13.5.2008
Síðustu forvöð - nú er að drífa sig!
Auðvitað mótmæltu Hvergerðingar, nema hvað? Lífsgæði þeirra verða stórlega skert verði af Bitruvirkjun - sem og annarra íbúa suðvesturhorns landsins. Það er ekki of seint að senda inn athugasemd. Póstafgreiðslustaðir eru flestir opnir til klukkan 18. Nú er að drífa þetta af.
Ólafur F. Magnússon, borgarstjóri, segist vera náttúruverndarsinni og var í framboði hjá Íslandshreyfingunni fyrir síðustu alþingiskosningar. Hann skipaði Ástu Þorleifsdóttur varaformann Orkuveitu Reykjavíkur og ég ætla aftur að vitna í orð Ástu í viðtali í 24stundum 16. febrúar sl. en þar sagði Ásta: "Ég mun ekki styðja neitt sem ógnar Ölkelduhálsi og Klambragili og þessum mjög svo mikilvægu útivistar- og fræðslusvæðum." Ég skora á Ástu Þorleifsdóttur að standa við stóru orðin og koma í veg fyrir að Bitruvirkjun verði að veruleika.
Hér fyrir neðan er athugasemdabréfið sem ég og fleiri sendum. Öllum er heimilt að afrita það og senda í sínu nafni. Letur og leturstærð er eitthvað að stríða mér - fólk lagar það bara hjá sér.
Sveitarfélagið ÖlfusHafnarbergi 1
815 Þorlákshöfn
12. maí 2008
Efni: Athugasemd við breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins Ölfuss 2002-2014
atriði nr. 1 í auglýsingu er varðar Bitru - byggingu allt að 135 MW jarðvarmavirkjunar.
Ég mótmæli breytingu aðalskipulags sveitarfélagsins Ölfuss 2002-2014 atriði nr. 1 í auglýsingu: "285 ha opnu, óbyggðu svæði á Bitru/Ölkelduhálsi sem að hluta er á náttúruminjaskrá og einnig skilgreint sem grannsvæði vatnsverndar, er breytt í iðnaðarsvæði fyrir jarðgufuvirkjun." Athugasemdir mínar eru eftirfarandi:
1. Hengilssvæðið og dalirnir austan, vestan og sunnan þess hafa lengi verið ein helsta útivistarparadís íbúa Ölfuss og Hveragerðis. Svæðið býður upp á einstaka náttúrufegurð sem er sjaldgæf á heimsvísu. Enn sjaldgæfara er að finna þessa fjölbreytni bæði hvað varðar náttúru og jarðfræðimyndanir eins nálægt íbúabyggð og hér. Svæðið er aðgengilegt fyrir alla hvort sem er fyrir börn eða fólk með skerta gönguhæfni.
2. Á svæðinu í kringum Bitru og Ölkelduháls er í dag hægt að ganga um í friði og ró og njóta öræfakyrrðar í nánast ósnortnu landslagi. Þetta er ekki síður mikilvægt í samfélagi þar sem umferð er að aukast, byggð að þéttast og hraði og álag að aukast.
3. Ég tel það vera okkar ábyrgð að varðveita slíkar náttúrperlur fyrir komandi kynslóðir og legg til að í staðinn fyrir að breyta þessu stórkostlega útivistarsvæði í iðnaðarsvæði þá verði breytingin fólgin í því að friðlýsa svæðið.
4. Þrátt fyrir áætlanir um að fyrirhuguð virkjunarmannvirki eigi að falla vel inn í landslagið tel ég engan virkjunarkost á umræddu svæði ásættanlegan þar sem mannvirkjagerð á svæðinu myndi óhjákvæmilega gjörspilla þeirri náttúruperlu sem hér um ræðir.
5. Mengun af fyrirhugaðri virkjun yrði algjörlega óviðunandi. Þar er átt við sjónmengun, hljóðmengun og lyktarmengun, svo eitthvað sé nefnt. Auk þess verður brennisteinsvetnismengun óviðunandi og jafnvel hættuleg þar sem ljóst er að þótt takist að hreinsa útblásturinn verður ekkert hreinsað á framkvæmdatíma og heldur ekki úr borholum í blæstri sem alltaf verða einhverjar í gangi.
6. Ljóst er að aðrir virkjunarkostir eru fyrir hendi nefna má svæði eins og Hverahlið, Gráhnúka, Eldborg og Litla-Meitil þar sem rannsóknarboranir eru þegar hafnar.
7. Ég geri alvarlega athugasemd við auglýsingu Sveitarfélagsins Ölfuss á breytingu á aðalskipulagi þar sem ekki var farið að lögum, þ.e. 2. mgr. 18. gr. laga nr. 73/1997 þar sem stendur: "Tekið skal fram hvert skila skuli athugasemdum og að hver sá sem eigi gerir athugasemdir við auglýsta tillögu innan tilskilins frests teljist samþykkur henni." Hvorugt þessara atriða kom fram í auglýsingunni og hlýtur hún því að teljast ólögleg. Ég geri þá kröfu að breytingin verði auglýst aftur með því skilyrði að þegar fram komnar athugasemdir verði engu að síður teknar gildar.
8. Einnig geri ég athugasemd við þá kröfu Sveitarfélagsins Ölfuss að ekki sé heimilt að senda athugasemdir í tölvupósti. Í raun er tölvupóstur öruggari en hefðbundinn póstur. Ef vilji minn stæði til þess að semja 40 athugasemdir, prenta þær út, falsa undirskriftir og senda í hefðbundnum pósti væri það hægur vandi og engin leið fyrir móttakanda að rekja póstinn.
Tölvupósti fylgja aftur á móti IP tölur og auðvelt að rekja hvort verið væri að senda 40 athugasemdir frá sömu IP tölunni. Að þessu leyti er tölvupóstur mun öruggari en hefðbundinn póstur.
9. Ekki eru gerðar formkröfur um sendingu athugasemda í lögum og t.d. Skipulagsstofnun, Reykjavíkurborg og fleiri sveitarfélög leyfa athugasemdir við sams konar mál í tölvupósti. Það er því rökrétt að álykta sem svo að með því að heimila ekki tölvupóst sé Sveitarfélagið Ölfus vísvitandi að gera almenningi erfitt fyrir og það eitt og sér stríðir gegn anda Skipulags- og byggingarlaga og sjálfsagt fleiri laga, s.s. um mat á umhverfisáhrifum og tilskipun Evrópusambandsins (2001/42/EB) um áhrif og aðkomu almennings, aðgengi hans að ákvörðunum yfirvalda um umhverfið og tjáningarfrelsi.
Annað sem vert er að íhuga í sambandi við hefðbundinn póst. Á höfuðborgarsvæðinu búa 195.970 manns (Hagstofan - tölur frá 1. desember 2007). Samkvæmt heimasíðu Íslandspósts eru aðeins 11 pósthús sem þeim þjóna. Þar af eru íbúar Reykjavíkur 117.721 (Hagstofan - tölur frá 1. desember 2007) og aðeins 6 póstafgreiðslustaðir þjóna þeim. Póstkössum hefur einnig verið fækkað töluvert á höfuðborgarsvæðinu, svo og pósthúsum á landsbyggðinni. Það er því ljóst að fjölmargir þurfa að fara mjög langar leiðir til að finna póstafgreiðslustaði og vitaskuld er þessi fækkun póstafgreiðslustaða afleiðing af tölvupóstvæðingunni sem hefur að miklu leyti komið í stað hefðbundins pósts.
Ég geri kröfu til þess, að um leið og breyting á aðalskipulagi verður auglýst aftur skv. 7. lið verði heimilað að senda athugasemdir í tölupósti með því skilyrði að þegar fram komnar athugasemdir verði engu að síður teknar gildar.
10. Að lokum er rétt að koma á framfæri miklum efasemdum um hæfi sveitarstjórnar til að fjalla frekar um málið. Sveitarfélagið hefur með samningi við Orkuveitu Reykjavíkur skuldbundið sig til þess að skipuleggja svæðið til samræmis við þær framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru svo vitnað sé til bókunar bæjarstjórnar 28. apríl 2006. Þær fyrirhuguðu framkvæmdir sem vitnað er til í bókun sveitarstjórnar, og samningi við Orkuveitu Reykjavíkur, eru m.a. þær sem tilgreindar eru í auglýsingu um breytingu á aðalskipulagi.
Sveitarstjórn virðist því hafa, með samningi við Orkuveitu Reykjavíkur, og bókun sinni þann 28. apríl 2006, afsalað sér fullveldi til ákvörðunar í þessu skipulagsmáli. Ég krefst þess að sveitarstjórn Ölfuss lýsi yfir vanhæfi sveitarstjórnarinnar í heild sinni að lokinni eftirgrennslan um hverjir hafi þegið hluta af því fé sem Orkuveita Reykjavíkur hefur greitt sveitarfélaginu nú þegar - og til vara þeirra fulltrúa sem einnig sáu í sveitarstjórn þegar samkomulagið var undirritað.
Virðingarfyllst,
Nafn, kennitala og heimilisfang
Hveragerði mótmælir áformum um Bitruvirkjun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Náttúra og umhverfi, Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:57 | Facebook
Athugasemdir
Sorrí hvað ég er sein. Haska mér af stað.
Jenný Anna Baldursdóttir, 13.5.2008 kl. 15:37
Löngu búin að senda inn athugasemd;) mínar fornu heimaslóðir sem snerta taug. Takk innilega fyrir að standa í þessu af svona miklum krafti...
Birgitta Jónsdóttir, 13.5.2008 kl. 15:47
Það er skrumskæling á lýðræðinu og misnotkun á athugasemdarfyrirkomulaginu þegar svona fjöldasmölun á sér stað. Fólk á bara að kópera þitt bréf og senda! Hvað ætli sé stórt hlutfall þeirra sem svara ákalli þínu Lára Hanna, sem gera það í blindri trú á þér og þínum málstað?
Gunnar Th. Gunnarsson, 13.5.2008 kl. 16:50
Er blind trú á Láru verri en blind trú á blóðbusa?
Ég treysti ekki kerfinu lengur, þegar allt snýr á hvolfi, við greiðum hátt verð fyrir raforku (jafn hátt og næstu þjóðir, mun hærra en flestir í bandaríkjum, 2x hærra en norðmenn sýndist mér) meðan við allt að því gefum auðhringjum það og auglýsum brunaútsölu á vinnuafli, sköttum, raforku o.s.frv. í LOWEST ENERGY PRICES.
Gullvagninn (IP-tala skráð) 13.5.2008 kl. 17:40
Ég trú á Láru frekar en yfirvöld.. áfram Lára.
Óskar Þorkelsson, 13.5.2008 kl. 18:16
Líklegt svar við athugasemdum vegna breytingar á aðalskipulagi sveitafélagsins Ölfuss vegna Bitruvirkjunar frá skipulags- byggingar og umhverfisnefnd sveitarfélagsins Ölfuss.
Skipulags- byggingar- og umhverfisnefnd bendir á að aðalskipulag er í eðli sínu áætlanagerð. Skipulags- og byggingarlög gera beinlínis ráð fyrir því að sú áætlanagerð sem sett er fram í aðalskipulagi geti sætt endurskoðun, sbr. ákvæði 21. gr. Skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Sveitarfélagið Ölfus hefur metið það svo að breytinga sé þörf á fyrri áætlanagerð.
Að öðru leyti en að framan greinir gáfu framkomnar athugasemdir ekki tilefni til þess að frekari afstaða væri tekin til þeirra þar sem ekki var um eiginlegar athugasemdir við auglýsta breytingu á umræddri aðalskipulags tillögu að ræða.
Með vísan til framangreinds rökstuðnings er framkomnum athugasemdum við auglýsta tillögu að breytingu á aðalskipulagi sveitafélagsins Ölfus vegna Bitruvirkjunar hafnað og framangreindar tillögur samþykktar.
Þarf ekki að hafa fleiri orð um það. Er þetta lýðræði eða er þetta skrumskæling á lýðræðinu. Ég bara spyr?
Fyrir þá sem eru ekki vel lesglöggir þá skal á það bent að þessi texti er copy / paste úr fundargerðum sveitarfélagsins Ölfuss við svipuðum athugasemdum við breytingum á aðalskipulagi sveitarfélagsins. Nokkuð staðlað form sem í mínum huga þýðir: það er alveg sama hve margir gera athugasemdir eða hvað er gert athugasemdir við, það er þegar búið að kaupa þessa aðalskipulagsbreytingu og því verður ekki breytt sama hvað gert er.
Gunnar Jónsson (IP-tala skráð) 13.5.2008 kl. 19:46
Sæl Lára Hanna.
Þakka þér fyrir þína baráttu. Ég setti bréf í póst í dag. Ég sé hins vegar fyrir mér þá sem fara yfir athugasemdirnar, hvort sem það er fólk á vettvangi valdsins (pólitík) eða tækninnar (félagar mínir verkfræðingar), að þau finna ekki rök frá mér sem höfða beint til þeirra - nema sem manneskjur.
Hér er meginefni bréfsins frá mér: Oft hef ég gengið um Hengilssvæðið, Hengladali og Ölkelduháls og hvílst síðan í heitum læknum í Reykjadal, bæði í sumarblíðu og á gönguskíðum að vetri, þegar frostið hefur lyft hveraleirnum upp í háa litríka stuðla. Afi minn, Grímur Ásgrímsson ólst upp að Gljúfri og gætti fjár á þessum slóðum fyrir systur sína sem bjó innan við hverasvæðið þar sem síðar byggðist Hveragerði. Þetta er persónulegt sjónarhorn, en það vegur einatt þyngra en efnislegt og peningarlegt mat, þegar meta skal í einlægni hvað er mikils virði í lífinu.Hér má ekki vera of fljótráður, því að það verður erfitt að snúa við síðar og börn okkar munu ekki verða hamingjusöm af afla stórfyritækja sem nú biðla ákaft til okkar Íslendinga. Þar er gamla nýlendustefnan á ferðinni og sækir í auðlindir eins og fyrr á tímum. Sjálfsagt neyðumst við til að vera raunsæ og fórna einhverju en þó ekki þessu svæði. Betra er að sýna yfirvegun og bíða eftir að tækninni fleygi fram á sviði djúpborarna í þeirri von að nýta megi hluta af varmaorkunni undir Hengilssvæðinu á sjálfbæran hátt síðar án þess að skerða yfirborðið að nokkur marki. Það er staðreynd að lífríkið, jurtir og dýr lifa á og í yfirborði jarðar, og við mannverur tengjumst yfirborðinu, það er sú náttúra sem við þekkjum. Þetta er viðkvæm og þunn húð á jörðinni og auðvelt að spilla henni. Heiðartjörnin er tákn fyrir töfra íslenskrar heiðar, þar lifa smádýr og fuglar í sefinu, örugg fyrir vargfugli, þar situr stolt álftapar í kyrrðinni á miðri tjörn. Ein jarðýta getur eytt slíkri perlu á 20 mínútum. Slíkur er máttur athafnamanna en ábyrgð okkar er mikil.Kveðja, Gísli H. F.Gísli H. Friðgeirsson, 13.5.2008 kl. 20:26
Takk fyrir innlitið og ómetanlegan stuðning.
Fórstu í dag, Jenný?
Þú ert nú svo mikil baráttukona sjálf, Birgitta... Ég fylgist með þinni baráttu eins og þú minni. Við getum ekki verið á öllum vígstöðvum í einu svo það er ágætt að skipta liði.
Gullvagn og Óskar... trúum á málstaðinn, hann er þess virði og gott betur.
Ég fékk reyndar hroll þegar ég las skrif Gunnars Jónssonar, en óttast að hann hafi heilmikið til síns máls. Valdhroki í íslensku samfélagi er með ólíkindum og erfitt - ef ekki ógerlegt á stundum - fyrir almenning að berjast fyrir sjálfsögðum rétti sínum og verja eignir sínar.
Gísli... þetta er frábær athugasemd frá sjónarhóli þess sem á miklu að tapa - tilfinningalega. Og eru það ekki fullgild rök út af fyrir sig? Ég hefði haldið það. Öll höfum við tilfinningar og þær geta líka talist rök.
Dropinn holar, Guðlaugur... satt er það. Takk fyrir stuðning.
Lára Hanna Einarsdóttir, 13.5.2008 kl. 21:06
Ég vona að stjórnvöld staldri við og hugsi um það sem Gísli er að lýsa - því ég veit að það er þessi hugsun sem liggur að baki hjá mörgum okkar sem hafa lagt sig fram í þessari baráttu. Þess vegna á ekki að raska þetta svæði frekar - úrbætur um torsýnilegar virkjanir og hreinsibúnað geta aldrei uppfyllt það sem verið er að tala um hér.
Petra Mazetti (IP-tala skráð) 13.5.2008 kl. 21:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.