Oft er talað um að fjölmiðlar séu fjórða valdið í þjóðfélaginu. Hinar þrjár valdastofnanirnar eru löggjafarvald, framkvæmdavald og dómsvald. Af þessum fjórum eru fjölmiðlarnir einna mest áberandi, enda inni á gafli á hverju heimili í einni eða annarri mynd á hverjum einasta degi. Ábyrgð þeirra er mikil... mjög mikil.
Að sumu leyti er hlutverk fjölmiðla mikilvægara en hlutverk stjórnarandstöðunnar því fjölmiðlar ná betur til fjöldans og hafa svo gríðarleg áhrif ef þeir vilja beita sér. Fjölmiðlar eiga alltaf að vera í eins konar stjórnarandstöðu - veita stjórnvöldum aðhald, meðal annars með því að upplýsa misnotkun valds og vinna í þágu almennings án nokkurrar íhlutunar stjórnmála eða flokkapólitíkur. Þeir eiga að fylgjast með umræðunni í þjóðfélaginu, þjóðarsálinni, og fylgja þeim málum eftir sem brenna á alþýðu manna.
Margt er athugavert við fréttaflutning og eftirfylgni mála í fjölmiðlum, hverju svo sem um er að kenna. Gæti verið tímaskortur, mannfæð, tíð mannaskipti vegna álags, of margir of ungir og reynslulausir fréttamenn sem skortir þekkingu og yfirsýn... ég veit það ekki, ég þekki ekki til og verð því að giska. En við eigum marga góða, vandaða og klára blaða- og fréttamenn sem geta gert - og gera góða hluti, en innanum er fólk sem ætti að gera eitthvað allt annað og láta fagmenn um fréttamennsku.
En hlutverk blaða- og fréttamanna er heldur ekki alltaf öfundsvert, til dæmis þegar komið er fram við þá eins og sést í fréttabrotinu hér að neðan. Á þriðjudaginn í síðustu viku boðaði forsætisráherra til blaðamannafundar þar sem hann sat fyrir svörum um hrun krónunnar og fleira varðandi efnahag landsins. Eða hvað...? Svaraði Geir því sem hann var spurður að?
Þrátt fyrir alla pólitík hafði ég alltaf nokkuð álit á Geir Haarde. Taldi hann kurteisan séntilmann sem talaði gjarnan af þekkingu og yfirvegun. Þetta var á meðan hann var fjármálaráðherra. Mér finnst hann hafa breyst og vera farinn að draga dám af ónefndum forvera sínum.
Hér er Geir spurður afskaplega eðlilegrar spurningar - hvort honum finnist að Seðlabankinn eigi að bregðast við ástandinu sem skapast hafði í efnahagsmálum landsins. Sem Seðlabankinn gerði jú í morgun með hækkun stýrivaxta. Svona svaraði forsætisráðherra fréttamanni Stöðvar 2, þriðjudaginn 18. mars 2008:
Hvernig geta fjölmiðlar sinnt skyldu sinni gagnvart almenningi þegar þeim er svarað á þennan hátt? Mér finnst þetta vanvirðing - ekki bara við fréttamanninn heldur allan almenning sem sat skjálfandi og áhyggjufullur heima í stofu og beið eftir svörum stjórnvalda. Forsætisráherra sýnir þjóð sinni fyrirlitningu með þessari framkomu. Ráðamenn mega ekki komast upp með slíkt. Þeir stjórna í okkar umboði, sleikja á okkur tærnar fyrir kosningar en skella á okkur þess á milli. Þetta augnablik er eitt af þeim sem ég ætla ekki að vera búin að gleyma í næstu kosningum.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 03:45 | Facebook
Athugasemdir
Geirharður góðmenni er í slæmum skæðum...
Steingrímur Helgason, 26.3.2008 kl. 00:53
Af fyrri kynnum mínum að þessum stjórnmálamanni, þá kemur þessi framkoma mér ekki mikið á óvart - því miður.
Kjartan Pétur Sigurðsson, 26.3.2008 kl. 00:53
Þarna talar forsætisráðherra sem telur sig ekki þurfa að útskýra svör sín. Spurning Lóu Pind er ofur eðlileg, en Geir hefði getað sagt beint út hvað hann meinti. Að hann teldi ekki tilhlýðilegt að segja Seðlabankanum fyrir verkum. Því þannig telur hann að það væri túlkað, ef hann tjáði sig um hvað Seðlabankinn ætti að gera. Lögin eru nefnilega nokkuð skýr hvað sjálfstæði Seðlabankans varðar gagnvart framkvæmdavaldinu. Geir taldi sig sjálfsagt fara að leikreglum lýðræðisins með svari sínu.
Annað mál er hvort við ætlum að Geir hafi á þessari stundu vitað hvað Seðlabankinn ætlaði skömmu síðar að gera. Ef svo er þá var svar hans... leikrit. Nefndi hann ekki "gott samstarf" við Seðlabankann í þessum málum? Er hann ekki í nánum tengslum við Seðlabankastjóra?
Þú ritar annars manna heilust um vanda fjölmiðla á Íslandi. Það er rétt af þér að pota svolítið í þá. Hitt er annað mál að margir blaðamannafundir, ekki síst ráðherra, eru lélegur vettvangur dýpri upplýsingaöflunar. Yfirleitt eru boðendur þar í yfirburðastöðu gagnvart blaða- og fréttamönnum, sem á þeim fundum eru að kynna sér efni á staðnum og stundinni, t.d. skýrslur eða þingmál. Hér var reyndar verið að tilkynna að ekkert yrði gert í efnahagsmálum af ríkisstjórnarinnar hálfu. Það hlaut auðvitað að kalla á spurningu um efnahagsstjórn Seðlabankans. Og það kallaði á að Geir hefði vel æft og ígrundað svar við spurningunni. "Ég svaraði því ekki vegna þess að ég ætla ekki að svara því" er vitaskuld afleitt svar. En hluti málsins er líka að hrokinn fer Geir verr en forvera hans.
Friðrik Þór Guðmundsson, 26.3.2008 kl. 00:58
Geir gleymir að hann er í vinnu hjá okkur.
Hólmdís Hjartardóttir, 26.3.2008 kl. 09:20
Eins og venjulega hittir þú í mark með færslunni þinni. Ég er auðvitað sammála þér (eins og svo oft) og ég átti ekki orð í eigu minni þegar Geir svaraði af þessum hroka sem hann gerði. En það er ágætt að fá að sjá og heyra hið raunverulega viðhorf stjórnmálamanna til umbjóðenda sinna, en það gerist ekki oft, því miður.
Svo er það mín skoðun að stjórnmálamenn dagsins komist upp með að gefa dauðann og djö.. í að svara einlæglega í fjölmiðlaumræðunni. Því miður. Það eru ekki margir fréttamenn sem hafa nægilegt bein í nefinu til að ganga hart eftir svörum, ekki vegna þess að þeir eru lélegir fréttamenn endilega, heldur virðist mér þetta orðin lenska þessa dagana.
Takk fyrir mig Hanna Lára
Jenný Anna Baldursdóttir, 26.3.2008 kl. 09:56
Ótrúlegur hroki.
Ágúst H Bjarnason, 26.3.2008 kl. 12:43
Þessi ríkisstjórn er orðin vanhæf til að halda hér stöðugu verðlagi, verðbólga yfir verðbólgumarkmiðum 96 % tilfella síðan 2003.
Svoleiðins ástand væri hneyksli í þýskalandi og ríkisstjórnin þar hefði á endanum þurft að segja af sér....
En hér, nei hér segir ríkisstjórnin að hún ættli ekkert að gera, bara bíða og vona og ekki svara spurningum ÞVÍ HANN ÆTTLAR EKKI AÐ SVARA ÞEIM.
Vanvirðing gangnvart almenning er algjört
gfs (IP-tala skráð) 26.3.2008 kl. 12:52
Ég tek undir með Steingrími Helgasyni þarna.
Takk fyrir mig.
Marta B Helgadóttir, 26.3.2008 kl. 14:35
Já, þetta var sannarlega athyglisvert viðtal.
Steingerður Steinarsdóttir, 26.3.2008 kl. 15:56
Svona getur valdið verið grímulaust. Ljóst er að Geir ætli sér ekki að svara neinum spurningum sem kemur stjórnarstefnu flokkseiganda Sjálfstæðisflokksins í koll. Hins vegar brosir hann sínu breiðasta brosi að skín í tannlítinn góminn þegar uppi eru þægilegar spurningar sem alltaf er gaman að svara.
Framkvæmdavaldið á Íslandi er því miður orðið svo sterkt að aðeins stigsmunur er á að einræði sé komið í staðinn. Framkvæmdavaldið er jú með dómsvaldið í vasanum. Núna er nánast hver einasti hæstaréttardómari skipaður af Sjálfstæðisflokknum. Lagatæknin í dag miðast öll við það að auka miðstjórnarvald framkvæmdavaldsins sem mest með því að sett eru mjög almennt orðaval í lög með því ákvæði um að „ráðherra setji nánari reglur“. Með hverju árinu sem líður má sjá þessa ógnvænlegu þróun. Svo eru ráðherrar spurðir í fyrirspurnartímum og þá eiga þeir til að svara ýmist út eða suður ef þeim hentar.
Eitt mjög alvarleg merki er hvernig sumir ráðherrar misnota aðstöðu sína. Dæmi þess er t.d. í fyrirspurnartíma fyrir nokkrum vikum en þá bar á góma einkavæðing Iðnskólans í Reykjavík. Hvernig lauk menntamálaráðherra þessari umræðu? Sem síðasti ræðumaður á dagskrá húðskammaði Þorgerður Katrín fyrirspyrjanda, Kolbrúnu Halldórsdóttur, kvað Vinstri Græna vera á móti öllu og þar fram eftir götunum. Þessi viðbrögð minnti óþyrmilega á þegar Mússólíní hélt sínar æsingaræður í ítalska þinginu. Ef honum mislíkaði e-ð þá fylltist hann vandlætingu og úthúðaði andstæðing sinn fyrir að dirfast að gagnrýna sig og gerðir sínar. Í raun var þetta oft skilið sem n.k. „veiðileyfi“ og fasistaskríllinn átti oft til að rjúka af stað í skjóli nætur og koma þessum voðalega andstæðing fyrir kattarnef.
En við búum í lýðræðisríki þar sem enn má hafa skoðanir enn sem komið er. Við skulum vona að þjóðfélagið okkar sé ekki á leiðinni til andskotans með Sjálfstæðisflokkinn á 1. farrými. Við viljum gjarnan að lýðræðisþróunin verði fremur í átt til aukinna borgaralegra réttinda á öllum sviðum, að raunverulegt lýðræði sé tryggt og að sjálfákvörðunarvald þjóðarinnar verði virt að öllu leyti. Þannig hefðum við átt sjálf að velja hvort við viljum styðja bandaríkjaforseta í vonlausu stríði eða fórna hálendinu okkar í þágu áliðnaðar eða annarrar stóriðju.
Við skulum minnast misgjörða landsfeðranna í næstu kosningum!
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 26.3.2008 kl. 18:52
Ég er rosalega ánægður með þig Lára, þú stendur vaktina með sóma
Geir er hrokafullur eins og flestir þeir sem eru í forystu sjálftektarflokksins.
Snilldarsvar hjá þér Guðjón.
Óskar Þorkelsson, 26.3.2008 kl. 20:02
Gott svar hjá Geir!
Á ekki Seðlabankinn einmitt að taka sjálfstæðar ákvarðanir?
Geir passar sig hér greinilega á að gefa ekki út óbein fyrirmæli, sem túlka mætti þannig (t.d. af þér og líklega fleirum sem hér hafa tjáð sig) að Seðlabankinn dansaði eftir hans nótum.
Var ekki Davíð einmitt gagnrýndur fyrir slík „afskipti“ af óháðum stofnunum og nú þegar Geir gætir sín á því að láta ekki hanka sig á slíku þá er hann gagnrýndur fyrir það!
Ja, það er vandlifað í honum heimi.
Sigurjón Pálsson (IP-tala skráð) 26.3.2008 kl. 20:33
Ég var á landinu og fylgðist með falli krónunnar. Geir kom mér ekkert á óvart, enda hef ég aldrei skilið hvað fólk sér við hann.
Villi Asgeirsson, 26.3.2008 kl. 21:23
... ég held að það séu að renna upp tímar á Íslandi, þar sem almenningur, kjósendur, láta ekki allt yfir sig ganga og kjósi ekki sama flokkinn aftur og aftur, sama hvað hann gerir... held að stjórnmálamenn séu ekki búnir að átta sig á þessu ennþá... en þeir munu sjá það og læra í kosningum í náinni framtíð, að það er ekki sama hvernig komið er fram við fólk...
Brattur, 26.3.2008 kl. 22:01
innlitskvitt
Brynja skordal, 26.3.2008 kl. 23:48
Í kvöld var sigurður kári að verja hrokafullan yfirlætis valsmannstittinn hann Árna.. Geir Haarde er bara fyrirmyndin fyrir hina guttana í sjálftektarflokknum.. ömurlegt lið.
Óskar Þorkelsson, 27.3.2008 kl. 22:12
valdsmannstittur átti að vera þarna ;)
Óskar Þorkelsson, 27.3.2008 kl. 22:14
Mokum flórinn
proletariat, 31.3.2008 kl. 01:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.