Ríkisstjórnin og réttlætið

Seint í gærkvöldi sendi ég þingmönnum og ráðherrum stjórnarflokkanna bréf. Líka utanþingsráðherrunum. Mér var mikið niðri fyrir að venju og ég var óttaslegin. Er það enn. Ég held að samfélagssáttmálinn sé að rifna í tætlur, aðallega vegna skorts á upplýsingum og réttlæti. Réttlætið er einna mikilvægast af öllum þáttum samfélagsins og ein af grundvallarforsendum vonarinnar. Íslenska þjóðarsálin hrópar á réttlæti og þráir von. Réttlætiskennd almennings er líklega dýpri en nokkru sinni og þjóðarsálinni stefnt í voða ef réttlætið nær ekki fram að ganga. Ég held að við getum flest verið sammála um það. En hér er bréfið.

_______________________________________

Ágætu þingmenn og ráðherrar Vinstri grænna/Samfylkingar,

Eflaust kannast flest ykkar við skrif mín á blogginu svo ég eyði ekki tíma í að kynna mig.

Samfylkingin og VgEn mér er mikið niðri fyrir. Ég er óttaslegin. Það er ekki langt í að ég verði skelfingu lostin. Ekki aðeins vegna óvissrar framtíðar, bæði fjárhagslegrar og annars konar, heldur einnig vegna ókyrrðarinnar, undirtónsins í samfélaginu, undiröldunnar. Ég held að ekki sé langt þangað til allt verður vitlaust og það hefur ekkert með flokkapólitík að gera. Flokkapólitíkina er hægt að hemja, tala til, semja um, stýra upp að vissu marki. En ekki mannssálina. Þjóðarsálina. Hún hefur sitt eðli óháð öllum flokkum og pólitík. Sál íslensku þjóðarinnar er um það bil að bresta.

Stundum finnst manni eins og fólk missi jarðsambandið um leið og það sest á þing. Kannski á það við eitthvert ykkar, ég vona þó ekki. Ef ekki þá hljótið þið að finna þessa undiröldu sem þyngist með hverjum deginum sem líður. Kannski hafið þið ekki mikinn tíma til að lesa blogg, athugasemdir og fleira á netinu sem gefur til kynna ástandið í samfélaginu. En þið verðið að vita þetta, hvernig sem þið aflið vitneskjunnar.

Ég þarf ekkert að tíunda hvað komið hefur fyrir íslenska þjóð. Við vitum það öll. Þið eruð í afleitu hlutverki við að moka grómtekinn flórinn eftir fyrirrennara ykkar. En í mestu vinsemd langar mig að benda ykkur á, að að minnsta kosti einhver ykkar virðast hafa misskilið hlutverk sitt - og vilja þjóðarinnar.  Þið eruð um það bil að missa þjóðina og ef svo fer verða það ykkar stærstu mistök og gæti reynst afdrifaríkara en nokkurn grunar. Örvæntingin er skelfileg. Hvað tekur fólk til bragðs sem hefur engu að tapa lengur?

Búsáhaldabyltingin í vetur gekk ekki aðeins út á "vanhæfa ríkisstjórn". Hún Vogarskálar réttlætisgekk líka út á gagnsæi, upplýsingar og ekki síst réttlæti. Ekkert af þessu höfum við fengið. Og eftir þessu er kallað... og það hátt. Þolinmæði almennings er ekki söm og áður - og verður kannski aldrei framar.  Við höfum lært okkar lexíu - en hafið þið lært ykkar?

Hinum almenna Íslendingi svíður að fá ekki nema lágmarksupplýsingar, gagnsæið er ekkert og lítið bólar á réttlætinu. Mig langar að biðja ykkur að lesa tvo nýlega bloggpistla: Með stein í maga og verk í hjarta og Heimsk þjóð með gullfiskaminni? Takið sérstaklega eftir hinum miklu viðbrögðum og á hvaða nótum þau eru. Icesave-málið er gríðarlega stórt og eldfimt - en við fáum engar upplýsingar um það. Hvernig ætlist þið til að fá þjóðina með ykkur - sem er lífsnauðsynlegt fyrir stjórnina - ef þið gefið henni ekki upplýsingar um það sem verið er að steypa yfir hana?

Vonandi er ekkert ykkar í þeim hópi sem tekur ekki mark á neinu nema það birtist annaðhvort í prentmiðlum eða ljósvakamiðlum. Þjóðarsálin er á netinu. Á blogginu og Facebook. Ef þið fylgist ekki með þessum miðlum eruð þið ekki með á nótunum, svo einfalt er það.

Það verður að auka gagnsæið í íslenskri stjórnsýslu og stjórnarathöfnum. Gefa skýringar, útskýra fyrir okkur eins og við séum 10 ára börn. Ef embættismannakerfið leyfir það ekki verður að skipta þar um fólk. Það verður að dæla út upplýsingum - með skýringum á mannamáli. Af hverju hefur ríkisstjórnin ekki ráðið sér fólk til að sinna upplýsingastreymi og útskýringum til almennings og fjölmiðla?

Einna mikilvægast er að þjóðin viti að verið sé að róa öllum árum að því að réttlætið nái fram að ganga. Eitt af því almikilvægasta sem bráðabirgðastjórnin gerði fyrir þjóðina, að öllu öðru ólöstuðu, var að ráða Evu Joly til starfa sem ráðgjafa sérstaks saksóknara. Ef þið viljið og hafið tíma til að rifja upp viðtalið við Evu Joly í Silfri Egils er það hér: 

Eva Joly í Silfrinu 8. mars 2009

Ég bið ykkur líka að lesa þessa bloggfærslu: Straumur vonar. Þarna segi ég m.a.: "Það gerist ekki oft að einhver höfði svona sterkt til heillar þjóðar. Undanfarna daga hefur farið straumur um þjóðfélagið - straumur vonar. Ferill, framkoma og ekki síst orð Evu Joly vöktu þá von með þjóðinni að ef til vill nái réttlætið fram að ganga þrátt fyrir allt - þótt síðar verði. Við skynjum öll hve nauðsynlegt það er og munum öll leggja okkar af mörkum ef með þarf. Að minnsta kosti við sem höfum hreina samvisku - og það er meirihluti þjóðarinnar. Ég efast ekki um það eitt augnablik."

Eva Joly - Ljósm. Mbl. ÓmarÞið gáfuð okkur von þegar þið réðuð Evu Joly til starfa. Vonin er einn sterkasti þáttur mannssálarinnar og mannlegra tilfinninga. Fólk getur umborið og þolað alls kyns óáran ef það eygir von, ekki síst um réttlæti. Eins og Eva Joly sagði í viðtalinu: "...því er þörf á réttlæti. Það er fyrir öllu. Þetta fólk má ekki komast upp með þetta. ... Aðeins innanlandsrannsókn getur leitt það í ljós. Þið hafið ekki rétt til að sleppa þessari rannsókn." Eva sagði jafnframt: "Réttlæti er grundvallaratriði fyrir hvert þjóðfélag, samfélagssáttmálinn og skilningur á því að vera þjóð og búa saman."

Er ekki kominn tími til að þjóðin fái fregnir af störfum Evu Joly, hinna erlendu sérfræðinga sem hún ætlaði að útvega og að okkur verði skýrt frá gangi mála? Við bíðum og bíðum en heyrum ekkert. Þörf samfélagsins fyrir réttlæti er meiri en orð fá lýst og eins og áður sagði er hægt að umbera margt ef við sjáum fram á að réttlætinu verði fullnægt.

Ég fylgist mjög vel með undiröldu þjóðarsálarinnar og nafn Evu Joly er ávallt tengt þessari von. Hún er holdgervingur vonar íslensku þjóðarinnar. Enda er réttlæti grundvallaratriði.

Ég skrifa þetta bréf af heilum hug og miklum velvilja þótt ekki sé ég í flokknum ykkar. Á morgun eða hinn birti ég bréfið á bloggsíðu minni og svörin frá ykkur - ef einhver berast. Ef einhver svarar en vill ekki að ég birti svarið bið ég þann hinn sama að geta þess.

Með vinsemd og hóflegri virðingu,
Lára Hanna Einarsdóttir
www.larahanna.blog.is

______________________________________

Guðfríður Lilja GrétarsdóttirViðtakendur bréfsins voru alls 36 og þegar þetta er skrifað hef ég fengið fjóra tölvupósta og eina upphringingu. Einn svarpósturinn var hraðskrifuð lína á hlaupum frá Guðfríði Lilju (Vg) sem þakkaði fyrir póstinn og sagðist svara betur í kvöld. Símtalið var frá Svandísi Svavarsdóttur (Vg). Hún náði ekki í mig, skildi eftir skilaboð í talhólfinu, ég reyndi að hringja í hana um leið og ég gat en náði ekki í hana. Við höfum semsagt ekki náð saman ennþá. Póstarnir þrír sem eftir eru fara hér á eftir. Þeir eru frá Álfheiði Svandís SvavarsdóttirIngadóttur (Vg), Jónínu Rós Guðmundsdóttur (S) og Ólínu Þorvarðardóttur (S).

Þingmenn og ráðherrar eru væntanlega önnum kafið fólk sem fær mikinn póst eins og Ólína nefnir. Maður kemst aldrei yfir að svara öllu, það þekki ég mjög vel af eigin reynslu undanfarið ár. Ég er þakklát fyrir þó þau svör sem ég fékk. Ég les ekkert sérstakt í það að fá ekki meiri viðbrögð þótt það hefði verið vel þegið, en vona þó að allir hafi a.m.k. lesið bréfið og tekið innihaldið til alvarlegrar athugunar. Athyglisvert fannst mér að svarendur eru allt konur. En hér eru bréfin þrjú:

_______________________________________

 

Álfheiður IngadóttirSæl Lára mín Hanna og takk fyrir þessa brýningu og alla pistlana.
Já ég les bloggið a.m.k. þitt og var búin að renna yfir athugasemdirnar. Ég er líka hrædd við þessa reiði og ekki síður óttann sem menn eru haldnir. Okkur er held ég alveg ljóst að við þurfum að ná betri árangri í því að opna stjórnsýsluna og ég vona að í þessu Icesave máli muni öll gögn koma uppá borðið strax og málið verður lagt fram á alþingi. Það geta ekki verið margir dagar í það. Einhvern veginn endist okkur ekki sólarhringurinn þessa dagana, fyrst Icesave og svo 170 milljarða niðurskurður næstu 3 árin. Það er skelfilegt verkefni get ég sagt þér.

En takk fyrir aftur og aftur. Kv. Álfh

_____________________________Jónína Rós Guðmundsdóttir

Takk fyrir bréfið Lára Hanna - ég skynja líka undirölduna og um leið að það er auðveldlega hægt að slá á hana með skýringum og upplýsingum - ég deili því sjónarmiðum þínum um að veita þurfi upplýsingar og mun leggja mitt á þær vogarskálar að slíkt verði veruleiki.

Kær kveðja Jónína Rós

_______________________

Sæl Lára Hanna mín og takk fyrir bréfið.

Ég hef setið í óðaönn við að svara þeim sem hafa sent mér áskoranir að undanförnu. Svar mitt hef ég nú birt á blogginu hjá mér líka, svo það er alveg ljóst hver mín afastaða í þessu máli er http://olinathorv.blog.is/blog/olinathorv/entry/893088/

Ég hef kynnt mér þetta mál svo vel sem mér er unnt og komist að þeirri niðurstöðu að það sé réttast af okkur að taka þessum samningi og leysa þjóðina þar með af þeim klafa sem er að kollsliga atvinnulíf okkar og lífskjör. Vissulega þýðir þetta þyngri byrðar á okkur öll - en við vissum að Ólína Þorvarðardóttirþað yrðu lagðar á okkur byrðar.  Og við sem ætlum að búa í þessu landi verðum að taka við þessum byrðum og axla þær. Ef ekki sjálfra okkar vegna, þá framtíðarinnar vegna. Það er ekki sanngjarnt. Það er ekki réttlátt. En hver á að reisa landið við? Gerir það einhver fyrir okkur?  Við verðum sjálf að taka hleðslugrjótið, stein fyrir stein, og bera það að byggingunni. Það er erfitt, ég veit það. Við erum misvel til þess búin að axla þessi þyngsli - en hver er hinn kosturinn? Að loka landinu?

Hefur þú aðra leið? Hefur einhver bent á aðra færa leið?

Þetta mál hefur reynst þingmönnum afar erfitt. Það er ekki auðvelt að móta yfirvegaða skoðun þegar barin eru búsáhöld í eyrun á manni og póstkerfið fyllt af áskorunum sem sendar eru margsinnis af sama fólkinu. Það er ekki þægilegt að taka við skítkasti og skömmum fyrir skoðun sína. Einmitt þess vegna er mikilvægt að maður sé sjálfur sáttur við afstöðu eigin afstöðu og að hún sé vel ígrunduð.  

Ég hef svarið þess eið að hlýða samvisku minni og láta þjóðarhag ráða afstöðu minni til hvers máls. Það hyggst ég gera í þessu máli sem öðrum.  Slík afstaða kallar á kjark - því vitanlega væri auðvelt núna að dansa bara eftir háværustu röddunum. Ég er bara ekki þannig kona - og nú er meira í húfi en persónulegar vinsældir. Nú er hagur þjóðar í húfi.

Ég ætla að greiða atkvæði með þessum samningi, og bið þig að virða ákvörðun mína.

Þín bloggvinkona - þinn þingmaður,
Ólína Þorvarðardóttir.

______________________

Ég fékk lengsta SMS sem ég hef fengið frá Svandísi fyrr í kvöld. Sá það fyrst núna, heyri ekkert í símanum þegar hann er ofan í tösku. En svona hljóðuðu skilaboðin:

Agalegt að vera tölvulaus og á leið út á land þegar mig langar virkilega að Svandís Svavarsdóttirskrifa þér línur.

Ég deili áhyggjunum yfir því að við tölum ekki nógu opið. Við verðum að opna umræðuna og allar upplýsingar miklu betur. Verkefnin eru hrikaleg - niðurskurður og sparnaður. Og líka þar sem það kemur illa niður.

Ég hef þá einlægu skoðun að fólk sem vill jöfnuð og félagslegt réttlæti eigi að sitja undir stýri í gegnum þennan erfiða tíma. AGS mun reynast okkur erfiður en engan veginn eins erfiður þó og það, ef okkur auðnast ekki að halda þjóðinni upplýstri og trausti í samfélaginu á það sem verið er að gera.

Brýnast af öllu samt er að fólk eygi von. Alvöruvon fyrir sig og börnin sín. Í þágu þess vil ég vinna. Og vanda mig. Fólk eins og þú er algjörlega ómetanlegt á sinni síkviku, vakandi og gagnrýnu vakt. Heill þér!

Kveðja, Svandís

_______________________________

Sæl Lára Hanna og þakka þér fyrir póstinn.

Það er mikil ólga í samfélaginu, þar er ég þér sammála og hún veldur mér miklum áhyggjum. Þjóðin krefst réttlætis, gegnsæis og upplýsinga og stjórnvöld reyna að bregðast við þessari kröfu en verkefnið er yfirþyrmandi fyrir lítið stjórnkerfi.

Sigríður Ingibjörg IngadóttirÍ pósti þínum segir þú:
"Er ekki kominn tími til að þjóðin fái fregnir af störfum Evu Joly, hinna erlendu sérfræðinga sem hún ætlaði að útvega og að okkur verði skýrt frá gangi mála? Við bíðum og bíðum en heyrum ekkert. Þörf samfélagsins fyrir réttlæti er meiri en orð fá lýst og eins og áður sagði er hægt að umbera margt ef við sjáum fram á að réttlætinu verði fullnægt."

Það má segja að í dag höfum við fengið fréttir af Evu Joly og störfum hennar! Það voru þó ekki fréttirnar sem við vorum að vonast eftir. Ég er þó ánægð með að við höfum verið upplýst um stöðu mála því þá er hægt að bregðast við og bæta úr.  Það er frábært að við höfum konu eins og Evu Joly sem ber í borðið og talar út um hlutina. Sem þingkona mun ég beita mér fyrir því að farið verði að ráðum Evu Joly. Ég fagnaði eins og flestir aðrir ákaft þegar hún kom til liðs við okkur í vor og fann fyrir þeirri von að réttlætinu yrði fullnægt. Þá von megum við ekki missa.

Bestu kveðjur
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir

____________________________________

Kæra Lára Hanna.

Takk fyrir bréfið og alla þína ötulu baráttu og vinnu. Ég finn að sjálfsögðu undirölduna sem þú talar um enda kraumar hún líka innra með mér eins og svo mörgum okkar.

Í takt við hugleiðingar þínar hefur mér undanfarið verið hugsað til hins góða slagorðs Öryrkjabandalagsins "Ekkert um okkur án okkar." Ég held að frá því í vetur megi heimfæra þetta slagorð upp á þjóðina alla og skilaboð hennar til stjórnvalda hvaða nafni sem þau nefnast - Ekkert um okkur án okkar.

Varðandi Ice-Save þá hlýtur það að vera eðlileg og réttmæt krafa að allar upplýsingar komi upp á borð svo allir - allir - geti sett sig inn í málin og tekið upplýsta afstöðu. Þannig á það að vera í öllum málum. Mikilvægum spurningum er í mínum huga enn ósvarað og ég vil skilja málið til fulls. Málið er ekki enn komið formlega fyrir þingið og því höfum við ekki gögn í höndunum. Þegar það kemur inn í þing ættu gögnin að verða opinber svo bæði ég, þú og aðrir nágrannar geti lesið og sett sig inn í málin. Ég hef
Guðfríður Lilja Grétarsdóttirsjálf sagt að ég hafi alla fyrirvara á Ice-Save og tel að sönnunarbyrðin hvíli hjá þeim sem telja þetta "einu leiðina". Málið allt er augljóslega afurð alls þess sem á undan gekk í haust og í vetur og þá ömurlegu aðstöðu sem Ísland var sett í - það er með ólíkindum hvernig þessi mál voru látin þróast og þyngra en tárum taki. Ljóst er að hvor leiðin sem farin er núna á þessum tímapunkti - að samþykkja eða hafna - getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér. Þær afleiðingar þarf að teikna betur upp í hvoru tilfellinu sem er, vega og meta hvort um sig og taka svo afstöðu út frá því. Það er algjört grunnprinsip að þjóðin sé ítarlega upplýst um málið og sé með. Ég veit ekki betur eins og ég segi en að þessi gögn komi einmitt öll upp á borð.

Og þá kemur einmitt að samfélagssáttmálanum. Ég er sammála þér um Evu Joly og hversu mikið grundvallaratriði það er að málin séu rannsökuð ofan í kjölinn með handleiðslu fremstu sérfræðinga, peningaslóðin sé elt og ALLT sé gert til að ná í fjármagnið hvar sem það er. Þetta MÁ EKKI KLÚÐRAST og hér má ekkert gefa eftir. Augljóslega sjá enn valdamikil öfl (og þau leynast mjög víða!) sér beinan hag að því að sem minnst sé rannsakað og að slóðin sé ekki elt. Ég segi aftur: Hér verðum við öll að leggjast á eitt sem áhuga höfum á þessum málum því að öflin sem vilja að þetta sé ekki gert eru augljóslega mörg og þræðirnir sterkir. Ég hef oftsinnis sagt það alveg frá því í haust að mér finnist við ekki eiga að sjá eftir einni krónu sem fer í rannsókn þessa máls - það sé einmitt einn meginþráður þess að við komumst í gegnum þetta saman að við getum öll gengið að því sem vísu að ALLT sé gert í þessum efnum. Ef þetta sé ekki gert (sem augljóslega hefði átt að gera af krafti strax í haust - hvílíkur dýrmætur tími sem liðinn er) þá er engin leið að hér geti skapast sátt. Ég fagnaði því mjög þegar Eva Joly var ráðin og vil að farið sé eftir hennar ráðum og sérfræðiþekkingu, punktur.

Upplýsingar, upplýsingar, upplýsingar - opnari vinnubrögð, það er leiðin fram á við. Það breytir ef til vill ekki þeirri djúpu efnahagskreppu sem við erum í - hún verður hér með okkur næstu árin (en um leið er mikilvægt að muna að henni MUN ljúka, þetta er tímabundið!) - en það breytir einmitt öllu um samfélagssáttmálann, að við séum öll með, vitum öll hvað er í gangi og á hvaða forsendum, og getum séð að snefill af réttlæti eigi að ná fram að ganga.

Læt þetta nægja í bili. Ég kemst ekki yfir helminginn af tölvupóstunum mínum og talhólfið mitt yfirfyllist ósvarað á hverjum degi en við höldum áfram að hlaupa... mér er sagt að byltingin sé maraþon er það ekki?!

Lilja

________________________________

Sæl vertu, Lára Hanna, og afsakaðu hvað ég svara þér seint.

Þakka þér fyrir ítarlegt og vel rökstutt bréf. Ég tel mig fylgjast sæmilega vel með í fjölmiðlum - líka bloggi og opinberunarbók - og tek undir það með þér að þar fæst ágætur mælikvarði á stemmningu, strauma, angist og gleði. Við lifum enga venjulega tíma, Íslendingar. Traustið er svo að segja horfið, bæði innanlands en ekki síður traust annarra ríkja á okkur sem ábyrgu landi. Allar þær erfiðu og oft óvinsælu aðgerðir sem gripið verður til miða að því að efla traust og trú og gera Ísland aftur fjárhagslega sjálfstætt og öflugan hlekk í samfélagi þjóða.

Þórunn SveinbjarnardóttirSamningurinn við AGS, samningar um Icesave, niðurskurður í ríkisrekstri, baráttan gegn atvinnuleysi, lægri vextir, nýr gjaldmiðill og tryggur samastaður Íslands í Evrópu. Allt miðar þetta að sama marki að Ísland endurheimti stöðu sína og traust með því að gefa skýr skilaboð um stefnu og markmið stjórnvalda. Í mínum huga er og verður það aldrei kostur að loka landinu og segja sig úr lögum við umheiminn. Menn gerðu alvöru atlögu að því markmiði í haust með fyrrverandi seðlabankastjóra fremstan í flokki. Þeirri atlögu var góðu heilli hrundið. Leið okkar út úr kreppunni og til endurreisnar verður að vera í samvinnu við önnur ríki, sem hafa hagsmuni að verja, eins og við. Algjör uppstokkun ríkisstofnana, embættismannakerfið og opinberrar stjórnsýslu er einnig nauðsynleg forsenda þess að hér sé hægt að byggja betra samfélag.

Að síðustu, um Evu Joly. Hún stendur fyrir sínu sú kona og hefur þann dásamlega eiginleika að hrista upp í valdastrúktúr feðraveldisins svo um munar. Ég er sammála þér um það að almenningur treystir Evu Joly. Það geri ég líka. Hún er mikill fengur á erfiðum tímum.

Með góðri kveðju,
Þórunn Sveinbjarnardóttir,
alþingismaður


Ekstrablaðið 2006 - umfjöllun um íslenska auðjöfra - 4

Hér er fjórði kafli í umfjöllun Ekstrablaðsins 2006 um íslenska auðjöfra. Þetta er skuggalegt. Smellið þar til læsileg stærð fæst.

Dagur 4 - Forsíða

Dagur 4 - bls. 12

Dagur 4 - bls. 13


Ekstrablaðið 2006 - umfjöllun um íslenska auðjöfra - 3

Þá er það þriðji kafli umfjöllunar Ekstrablaðsins 2006 um íslensku auðjöfrana. Smellið þar til læsileg stærð fæst.

Dagur 3 - Forsíða

Dagur 3 - bls. 6

Dagur 3 - bls. 7

Dagur 3 - bls. 8


Bloggfærslur 9. júní 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband