Ótrúlegur andskoti

Eitt af því sem talið er hafa valdið efnahagshruninu er andvaraleysi almennings á Íslandi. Almenningi til varnar skal rifjað upp að hann var blekktur og dreginn á asnaeyrunum. Aðallega af banka- og stjórnmálamönnum sem og eftirlitsaðilum sem fólk treysti til að vinna vinnuna sína.

En fjölmiðlar spiluðu þar stórt hlutverk. Ég minni á viðtölin við Aidan White, framkvæmdastjóra alþjóðasamtaka blaðamanna, um þátt fjölmiðla í aðdraganda efnahagshrunsins sem sjá má neðst í þessum pistli. Þar segir White m.a.: "Ein aðallexían sem á að koma út úr öllu þessu hræðilega ferli er sú, að fjölmiðlar eiga að tala máli þjóðfélagsins í heild. Þeir eiga að gegna þjóðfélagslegu hlutverki, vernda hagsmuni fólksins."

Því fylgir ábyrgð að reka fjölmiðil - ýmiss konar þjóðfélagsleg ábyrgð. Líka hjá þeim einkareknu. Í vetur hefur mikið verið kallað eftir fleiri fréttaskýringaþáttum í fjölmiðlum. Öflugri rannsóknarblaða- og -fréttamennsku. Fjárskorti er venjulega kennt um vöntun á slíku. Mér var því mjög brugðið þegar ég sá þessa frétt á DV.is í dag.

365 í útrás til Argentínu - DV.is 16.8.09

Ég þekkti ekki þættina sem þarna er vísað í - Wipeout. Leitaði á YouTube og fann t.d. þetta sýnishorn.

Er þetta álit 365 miðla á andlegu atgervi íslensku þjóðarinnar? Hafa þeir rétt fyrir sér? Vill fólk frekar svona sjónvarpsefni en t.d. efni á borð við Kompás eða Ísland í dag eins og sá þáttur var? Um áramótin var Ísland í dag lagt niður sem fréttaskýringaþáttur og léttmetið hefur ráðið þar ríkjum síðan með örfáum undantekningum. Kompási var hent út í janúar. 365 ver gríðarlegum fjárhæðum í enska boltann og annað íþróttaefni. Og samkvæmt frétt DV á nú að senda 120 manna hóp til Suður-Ameríku til að taka upp fíflalæti.

Þetta finnst mér undarlegur skilningur á þjóðfélagslegu hlutverki og ábyrgð fjölmiðla - og furðuleg meðferð á fjármunum.


Gróðafíknin og hið helga fé

Við þekkjum öll þá réttlætingu að ofurlaunin hafi tíðkast vegna þess að ofurlaunaþegarnir báru svo gríðarlega mikla ábyrgð. Jájá. Við vitum að þetta er kjaftæði. Engir ofurlaunaþegar hafa axlað neina ábyrgð - ennþá. Réttlætið felst meðal annars í að þeir verði látnir axla ábyrgð og það frekar fyrr en síðar.

Lesendur síðunnar vita að ég grúska gjarnan og finn stundum ýmislegt forvitnilegt - að mínu mati. Í þetta sinn fann ég alveg óvart tvær greinar í sama Mogga - frá 11. janúar 2004. Fyrri greinin heitir Um gróðafíkn og er skrifuð af Guðmundi Helga Þórðarsyni, fyrrverandi heilsugæslulækni. Um hann veit ég ekkert. Í greininni fjallar hann um gróðafíkn og veruleikafirringu ofurlaunamannanna sem missa allt jarðsamband í ásókn sinni eftir meiri peningum. Ég tek ofan minn ímyndaða hatt fyrir Guðmundi Helga fyrir greinina. Smellið þar til læsileg stærð fæst.

Um gróðafíkn - Guðmundur Helgi Þórðarson - Moggi 11.1.04

Seinni greinin er eftir fjárhirðinn Pétur Blöndal og heitir Hið helga fé sparisjóðanna. Mér skilst á mér fróðari mönnum að Pétur hafi leikið stórt hlutverk í þeirri þróun sem leiddi að lokum til falls Byrs, SPRON og fleiri sparisjóða. Greinin gæti verið innlegg í þá umræðu. Ég tek ekki ofan fyrir Pétri Blöndal fyrir greinina þótt ég játi að stöku sinnum finnist mér Pétur tala skynsamlega. En ekki mjög oft. Smellið þar til læsileg stærð fæst.

Hið helga fé sparisjóðanna - Pétur Blöndal - Moggi 11.1.04


Bloggfærslur 16. ágúst 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband