Hugsað upphátt um Icesave, réttlæti og mótmæli

Til að byrja með langar mig að leiðrétta leiðan misskilning sem ég hef orðið vör við. Icesave-samningurinn er ekki flokkspólitískt mál heldur þverpólitískt eða ópólitískt. Hann er harmleikur þjóðar, afleiðing taumlausrar græðgi nokkurra siðlausra manna og meðvirkra meðreiðarsveina sem kunnu sér ekkert hóf. Og spilltra, vanhæfra og sinnulausra stjórnmála- og embættismanna. Það er fáránlegt að einhverjir flokkar, einkum þeir sem eru í raun arkitektar hrunsins, eigni sér andstöðu við samninginn. Þess vegna þurfa þeir sem vilja mæta á mótmælafundinn á Austurvelli klukkan 15 í dag ekki að hafa áhyggjur af því að þeir lýsi þar með yfir stuðningi við einhverja stjórnmálaflokka. Þeir lýsa yfir stuðningi við sjálfa sig, samvisku sína og þjóðina - og andstöðu við óréttlæti.

Ég veit varla lengur hvað snýr upp eða niður á Icesave-samningnum. Hvort ég er samþykk honum eða ekki. Ég les og les, hlusta, horfi og tala við fólk - og snýst í hringi. Við höfum loksins fengið að sjá samninginn (sjá viðhengi neðst í færslu) en enginn hefur ennþá séð eignirnar sem eiga að fara upp í. Hvorki samninganefndin né ríkisstjórnin, hvað þá þingmenn eða þjóðin. Ku vera mest lánasöfn og slík söfn eru ekki traustustu eignirnar nú til dags. Og ómögulegt að segja hvað gerist á næstu 7 árum. Þeir voru ekki beint sammála, Indriði H. og Eiríkur Indefence í Kastljósinu á fimmtudagskvöld.

Auðvitað vil ég standa í skilum við mitt. Það er óheiðarlegt að borga ekki skuldir sínar. En þetta eru ekki mínar skuldir. Ég er í nógu rammgerðu skuldafangelsi fyrir þótt Icesave-skuldirnar bætist ekki við. Íslenska ríkið líka. Og þær bætast ekki bara við mínar skuldir heldur einnig afkomenda minna. Á meðan er ekki hróflað við þeim sem stofnuðu til þessara skulda. Þeir lifa enn í fáheyrðum lúxus víða um heim og gefa skít í okkur þrælana sem eigum að borga. Ég er ekki sátt.

Auðvitað eiga allir sparifjáreigendur að sitja við sama borð. Íslenskir, breskir og hollenskir. Ég skil vel að fólkið vilji fá peningana sína. Það myndi ég líka vilja. En hvað kostar það okkur Íslendinga? Mér virðist að það muni kosta okkur ógnvænlegar þrengingar, skattahækkanir, niðurskurð á allri grunnþjónustu, lækkuð laun, skertan lífeyri, lakari menntun barnanna okkar, landflótta... og fleira og fleira. Íslenska þjóðin verður í skelfilegu skuldafangelsi um ókomin ár. Nema þeir sem rændu okkur, því þeir fá að hafa þýfið í friði og ró.

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Borgarahreyfingarinnar, segir hér frá fundi þeirra Þórs Saari við konu í hollensku samninganefndinni. Þau spurðu hvort hún myndi samþykkja svona samning í þeirra sporum. Hún sagði nei.

Hvað gerist ef við borgum ekki? Tvennum sögum fer af því. Sumir mála skrattann á vegginn, aðrir segja þrengingar í örfá ár og síðan ekki söguna meir. Hvernig hefur upplýsingagjöf til útlanda verið háttað? Er búið að gera t.d. Bretum og Hollendingum grein fyrir því hvað samningurinn kostar íslenskan almenning? Hvaða afleiðingar hann hefur fyrir okkur um ókomin ár? Er búið að biðja breskan og hollenskan almenning um stuðning, höfða til samvisku hans og sanngirni? Ég held ekki. Upplýsingaflæðið innanlands er afleitt, svo ég geri ekki ráð fyrir að það sé neitt skárra út á við.

Ég minni á þá Michael Hudson og John Perkins sem voru í Silfri Egils í byrjun apríl. Byrjum á Hudson. DV talaði við hann í gær.

Michael Hudson um Icesave - dv.is 19.6.09

Og þetta sagði hann í Silfrinu 5. apríl.

John Perkins sagði þetta í sama Silfri.

Eins og áður sagði er ég búin að fara í marga hringi með þetta mál. Reyna að vera skynsöm, sanngjörn, raunsæ og með kalt mat. En það er alveg sama hvað ég reyni - hjartað segir NEI. Réttlætiskenndin segir NEI. Alveg sama hvernig ég hugsa þetta, frá hvaða hlið - og þær eru margar - mér finnst einhvern veginn að verið sé að byrja á öfugum enda. Hengja bakara fyrir smið. Ég get ekki samþykkt það.

Ég ætla því að mæta á Austurvöll klukkan þrjú í dag. Ekki aðeins til að mótmæla Icesave-samningnum heldur líka til að krefjast þess að tekið verði á vanda heimilanna. Okkar, sem sjáum skuldirnar okkar rjúka upp, skattana hækka, verðlagið fara upp úr öllu valdi á meðan bankar og innheimtustofnanir - jafnvel ríkisins - ganga hart að skuldurum í vanda.

Síðast en ekki síst ætla ég að krefjast réttlætis. Krefjast þess að tekið verði á sökudólgunum, þeim sem bera ábyrgð á ástandinu. Að íslenskt réttarkerfi hafi döngun í sér til að gera það sem Danirnir gerðu við Bagger - láta þá sem brutu af sér sæta ábyrgð. Ekki okkur sem alsaklaus erum.

Viðbót: Bendi á tvær góðar greinar í prentmiðlum dagsins - Herdís Þorgeirsdóttir í Fréttablaðinu og Árni Þórarinsson í Lesbók Morgunblaðsins.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Bloggfærslur 20. júní 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband