Færsluflokkur: Ferðalög

Ábyrgðarleysi og sóðaskapur

Leiðsögumenn erlendra ferðamanna eru þeir sem kynnast ferðamönnunum best á meðan þeir staldra við, áhuga þeirra á landinu, ánægju með það - og kvörtunum yfir því. Leiðsögumenn þurfa að leysa hvers manns vanda, fræða, skýra, svara, hugga, græða og almennt redda því sem redda þarf hverju sinni. Þeir gegna jöfnum höndum hlutverki sálfræðinga, fræðara og reddara. Leiðsögumenn eru á ferðinni um allt land og koma á flesta þá staði sem heimsóttir eru í skipulögðum - og óskipulögðum ferðum ferðaskrifstofa og annarra.

Yfirvöld ferðamála ættu því að leggja eyrun við þegar leiðsögumenn tala og taka fullt mark á þeim. Þeir vita nákvæmlega hvernig ástandið er á öllu mögulegu um allt land.

Í sumar hafa heyrst fjölmargar kvartanir frá leiðsögumönnum um ástand salerna víðs vegar um landið. Þau eru lokuð, biluð eða jafnvel ekki fyrir hendi á fjölförnum stöðum þar sem margir rútufarmar af ferðamönnum staldra við á hverjum degi til að njóta náttúrufegurðar Íslands - og þá eru ótaldir allir sem ferðast um á einkabílum eða bílaleigubílum. Við Íslendingar erum auðvitað sjálfir þar á meðal. Hversu viljugir og fjölhæfir sem leiðsögumennirnir eru geta þeir ekki leyst þetta tiltekna vandamál.

En þeir geta látið vita af vandanum og hafa gert það af miklum krafti það sem af er sumri, m.a. í viðtölum við fjölmiðla. Nokkrir leiðsögumenn hafa einnig skrifað um málið á bloggsíður sínar og nægir þar að nefna Úrsúlu, Guðjón og Berglindi. Fjallað var um málið í hádegisfréttum RÚV núna áðan og í Fréttablaðinu í morgun var viðtal við Börk Hrólfsson, leiðsögumann, sem ég set inn hér að neðan. Börkur er þekktur fyrir að tala tæpitungulaust og það gerir hann hér sem endranær.

Takið eftir svörum ferðamálastjóra: "....þótt Ferðamálastofa sjái um uppbyggingu salerna sé það ekki hennar hlutverk að sjá um rekstur þeirra." Hvers hlutverk er það þá? Við hvern á að tala? Hver ber ábyrgð á því að náttúruperlur okkar séu ekki útmignar og -skitnar og mishuggulegur pappír fjúkandi um allar grundir? Spyr sú sem ekki veit og ég vildi gjarnan sjá fjölmiðla grafa það upp og halda áfram að spyrja.

Í tónspilaranum ofarlega til vinstri eru samanklipptar tvær fréttir um málið, önnur frá 3. júlí sl. og hin frá í hádeginu í dag - merkt: Fréttir - RÚV - 3. og 14.7.08 - Salernismál í ólestri - Kári Jónasson, leiðsögumaður og Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri.

Náttúruperlur verða salerni ferðamanna


Gárungagrín í þágu ferðaþjónustunnar

Hinir svokölluðu gárungar eru aldrei lengi að bregðast við og notfæra sér alls konar atburði og uppákomur til að svala grínfýsn sinni og við hin höfum gjarnan gaman af. Einna þekktastir þessara gárunga nú til dags eru kannski Baggalútarnir. Ég fékk tölvupóst í gær með eftirfarandi texta og myndum, hef ekki hugmynd um upprunann en það gæti verið upplagt fyrir ferðaþjónustuna að hafa þetta í huga í framtíðinni. Stundum er gott að beita húmornum á alvörumálin þegar umfjöllun er orðin svona tragíkómísk.

Velkomin í Skagafjörð

á ísbjarnaslóðir

Skagafjörður

Hvernig væri að skella sér í Skagafjörð í sumar.
Þar eru ævintýri og afþreying á hverju strái.

- VeiðimaðurRatleikur við Hraun á Skaga alla fimmtudaga, 18 ára aldurstakmark.  
-
Spennandi berjaferðir á Þverárfjalli fyrir alla fjölskylduna á þriðjudögum. 
-
Ný skotsvæði Skotfélagsins Ósmanns á Þverárfjalli og á Skaga opnuð.
- Ævintýralegar flugferðir í leyfisleysi  þar sem bjarndýra er leitað í lágflugi. 
-
Tveggja daga skotnámskeið hjá skyttum norðursins. 
-
Uppstoppuð bjarndýr eru til sýnis í sundlaugum, skólum, leikskólum og á öllum veitingastöðum í Skagafirði. 
-
Sögustundir hjá Náttúrustofu Norðurlands Vestra alla morgna frá kl. 10-12 um ísbirni og hegðun þeirra.
-
Umhverfisráðherra mætir á einkaflugvél á staðinn um leið og ísbjörn birtist. Bangsiáskíðum
-
Icelandair býður upp á ódýrt flug frá Kaupmannahöfn í tengslum við bjarndýrafundi. 
-
Varðskip til sýnis í Sauðárkrókshöfn alla daga frá 09 -17.
-
Stórkostlegur dýragarður opnaður á Skaganum í samvinnu við dönsk yfirvöld, fjöldi villtra dýra er á svæðinu.
-
Leiðsögn um dýragarðinn fæst hjá lögreglunni á Sauðárkróki. Ís á tilboði í öllum helstu verslunum á svæðinu.
-
Skíðasvæði Tindastóls er í hjarta bjarndýrasæðisins og því spennandi kostur fyrir skíðafólk.
-
Frábærar hópeflisferðir fyrir fyrirtæki á Höfuðborgarsvæðinu.
-
Girnilegar bjarndýrasteikur á veitingahúsunum.
-
Danskur BjarnaBangsirbjór á tilboðsverði.
-
Daglegir fyrirlestrar frá frægu  fólki í 101 um hvernig eigi að fanga ísbirni.
-
Þyrla landhelgisgæslunnar sveimar yfir og upplýsir fjölmiðla og ferðamenn um ástand stofnsins.
-
Læknar verða staðsettir víða um Skagafjörð og mæla blóðþrýsting ferðamanna.
-
Skotheld vesti og ýmiss veiðibúnaður er seldur í Skagfirðingabúð.
-
Rammgerð rimlabúr og músagildrur seldar í Kaupfélaginu.
-
Skagafjörður – iðandi af lífi og dauða. 

Nýr og spennandi möguleiki í ferðaþjónustu.


Fréttafíkilsraunir, áhugatónlistarmenn og flugdólgur

Ég þurfti að bregða mér til Englands til að kveðja yndislegan, gamlan mann sem liggur banaleguna. Þetta var erfitt og tók mikið á, en dauðinn verður víst ekki umflúinn. Það er þó huggun harmi gegn að hann fær að deyja heima, umvafinn ást og umhyggju fjölskyldu sinnar.

JarðskjálftarÁ meðan ég var í burtu skalf jörð hér heima hressilega. Ég var nánast alveg netsambandslaus alla vikuna og fyrir fréttafíkil er það afleitt ástand, svo ekki sé minnst á þegar eitthvað gerist eins og jarðskjálftarnir hér í síðustu viku. Ég verð að viðurkenna að ég var gjörsamlega friðlaus og mér fannst ég stöðugt þurfa að fara í tölvuna og lesa, hlusta eða horfa á fréttir - en tengingin var vonlaus og ég varð alltaf að gefast upp. Svo var ég ítrekað spurð skjálftafrétta en ég vissi lítið meira en spyrjendurnir sem fengu sína vitneskju úr stuttum fréttum BBC. Fréttaskorturinn veldur því líka að mikið þarf að vinna upp þegar heim er komið. Dagurinn hefur bókstaflega farið í það hjá mér að hlaða niður dagblöðum, taka upp sjónvarpsfréttir heillar viku (er ekki byrjuð á útvarpinu) og innbyrða vikuskammtinn.

Svo varð lítill skjálfti klukkan hálfsjö í kvöld en ég fann hann ekki. Sá skjálfti virðist hafa átt upptök sín nær Reykjavík en skjálftarnir í síðustu viku, á því svæði sem fyrirhuguð Hverahlíðarvirkjun er áætluð, sem og hinar tvær sem eru á teikniborðinu í Gráhnjúkum og Litla-Meitli í Þrengslunum. En eins og komið hefur fram í fréttum er ekki vitað hvaða áhrif jarðskjálftarnir höfðu á borholur. Spurning hvort það sé nú klókt að reisa virkjanir þarna - nema reyndin sé sú að spennulosunin endist í einhverja áratugi. Aftur á móti segir Ingibjörg Elsa að Suðurlandsskjálftar hafi þann eiginleika að byrja austast í þverbrotabeltinu og færast síðan vestar - sjá hér. Þetta passar við skjálftann í kvöld sem var einmitt vestar en fimmtudagsskjálftarnir. Um einmitt þetta má líka lesa í fínum pistli Emils hér. Kannski við eigum eftir að fá skjálfta nær Reykjavík - ef ekki í þessari hrinu þá seinna, hver veit?

Skortur á almennilegu netsambandi olli því líka að ég gat ekki lesið nein blogg að gagni og ekki skrifað nema örfáar athugasemdir. Það kom fyrir að þegar ég var búin að lesa færslu og hugðist skrifa athugasemd - þá var tengingin rofin og ekkert hægt að gera. Ég hef lesið nokkur blogg í dag og gert eina athugasemd en ég sé nú að það er vonlaust verk að ætla að lesa aftur í tímann hjá öllum bloggvenzlum og þau blogg önnur sem ég er vön að fylgjast með. Ætli maður verði ekki að þjálfa sig í að geta kúplað út undir svona kringumstæðum og afskrifa bara þann tíma sem maður er ekki í sambandi í stað þess að rembast við að lesa 30 bloggfærslur hjá 50 bloggvinum plús athugasemdir auk allra fréttanna. Þetta er bara ekki vinnandi vegur!

Annars hef ég verið hugsandi eftir allar Englandsferðirnar undanfarið yfir aðstæðum áhugatónlistarmanna hér heima - sérstaklega þeirra í eldri kantinum - miðað við þar úti. Í Englandi er kráarmenning mikil eins og flestir vita. Mjög margar krár bjóða upp á lifandi tónlist, einkum um helgar. Þá eru fengin hin og þessi Bootlegbönd sem spila alls konar tónlist. Svo er algengt að fá hljómsveitir til að spila í afmælum, brúðkaupum og við alls konar tilefni, enda kostar það lítið. Þetta virðist vera upplagður vettvangur fyrir áhugamenn á öllum aldri til að spila fyrir áhorfendur - þeim sjálfum og öðrum til skemmtunar. Þetta tíðkast ekki hér á Íslandi. Hér hafa áhugamenn engan stað til að láta ljós sitt skína, spila saman og skemmta sér og öðrum. Einblínt er á ungar hljómsveitir og allt þarf að vera svo stórt, fínt, flott og fullkomið. Þetta er mikil synd. Ég veit um marga tónlistarmenn - bæði áhugamenn og fyrrverandi meðlimi í hljómsveitum - sem gætu vel hugsað sér að spila en hafa engan vettvang til þess.

Á föstudagskvöldið fór ég á krá þar sem ein svona áhugamannahljómsveit var að spila. Sveitin var sett saman í árslok í fyrra og hefur haft þokkalega mikið að gera við að spila á krám, í afmælum og víðar. Meðlimir eru allir í eldri kantinum, sá yngsti varð fimmtugur í fyrrahaust. Þeir kalla sig Bootleg og spila Bítlana, Stones, Van Morrison og fleira skemmtilegt. Það var fámennt á kránni en þeim var alveg sama - finnst þetta bara gaman, rétt fá fyrir kostnaði og láta sér það vel líka. Á Flickr-síðunni minni eru myndir af tveimur öðrum viðburðum frá í fyrra þar sem svona "eldriborgarabönd" koma við sögu, með nokkrum af sömu meðlimunum, enda eru sumir í fleiri en einu bandi. Mér finnst gaman að þessu, þetta er afslappað og skemmtilegt, kröfum er stillt í hóf og allir dansa og njóta kvöldsins - ekki síst hljómsveitarmeðlimirnir.

Ég kom heim í gærkvöldi með stórsködduð hné. Sat aftast í Flugleiðavélinni þar sem ekki er hægt að halla sætunum aftur. Fyrir framan mig sat kona sem skyndilega skellti sætisbakinu aftur með snöggum rykk. Mogginn sem ég var að lesa skall framan í andlitið á mér, ég saup hveljur hátt og snjallt en konan lét eins og ekkert væri. Ég sat pikkföst með konuna og sætisbakið í Flugleiðirfanginu og gat mig ekki hrært. En henni fannst greinilega ekki nógu langt gengið og hóf nú að reyna að skella sætisbakinu enn lengra aftur og virtist ekki sætta sig við að það færi bara ekki lengra. Þetta var þéttvaxin kona og hún beitti líkamsþunganum af fullu afli á sætisbakið - og mig. Ég er ágætlega leggjalöng og járnin í sætisbakinu skullu nú hvað eftir annað á hnjánum á mér og ég átti enga undankomuleið. Konan lét enn sem hún heyrði ekki sársaukahljóðin sem skruppu út úr mér og hætti ekki fyrr en ég hnippti í hana, bað hana að fara hægar í sakirnar og sagði að hún væri að misþyrma mér. Hún brást ævareið við, harðneitaði að hafa komið við mig og hreytti í mig ónotum. Ég held að ég hafi aldrei orðið vör við slíkan ruddaskap hjá neinum samfarþega mínum í flugvél. Í lok ferðarinnar var ég að spá í að sýna henni hnén á mér en lét kyrrt liggja. Það stórsér á þeim eftir lætin í henni, þau eru blá, marin og hrufluð. Ég kann konunni sem sat í 41D í FI 455 frá London 1. júní 2008 litlar þakkir fyrir samfylgdina og vona að ég þurfi aldrei að hitta þennan dónalega og tillitslausa flugdólg aftur neins staðar.


Látum myndirnar tala

Myndir segja meira en mörg orð og hér fyrir neðan eru myndir af sunnanverðum Arnarfirði annars vegar og olíuhreinsistöðvum víða um heim hins vegar. Myndirnar fann ég með því að gúgla orðin "oil refinery".

Talað hefur verið um að reisa olíuhreinsistöðina í Hvestudal sem er annar dalur frá Bíldudal. Ég var þarna á ferð í fyrrasumar, keyrði út alla Ketildalina (samheiti yfir dalina í sunnanverðum Arnarfirði) og út í Selárdal sem er ysti dalurinn. Selárdalur er þekktur fyrir listaverk Samúels Jónssonar, listamannsins með barnshjartað, og Gísla á Uppsölum sem Ómar Ragnarsson kynnti fyrir þjóðinni endur fyrir löngu í einni af Stiklunum sínum. Ef olíuhreinsistöð yrði reist við Hvestu yrðu ferðalangar að keyra fram hjá henni til að komast í Selárdal. Hún myndi einnig blasa við frá Hrafnseyri, handan fjarðarins, fæðingarstað Jóns Sigurðssonar sjálfstæðishetju Íslendinga.

Arnarfjörður er með fallegri fjörðum landsins, jarðfræðileg perla og löngum hefur verið talað um fjöllin þar sem vestfirsku Alpana. Þau eru ekkert tiltakanlega há, um 550-700 m, en því fegurri eru þau og hver dalurinn á fætur öðrum skerst eins og skál inn í landslagið út fjörðinn. Við dalsmynnin er falleg, ljós sandfjara og fuglalíf blómstrar hvarvetna.

En látum myndirnar tala. Reynið að ímynda ykkur landslagið með olíuhreinsunarstöð, olíutönkum og olíuskipum siglandi inn og út fjörðinn. Ég get ekki með nokkru móti séð fyrir mér slíkan óskapnað í þessum undursamlega fjallasal - og reyndar hvergi á okkar fagra landi. En sjón er sögu ríkari, dæmi nú hver fyrir sig.

Arnarfjörður-1

Arnarfjörður-2

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Arnarfjörður-4

Arnarfjörður-3

 

 

 

 

 

 

 



Arnarfjörður-6-Hvesta

Arnarfjörður-7

 

 

 

 

 

 

 

 

Hampshire UK

Óþekkt staðsetning

 

 

 

 

 

 

 

Qatar

Indiana, USA

 

 

 

 

 

 

 

 




Kalifornía

Kanada

 

 

 

 

 

 

 




Kanada

Venezuela

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Stundum kviknar í olíuhreinsistöðvunum...

EnglandOklahoma_USA
 

 

 

 

 

 

 

 

 

Er þetta sú framtíðarsýn sem Vestfirðingar og aðrir landsmenn vilja Íslandi til handa? Því trúi ég aldrei. Látið þetta ganga til annarra, sendið í tölvupósti til vina og vandamanna, vekið athygli á málinu.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband