16.2.2008
Látum myndirnar tala
Myndir segja meira en mörg orð og hér fyrir neðan eru myndir af sunnanverðum Arnarfirði annars vegar og olíuhreinsistöðvum víða um heim hins vegar. Myndirnar fann ég með því að gúgla orðin "oil refinery".
Talað hefur verið um að reisa olíuhreinsistöðina í Hvestudal sem er annar dalur frá Bíldudal. Ég var þarna á ferð í fyrrasumar, keyrði út alla Ketildalina (samheiti yfir dalina í sunnanverðum Arnarfirði) og út í Selárdal sem er ysti dalurinn. Selárdalur er þekktur fyrir listaverk Samúels Jónssonar, listamannsins með barnshjartað, og Gísla á Uppsölum sem Ómar Ragnarsson kynnti fyrir þjóðinni endur fyrir löngu í einni af Stiklunum sínum. Ef olíuhreinsistöð yrði reist við Hvestu yrðu ferðalangar að keyra fram hjá henni til að komast í Selárdal. Hún myndi einnig blasa við frá Hrafnseyri, handan fjarðarins, fæðingarstað Jóns Sigurðssonar sjálfstæðishetju Íslendinga.
Arnarfjörður er með fallegri fjörðum landsins, jarðfræðileg perla og löngum hefur verið talað um fjöllin þar sem vestfirsku Alpana. Þau eru ekkert tiltakanlega há, um 550-700 m, en því fegurri eru þau og hver dalurinn á fætur öðrum skerst eins og skál inn í landslagið út fjörðinn. Við dalsmynnin er falleg, ljós sandfjara og fuglalíf blómstrar hvarvetna.
En látum myndirnar tala. Reynið að ímynda ykkur landslagið með olíuhreinsunarstöð, olíutönkum og olíuskipum siglandi inn og út fjörðinn. Ég get ekki með nokkru móti séð fyrir mér slíkan óskapnað í þessum undursamlega fjallasal - og reyndar hvergi á okkar fagra landi. En sjón er sögu ríkari, dæmi nú hver fyrir sig.
Stundum kviknar í olíuhreinsistöðvunum...
Er þetta sú framtíðarsýn sem Vestfirðingar og aðrir landsmenn vilja Íslandi til handa? Því trúi ég aldrei. Látið þetta ganga til annarra, sendið í tölvupósti til vina og vandamanna, vekið athygli á málinu.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Ferðalög, Stjórnmál og samfélag | Breytt 17.2.2008 kl. 03:37 | Facebook
Athugasemdir
Púff, nei ég vil ekki sjá svona lagað!!!
Maddý (IP-tala skráð) 17.2.2008 kl. 00:53
Gott að sjá þetta svona í samhengi og nauðsynlegt öllum svo hægt sé að mynda sér afstöðu til þessa. Það er óskandi að hægt verði að dreífa slíku efni á sem flesta, sem eru að hugleiða þessi mál. Það skal einnig haft í huga að þetta mun ekki gera nokkurn hlut í að leysa atvinnuvanda vestfirðinga eins og hann blasir við í dag, því þetta kallar á löng ferðalög og einangrun, sem enginn hefur áhuga á. Þetta verður því enn eitt gúlagið fyrir erlenda verkamenn. Að lokum mun þetta kosta fjórðunginn margfalt meira en skammtímahagurinn mun gefa.
Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að menn ætli sér í alvöru að láta verða af þessu þótt þeir séu að hugleiða þetta. Ef sinnuleysi almennings er svo mikið að hann láti þetta í hendur örfáum skammsýnum fulltrúum, þá á hann náttúrlega skilið að fá slíkt yfir sig. Það er hinsvegar fjarri því sanngjarnt fyrir börn framtíðarinnar. Sjálfhverfa okkar og skammsýni leyfir okkur hinsvegar ekki að setja hlutina í svo víðtækt samhengi.
Slysahætta er mikil af þessu og straumur olíuflutningaskipa við strendurnar í vályndu veðurfari er eitthvað, sem menn verða að taka inn í myndina fyrir utan himinhrópandi umhverfis, sjón og loftmengunn. Hversu örvæntir eru menn orðnir um framtíð byggðar á vestfjörðum, þegar þeir eru farnir að plana það að gera þá óbyggilega til að viðhalda byggð? Þetta eru þvílík öfugmæli. Átta menn sig ekki á auðnum, sem felst í ósnortinni náttúrunni?
Jón Steinar Ragnarsson, 17.2.2008 kl. 01:00
Hvestudalur er einna fallegastur þessar dala og einmitt þar við ströndina er líka hvíti fjörusandurinn mestur. Mér sýnist ein myndin vera þaðan, þ.e. sú sem er tekin niður við ströndina.
Emil Hannes Valgeirsson, 17.2.2008 kl. 11:10
Takk fyrir stuðningsyfirlýsinguna, Ægir. Gott að vita af henni og þú getur lagt lið nú þegar með því að fjalla um málið á þínu bloggi og/eða vísað í þessi skrif hér. Aðrir líka sem taka undir með okkur.
Ég trúi ekki að neinn vilji sjá svona lagað, Maddý.
Góður að vanda, Jón Steinar. Tek undir hvert einasta orð í athugasemdinni þinni.
Já, Emil... myndin sem tekin er niður við ströndina er einmitt við mynni Hvestudals.
Lára Hanna Einarsdóttir, 17.2.2008 kl. 11:36
Innlitskvitt. Sammála. Og, kominn með færslu hjá mér, sem vísar á þig.
Einar Indriðason, 17.2.2008 kl. 16:27
Gætirðu hugsað þér svona ferlíki í þínum ástæru Vestmannaeyjum, Hallfríður? Það efast ég um og er ekki í nokkrum vafa að Vestfirðingar vilja þetta ekki heldur. Það er bara búið að hóta þeim að byggðin leggist af ef þetta gerist ekki og enginn virðist vera að leita annarra lausna fyrir Vestfirðinga. Þeir eru orðnir hræddir og hræðsla er visst stjórntæki sem ósvífnir aðilar notfæra sér til að valta yfir fólk sjálfum sér til hagsbóta.
Þakka þér fyrir að linka á færsluna mína, Einar. Vonandi gera það fleiri. Fólk verður að upplifa þennan sjónræna vinkil.
Lára Hanna Einarsdóttir, 17.2.2008 kl. 16:34
Við munum ekki láta þetta gerast. Hef sagt það áður og segi það enn, að áður en að svona gerræði kæmi, þá væri ég tilbúin í næstum hvað sem er. Nei þýðir nei, nauðgun er glæpur. VIð látum ekki nauðga fallegri náttúru okkar. Við munum stoppa það með öllum tiltækum ráðum.
Ingibjörg Friðriksdóttir, 17.2.2008 kl. 17:08
Ég held að vestfirðingar ættu að leggja frekar fé sitt í því að byggja upp ferðaþjónustu, finna gott flugvallarstæði, byggja hótel, selja "ómengaða" náttúru svo langt sem það nær. Gallinn við Vestfirðina er hvað þetta er mikið útúr, sem er svo um leið það sóknarfæri sem ég held að menn ættu að einblína á. Ef sá aur sem nú á að nota í þetta verksmiðjumonster er notaður í áður nefnda þætti þá hef ég þá trú að það gangnist betur og skili meiru í samfélagið en olíuævintýri sem að einhverjir erlendir aðilar koma til með að hagnast á og nota svo ódýrara erlent vinnuafl. Svo skilja þeir eftir sig sviðna og mengaða jörð þegar þeim hentar ekki lengur að vera hér.
Örvar Már Kristinsson (IP-tala skráð) 17.2.2008 kl. 17:24
Eins og ég skrifaði hér í kommenti á aðra færslu hjá þér um sama mál þá neita ég að trúa því að Vestfirðingar hverfi frá þeirri stefnu að Vestfirðir verði stóriðjufrítt svæði. Olíuhreinsistöð er stóriðja og þetta skrímsli sem hún er í útliti fyrir utan allt annað neikvætt sem fylgir henni má ekki verða að veruleika. Það má ekki og ég verð ein af þeim sem mun taka þátt í öllu starfi sem beinist að því að koma í veg fyrir það.
Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 17.2.2008 kl. 17:46
Við verðum að standa upp og láta í okkur heyra hugmyndin um olíuhreinsunarstöð er ekki til á teikniborðinu hjá mér Annars takk fyrir færsluna Lára...
Fríða Eyland, 17.2.2008 kl. 21:59
Ingibjörg... við höfum látið nauðga okkar fallegu náttúru æ ofan í æ í þágu erlendrar stóriðju að miklu leyti. Reynt að sporna gegn því en ekki tekist, ekki verið nógu mörg og nógu sterk. Ekki nógu auðug af fé, ekki með næga sannfæringu. Ef álverið í Helguvík verður að veruleika verða reistar jarðvarmavirkjanir m.a. á Ölkelduhálsi sem er algjör paradís. Það má heldur aldrei verða. Allt of oft hefur verið sagt við okkur: "Það er of seint að snúa við..." af því við höfum ekki fengið að fylgjast með framvindu mála, ekki getað það af því málið er svo flókið eða ekki haft rænu á því. Þess vegna verður fólk að taka þetta alvarlega strax og láta í sér heyra svo aldrei verði hægt að segja að við séum of sein að taka við okkur.
Örvar... það er gott og blessað að Vestfirðingar byggi upp ferðaþjónustu en þjóðin verður þá öll að hjálpa til og ekki nöldra í drep yfir peningum sem fara í vegaúrbætur á Vestfjörðum. Það verður að laga vegina þar almennilega og gera Vestfirðingum og gestum þeirra kleift að ferðast á milli staða á auðveldan hátt allan ársins hring. Vegirnir sem ég keyrði í fyrrasumar voru nú ekki til að hrópa húrra fyrir, þröngir malarvegir hangandi í bröttum hlíðum og lofthræðslupúkinn í mér að sálast úr skelfingu á köflum. Mér fannst athyglisvert að sýslumaðurinn á Patró þurfti um daginn að keyra á sjöunda hundrað kílómetra, suður og aftur vestur, til að komast á fund á Ísafirði. Einn af áfangastöðum mínum í fyrrasumar var Hænuvík í sunnanverðum Patreksfirði. Vegurinn þangað var slæmur, grjót stóð upp úr honum alls staðar sem getur verið stórhættulegt, sérstaklega í bröttum fjallshlíðum. Guðjón bóndi í Hænuvík sagði að veginum væri ekkert sinnt og þetta væri sama grjótið og hefði staðið upp úr veginum fyrir 20, 30 árum. Bændurnir hafa sjálfir verið að reyna að laga hann á eigin kostnað og fengið litla hjálp eða styrki til þess. Fjarskiptin á Vestfjörðum er síðan mál sem þarf að taka fyrir sérstaklega.
Svo tók ég eftir einu í Vestfjarðaferðinni. Ég sá fjöldann allan af litlum bátum sigla út frá þorpunum og koma inn aftur að kvöldi. Þetta voru erlendir ferðamenn sem farnir eru að hópast hingað - og Vestur - til að fara á sportsjóveiðar. Það mun vera orðið mjög vinsælt en aðrir kunna þá sögu betur en ég. Síðla sumars heyrði ég svo í fréttunum að verið var að setja þessa ferðamanna-sportveiðimennsku í kvótafjötra. Þetta kalla ég að bregða fæti fyrir uppbyggingu ferðaþjónustu.
Anna... Helga færði mér kveðju þína í dag, kærar þakkir. Þú verður majór í mótmælunum og Fríða: Já, látum heyra í okkur, hátt og snjallt.
Veistu það, Þrymur... Svona spurði fólk fyrir nokkrum árum þegar Kárahnjúkavirkjun var á teikniborðinu. Verður þetta að veruleika? Trúir því einhver? Nei, það trúði því enginn. Fólk brást við eins og Helga Vala lýsir í færslunni minni hér á undan. Þess vegna var verkið keyrt áfram og þegar kom að því að fólk vaknaði upp við vondan draum og áttaði sig á hvað var að gerast voru þeir komnir hálfa leið til helvítis með framkvæmdina og engar mótbárur teknar til greina.
Við stöllurnar, Petra, Katti og ég brugðumst í tæka tíð við fyrirhugaðri virkjun á Ölkelduhálsi, Bitruvirkjun, og okkur tókst að vekja það mikla athygli á því náttúruhryðjuverki að sett var Íslandsmet í mótmælum og athugasemdum. Við erum hæfilega bjartsýnar á að hætt verði við þá framkvæmd, enda engin þörf á henni ef grannt er skoðað.
Hvort sem við eigum von á því að olíuhreinsistöð rísi á Vestfjörðum eða ekki - þá margborgar sig að vera vakandi og bregðast við í tæka tíð til að reyna að afstýra þeim hamförum af mannavöldum sem það myndu eiga sér stað.
Lára Hanna Einarsdóttir, 18.2.2008 kl. 00:36
Fyrir nær 45 árum eða sumarið 1963 var Mosi í sumardvöl í Arnarfirði. Það er eitt eftirminnilegasta sumar í minni mínu með yndislegu íslensku dugnaðar alþýðu- og bændafólki. Þar drakk eg í mig Íslendingasögurnar, frásagnir af fólki sem nú í dag er nær allt gengið á vit feðranna. Það bjó oft við skort en alltaf var e-ð sem fólk bjargaði sér á vegna fjölbreytni náttúrunnar. Þarna var sjálfstæður búskapur þar sem fólk lifði hvort tveggja af landbúnaði sem sjávarafla. Að fara þangað vestur var annað hvort að fara með flugvél eða með bíl. Það tók yfirleitt 2 daga að fara frá Reykjavík, um Gilsfjörð þurfti að sæta sjávarföllum og þræða alla firðina og heiðarnar þar sem voru jafnvel óbrúaðir lækir, t.d. á Þingmannaheiði sem var erfið drossíum.
Að koma á fót einhverri stóriðju í formi olíuhreinsistöðvar þarna í þessum friðsælu fjörðum væru mikil afglöp, nánanst glæpi nánast. Spurning hvort ekki mætti markaðssetja og selja að einhverju leyti þessa miklu friðsæld. Í heiminum er fjöldi fólks sem gjarnan vill leita í þögnina og kyrrðina.
Um þessa hugmynd mætti ræða langt fram á nótt en óskandi verður unnt að koma vitinu fyrir ráðamenn að þyrma síðasta landshorninu frá stóriðjudraugnum!
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 18.2.2008 kl. 15:44
Skrítið - ég sendi inn athugasemd hér áður ídag, hvert hefur hún farið...??? En alla vega þetta eru frábærar myndir og frábært framtak að setja þetta svona upp. Það þarf ekki fleiri orð til að lýsa þessu!
Petra Mazetti (IP-tala skráð) 18.2.2008 kl. 22:34
Það er tímaspursmál hvenær þarna rís olíuhreinsunarstöð. Það er ekki svartsýni heldur raunsæi. En vonandi verð ég þá steindauður.
Sigurður Þór Guðjónsson, 20.2.2008 kl. 00:03
Skemmtileg saga um sumardvölina, Mosi, og ég tek vitaskuld undir með þér - þetta væri glæpur. Það er miklu vænlegra að markaðssetja kyrrðina og friðsældina, enda gnótt af henni á Vestfjörðum. Íbúar erlendra stórborga myndu borga stórfé fyrir að dvelja svosem í vikutíma í rólegu umhverfi vestfirskra fjalla.
Sigurður... ég skil orð þín þannig: "Over my dead body!"
Lára Hanna Einarsdóttir, 20.2.2008 kl. 00:14
Svona til að bæta aðeins í safnið hjá þér þá læt ég þennan link fljóta með:
http://photo.blog.is/blog/photo/entry/390817/
Kjartan Pétur Sigurðsson, 20.2.2008 kl. 23:41
Takk, Kjartan!
Lára Hanna Einarsdóttir, 21.2.2008 kl. 00:37
Sæl og blessuð og takk kærlega fyrir gott blogg,ég er svo innilega sammála þér í þessu og þetta er bara hreinn skandall að þetta skuli vera að koma yfir okkur og þetta er eiginlega að koma í túnfótinn hjá mér þar sem ég bý í Bakkadal í Ketildölum
María (IP-tala skráð) 22.2.2008 kl. 22:30
Takk fyrir innlitið, María og ég tek undir að þetta er skandall - að láta sér detta þetta í hug! Þið í Bakkadal yrðuð að fara framhjá þessari stöð í hvert sinn sem þið færuð til Bíldudals eða annað, bjarminn af ljósunum mengar dalinn ykkar og þið heyrðuð stöðugan hávaðann frá henni. Þið, sem næstu nágrannar, ættuð að hafa neitunarvald. Þessi stöð, ef hún rís á Hvestu, eyðileggur búsetuskilyrði ykkar í Bakkadal.
Nú veit ég ekki hvort þú varst á fundinum um málið á Bíldudal í gær, ég geri þó fastlega ráð fyrir því. Ég horfði og hlustaði á fréttir um fundina í gærkvöld og í kvöld, og einna fáránlegust fundust mér orð Ólafs Egilssonar þegar hann sagði: "Áreiðanlega eiga margir eftir að gera sér ferð í skammdeginu til að sjá ljósadýrðina í slíkri stöð þegar hún er risin". Hann gleymdi alveg að nefna "hlusta á hávaðann og anda að sér eiturspýjunni".
Ólafur sagði líka í fréttum Stöðvar 2 í kvöld: "Sjónmengun, það er jú smekksatriði. Sumir hafa talað um að Pompidou-listasafnið í París líkist olíuhreinsistöð. Þetta yrði tilbreyting. En í einum dal á Vestfjörðum, í víðáttu Vestfjarða, þar mun það ekki skipta miklu máli neikvætt." Þetta finnst mér vera hroki á hæsta stigi og maðurinn tala niður til Vestfirðinga og okkar hinna sem dáum þá og viljum halda í óspillta náttúru og þá fegurð sem þar blasir við.
Ef þú sendir mér póst á lara@centrum.is get ég sent þér fréttainnslögin ef þú vilt. En enn og aftur - takk fyrir innlitið. Að öðrum ólöstuðum sem hafa skrifað athugasemdir hér þykir mér vænst um að fá þína.
Lára Hanna Einarsdóttir, 24.2.2008 kl. 21:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.