Eru auðmenn "kommúnistar" samtímans?

Nú er illt í efni, maður! Illa innrættir "ofurbloggarar", stjórnmála- og fjölmiðlamenn eru að tæta æruna af útrásarvíkingum og bankamönnum. Þessum líka sauðmeinlausu gæðablóðum sem vilja öllum vel og hugsa um það eitt að hjálpa heimilunum. Ja... svo segir að minnsta kosti Hjörleifur Jakobsson, forstjóri eins af fyrirtækjum Ólafs Ólafssonar, Kjalars. Líklega er hann búinn að gleyma áróðursmynd auðmanna sem sýnd var á RÚV í nóvember 2004.

Hjörleifur líkir þessum illa innrættu gagnrýnendum auðjöfra og bankamanna við McCarthy, sem sá kommúnista í öllum hornum og ýmist svipti blásaklaust fólk lífsviðurværinu, útskúfaði því úr samfélagi manna eða hrakti það út í dauðann. Hann áttar sig ekki á því að nú er þessu öfugt farið þar sem græðgi, svik og prettir auðjöfra og bankamanna hafa svipt þúsundir atvinnunni og nú þegar hrakið nokkra örvæntingarfulla Íslendinga út í dauðann. Hjörleifur fær pláss fyrir þessa varnarræðu sína við hlið leiðara Fréttablaðsins í dag, það dugar ekkert minna.

En á forsíðu Fréttablaðsins í dag var þessi frétt sem dregur allverulega úr vægi orða Hjörleifs, hafi þau eitthvert vægi yfirhöfuð. Það sem fram kemur hér er einungis eitt örlítið dæmi af ótalmörgum.

Bankamenn bjóða lán - Fbl. 14.3.09 - smellið þar til læsileg stærð fæst

Líklega finnst Hjörleifi og öðrum þeim, sem verja þátt útrásarvíkinga og bankamanna í efnahagshruninu og líkja gagnrýni á þá við McCarthy-ofsóknirnar í Bandaríkjunum, í lagi að haga sér svona. Og svona, og svona og svona. Hjörleifur hefur kannski ekki séð þetta... eða þetta, þetta og þetta. Líkast til hefur hann heldur ekki séð myndböndin um Leppa og leynifélög - hér og hér - sem afhjúpa blekkingarleik útrásarvíkinga og bankamanna. Nei, Hjörleifur kallar þá sem bent hafa á sukkið, spillinguna og siðleysið "berserki óhróðurs" og segir bloggara skrifa "eiturpillur" sem bjóði heim óhróðri um blásaklausa útrásarvíkinga og bankamenn.  Ólafur Ólafsson og Finnur Ingólfsson

Það er fallegt af Hjörleifi að stökkva fram á ritvöllinn til varnar sínum mönnum, kannski einkum yfirmanni sínum, Ólafi Ólafssyni. Eða eru þeir félagar meðal þeirra sem skjálfa á beinunum eftir innkomu Evu Joly í rannsókn á hruninu? En kannski finnst Hjörleifi bara allt í lagi að nokkrir tugir einstaklinga geti arðrænt heila þjóð og hneppt hana í skuldafjötra til áratuga með dyggri aðstoð skeytingarlausra eftirlitsaðila, öflugra þrýstihópa og spilltra stjórnmálamanna. Mér finnst það ekki og ég áskil mér rétt til að halda áfram að gagnrýna allt þetta lið þótt það stimpli mig þar með "berserk óhróðurs" sem skrifar "eiturpillur" um þessa sárasaklausu vesalinga.

Ég ráðlegg Hjörleifi að kynna sér ENRON-málið betur og bera það saman við undangengna atburði á Íslandi auðjöfranna. Vona það besta en  búa sig undir hið versta.

Að lokum bendi ég á nýja bloggsíðu hins frábæra Andrésar Magnússonar, geðlæknis, sem hefur einstakt lag á að greina stöðuna og tjá hana á mannamáli. Fylgist með bloggi Andrésar framvegis!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég held að þessi færsla þín sé nákvæmlega það sem Hjörleifur er að skrifa um. Það er sorglegt að fólk sjái þetta ekki. Loks þegar reynir á réttláta málsmeðferð þá hleypur allt góða fólkið með í popúlisma ruglinu. Hreinlega sorglegt.

Andri (IP-tala skráð) 14.3.2009 kl. 15:04

2 identicon

Þessi bloggfærsla staðfestir allt sem Hjörleifur er að skrifa um í sinni grein.

Máni Atlason (IP-tala skráð) 14.3.2009 kl. 15:36

3 identicon

Því miður gerir þú þig seka um alhæfingar um fólk. Hver maður er saklaus uns sekt hans er sönnuð.

g (IP-tala skráð) 14.3.2009 kl. 15:40

4 Smámynd: Finnur Bárðarson

Að tala um ofsóknir, þegar fjallað er um gerspillt siðferði sem setti íslensku þjóðina á vonarvöl. Og samlíkingin við MacCarty er í besta falli aumkunarverð. Þessir menn hafa greinilega ekki kynnst alvöru ofsóknum.

Finnur Bárðarson, 14.3.2009 kl. 15:54

5 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Sammála þeim sem skrifa hér að ofan. Það verður að gera greinarmun á þeim sem fóru eftir lögum og reglum, og svo þeim fóru klárlega yfir strikið. Það hér gildir það að menn eru ekki sekir nema að sök sé sönnuð eða rökstuddur grunur um sekt. Og það yrði nú lítið um framkvæmdir og fjárfestingar hér ef að menn ættu á hættu að vera munstraðir í lið glæpamanna algjörlega að ástæðulausu.

Magnús Helgi Björgvinsson, 14.3.2009 kl. 15:55

6 identicon

Sagði ekki Eva Joly e-ð á þá leið að meintu þjófarnir segi alltafað rannsókn (og frystingar) á hendur þeim sé brot á mannréttindum?

Dísa (IP-tala skráð) 14.3.2009 kl. 16:32

7 Smámynd: Finnur Bárðarson

Ef menn eru þjófar þá finnst þeim alltaf verið að brjóta á sér. Þeir eru fórnarlömbin. Kallast psycopatia og telst til alvarlegra geðraskana

Finnur Bárðarson, 14.3.2009 kl. 16:39

8 Smámynd: Halla Rut

Þetta myndband hér efst er auðvitað bara sorglegt.

Ég bara hreinlega skil ekki tilgang skrifa Hjörleifs í Fréttablaðinu. Þetta er einhverskonar grein um ekki neitt og tel ég hann hér vera að reyna að skora stig hjá þeim er hann starfar fyrir. En gleðst þó yfir því, vegna einstakrar manngæsku minnar, að útrásavíkingarnir og vinir þeirra eigi sér málssvara og stuðningsmann. Allir verða að eiga einhvern að, líka þeir seku.

Halla Rut , 14.3.2009 kl. 16:54

9 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Ekki láta svona Lára Hanna. Hjörleifur er bersýnilega bara mikill húmoristi. Kannski lumar hann enn á enná beti brandara og líkir þessu næst við ofsóknir nasista gegn gyðingum. Holocaust.

Ketill Sigurjónsson, 14.3.2009 kl. 17:13

10 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Eva Joly sagði líka að það væri nauðsyn að hafa einhverjar sannanir í höndunum. Hún sagði t.d. að ekki yrði hlustað á okkur varðandi skattaskjól nema að við gætum framvísað sönnunum.

Við alemnnir borgarar höfum engar forsendur til að dæma þessa menn. Við vitum að einhverjir brutu af sér en ekki hverjir. En það hefur verið tilhneiging til að sletta sökinni á alla sem komu nálægt þessu fyrirtækjum. Bendi á almennar aftökur á fólki sem starfaði í bönkunum og fleiri. Þó að ef fólk hugsar málið þá voru flest þeirra bara að vinna vinnuna sína. Og margir af fjárfestum fólu sérhæfðum fyrirtækjum að fara með og ávaxta peninga sína. Ég hef t.d. ekki skilið að stóru endurskoðunarskrifstofunar hafa að mestu sloppið. Þrátt fyrir að þær skrifuðu upp á og gerðu ársreikninga fyrir alla þessa stóru.

En ef við högum okkur eins og í villta westrinu og dæmum fyrst og rannsökum svo þegar löngu er búið að taka þessa aðila af lífi þá vill engin lengur standa hér í fjárfestingum. 

Bendi nú á að það er hægt að finna eitthvað á alla. Meira að segja Vilhjálm Bjarnason sem allir líta á sem hetju í dag. Á vefsíðunni Herðubreið má lesa eftirfarandi.

Það var árið 1998 þegar ríkið bauð út fáein prósent af hlut sínum í Landsbankanum, löngu áður en til hinnar eiginlegu „einkavæðingar“ kom. Vilhjálmur bauð í hlutinn, fyrir hönd „venjulegra sparifjáreigenda“ og „heiðvirðra hluthafa“ sem þætti þetta góð fjárfesting, eins og hann orðaði það. Hann neitaði að upplýsa hverjir þessir venjulegu sparifjáreigendur væru.

Nema hvað: Vilhjálmur bauð best og fékk hlutinn. Skömmu síðar varð hann að upplýsa um hina raunverulegu kaupendur, hina „venjulegu sparifjáreigendur“ að baki sér: Þeir hétu Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands.

Hinir eldri lesendur Herðubreiðar muna kannski sitthvað um tilurð þess félags, tengsl þess við Samvinnutryggingar – Gift og það allt – og sitthvað annað skemmtilegt í viðskiptum seinni ára.

Aðra fýsir áreiðanlega að vita hvers vegna Vilhjálmur neitaði að upplýsa fyrir hverja hann var að leppa. Hann svaraði því sjálfur í viðtali við Morgunblaðið: „Vilhjálmur segir að rétt hafi þótt að halda því leyndu að EBÍ stæði að baki tilboðinu á meðan félagið væri að auka við hlut sinn í félaginu á almennum markaði. Að öðrum kosti hefði hætta verið á að verð bréfanna hefði hækkað og þau ekki fengist á eins hagstæðu verði.“

Ef Herðubreið væri ekki vönd að virðingu sinni gæti henni dottið í hug að leppurinn Vilhjálmur hefði reynt að hafa áhrif á verð hlutabréfa á markaði með mjög ósvífnum blekkingum.

Þannig að hann hefur nú tekið þátt í leynimakki líka. En samt kallað á hann í alla viðtalsþætti til að tala um sekt og sakleysi annarra.  Ekki það að hann hafi margt gott til málanna að leggja en enginn er algjör engill í viðskiptum.

Magnús Helgi Björgvinsson, 14.3.2009 kl. 17:29

11 identicon

Bíddu nú við, hvað hefur forsíða fréttablaðsins með grein Hjörleifs að gera?  Er ekki forsíðan um einhverja sem skuldsettu sig af fúsum og frjálsum vilja?  Eða var það Ólafur Ólafsson sem batt þá niður í rúmið og tróð ofan í þá þúsundköllum?  Það vantar allt vit í umræðuna og því miður er það fólk einsog þú sem setur hana á lægsta mögulega plan.  Hvað ef að það kemur nú bara í ljós að enginn bankamaður eða útrásarvíkingur hefur gert neitt rangt, á þá að biðjast afsökunar?  Hvaða sérfræðiþekkingu hafa bloggara á hagfræði, fjármálum og viðskiptum sem gerir það að verkum að þeir eru búnir að finna alla sökudólgana en fagmenn hafa ekki fundið þá?  Er ekki ríkið með 4 nefndir, 3 saksóknara og 3 ráðgjafa í þessu og 7 mánuðir frá hruni og ekkert mál komið af stað?  Talið varlega og beitið gagngrýnni hugsun.

Roy (IP-tala skráð) 14.3.2009 kl. 18:38

12 identicon

Roy.

Ef dómstólar dæma það löglegt að ræna banka innanfrá þá verða bara dómararnir, auðmennirnir og handbendi þeirra eftir í þessu landi en þjóðin flytur. Auðmenn og meðhjálparar þeirra eru í herferð til þyrla upp ryki og sá fræjum efasemdar og grein Hjörleifs er ekki hans fyrsta. Næsta skref þeirra verður að hóta starfsmönnum fyrirtækjanna sem þeir "eiga" enn þá. Þessir menn eru með svarta lista sem þeir munu nota til að hafa hemil á skrílnum og nú eru þeir að gefa tóninn!

Svo kemur Karl Birgisson í Herðubreið og gerir tilraun til að draga trúverðugleika Villa Bjarna þegar ráða á í FME - heppileg tímasetning fyrir auðmennina sem hann hefur gagnrýnt.

Torfi Hjartarson (IP-tala skráð) 14.3.2009 kl. 20:58

13 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

Bendi úrtölumönnum hér á að Lára Hanna skrifa ekki hér undir dulnefni eða nafnlaust.

En endilega bíðum rannsóknar áður en við tökum fólk af lífi - sem betur fer virðast þær rannsóknir eiga að fara fram núna, í tíð síðustu ríkisstjórnar var ekki hægt að sjá annað en reynt væri helst að koma í veg fyrir að komist yrði til botns í málinu.

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 14.3.2009 kl. 21:33

14 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég bendi á líflegar umræður um sama mál hér.

Lára Hanna Einarsdóttir, 14.3.2009 kl. 21:51

15 identicon

Bankamenn gætu verið plægingamenn kommúnismans.Í Rússlandi var búið að níðast á alþýðunni fyrir 100 árum ,bændaánauð og níðingsskapur sem leiddi til bolsévikabyltingarinnar.Yfirstéttin á sína ábyrgð á einræðinu sem varð.Mætti ekki segja að yfirstéttin séu kommúnistar án þess að vita það ?

Hörður (IP-tala skráð) 14.3.2009 kl. 22:24

16 identicon

Mér finnst mikill munur á ásökunum vegna skoðana fólks og ásökunum um fjármálamisferli. Það er enginn að tala um að sækja fólk til saka fyrir skoðanir sínar eins og gert var undir merkjum McCarthy. Það er verið að tala um fjármálamisferli sem í mörgum tilfellum virðist vera rökstuddur grunur um, annars væri varla verið að setja hinar ýmsu rannsóknir af stað. Það er ekki verið að rannsaka skoðanir fólks heldur gjörðir þess. Spyrja gagnrýnna spurninga um hvort þær stóðust lög. Það að fólk tjái sig opið og stundum hvasst á bloggi eru ekki sakfellingar eða nornaveiðar. Það eru skoðanaskipti enda vettvangurinn öllum opinn. Sem betur fer er enn tjáningar- og skoðanafrelsi hér á landi. Að mestu leyti.

Solveig (IP-tala skráð) 15.3.2009 kl. 00:20

17 identicon

Samlíking Hjörleifs við ofsóknir sem listamenn og verkalýðssinnar og fleiri urðu fyrir í BNA á tímum McCarthy er fullkomlega glórulaus.

Hver voru fórnarlömb t.d. ofsóttra listamanna í BNA? Höfðu þeir hundruð milljarða af samlöndum sínum? Lá fyrir rökstuddur grunur um að þeir hefðu rænt þjóð sína æru og eignum og lífsviðurværi?

Krafan um réttlæti snýr ekki fyrst og fremst að “millistjórnendum í bönkum”, líkt og Hjörleifur vill vera láta, þótt sumir þeirra kunni að vera sekir. Miklu fremur er uppi krafa um að framferði manna á borð við húsbónda Hjörleifs verði rannsakað. Vísir að slíkri rannsókn er farinn af stað vegna þess að fyrir liggur rökstuddur grunur um lögbrot. Stórkostlega brogað siðferði er síðan annar handleggur, annað rannsóknarefni.

Tal Hjörleifs um “réttarríki” er álíka ómarktækt. Það er einmitt vegna þess að við teljum okkur búa í réttarríki, að hafin er opinber rannsókn á framferð Ólafs Ólafssonar og hans nóta.

Ef í ljós kemur að hægt sé að hafa eignir og æru af heilli þjóð án þess að nokkur sæti ábyrgð, þá búum við ekki í réttarríki.
 

Rómverji (IP-tala skráð) 15.3.2009 kl. 01:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband