Kostnaður við stóriðju - borgar þjóðin brúsann?

Það var athyglisverð frétt í hádegisfréttum Stöðvar 2 í dag þar sem fram kom að íslenska þjóðin greiðir upp undir 30 milljarða á ári með stóriðjunni í landinu. Þetta mun vera niðurstaða atvinnulífshóps Framtíðarlandsins um ríkisstyrkta stóriðju. Ég hef ekki skýrslu hópsins undir höndum en hef beðið um hana til að geta kynnt mér betur forsendurnar að baki niðurstöðunni.

Þetta eru merkilegar niðurstöður og ég vænti þess að um þær verði rækilega fjallað í fjölmiðlum næstu daga. Ég reyni að fylgjast með, en þar sem ég er komin aftur út til Englands og er með mjög lélega og oft enga nettengingu veit ég ekki hver árangurinn og afraksturinn verður.

BBC4Á leiðinni hingað upp eftir frá flugvellinum í gær hlustaði ég á áhugaverðan þátt í útvarpinu - á hinni frábæru útvarpsstöð BBC 4 - sem fjallaði um endurvakinn áhuga hér á að opna aftur lokaðar kolanámur, aukna eftirspurn eftir kolum, verðið sem fer hækkandi og hugmyndir um að auka notkun kola til að vega á móti olíuverðshækkunum. Í þættinum kemur m.a. fram að um þriðjungur af orkuframleiðsu Breta er ennþá keyrður með kolum - innfluttum, því kolanámum hér hefur öllum verið lokað. Þátturinn heitir File on 4 og er hér ef einhver hefur áhuga á að hlusta, en ég er að basla við að taka hann upp og set hann í tónspilarann þegar og ef mér tekst það.

Viðbót: Þátturinn er kominn í tónspilarann - þar er hann merktur BBC 4 - File on 4 - um kol og aðra orkugjafa í Bretlandi.

En hér er fréttin úr hádegisfréttum Stöðvar 2 í dag - ég hvet fólk til að fylgjast grannt með umfjöllun fjölmiðla um þetta mál.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Borgum við með umhverfissóðunum?????

Jenný Anna Baldursdóttir, 16.6.2008 kl. 15:43

2 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

Kemur gersamlega ekki á óvart.

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 16.6.2008 kl. 16:55

3 Smámynd: Magnús Karl Magnússon

Takk fyrir góða pistla.

Hér getur þú nálgast skýrsluna: http://framtidarlandid.is/images/stories/utgefid_efni/skyrslur/skyrslaatvinnu.pdf

...og hér er samantekt: http://framtidarlandid.is/utgefid_efni 

Ég er ekki dómbær á hagfræðina sem þarna liggur að baki en mér hefur yfirleitt sýnst það sem Sigurður Jóhannesson hagfræðingur hefur sent frá sér vera bæði frumlegt og vel rökstutt. Eini augljósi galli þessarar skýrslu er að ekki er tekið fram hverjir skrifa hana, einungis sagt að þetta sé atvinnulífshópur Framtíðarlandsins. Mér er ekki ljóst hverjir það eru en Sigurður er augljóslega einn þeirra.

Það er alveg augljóst að umræða um atvinnuuppbyggingu til framtíðar hér á landi hefur verið afskaplega ómálefnaleg. Henni er að mestu stýrt af hagsmunasamtökum og stórfyrirtækjum (eins og Landsvirkjun) en akademían og aðrir fræðimenn hafa lítið látið til sín taka. Ég held að ég geti fullyrt að það eru ekki mörg vestræn ríki sem leggja ofuráherslu á þungaiðnað sem framtíðartækirfæri í atvinnuuppbyggingu. Ég held að það sé næsta augljóst að með slíkri áherslu er verið að fókusera á fjárfestingu sem hefur í fjör með sér ákalfega litla verðmætasköpun og mun skila litlum langtímaarði. Það má benda á þá augljósu staðreynd að í fjárfestingum í þessum geira atvinnulífsins erum við að taka þátt í samkepni við lönd með mun lægra atvinnustig en við viljum stefna að hér á landi. Einning má benda á að sala orku til sliks iðnaðar hlýtur alltaf að vera lágu verði seld borið saman við iðnað sem hefur i för með sér meiri verðmætasköpun.  Rökin fyrir áliðnaði um miðja síðustu öld voru mun sterkari þegar atvinnustig var lágt og efnahagskerfið hvíldi á brauðfótum.

Ríkið ætti nú við þessar aðstæður að leggja ofuráherslu á uppbyggingu í menntun (s.s. háskólauppbyggingu), vísindum, hátækni-iðnaði, skapandi greinum (hönnun, listir) og öðrum þeim undirstöðum sem tryggja aukna verðmætasköpun í íslensku atvinnulífi. Það er kannski dæmi um hve umræðan er út um víðan völl hér á landi að fyrirtæki sem vill stunda olíuhreinsun kallar sig Íslensk hátækni og í fjölmiðlum er síendurtekið reynt að halda þeirri firru fram að íslenskar álbræðslur séu hátæknifyrirtæki. Álbræðsla getur kallað sig ýmislegt, t.d. iðnfyrirtæki, stóriðju, þungaiðnað en hátæknifyrirtæki er það ekki.

Magnús Karl Magnússon, 16.6.2008 kl. 17:06

4 Smámynd: Óðinn Þórisson

Það verður forvitnilegt að fylgjast með baráttu fólks sem vill fjölga atvinnutækifærum í framtíðinni við svokallaða náttúru og umhverfissinna sem virðast hafa það eitt að markmiði að koma í veg fyrir framfarir og framkvæmdir.
Kárahnjúkar eru að mínu mati eitt mesta afrek okkar Íslendinga.
Jón Gunnarsson er að koma sterkur inn í umræðuna. Sf verður að fara ákveða hver þeirra stefna er, þó vil ég hrósa Björgvini fyrir að hann virðist hafa réttar skoðanir í þessum málum en ég er hræddur um að sf verði að skipta um umhverfisráðerra - ummæli eins og " skorti lög til að koma í veg fyrir " ganga ekki upp.

Óðinn Þórisson, 16.6.2008 kl. 20:25

5 Smámynd: Neddi

Óðinn, eins og svo margir aðrir, virðist halda það að einu tækifærin felist í mengandi stóriðju.

Hvernig stendur á því að vísindaheiminum er ekki gert hærra undir höfði, alvöru hátæknifyrirtæki eru lokkuð hingað (álbræðsla er ekki hátækni) og fleira í þeim dúr reynt. Það mætti reyna að huga að einhverskonar fríverslunarsvæði þannig að Ísland yrði miðstöð flutninga um Atlantshafið. 

Neddi, 16.6.2008 kl. 20:51

6 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Já, Jenný... miðað við þessar niðurstöður borgum við þeim fyrir að menga umhverfi okkar og svo eru menn á hnjánum að biðja um meira! Hver skilur svona vitleysu? En eins og Hildigunnur segir kemur þetta ekki svo ýkja mikið á óvart. Íslenskar ríkisstjórnir hafa í gegnum tíðina hagað sér eins og verstu portkonur og falboðið íslenskar auðlindir lægstbjóðendum eins og kemur svo greinilega fram t.d. í Draumalandinu.

Kærar þakkir fyrir slóðirnar og stórfínt innlegg, Magnús Karl. Ég hef líkast til ekki aðstöðu eða tíma til að lesa skýrsluna nógu vel á næstu dögum, en reyni að gera það við fyrsta tækifæri.

Langt síðan þú hefur lagt orð í belg hér, Óðinn. Ég get nú ekki beinlínis sagt að ég hafi saknað þín - og þó... Það hefur alltaf verið svo auðvelt að hrekja málflutning þinn og þetta skiptið er engin undantekning, þótt við tökum ekki nema bara Jón Gunnarsson og klisjurnar sem hann setur nú fram sem einhvern stórasannleik. Mér finnast hugmyndir eins og þær sem Magnús Karl er með margfalt skynsamlegri en einlægur vilji Jóns Gunnarssonar til að virkja fyrir stóriðju. Athygli vekur líka að þeir sem hæst láta myndu aldrei láta sér detta í hug að vinna sjálfir við hvorki að reisa virkjunina né stóriðjuna sjálfa.

