Færsluflokkur: Lífstíll
13.2.2008
Auglýsingar á Moggabloggi
Mér var bent á fréttina hér að neðan í Fréttablaðinu í morgun og ég varð mjög kát að lesa þessi ummæli Árna Matthíassonar. Sjálf er ég alfarið á móti auglýsingunum og hef lokað á þær í mínum tölvum svo ég sé þær ekki. Það er mjög auðveld aðgerð sem hefur þann kost í för með sér að loka á allt sem hreyfist - því hreyfiauglýsingar þoli ég alls ekki af líkamlegum ástæðum sem ég kann ekki að skýra. Ég fæ einhvers konar riðu eða jafnvægistruflun sem veldur því að ég get ekki skoðað vefsíður með hreyfiauglýsingum. Fyrir nú utan það sem bloggvenzli mitt, Steingrímur Helgason, skrifar um hér og ég tek heilshugar undir.
Fleiri hafa skrifað um þessi auglýsingamál og þar fer þar fremstur meðal jafningja annað venzli mitt og gamall vinur, Sigurður Þór Guðjónsson með þessari færslu sem ég er líka innilega sammála. Sumir láta sér hins vegar fátt um finnast og segjast ekki taka eftir þessu.
Enn aðrir hafa hætt að skrifa á Moggabloggið og þeir eru fleiri en þessir fjórir eða fimm sem Árni nefnir í viðtalinu. Auk þess sem nokkrir hafa sett Moggabloggið á "skilorð" - ætla að hætta að skrifa ef auglýsingin verður ekki fjarlægð innan einhvers ákveðins tíma.
Alveg væri ég til í að borga hóflegt árgjald fyrir bloggsíðuna mína auglýsingalausa þótt ekki hafi ég bloggað mikið eða lengi. Ekki væri úr vegi að miða t.d. við árgjaldið á 123.is blogginu sem er rétt innan við 3.000 krónur á ári.
Ég skora á forsvarsmenn mbl.is og blog.is að leyfa bloggurum að velja um hóflegt árgjald fyrir síðuna sína annars vegar - eða auglýsingar hins vegar!
Lífstíll | Breytt 16.2.2008 kl. 01:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
19.1.2008
Oft ratast kjöftugum satt á munn!
Ég hef iðulega furðað mig á því dálæti sem sumir fjölmiðlamenn hafa á Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni en skilið það líka í aðra röndina því þeir þurfa svo lítið að hafa fyrir honum. Það þarf sko ekki aldeilis að draga orðin upp úr honum, hvað þá að undirbúa gáfulegar spurningar og slíkt. En það þýðir heldur ekkert að mótmæla Hannesi eða koma með mótrök, hann hlustar ekki, heldur bara áfram að tala. Hannes er svo sannfærður um eigið ágæti og réttmæti skoðana sinna að engu skiptir þótt allt aðrar staðreyndir blasi við. Ef einhver viðmælandi hans reynir að benda á, þó ekki sé nema annan vinkil, kaffærir Hannes hann í málæði svo til hans heyrist ekki einu sinni.
Hannes Hólmsteinn og Gunnar í Krossinum eiga margt sameiginlegt að þessu leyti. Báðir eru innilega sannfærðir um að þeirra skoðanir séu þær einu réttu og engar aðrar eigi einu sinni rétt á sér. Allir sem eru þeim ekki sammála eru kjánar sem skilja ekkert hvað skiptir máli og hvað ekki í lífinu. Báðir eru Hannes og Gunnar ofstækisfullir öfgamenn, hvor á sínu sviði. Ég verð að viðurkenna, þótt það sé mér þvert um geð, að ég hef lúmskt gaman af þeim báðum en verð engu að síður óskaplega pirruð þegar ég hlusta á þá. En á eftir finnst mér ég vera alveg einstaklega heilbrigð, víðsýn, fordómalaus og skynsöm. Að því leytinu láta þeir mér líða vel.
Kannski er það líka þessi eiginleiki sem heillar fjölmiðlamennina sem fá þá í þættina sína. Þeir vekja athygli fyrir öfgafullar skoðanir sínar og athygli er þáttastjórnendum lífsnauðsynleg. Hvaða skýring önnur gæti verið á því, að Egill Helgason bauð upp á Hannes Hólmstein í Silfrinu til að tala um loftslagsbreytingar seinni part árs í fyrra? Eða núna síðast í Kiljunni, sem annars er ágætur bókmenntaþáttur, þar sem Hannes og Egill skoðuðu saman myndir af lífsferli Davíðs Oddssonar og Hannes flutti fjálglegar skýringar með myndunum. Þótt ég túlki hugtakið bókmenntir mjög vítt fæ ég ekki séð að þessi myndaskoðun geti á neinn hátt flokkast undir bókmenntir, jafnvel þó að Hannes sé að gefa út myndabók um ofurhetjuna sína.
Eins og allir vita hefur Hannes Hólmsteinn verið einn alharðasti talsmaður og verjandi Davíðs Oddssonar um áratugaskeið og Sjálfstæðismaður nánast frá frumbernsku. Eins og sjá mátti í fyrrnefndri myndasýningu í Kiljunni eru þeir einnig klíkubræður og hafa fylgst að hönd í hönd frá unga aldri. Ef Davíð hefur verið gagnrýndur, sem hefur vitanlega gerst ansi oft, stekkur Hannes til, ver hann með kjafti og klóm og réttlætir allar hans gjörðir og hvert orð sem af vörum hans hrýtur. En auðvitað þekkir og skilur Hannes Hólmsteinn Sjálfstæðismenn mjög vel af óralangri reynslu.
Í þættinum Mannamál á Stöð 2 síðastliðinn sunnudag gerðist merkilegur atburður sem ég hef þó ekki séð mikið fjallað um. Hannes Hólmsteinn Gissurarson skilgreindi þar mjög skýrt og skilmerkilega hvað í því felst að vera Sjálfstæðismaður, sem líkast til nær yfir alla þá, sem eru skráðir í þann flokk og/eða kjósa hann. Ég var búin að horfa á þáttinn á Netinu, en yfirlætislaus og skemmtileg færsla hjá bloggvenzli mínu, Steingrími Helgasyni, varð til þess að ég horfði aftur og hlustaði betur. Ég fékk hugljómun.
Þar sem ég hef sjálf betra sjónminni en heyrnar, og reikna með að fleiri séu þannig gerðir, tók ég á það ráð að skrifa niður skilgreiningu Hannesar Hólmsteins á Sjálfstæðismönnum orð fyrir orð. Hún hljómar svona:
Hannes Hólmsteinn: Sjálfstæðismenn eru mjög foringjahollir og það er dálítill munur kannski ef maður tekur þetta svona... Sjálfstæðisflokkinn annars vegar og vinstri flokkana hins vegar þá er... í Sjálfstæðisflokknum er eiginlega fólk sem að hugsar ekkert mikið um pólitík og er frekar ópólitískt. Það hljómar dálítið einkennilega kannski en... og ég á kannski ekki að segja það svona, en til einföldunar má segja að Sjálfstæðismenn eru menn sem vilja græða á daginn og grilla á kvöldin. Vinstri menn eru menn, sem halda að með masi og fundahöldum þá sé... og sko ljóðalestri, þá sé hægt að leysa einhverjar lífsgátur. Þarna er dálítill munur. Þannig að vinstri menn eru miklu pólitískari heldur en hægri menn. Þess vegna eru þeir ekki eins foringjahollir. Hægri mennirnir, þeir eru bara að reka sín fyrirtæki, þeir vilja leggja á brattann, þeir vilja bæta kjör sín og sinna, þannig að þeim finnst hérna... gott að hafa mann sem sér um pólitíkina fyrir þá og Davíð var slíkur maður.
Þar höfum við það svart á hvítu. Slóð á þennan hluta Mannamáls er hér ef einhver vill líka horfa, hlusta og sannreyna orð Hannesar Hólmsteins. Hann sagði þetta - í alvöru.
Skýrara og skilmerkilegra getur það ekki verið. Sjálfstæðismenn eru ekki pólitískir, fylgja bara sínum foringja eins og sauðkindur sínum forystusauð. Þeir hafa bara áhuga á því að græða og grilla og hugsa um það eitt að bæta kjör sín og sinna, láta foringjann um pólitíkina. Væntanlega er þeim slétt sama um alla hina. En vinstrimenn, sem virðast samkvæmt skilgreiningu Hannesar einmitt vera allir hinir, eru pólitískir upp til hópa og reyna að leysa lífsgáturnar, að líkindum þjóðfélagsmál sem þarf að íhuga, ræða og afgreiða.
Mig grunar að þarna sé Hannes Hólmsteinn að orða, svona líka snilldarlega, það sem ansi margir vissu almennt fyrir og eru búnir að vita lengi, lengi.
Lífstíll | Breytt 16.2.2008 kl. 01:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (31)