25.6.2008
Erum við einhverju nær?
Það er óvinnandi verk að reyna að hlusta á samræður stjórnmálamanna þegar allir gjamma í einu, enginn fær að klára setningu og mönnum virðist fyrirmunað að halda sér saman, hlusta og sýna viðmælandanum - og áhorfendum eða hlustendum - lágmarkskurteisi. Kannski er þetta fólk orðið svona hundleitt hvert á öðru, búið að heyra þetta allt mörgum sinnum í þingsölum eða annars staðar og nennir ekki að hlusta eina ferðina enn.
En hvað með okkur hin sem erum að hlusta og horfa? Almenning í landinu sem vill heyra hvernig ráðamenn hyggjast taka á málum og hver er að viðra hvaða hugmyndir eða skýringar hverju sinni? Þó að stjórnmálamenn séu leiðir hver á öðrum geri ég þá lágmarkskröfu til þeirra að þeir sýni þá sjálfsögðu kurteisi að leyfa mér að hlusta á þann sem talar þá mínútuna. Og að þeir sýni mér ekki þá lítilsvirðingu að tala niður til mín eins og sumir stjórnmálamenn gera gjarnan. Um leið og ég finn að verið er að koma fram við mig eins og vanvita eða fífl afskrifa ég viðkomandi stjórnmálamann samstundis.
Stjórnmálamenn virðast heldur ekki geta svarað spurningum. Þeir fara eins og köttur í kringum heitan graut, blaðra út og suður og eru oft komnir langt út fyrir efnið sem lagt var upp með eða frá spurningunni sem spurt var. Maður er engu nær eftir langa ræðu og spyrlar reyna allt of sjaldan að spyrja aftur og kreista út úr þeim sæmilega vitrænt svar. Þeir sem gengið hafa hvað lengst í því eru stimplaðir dónar, ruddar eða eitthvað þaðan af verra - af stjórnmálamönnunum sem reynt er að fá til að svara, ekki fólkinu í landinu sem vill fá svörin.
Í Kastljósi í kvöld var dæmigert atriði í þessum stíl þar sem þeir mættust, Guðni Ágústsson og Lúðvík Bergvinsson. Ég var nákvæmlega engu nær eftir að hlusta á þá í 11 mínútur. Engum spurningum var svarað, ekkert var sagt af viti, gripið var stanslaust fram í og ekki nokkur leið að fá botn í hvað þeir vildu sagt hafa - ef eitthvað. Þetta er alvarlegt mál ef litið er til ástandsins í þjóðfélaginu og þess, að annar þeirra er þingflokksformaður stjórnarflokks og hinn formaður stjórnarandstöðuflokks (sem er reyndar að deyja út) og fyrrverandi ráðherra. Engin svör, engar lausnir, engin vitræn umræða.
Hvað segið þið? Fáið þið einhvern botn í þessar "umræður"?
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Sjónvarp, Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:05 | Facebook
Athugasemdir
Ég giska á "mjólk er gód". Nei, þeir vinna vid ad rugla okkur í rýminu......
Gulli litli, 25.6.2008 kl. 00:21
Ég sá hluta af þessu í kvöld og þegar að þeir voru búnir að gjamma hvor ofan í annan í smá stund gafst ég upp.
En ekki eru nú drottningarviðtölin sem að sumir af þessum háu herrum fá neitt skárri. Þar bulla þeir og bulla. Tala í hringi og svara aldrei neinu. Reyndar skilst mér að alla vega sumir þeirra semji (eða alla vega fá að velja) spurningarnar sem að þeir eru spurðir. Þannig var það víst með Davíð á sínum tíma.
Neddi, 25.6.2008 kl. 00:23
algerlega sammála þér og ég hugsaði það sama og þú ert að skrifa hér.. þeir sýna fólki lítilsvirðingu með þessu sífellda gjammi framan í hvorn annan og það að hreinlega aldrei svara þeim spurningum sem að þeim er beint.. Ég horfði á "debatt" í sjónvarpinu á norðurlöndum þegar ég var búsettur þar og svona uppákomur komu afskaplega sjaldan fyrir.. en gerðist.
Óskar Þorkelsson, 25.6.2008 kl. 00:31
Ég er mest hissa á Kasljósinu að vera alltaf að bjóða upp á svona, alltaf sömu stjórnmálamennirnir aftur og aftur.
Sigurður Þór Guðjónsson, 25.6.2008 kl. 00:43
Tilgangur stjórnmálamanna í svona umræðum snýst um það að hinn komist ekki að, þannig að úr verður gaggandi hanar ( stundum hænur) og við sem hlustum verðum engu nær, sem er nákvæmlega tilgangur stjórnmálamanna, sem er að þú veist minna á eftir enn fyrir!!
Himmalingur, 25.6.2008 kl. 01:04
sofnaði yfir þessu í kvöld og nenni ekki að horfa aftur.....enda til hvers?
Hólmdís Hjartardóttir, 25.6.2008 kl. 01:34
Það virkar örugglega vel að vera lærður leikari þegar þingmennskan er annars vegar. En ætli þeir séu ekki flestir þessa dagana með tærnar upp í loftið að sóla sig :)
Kjartan Pétur Sigurðsson, 25.6.2008 kl. 08:01
Það var raunar annað sem sló mig (til viðbótar við því sem hefur verið nefnt nú þegar).
Þarna kom aðili frá samstarfsflokki sjálfstæðisflokksins... og fór að afsaka / réttlæta gjörðir stjórnvalda. Og, tók upp hanskann fyrir sjálfstæðisflokkinn. Hvernig má það vera, að alltaf þurfa samstarfsaðilar sjálfstæðisflokksins að taka upp hanskann fyrir flokkinn? Afhverju getur flokkurinn ekki sent sína eigin fulltrúa til að svara fyrir sig? Þetta gerðist trekk í trekk þegar B og D voru saman í samstarfi. Einhver frá B kom á opinberan vetvang, og afsakaði eða réttlætti aðgerðir sem *bæði* B og D stóðu að. Réttlættu jafnvel sértækar aðgerðir D listans. Mér finnst þetta alveg algjörlega óskiljanlegt hvernig D listinn getur verið svona svakalega vel teflonhúðaður. (Minni kjósenda er líka svakalega Teflonhúðað.)
En, já. Pólitíkusar. Ég hef *ekkert* álit á pólitíkusum í heild. Það eru ein eða tvær undantekningar. Jóhanna fær prik frá mér. Og Steingrímur Joð fær prik líka. (Spurning samt hvort Steingrímur myndi geta verið við stjórn, hann er svo vanur að vera alltaf á móti :-)
Ég ætla að taka það sérstaklega fram, svo það fari ekki milli mála hjá þeim D-urum sem lesa þetta, að ég hef *EKKERT*, nákvæmlega *EKKERT*, NÚLL, traust til ráðherra og flokksmanna í D listanum. EKKI NEITT traust.
Og við skulum bara halda áfram, vér íslendingar, að "haarde"-ast. (Hvað er að "haarde"-ast? Það er að gera ekki neitt. EKKI neitt. Ekki einu sinni koma með föðurlegar athugasemdir í fjölmiðlum, og segjast hafa áhyggjur af þessu, og vita af ástandinu. Nei, ekki gera ekkert! Nema... kannski fljúga út og suður í einkaflugvélum.)
Einar Indriðason, 25.6.2008 kl. 09:04
Þetta er eins og málfundaæfing eða æfing í ræðumennsku. Lélegri ræðumennsku.
Ég er löngu hætt að hlusta, enda til hvers? Eins og þú bendir á þá eru þetta eilíf framíköll.
Jenný Anna Baldursdóttir, 25.6.2008 kl. 11:14
Þessi þáttur var ekkert öðru vísi en aðrir svona þættir en kanski má segja þegar fulltrúar vg eru þá er þetta gjamm enn meira þar sem þeir eiga mjög erfitt að sætta sig við að menn hafi aðra skoðun en þeirra.
Óðinn Þórisson, 25.6.2008 kl. 18:37
Óðinn... það er alveg nákvæmlega sama hvar í flokki fólk er, svona framkoma er ALLTAF lítilsvirðing við áhorfendur eða hlustendur. Alltaf.
Lára Hanna Einarsdóttir, 25.6.2008 kl. 18:51
Þarf ekki að byrja á því að skoða hvers konar fólk velst í pólitík? Satt að segja finnst mér þeir stjórnmálamenn sem starfa af eldmóði og hugsjón vera sárafáir og hvorugur þessara stjórnmálamanna hefur nokkurn eld í hjarta. Hvað eru þessir pappírspésar svosem að vilja upp á dekk? Af hverju eru þeir í stjórnmálum? Var það kannski einfaldasta leiðin til að gera "eitthvað" við líf sitt? Það kann einhverjum að þykja þetta dómharka, en sýnið mér þá stjórnmálamenn sem tala af viti, eru sjálfum sér samkvæmir, eru ekki með spillingaráruna utaná sér, hygla ekki vinum og vandamönnum, geta talað málefnalega og eru trúverðugir ..... á ég að hafa þetta lengra? Mér er til efs að fleiri en þrír þingmenn komist í gegnum þetta nálarauga, og þá er ég ekki að tala um neina sérstaka þrjá.
Bergþóra Jónsdóttir, 25.6.2008 kl. 23:00
Ég held að það sé heilmikið til í þessu, Bergþóra.
Lára Hanna Einarsdóttir, 25.6.2008 kl. 23:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.