Ég geymi fréttaupptökur og úrklippur um skóflustungu Björgvins vandlega. Ég held að hann hafi leikið af sér og gert stórkostleg, pólitísk mistök með orðum sínum og gerðum í Helguvík. Ég kem nánar að því þótt síðar verði.

Sjálfri finnst mér t.d. skoðanir Nedda mun skynsamlegri en skoðanir Jóns Gunnarssonar eða Björgvins - þótt ég vilji ekki tala um að ein skoðun sé "réttari" en önnur. Það er of öfgafullt orðalag fyrir minn smekk.

Lára Hanna Einarsdóttir, 16.6.2008 kl. 22:41

7 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Þakka þér Lára Hanna fyrir enn einn frábæran pistil. -

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 16.6.2008 kl. 23:19

8 Smámynd: Theódór Norðkvist

Þessi skýrsla er svolítið óljós, þó niðurstöðurnar séu ekki endilega rangar. Það voru margir sem sögðu að arðsemi Kárahnjúkavirkjunar yrði lítil eða jafnvel neikvæð.

Sem dæmi þá sýnist mér ekki tekið inn í reikninginn kostnaðurinn sem fyrirtæki og heimili verða fyrir vegna hvers prósentustigs í vaxtahækkunum og aukinni verðbólgu af völdum stóriðjuframkvæmda, sem hleypur á milljörðum.

Eða niðurgreiðslu heimila og fyrirtækja landsins á orkunni til stóriðjufyrirtækja, í formi hás raforkuverðs til þeirra fyrrnefndu og lágs til þeirra síðarnefndu.

Það mætti reikna dæmið alla leið, taka hverja framkvæmd fyrir sig og byrja á Kárahnjúkavirkjun. Hver var kostnaður við rannsóknir, undirbúningsvinnu, fjárfestingar í sérfræðiþjónustu, tækjum og mannvirkjum? Hverju er virkjunin að skila í tekjum á móti fjárfestingum þegar allt er tekið til?

Theódór Norðkvist, 16.6.2008 kl. 23:25

9 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Tók einmitt eftir þessarri frétt í hád. í gær og þótti hún athyglisverð.  Gott að þú minnir á hana nú, enda er þarna um þarft framtak að ræða.  Eins og Jenný Anna bendir á, þá erum VIÐ að borga MEÐ umhverfissóðunum, en ekki öfugt, eins og látið hefur verið í veðri vaka.

Nema fólksflótti og stóraukin tíðni hjónaskilnaða á Austfjörðum teljist til tekna fyrir þjóðarbúið...

Að því ógleymdu að "við viljum fá sama árangur fyrir norðan og hefur náðst fyrir austan", eins og mér heyrðist Valgerður Sverrisdóttir segja í útvarpinu í gær.  Síðan auðvitað fyrir sunnan og vestan líka.  Nema hvað. 

Hildur Helga Sigurðardóttir, 17.6.2008 kl. 05:41

10 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

Ég sárkvíði líka fyrir því þegar ríkið fær reikninginn frá Impregilo. Kaupmannahafnarborg fór nærri því á hausinn þegar reikningurinn þeirra kom fyrir metrókerfið þeirra. Ansi hreint mikið hærri en nam útboði, þeir gátu tínt óhemju mikið til, svo sem óvæntar ófyrirséðar uppákomur og þannig lagað. Ekki er hægt að segja að Kárahnjúkavirkjun hafi gengið snurðulaust fyrir sig þannig að, tja, hver veit hvað reikningurinn verður á endanum.

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 17.6.2008 kl. 11:01

11 Smámynd: Óðinn Þórisson

Hversvegna fagnar fólk því þegar stórar framkvæmdir eru slegnar út af borðininu sem leitt gætu til fjölda starfa ? Það er alltaf einhver fórnarkostnarður og þó svo að nokkrar þúfur í óbyggðum fari undir vatn á það ekki að skipta máli.
Kreppa er eitthvað sem hefur ekki verið hér á Islandi í nokkra áratugi. Visir að því þegar harðnar á dalnum er þegar vinnufúsar hendur hafa ekki vinnu. 
Ég virði skoðun svokallaðra náttúru og umhverfisinna sem telja það sitt helsta verkefni í lífinu að stoppa og koma í veg fyrir framkvæmdir sem leitt gætu til fjölgun starfa. 
Ég velti fyrir mér hversvkonar umhverfisráðherra við erum með í dag sem er tilbúinn að eyða milljónum í að bjarga rándýri en finnst allt í lagi að bregða fæti fyrir sveitarfélög eins og Ölfus sem vilja koma með ný fyrirtæki inn í sitt sveitarfélg og fjölga störfum.
Ég skil Þórunni í sjálfri sér mjög vel að þiggja það að milljónamæringur vilji borga björgun rándýrsins, gerir henni auðveldara með að verja þessa ákvörðun að leyfa rándýrinu að lifa.  

Óðinn Þórisson, 17.6.2008 kl. 12:55

12 Smámynd: Magnús Karl Magnússon

Hver er atvinnustefna manna eins og Óðins?

Óðinn er sjálfstæðismaður, væntanlega góður og gegn hægri maður og því væntanlega gegn rikisafskiptum og beinni þáttöku ríkisins í samkeppnisiðnaði. Ég á stundum óskaplega erfitt með að koma góðri og gegnri hægri stefnu saman við ríkisstyrkta stóriðju. Það blasir við að þessi atvinnustefna er nauðlík þeirri atvinnustefnu sem ráðstjórnarrí°°kin ástunduðu stolt þegar þau voru og hétu. Pólitísk ákvarðantaka um beina fjárfestingu og samningagerð við stórfyrirtæki með ríkisábyrgð á lánum er fjarri öllu því sem ég hefði haldið að hægri menn vildu standa fyrir. Hvernig rökstyður Óðinn slík ríkisafskipti af atvinnuuppbyggingu.

Auðvitað hefur ríkið hlutverki að gegna. Slíkt hlutverk ætti þó að vera í gegnum strategíska stefnu um að skapa grundvöll fyrir atvinnulíf sem getur staðið undir öflugu velmegunar og nútímasamfélagi. Heldur Óðinn að atvinnulíf sem er í beinni samkeppni við þróunarríki geti haldið upp slíku samfélagi? Heldur Óðinn að frumframleiðsla á málmum skapi verðmæti sem sé af þeirri stærðagráðu sem við þurfum til að standa undir slíku samfélagi? Þetta er grundvallar málefnaumræða sem sumir hægri menn neita að taka þátt í. Óðinn, nefndu mér eitt land hinum vestræna heimi sem sér framtíð sína byggða á mengandi stóriðju.

Hverrnig væri að endurvekja með öflugum hætti raunverulega umræðu um viðbrögð við samdrætti í atvinnulífinu. Ætlum við að byggja upp nútímasamfélag (framtíðar-samfélag öllu heldur) þar sem fjáfestingar í atvinnuuppbyggingu eru fyrst og fremst þeim reinum sem geta staðið undir dýra velmegunarsamfélagi? Er þungaiðnaður í samkeppni við þróunarlönd líklegt til slíks?

Hér koma nokkrar einfaldar tillögur:

1. Stórauka framlög til samkeppnissjóða vísinda- og tækniráðs (við erum langt á eftir þeim þjóðum sem við viljum bera okkur saman við í framlögum til slíkrasjóða). Þessi sjóðir eiga aðstanda undir rannsóknarstarfsemi háskóla, rannsóknarstornanna og sprotafyritækja.

2. Auka menntastig þjóðarinnar með metnaðarfullum áformum á öllum stigum menntakerfisins. Sérstaklega þarf aðleggja áherslu á vísindamenntun og skapandi greinar.

3. Skattaívilnanir til sprota- og hátæknifyrirtækja. Fjölmargar nágrannaþjóðir gera slíkt með góðum árangri. Með þessu erum við að stuðla aðuppbyggingu fyrirtækja sem skila margfalt meiri verðmætum til framtíðar heldur en frumframleiðsla.

4. Stuðningur við listir og skapandi iðnað -  (ég óska eftir tillögum frá öðrum hvernig best yrði aðslíku staðið, hugsanlega svipaðar leiðir og í lið #3 hér að ofan)

5. Skapa grundvöll fyrir því að slík atvinnuuppbygging geti átt sér stað hvar sem er á landinu, t.d. með því að tryggja háhraða-tölvunet um land allt.

6. Skapa menningar- og náttúrutengda ferðamennsku með skipulögðum hætti.

6. Afnema skattaívilnanir  og ríkisábyrgðir til lítt verðmætaskapandi atvinnugreina sem EKKI geta staðið undir velmegunarsamfélagi framtíðarinnar.

Ágæta Lára Hanna, afsakið að hertaka þitt ágæta blogg fyrir slíkar langlokur en umræða er forsenda ákvarðana og upplýst umræða er alltaf snöggtum skárri en sú óupplýsta!!

Magnús Karl Magnússon, 17.6.2008 kl. 13:48

13 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Er málið nokkuð flóknara en það að kanna hverjir það eru sem í raun eru að maka krókinn á þessari stóriðjustefnu og hverjum þeir eru tengdir?

Kjartan Pétur Sigurðsson, 17.6.2008 kl. 16:22

14 identicon

Takk fyrir að vekja athygli á þessari skýrslu í þessum flotta pistli. Ég sé að þér hefur enn einu sinni tekist að æsa stóriðjupredikarana upp. Óðinn er greinilega búinn að ýta á play-takkann og spilar: "þið umhverfissinnarsemviljiðekkiframfarirogframkvæmdir". Ýtir svo á rewind og aftur á play og rewind og aftur play

.... Og þessi frasi stóriðjusinna um að þeir sem vilja vernda náttúruna komi ekki með neinar hugmyndir í atvinnumálum er eiginlega orðinn svo þreyttur að maður skilur ekki að einhverjir skuli ennþá reyna að halda úti slíkum málflutningi. Það trúir þessu enginn lengur, það vita allir betur í dag. Það vita allir að þarf enga stóriðju til að leysa atvinnuvanda byggðarlaga. Það eru þeir sem tala fyrir stóriðju sem eru hugmyndasnauðir, ekki þeir sem tala gegn henni.

Annars bara góð. Hafðu það gott mín kæra.

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 17.6.2008 kl. 18:35

15 Smámynd: Sólveig Klara Káradóttir

Gaman að fylgjast með þessari umræðu. Haltu endilega áfram á þessari braut. Þessi málaflokkur fær ekki nánda nærri þá umfjöllun sem hann á skilið  


... enda kannski ekki nema á færi fárra einstaklinga og þeirra sem hafa sett sig vel inn í þessi mikilvægu mál.

                                                                                           Tek ofan fyrir þér!

Sólveig Klara Káradóttir, 18.6.2008 kl. 23:00

16 Smámynd: Gunnlaugur Halldór Halldórsson

 Takk að bjóða mer á síðuna. en það er honum Pálma  að þakka var að skoða hans síður

já það er gott að hugsa þessi mál

og Guð blessi þig

Gunnlaugur Halldór Halldórsson, 18.6.2008 kl. 23:10

17 identicon

Þetta er athyglisvert!!

alva (IP-tala skráð) 18.6.2008 kl. 23:44

18 Smámynd: Einar Indriðason

Lára Hanna, varstu búin að sjá: http://ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item213395

Einar Indriðason, 19.6.2008 kl. 09:03

19 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Takk fyrir þessa færslu Lára Hanna - hún er frábær eins og svo margar aðrar sem frá þér hafa komið.

Gleðilegan 19. júní bloggvinkona

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 19.6.2008 kl. 13:39

20 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Stóriðjan á sér margar skuggahliðar en fáar bjartar. Hún er undirrót einræðis, andlýðræðisleg og hefur oft fengið á sig slæman stimpil við stuðning við umdeilda stjórnmálamenn. Má þar nefna samning sem gerður var við Hitler í ársbyrjun 1933, örstuttu áður en hann varð kanslari Þýskalands.

Er stóriðjuást sumra stjórrnmálamanna sambærileg við eins og hver önnur fíkn t.d. í eiturlyf? Það sem sameiginlegt er, að aldrei virðist vera komið nóg, áfram skal haldið fram á ystu nöf hversu óskynsamlegt sem það kann að vera.

Við mótun atvinnustefnu og framtíð þjóðar hefur aldrei verið hollt að leggja öll eggin í sömu körfuna. Bygging Kárahnjúkavirkjjunar fyrir stóriðjuna á Austurlandi átti ríkan þátt í braskhugsun og mikla léttúð Íslendinga í fjármálum sínum sem við erum einmitt núna að súpa seyðið svo beisklega af. Við horfum upp á hríðlækkandi gengi krónuræfilsins okkar, vextir eru himinháir og dýrtíðin veður uppi.  Á stóriðjan að bjarga okkur í þessum mikla vanda?

Nei ætli hún geri það þó svo að rök megi færa fyrir því að hún kunni að hafa gert það áður en þó með miklum efnahagsþrengingum. Við höfum stjórnmálamenn sem hafa oft hagað sér eins og lítil börn í samningum við stóriðjuna. Við leggjum ekki á hana nein gjöld tengdum koltvísýrings- og brennisteinsmengun og öðrum skaðlegum útblæstri. Við leggum ekki krónu á mengandi starfsemi af neinu tagi. Hvers vegna skyldi svo vera?  Er það vegna þess að vissum stjórnmálamönnum þyki svona ofurvænt um stóriðjuna og eru tilbúnir að fórna öllu sem öðrum er kært fyrir nokkrar álkrónur?

Svo virðist vera. Þetta eru yfirleitt sömu vandræðamennirnir og gefið hafa út veiðileyfi á hvali svo unnt sé að grafa sem hraðast og mest undan ferðaþjónustunni. Þetta eru líklega sömu mennirnir sem að öllum sólarmerkjum hafa verið að raka inn þóknanir sér til handa persónulega og þeim stjórnmálaflokkum sem þeir starfa fyrir. Þetta eru nefndar mútur á venjulegu mannamáli og hafa tíðkast mjög lengi þó svo stjórnvöld hér virðast ekki kannast við neitt. Sá sem hefur mikla hagsmuni og vill styrkja þá og efla munar ekkert um að hygla sínu fólki að um munar. Það þykir jafnvel vera ókurteysi um víðan völl að sýna ekki lit þegar viðkomandi sýnir af sér einstakan skilning fyrir málefninu!

Því miður getum við náttúruverndarfólk ekki keppt við stóriðjuna og fjáröflunarmennina stórtæku að umbuna okkar mönnum þó við gjarnan vildum. Þeir vinna því sitt starf án okkar en í þágu þeirra sem vilja virkja sem mest og helst strax, stærst og glannalegast. Og það má ekki gleyma að þeir vilja flýta sér sem mest því að ári kann það að vera orðið of seint: „Dalafuglinn“ kannski floginn burt að finna sér aðra skilningsríkari stjórnmálamenn og heppilegri tækifæri á öðrum slóðum.

Hvernig verður það þegar við viljum nýta raforkuna okkar í þágu samgangna á Íslandi? Við getum tæknilega séð komið því í kring á nokkrum árum, sbr. það sem Þorsteinn Ingi Sigfússon prófessor og forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar telur. Þá þarf ekki að flytja svo mikið sem einn dropa af rándýru bensíni og diesilolíu nema fyrir smávélar. Eigum við þá að þurfa að biðla til stóriðjunnar um að fá hagstæð kjör þeirra á rafmagnskaupum? Ætli þá verði nokkuð eftir handa okkur sjálfum því búið er að ráðstafa öllum skynsamlegum virkjanakostum í stóriðjuna.

Stóriðjudekrið dregur mjög úr frumkvæði Íslendinga sjálfra til að bjarga sér við sínar eigin spýtur!

Mosi 

Guðjón Sigþór Jensson, 25.6.2008 kl. 17:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband