Færsluflokkur: Lífstíll

Er hún Gaga alveg gaga?

Hún flutti í götuna mína fyrir nokkrum mánuðum - í haust, minnir mig. Kannski aðeins fyrr. Ég geng mjög oft fram hjá húsinu og gluggarnir hjá henni drógu mig til sín eins og segull. Ég gat varið löngum stundum bara að skoða það sem var í gluggunum. Svo færði ég mig upp á skaftið og kíkti inn. Þar kenndi heldur betur ýmissa grasa. Mér finnst alltaf gaman að skoða fallega hluti án þess að finna hjá mér þörf fyrir að eignast þá. Og hjá henni eru svo sannarlega flottir og frumlegir hlutir, algjör veisla fyrir augað.

Hún heitir Guðrún Gerður og notar listamannsnafnið Gaga Skorrdal. Hún er listræn, bjartsýn, skemmtileg og hefur alveg sérlega góða nærveru. Það er óskaplega gaman að líta inn til hennar, skoða og spjalla. Einu sinni gekk ég út frá Gögu með nýja peysu í poka - peysu sem hún hafði hannað, þessa hér...

Gögupeysan mín

Síðast þegar ég leit inn til hennar sagðist hún hafa keypt vefnaðarvöruverslunina Seymu sem var einu sinni á Laugavegi en flutti svo til Hafnarfjarðar. Hún hafði heyrt að það ætti að loka Seymu, fór til að kaupa sér efni á elleftu stundu og endaði með því að kaupa búðina! Á þessum síðustu og verstu lítur þessi kona bjartsýn til framtíðarinnar og gefur bara í. Nei, hún er aldeilis ekki gaga hún Gaga.

Á morgun ætlar Gaga að kynna starfsemi sína og búðina að Vesturgötu 4 - þar sem áður var Blómálfurinn og þar áður Verslun Björns Kristjánssonar, VBK, sem allir Reykvíkingar sem komnir eru "til vits og ára" muna eftir. Ég hvet alla sem leið eiga um miðbæinn á morgun, 1. maí, til að líta inn til Gögu Skorrdal og skoða búðina hennar... eða eiginlega eru þetta 4 búðir í einni. Viðfest neðst í færslunni er viðtal sem Hanna G. Sigurðar tók við Gögu og útvarpað var í þættinum hennar, Víðu og breiðu, miðvikudaginn 29. apríl sl.

Gaga Skorrdal - DV 30.4.09 - Smellið þar til læsileg stærð fæst


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Fyrirmyndarframbjóðandi með allt á hreinu

Ég þurfti að spóla hvað eftir annað til baka þegar ég horfði á þetta viðtal. Bíðum við... hvað var hann að enda við að segja? Og nú segir hann þetta! Hann var í mótsögn við sjálfan sig hvað eftir annað og tvískinnungurinn hrópaði á mig nánast í hverri setningu. Burtséð frá málefninu var þetta ótrúlegt viðtal. Ég gat ekki stillt mig um að hlæja þótt málefnið væri í raun grafalvarlegt.

Ástþór Magnússon hefur farið mikinn og kennt öllum öðrum en sjálfum sér um afspyrnulélegt fylgi Lýðræðishreyfingarinnar, einkum RÚV og Agli Helgasyni. Eflaust hefur verið ágætisfólk í framboði fyrir hreyfingu Ástþórs en ég óttast að Geiri á Goldfinger hafi ekki laðað að hreyfingunni mörg atkvæði. Ég er ósköp sátt við að þessi þriðji maður á lista Lýðræðishreyfingarinnar í Suðvesturkjördæmi mun ekki sitja á Alþingi Íslendinga alveg á næstunni.

Viðtal ársins í Íslandi í dag 28. apríl 2009

 

Á að banna nektardansstaði á Íslandi? - fólkið á götunni og ráðherrann

 


Sigurvegarar

Nú keppast allir flokkar við að lýsa yfir sigri eftir kosningarnar og nálgast þá niðurstöðu frá ýmsum hliðum, sumum furðulegum. Að mínu mati eru þetta stærstu sigurvegararnir. Það er ekkert lítið afrek að ná þessum árangri á svona stuttum tíma - án fjármagns. Vonandi bera þau gæfu til að hafa áhrif fyrir hönd okkar allra.


Tilhugalíf og siðferði í Silfrinu

Silfrið er í vinnslu en mig langar að benda á tvö atriði sem þar komu fram áður en lengra er haldið.

Össur Skarphéðinsson og Ögmundur Jónasson voru ægilega sætir í blússandi tilhugalífi og kærleikurinn milli þeirra var nánast áþreifanlegur. Enda gat Össur ekki á sér setið undir lok umræðunnar, greip þéttingsfast í hönd Ögmundar og horfði á hann kærleiksríku augnaráði. Ég er viss um að það er auðvelt að láta sér þykja vænt um Ögmund en minnist þess ekki að hafa séð svona umbúðalausa tjáningu í Silfrinu áður.

Tilhugalífstjáning í beinni - Silfur Egils 26. apríl 2009

Hér er örstutt úrklippa af kærleikshandtaki Össurar

Ég hrökk eiginlega í kút við þessi ummæli Þorgerðar Katrínar og mig langar að biðja einhvern sem þekkir hana (ef hún les þetta ekki sjálf) að benda henni á Krossgötuþáttinn í færslunni hér á undan og umræðurnar þar. Að þessi kona í þessum flokki með afar vel þekkt, alltumlykjandi siðleysi skuli voga sér að ýja að siðferði manns sem var kosinn á þing fyrir nokkrum klukkutímum. Það segir mér að hún hafi ekkert lært og muni ekkert læra. Bendi á skilmerkilega frásögn Þráins um tilkomu heiðurslaunanna hér.


Hugleiðingar heiðursfólks

Páll Skúlason og Vigdís Finnbogadóttir voru gestirVigdís Finnbogadóttir Hjálmars Sveinssonar í Páll SkúlasonKrossgötum í dag. Þennan þátt þurfa allir að hlusta á - og það vandlega. Þau koma víða við - ræða t.d. um skort á almennilegri rökræðu á Íslandi og rökræðuhefð. Þau koma inn á hræðslu við að ástunda og tjá gagnrýna hugsun og hið hættulega vald pólitíkurinnar. Þau tala líka um þátt fjölmiðla í umræðunni og ótalmargt fleira.

"Þurfum við á hugtakinu þjóð að halda?" spyr Hjálmar. Hlustið á svarið. Hlustið á Pál, Vigdísi og Hjálmar. Frábær þáttur.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Burt með þá!

Burt með þá - Illugi Jökulsson - Moggi 25. apríl 2009

Kiljan og kirkjugarðurinn

Ég ólst upp í nágrenni við gamla kirkjugarðinn. Þessi garður var og er einn yndislegasti garðurinn í Reykjavík. Í æsku og á unglingsárum fór ég þangað oft þegar ég vildi vera í einrúmi og hugsa málin. Þá - eins og nú - var ég félagslyndur einfari og þurfti oft svigrúm og einveru. Garðurinn var skjól í lífsins ólgusjó. Algjör griðarstaður.

Ég naut þess í tætlur að fylgjast með Agli Helga og Guðjóni Friðriks heimsækja fornar slóðir í Kiljunni í síðustu viku og í gærkvöldi. Þeir heimsóttu leiði rithöfunda og skálda og ofið var inn í ýmsum brotum úr ljóðum og skáldskap eftir og um þá sem þarna hvíla. Mér leið vel í sálinni og hjartanu á eftir og þakka fyrir mig.


Ragnheiður Elín og "elsta atvinnugreinin"

Eins og fram kom á kosningafundi RÚV á Suðurlandi í gærkvöldi var sjálfstæðiskonan Ragnheiður Elín Árnadóttir ekki sátt við vændisfrumvarpið og sat hjá við atkvæðagreiðsluna. Þótt hún hafi sagt að hún væri ekki sérstakur talsmaður vændiskvenna gæti hún kannski fundið leið til atvinnusköpunar og "skapað störf" á þessum vettvangi fyrst hún lítur á vændi sem atvinnugrein. Ætli fólk kjósi með góðri samvisku frambjóðendur sem eru svona þenkjandi?


SÁÁ, dulnefni og reynslusögur

SÁÁMér er afar hlýtt til SÁÁ enda er ég stofnfélagi samtakanna. Árið 1977 gekk undirskriftalisti um vinnustað minn þar sem fólki var boðið að gerast stofnfélagar. Ég held að flestir ef ekki allir hafi skrifað nafnið sitt á listann. Mikið vatn er runnið til sjávar síðan og samtökin hafa bjargað mörgu mannslífinu. Sem betur fer hef ég aldrei þurft á aðstoð þeirra að halda, líklega vantar í mig tilheyrandi gen. En enginn veit þó sína ævina fyrr en öll er.

Mér þykir líka afar vænt um nafnið mitt, Lára Hanna - í þessari röð. Ég er skírð í höfuðið á tveimur ömmum mínum, þeim Láru og Jóhönnu. Þar til fyrir rúmum 10 árum var ég eini Íslendingurinn með þessu nafni. Til voru fjölmargar Hönnu Lárur en bara ein Lára Hanna enda er nafninu mínu oft snúið við og ég kölluð Hanna Lára - mér til mikils ama. Svo uppgötvaði ég fyrir 9 árum að ég átti litla nöfnu, alls óskylda mér, sem nú er nýorðin 10 ára dama. Ég hef ekki hitt hana ennþá, en það má alltaf bæta úr því. En við erum semsagt bara tvær á Íslandi, Láru Hönnurnar.

Dulnefni hafa alltaf tíðkast. Til dæmis í dagblöðum (Svarthöfði, Víkverji o.fl.) og tímaritum (dálkar þar sem fólk segir sögu sína undir dulnefni og fær ráðgjöf misviturra "sérfræðinga"). Rithöfundar skrifa jafnvel heilu bækurnar undir dulnefni. Notkun dulnefna hefur farið ört vaxandi eftir að bloggið kom til sögunnar og fleira þvíumlíkt á netinu. Opinskáar reynslusögur eru oft sagðar undir dulnefni og er þá notast við ýmist tilbúin nöfn eða algeng nöfn eins og Sigga, Palli, Nonni, Gunna eða eitthvað slíkt þar sem ekki er nokkur leið að finna út hver viðkomandi er - a.m.k. ekki út frá nafninu.

Það kom mér því á óvart þegar ég fékk tölvupóst frá kunningja mínum með slóð að reynslusögum spilafíkla - svona lítur síðan út:

Reynslusögur spilafíkla - SÁÁ

Siggi, Nonni, Sigga og - viti menn - Lára Hanna! Þetta sjaldgæfa nafn sem aðeins tveir Íslendingar bera er notað sem dulnefni við reynslusögu spilafíkils sem hafði leitað ásjár SÁÁ og segir sögu sína á vef samtakanna. Ég varð eiginlega hálf hvumsa og 14. apríl sendi ég tölvupóst á netfangið saa@saa.is til að spyrjast fyrir um hvort einhverjar reglur giltu hjá samtökunum um notkun dulnefna á vefsíðum þeirra.

Í dag er 20. apríl og ekkert svar hefur borist. Mér svosem alveg sama um þetta þótt ég hafi orðið steinhissa í fyrstu. Þetta er í besta falli fyndið og í versta falli afar ósmekklegt. En samt er nú alltaf skemmtilegra að fá svör við fyrirspurnum, er það ekki?


Góð sambönd gulli betri

Þessi frásögn var í DV 25. febrúar 2006. Þarna eru saman komnir auðmenn, bankamenn, stjórnmálamenn og fjölmiðlamenn. Nú sverja stjórnmálamennirnir af sér öll tengsl við bankana og fyrirtæki auðmanna, hversu trúlegt sem það er. En þeir mega eiga það, banka- og auðmennirnir að þeir virðast hafa undirbyggt fyrirætlanir sínar vel og gætt þess að eiga inni greiða hér og hvar.

Íslenskir milljarðamæringar í Soho - DV 25.2.06


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband