuhreinsistöð á Vestfjörðum. Fyrir utan athugasemdir hef ég fengið tölvupóst og símtöl, auk þess sem aðrir bloggarar hafa ýmist tengt á færslurnar mínar eða afritað í heild sinni eins og bloggvenzli mín, Bryndís og Einar.

Í framhaldi af þessu rifjaði ég upp lögmál Murphys sem hljóðar þannig samandregið: "Allt sem getur farið úrskeiðis gerir það, fyrr eða síðar". Hér má lesa meira um Murphy þennan og lögmál hans. Samkvæmt þessu þurfum við ekkert að fara í grafgötur með það, að ef olíuhreinsistöð verður reist á Íslandi þá verður slys - fyrr eða síðar - og þá er græðgin orðin enn dýrara verði keypt en áður.

Myndina hér að neðan fékk ég senda í tölvupósti. Hún er af olíuhreinsistöð í Texas sem brennur þessa dagana. Sjá meira um eldsvoðann hér og hér. Myndbandið af Youtube sá ég hér hjá Níels A. Ársælssyni, Arnfirðingi sem er annt um umhverfið og fjörðinn sinn. Það sýnir slys sem varð í olíuhreinsistöð BP í Texas fyrir þremur árum. Í því slysi létust 15 manns og 170 slösuðust. Lesa má meira um það hér og hér.

Hugsið málið - í fúlustu alvöru!

                                        2008                                                                                        2005

Texas_USA


Viðhorf Helgu Völu - Þetta er ekkert grín!

Hér fyrir neðan er úrklippa úr 24 stundum í dag þar sem Helga Vala Helgadóttir varar við sinnuleysi fólks gagnvart þeirri hugmynd að reisa olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum, annaðhvort í Arnarfirði eða Dýrafirði.

Helga Vala lýsir yfir áhyggjum sínum af hugmyndinni og sinnuleysinu og vitnar í orð fólks sem segir að það taki því ekki að ergja sig yfir þessari umræðu - þetta sé bara grín.

EN ÞETTA ER EKKERT GRÍN!

Ekki frekar en þær hugmyndir að reisa álver í Helguvík, eyðileggja náttúruperlur á suðvesturhorninu með óarðbærum, brennisteinsspúandi jarðvarmavirkjunum, leggja háspennumöstur um þvert og endilangt Reykjanesið og flytja inn enn fleiri erlenda farandverkamenn eins og Helga Vala kallar þá réttilega. Svo ekki sé minnst á þensluna, vaxtaokrið og verðbólguna sem óhjákvæmilega fylgir öllum þessum framkvæmdum.

Íslendingar verða að átta sig á því, að mönnum sem haldnir eru virkjana- og stóriðjufíkn er fúlasta alvara. Þeim er ekkert heilagt. Þeim virðist vera nákvæmlega sama um hvers konar mengun af völdum framkvæmdanna og þeir hafa sannfært sjálfa sig um að þetta sé "þjóðhagslega hagkvæmt" (aur í eigin vasa?). Og að það þurfi "að skapa störf" í þjóðfélagi þar sem er ekkert atvinnuleysi og fluttir hafa verið inn um eða yfir 20.000 erlendir farandverkamenn á örfáum árum til að þræla á lágum launum svo græðgisvæðingin geti orðið að veruleika og sumir fengið meira í vasann.

Ætla mætti að þjóðin sé reynslunni ríkari eftir Kárahnjúkaklúðrið - það var alvara þó að fáir tryðu því til að byrja með. Við verðum að taka mark á svona fyrirætlunum og kæfa þær í fæðingu. Náttúra Íslands er of stórfengleg og dýrmæt til að henni sé hvað eftir annað fórnað á altari gróðahyggjunnar og Mammons.

Vestfirðirnir eru dýrgripur sem við eigum öll að standa vörð um ásamt öðrum náttúrugersemum á Íslandi. Getur einhver með góðu móti séð fyrir sér Kría_í_Arnarfirðispúandi olíuhreinsunarstöð í þessu umhverfi hér á myndinni?



 

 




 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ég tek heilshugar undir orð Helgu Völu í greininni hér að neðan, færi henni mínar bestu þakkir fyrir að halda vöku sinni, og skora á alla sem hafa skoðun á málinu að taka þetta mjög alvarlega, eigi síðar en strax, og láta í sér heyra - hátt og snjallt.

Viðhorf Helgu Völu Helgadóttur


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband