Bakþanka Fréttablaðsins er oftast gaman að lesa og góðir pistlar þar á ferðinni. Margir munda þar pennann - eða lyklaborðið öllu heldur - sumir alltaf sömu vikudagana en aðrir óreglulegar. Í gær birtust bakþankar sem vöktu sérstaka athygli mína og var Karen Kristjánsdóttir, blaðamaður, þar á ferðinni.
Karen skrifar um meinta umhverfisvæna ímynd Íslendinga og fyrirhugaða olíuhreinsistöð á Vestfjörðum. Hún minnist á hinn sama Jón Sigurðsson og Ragnar Jörundsson sagði að myndi gleðjast yfir því, að horfa upp á eiturspúandi olíuhreinsistöð handan fjarðarins af hlaðinu á Hrafnseyri.
Ég ætla að taka mér það bessaleyfi að birta bakþanka Karenar hér og stilla þeim upp við hlið pistlanna hér á undan um olíuhreinsistöð á Vestfjörðum og ummæli þeirra manna sem standa að henni.
Lengi trúðu Íslendingar að umheimurinn teldi okkur sannfærða umhverfisverndarsinna. Í útlöndum væri Ólafur Ragnar Grímsson, skapari hitaveitunnar, á hvers manns vörum; hér ækju allir á vetnisbílum, hús væru kynt með heitu vatni fyrst og fremst af umhverfisástæðum og sótbölvandi ýtustjórar, með þriggja daga skegg og sigggrónar hendur, legðu lykkju á leið sína til að hlífa álfum og huldufólki. Já, Íslendingar eru bragðarefir.
Það er kraftaverki líkast að okkur hafi tekist að halda í þessa sjálfsmynd á sama tíma og við veiðum hvali, drepum ísbirni, reisum álver, sýnum einlægan áhuga á því að byggja olíuhreinsunarstöðvar, eigum eyðslufrekasta bílaflota í heimi og höfum samið popplag gegn Grænfriðungum. Það er því ekki að undra þótt greinilegt sé að lygavefur þjóðarinnar sé farin að trosna.
Nú láta margir eins og fullvíst sé að Íslendingar farist allir úr eymd ef við reisum ekki olíuhreinsistöð við Arnarfjörð sem allra fyrst. Það þarf ekki spádómsgáfu til að átta sig á því að mjög fljótlega mun einhver halda því fram að því miður sé bara málið komið það langt að ekki sé hægt að hætta við það úr þessu.
Ég velti því fyrir mér hvað Jón Sigurðsson, sem Íslendingar kalla gjarnan forseta, hefði sagt um hugleiðingarnar um olíuhreinsistöðina væri hann uppi nú. Honum væri jú málið sérlega skylt því stöðina á að reisa við Arnarfjörð en í þeim firði stendur Hrafnseyri þar sem Jón fæddist og ólst upp. Hér á árum áður unnu Íslendingar Jóni svo mjög að ekki þótti annað hæfa en að fæðingardagur hans yrði þjóðhátíðardagur. Einnig má nefna að Hrafn sá sem eyrin er nefnd eftir er talinn fyrsti lærði læknir landsins en á Sturlungaöld framkvæmdi hann þar minniháttar uppskurði og þykir ekki fráleitt að halda því fram að í Arnarfirði hafi staðið fyrsta sjúkrahús landans.
Það er ég viss um að þessir fornu frumkvöðlar myndu ekki kunna því vel að ónefndum rússneskum auðjöfrum stæði til boða að reisa olíuhreinsistöð í Arnarfirði. Einhverjir gætu vissulega sagt að þessir tveir menn hefðu fyrst og fremst hugsað um hag og sjálfstæði þjóðarinnar. Hefðu þeir talið þeim hagsmunum best varið í faðmi Rússa hefðu þeir valið þann kostinn. Stóriðjulausu Vestfirðingarnir sem nú láta eins og óbyrja sem skyndilega eygir von á að eignast barn ættu ef til vill fyrst að líta til þeirrar þróunar sem orðið hefur á Austfjörðum. Fyrir austan var jú svolítið gaman á meðan á uppbyggingunni stóð og verksmiðjan var að taka til starfa en nú hafa skyndilega allir misst áhuga á Austfirðingum og álverinu. Flugfélög hætta að fljúga þangað, fjölmiðlar nenna ekki að segja af þeim fréttir og allt virðist komið í svipað far og var áður en verksmiðjan var reist.
Að þessu loknu bendi ég á Spegilsviðtal frá í gærkvöldi við Þórunni Sveinbjarnardóttur, umhverfisráðherra, um rammaáætlun um nýtingu og verndun náttúrusvæða og olíuhreinsistöð á Vestfjörðum. Viðtalið setti ég í tónspilarann og þar er það merkt Spegillinn - Þórunn Sveinbjarnardóttir um m.a. olíuhreinsistöð. Eins og fram kom í þessum pistli virðist umhverfisráðuneytið ekki sjá ástæðu til að taka hugmyndirnar alvarlega. Ég vara við slíkum hugsunarhætti og geri þá kröfu til yfirvalda að þau haldi vöku sinni.
Þórunn segir m.a. í viðtalinu: "Ég hef enn ekkert séð um þetta verkefni sem lýsir því nákvæmlega. Þetta hafa verið frekar óljósar hugmyndir í umræðu í fjölmiðlum. Ef satt er, og menn hafa verkefnið á teikniborðinu og fjárfestana til taks, þá þurfa þeir aðilar væntanlega að fara að gera grein fyrir því - bæði fólkinu í Vesturbyggð og öðrum þeim sem hlut eiga að máli - hvað þeir ætlast fyrir. Það er ekki fyrr en þá sem öll þessi lögformlegu ferli sem slíkar stórframkvæmdir verða og þurfa að fara í gegnum... það er ekki fyrr en þá sem það getur hafist. En alveg burtséð frá því þá hef ég áður sagt, og get alveg ítrekað hér, að ég teldi það mikið óheillaskref fyrir Vestfirðinga og fyrir landsmenn alla ef við tækjum upp á því núna í upphafi 21. aldar að reisa olíuhreinsistöð hér á landi." Mæltu kvenna heilust, Þórunn.
Ég bendi í leiðinni á þennan bloggpistil Gríms Atlasonar um mál sem verið er að reyna að vinna á Vestfjörðum. Er nema von að fólk líti í aðrar áttir þegar svona hægt gengur með umfjöllun um annars konar uppbyggingu? Fleiri pistlar Gríms hafa reyndar fjallað um uppbyggingu á Vestfjörðum og hann heldur vonandi áfram að fjalla um þau mál.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Náttúra og umhverfi, Stjórnmál og samfélag | Breytt 29.6.2008 kl. 13:42 | Facebook
Athugasemdir
Var búin að lesa þennan pistil og tek undir hvert orð.
Jenný Anna Baldursdóttir, 11.6.2008 kl. 17:03
Karen er góður penni og setur þetta mál fram á afar skemmtilegan hátt,
og sammála henni er ég. það er reyndar svo margt sem ég skil ekki í svona málum, en hvernig í Ósköpunum er hægt að segja við fólk að 99.9% líkur séu á því að það komi olíuhreysistöð í Arnarfirði, þegar engin leifi hafa verið gefin út.
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 11.6.2008 kl. 21:45
Góður pistlar hjá ykkur báðum. Nú þegar kreppir að er fólk kannski ginkeypt fyrir þessum óskapnaði. "á hverju eigum við að lifa" verður vinsælasta spurningin fyrir vestan. Mér verður hreinlega flökurt af tilhugsuninni um olíuhreinsistöð á Íslandi.
Hólmdís Hjartardóttir, 11.6.2008 kl. 22:07
Þetta var fínn pistill hjá henni (og þér líka). En mér finnst himinn og haf á milli þess að virkja á Hellisheiði og að setja olíuhreinsistöð við Arnarfjörð. Það er ákveðið vandamál að baráttumenn fyrir góðum málum setja oft dæmin þannig niður: "Allt eða ekkert". Við megum ekki flokka virkjun á Hellisheiði (sem er "þokkalega umhverfisvæn" á tiltölulega "snortnu" svæði ) með olíuhreinsistöð við Arnarfjörð sem yrði náttúrulega bara stórslys (og þá er ég ekki farinn að tala um slysin sem gætu orðið við slíka stöði í framtíðinni ). Kveðja, Örn, Reykjavík.
Örn (IP-tala skráð) 11.6.2008 kl. 22:17
já, skrambi góður og þinn líka :)
alva (IP-tala skráð) 11.6.2008 kl. 22:38
Ég var að renna í gegnum bloggið þitt Lára og greinilegt að þú hefur mikinn eldmóð í þessu máli sem er hið besta mál.
Nokkrar athugasemdir frá mér sem er bæði mikill áhugamaður um náttúru en vinn einnig við hrávörur og þekki málefnið því vel.
* Já olíuhreinsistöð er augnalýti og óvenjulegt að setja eigi slíka stöð á jafn fallegan stað og Barðastrandasýslu. Það má þó kannski segja að ,,skaðinn'' sé að miklu leyti afturkræfur.
* Í viðtalinu við Hilmar Foss talar hann um Kyoto og efast jafnvel um að því kerfinu verði haldið áfram eftir 2012. Ég held að afar fáir og líklega engir sérfræðingar myndu taka undir þetta álit hans og spurningin er frekar hversu mikið verða mengunarkvótar skornir niður. Ísland hefur dregið lappirnar í mengunarkvótum með því að sækja um undanþágur og er ekki aðili að Evrópska kvótakerfinu (EU allowances) líkt og Norðmenn, Norðmenn eru reyndar líklega fremstir af öllum vestrænum þjóðum í málefnum útblásturs. Stjórnmálamenn ákvarða hvaða atvinnuvegir bera byrðar mengunarkvóta því atvinnuvegir fá mismiklu úthlutað sem getur þýtt talsverðan kostnað eða ábata. Það er vonandi að íslenskir stjórnmálamenn hafi nú þegar skipulagt hvaða geirar munu bera kostnaðinn næstu 15 ár og taki það til greina við umfjöllun um nýja stóriðju.
* Eitt aðalatriðið í þessu máli er hversu mikið mun slysahætta vegna skipaflutninga olíu aukast og eru tryggingar fyrir hendi þannig að sá sem veldur tjóni borgar hreinsun og miskabætur. Hve miklu þarf að verja í varúðarráðstafanir vegna hreinsistöðvarinnar (ýmist hreinsitæki og neyðarúrræði ef slys ber að höndum) og hver mun borga fyrir slíkar fjárfestingar. Það ætti að birta ítarlega skýrslu um þetta áður en nokkur ákvörðun er tekin.
* Ég tek undir með þér að það er mikið áhyggjuefni hvernig sveitarstjórnir virðast hafa mikið vald um stórar framkvæmdir sem þessar sem og vegaframkvæmdir (sbr fyrirhugaðan veg í gegnum Teigsskóg í Þorskafirði þar sem Vegagerðin kærði fyrir hönd sveitafélaga) þar sem slík mál krefjast ítarlegrar skoðunar sem ekki eru á færi sveitastjórna. Það er varla að íslenska ríkið ráði yfir nægri þekkingu til að fjalla af fagmennsku um svona mál, hvað þá sveitarfélög. Og hvatar sveitastjórna eru oft ekki þeir sömu og þjóðarinnar allrar bæði til skemmri og lengri tíma litið.
* Íslendingar verða að horfast í augu við það hversu neysluþjóð við erum. Við erum líkari Bandaríkjunum en Evrópu hvað olíunotkun, endurvinnslu og slíka þætti varðar. Og stöndum líklega að baki bæði BNA og Evrópu í náttúruvernd. Það má segja sem svo að ef Íslendingar keyra svo mikið sem raun ber vitni (almenningssamgöngur og aðstæður til hjólreiða eru nánast engar í samanburði við mörg lönd í Evrópu), þá eigum við kannski að bera byrðarnar líka og taka ábyrgð á afleiðingum neyslu okkar með því að hafa olíuhreinsistöð. Hliðstætt með álframleiðslu, hversu margir Íslendingar hugsa sig tvisvar um við vörukaup varðandi mengunina sem vörunni fylgir? Vara sem framleidd er í Asíu hefur að jafnaði miklu mun mengun í för með sér en vara frá Evrópu (verksmiðjur ekki eins vel búnar mengunarvörnum í Asíu að jafnaði, rafmagnsframleiðsla í Asíu mengar miklu meira, lengri skipaflutningar frá Asíu). Getur þjóðin fylgt þessu neyslumynstri og einnig verið á móti álframleiðslu, er það ekki mótsögn? Vissulega er þó stundum þægilegt að láta aðra um vandamálin sem maður skapar líkt og t.d. Bretar gera að hluta með kjarnorkuúrgang (ganga ekki frá honum jafnvel og Frakkar og setja í stað í hylkjum í sjóinn) og gerðu með rusl (mikið af ruslinu þeirra var kastað í sjóinn við Nígeríu).
Bestu kveðjur,
Björn
Björn Hauksson (IP-tala skráð) 11.6.2008 kl. 22:41
Viljum við fyrirtæki í eigu rússnesku mafíunnar hingað? Held að flestir ættu að geta verið sammála um að það sé ekki eftirsóknarvert. Líka þeir sem halda að olíuhreinsistöð sé málið
Andrea, 12.6.2008 kl. 09:48
Jafn mikið og ég er innilega á móti því að reisa olíhreinsunarstð við einhver auðugustu fiskimið heims get ég ekki tekið undir sum sjónarmið Karenar sem eru mér framandi.
Sigurður Þórðarson, 12.6.2008 kl. 10:59
Og svo er bara verið að tala um 41 ár, sjá hér! Talandi um að pissa í skóinn sinn...
Hildigunnur Rúnarsdóttir, 12.6.2008 kl. 11:00
Björn, skaðinn afturkræfur, segirðu? Jú, sjálfsagt er hægt að hreinsa til, en verður það gert? Slíkt kostar óhemju fé og ég sé ekki rússnesku olíufélögin taka til eftir sig, né heldur sveitarfélögin fyrir vestan eyða peningum í það. Sjáið bara stóra brúna ferlíkið sem er búið að standa í tugi ára í stolti okkar Reykvíkinga, Elliðaárdal. Ekki er það farið enn, þar stendur eingöngu á peningum, (já, veit, ríkið og borgin, hvort á að gera þetta). Ég hugsa að það yrði talsvert dýrara að taka burt eina svona stöð.
Hildigunnur Rúnarsdóttir, 12.6.2008 kl. 11:10
Ég tek undir pistilinn líka, Jenný.
Milla... hvernig hægt er að segja þetta er auðvitað ráðgáta, nema verið sé markvisst að byggja upp væntingar Vestfirðinga, slá ryki í augu þeirra og kenna svo einhverjum öðrum um þegar og ef í ljós kemur að ekkert verði af framkvæmdinni. Eða þá að bæjarstjórinn sem sagði þetta skilji einfaldlega ekki alvöru málsins og það ferli sem fara þarf í gegnum til að fá þetta í gegn. Hann virðist að minnsta kosti ekki vita hvað tekur við eftir að Kyoto-bókunin rennur út árið 2012. Heldur, að því er virðist, að þá megi allir menga að vild.
Já, á hverju eiga Vestfirðingar að lifa, Hólmdís? Það verður að byrja á því að gera þeim jafnt undir höfði og öðrum landsmönnum hvað varðar samgöngur og fjarskipti. Þar vantar mjög mikið upp á, sérstaklega á suðurfjörðunum. Það þarf að endurskoða kvótalögin - ekki síst í tilefni af nýgengnum dómi mannréttindanefndar Evrópu. Best að geyma frekari hugmyndir fyrir nýja færslu. Það kemur nefnilega margt til greina eins og fólk veit sem unnið hefur að uppbyggingarmálum vestra.
Örn... ég er ekki að leggja jarðhitavirkjanir og olíuhreinsistöð að jöfnu. Þetta eru tvær gjörólíkar framkvæmdir þótt af svipuðum meiði séu. Ef þú hefur lesið bloggið mitt aftur í tímann sérðu að ég hef verið að berjast gegn EINNI jarðhitavirkjun, Bitruvirkjun. Aðrar virkjanir á Hellisheiði hef ég látið í friði því þar sem þær eru (Hellisheiðarvirkjun) eða eru fyrirhugaðar (Hverahlíðarvirkjun, Gráhnjúkar, Litli-Meitill) er ekki sams konar náttúruperla í húfi eins og á Ölkelduhálsi og þær eru heldur ekki eins nálægt byggð (Hveragerði) og Bitruvirkjun. Ölkelduháls er tiltölulega ósnortið svæði þótt þar hafi verið boraðar tilraunaholur og það litla rask sem þar er afturkræft að mestu ef ekki verður snert frekar við því.
Það er langt í frá að ég sé með "allt eða ekkert" málflutning og ég hef í mörgum pistlum nefnt að við eigum að nýta orkuauðlindir okkar - af skynsemd og hófsemi. Í því tilefni vil ég benda á þennan pistil og Spegilsviðtal í tónspilaranum merkt: B - Spegillinn - Stefán Arnórsson, prófessor í jarðefnafræði. Ég er á þeirri skoðun að við eigum að nýta auðlindir okkar á þann hátt að þær endist sem lengst og nýtist komandi kynslóðum. Sú rányrkja sem fyrirhuguð er/var á Hellisheiði og Hengilssvæðinu var hugsuð með hámarkshagnað í huga til skemmri tíma litið, eins og Stefán orðað það. Í þessum sama pistli kemur einnig fram að jarðhitaorka er hvorki endurnýtanleg né hrein - og sjálfbærnin fer alveg eftir því hve hratt er gengið á hana.
Takk, Alva... ;)
Kærar þakkir fyrir innlitið, Björn, og ítarlega og vandaða athugasemd.
Þú segir að skaðinn sé afturkræfur að miklu leyti. Það er ég langt í frá sannfærð um. Eins og Hildigunnur bendir á í sínum athugasemdum er áætlað að olíubirgðir veraldar endist í rúm 40 ár - eins og staðan er í dag, þekking rannsóknir o.s.frv. Þegar um svo viðamikla framkvæmd er að ræða verður olíuhreinsistöð því að teljast skammtímaráðstöfun, enda hlýtur slík stöð að úreldast á einhverjum X áratugum. Og hver á að borga hreinsunina? Hvernig skildi bandaríski herinn við sig? Þeir hreinsuðu ekki eftir sig, hvorki mengunina í jarðveginum á Keflavíkurflugvelli né heldur bragga, rusl og byggingar á þeim stöðum sem þeir höfðu hreiðrað um sig víða um land. Heldurðu virkilega að Rússarnir geri það eitthvað frekar? Eða verða Vestfirðingar og aðrir Íslendingar skildir eftir með þann kross að bera? Mér finnst ekki erfitt að giska.
Hvað afturkræfni varðar verður mér líka hugsað til Maríu og Víðis í Bakkadal, næsta byggða dal fyrir utan Hvestu. Þau eru með stórt fjárbú og höfðu ætlað að stækka við sig en vita nú ekki í hvorn fótinn þau eiga að stíga. Þau eru líka með æðarvarp. Hvað verður um lífsafkomu þeirra, dalinn þeirra og framtíð ef olíuhreinsistöð verður reist við hliðina á þeim? Er þeim huggun að því að eftir einhverja áratugi verði olíuhreinsistöðin kannski rifin? Bjargar það lífsafkomu þeirra á einhvern hátt? Getur hugsast að náttúrubörn eins og þau, sem vilja hvergi annars staðar vera en í undurfagurri náttúru Vestfjarða og sinna þar búskap og dýrahaldi, kjósi að verja lunganum af starfsævinni í vinnu í olíuhreinsistöð og komast hvorki lönd né strönd án þess að fara þar í gegn eða fram hjá? Ég held ekki.
Hilmar Foss, Ragnar Jörundsson og Ólafur Egilsson virðast annað hvort ekki vita - eða kjósa vísvitandi að hunsa þá staðreynd að þegar Kyoto-bókunin rennur út tekur önnur við sem Íslendingar gengust undir á fundi á Balí. Þá þrengist um mengunarkvóta og enn minna verður til skiptanna fyrir mengandi stóriðju. Hvernig þeim kvóta verður úthlutað skal ég ekki segja um, en miðað við þær upplýsingar sem liggja fyrir um orkuþörf og losun olíuhreinsistöðva er hugmyndin hreinlega fáránleg. Í þessu sambandi bendi ég á viðtal í tónspilaranum merkt: I - Spegillinn - Stefán Gíslason um olíuhreinsistöð á Vestfjörðum. Í viðtalinu fjallar Stefán m.a. um þau mál.
Slysahætta vegna olíuflutningaskipa mun aukast verulega, væntanlega í hlutfalli við fjölgun skipa og stærð þeirra. Í svari í athugasemd við þennan pistil vitna ég í viðtal við Magnús Ásgeirsson, innkaupastjóra hjá N1, sem segir að stærstu olíuskip sem hingað eru að koma nú með olíu til Íslendinga eru um 25-30 þúsund tonn. Olía til og frá olíuhreinsistöð á Vestfjörðum yrði flutt í 100 þúsund tonna skipum og þau yrðu margfalt, margfalt fleiri en litlu skipin sem nú eru hér á ferðinni. Aftur komum við að spurningunni um hver myndi borga - í þessu tilfelli tjón, hreinsun og miskabætur. Þá spyr ég í því sambandi: Hvernig verðmetum við fiskimiðin, fuglabjörgin og lífríkið almennt? Hvernig verðmetum við ímynd Íslands? Er það yfirhöfuð hægt?
Ég er innilega sammála þér, Björn, með vangaveltur þínar um að íslenska ríkið ráði varla yfir nægri þekkingu til að fjalla af fagmennsku um svona mál, hvað þá sveitarfélög. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að skammtímasjónarmið verði aldrei látin ráða þegar svo mikið er í húfi. Hitt er annað mál, að ríkisstjórnin og ráðherrar hennar verður að hætta að hugsa um landið í bútum og horfa á hagsmuni heildarinnar. Og ráðherrar verða að hætta að hugsa um rassinn á sjálfum sér og stöðugar atkvæðaveiðar. Kristján Möller, samgönguráðherra, olli mér miklum vonbrigðum þegar hann tók þá ákvörðun að eftir Héðinsfjarðargöng yrði ráðist í önnur göng í hans kjördæmi í stað þess að veita peningum í bráðnauðsynlegar vegaframkvæmdir á suðurfjörðum Vestfjarða, jafnvel göng um Hrafnsfjarðar- og Gemlufallsheiðar til að tengja betur norður og suðurfirðina og gera þá að einu atvinnusvæði. Þetta finnst mér vera spillingarpólitík og atkvæðasnap af verstu sort.
Síðustu klausunni í athugasemd þinni vil ég svara þannig, að mér finnst alveg bráðnauðsynlegt að Íslendingar gangi í gegnum rækilega hugarfarsbreytingu hvað neysluæðið varðar. Í því sambandi bendi ég á þennan pistil frá 20. apríl þar sem mér finnst koma vel fram hvers konar lífsstíl verið er að vernda með þeim harmakveinum sem heyrast nú um að allt sé að sigla í strand og Íslendingar séu á leið aftur í torfkofana. Er ekki kominn tími til að staldra við og íhuga hvað skiptir í raun máli í lífinu? Er ekki mikilvægara að eiga hreint land og fallega, ósnortna náttúru, geta menntað börnin okkar og barnabörnin og veitt öllum landsmönnum góða heilbrigðisþjónustu - frekar en að geta farið 4 sinnum á ári til útlanda, átt sumarbústað, hjólhýsi, flatskjá í hverju horni og fjóra bíla? Ég er kannski mjög óþjóðleg að láta mér nægja að eiga nóg fyrir mig og mína og neita að taka þátt í græðgisvæðingunni og neysluæðinu.
Svo er vert að nefna annað í sambandi við álverin og álframleiðsluna. Við verðum að hugsa það dæmi í samhengi við annað. Málið snýst í rauninni ekki um að vera á móti álframleiðslunni sem slíkri. Miklu frekar því hverju á að fórna fyrir hana og hvort sú fórn sé réttlætanleg. Álver menga ennþá þótt tækni við hreinsun hafi tekið stórstígum framförum. Gott mál. EN... þegar leggja á náttúruperlur undir með jarðgufuvirkjunum, þurrausa jarðhitann, spúa brennisteinsvetni yfir allt sem fyrir er og leggja skóg af rafmagnsmöstrum vítt og breitt... allt til að keyra eitt álver - þá verðum við að hugsa okkur tvisvar um. Og hver á álverin? Fyrir hvaða alþjóðlegu auðhringa erum við að fórna ómetanlegri náttúru Íslands? Hversu skynsamlegt er að hleypa erlendum auðhringum að efnahagskerfi landsins, auðhringum sem eru jafnvel með ársveltu sem svarar margföldum fjárlögum Íslands?
Í svari við athugasemd við þennan pistil sagði ég: "...við getum virkjað hverja sprænu og hvern hver á Íslandi til að framleiða "hreina" orku sem okkar framlag í loftslagsmálum. Það breytir nákvæmlega engu um orkuþörf veraldar og Kínverjar og aðrir eiga eftir að reisa nákvæmlega jafnmörg kolaorkuver því þeim heldur áfram að fjölga með ævintýralegum hraða hvað sem virkjunum á Íslandi líður." Ég stend við þessi orð. Við getum lagt allt landið í rúst, reist alls konar verksmiðjur og olíuhreinsistöðvar, virkjað og klárað alla okkar orku, en það hefur ekkert að segja á heimsvísu. Til þess erum við einfaldlega allt of smá.
Ætli þessi langloka nægi ekki, a.m.k. í bili. Mér er alltaf svo mikið niðri fyrir, þú afsakar það vonandi, Björn - og aðrir sem þetta lesa.
Sigurður... það er auðvitað eðlilegt að ekki geti allir tekið undir öll sjónarmið annarra og mig grunar hvað þú ert að meina þótt ég sé ekki viss. Og það væri lítið um skoðanaskipti og rökræður ef allir væru alltaf sammála.
Takk fyrir fín innlegg, Hildigunnur!
Lára Hanna Einarsdóttir, 12.6.2008 kl. 12:30
Svo er áhugavert að vita hvaða kröfur ríkið hyggst setja varðandi skipaflutninga, verða skip eldri en 15 ár bönnuð (staðall sem bestu fyrirtækin fylgja) og verður öðrum ströngustu kröfum um skip fylgt (s.s. Rightship staðall).
Og verður gerð krafa um að mengunarvarnarbúnaður (útblásturs) hreinsistöðvarinnar sé sá besti sem völ er á? Allar svona upplýsingar ættu að vera opinberar löngu áður en leyfi er veitt fyrir starfseminni.
Hvað varðar aðra ábúendur í Arnarfirði þá væri líklega sanngjarnt að hreinsistöðin myndi borga þeim skaðabætur fyrir þá breyttu ásýnd og not á svæðinu sem stöðin myndi hafa í för með sér. Best væri líklega að byggja stöðina á Suðurnesjum því þar er ekki jafn viðkvæm og sérstök náttúra og á Vestfjörðum. Og það er vel þekkt að olíuhreinsistöðvar séu inni í borgum, s.s. í Rotterdam og Amsterdam.
Annars finnst mér almennt barátta um umhverfisvernd á Íslandi ekki beinast að grundvallaratriðunum sem geta jafnvel skipt mestu máli til lengri tíma litið. Samanber neysluvenjur, aðstæður til endurvinnslu og hjólreiða, almenningssamgöngur og síðast en ekki síst að þrýsta á ríkið um að vera í fremstu röð í málefnum minnkunar útblásturs, krefjast fagmennlegri og gegnsærri verkferla varðandi það hvernig opinberar stofnanir heimila framkvæmdir sem hafa neikvæð áhrif á náttúru.
Það síðastnefnda verður að vera í lagi en er það því miður ekki á Íslandi - samanber t.d. hvernig umhverfisráðherra og aðrir ráðherrar hundsa úrskurði og ráðleggingar skipulagsstofnunar, vísindamanna og félagasamtaka. Nýlegasta dæmið er lagning vegar í gegnum Teigsskóg á sunnanverðum Vestfjörðum, mér finnst ótrúlegt að almenningur láti ekki til sín taka í því máli og lýsir kannski viðhorfinu og því hvernig þessir hlutir ganga fyrir sig hér á landi.
Björn Hauksson (IP-tala skráð) 12.6.2008 kl. 19:08
Karen hefur rétt fyrir sér að íslendingar eru bragðarefir. Mér finnst viðhorfið samt vera að breytast. Við erum ekki þessi fullkomna þjóð sem ekkert rangt gerir og útlendingarnir eru að komast að því. Ég las grein í National Geographic nýlega sem fjallaði um Kárahnjúka og hvernig þeir skiptu þjóðinni í tvennt. Við erum sóðar og það er ekkert leyndarmál lengur.
Maður er kannski orðinn heimskur skýjaglópur eftir áralanga dvöl erlendis, en þegar ég er heima nýt ég þess að fara út á kvöldin og ganga um. Þá á ég við borgina og náttúruna. Ísland er magnað land og ólíkt öllu sem ég hef upplifað, en flestir taka ekki eftir því meðan þeir eru að horfa á Idols eða einhverja seríuna.
Úff, ég er farinn að hljóma eins og gamalmenni. Og þó ekki, því flest bindin sem eru að selja náttúruna og landið eru helmingi eldri en ég. Næstum því. Kominn tími á að skipta út, senda gamla liðið út í hafsauga.
Villi Asgeirsson, 12.6.2008 kl. 19:33
Sæl Lára Hanna, mig langar að byrja á að þakka þér fyrir þessa skemmtilegu og fróðlegu síðu og eins fyrir að standa náttúruvaktina. Vissulega er það rétt ábending hjá þér að fólk er ekki alltaf sammála en rökræður eru oftast til góðs. Ég leit yfir greinina í morgun og svaraði ekki ítarlegar enda var ég upptekinn við eitthvað í vinnunni. Ég skal reyna að bæta úr þessu núna. Það er göfugt en því miður útópískt markmið að við getum skilað jörðinni (þ.m.t. hafinu) til afkomenda okkar í svipuðu ástandi og við tókum við. Með sama áframhaldi stefnum við markvisst að eyðingu alls lífs á jörðinni. Helst bindur maður vonir við hækkandi eldsneytisverð sem stafar af því að olían mun þverra með sömu notkun eftir u.þ.b. 45 ár eða um miðja þessa öld. Ég er ekki vísindamaður en skynjun mín og skilningur á náttúrunni felst í því að ég hef lengst af starfað sem fiskimaður og tel að mesta stærst ógnunin við lífið sé mengun hafsins. En náttúran er stórkostleg og hefur margar hliðar. Sumir eru náttúruverndarsinnar vegna þess að þeim finnst einhver dýrategund vera krútt. Ég ætla ekki að gera lítið úr því, þetta er huglægt mat og á rétt á sér. Þessu ágæta fólki gleymist þó stundum að setja hlutina í stærra samhengi. Það sem raunverulega ógnar hvölum og raunar öllu lífi í hafinu er mengun en ekki hitt að einn og einn hvalur sé drepinn. Það áttar sig heldur ekki á því að ísbjörn getur, því miður, ekki átt langa og glæsta framtíð í Skagafirði. Mér finnst þetta fullkomlega meinlaust. Verra þykir mér þegar pólitíkusar búa til kerfi sem er þannig að hægt er að selja óveiddan fisk í hafi frá t.d. Grímsey til Sandgerðis því ekki syndir fiskurinn með þó kerfið geri ráð fyrir því. Mér hefur annars lærst að leggja ekki síður áherslu á það sem sameinar en það sem sundrar. Pistill Karenar var góður og það var mikill sannleikur í honum. Sjálfur var ég mest með smámunasemi og nöldur sem ég hef nú skýrt.
Sigurður Þórðarson, 12.6.2008 kl. 20:29
Mér finnst þessi Karen sérlega deyfðarlegur penni. En ég vildi heldur fara til helvítis en fá olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum.
Sigurður Þór Guðjónsson, 12.6.2008 kl. 22:40
Ummæli Þórunnar lýsa einungis ódugnaði hennar og skammsýni í þessum málum - hún er ekki að vinna sína vinnu ef hún veit ekki meira en hún vill láta í veðri. Eða kannski hún megi eða þori ekki að segja meir.
Hef annars ekkert á móti henni og var einn þeirra sem gladdist þegar hún var sett ráðherra þessa málaflokks. En hrossakaup eru mikil í þessum bransa og embætti hennar ekki mjög burðugt þegar auður og áhrif eru annars vegar.
Ég hef enn ekki orðið var við lausn sem yrði raunhæfur kostur og sambærilegur við það að reysa þessa umdeildu olúheinsistöð. Slíkt væri vel þegið af öllu því gáfaða fólki sem telur sig umhverfisverndarsinna.
Sjálfur tel ég mig almennt ganga vel um náttúruna og af virðingu, þekki staðhætti þarana og fólkið og hef dvalið lengur og skemur á Patreksfirði, Tálknafirði og Bíldudal og unnið verkamannastörf á öllum þessum stöðum. Á mína foreldra, skyldfólk, vini og vensl þar um allt. Enn allir virðast vita betur en ég og hika ekki við að úthópa mína skoðun með rökum sem ekki eru alltaf rök. Þó er ég þannig gerður að ég reyni að virða skoðanir annarra og vand mál og framsetninu þegar ég tel það viðieigandi.
Síðuhöfundur er að mínu mati verulega eftirtektarverð fyrir sitt framlag, bæði í orði rituðu og verki. Á mína aðdáun fyrir það. Tel það heiður ef hún vill mig sem bloggvin, enda er ég ekki aðdáðandi olíuhreinsistöðvar í fallegasta firði landsins.
En ég er meiri aðdáandi fólks og ekki síst fólks sem reynir að bjarga sér. Þetta er viðleytni sem ég tel að sýna eigi skilning og virða réttinn til að framkvæma ef af verður. Ekki var ég hrifinn af Kárahnjúkum og öllu því brölti en virði það fólki í nágrenni og umber að reyna að bjarga sér þar sem margt vantar upp á þau gæði sem höfðuborgarbúar hafa sem sjálfsögð.
Umhverfisvern okkar vestuyrlandabúa er t.a.m. að ganga verulega nærri 3. heiminum og er um margt uppfull af hroka og mótsögnum. Hungursneyð er útkoman víða og lakari kjör og minni lífsgæði. Þökk sé Kyoto og fleiri sam þykktum.
En það má aldrei gagnrýna slíkt.
vcd
Bragi Þór Thoroddsen, 13.6.2008 kl. 01:36
Ja hérna hér er búið að segja margt og mikið.
Ég tel nefnilega að nefndur bæjarstjóri, sem segist ekki vita hver stendur á bak við framkvæmdir sem áætlaðar eru, viti allt um nefnd mál, hann veit alvöruna,
má bara ekkert segja, því leyndarmál er þetta stórt og mikið.
Og að sjálfsögðu munu þeir kenna öðrum um ef ekki verður af framkvæmdum.
og við fáum aldrei að vita hverjir stóðu að baki.
Ég er sammála Braga Þór í ummælum hans um Þórunni, Hún er að dala í staðfestu sinni. Hrossakaupin gerast á eyrinni eins og ævilega og þrýstingurinn mikill.
En mörgu á eftir að svara og leysa um alla málaflokka í kringum þetta mál og ég
segi það verður ekkert úr þessu.
Kveðja Milla.
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 13.6.2008 kl. 17:33
Slæmar fréttir af öðru villidýri, sem gengur laust. Þetta villidýr er mennskt. Sjá hér.
Theódór Norðkvist, 24.6.2008 kl. 20:46
Ég get tekið undir orð pistilsins að flestu leyti. Það sem ég á aftur á móti erfitt með að skilja er hvers vegna hvalveiðar og dráp á ísbjörnum er hægt að jafna við slæma náttúruvernd. Mér þótti sorglegt á sjá ísbirnina deyja og hefði viljað sjá þeim bjargað en það má vel vera að slíkt hafi einfaldlega verið illmögulegt (ég er ekki dómbær á það). Mér finnst hvalur fínt kjöt og borða með bestu list. Ekki hef ég séð neinn færa almennilega rök fyrir að hrefna sé í útrýmingahættu. Algjör verndun á dýri sem er ekki í hættu finnst mér skrýtin. Þá mætti sjálfsagt banna veiðar á öllum dýrum. Mér þykir líka mjög vænt um náttúruna og er algjörlega á móti álverum og olíuhreinsistöðum. En því miður virðist haldast í hendur að maður verði að vera á móti öllu til þess að ganga í umhverfis/náttúruverndarsamtök. Mig hefur lengi langað til að taka þátt í baráttu umhverfisverndunarsamtaka en hef ekki enn fundið þau samtök sem byggja skoðanir sínar á á haldbærum rökum, án þess að blanda tilfinningum og/eða persónulegum skoðunum í stefnu samtakana. Ef einhver getur bent mér á slík samtök skal ég skrá mig.
Kristinn (IP-tala skráð) 23.7.2008 kl. 14:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.