Rifjum aðeins upp...

Þóra Arnórsdóttir um Enron : The Smartest Guys in the Room
Silfur Egils 1. mars 2009

 

Enron : The Smartest Guys in the Room

1. hluti

 

2. hluti

 

3. hluti

 


Landráð af vítaverðu gáleysi?

Magma Energy Corp.Í dag rennur út frestur sá er Magma Energy veitti ríkinu til að íhuga sölu á hlut Orkuveitu Reykjavíkur í HS Orku. Mér er fyrirmunað að skilja af hverju nokkrir Reykvíkingar, Hafnfirðingar og Reyknesingar geta ekki sest niður og samið um málið sín á milli í stað þess að ganga að fráleitu kauptilboði Magma. Hafa samráð við Samkeppnisstofnun og leysa málið. Þetta eru jú allt Íslendingar fyrst og fremst og þeim ber skylda til að halda auðlindinni í þjóðareigu. Ég hef skrifað mikið um þetta mál í sumar og síminn hefur ekki stoppað hjá mér og tölvupósti rignt yfir mig. Fólk er að vakna til vitundar um hvað er að gerast þarna - og það eru skelfilegir hlutir.

Skoðanir fólks á málinu má til dæmis sjá í fréttum Eyjunnar sem hefur verið duglegt að fjalla um auðlindasöluna undanfarið. Ég bendi t.d. á þessa frétt, þessa, þessa og þessa. Og ég hvet alla til að lesa athugasemdirnar við allar þessar fréttir. Í þeim kemur ótalmargt fróðlegt fram. Flokksráð VG ályktaði um að HS Orka ætti að vera í samfélagslegri eigu, en Samfylkingin virðist ekkert skipta sér af málinu eða veita ráðherrum sínum nokkurt aðhald. Einstaklingar innan flokksins hafa tjáð sig um það, t.d. Ólína og Dofri. Að öðru leyti virðist Sigrún Elsa, fulltrúi Samfylkingarinnar í stjórn OR, fá lítinn stuðning við sinn málflutning, a.m.k. opinberlega. 

Tveir af yngri kynslóð Samfylkingar skrifuðu hvor sína greinina um Samfylkinginmálið fyrir helgi. Magnús Orri telur að þrátt fyrir samning á ystu nöf ef ekki beinlínis ólöglegan milli Reykjanesbæjar og HS Orku, eigi ríkið ekki að stíga inn í kaup Magma og hindra söluna. Skúli Helgason skrifar bloggpistil í sama dúr og athyglisvert er að lesa athugasemdirnar við hann. Þar endurspeglast skoðun fólks á þessum gjörningi prýðilega. Skúli ber því m.a. við að ríkið eigi ekki þessa 12 milljarða sem um ræðir. Bíðum við... Hér kemur fram að það kosti 13-14 milljarða að ljúka við tónlistarhúsið. En það eru ekki til 12 milljarðar til að halda afnotum af einni gjöfulustu orkuauðlind Íslendinga í meirihlutaeigu almennings. Er ekki eitthvað öfugsnúið við þennan forgang? Má ég þá heldur biðja um að tónlistarhúsinu verði frestað og haldið verði í auðlindir okkar, þótt ekki sé nema vegna komandi kynslóða. Við höfum ekkert leyfi til að einkavæða eða selja þær frá afkomendum okkar. Samfylkingin vill selja.

Svo er mérGeysir Green Energy hugleikin sú spurning hver á Geysir Green Energy, hinn eiganda HS Orku sem mun líklega sameinast Magma ef af kaupunum verður. Hér fór ég yfir eignarhald GGE og fæ ekki betur séð en þetta sé skel utan um gjaldþrota menn og fyrirtæki, væntanlega í umsjá skilanefnda bankanna. Við vitum að margt er undarlegt við skilanefndirnar og þær virðast frekar hafa hagsmuni vina, vandamanna, klíkubræðra og samflokksmanna að leiðarljósi en hagsmuni þjóðarinnar. Hvernig í ósköpunum stendur á því að skilanefndirnar eru ekki búnar að ganga að veðum eigenda Geysis Green Energy og yfirtaka reksturinn? Hvernig í ósköpunum stendur á því að gjaldþrota auðmönnum er leyft að ráðskast með auðlindirnar okkar og selja þær til að redda sjálfum sér fyrir horn og halda í sveitasetrin, snekkjurnar og ljúfa lífið? Getur einhver svarað því? Vill einhver rannsóknaraðili svo gjöra svo vel að fara ofan í saumana á fjármálum vissra stjórnmálamanna, bæjarstjóra, forstjóra og fleira fólks sem að auðlindasölunni standa? Athuga bankareikninga þeirra hérlendis og erlendis, möguleg skúffufyrirtæki í þeirra eigu og fleira í þeim dúr? Takk fyrir.

Forstjóri Magma Energy, Ross Beaty, var í Kastljósviðtali í síðustu viku. Hann skrúfaði frá kanadíska sjarmanum, elskaði land og þjóð og vildi endilega hafa hagsmuni okkar að leiðarljósi þegar hann, og skúffufyrirtækið sem hann notar til að komast bakdyramegin inn, fengi kúlulánið hjá OR til að kaupa HS Orku. Ég var búin að lesa mér svo mikið til um manninn og málefnið að mér varð beinlínis óglatt við að hlusta á hjalið í honum. Og ég hefði viljað fá miklu gagnrýnni spurningar. Ef ég hef einhvern tíma séð úlf í sauðargæru var það þegar ég horfði og hlustaði á þetta viðtal.

Kastljós 26. ágúst 2009

 

Ég skrifaði Bréf til Beaty og flutti það á Morgunvakt Rásar 2 á föstudaginn. Vonandi hefur einhver þýtt það fyrir hann en ef það hefur farið fram hjá hinum íslensku aðstoðarmönnum hans þá bæti ég úr því hér. Ross Beaty segist nefnilega vilja kaupa auðlindirnar í sátt við íslensku þjóðina. Ekki vera í stríði við neinn. Ef aðstoðarmenn hans eru starfi sínu vaxnir þýða þeir allar athugasemdir við fréttirnar sem ég benti á hér að ofan, sem og annað sem skrifað hefur verið um málið. Hljóðskrá er viðfest neðst að venju.

Morgunvakt Rásar 2

Ágætu hlustendur...

Ef ykkur er sama ætla ég ekki að tala til ykkar í dag. Ég ætla að ávarpa Ross Beaty, forstjóra Magma Energy, sem vill ólmur krækja í orkuauðlindirnar okkar. Hann var í viðtali í Kastljósinu í fyrrakvöld og ég fékk ofbirtu í augun frá geislabaugnum sem hann hafði fest yfir höfði sér fyrir viðtalið. En hér er bréf til Beaty.

Sæll vertu, Ross,

Þú varst flottur í Kastljósinu, maður. Tungulipur, ísmeygilegur og útsmoginn. Örugglega hafa einhverjir látið glepjast af sjarmerandi yfirborðinu og fagurgalanum. En ekki náðirðu að hrífa mig. Ég sá bara úlf í sauðargæru. Einhver virðist hafa sagt þér frá andstöðunni gegn áætlunum þínum í íslensku samfélagi. Ummæli þín um að þú hafir heillast af Íslandi frá fyrstu sýn voru afar ósannfærandi. Haft er eftir þér í viðtölum erlendis að þú njótir þess að skapa auð fyrir þig og hluthafana þína. Að þú farir fram úr á morgnana til að græða. Vertu bara ærlegur og segðu eins og er: að þú hafir heillast af gróðamöguleikum auðlindanna á Íslandi. Það væri bæði heiðarlegra og sannara.

Yfirlýsingar þínar um jarðhitaorku í ýmsum viðtölum eru alveg ótrúlegar. Sem jarðfræðingur áttu til dæmis að vita, að jarðvarmi er ekki endalaus og eilífur eins og þú segir í einu viðtalinu og nú hef ég eftir þér í lauslegri þýðingu: "...Ég held að jarðvarmi sé eitt besta svarið við orkuskortinum. Hann er hreinasta form orku, ódýrasta, hann er stöðugur og forðinn er ókeypis... Þetta er bara ofboðslega frábær bissness. Jarðvarminn er eilífur og tiltækur víða í heiminum." Ross þó! Maður með jarðfræðimenntun á að vita að endurnýjanleikinn er háður jarðfræðilegri óvissu og endingin fer eftir því hve mikið og hratt auðlindin er nýtt. Og af því þú lifir fyrir að gera sjálfan þig og vini þína ríka, áttu líka að vita að enginn verður ríkur á að nýta orkuna eins og á að gera - skynsamlega.

Einn af okkar fremstu jarðvísindamönnum, Stefán Arnórsson, sagði í útvarpsviðtali fyrir nokkru að tvö sjónarmið væru ríkjandi um nýtingu jarðvarma. Annað er að nýta hann með hámarkságóða í huga yfir ákveðið tímabil og þá er gjarnan miðað við afskriftatíma mannvirkja sem nýta orkuna. Hitt er að nýta hann með sem næst sjálfbærum hætti þótt full sjálfbærni náist aldrei. Það er hins vegar hægt að hafa það að leiðarljósi, að auðlindirnar nýtist sem lengst - ekki aðeins núlifandi kynslóðum heldur komandi kynslóðum einnig. Þegar upp er staðið er það siðferðileg spurning hvort sjónarmiðið er haft að leiðarljósi. Þetta sagði Stefán. Kjarni málsins er siðferði, Ross, og við vitum að græðgina skortir allt siðferði.

Þú ert ekki kominn til Íslands til að vera eins og þú sagðir í Kastljósi. Þú vinnur ekki þannig. Þú ert hingað kominn til að gera viðskiptasamning sem tryggir þér afnot af verðmætri auðlind til 130 ára. Þú ætlar að búa til söluvarning - eftirsóknarvert viðskiptamódel - selja svo hæstbjóðanda og græða feitt. Kannski selurðu Kínverjunum sem keyptu námurnar þínar, hver veit? Mér þætti líka fróðlegt að vita hvort það er tilviljun að þú hefur verið með námur í ýmsum löndum þar sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur verið að væflast.

Nei, ég hreifst ekki af hjali þínu í Kastljósi og bið þig lengst allra orða að hverfa af landi brott tómhentur sem allra fyrst. Hér mun aldrei ríkja friður um auðlindakaup þín. Við Íslendingar höfum fengið meira en nóg af spákaupmönnum og gróðapungum og græðgi þeirra.

Vertu blessaður.

**********************
Nokkrir pistlar um málið:
Hugleiðingar um einkavæðingu - áríðandi skilaboð
Eru auðlindirnar okkar ekki sexí?
VARÚÐ - Nýtt REI-mál í uppsiglingu
Svikamyllan á Suðurnesjum

Hin fallna þjóð og afsal auðlinda
Fjöregginu fórnað
Auðlindir á tombólu
"Þetta snýst allt um auðlindir"
Salan á auðlindum Íslendinga er hafin
Hafa ráðamenn ekkert lært?
Stórslys í uppsiglingu á Suðurnesjum

Agnar Kristján:
Einka(vina?)væðing HS
Skuggaverk á Suðurnesjum I
Skuggaverk á Suðurnesjum II
Spurningar varðandi tilboð Magma og ársreikning HS

Alda Sigmundsdóttir:
While we're looking the other way...
More on that ludicrous Magma HS Orka deal
Magma Energy and the second coming

Ótal pistlar hjá Hannesi Friðrikssyni

Ég stóðst ekki mátið að hafa orðið landráð í fyrirsögn þessa pistils, þótt það sé mér ekki tamt í munni, vegna þessarar bloggfærslu Egils Helga og athugasemdanna þar. Mér finnst enda kominn tími til að skilgreina þetta orð og hvað það raunverulega merkir.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Bloggfærslur 31. ágúst 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband