Kvartað og kveinað, volað og vælt

Undanfarið ár hefur margoft komið fram, að ein af ástæðum hrunsins hafi verið skortur á gagnrýni. Útrásardólgum, bankastjórnendum, stjórnmálamönnum og talsmönnum þeirra sem mærðu eigin hæfileika og félaga sinna var trúað og treyst. Allt of fáir settu sig inn í málin og bentu á mistökin og fáránleikann sem leyndist undir yfirborðinu. Nokkrir reyndu en voru skotnir í kaf af hagsmunaaðilum. "Niðurrifsmenn!" hrópaði auðelítan hástöfumBankatertan og útskúfaði gagnrýnisröddunum.

Hingað til hefur það talist góður siður hjá öllu skynsömu, heiðarlegu fólki að læra af reynslunni. Gera ekki sömu mistökin æ ofan í æ. Sem þýðir a.m.k. í mínum huga að nú gagnrýnum við það sem okkur þykir gagnrýnivert og pukrumst ekkert með þá gagnrýni. Í því sambandi verðum við að hafa ýmislegt í huga - m.a. þá staðreynd að enn eru talsmenn og útsendarar gróðahyggjunnar sem knésetti okkur við völd víða í samfélaginu. Þeir eru ekki á því að breyta um kúrs og vilja halda áfram að höndla með samfélagið að vild og eftir eigin hentisemi. Þeir væna gagnrýnendur um mannorðsmorð ef einhver dirfist að setja út á orð þeirra eða gjörðir. Gagnrýnin er líka kölluð McCarthyismi, sem er ein fáránlegasta og siðlausasta samlíking sem hugsast getur. Fólk sem þannig talar þekkir hvorki né skilur söguna og alvarleika McCarthyismans í Bandaríkjunum um og eftir miðja síðustu öld. Það ætti að skammast sín fyrir að líkja réttmætri gagnrýni íslensks almennings á spillta hrunvalda við slíkan ósóma.

Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, skrifar innblásna grein í Morgunblaðið í dag þar sem hann fetar í fótspor Sigmundar Davíðs og líkir  skósveinum útrásardólga við fólk sem var ofsótt fyrir skoðanir sínar í tíð McCarthys. Þeir eru reyndar ekki fyrstir til að gera það. Í mars sl. skrifaði ég pistil um samskonar gagnrýni - Eru auðmenn "kommúnistar" samtímans? Þá var hægri hönd Ólafs Ólafssonar að kveinka sér við gagnrýni. Lítum á harmakvein Árna Sigfússonar.

Árni fellur í nákvæmlega sömu gryfju og Sigmundur Davíð hér þar sem hann segir m.a. "...að þessir menn hafi einhvern tíma tengst Landsbankanum eins og líklega tugir þúsunda annarra Íslendinga..." og leggur þar að jöfnu vini og viðskiptafélaga Björgólfs Thors og saklausa viðskiptavini bankans. Árni segir: "En á Íslandi í dag virðist gilda að þeim sem hafa á einhvern hátt komið að samstarfi við fyrirtæki þekktustu nafnanna í íslensku útrásinni er att fyrir nornaveiðara". Hverslags dómadagsvitleysa er þetta? Skilja þeir ekki að sumir eru einfaldlega vanhæfir til vissra verka og ábyrgðarstarfa? Traust almennings var fótum troðið og sá trúverðugleiki sem nauðsynlegur er í samfélaginu hefur ekki verið endurreistur - og verður ekki fyrr en heiðarlegt uppgjör hefur farið fram. Meðal annars uppgjör Suðurnesjamanna við Árna Sigfússon, sem nú hefur rúið Reykjanesbæ inn að skinni, selt allar eigur bæjarins og afnotarétt orkuauðlindarinnar á Reykjanesi að auki.

Gagnrýni og tortryggni almennings beinist ekki að blásaklausum, almennum starfsmönnum banka eða annarra fjármálafyrirtækja heldur þeim, sem voru innstu koppar í búri og tóku fullan þátt í þeirri spillingu, græðgisvæðingu og blekkingu sem setti efnahag Íslands á annan endann. Slík gagnrýni á fullan rétt á sér, er í hæsta máta eðlileg og heldur vonandi áfram á fullum dampi framvegis.

Árni rifjar upp kommagrýluna sem veifað var framan í íbúa Vesturlanda á McCarthy-árunum eftir seinni heimsstyrjöld. Hann segir að margir Vesturlandabúar hafi óttast hættuna af hugmyndafræði kommúnista og séð hana birtast í árásum á frelsi fólks, gerræðisstjórnum, fátækt, einræði og ofbeldi. Árásir á frelsi, gerræðisstjórnum, einræði og ofbeldi. Er hann að lýsa stjórnarháttum Davíðs Oddssonar? Mér sýnist það.

Og nú geysast helsárir vogunarsjóðsmenn fram á ritvöllinn (sjá viðhengi Víkingatertanneðst í færslunni) og tala um "óhróður blogglúðrasveitar Samfylkingarinnar". Ég verð að hryggja þá með því, að henni tilheyri ég að minnsta kosti ekki, né heldur Agnar, Jenný og margir fleiri sem hafa tjáð sig um þetta mál. Sigmundur Davíð, Árni Sigfússon, vogunarsjóðsmenn og aðrir sem nú kveina sáran undan réttmætri og heilbrigðri gagnrýni almennings verða að átta sig á því, að ekki liggja allir í flokkspólitískum skotgröfum og láta leggja sér orð í munn þótt þeir þekki kannski ekki önnur viðmið sjálfir. Vita ekki að fólk getur haft skoðanir þótt það tengist ekki pólitískum flokki. Sem betur fer er til nóg af fólki með gagnrýna hugsun sem býr yfir heilbrigðri skynsemi og réttlætiskennd og lætur ekki sérhagsmuni eða flokkspólitíska blindu villa sér sýn eða leggja sér orð í munn. En kannski er ekki nema von að menn, sem sjálfir láta stjórnast af eigin-, sér- og flokkshagsmunum, geri sér enga grein fyrir því.

Við munum sjá meira af yfirlýsingum eins og frá Árna Sigfússyni, Sigmundi Davíð, vogunarsjóðsmönnum og ýmsum meðreiðarsveinum útrásardólganna. Þeir eru í vörn því veldi þeirra stendur höllum fæti. Ef réttlætið nær fram að ganga í íslensku þjóðfélagi sjá þeir sæng sína upp reidda. Þeir munu halda áfram að kalla eðlilega gagnrýni McCarthyisma og gagnrýnendur skríl, kommúnistadrullusokka eða blogglúðrasveitir andskotans ef því er að skipta. En við megum aldrei aftur láta þagga niður í röddum réttlætis, sannleika og heilbrigðrar skynsemi.

Verum vel á verði.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hrunið og aðdragandinn í spéspegli

Þetta er nauðsynlegt líka, rétt eins og Spaugstofan og Skaupið. En öllu gamni fylgir nokkur alvara og oft sér maður betur fáránleika hlutanna í gríninu. Ísland er að sjálfsögðu nefnt til sögunnar í þessari yfirferð.

Silly Money - Where did all the money go?

 


Bloggfærslur 12. október 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband