10.8.2009
Spámenn í föðurlandi?
Ég var að grúska í safninu og rakst á Kastljós frá 23. júní í fyrra. Þar ræða efnahagsmálin þeir Gylfi Magnússon, þá dósent við HÍ og nú viðskiptaráðherra, og Vilhjálmur Bjarnason, aðjúnkt við HÍ og nú þjóðþekktur baráttumaður. Það er fróðlegt að hlusta á þá félaga ræða málin rúmum þremur mánuðum fyrir hrun.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
10.8.2009
Lýst eftir réttlætiskennd þjóðar
Eins og þeir vita sem hingað koma reglulega flyt ég pistla á Morgunvakt Rásar 2 á föstudögum. Síðasta föstudag var 6. pistlinum útvarpað og mig hryllir við hve tíminn er fljótur að líða. Það er svo stutt síðan sá fyrsti var tekinn upp. Og ég er ekki fyrr búin með einn en komið er að þeim næsta.
Þegar ég settist niður við að semja þennan pistil sem hér birtist var ég ekki búin að ákveða um hvað hann ætti að fjalla og byrjaði án þess að vita hvernig framhaldið yrði. Þetta er skrýtið ferli en þó orðið kunnuglegt eftir alla bloggpistlana. Oftast er bara óljós hugmynd í kollinum þegar byrjað er - þ.e. um textann sjálfan. Svo kemur kannski í ljós að pistillinn hefur verið að gerjast í undirmeðvitundinni og sprettur fram þegar ég byrja að skrifa.
En hér er pistill síðasta föstudags og hljóðskrá fylgir neðst að venju. Mér fannst frábært að lagið sem ég bað um hafi verið spilað á eftir pistlinum. Það passaði nefnilega eins og flís við rass... hlustið.
Ágætu hlustendur...
Vitið þið það... ég hef ekki tölu á því hve oft það hefur komið fyrir mig í vetur að hugsa - eða segja beinlínis upphátt þegar nýjar fréttir berast: "Nei! Ég get ekki meira!" Mig grunar ég sé ekki ein um þetta. Eftir því sem stungið er á fleiri graftarkýlum spillingar, óráðsíu, lögbrota, siðleysis og glæpa því erfiðara er að burðast með þetta allt á bakinu og horfa til framtíðar.
Danski hagfræðingurinn Carsten Valgreen sagði meðal annars þetta í blaðagrein í janúar: "Ísland er lítið, einsleitt samfélag þar sem innibyrðis tengsl eru mikil. Þetta er bæði mikill styrkleiki og veikleiki. Þetta er rót kreppunnar. Slík samfélagsgerð virkar næstum eins og fjölskylda eða eitt fyrirtæki. Útilokun tiltekinna vandamála og ákvörðun um að þagga þau niður þróast mjög auðveldlega, og af því leiðir að erfitt er að grípa inn í þegar þau hafa hreiðrað um sig."
Þetta er alveg hárrétt hjá Carsten. Þessi nánu tengsl í íslensku samfélagi þar sem ættingjum, vinum, klíku- og flokksbræðrum og -systrum er hyglað án tillits til hæfni eða getu hafa reynst þjóðinni skelfilega afdrifarík. Sagt er að embættismannakerfið, sjálf stjórnsýslan sem á að halda þjóðfélaginu gangandi, sé handónýtt apparat þar sem skipta þurfi ansi mörgum út til að kerfið virki almennilega. Gömlu stjórnarflokkarnir tveir höfðu áratugum saman komið sínu fólki fyrir í kerfinu og nú, þegar ný stjórn með aðrar hugmyndir er við völd, eru útsendarar fyrri stjórna í fínni aðstöðu til þess beinlínis að vinna gegn þeirri nýju á ýmsan hátt. Væri ekki viturlegt að fara ofan í saumana á þessu kerfi og breyta því?
Umburðarlyndi og langlundargeð þjóðarinnar gagnvart spillingu, dómgreindarleysi og jafnvel lögbrotum fólks sem á að heita í vinnu hjá almenningi hefur líka verið með ólíkindum en virðist vera að þverra - góðu heilli. Rifjum upp nokkur atriði sem hefðu umsvifalaust valdið afsögnum eða vanhæfi í siðmenntum löndum:
- Fjármálaráðherra átti hlutabréf í banka, fékk greiddan arð í ágúst 2008 en neitaði að gefa upp fjárhæðir. Hann hafði lengi vitað um afleita stöðu bankanna en sat áfram í stóli ráðherra.
- Þingmaður var í sjóðstjórn gjaldþrota banka, þáði stórfé fyrir auk þingfararkaups og ríkið dældi fé inn í sjóðinn eftir hrun. Maðurinn var aftur kjörinn á þing.
- Þingmaður stal úr ríkiskassanum og sat í fangelsi. Flokksbræður veittu honum uppreist æru og hann flaug aftur inn á þing.
- Ríkissaksóknari er nátengdur forstjóra eins stærsta eiganda stærsta bankans sem er til rannsóknar. Vanhæfið blasir við en embættismaðurinn harðneitar að segja af sér.
- Fjármálaeftirlitið vísar manni úr skilanefnd banka vegna mögulegra hagsmunaárekstra, en skilanefndin ræður hann þá umsvifalaust sem framkvæmdastjóra hins gjaldþrota banka.
- Nokkrir banka- og auðmenn rændu íslensku þjóðina, lifa áhyggjulausir í vellystingum hérlendis og erlendis, en ekki hefur verið hróflað við þeim eða eigum þeirra tæpu ári eftir ránið. Þó vita allir hverjir þeir eru og hvar þá er að finna.
Þetta eru aðeins örfá dæmi af fjölmörgum um siðspillingu í íslenskum stjórnmálum og embættismannakerfi. Þjóðin hefur liðið þetta alla tíð, en nú vottar loksins fyrir vísi að vakningu og þar leika fjölmiðlar stórt hlutverk. Það var yndislegt að verða vitni að viðbrögðum fjölmiðla og almennings við lögbanni Kaupþings á RÚV um síðustu helgi. Þar lögðust allir á eitt við að gera lögbannið að engu - og það tókst.
Ég lýsi eftir viðlíka samstöðu í fleiri réttlætismálum.
Ég fékk eftirfarandi tölvupóst upp úr hádegi á föstudag:
Sæl Lára,
Góður þótti mér pistillinn þinn á rás 2 í morgun en leitt þótti mér að heyra að þú færir með rangfærslur um Illuga Gunnarsson. Þar furðaðirðu þig á því að hann hefði ekki sagt af sér vegna þess að ríkissjóður hafi greitt inn í sjóð 9. Þetta er auðvitað kolrangt.
Ég skora á þig að leiðrétta þennan hvimleiða misskilning.
Illugi gerir raunar mjög vel grein fyrir nákvæmlega þessu á vefsíðu sinni:
5. Voru peningar greiddir úr ríkissjóði inn í sjóð 9?
Engir peningar fóru úr ríkissjóði í sjóð 9. Þessi misskilningur er tilkominn vegna þess að þegar fyrirtækið Stoðir fór í greiðslustöðvun þurfti að loka sjóði 9 tímabundið. Eins og áður sagði var það gert til að tryggja að allir sjóðsfélagar sætu við sama borð. Þann 30. september ákvað svo stjórn Glitnis (sem var þá enn banki í eigu einkaaðila) að kaupa skuldabréf Stoða af sjóði 9 með afföllum. Til kaupanna notaði Glitnir sína eigin fjármuni og engir peningar fóru úr ríkissjóði.
Sagan um 11 milljarðana frá ríkissjóði hefur verið nokkuð þrálát í umræðunni, þrátt fyrir að hið rétt hafi komið fram fyrir löngu síðan. Þeir sem vilja fullvissa sig um hið sanna geta lesið fjáraukalög á vefsíðu Alþingis. Samkvæmt 40. grein stjórnarskrárinnar er bannað að greiða nokkurt gjald úr ríkissjóði án þess að heimild sé fyrir því í fjárlögum. Fjáraukalögum fyrir árið 2008 voru samþykkt í desember og þar kemur skýrt fram að engin greiðsla fór til sjóðs 9. Margt má segja um ríkissjóð og útgjöld hans en eitt er þó víst að 11 milljarðar eru ekki teknir úr ríkissjóði án þess að það komi fram í bókhaldi hans.
Fjáraukalög má finna hér á vef Alþingis www.althingi.is
http://www.althingi.is/altext/136/s/pdf/0482.pdf
Þessu er hér með komið til skila EN... Í fyrsta lagi furðaði ég mig ekki á því að hann hefði ekki sagt af sér, það var ekki venjan þá en verður vonandi framvegis - heldur furðaði ég mig á því að hann hafi boðið sig fram aftur með þennan bagga á bakinu sem aldrei upplýstist nægilega vel.
Í öðru lagi furða ég mig á því að ekki hafi verið farið ofan í saumana á málefnum einstakra frambjóðenda FYRIR kosningar. Það hefur reyndar ekki verið gert ennþá - og ég bíð óþreyjufull eftir að það verði gert. Ekki veitir af að hreinsa andrúmsloftið.
Í þriðja lagi furða ég mig á því að ég hef hvergi séð tekinn af allan vafa um málið og mér nægir alls ekki þetta hefðbundna... "að viðkomandi vísi ávirðingum á bug..." og síðan ekki söguna meir. Ég þarf miklu ákveðnari, augljósari og betri sannanir til að trúa. Og fjáraukalög Alþingis eru engin sönnun fyrir einu eða neinu í mínum huga. Slík er tortryggnin orðin og lái mér hver sem vill.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)