Kvartað og kveinað, volað og vælt

Undanfarið ár hefur margoft komið fram, að ein af ástæðum hrunsins hafi verið skortur á gagnrýni. Útrásardólgum, bankastjórnendum, stjórnmálamönnum og talsmönnum þeirra sem mærðu eigin hæfileika og félaga sinna var trúað og treyst. Allt of fáir settu sig inn í málin og bentu á mistökin og fáránleikann sem leyndist undir yfirborðinu. Nokkrir reyndu en voru skotnir í kaf af hagsmunaaðilum. "Niðurrifsmenn!" hrópaði auðelítan hástöfumBankatertan og útskúfaði gagnrýnisröddunum.

Hingað til hefur það talist góður siður hjá öllu skynsömu, heiðarlegu fólki að læra af reynslunni. Gera ekki sömu mistökin æ ofan í æ. Sem þýðir a.m.k. í mínum huga að nú gagnrýnum við það sem okkur þykir gagnrýnivert og pukrumst ekkert með þá gagnrýni. Í því sambandi verðum við að hafa ýmislegt í huga - m.a. þá staðreynd að enn eru talsmenn og útsendarar gróðahyggjunnar sem knésetti okkur við völd víða í samfélaginu. Þeir eru ekki á því að breyta um kúrs og vilja halda áfram að höndla með samfélagið að vild og eftir eigin hentisemi. Þeir væna gagnrýnendur um mannorðsmorð ef einhver dirfist að setja út á orð þeirra eða gjörðir. Gagnrýnin er líka kölluð McCarthyismi, sem er ein fáránlegasta og siðlausasta samlíking sem hugsast getur. Fólk sem þannig talar þekkir hvorki né skilur söguna og alvarleika McCarthyismans í Bandaríkjunum um og eftir miðja síðustu öld. Það ætti að skammast sín fyrir að líkja réttmætri gagnrýni íslensks almennings á spillta hrunvalda við slíkan ósóma.

Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, skrifar innblásna grein í Morgunblaðið í dag þar sem hann fetar í fótspor Sigmundar Davíðs og líkir  skósveinum útrásardólga við fólk sem var ofsótt fyrir skoðanir sínar í tíð McCarthys. Þeir eru reyndar ekki fyrstir til að gera það. Í mars sl. skrifaði ég pistil um samskonar gagnrýni - Eru auðmenn "kommúnistar" samtímans? Þá var hægri hönd Ólafs Ólafssonar að kveinka sér við gagnrýni. Lítum á harmakvein Árna Sigfússonar.

Árni fellur í nákvæmlega sömu gryfju og Sigmundur Davíð hér þar sem hann segir m.a. "...að þessir menn hafi einhvern tíma tengst Landsbankanum eins og líklega tugir þúsunda annarra Íslendinga..." og leggur þar að jöfnu vini og viðskiptafélaga Björgólfs Thors og saklausa viðskiptavini bankans. Árni segir: "En á Íslandi í dag virðist gilda að þeim sem hafa á einhvern hátt komið að samstarfi við fyrirtæki þekktustu nafnanna í íslensku útrásinni er att fyrir nornaveiðara". Hverslags dómadagsvitleysa er þetta? Skilja þeir ekki að sumir eru einfaldlega vanhæfir til vissra verka og ábyrgðarstarfa? Traust almennings var fótum troðið og sá trúverðugleiki sem nauðsynlegur er í samfélaginu hefur ekki verið endurreistur - og verður ekki fyrr en heiðarlegt uppgjör hefur farið fram. Meðal annars uppgjör Suðurnesjamanna við Árna Sigfússon, sem nú hefur rúið Reykjanesbæ inn að skinni, selt allar eigur bæjarins og afnotarétt orkuauðlindarinnar á Reykjanesi að auki.

Gagnrýni og tortryggni almennings beinist ekki að blásaklausum, almennum starfsmönnum banka eða annarra fjármálafyrirtækja heldur þeim, sem voru innstu koppar í búri og tóku fullan þátt í þeirri spillingu, græðgisvæðingu og blekkingu sem setti efnahag Íslands á annan endann. Slík gagnrýni á fullan rétt á sér, er í hæsta máta eðlileg og heldur vonandi áfram á fullum dampi framvegis.

Árni rifjar upp kommagrýluna sem veifað var framan í íbúa Vesturlanda á McCarthy-árunum eftir seinni heimsstyrjöld. Hann segir að margir Vesturlandabúar hafi óttast hættuna af hugmyndafræði kommúnista og séð hana birtast í árásum á frelsi fólks, gerræðisstjórnum, fátækt, einræði og ofbeldi. Árásir á frelsi, gerræðisstjórnum, einræði og ofbeldi. Er hann að lýsa stjórnarháttum Davíðs Oddssonar? Mér sýnist það.

Og nú geysast helsárir vogunarsjóðsmenn fram á ritvöllinn (sjá viðhengi Víkingatertanneðst í færslunni) og tala um "óhróður blogglúðrasveitar Samfylkingarinnar". Ég verð að hryggja þá með því, að henni tilheyri ég að minnsta kosti ekki, né heldur Agnar, Jenný og margir fleiri sem hafa tjáð sig um þetta mál. Sigmundur Davíð, Árni Sigfússon, vogunarsjóðsmenn og aðrir sem nú kveina sáran undan réttmætri og heilbrigðri gagnrýni almennings verða að átta sig á því, að ekki liggja allir í flokkspólitískum skotgröfum og láta leggja sér orð í munn þótt þeir þekki kannski ekki önnur viðmið sjálfir. Vita ekki að fólk getur haft skoðanir þótt það tengist ekki pólitískum flokki. Sem betur fer er til nóg af fólki með gagnrýna hugsun sem býr yfir heilbrigðri skynsemi og réttlætiskennd og lætur ekki sérhagsmuni eða flokkspólitíska blindu villa sér sýn eða leggja sér orð í munn. En kannski er ekki nema von að menn, sem sjálfir láta stjórnast af eigin-, sér- og flokkshagsmunum, geri sér enga grein fyrir því.

Við munum sjá meira af yfirlýsingum eins og frá Árna Sigfússyni, Sigmundi Davíð, vogunarsjóðsmönnum og ýmsum meðreiðarsveinum útrásardólganna. Þeir eru í vörn því veldi þeirra stendur höllum fæti. Ef réttlætið nær fram að ganga í íslensku þjóðfélagi sjá þeir sæng sína upp reidda. Þeir munu halda áfram að kalla eðlilega gagnrýni McCarthyisma og gagnrýnendur skríl, kommúnistadrullusokka eða blogglúðrasveitir andskotans ef því er að skipta. En við megum aldrei aftur láta þagga niður í röddum réttlætis, sannleika og heilbrigðrar skynsemi.

Verum vel á verði.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

go girl

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 12.10.2009 kl. 19:33

2 identicon

Sæl Lára Hanna

Ástandinu á Íslandi er nú ýmist líkt við ofsóknir á hendur Gyðingum í valdatíð Nasista í Þýskalandi eða tímabil McCarthyismans í Bandaríkjunum. Óhemjugangur þeirra sem nú þurfa að horfast í augu við það að stefna þeirra og stjórn efnahagsmála hratt heilli þjóð fram af efnahagslegri bjargbrún er með ólíkindum. Þær samlíkingar sem gripið er til skjóta svo langt yfir markið að sú spurning kemur upp í hugann hvort þessir aðilar haldi að íslenskur almenningur séu upp til hópa illa upplýstir og heimóttarlegir kjánar. Það þarf ekki að fara langt aftur í tímann til að finna fólk sem var lagt í einelti, útilokað, sniðgengið og útskúfað á Íslandi fyrir það eitt að beita gagnrýnni hugsun til að skilja íslenskt samfélag og það sem hér var að gerast. Sjá nánar um þetta hér: http://blog.eyjan.is/sigurbjorg/2009/10/12/utskufada-haefileikarika-folkid-hans-arna-sigfussonar/.

Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir (IP-tala skráð) 12.10.2009 kl. 19:48

3 identicon

Innilega sammála.

Mér líst illa á þennan málflutning og vona að menn séu ekki að láta hann slá ryki í augun á sér. Að kalla fólkið sem rændi landið "hæfileikafólk" og að líkja umræðum um að það ætti að halda sig frá fjármálaheiminum, svo ekki sé minnst á ríkisfjármálin, við ofsóknir, er gríðarlega alvarlegt. Heimskulegt, en greinileg tilraun spillingarpakksins til að ná aftur vopnum sínum í umræðunni.

Sigríður Lára Sigurjónsdóttir (IP-tala skráð) 12.10.2009 kl. 20:51

4 Smámynd: Kristinn Pétursson

Það er eðlilegt og mikilvægt - að fjallafaglega um hvað fór úrskeiðis......

En það er jafn mikilvægt að sleppa fordómum og illvilja í garð tiltekinna "útrásarvíkinga" og aðstoðarmenn  þeirra...

Það fólk sem vill skilgreina söguna - orsakir og alfeiingar - verður jafnframt að skilgreina kommúnismann - og skilgreina  svo  þessa svokölluðu "frjálshyggju".... og greina svo kostina og gallana .......

Fordómar við "frjálshyggju" í dag - án þess að skilgreina hvað þurfi að lagfæra - hefur  takmarkaðan tilgang.

Kjarni málsins er að:

  • lagfæra eftirltiskerfi  í alþjóðlegum  bankaviðskiptum
  • láta rannsóknarnefndir skilgreina hvað fór úrskeiðis í aðalatriðum
  • láta sérstaka saksóknara fá nóg fjármagn til að birta niðurstöður.

Hætta öllu svartagallsrausi og fordómum -  læra af reynslunni..... og hefja aftur frjáls viðskipti - með öflugra eftirlitskerfi...

Kristinn Pétursson, 12.10.2009 kl. 20:54

5 identicon

"Og nú geysast helsárir vogunarsjóðsmenn fram á ritvöllinn og tala um "óhróður blogglúðrasveitar Samfylkingarinnar"."

Dapurlegt að sjá hvernig sumt fólk virðist vera alveg blýfast í flokkspólitík og vill ekki- eða getur ekki skilið að undanfarið ár hefur margt fólk "glaðvaknað" og endanlega snúið baki við flokkspólitík og mun framvegis skoða og gagnrýna þjóðfélagsmál út frá sínu eigin hjarta og réttlætiskennd. Og skiptir þá auðvitað engu máli úr hvaða pólitíska flokki sá, sú eða þau verk sem þarf að gagnrýna, koma. Vonandi deyr "Vinstri og hægri fúll á móti" risaeðlan út sem fyrst.

Takk fyrir gott blogg

Baðvörður (IP-tala skráð) 12.10.2009 kl. 22:04

6 Smámynd: Steingrímur Helgason

Júbb, mér finnzt þú enn bezt, lángbezt...

Steingrímur Helgason, 12.10.2009 kl. 23:54

7 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég mun seint skrifa undir að Árni sé einhver mannvitsbrekka.  Það neistar svosem ekki af greininni. Sigmundur sló fram orðinu McCarthyisma í viðtali, þar sem hann líkir sjúklegri tortryggni í garð allra, sem eru í viðskiptageiranum.  Þar er ég smammála. 

Ég vil biðja þig annas að lesa þessa grein, svona rétt til að glöggva þig á að bloggið um Noregsförina og vondu vogunarsjóðsmennina, var í hæsta máta vanhugsað. No offence.

Jón Steinar Ragnarsson, 13.10.2009 kl. 01:22

8 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Jæja - Lára Hanna.

Mér sýnist þú færa nægileg rök fyrir, að tortryggni sé ekki útí bláinn.

Það virðist, að Sigmundur Davíð hafi veitt höggstað á sér, með því að hafa þá félaga með í för. Persónulega, hef ég ekki trú á, að eitthvað ólöglegt standi til eða jafnvel eitthvað vafasamt.

En, tortryggnin í ljósi núverandi aðstæðna, er ekki yfirskot - sem slík. Enda, er mjög rík tortryggni gagnvart öllu, er tengist fjármála umsvifum, vegna þess að svo margt þar, er í rannsókn.

En, ég verð þó að segja, að allnokkrir sem tjáð sig, hafa gengið afskaplega langt í að spinna upp sögur, um eitthvað sem þeir ímynda sér að gæti verið í gangi, hugsanlega.

En, ef fólk fer í að spinna upp, hvað gæti hugsanlega verið í gangi, þá er það án enda, því það hugsanlega er nærri því óendanlegt.

--------------------------

Varðandi för þeirra sem slíka, þ.e. yfirlístan tilgang. Hef ég ekkert við hana sem slíka að athuga, og gott mál, að einhver sé að reyna, þó svo að það geti farið þannig, að ekkert hafist upp úr því.

Furðuleg ummæli, hafa t.d. fallið, frá sumum, þess efnis að rangt sé að taka frammí fyrir ríkisstjórninni - "What a joke" :)

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 13.10.2009 kl. 01:25

9 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Hvað heldur þú að Sigmundi og co hafi gengið til með þessari ferð? Að koma þjóð sinni illa? Að milja undir útrásarprinsa? Útfæra eitthvað spillingarplott fyrir opnum tjöldum?  Hvað er pointið með að gera þetta svona tortryggilegt og hæðast að framtakinu?  Mig vantar sárlega vitrænt svar við þessu.

Jón Steinar Ragnarsson, 13.10.2009 kl. 01:26

10 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég vil taka því fram að ég styð þig heilshuga í baráttunni gegn gengdalausri ál og virkjanavæðingu. Ástæður mínar fyrir því eru helst fjórar:

A. Það er stórhættulegt fyrir svo litla þjóð að setja öll eggin sín í sömu körfu. 

B. Það er ekki til orka til að fullnægja þessum áformum og allt tal um annað er blekking.

C. Ef öll orka landsins verður á næstu árum tekin undir þessa afmörkuðu stóriðju, þá er búið að loka fyrir alla framþróun og uppbyggingu í tengslum við orkunytingu til allrar framtíðar. 

D. Einokunn fárra stórra aðila á orkunýtingunni setur stóriðjufyrirtæki í kúgunaraðstöðu. Reynslan hefur sýnt að ef ekki er farið að kröfum slíkra risa um orkuverð eða útvíkkun, þá hóta þeir að taka sig upp og fara. Ruðningsáhrif þessa iðnaðar myndu því sjá til þess að eftir sæti sviðin jörð.

Segi þetta baa svo þú haldir ekki að ég sé ekki að gera lítið úr viðleitni þinni hér. Hún er mikils metin, en í þessu tiltekna máli, ert þú að gjaldfella trúverðugleika þinn.  Því miður.

Jón Steinar Ragnarsson, 13.10.2009 kl. 01:53

11 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Þ.e. bent er á, að ekki sér rétt að ráða fyrrverandi samstarfsmenn Björgólfa, má alveg velta því upp, hvort ekki ætti einnig að fara fram á að viðkomandi einstaklingar, hætti vegna hugsanlegra vandræðalegra tengsla þeirra:

------------------------

• Ingvi Örn Kristinsson er aðstoðarmaður Félagsmálaráðherra Árna Páls Árnasonar, en hann var framkvæmdastjóri Verðbréfasviðs Landsbankans. Einnig starfar hann sem ráðgjafi Forsætisráðherra.

• Benedikt Stefánsson var í Greiningardeild Landsbankans og er núna aðstoðarmaður Gylfa Magnússonar Efnahags- og Viðskiptaráðherra.

• Björn Rúnar er skrifstofustjóri í Viðskiptaráðuneytinu. Hann var forstöðumaður í Greiningardeild Landsbankans

• Edda Rós er núna fulltrúi Íslands í AGS í gegnum Samfylkinguna. Hún var forstöðumaður Greiningardeildar Landsbankans

• Arnar Guðmundsson var í Greiningardeild Landsbankans. Hann er núna aðstoðarmaður Katrínar Júlíusdóttur Iðnaðarráðherra.

--------------------------------

Þessir einstaklingar, voru ekki lágt settir þ.e. ekki er hægt að kalla þá bara "einhverja starfsmenn".

Við erum ekki að tala um gjaldkera eða útibússtjóra.

Framkvæmdastj. verðbréfasviðs, hefur sem dæmi, haft e-h með það að segja, sannarlega. Hvaða verðbréf vað gamblað með. Sá, tók að sjálfsögðu einhverjar milljónir í bónusa, eins og allir yfirmenn bankanna gerðu.

Til að hafa allt sanngjarnt, þá voru það ekki vogunarsjóðir, sem settu Ísland á hausinn, heldur sjálfir bankarnir.

Sjálfsagt tóku vögunarsjóðir, þátt í t.d. með stöðutökum. En, það gerðu víst bankarnir sjálfir, í enn stærri stíl.

-----------------------

Við skulum fara varlega í það að kasta stríðshanskanum á loft.

Ef til vill var óvarlegt af Sigmundi, að hafa þessa menn, með sér í för.

En, þeir sem eru stuðingsmenn ríkisstjórnarinnar, er hafa tjáð sig hér, þá bendi ég á þennan lista, sem ég tók mér það leyfi, að gera "copy/paste" á.

Sá sem syndlaus er, kasti fyrsta steininum.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 13.10.2009 kl. 01:57

12 identicon

Þetta er eiginlega skondið hvernig reynt er að snúa hlutum á hvolf eftir hentugleikum. Afturhaldskommatittur og kommúnistadrullusokkur eru vinsæl orð til að grípa til hjá vissum hópi fólks. Það gerast ekki verri blótsyrði hjá þeim. (Það er svo annað mál hvað þetta er eitthvað hallærislegt í raun, en það fatta viðkomandi auðvitað ekki).
En þegar einhver gagnrýnir þeirra verk þá eru þeir í sporum aumingja ofsóttu kommúnistanna.
Hvernig væri nú að ákveða sig.
Nú eða bara hætta þessu kommúnistaröfli. Þetta er eins og tímavél hafi hent manni aftur á kaldastríðsárin. Pifff...

Solveig (IP-tala skráð) 13.10.2009 kl. 02:19

13 Smámynd: Þorsteinn Briem

Jón Steinar Ragnarsson.

"Að auki var greint frá að með því að viðhalda 12% stýrivöxtum og 9,5% innlánsvöxtum er íslenskur almenningur að greiða 190 milljarða á ári í vaxtakostnað til þeirra sem eiga innlánsfé í bönkum. Innlán munu vera um 2.000 milljarðar (2000 milljarðar x 9,5%).

Þessi vaxtakostnaður nemur því yfir 500 milljónum á dag sem er meira en árlegur kostnaður heilbrigðiskerfisins. Eftir þetta voru norsku þingmennirnir flestir farnir að fussa og sveija yfir þeim augljósu þvingunum sem eru að eiga sér stað hér á landi í boði AGS, Hollendinga og Breta."

Framsóknarmaddaman dottin í hlandforina einn ganginn enn


Vísitala neysluverðs
hækkaði um 10,8% síðustu 12 mánuði og verðbólgan síðustu þrjá mánuði uppreiknuð til eins árs var 10,1%. Innlánsvextir Seðlabankans eru 9,5% og stýrivextir 12%, þannig að raunstýrivextir eru ekki háir hér núna.

Í mars 2003 voru raunstýrivextir um 2,3% í Noregi, 2,2% í Svíþjóð og 1,8% í Bretlandi.

Seðlabanki Íslands


Fundargerð Peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands í september 2009


16. maí 2007, þegar Framsóknarflokkurinn hafði verið við völd hér í tólf ár
:

"
Bankastjórn Seðlabanka Íslands [Davíð Oddsson (formaður), Ingimundur Friðriksson og Eiríkur Guðnason] hefur ákveðið að stýrivextir bankans skuli vera óbreyttir, þ.e. 14,25%. Verðbólga hefur hjaðnað en nokkru hægar en gert var ráð fyrir í spá bankans í mars sl. Undirliggjandi verðbólga er enn langt yfir verðbólgumarkmiði bankans.

Verðbólguhorfur til næstu ára eru taldar áþekkar og í mars.

Raunstýrivextir eru háir og sér þess stað í ávöxtun bæði óverðtryggðra og verðtryggðra skuldabréfa."

Stefnuyfirlýsing bankastjórnar Seðlabanka Íslands: Óbreyttir stýrivextir


Í maí 2007 hafði vísitala neysluverðs hækkað um 4,7% næstu 12 mánuðina á undan en stýrivextirnir voru þá 14,25% með Davíð Oddsson við stýrið.

Seðlabankinn í mars 2005: Betri verðbólguhorfur haldist gengi krónunnar áfram hátt


Hverjir reyndu þá að hagnast á ástandinu hér á þessum miklu Framsóknartímum sem enduðu í fjóshaugnum?!


Og í ársbyrjun 2007 spáði Seðlabankinn um 5% atvinnuleysi hér á þessu ári, 2009

Þorsteinn Briem, 13.10.2009 kl. 05:58

14 identicon

Árni Sigfússon er illa liðinn bæjarstjóri á Suðurnesjum. Undir hans stjórn er Reykjanesbær eitt allra verst rekna sveitarfélag landsins. Árni ætti að hafa vit á því að láta sig hverfa og þegja rétt eins og Þór bróðir hans hefur þegar gert eftir að hafa klúðrað sínum málum svo rækilega.

Stefán (IP-tala skráð) 13.10.2009 kl. 08:53

15 Smámynd: Þorsteinn Briem

Atvinnuleysi á landinu var 7,2% í september síðastliðnum og þá voru að meðaltali 12.145 manns atvinnulausir, eða 1.242 færri en í ágúst, þannig að atvinnulausum fækkaði um 9,3% á milli mánaðanna, segir Vinnumálastofnun.

Í ársbyrjun 2007 spáði Seðlabankinn um 5% atvinnuleysi hér á þessu ári, 2009

Þorsteinn Briem, 13.10.2009 kl. 09:59

16 identicon

Það fer vini mínum Árna Sigfússyni vel að tala um McCarthy-isma eftir að hafa verið hér í meirihluta í borgarstjórninni. Undirritaður átti samtal við hann vegna verka á vegum borgarinnar og sagði hann það þá beint út að góðir og gegnir sjálfstæðismenn gengju fyrir. í því tilfelli, hvað gerir maður ???? Það skal tekið fram að sjálfsögðu þá var þetta 2 manna tal og hvergi skráð. Ekki alls fyrir löngu þá lenti undirritaður í svipuðu gagnvart öðrum borgarfulltrúa og var þá sagt að segja ekki of mikið og vitlaust við fjölmiðla um ákveðið mál því undirritaður myndi aldrei vinna aftur fyrir borgina ef orðin yrðu ekki rétt valin. 

thi (IP-tala skráð) 13.10.2009 kl. 10:45

17 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Lára Hanna, ég las blogg þitt varðandi ferð þeirra framsóknarmanna í Noregs, en ég geri mér ekki grein fyrir af hverju þú froðufelldir. Sem áhugamanni um lýðræði las ég mig til um tímabil  McCarthytímans í Bandaríkjunum og ekki síður tíma Nasista í Þýskalandi. Þar var Lára Hanna ekki rökrætt, það var haldið uppi ofstækisfullum áróðri. Nú ert þú meðal annarra ásökuð um ofstækisfullan áróður, og það finnst mér með réttu. Þú blaðrar hér á blogginu um mikilvægi rökræðunnar og vísar til Páls Skúlasonar. Þegar þér er bent á að rökræðuna stundar þú afar lítið, heldur áróður, þá afsakar þú þig með tímaskorti. Þú getur kvartað og kveinað, volað og vælt, en málflutningur þinn er er stundum ekki annað hægt en að flokka undir ofstækisfullan áróður. Slíkur málflutningur er lýðræðinu hættulegur. Ég er einn af þeim sem las margt blogg þitt með ánægju, þó að ég væri e.t.v. ekki alltaf sammála þér. Í seinni tíð nenni ég því sjaldnast því hrokinn er orðinn svo mikill, en hann kemur oft hjá fólki sem telur sig hafa farið hátt.

Sigurður Þorsteinsson, 13.10.2009 kl. 14:15

18 identicon

Það virðist fara mjög í brjóstið á þeim sem eru yst til hægri og hafa farið fremst í mannorðsþjófnaði og dylgjum  að líkja allri gagnrýni á sig við gyðingaofsóknir ofl.En þessir sömu verða að gera sér grein fyrir því að sömu lögmál gilda hvort sem þú ert hægri eða vinstri maður.Og var fullkomlega eðlilegt af Láru að spyrja hvað þessir menn voru að gera með tilliti hvernig ástandið hefur verið síðustu tvö árin hérlendis.

Raunsær (IP-tala skráð) 13.10.2009 kl. 18:24

19 Smámynd: Kama Sutra

Lára Hanna hlýtur að vera að gera góða hluti fyrst öfgaliðið og fjósdólgarnir (nýyrði) eru farnir að væla og emja undan henni.   Áfram Lára Hanna!

Kama Sutra, 13.10.2009 kl. 19:10

20 Smámynd: Ingibjörg Hinriksdóttir

Flott blogg hjá þér Lára Hanna eins og svo oft áður, að jafna ádeilu á útrásarvíkingana við McCarthyisma eða ofsóknir gegn gyðingum er einfaldlega fáránlegt. Menn verða að velja sér meðreiðarsveina, ég reikna með að SDG hafi gengið gott eitt til að fara í bólför til Noregs, en klárlega átti hann að vanda sig betur við valið á ráðgjöfum. Svo spyr maður sig líka, eftir að hafa hlustað á Gísla Kristjánsson tala frá Oslo, hvað SDG ætlaði að sækja til Luntegen, þeirrar skrítnu skrúfu!

Ingibjörg Hinriksdóttir, 14.10.2009 kl. 17:58

21 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Vogunnarsjóður vinna vill

íslands lán og lukku

framsókn hér og framsókn þar

til Noregs fór og skömmina eina bar

Kveðja að norðan.

Arinbjörn Kúld, 14.10.2009 kl. 21:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband